Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012

Þegar vindáttin snýst

Þótt loftið sem verður yfir landinu næstu daga sé kaldara heldur en það sem kom hitanum eystra upp í 27 til 28 stig í fyrradag gefur það samt meir en 20 stiga hita á landinu næstu daga. - En það fer eftir vindáttinni hvar hitinn verður mestur.

Í dag (laugardag 11. ágúst) var áttin nægilega suðlæg til þess að hiti á Húsafelli í Borgarfirði komst í rétt tæp 20 stig. Í rigningunni neðar í héraðinu var hiti þegar best lét tæp 16 stig. Það telst mjög gott í allþéttri rigningu. Daggarmark syðra var hátt, víðast hvar á bilinu 12 til 13 stig - en ekki þó nálægt metum (sjá neðar í pistlinum). Vestur á Fjörðum var daggarmarkið ekki nema 5 til 7 stig - en 9 til 10 stig víðast hvar nyrðra.

Gríðarleg úrkoma mældist í Bláfjöllum í dag, um 118 mm yfir sólarhringinn, enn meira, um 127 mm á Ölkelduhálsi. Á síðarnefnda staðnum rigndi nærri því 200 mm á síðustu tveimur sólarhringum.

Regnsvæðið yfir Vesturlandi er mjög mjótt og sveiflast fram og til baka þannig að stór hluti dagsins í dag var þurr vestur á Snæfellsnesi. En þar rignir væntanlega aftur þegar regnsvæðið fer vestur fyrir land á sunnudag. Í kjölfar þess er hlý suðaustanátt sem mun síðar snúast til austurs.

Þetta þýðir að hlýna mun um landið norðvestanvert og síðar einnig suðvestanlands. Nái sólin að brjótast fram verður furðuhlýtt næstu daga. Varla er þorandi að minnast á 20 stiga hita í Reykjavík, en ef austanáttin nær sér á strik er sá möguleiki opinn - í fyrsta skipti í sumar. En austanáttin á sér ýmsar hliðar á Suðvesturlandi - með henni koma oft úrkomubakkar eða hnútar sem halda hitanum vel í skefjum meðan þeir fara hjá.

Ekki hefur verið skorið endanlega úr um það hvert sé hæsta daggarmark sem mælst hefur á Íslandi. Oftast er loft þurrt þegar hiti er mjög hár hér á landi. Það veldur því að sérstaka aðgæslu þarf við mælingar á votum hita en sú mæling er (ásamt hinni venjulegu hitamælingu) notuð til þess að reikna daggarmark, rakaþrýsting og rakastig.

Votur hiti er mældur með sérstökum mæli þar sem blautri grisju er vafið utan um endann á venjulegum hitamæli. Sé loft rakamettað gufar ekkert upp úr grisjunni og mælarnir sýna það sama. Sé loft hins vegar ekki rakamettað gufar vatn upp úr grisjunni og því ákafar sem loftið er þurrara. Gufunin þarf orku og hún er tekin úr umhverfi mælisins - einkum úr kvikasilfurskúlu hans sem þá kólnar. Hiti á mælinum lækkar og sýnir lægri hita heldur en þurri mælirinn gerir. Því meiri sem munurinn er því þurrara er loftið. En þegar allt vatnið í grisjunni hefur gufað upp hitnar aftur á vota mælinum - því hann er orðinn þurr - og hann fer upp í sama hita og sá þurri.

Sé litið á votan hita í veðurathugunum kemur í ljós að allmörg hæstu gildin eru greinilega einmitt þessu marki brennd. En ekki hefur enn verið farið skipulega í gegnum gögnin til að hreinsa villur frá raunverulegum athugunum. Meðan svo er getum við ekki sagt hvert metið er.

Á sjálfvirkum stöðvum er rakastigið mælt og daggarmark og rakaþrýstingur reiknuð út frá því. Á heildina litið virðast þessar rakamælingar mjög trúverðugar - en villur koma samt fyrir.

Hæsta daggarmark sem hefur mælst á sjálfvirku stöðinni á Veðurstofutúni (15 ár) er 14,5 stig. Það var 9. september 2002. Hæsta gildi sem mælst hefur á Reykjavíkurflugvelli (11 ár) er 15,0 stig. Það var sama dag, 9. september 2002. Það munar 0,5 stigum - ætli það fari ekki nærri nákvæmni mælinganna.


Fimmtán dagar í röð

Nú hefur hiti mælst yfir 20 stig á landinu í 15 daga í röð ög er syrpan um það bil að verða óvenjuleg. Raunverulegur möguleiki er á því að að minnsta kosti 5 til 6 dagar eigi enn eftir að bætast við.  

Hæsti hiti sem mældist á landinu í dag (föstudag 10. ágúst) var 26,6 stig. Það var á Hallormsstað. Nokkur ný met birtust í metaskrá veðurstöðvanna - en aðeins á stöðvum sem eru yngri heldur en hitabylgjan mikla í ágúst 2004. Þessar stöðvar eru inn til dala á Austfjörðum og vegagerðarstöðvarnar á Suðurfjörðunum.

Fullsnemmt er að bera hitabylgjuna núna saman við fyrri hitabylgjur - við skulum samt fyrir forvitni sakir athuga á hvaða mánuði og ár árshitamet sjálfvirku stöðvanna raðast.

árjúnjúlágú
1994000
1995000
1996001
1997004
1998010
1999330
2000020
2001000
2002300
2003142
200400104
2005060
2006000
2007000
20080531
2009080
2010090
2011011
201261635

Þetta er frekar subbuleg tafla - en hún virðist þó læsileg. Alls eru 264 sjálfvirkar stöðvar með í safninu. Fáein ár eru án meta. Auk 1994 og 1995, en þá voru stöðvarnar fáar, lifa engin met frá árunum 2001, 2006 og 2007.

Við sjáum að tveir mánuðir skera sig úr, ágúst 2004 með 104 stöðvar - sú hitabylgja náði yfir mestallt landið , og júlí 2008 en þá varð fádæma hlýtt um suðvestanvert landið. Ágúst nú er með 35 stöðvar - en eins og áður er fram komið er það einkum á nýlegum stöðvum sem met hafa verið sett nú.

Eftirminnileg er hitabylgjan í ágúst 1997 en aðeins fjögur gildi lifa frá þeim tíma, þar af eru tvö á stöðvum sem athugað hafa allar göngur síðan. Hvorug hitabylgjan, 2004 og 2008, náði þar að toppa 1997. Stöðvarnar eru í sama landshluta og í svipaðri hæð. Þetta eru Holtavörðuheiði með 24,8 stig og Kolka með 24,6 stig.


Af hitametum dagsins (9. ágúst 2012)

Í dag (fimmtudaginn 9. ágúst) féll fjöldi hámarkshitameta. Ekki er rúm til að greina frá þeim öllum hér - enda ekki alveg tímabært. Met eiga sér ákveðna goggunarröð. Merkilegast er þegar hitamet fyrir landið allt fyrir árið í heild fellur. Það gerðist ekki nú. Næstmerkilegast er þegar landshitamet einstakra mánaða falla, í þessu tilviki ágústmánaðar. Það gerðist ekki heldur nú. Næst í goggunarröðinni eru dægurmet fyrir landið í heild (eitt féll núna). Síðan koma hæstu árshámörk einstakra stöðva - slatti af slíkum féll í dag. Við lítum nánar á þau hér að neðan. Að lokum eru dægurmet einstakra stöðva - fjölmörk slík fuku í dag (sleppum þeim - nær alveg).

Ný árshámörk teljast því merkilegri eftir því sem stöðin hefur athugað lengur. Síðasta stóra hitabylgjan kom í lok júlí 2008. Við skulum sleppa því að geta um stöðvar sem athugað hafa skemur en frá þeim tíma - þær eru margar og metin því mörg. Næsta hitabylgja þar á undan var sú í ágúst 2004. Stöð sem athugaði í þessum tveimur hitabylgjum og á met í dag er orðin nokkuð sjóuð - og met á henni telst því merkilegt.

En sjálfvirkar stöðvar sem settu met í dag (og byrjuðu fyrir 2008) eru (tölur í °C):

byrjarnýtt metnafn
199828,0Eskifjörður
199927,9Neskaupstaður sjálfvirk stöð*
200727,8Fáskrúðsfjörður Ljósaland
200027,6Kollaleira sjálfvirk stöð*
199527,0Seyðisfjörður
199626,8Bjarnarey
199425,9Dalatangi sjálfvirk stöð*
200025,8Vattarnes
200024,5Brúðardalur
200524,3Akureyri - Krossanesbraut*
200522,4Flatey á Skjálfanda
200621,9Þórdalsheiði
199421,4Fontur
200721,2Hallsteinsdalsvarp
200621,1Brúaröræfi
199624,6Fagridalur
199523,5Oddsskarð
200621,7Öxi
199722,0Breiðdalsheiði 

Sjá má litla stjörnu á eftir nafni fjögurra stöðva - þar eru til alllangar raðir mannaðra athugana. Í Neskaupstað er talan í dag hærri heldur en hefur mælst þar áður - mannaðar mælingar byrjuðu 1975. Stigin 27,8 eru e.t.v. merkilegasta uppskera dagsins. Hitinn á Eskifirði er met fyrir 9. ágúst á landinu öllu.

Á Kollaleiru var mönnuð stöð frá 1976 til 2007. Á henni mældist 28,9 stiga hiti þann 4. júlí 1991 - ótrúlega hátt en áreiðanlega rétt. Sami hiti mældist á Seyðisfirði í hitabylgjunni miklu í júlí 1911 ög stendur það met enn. Annars er sjálfvirka stöðin á allt öðrum stað í firðinum og ætti því varla að berast saman við þá mönnuðu þar sem athugunum lauk 2001.

Mannaða stöðin á Dalatanga á sjónarmun hærri tölu en sjálfvirka stöðin sýndi í dag, það eru 26,0 stig sem mældust 12. september 1949 og er enn hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í september. Hiti á Akureyri hefur auðvitað orðið meiri en Krossanesbrautin mældi í dag. En mannaða stöðin þar var sjónarmun hærri heldur en Krossanesbrautin að þessu sinni með 24,3 stig.

Þetta er hæsti hiti sem mælst hefur 9. ágúst á Akureyri. Síðastliðin nótt (aðfaranótt þ.9.) var mjög hlý og var mældist hæsti lágmarkshiti næturinnar á landinu á Akureyri og Skjaldþingsstöðum, 17,2 stig. Þetta er óvenju hátt - en samt ekki met. Hæsta næturlágmark á Akureyri mældist 4. júlí 1991 (sama dag og Kollaleirumetið að ofan) 17,7 stig. Reykjavík á reyndar 18,2 stig sem hæsta næturlágmark (31. júlí 1980).

Hæsta næturlágmark sem vitað er um hér á landi eru 20,4 stig sem mældust á Seyðisfirði 22, júlí árið 2000. Það er eina skiptið sem hiti á íslenskri veðurstöð hefur ekki farið niður fyrir 20 stig að næturlagi.   

Líklega verður varla eins heitt á morgun (föstudag) og var í dag, en þó verður annað met líklega jafnað á morgun því þá verða komnir 15 dagar í röð með landshámarkshita 20 stigum eða meir. Ef 20 stig mælast einhvers staðar á laugardag er komið nýtt met í tuttugustigasyrpu. Lesa má um slíkar syrpur í fróðleikspistli á vef Veðurstofunnar.

Reyndar er með þetta met eins og mörg önnur að niðurstaðan fer að nokkru eftir því hvernig talið er. Stundum gerist það (á mönnuðum stöðvum) að hámarkshiti dagsins verður kl. 18 eða síðar að deginum. Sá hiti lekur yfir á hámarkshita dagsins eftir sem þá getur talist 20 stiga dagur án þess að hiti þann dag fari nokkurn tíma í 20 stiga markið. Þessi skráningarháttur getur því brúað eins dags göt í syrpulistum. Lengsta slíka syrpan er 18 dagar - en vel má vera að við náum þeim dagafjölda líka nú - við fylgjumst með.

Alla dagana 6. til 25. júlí 1927 fór hámarkshiti dagsins í 20 stig eða meir á Grímsstöðum á Fjöllum. Þetta eru tuttugu dagar í röð. Miðað við hita á staðnum sömu daga kl. 15 er þetta ekki alveg trúverðugt - en mjög þurrt var þá á þessum slóðum og dægursveifla hitans mjög stór langflesta dagana. Við eigum þessa syrpu á lager.

Að lokum er rétt - til skemmtunar (eða þannig) að minnast á úrkomuspá fyrir Reykjavík næstu daga. Á vef Veðurstofunnar er nú spáð 46 mm úrkomu á laugardag og sunnudag. Það er ekki oft sem það gerist. Til að athuga málið var flett upp á spá bandarísku veðurstofunnar fyrir Reykjavík á sama tíma. Þar kemur í ljós að úrkomumagnið sem falla á frá því kl. 15 á morgun - föstudag til sama tíma á sunnudag er 157 mm. Því er varla hægt að trúa - þetta væri glæsilegt met. Sé rýnt í spákortin kemur í ljós að hér er í báðum tilvikum um örmjótt úrkomusvæði (reyndar tvö) að ræða með mjög mikilli úrkomu á litlu svæði. Ekki er víst að það verði til í næstu spá - en það er alltaf eitthvað í pípunum.


Af þykkt og hita

Svokölluð þykkt er hugleikin ritstjóra hungurdiska og kemur iðulega við sögu í pistlum hans. Grunnfræðslu um hana má finna í viðhengi með fornum pistli (7. október 2010). Áhugasamir eru hvattir til að lesa það eða rifja það upp hafi þeir lesið það áður.

En í dag (miðvikudag 8. ágúst) mældist þykktin 5590 metrar yfir Egilsstöðum, í háloftathugun sem þar var gerð. Þetta er sennilega það mesta sem sést hefur hér í sumar og hugsanlegt er að morgundagurinn geri enn betur. Alla vega sýna spár það og rétt að benda á pistil Einars Sveinbjörnssonar um hlýindin - þar má m.a. sjá þykktarspákort.

En nú er það svo að þótt þykktin mæli meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs mjög vel fréttist misvel af henni í athugunum við jörð. Erfitt er að blanda hlýju lofti niður á við þótt það rísi af sjálfsdáðum sé það hitað að neðan. Oftast vantar því talsvert upp á að hæsta mögulega hita viðkomandi þykktar sé náð hverju sinni. Ef til vill mætti á þessum vettvangi fjalla um misheppnuðustu hitabylgjuna - hún reyndist hins vegar torfundnari en fyrst var ætlað þótt eitt dæmi verði nefnt hér á eftir.

Við skulum hins vegar líta á hver hámarkshiti landsins hefur orðið mestur á hverju 10 metra þykktarbili að sumarlagi. Myndin er skýr - en samt nokkuð vandasöm og vonandi að lesendur súpi ekki hveljur.

w-blogg090812

Myndin byggir á tveimur listum - annars vegar hæsta hámarkshita landsins (mannaðar stöðvar) á hverjum einasta degi í júní til ágúst á árunum 1949 til 2008. Hins vegar er bandaríska endurgreiningin (sem nær til 2008) notuð til að reikna hæstu þykkt hvers dags í punktinum 64°N og 22°V. Síðan er hæsti hiti hvers 10 metra (1 dam) bils á þessu tímabili fundinn og niðurstaðan sett á línuritið.

Lægsta þykkt tímabilsins féll á bilið 523 til 524 dam (punkturinn lengst til vinstri á myndinni). Forvitnir skulu upplýstir um að þetta var 4. júní 1956. Hæsti hámarkshiti á landinu þann dag var 11,5 stig - og hann er bara einn á þessu þykktarbili.

Eftir því sem þykktin vex fjölgar dögum sem lenda á hverju bili. Í ljós kemur að algengasta þykkt á sumrin er 547 dam. Hæsti hiti sem mælst hefur við þá þykkt er 26,8 stig - ótrúlega há tala og sjáum við punktinn stinga sér upp úr punktadreifinni. Næsthæsta gildið er ekki nema 23,7 stig. Hér gæti verið um villu að ræða - en líka hugsanlegt að 64°N, 22°V sé ekki dæmigerður punktur þennan dag.

Eftir því sem þykktin er meiri fækkar dögum aftur og í efsta bilinu, 564 til 565 dam eru aðeins fimm dagar, þar af þrír í hitabylgjunni einstöku í ágúst 2004 og sá fjórði þremur vikum fyrr sama sumar. Fimmti dagurinn er e.t.v. misheppnaðasta hitabylgja allra tíma, 6. ágúst 1970. Þá mældist hæsti hámarkshiti landsins aðeins 18,0 stig.

En eitt af því sem vekur sérstaka eftirtekt á myndinni er að við 560 tekur punktadreifin stefnu lárétt til hægri eins og hún rekist upp undir 30 stiga múr. En það eru ekki nema 30 dagar á tímabilinu öllu sem eru með þykktina 562 dam eða meira.

Flest bendir til þess að ýmsar tilviljanir ráði því hversu vel einstök þykktarbil hitta í hámarkshita, svosem rétt vindátt, rétt blöndun, réttur tími sólarhrings og auðvitað rétt skýjahula. Séu dagarnir nægilega margir er líklegt að einhver þeirra hitti rétt. Á besta degi geta punktar meira að segja lent yfir aðfallslínunni (rauð á myndinni). Stigin 34 eru því möguleg, jafnvel við óbreytt veðurfar. Í hlýrra veðurfari myndi hins vegar tækifærum fjölga.

Margt fleira má um þetta segja. Línurit fyrir sjálfvirku stöðvarnar eingöngu er nærri því eins og þetta. Athugið að óráð er að nota þetta línurit til að spá fyrir um líklegasta landshámarkshita hvers þykktarbils - það eru mun lægri tölur. Lægsti landshámarkshiti hvers þykktarbils er enn lægri - slatti af misheppnuðum hitabylgjum.


Heiðarleg suðvestanátt til lands og sjávar

Við hverju er að búast af suðvestanátt á sumrin? Jú, lágskýjuðu veðri með úrkomu um sunnan- og vestanvert landið en hlýju og þurru veðri á Norðaustur- og Austurlandi. Það er nákvæmlega það sem spár gera ráð fyrir á morgun - miðvikudaginn 8. ágúst.

Fari maður að gerast smámunasamur er það reyndar þannig að suðvestanáttin á fleiri en eina mismunandi bragðtegund og er best að líta til sjávarins - eða þá himins þegar greina skal þær að.

Yfir hásumarið er langalgengast að suðvestanáttin sé hlýrri heldur en sjórinn fyrir sunnan og vestan land. Sjórinn kælir þá loftið og suddi og þoka myndast. Rigning er þá mest af fjallakyni - tengist uppstreymi við fjöll. Annars staðar er úrkoma minni - jafnvel þótt vindur standi af hafi. Þannig á suðvestanátt miðvikudagsins að vera og sést það vel á skynvarmaspá evrópureiknimiðstöðvarinnar hér að neðan.

w-blogg080812

Kortið gildir kl. 18 miðvikudaginn 8. ágúst. Lituðu fletirnir sýna skynvarmaflæðið. Þar sem liturinn er grænn er varmastreymið úr lofti í sjó (eða land) en sé hann rauður hitar sjór (eða land) loftið að neðan.

Það merkilega er að græni liturinn hefur nærri því ekkert sést í sumar í námunda við landið. Vindátt hefur oftast verið norðlæg þannig að sjórinn hefur hitað loftið sem yfir honum hefur verið. En hér bregður við. Það er reyndar ekki nema tiltölulega stuttan tíma á ári sem grænn litur er algengur við Ísland - og ætti að vera algengastur. Þetta er frá því um miðjan júní og fram í miðjan ágúst. Það er eini tími ársins þegar sjór við landið er almennt kaldari en loftið. Stundum grænkar líka kortinu á vetrum - en það lítinn hluta heildartímans.

Græna klessan yfir landinu suðaustanverðu er hið alræmda Vatnajökulsskrímsli sem hvergi er til nema í iðrum evrópureiknimiðstöðvarinnar. Það er bæði stærra (allt of stórt um sig) og reyndar líka lægra og þynnra heldur en hinn raunverulegi Vatnajökull sem við dáumst að. En svo að sanngirni sé gætt er rétt að taka fram að á Vatnajökli er „grænt ástand“ algengast.

En við sjáum að líkanið gerir ráð fyrir því að landið hiti loftið - liturinn er rauður. Langmest þó norðaustan- og austanlands. Tölurnar eru þó ekki mjög háar - það er væntanlega ekki alveg léttskýjað.

Fyrir suðvestan land er suðvestanáttin ekki hlýrri en svo að græni liturinn nær sér ekki vel á strik. Það gerir hann hins vegar þegar kemur yfir kaldari sjó við Vestfirði og Austurland.

Vindur er merktur með mislöngum örvum, örvar benda með vindáttinni og styrkur ræðst af lengd þeirra. Eins og vera ber í suðvestanátt er hann mestur yfir landinu norðvestanverðu og sjónum þar í kring.

Á bletti yfir Austur- og Norðurlandi eru svartar, heildregnar línur sem sýna það svæði þar sem hitamunur á milli yfirborðs og 925 hPa er meiri en 8 stig - við notum annað tækifæri til að velta okkur upp úr því.

En hér var því ekki svarað hverjar eru aðrar bragðtegundir suðvestanáttarinnar á sumrin. Við bíðum með svör þar til næst gefst tækifæri.

Já, - fréttir bárust af því í dag að norðurpólslægðin sem hungurdiskar fjölluðu um í gær hafi farið niður í 963 hPa. Ekki hefur fengist staðfesting á því hvort um met er að ræða á þessum árstíma - en það er líklegt.


Óvenju djúp lægð nærri norðurpólnum

Nú er óvenju djúp lægð skammt frá norðurpólnum. Ekki það að hún abbist upp á okkur en samt er gaman að vita af henni. Kanadíska veðurstofan segir þrýsting í lægðarmiðju nú á miðnætti (að kvöldi frídags verslunarmanna 6. ágúst) 967 hPa. Evrópureiknimiðstöðin er nærri því sammála - en ekki er gott að sjá af fyrirliggjandi kortum nákvæmlega hver tala hennar er. En 500 hPa-kortið er aftur á móti mjög skýrt.

w-blogg070812a

Fastir lesendur ættu að átta sig á kortinu. Heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Mjög hvasst er þar sem línurnar eru þéttar. Litafletirnir sýna þykktina - kvarðinn er ekki sýndur en mörkin á milli gulu og grænu flatana eru sett við 5460 metra og er auðvelt að telja sig upp og niður frá því gildi því skipt er um lit á 60 metra fresti.

Sjá má tvo litla bláa bletti á kortinu, annar er til vinstri við aðallægðarmiðjuna en hinn er í annarri lægðarmiðju nærri Franz Jósefslandi (austur af Svalbarða).

Hægt er að reikna þrýsting við sjávarmál með því að draga þykktina frá hæðinni - en við skulum ekki gera það að þessu sinni. Trúið því bara að sá frádráttur gefur að þrýstingur í lægðarmiðjunni miklu sé um 970 hPa - kannski aðeins lægri.

Innsta jafnhæðarlínan utan um lægðarmiðjuna myndar örsmáan hring utan um það (litla) svæði þar sem hæðin er minni en 5040 metrar.

Nú er spurningin sú hvort það geti verið að þessi lægð sé fyrsta fræ haustsins yfir Norður-Íshafinu. Ekki verður kveðið úr um það hér. En forvitnilegt verður að fylgjast með því hvort bláu lágþykktarblettirnir hverfi aftur - en þeir hafa nú verið að mestu fjarverandi í eina til tvær vikur. En haustið er örugglega komið þarna norðurfrá þegar 5100 metra þykkt eða lægri fer að vera viðvarandi á svæðinu. Vonandi að það dragist vel fram í september.

En eru svona djúpar lægðir algengar á þessum slóðum í ágústbyrjun? Ritstjórinn verður því miður að játa að hann er ekki viss. Hann veit hins vegar að snemmbærar haustlægðir geta orðið mjög skæðar á hafsvæðinu milli Alaska og norðurskautsins. Þá er oft enn nokkuð hlýtt yfir meginlandi Norður-Ameríku en farið að kólna yfir Íshafinu. Þessar lægðir eru sérlega skæðar fyrir það að þetta er sá tími árs þegar ísþekja er í lágmarki og brim við ströndina getur orðið sérlega mikið. Minnkandi ís hefur valdið auknu sjávarrofi bæði í Alaska og í Síberíu á undanförnum árum.

Hvað lægðin gerir við ísinn að þessu sinni vitum við ekki enn - gervihnattamælingar segja ísþekjuna óvenju litla þessa dagana. Frelsi hennar til hreyfingar er því óvenjumikið.


Suðvestanátt í nokkra daga?

Ef trúa má spám reiknimiðstöðva stefnir í nokkurra daga suðvestanátt í vikunni. Ekki er samkomulag um hvað síðan gerist og við látum það liggja á milli hluta. En suðvestanáttinni fylgir hlýtt loft um stund og e.t.v. komið að hlýindum nyrðra og eystra.

w-blogg060812

Kortið sýnir stöðuna eins og evrópureiknimiðstöðin telur hana verða um hádegi á þriðjudag. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru svartar og heildregnar, en jafnþykktarlínur eru rauðar (mjóar) strikalínur. Þykktin sýnir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Vindur er hins vegar nokkuð samsíða jafnhæðarlínunum og er því meiri sem þær eru þéttari. Kortið skýrist að mun við smellastækkun og þá má sjá merkingarnar betur en hæðar- og jafnþykktarlínur eru merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar).

Svarta, þykka, strikalínan sýnir legu hæðarhryggjar sem að undanförnu hefur aðallega legið frá suðri til norðurs fyrir vestan land - en sveigist nú til austurs þannig að stefna hans verður úr suðvestri til norðausturs. Rauðbrúna, þykka, strikalínan sýnir þykktarhrygginn á sama hátt. Þar er þykkt lægri á báða vegu línunnar.  

Hér er Ísland enn í norðvestanátt - en suðvestanáttin tekur brátt völdin og með henni hlýja loftið. Það er 5640 metra jafnþykktarlínan sem snertir Suður-Grænland - hún fer langt með að komast hingað sé að marka spár - en þó ekki alveg. Kalda loftið vestan hryggjar slær þykktarhrygginn til suðausturs þannig að skotið geigar.

En það verður spennandi að sjá hversu hátt hitinn fer austanlands um miðja viku. Hingað til er hæsti hiti sumarsins 24,0 stig. Tími er til kominn að gera betur þótt enn sé ekkert víst í þeim efnum. Sömuleiðis væri ágætt að fá nokkra rigningardaga á vestanverðu landinu í þeirri von að berjasprettan komist á rétt ról. Jú, það er talsvert af berjum - en ósköp er að sjá þau smá og væskilsleg á hálfsviðnuðu lyngi. Vonandi kemur rigningin ekki of seint.


Frétt um fjórða mánuð (lítil og vart lestrartilefni)

Fyrir um það bil tíu dögum fjölluðu hungurdiskar  um það óvenjulega ástand að hlýrra sé vestan við land (30°V) heldur austan við (10°V) í marga mánuði í röð (að meðaltali). Þar var upplýst að þetta ástand hafi verið ríkjandi í apríl, maí og júní á þessu ári og fundust fá eldri dæmi um ámóta. Nú hefur komið í ljós að júlí féll líka í þennan flokk og ástandsmánuðirnir því orðnir fjórir.

Þetta gerðist síðast fyrir aðeins tveimur árum - afbrigðaárið mikla 2010 - en aldrei annars á tíma háloftaathugana en þær hófust um 1950. Endurgreiningin bandaríska segir þetta einnig hafa gerst 1932 - þá urðu mánuðirnir fimm.

Nú hefur norðanátt líka verið ríkjandi í 500 hPa-fletinum í fjóra mánuði í röð. Ef trúa má endurgreiningunni hefur það ekki gerst nema einu sinni áður, í júlí til október 1932. Að þessu sinni hefur norðanáttin hvað eftir annað fært okkur niðurstreymisloft frá Grænlandi, bjart veður og sólskin. Sólin hefur séð um að halda hitanum uppi - þótt þykktin hafi varla farið upp fyrir 5500 metra. Enda hefur ekki enn mælst 25 stiga hiti á landinu í sumar. Nú þegar sól fer að lækka á lofti minnka líkur á að svona norðanáttarástand geti stutt við hlýindi - þótt það færi veðurgæði á flestum árstímum.  

Hvenær skyldu umskiptin koma? Hvernig verða þau? Fáeinum sinnum í sumar hefur breyting virst ætla að verða - en allt gengið í sama far eftir 3 til 4 daga.


Hlýtt það sem af er ári

Í reglubundnu mánaðaryfirliti Veðurstofunnar fyrir júlímánuð er dálítil samantekt um fyrstu sjö mánuði ársins. Þar kemur fram að í ár lendir meðalhiti mánaðanna sjö í fimmta sæti sé gerður listi um hlýjustu tímabilin í Reykjavík, Stykkishólmi og í Vestmannaeyjum. Á Akureyri er það í sjöunda sæti, en því fimmtánda austur á Teigarhorni við Berufjörð. Á öllum stöðunum hafa mælingar staðið í að minnsta kosti 130 ár.

Það er áberandi hvað fyrstu ár þessarar aldar hafa staðið sig vel fyrri hluta árs - og reyndar fram í ágúst. Síðustu fimm mánuðirnir hafa einnig oftast verið hlýir á síðustu tíu árum - en standa sig ekki alveg jafn vel gagnvart hlýindaskeiðinu mikla á 20. öld.

w-blogg040812a

Lárétti ásinn sýnir árin, en sá lóðrétti er meðalhiti fyrstu sjö mánaðanna. Árin tíu frá og með 2003 fram til ársins í ár, 2012 eru einstök að því leyti að aldrei hefur brugðið út af með hitann. Hlýindaskeiðið frá því um 1925 og fram til 1965 sker sig líka úr en þar er samt ekkert skeið með jafnsamfelldum hlýindum og þeim sem ríkt hafa upp á síðkastið. Við hljótum að spyrja okkur hvenær þetta taki enda.

Næsta mynd sýnir meðalhitann í Reykjavík síðustu fimm mánuði ársins yfir sama tímabil.

w-blogg030812b

Margt er líkt með myndunum tveimur. Hlýindi síðustu ára eru mikil - en skera sig samt ekki alveg jafn mikið frá fyrri hlýju árum - einnig má taka eftir því að hlýskeiðið um miðja 20. öld er styttra síðari hluta ársins heldur en fyrri hlutann. Kuldaskeiðið í kringum 1980 er jafnvel verra en ástandið á 19. öld.

Af þessum myndum má sjá tímabil með hlýjum fyrri hluta árs fylgja í grófum dráttum hlýjum tímabilum síðari hluta ársins og sömuleiðis á köldu hliðinni. En þegar farið er í sauma á einstökum árum verður myndin flóknari og þótt samband hita fyrri og síðari hluta ársins sé marktækt er það samt svo slaklegt að nákvæmlega engu er að treysta. Þótt fyrri hluti ársins hafi verið afspyrnuhlýr er ekki víst að síðari hlutinn verði það. En við getum lifað í voninni.

Að meðaltali eru síðustu fimm mánuðir ársins 0,7 stigum hlýrri heldur en sjö fyrstu í Reykjavík. Færi svo myndi ársmeðalhitinn verða 6,4 stig. Varla trúum við því - allt þarf að ganga upp. Þótt lítið samband sé á milli hita fyrri og síðari hluta árs er fylgnin auðvitað mikil milli meðalhita fyrstu sjö mánaðanna og ársmeðalhitans eins og hann verður að lokum. Tökum við það samband bókstaflega ætti meðalhiti ársins 2012 að verða 5,5 stig. Það nægir í þrettánda hitasætið.


Júlíhitinn í Vestmannaeyjum

Eins og fram hefur komið í fréttum var nýliðinn júlímánuður sá hlýjasti sem mælst hefur á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Þótt lítið mark sé takandi á tveimur aukastöfum í meðalhita skulum við samt nota þá í því sem hér fer á eftir. Júlíhitinn núna var 11,89 stig, næsthlýjast var í júlí fyrir tveimur árum, 2010, 11,75 stig og júlí 1933 er í þriðja sæti með 11,66 stig.

En danska veðurstofan setti upp stöð í Vestmannaeyjakaupstað í júní 1877 og þar var linnulaust mælt í 44 ár eða fram í september 1921 að flutt var til Stórhöfða. Flutningurinn var skyndilegur ef kalla má svo - engar samanburðarmælingar fóru fram sem gætu gefið til kynna hversu mikillar breytingar var að vænta. Rúmlega 100 metra hæðarmunur er á stöðvunum tveimur þannig að búast má við kerfisbundnum hitamun.

Þegar giskað er á breytingu hita með hæð hér á landi er oftast gripið til talna á bilinu 0,6 til 0,7 stig á hverja hundrað metra hækkun. Þegar þær tölur sem verða notaðar i línuritinu hér að neðan voru reiknaðar var ákveðið að kerfisbundinn munur, 0,75 stig væri á stöðunum tveimur þannig að hlýrra var í Kaupstaðnum. Til að fá samfellda röð var hitinn í kaupstaðnum 1877 til 1921 lækkaður um þessa tölu, jafnt í öllum mánuðum ársins.

Eftir að þetta var gert var farið að mæla hita á sjálfvirkum stöðvum bæði á Stórhöfða og í kaupstaðnum. Þetta gerir að verkum að við vitum nú miklu meira um raunverulegan mun staðanna tveggja heldur en áður. Í ljós kom að hann er aðeins minni yfir árið heldur en talið var (0,55 stig) og á sér að auki dálitla árstíðasveiflu. Hann er mestur á vorin og fram á sumar (um 0,7 stig) en minnstur í janúar (um 0,3 stig). Hægt er að giska á ástæðu. Líklega myndast á vetrum mjög grunnstæð hitahvörf við stöðina í kaupstaðnum sem vinna á móti hitamun staðanna þegar vindur er hægur.

Sömuleiðis gefa sjálfvirku athuganirnar í kaupstaðnum góðar upplýsingar um hegðan dægursveiflunnar þar miðað við Stórhöfða. En þessar nýju upplýsingar hafa ekki enn verið notaðar við endurútreikning gamalla meðaltala. Svo vill til að í júlímánuði er munur á nýrri og gamalli hæðarleiðréttingu ómarktækur (0,07 stig) - en svo virðist sem viðbótarupplýsingarnar um dægursveifluna lækki gamla kaupstaðarhitann um 0,1 stig eða svo frá því sem síðast var reiknað. Þessir tveir þættir gætu því jafnað hvorn annan út að mestu.

Meðalhiti í júlí 1880 í kaupstaðnum var 12,66 stig sem reiknaðist niður í 11,91 stig á Stórhöfða. Júlíhitinn nú var eins og áður sagði 11,89 stig. Reikniaðferð dönsku veðurstofunnar gaf 12,8 stig í kaupstaðnum - en þá var dægursveiflan ekki nærri því eins vel þekkt og nú er.

Á árunum 1869 til 1880 var athugað á prestsetrinu Ofanleiti. Þessar mælingar voru ekki eins staðlaðar og veðurstofumælingarnar dönsku (ekkert skýli) en vegna þess að mælt var samtímis á stöðunum í þrjú og hálft ár er unnt að giska á kaupstaðar- og þar með Stórhöfðahitann allt aftur til 1869.

En lítum að lokum á línurit sem sýnir meðalhita á Stórhöfða í júlí 1869 til 2012.

w-blogg030812

Lárétti ásinn markar árin, en sá lóðrétti sýnir meðalhita júlímánaðar. Nærri fjórum stigum munar á hlýjasta og kaldasta mánuði á línuritinu. Kaldastur varð júlí sumarið endemisfræga, 1983. Við sjáum að varla er hægt að velja 30 ára tímabil sem er öllu kaldara en það sem nú er notað til viðmiðunar, 1961 til 1990. Klasar af mjög köldum júlímánuðum komu á árunum 1874 til 1876 og sömuleiðis 1885 til 1888. Nú hafa komið 13 júlímánuðir í röð með yfir 10 stiga meðalhita.

Tímabilið sýnir litla leitni hitans. Sjávarhiti ræður talsverðu um sumarhita í Vestmannaeyjum og veldur því t.d. að talsverð fylgni er á milli hita einstakra mánaða að sumarlagi. Líkur á hlýjum ágúst á eftir hlýjum júlí eru þannig meiri heldur en að kaldur ágúst fylgi hlýjum júlí. Rétt er þó að taka slíka spádóma ekki of alvarlega.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a
  • w-blogg110424b
  • w-blogg110424b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 43
  • Sl. sólarhring: 113
  • Sl. viku: 1822
  • Frá upphafi: 2347556

Annað

  • Innlit í dag: 35
  • Innlit sl. viku: 1567
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband