Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Súpa

Lægðin djúpa sem fór niður undir 950 hPa langt suðvestur í hafi fyrr í vikunni er nú að leysast upp. Þá verður til fjöldi smálægða af ýmsum gerðum og erfitt að henda reiður á. Þetta sést vel á hitamynd frá því kl. 23 í kvöld, laugardag.

w-blogg310313

Mikil skýjasveipasúpa er sunnan við land og vestur af Bretlandi. Þar geta þeir sem vilja komið fyrir öllum gerðum af skilum og skilaleysum (sjá t.d. greiningarkort bresku veðurstofunnar).  

Við sitjum enn í hæðarhrygg - sem einhvern veginn lifir af aðsókn bæði úr norðri og suðri. Kannski lifir hann af vegna þess að sótt er að úr báðum áttum. Spár sem ná tíu daga fram í tímann gera ekki ráð fyrir neinni verulegri breytingu - það er þó ekki þar með sagt að veðrið verði eins allan þennan tíma - auk þess sem spár eru stundum (arfa-)vitlausar.


Af suðlægri stöðu heimskautarastarinnar

Þeir sem fylgjast með erlendum veðurfréttum er fullkunnugt um óvenjulega stöðu heimskautarastarinnar um þessar mundir. Er henni kennt um kuldatíð í Evrópu og Ameríku. Ætli þar sé ekki rétt með farið.

En lítum á spá kort af N-Atlantshafi sem gildir um hádegi á páskadag. Þar má sjá hæð 300 hPa-flatarins og vindstyrk og stefnu í honum.

w-blogg300313a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar. Vindstyrkur og stefna eru sýnd með hefðbundnum vindörvum, en vindstyrkur auk þess með lit. Við sjáum rétt í norðurjaðar rastarinnar yfir Spáni. Norðan við Ísland er önnur röst. Hún liggur í suðurjaðri aðalkuldapollanna yfir N-Íshafi. Bylgjur á henni hafa blessunarlega látið okkur vera að mestu.

En lítum nú á stærra sjónarhorn á sömu spá - megnið af norðurhveli norðan við 30. breiddargráðu.

w-blogg300313b

Hér sjáum við betur. Meginkjarni rastarinnar (skotvindurinn) liggur suður á 35. breiddargráðu og á að haldast þar næstu daga að minnsta kosti.

En nú fer smám saman að vora á norðurhveli og þá dregur úr rastavirkni. Auðvitað vilja menn kenna þessa óvenjulegu stöðu ísbráðnun síðastliðins sumars í Íshafinu. Birtist nú hver greinin á fætur annarri þar sem þessi skipan mála er rökstudd. Stefan Rahmstorf, einn þekktasti hringrásarspekingur samtímans fjallar um þetta í bloggpistli. Tengillinn er á þýðingu þýska textans á ensku. Þar má finna tengil á þýska, upprunalega textann. Í greininni er líka athyglisvert skítkast.


Ekki langt í kaldara loft (en nógu langt)

Smálægð snarast nú (á fimmtudagskvöldi 28. mars) út úr lægðardraginu sem verið hefur vestan við land undanfarna tvo daga. Lægðin fer allhratt til austurs fyrir norðan land. Aftan við hana slengist heldur kaldara loft suður yfir landið. En það gerir heldur stuttan stans því lægðardragið vestan við færist aftur í aukana og sama staða kemur upp aftur - eins og ekkert hafi gerst. Fleiri smálægðir gætu um helgina farið sömu leið og sú fyrsta.

Við lítum á þykktarkort sem gildir á föstudagskvöld 29. mars.

w-blogg290313

Jafnþykktarlínur eru heildregnar, en litafletir sýna hita í 850 hPa. Þykktin er minnst við Norðaustur-Grænland - rétt innan við 5020 metrar. Við sjáum litlu bylgjuna sem fylgir lægðinni vel. Jafnþykktarlínur eru gisnar í "hlýja geira" hennar fyrir norðaustan land, en þéttar við kuldaskilin þar vestan við og einnig yfir landinu. Það er 5260 metra línan sem gengur yfir Reykjavík en þykktin er 5180 metrar yfir Ísafirði.

En kalda loftið hörfar strax aftur og ekki annað að sjá en blíðviðrið haldi áfram. Eina sem þarf að huga að er að úrkoma - sé hún einhver - á mjög erfitt með að ákveða hvort hún á að vera regn eða snjór. Hálka getur þá skotið upp kollinum nánast hvar sem er. Afskaplega lúmsk hætta fyrir vegfarendur.  


Leiðindi í Norður-Noregi

Einn af fylgifiskum hæðar yfir Grænlandi eða Íslandi er norðanátt í Norður-Noregi. Vindurinn kemur beint úr Norður-Íshafi eða af austurgrænlandsísnum, blæs síðan yfir mjög hlýtt haf þar sem vatnsgufan pumpast upp úr sjónum og býr til él, éljagarða og heimskautalægðir (æ). Úrkomuþrungin élin dengja síðan niður snjónum í Norður-Noregi. Þar hafa snjóflóð nú valdið mannsköðum. En nú nálgast páskar og erfitt að halda mannskapnum frá brekkunum.  

Þegar ritstjórinn var í námi í kortagreiningu í Noregi fyrir margt löngu var sérstaklega farið í þessa erfiðu stöðu. Þá var engin von til þess að tölvuspár næðu tökum á henni - og gervihnattamyndir af svæðinu ákaflega stopular. Þegar veðurlíkön og myndir bötnuðu varð heldur skárra við að eiga - en enn er óöryggi mikið hjá veðurspámönnum varðandi bæði vind og úrkomumagn þessara litlu kerfa.

Eitt hjálpartækja er mjög einföld mælitala sem flestir gætu kallað heimskautalægðavísi (æ). Þetta er einhver einfaldasti vísir sem um getur - mismunur sjávarhita og hita í 500 hPa-fletinum. Nútíma reiknilíkön fara mjög nærri um hvort tveggja og auðvelt að setja fram á korti. Lítum á eitt þeirra.

w-blogg280313

Kortið gildir kl. 18 í dag (miðvikudaginn 27. mars). Heildregnu línurnar sýna sjávarmálsþrýsting, rauðu strikalínurnar sýna þykktina, en litafletir mælitöluna góðu. Þar sem hún er hæst eru settar tölur. Löndin eru grá - þar er enginn sjávarhiti.

Reynsluregla segir að þegar talan nær 50 er líklegt að heimskautalægð eða lægðir (æ) myndist. Hæsta gildi kortsins, 53, er við strönd Norður-Noregs. Norska veðurstofan varar á sama tíma við lægðum, hvassviðri og mikilli snjókomu, en við sjáum engar lokaðar jafnþrýstilínur á svæðinu. Aðallægð dagsins er rétt utan við kortið við Noreg - þær eru fleiri - en líkanið sér þær varla.

Þetta ástand á að verða viðvarandi næstu daga með vísisgildum í kringum 50. Nóg að gera á veðurstofunni í Tromsö. Ef við lítum á þykktina sést að það er 504 dam línan sem liggur í gegnum brúnasta svæðið á myndinni (hún batnar við stækkun) og 498 dam línan er ekki langt undan. Þykkt í kringum 500 og þar fyrir neðan líður mjög illa yfir hlýjum sjó - eitruð blanda.

Við sjáum að mælitalan er frekar há fyrir suðvestan land. Loft er þar óstöðugt - og þeir sem litu til lofts sáu háreista éljaklakka á stangli yfir sjónum undan landi - og fáeinir komust reyndar inn á land. Sé að marka spár á mælitalan að fara niður á við - verður komin niður fyrir 40 síðdegis á morgun (fimmtudag) og fer síðan enn neðar. Því veldur jaðarbakki lægðarinnar miklu sem er nú um 950 hPa djúp langt suðvestur í hafi. Hennar var getið í pistli í fyrradag (merkt 26. mars).

En gefum þessum einfalda vísi gaum.


Af fimmtánhundruð útsynningsandhverfum (eða þannig)

Enn ein nördafærslan - og það rétt fyrir páska (æ). Fyrir nokkrum dögum var á þessum vettvangi fjallað um tíðni ákveðinnar gerðar útsynningsdaga. Er við hæfi að líta á andhverfu þeirra. Í venjulegu máli er það landnyrðingurinn sem er gegnir því hlutverki. Þá blæs frísklega af norðaustri á landinu. Þurrviðrasamt er þá vestan- og sunnanlands en úrkoma um landið norðaustanvert.

Ritstjórinn vill ekki að svo stöddu ekki flokka það dagaval sem hér er undir venjubundinn landnyrðing, til þess er veðrið oftast of hægviðrasamt. Að sumarlagi er gjarnan hafgola síðdegis og við viljum ekki taka marga slíka daga með í landnyrðingstalningu.

Flokkunin er gerð með svonefndri þriðjungagreiningu, en hún er algeng í tölfræðiúrvinnslu - enn algengari er þó systir hennar, fimmtungagreiningin. Notast er við amerísku veðurendurgreininguna og tímabilið 1951 til 2012. Svæðið á milli 60° og 70°N og 10° og 30°V er lagt undir. Tillit er tekið til árstíðasveiflunnar. Aðeins er litið á vindáttir í háloftunum við flokkunina.

Heljarmikil vestan- og sunnanátt og lágur 500 hPa-flötur var aðalsmerki útsynningsins í pistlinum á dögunum. Hæsti þriðjungur vestanáttarinnar, hæsti þriðjungur sunnanáttarinnar og lægsti þriðjungur 500 hPa-flatarins. Nú lítum við á þá daga þar sem vestanáttin er í veikasta þriðjungi, sunnanátt einnig í veikasta þriðjungi og 500 hPa-flöturinn er í hæsta þriðjungi.

Sé 500 hPa-flöturinn mjög hár er fyrirstöðuhæð í námunda við landið, norðaustanáttin setur hana niður undan landinu norðvestanverðu eða yfir Grænlandi. Loft er þá mjög stöðugt og úrkoma lítil, líka á Norðausturlandi. Frá 1951 að telja hafa þessir dagar verið að meðaltali 10 á ári - mjög mismargir þó.

w-blogg270313

Við sjáum á myndinni að árið 2010 er með flesta daga í þessum flokki, 32 talsins. Þá var útsynningstalan í fyrra pistli núll. Árið 2010 er eitt hið óvenjulegasta sem um getur á öllu tímabilinu. Veður gekk þá úr lagi á mjög stóru svæði við allt norðanvert Atlantshaf. Hlýrra varð á Grænlandi heldur en nokkur taldi mögulegt. Sumarið 2012 var einnig mjög óvenjulegt og skilaði 20 dögum í þessum ákveðna flokki - þeir hafa aldrei orðið jafnmargir eða fleiri á einu sumri.

Á myndinni eru síðustu áratugir 19. aldar með mikinn fjölda daga af þessu tagi, en það er trúlega ofmat endurgreiningarinnar. Ekki hefur komið ár án svona dags í flokknum á öllu tímabilinu, en fjórum sinnum voru dagarnir stakir, 1871, 1902, 1913 og 1921.

Í viðhenginu er listi yfir dagana 1491 sem myndin sýnir. Þeir sem leggjast yfir listann teljast mjög langt gengnir í nördi - sennilega þriggja til fjögurra staðalvika.

Við höfum nú litið á tvö af átta hornum þriðjungateningsins (hann lítur alveg eins út og rubik-teningur) - og tvo af 27 litlum kubbum hans - ætli það sé ekki nóg. Þetta er of langt úti á jaðri þess hluta veðurlandsins sem hungurdiskar hafa reikað um til þessa.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kalt á meginlöndunum

Enn er kalt á meginlöndunum. Það má glögglega sjá á kortinu hér að neðan. Svartar heildregnar línur sýna þrýsting við sjávarmál en litafletir hita í 850 hPa-fletinum.

w-blogg260313a

Norðurskautið er ofarlega á kortinu, Ísland nærri miðju korts. Lengst til hægri má sjá Miðjarðarhafsbotna, allt Miðjarðarhafið er í brúnum og gulum litum. Guli liturinn byrjar við -2 stiga frost. Munum að 850 hPa-flöturinn er í 1300 til 1500 metra hæð víðast hvar. Öll Norður-Evrópa er undir bláa litnum og sömuleiðis Norður-Ameríka suður undir Mexíkóflóa - lengst til vinstri á kortinu. Hlýtt er þó yfir Bandaríkjunum suðvestanverðum. Það má líka taka eftir því að aðeins einn örsmár fjólublár blettur er á kortinu en þar er frostið í 850 hPa -25 stig eða meira. Í þessu fellst ákveðinn vorboði þótt liturinn eigi trúlega eftir að sýna meiri fyrirferð en þetta á næstunni.

Eins og að undanförnu er gríðarleg hæð yfir mestöllum norðurslóðum, hún er þó ekki eins öflug og hún var í fyrri viku. Mjög vaxandi lægð er suður af Nýfundnalandi. Hún á að komast niður undir 950 hPa á miðvikudag - það er óvenjulegt svona sunnarlega eftir jafndægur. Tiltölulega hlýtt er við Suðvestur-Grænland og við megum sæmilega við una.

Við Ísland suðvestanvert er dálítið lægðardrag - ritstjórinn sér ættarmót með því og páska- eða vorhretagjöfum ýmsum - rétt eins og svipmót er með litlum kettlingi og fullvöxnu tígrisdýri. Varla þó tilefni til ruglings og ekki gefa reiknimiðstöðvar kettlingnum mikla vaxtarmöguleika.


Enn af loftþrýstivaktinni

Meðalþrýstingur það sem af er mánuðinum er nú rétt rúmlega 1020 hPa í Reykjavík. Þrýstingi er spáð yfir 1020 næstu þrjá daga - en síðan á hann heldur að síga. Fyrir þremur dögum var mánuðurinn í 10. hæsta þrýstisæti marsmánaða frá upphafi (1821) en er nú kominn upp í það sjöunda.

 árþrýstingur
119621027,8
218401026,5
318831024,2
419161023,7
518671023,5
619001022,8
720131020,3

Spurning hvar við endum eftir viku. Allir mánuðirnir í 1. til 6. sæti á listanum sigu fram til mánaðamóta nema mars 1900 - hann slaknaði ekki. Bæði 1883 og 1916 gerði mikil norðanveður með sköðum síðustu viku marsmánaðar. Veðrið 1883 hitti á páskana og getur því talist páskahret. Mannskaðahríðarveður gerði einnig í mars 1867. Mars 1962 var aðallega með spekt, kunnu þá ung veðurnörd lítt að meta háþrýstinginn og þreyttust á tilbreytingasnauðum norðaustannæðingnum og úrkomuleysinu. Héldu sömuleiðis í reynsluleysinu að -30 stiga frost í Möðrudal væri bara eitthvað venjulegt.


Enn af austanátt

Enn ríkir austanáttin yfir N-Atlantshafi - engin tíðindi í því. En lítum samt á hana á korti sem gildir kl. 18 á sunnudag 24. mars - úr safni hirlam-líkansins.

w-blogg240313a

Engin sunnanátt nema við Asóreyjar eða hvað? Jú, rauða örin á sér sunnanþátt þrátt fyrir yfirgnæfandi austanáttina. Þar hreyfist hlýtt loft til vesturs í sneiðum. Kalt loft kemur í fleyg úr austri yfir Suður-Svíþjóð og til Bretlands. Það mun berast hingað til lands - en verður ekki svo kalt þegar hingað kemur - smávegis kólnar þó. Nýr skammtur af kulda kemur inn yfir Norður-Noreg. á leið suður. 

Hæðin risastóra nær langt vestan úr Kanada og austur til Noregs. Hún þarf sitt fóður - loft leitar út úr hæðum. Heldur sljákkar í henni næstu daga.

Bretum finnst þeir ofsóttir (bbc) - en norðmenn eru yfir sig ánægðir með stöðuna, bestu skíðapáskar síðan 1978 segja þeir - þurrsnævi þekur meginhluta landsins (norska veðurstofan og yr.no). Svíar benda á óvenjuleg ísalög í Austurbotni. Útbreiðslan er ekki endilega óvenjuleg heldur það að hún fer enn vaxandi. Venjulega fer ísmagn á þeim slóðum að minnka þegar nálgast jafndægur - en ekki að aukast eins og nú gerist (veðurblogg sænsku veðurstofunnar, SMHI).

Norðurhvelsísinn hefur náð hámarki og er farinn að sveigja til sumars. Ísinn við Austur-Grænland nær oft ekki hámarki fyrr en í apríl. Nú er miklu meiri ís í Barentshafi heldur en var í fyrra - virðist vera að ná meðaltali (cryosphere today).


Enn og sama

Eins og föstum lesendum er vel kunnugt hefur veðurlag í vetur einkennst af fyrirstöðuhæðum sem æ ofan í æ hafa sest að í námunda við landið - aðallega fyrir austan og norðaustan það. Þessar háloftahæðir hafa ekki verið sérlega miklar lengst af - en nægilega sterkar þó til að halda hefðbundnum lægðagangi fjarri. Veturinn hefur svosem ekki verið illviðralaus en verstu veðrin hafa verðið úr áttunum milli norðurs og austurs - í allt haust og allan vetur.

Og þessa dagana er enn uppi sama staða. Hæðin í sínu sæti og meðan hún er þar gerist ekki margt á okkar slóðum. En við lítum samt á hefðbundið norðurhvelskort. Það er eins og oftast úr faðmi evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir um hádegi á sunnudag (24. mars).

w-blogg230313

Hér má sjá hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) og þykktina (litafletir). Ísland er rétt neðan við miðja mynd (hún batnar mjög við stækkun). Því þéttari sem jafnhæðarlínurnar eru því meiri er vindurinn. Hér við land er langt á milli lína og vindur mjög hægur. Heimskautaröstin er langt suður í höfum og er þessi staða hennar veldur kuldum bæði vestanhafs og austan. Miðjarðarhaf er í sífelldum lægðagangi.

Heimskautakuldapollarnir eru aðeins að byrja að láta á sjá - sól að koma upp í Íshafinu. Drjúgmikill vindstrengur liggur sunnan við þá, yfir Kanadísku heimskautaeyjunum og í námunda við Svalbarða.

Lítið gerist í veðri hér á landi fyrr en háloftahæðin gefur eftir. Þá eiga hlýrra loft úr suðri og kalt úr norðri möguleika á að mætast. Við sjáum á kortinu að ekki er bara langt á milli jafnhæðarlína heldur er þykktarsviðið yfir landinu líka fremur flatt. Til að hvassviðri geri þurfa jafnhæðar- og/eða jafnþykktarlínur að vera þéttar.


Tólfhundruð útsynningsdagar (eða tæplega það)

Útsynningur - hvað er það? Hreinasta merkingin er suðvestanátt - eða frekar vindur úr öllum geiranum milli suðurs og vesturs. En þeir sem fylgjast grannt með veðri finnst þessi skilgreining of víð. Í þrengri skilningi er loft óstöðugt í útsynningi og einkennist af skúrum eða éljum, helst miklum - og með uppstyttum á milli. Suðvestanátt með súld eða suddarigningu er ekki með í menginu og ekki heldur alveg þurr suðvestanátt.

Á vetrum er útsynningur mjög hvass og sérlega hvass í éljunum. Þegar hann er öflugastur vilja él og skafbylur renna út í eitt og jafnvel gengur á með þrumum og eldingum.

Það einkennir útsynninginn að þegar hann mætir á svæðið er hann auðþekktur. Hins vegar er ekki jafnauðvelt að draga útsynningsdaga aftur í tímann út úr veðurathuganasafni á eingildan hátt. Ef veiðarfærin eru mjög nákvæm veiða þau harla fáa daga - en ef slakað er á verða dagarnir of margir. Sömuleiðis stendur útsynningur stundum aðeins hluta úr degi.

Íbúar á Norður- og Austurlandi kannast auðvitað síður við þetta veðurlag - þar er útsynningurinn oftast bjartur og klár - aftur á móti stundum vindasamur- og Öxnadalsheiðinni og fleiri fjallvegum er lítt treystandi í hvössumútsynningi.

Hér byrjar nördakafli sem stendur út pistilinn - og flestir hætta að lesa.

Í dag veiðum við úr amerísku endurgreiningunni og togum yfir allt tímabilið frá 1871 til 2012. Veiðarfærinu er beint að vindum í 500 hPa-fletinum og notuð svokölluð þriðjungagreining. Lesendur þurfa ekki að grufla í því í smáatriðum hvað það er. Gerð er krafa um að flöturinn standi frekar lágt (tæknilega í neðsta þriðjungi) en vindur sé sterkur bæði af suðri og vestri (efri þriðjungar hvors um sig). Nokkuð tillit er tekið til árstíðasveiflu vinds og hæðar.

Sterk suðvestanátt með lágum 500 hPa-fleti er uppskrift að útsynningi. Við viljum frekar lágan flöt en háan vegna þess að loft er langoftast stöðugt standi 500 hPa-flöturinn hátt. Með því að flokka þrjú atriði í þriðjunga falla allir dagar því í einn 27 veðurflokka (3x3x3). Útsynningsflokkur okkar er aðeins einn af þessum 27 og skilar 1187 dögum á tímabilinu (smásvindl er í gangi varðandi sumarið).

Þetta eru strangar kröfur - útsynningsdagarnir eru mun fleiri, því útsynningsflokkarnir eru trúlega að minnsta kosti þrír til viðbótar. En veðurnördum til ánægju er í viðhenginu listi yfir dagana 1187 og geta þeir rifjað upp minningar frá þessum dögum. Í safninu eru fáeinir dagar undir fölsku flaggi - ástandið afbrigðilegt á einhvern hátt.

Hér að neðan er hins vegar mynd sem sýnir hvernig dagarnir falla á ár.

w-blogg220313

Lóðrétti ásinn sýnir fjölda daga á ári, en sá lárétti árin frá 1873. Gildi hvers árs um sig er markað með grárri súlu, en rauða línan er 7-ára keðjumeðaltal. Árið 2010 er eina árið sem nær engum útsynningsdegi, en 2011 eru þeir hins vegar flestir (20). Árin í kringum 1990 eru flest mjög útsynningsgæf með að meðaltali 10 til 13 daga á ári. Hafísárin fyrir 1970 koma fram sem lágmark með um 6 útsynningsdaga á ári að meðaltali. Almenn útsynningsfátækt 19. aldaráranna er trúlega vanmat endurgreiningarinnar.

Janúar og febrúar 2013 skiluðu ekki útsynningsdegi í safnið. Hann var einn í nóvember 2012, sá 15.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 10
  • Sl. sólarhring: 272
  • Sl. viku: 2389
  • Frá upphafi: 2434831

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 2118
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband