Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012
20.4.2012 | 00:32
Veðurlítið
Nú eru engin stór þrýstikerfi í námunda við landið. Víðáttumikil en frekar grunn lægð er yfir Bretlandseyjum og hæðarómynd einhvers staðar við norðausturströnd Grænlands. Þetta er þó hið eðlilega ástand. Kalda loftið yfir norðurslóðum hefur ekkert aðhald og flæðir suður um. Þar hitnar það um síðir. Leit loftsins að jafnvægi (sem aldrei finnst) veldur þó því að seint verður alveg veðurlaust.
Það gæti meira að segja verið enn minna veður heldur en var í dag, sumardaginn fyrsta. Alltaf er hægt að mala um veðrið - jafnvel þótt það sé lítið.
Þetta er greiningarkort fengið af vef Veðurstofunnar og sýnir veður á landinu kl. 21 að kvöldi fimmtudagsins 19. apríl. Þeir sem vilja geta náð talsverðri stækkun á kortið með því að smella sér inn á það í tvígang. Þá má jafnvel sjá athuganirnar en þær eru ritaðar á kortið eftir reglum Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar. Þríhyrningar sýna sjálfvirkar stöðvar, vindur er í hefðbundnum vindörvum. Hiti er talan efst til vinstri í hring um hverja stöð, en þrýstingur (þar sem hann er mældur efst til hægri). Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum er hiti 3 stig og sjávarmálsþrýstingur er ritaður sem 093 en það táknar 1009,3 hPa.
Jafnþrýstilínur eru heilar og svartar og dregnar með 1 hPa bili. Tölvan sem dregur kortið jafnar það aðeins út þannig að mælingar og dráttur falla ekki alls staðar saman. Þrýstingur er lægri sunnanlands heldur en norðan og því ríkir austlæg átt á landinu.
Fáeinum tölum í lituðum hringjum hefur verið bætt á kortið. Við skulum nú fyrir fróðleiks sakir renna okkur í gegnum þær:
1. Hér eru þrýstilínurnar hvað þéttastar á kortinu og vindur trúlega mestur. Þrýstivindur virðist vera um 12 m/s eða 25 hnútar. Hvernig vitum við það? Jú, við teljum línufjölda sem eitt breiddarstig spannar. Þrýstivindurinn í hnútum er þá línufjöldinn sinnum tíu. Hér eru um 2,5 hPa þrýstimunur á breiddarstig og þrýstivindur því um 25 hnútar, deilum í það með tveimur til að fá útkomuna í metrum á sekúndu. Takið eftir því að kortið er ekki endilega rétt dregið.
Þrýstivindur blæs samsíða þrýstilínum en núningur við jörð eða haf veldur því að raunverulegur vindur niður í 10 metra hæð er minni, þriðjungi minni en þrýstivindurinn yfir sjó, en oftast mun minni yfir landi. Núningurinn veldur því líka að áttin snýst þannig að raunvindurinn blæs undir horni á þrýstilínurnar, oftast að minnsta kosti 30 gráðum - stundum alveg þvert á þær.
2. Þrýstilínurnar eru mjög gisnar og ef kortið næði lengra austur myndum við sjá að það er landið sem stendur á móti framrás lofts úr norðaustri, það er stífla. Hún er þó ekki algjör því norðaustanáttarinnar gætir líka á þeim stöðum þar sem talan 3 er sett (þrír staðir).
4. Norðanverðir Vestfirðir valda einnig stíflu og þar með vex norðaustanátt á Grænlandssundi umfram það sem væri ef landið væri Vestfjarðalaust. Í þessu tilviki er áttin svo austlæg að vel má vera að við sjáum alls ekki vindaukann á sundinu - hann gæti verið fyrir utan kortið - eða beint norður af Vestfjörðum.
5. Vestfjarðastíflan veldur því að vindur á Ströndum er beint úr norðri allt inn á Hrútafjörð og sennilega yfir Holtavörðuheiði.
6. Innsveitir í Húnavatnssýslum og Skagafirði eru alveg í skjóli fyrir norðaustanáttinni, Tröllaskagi myndar eina stífluna í viðbót. Áttin er þarna suðlæg eða suðaustlæg - sennilega hægur fallvindur frá landi.
7. Mýrdalsjökull veldur líka stífluáhrifum og getur búið til austanstreng undan Mýrdal, Eyjafjöllum og vestur fyrir Vestmannaeyjar. Ekki er að sjá að svo sé í þessu tilviki - kannski lengra frá landi.
8. Hluti Suðvesturlands er í skjóli og vindátt breytileg. Þegar kemur fram á nóttina ræðst vindátt á svæðinu af afrennsli kólnandi lofts yfir landinu. Kannski að norðaustanáttin nái þá alveg til sjávar við Eyrarbakka.
Það er fróðlegt að sjá hvernig reiknimiðstöðin nær þessu í spá fyrir sama tíma. Hún spáir m.a. vind í 100 metra hæð, þar gætir núnings nokkru minna en alveg niður við jörð.
Örvarnar sýna vindátt (og stærð þerra vindhraða) en hraðinn er einnig sýndur með litum. Fjólublái litirnir byrja við 16 m/s. Við sjáum vel strenginn undan Suðausturlandi - kjarni hans er þó talsvert utan við Íslandskortið að ofan. Stíflan við Norðausturland kemur einnig vel fram, vindhraði í norðaustanáttinni byrjar að minnka talsvert frá landi. Vindstrengur er á Grænlandssundi, sé rýnt í myndina má sjá að hann er reyndar tvískiptur, sá hluti sem fer hjá Vestfjörðum er austlægari en sá sem er utar og ræðst meir af stíflu við Grænland. Það er hægviðri inn til landsins í Húnavatnssýslum og Skagafirði og áttin meira að segja suðaustlæg. Sömuleiðis er einhver óregla í vindátt suðvestanlands.
Fleiri smáatriði má sjá yfir landinu og við það - t.d vindstreng yfir Breiðafirði og hraðahámörk yfir hálendinu.
19.4.2012 | 00:53
Myndarleg dægursveifla
Dægursveifla hitans er myndarleg þessa dagana. Við skulum til fróðleiks líta á stærð hennar dagana 15. til 17. (frá sunnudegi til þriðjudags). Sjá má allan listann í viðhengi en hér að neðan er þeirra stöðva getið þar sem munur á sólarhringshámarki og lágmarki var stærri en 14 stig einhvern þessara þriggja daga.
ár | mán | dagur | hámark | lágmark | mism | nafn | |
2012 | 4 | 15 | 10,9 | -9,4 | 20,3 | Þingvellir | |
2012 | 4 | 17 | 7,9 | -11,0 | 18,9 | Þingvellir | |
2012 | 4 | 16 | 8,9 | -9,4 | 18,3 | Reykir í Fnjóskadal | |
2012 | 4 | 15 | 8,1 | -9,9 | 18,0 | Setur | |
2012 | 4 | 16 | 9,5 | -7,2 | 16,7 | Möðruvellir | |
2012 | 4 | 16 | 8,7 | -7,1 | 15,8 | Torfur sjálfvirk stöð | |
2012 | 4 | 15 | 10,1 | -5,4 | 15,5 | Kálfhóll | |
2012 | 4 | 16 | 11,9 | -3,5 | 15,4 | Reykir í Hrútafirði sjálfvirk stöð | |
2012 | 4 | 15 | 9,7 | -5,0 | 14,7 | Hjarðarland sjálfvirk stöð | |
2012 | 4 | 15 | 10,5 | -3,9 | 14,4 | Laufbali | |
2012 | 4 | 16 | 9,7 | -4,6 | 14,3 | Haugur sjálfvirk stöð | |
2012 | 4 | 16 | 6,1 | -8,2 | 14,3 | Végeirsstaðir í Fnjóskadal | |
2012 | 4 | 16 | 6,7 | -7,5 | 14,2 | Þeistareykir |
Sveiflan hefur orðið stærst á Þingvöllum, 20,3 stig á sunnudaginn (-9,4 stiga lágmarkið var á aðfaranótt þess dags) og á aðfaranótt þriðjudags mældist frostið þar -11,0 stig. Ekki veit ég með vissu hvort jörð er orðin alauð á Reykjum í Fnjóskadal, en jörð var flekkótt á miðvikudagsmorgni á Vöglum í sömu sveit. Stærð dægursveiflunnar á veðurstöðinni á Setri suðvestan við Hofsjökul vekur athygli. Snjódýptarmælirinn á stöðinni sýnir tæplega 160 cm snjódýpt. Líklegt að hámarkið hafi þennan dag ráðist af allt öðru heldur en geislunarjafnvægi, t.d. aðstreymi hlýrra lofts við blöndun að ofan.
Svipað má segja um Reyki í Hrútafirði sem eru ekki sérlega þekktir fyrir stóra dægursveiflu hita. Stöðvarnar á listanum að ofan eru flestar inn til landsins. Við sjóinn er dægursveiflan miklu minni. Minnst var hún þessa daga á eftirtöldum stöðvum, minni en 2 stig.
ár | mán | dagur | hámark | lágmark | mism | nafn | |
2012 | 4 | 15 | -0,3 | -1,6 | 1,3 | Seley | |
2012 | 4 | 17 | 2,3 | 0,9 | 1,4 | Hólmavík | |
2012 | 4 | 17 | 4,1 | 2,7 | 1,4 | Surtsey | |
2012 | 4 | 15 | -1,1 | -2,6 | 1,5 | Fontur | |
2012 | 4 | 16 | 0,8 | -0,9 | 1,7 | Dalatangi sjálfvirk stöð | |
2012 | 4 | 16 | 1,4 | -0,3 | 1,7 | Vattarnes | |
2012 | 4 | 17 | 2,4 | 0,6 | 1,8 | Gjögurflugvöllur | |
2012 | 4 | 15 | 6,5 | 4,6 | 1,9 | Surtsey |
Það er athyglisvert að hiti var undir frostmarki allan sólarhringinn í Seley þ. 15. og ekki var hitinn heldur hár á Dalatanga. Líkan evrópureiknimiðstöðvarinnar segir sjávarhitann undan Austurlandi vera á bilinu 2 til 4 stig. Það gæti verið rétt (?) en dugar lítt í köldu aðstreymi lofts úr norðri.
Á Veðurstofutúni í Reykjavík hefur dægursveiflan verið á bilinu 7 til 9 stig og lágmarkið rétt skotist niður fyrir frostmark. Við Korpu og uppi í Hólmsheiði hefur munur á lágmarki og hámarki farið yfir 10 stig þessa daga.
Mesta frost þessara daga mældist við Hágöngur aðfaranótt 17. -13,3 stig en hæsti hitinn mældist á Reykjum í Hrútafirði þann 15., 11,9 stig. Munurinn er 25,2 stig. Stór dægursveifla með hörkufrost á annað borð en sæmilegan vorhita á hitt er trúlega erfið fyrir gróðurinn.
Um helgina á ívið hlýrra loft að berast til landsins úr austri en þrátt fyrir það verða enn líkur á næturfrosti inn til landsins þegar bjartviðri er.
18.4.2012 | 01:15
Norðurhvel á sumardaginn fyrsta
Við lítum enn á norðurhvelsspákort - að þessu sinni gildir það fimmtudaginn 19. apríl - sumardaginn fyrsta. Hægt er að stækka kortið talsvert og bæta með því að smella það tvísvar inn á skjáinn.
Kortið sýnir mestallt norðurhvel jarðar norðan við 30. breiddarstig (og rúmlega það í hornunum). Svartar heildregnar línur sýna hæð 500 hPa flatarins í dekametrum. Hún nær mest um 5880 metra hæð yfir Eþíópíu (í neðra horni til hægri) en lægst er hún skammt frá Svalbarða 5030 metrar.
Þykktin er táknuð með lit. Hún er mest um 5880 metrar (smáblettur yfir Eþíópíu) en lægst í kuldapollinum mikla nærri Svalbarða, 4980 metrar. Myndarlegur kuldapollur er einnig við Baffinsland. Hvorugur kuldapollurinn er í ógnandi stöðu fyrir okkur. Svalbarðapollurinn gengur í hringi í kringum sjálfan sig og gerir það áfram nema sparkað sé í hann. Það á ekki að gerast næstu vikuna - sé að marka tölvuspárnar. Baffinslandspollurinn helst líka á svipuðum slóðum áfram - en sendir áfram frá sér minni polla til austurs fyrir sunnan Grænland og Ísland - rétt eins og verið hefur undanfarna daga.
Fyrir okkur skiptir höfuðmáli að heimskautaröstin (svæðið þar sem jafnhæðarlínur eru þéttastar) liggur beint til austurs langt sunnan Íslands. Við erum því norðan lægðagangsins og skiptast nú á hægir háloftavindar úr vestri og austri. Á þessu korti má sjá að pínúlítill kuldapollur er við Norðausturland og skilur hann að vestræna og austræna loftið.
Því er spáð að máttlaus hryggur komi beint úr austri og fari vestur fyrir land. Þessi spásyrpa (sem lagði af stað um hádegi á þriðjudag) gerir nú ráð fyrir því að vestanáttin nái ekki aftur hingað fyrr en eftir viku - en því er lítið að treysta - þetta hringlast til með hverri nýrri spá. Hægar austanáttir eru alltaf erfiðar viðfangs því þeim fylgja oft minniháttar úrkomuhnútar sem sífellt eru að myndast og eyðast. Skipta þeir máli við útivinnu og gönguferðir. Norðaustanáttin er miklu eindregnari hvað veður varðar.
En hiti, það sem af er apríl, er langt yfir meðallagi á Suður- og Vesturlandi, hann er enn yfir meðallagi fyrir norðan - en Austurland er komið niður fyrir meðallagið. Dægursveifla hita er víða mikil þessa dagana þar sem bjart er í veðri og mjög víða frost um nætur þótt hiti sé allgóður að deginum.
En sem stendur er sem sagt langt í bæði hlýindi og alvörukulda. Eins og sjá má á myndinni tekst heimskautaröstinni nær hvergi að rífa upp mikil hlýindi sunnan úr hlýtempraða beltinu - helst þá í Mið-Asíu.
Við viljum auðvitað komast sem fyrst inn á sandgula svæðið eða betra (5460 metrar) - alla vega losna úr bláa litnum yfir í þann græna (mörkin eru við 5280 metra).
17.4.2012 | 00:50
Heiðasti apríldagurinn
Þá er komið að heiðasta apríldeginum í pistlaröðinni um heiðustu daga hvers mánaðar. Myndefnið er sem oftast fyrr úr safni móttökustöðvarinnar í Dundee í Skotlandi. Það nær aftur til haustsins 1978. Keppnin nær hins vegar aftur til 1949.
Heiðastur er föstudagurinn langi, 2. apríl 1999, og er reyndar heiðasti dagur síðustu 63 ára allra á landinu sé eitthvað að marka þennan reikning (sem er óvíst). Hann er því skör merkari en aðrir heiðustu dagar sem við höfum fjallað um. Næstheiðastur apríldaga er 21. dagur sama mánaðar, 1999, og 1. apríl sama árs í þriðja sæti. Vel af sér vikið apríl 1999.
Myndin er ekki skýr og batnar lítið við stækkun. Þarna sést landið allt, hugsanlega eru einhver ský við annes á Austfjörðum. Gott ef ekki glittir í autt Öskjuvatn (nei, reyndar ekki). Myndin er tekin í sýnilega hluta litrófsins en á innrauðri mynd á sama tíma er einhver einkennileg móska yfir landinu.
Háþrýstisvæði var yfir landinu - einnig í háloftunum og stóð það væntanlega fyrir niðurstreyminu sem komið hefur í veg fyrir skýjamyndun. En ekki var um nein met að ræða í því sambandi.
Einnig var leitað að skýjaðasta deginum. Sú keppni er mjög hörð og varla rétt að gera svo mjög upp á milli keppenda. En við gerum það samt og finnum 5. apríl 1956 (aftur í fornöld - þegar rokkið var að læra að ganga). Þetta var víst á fimmtudag í vikunni eftir páska. Mikið norðanáhlaup var í undirbúningi (rétt einu sinni).
Einnig var leitað að besta og versta aprílskyggninu - en höfum í huga að ekki er mikið að marka þá reikninga. Í ljós kemur að skyggið var best 1. apríl 1999 - daginn á undan deginum heiðasta og verst var það 16. apríl 1951. Þá segir í fréttum að óvenju þungfært hafi verið suðvestanlands. Reyndar snjóaði mun meira fyrir norðan.
16.4.2012 | 01:31
Litlar breytingar
Nú fara lægðir og háloftalægðardrög til austurs fyrir sunnan land. Hingað berst loft ýmist úr norðri eða austri. Engin hlýindi eru því í kortunum - en þegar austanáttarloftið slær sér vestur um geta komið góðir og allhlýir dagar um landið sunnan- og vestanvert. Við skulum sjá þetta á 500 hPa-spánni fyrir morgundaginn 16. apríl.
Eins og venjulega eru jafnhæðarlínur svartar og heildregnar, en jafnþykktarlínur eru rauðar ög strikaðar. Þykktin er mælikvarði á hita í neðstu 5 km veðrahvolfsins. Mikill vindur er þar sem jafnhæðarlínurnar eru þéttar eins og t.d. yfir Labrador. Lægðardrögin sem koma hvert á fætur öðru úr vestri fara til austsuðausturs til Bretlandseyja. Iðan er táknuð með bleikum skellum - en við gefum henni ekki gaum að þessu sinni.
Ef við lítum nánar á þykktina má sjá að veturinn er við Jan Mayen (5100 metra jafnþykktarlínan) en sumarið (5460 metra jafnþykktarlínan) er næst okkur yfir Írlandi og alls ekkert á leið til okkar. Við megum þó sæmilega við una að hafa 5280 metra línuna yfir okkur - það er ekki svo fjarri meðallagi.
Hæðin yfir Grænlandi þokast heldur til norðurs - en endurnýjast við smáskammta af lofti úr suðaustri. Evrópureiknimiðstöðin gerir ráð fyrir því að þessir megindrættir haldist alla vikuna. Þegar háloftalægðirnar komast til Bretlands verður áttin hér norðaustlægari í bili og kalda loftið sækir að þar til vindur snýst aftur til austurs vegna næstu lægðar eða lægðardrags.
15.4.2012 | 01:02
Af afbrigðilegum aprílmánuðum - fyrri hluti, norðan- og sunnanáttir
Við lítum á fastan lið, þá mánuði þar sem vindáttir hafa verið hvað þrálátastar. Þeim sem leiðist þetta má benda á að ársumferðinni fer að verða lokið. Aðeins apríl og maí eru eftir. Notaðir eru sömu fimm flokkunarhættir og áður.
1. Mismunur á loftþrýstingi austanlands og vestan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1873. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri vestanlands heldur en eystra séu norðlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi norðanáttin verið.
Samkvæmt þessu varð norðanáttin mest í apríl 1953. Við rifjuðum nýlega upp að þessi ákveðni apríl var á sinni tíð kaldasti mánuður ársins 1953 - það er mjög óvenjulegt fyrir aprílmánuð. Næstmest var norðanáttin í apríl 1910 og april 1920 er í þriðja sæti. Af nýlegum mánuðum má nefna apríl 1994, i sjötta sæti. Á þessari öld er apríl 2006 með mestu norðanáttina (í 21. sæti af 139).
Mesta sunnanáttin var í fyrra, 2011. Þá var bæði hlýtt og hvassviðrasamt - eins og sumir kunna að muna. Margt var um það spjallað á hungurdiskum á sínum tíma (flettið upp á apríl 2011 í listanum vinstra megin á síðunni). Langt er í næstmestu sunnanáttina í apríl 1874, en hlýjasti apríl allra tíma, 1974, er í þriðja sæti ásamt apríl 1955.
2. Styrkur norðanáttarinnar eins og hann kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær aðeins aftur til 1949.
Apríl 1953 nær hér aftur toppnorðanáttarsætinu - reyndar með talsverðum mun, en síðan koma fjórir mánuðir jafnir í 2. til 5. sætinu, 1959, 1951, 1950 og 1979. Samkvæmt þessu máli er apríl 2011 líka í fyrsta sunnanáttarsætinu og 1974 í öðru sæti.
3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindathugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðvestan, norðan, og norðaustanáttar lögð saman. Þá fæst heildartala norðlægra átta. Þessi röð nær aftur til 1874.
Enn er það apríl 1953 sem tekur efsta norðanáttarsætið en síðan kemur vonbrigðamánuðurinn apríl 1932. Tíðarfarið olli vonbrigðum eftir eindæma hlýjan febrúar og býsna góðan mars, gróður var kominn vel af stað en kulnaði í norðanáttum aprílmánaðar. Þetta var líka einn af gleymdum hafísmánuðum hlýskeiðsins mikla. Ísjakar komust suður fyrir Látrabjarg - sem varla gerist og sömuleiðis suður á Borgarfjörð eystra. Ísinn skemmdi líka bryggjur á Siglufirði. Til allrar hamingju var þetta allt gisinn ís - magnið var ekki mikið.
Mest var sunnanáttin i apríl 2011 og 1974 var hún nánast jafnmikil. Þá voru tún sögð algræn í lok mánaðarins 1974 og garðatrjágróður nær laufgaður suðvestanlands.
4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð.
Enn var norðanáttin mest í apríl 1953, næstmest 1950 og apríl 1932 í þriðja sæti. Allir hafa þeir verið nefndir áður. Sunnanáttin var mest í apríl 1938 en apríl 1974 og 2011 koma skammt á eftir.
5. Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum. Hér er apríl 1953 í þriðja sæti, skammt á eftir 1973 í fyrsta sæti og 1917 í öðru. Sunnanáttin er mest 2011 og næstmest 1974.
Hér voru nokkuð skýrar línur, apríl 1953 er norðanáttamánuðurinn mikli og 2011 mestur sunnanáttarmánaða. Ekkert segir þetta um hvað gerist næst - enga langtímaleitni vindátta er að sjá allt það tímabil sem hér hefur verið fjallað um.
14.4.2012 | 01:41
Spár um úrkomutegund
Úrkomubakkinn sem hungurdiskar fjölluðu um fyrir nokkrum dögum lifir enn og kemur vel fram á nákvæmum nútímaspám reiknimiðstöðvanna. Vegna þess hvað hann er snyrtilegur og lítill um sig verður hann aftur sýningargripur á þessum vettvangi.
Spáin er úr safni evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir kl. 18 síðdegis laugardaginn 14. apríl. Mjög fjölbreyttum upplýsingum hefur verið troðið inn á kortið á skýran hátt, það má þakka Bolla Pálmasyni tölvuteiknimeistara Veðurstofunnar en hann á heiðurinn af teikningu margra þeirra spákorta sem sýnd eru hér á hungurdiskum.
Nútímatölvuspár greina á milli tveggja ólíkra úrkomumyndunarþátta, klakka- og breiðuúrkomu, auk þess að láta þess getið hvort snjór hefur bráðnað eða ekki þegar úrkoma nær til jarðar. Við munum að á okkar breiddarstigi byrjar nær öll úrkoma líf sitt sem snjór. En skýrum ásýnd kortsins.
Litakvarði sýnir heildarúrkomumagn (í mm á 3 klst), þríhyrningar sýna klakkaúrkomu, krossar sýna að um snjókomu er að ræða. Jafnþrýstilínur við sjávarmál eru svartar og heildregnar. Daufar, strikalínur sýna hita í 850 hPa-fletinum, -5°C jafnhitalínan er sú fjólubláa. Hefðbundnar vindörvar eiga við 10 m hæð. Á þeim hlutum úrkomusvæðanna þar sem enga þríhyrninga er að finna er úrkoman talin vera af breiðukyni.
Á kortinu nær heildarúrkoman (litasvæðin) til beggja úrkomutegunda (klakkar, breiður). Krossarnir tákna snjókomu af hvoru tveggja tegundinni, kross ofan í þríhyrningi táknar að um él, - eða snjókomu af klakkauppruna sé að ræða. Sé krossinn einn á ferð er snjókoma af breiðuuppruna á ferðinni. Athugið að innan þeirra þriggja tíma sem úrkomumagnið nær til getur bæði snjóað og rignt úr hvoru tveggja, klökkum og breiðum. Úrkomuákefð má ráða af stærð tákna. Stærðirnar þrjár eru: 0,5 til 1,5mm (minnsta), 1.5 til 5 mm (miðstærð) og stærsta táknið sýnir enn meiri úrkomuákefð.
Klakkaúrkoma er þýðing á hugtakinu convective precipitation, en breiðuúrkoma stratiform precipitation. Á máli reiknimiðstöðvarinner er hugtakið stórkvarðaúrkoma (large scale precipitation notað um breiðuþáttinn. Úrkomuákefð er að jafnaði mun meiri í klökkum heldur en í breiðum. Klakkar leynast oft inni í breiðukerfum.
Það sem helst greinir að klakka- og stórkvarðaúrkomu er að sú fyrrnefnda myndast í uppstreymiseiningum sem eru minni um sig heldur en það umfangsmikla uppstreymi sem myndar breiðuúrkomuna. Lóðréttar hreyfingar sem mynda klakkaúrkomu eru staðbundið ákafari og úrkoman fellur nær þeim stað þar sem uppstreymið á sér stað hverju sinni. Bæði snjóél og skúrir teljast langoftast til klakkaúrkomu.
Á spákorti dagsins má sjá snjókomukrossa nyrst í úrkomubakkanum en annars á hann sér bæði breiðu- og klakkaþátt. Klessan suðaustan við land virðist tengjast meginbakkanum með smáklessudreif sem liggur yfir landið frá norðanverðum Vestfjörðum og suður um.
Það er auðvitað (mikið) vafamál hvort öll þessi smáatriði spárinnar rætast. Geta menn fylgst með því, hver í sinni heimabyggð.
13.4.2012 | 01:09
Tvískiptur nútími? (söguslef 20)
Nútíma (í jarðfræðilegum skilningi tímabilið frá lokum síðasta jökulskeiðs) hefur óformlega verið skipt upp í tvö megintímabil. Annars vegar er hinn hlýi fyrri hluti hans frá því fyrir um 9000 árum til 4500 ára fyrir okkar tíma og hinn kaldi hluti síðan þá. Í skrifum greinir þó mjög á um þessar tímasetningar. Fyrri hlutann köllum við bestaskeið en hinn síðari nýísöld en ýmis nöfn sjást á skeiðunum.
Í grein (Wanner og félaga, 2008) sem fjallað var um í síðasta slefi birtist mynd sem sýna á einkenni veðurlags þessara tveggja hluta nútíma á ýmsum stöðum í heiminum. Þarna var öllu troðið á eitt heimskort. Nýlega birtist stuttur pistill í fréttariti Pages-verkefnasamsteypunnareftir Wanner og félaga hans Stefan Brönniman þar sem myndin hafði verið tekin í sundur - í hvort tímabil fyrir sig (Pages news vol. 20. nr.1). Við skulum nú líta á íslenska endurgerð þessara mynda.
Stækka má myndina með því að smella sig inn í hana í tvígang. Eftir myndinni miðri liggur strikalína sem markar svonefnd hvelamót (ITCZ) sem sýna hér í grófum dráttum mörkin milli áhrifasvæða norður- og suðurhvels þegar sumar er á norðurhveli. Það einkum tvennt sem vekur athygli á myndinni. Í fyrsta lagi hlýindi á norðurhveli og svali á suðurhveli (nema á Indlandshafi) og í öðru lagi norðlæg lega hvelamótanna.
Hin norðlæga lega þeirra yfir Norður-Afríku er að staðfestast betur og betur - enda voru þar mikil vötn þar sem nú er þurrasteppa eða eyðimörk. Legan yfir Karabíska hafinu er svo norðlæg að það tekur á trúverðugleika. En við skulum bara trúa myndinni.
Rakinn í Mið-Asíu er líka merkilegur - en staðreynd. Ekki mun algjört samkomulag vera um hvers vegna þetta var. Við veltum okkur ekki upp úr því. Hér er orðið misserishringrás notað yfir það sem oftast er nefnt monsún. Myndin sýnir tilgátu um að hún hafi verið öflugri á þessum tíma heldur en nú. Varla eru allir sammála um það.
Norður- og Suður-Ameríka eru taldar hafa búið við meiri þurrka heldur en nú og sömuleiðis norðurströnd Ástralíu. Kalt var í austanverðu Kyrrahafi - sumir segja að El Nino hafi alveg legið í dvala. Hér á landi var hlýtt - sem og á Grænlandi. Hvort það gildir í jöfnum mæli um sumar og vetur er ekki víst.
Nafnið nýísöld kann að vera í sterkara lagi, en þetta er þó nokkurn veginn bein þýðing á enska orðinu neoglacial en það er í raun og veru mikið notað. Fyrst þegar farið var að nefna þetta tímabil sérstaklega - fyrir 1940 var nafnið litla-ísöld einnig notað - en nú hefur því verið stolið í annað.
Á myndinni eru hvelamótin mun sunnar en á fyrra skeiði og Sahara situr í þurrkinum. Chad-vatn er aðeins svipur hjá sjón - en hefur samt ekki alveg þornað upp. Vonandi sleppa þeir sem þar búa við þær hörmungar. Hér hafa þurr og rök svæði skipst á um búsetu frá fyrri mynd. Af einhverjum ástæðum er svalt í Suður-Afríku á báðum myndum - hvenær þar var hlýtt kemur ekki fram. Hér er El Nino talinn í þeim gír sem við þekkjum.
Heinz Wanner skrifaði fyrir rúmum áratug (með fleirum) ágæta samantektargreinum NAO-fyrirbrigðið og er það honum kært. Hann hefur því sett NAO-plús með spurningarmerki á bestaskeiðskortið en NAO mínus á nýísaldarmyndina. NAO plús þýðir mikinn lægðagang til austurs um Atlantshaf norðanvert, en syðri lægðabraut er oftast talin ríkja við NAO-mínus ástand. En við ættum að hafa í huga að NAO-vísindin eru ekkert sérstaklega langt komin.
WANNER, H., J. BEER, J. BÜTIKOFER, T.J. CROWLEY, U. CUBASCH, J. FLÜCKIGER, H.GOOSSE, M. GROSJEAN, F. JOOS, J.O. KAPLAN, M. KÜTTEL, S.A. ÜLLER, I.C.PRENTICE, O. SOLOMINA, T.F. STOCKER, P TARASOV, M. WAGNER and M. WIDMANN,2008: Mid- to Late Holocene climate change: an Overview, Quaternary Sci. Rev., 27, 1791-1828, DOI:10.1016/j.quascirev.2008.06.013.
12.4.2012 | 00:54
Hlýjustu apríldagarnir
Þá er að líta á hlýjustu apríldagana á landinu í heild á tímabilinu 1949 til 2011. Reiknaður er meðalhiti allra mannaðra stöðva (á láglendi), meðalhámark og meðallágmark. Því næst er gerður listi yfir hlýjustu dagana í hverjum flokki. Ámóta pistlar hafa birst áður á þessum vettvangi fyrir flesta aðra almanaksmánuði - þó eru maí, júní og júlí enn eftir - og koma vonandi síðar. Fyrir nokkrum dögum litum við á köldustu dagana. Á kuldalistunum var yngsti dagurinn frá 1990 en nú ber öðru vísi við.
Fyrst er það meðalhiti sólarhringsins.
röð | ár | mán | dagur | hæsti meðalhiti |
1 | 2003 | 4 | 18 | 11,08 |
2 | 2007 | 4 | 29 | 10,76 |
3 | 2007 | 4 | 28 | 10,39 |
4 | 2007 | 4 | 30 | 9,26 |
5 | 2003 | 4 | 17 | 9,00 |
6 | 2003 | 4 | 16 | 8,98 |
7 | 1984 | 4 | 25 | 8,87 |
8 | 1974 | 4 | 24 | 8,77 |
9 | 1984 | 4 | 26 | 8,74 |
10 | 2006 | 4 | 28 | 8,60 |
11 | 1972 | 4 | 24 | 8,55 |
12 | 2007 | 4 | 27 | 8,54 |
13 | 2011 | 4 | 9 | 8,49 |
14 | 1976 | 4 | 21 | 8,34 |
15 | 1955 | 4 | 17 | 8,28 |
Eins og við er að búast er meirihluti dagana úr síðari hluta mánaðarins - meðalhiti hækkar ört á þessum árstíma. Tuttugasta og fyrsta öldin á níu daga af fimmtán, þar af sex efstu. Það eru þó einkum tveir dagaklasar sem skera sig úr, 16. til 18. apríl 2003 og 27. til 30. apríl 2007. Einn dagur úr fyrri hluta mánaðarins er á blaði, 9. apríl í fyrra, 2011. Apríl 1984 á tvo daga en 1974 ekki nema einn. Maður hefði fyrirfram e.t.v. búist við fleiri fulltrúum þess afbragðsgóða mánaðar, langhlýjasta aprílmánaðar frá upphafi mælinga hér á landi. Elsti fulltrúinn á listanum er 17. apríl 1955. Um það leyti féllu skæðar skriður víða um land í leysingum.
Meðalhámarkið var hæst eftirtalda daga:
röð | ár | mán | dagur | hæsta m.hámark |
1 | 2007 | 4 | 29 | 15,04 |
2 | 2007 | 4 | 28 | 14,73 |
3 | 2007 | 4 | 30 | 14,61 |
4 | 2003 | 4 | 18 | 13,96 |
5 | 2003 | 4 | 19 | 12,82 |
6 | 2005 | 4 | 20 | 12,69 |
7 | 2006 | 4 | 28 | 12,63 |
8 | 2003 | 4 | 17 | 12,42 |
9 | 1962 | 4 | 28 | 12,17 |
10 | 2003 | 4 | 16 | 12,12 |
Hitabylgjan í lok apríl 2007 er öflug og hún á hæsta hámark mánaðarins, 23,0 stig sem mældust í Ásbyrgi þann 29. Aðeins einn dagur frá fyrri öld er á listanum, 28. apríl 1962 - hver mann þann dag nú? Ritstjórinn ætti að muna hann vel, en gerir það samt ekki. Greinilega hið versta mál.
Að lokum hæsta meðallágmarkið - hlýjasta nóttin vilji menn skýrara orðalag.
röð | ár | mán | dagur | hæsta m. lágmark |
1 | 2003 | 4 | 18 | 7,46 |
2 | 1974 | 4 | 24 | 7,22 |
3 | 2007 | 4 | 28 | 7,18 |
4 | 1984 | 4 | 26 | 6,86 |
5 | 2003 | 4 | 17 | 6,78 |
6 | 2007 | 4 | 30 | 6,42 |
7 | 1980 | 4 | 30 | 6,32 |
8 | 2011 | 4 | 9 | 6,29 |
9 | 1974 | 4 | 20 | 6,11 |
10 | 2007 | 4 | 29 | 6,09 |
Hér á apríl 1974 tvo fulltrúa, þann 20. og þann 24. Hitabylgjurnar 2003 og 2007 eru enn áberandi en enginn dagur er hér eldri en 1974.
Af eldri dögum líklegum til afreka má helst nefna 29. apríl 1942 en fáein aprílhitamet þess dags standa enn, m.a. hæsti hiti aprílmánaðar í Reykjavík, 15,2 stig. Þetta er lægri tala en tilfinning segir að ætti að vera hæsti Reykjavíkurhitinn, það væru frekar 16 til 17 stig. Kannski kemur að því að þetta met falli með braki þegar loksins kemur að því.
Þessi sami dagur átti lengi hæsta aprílhitann á landinu, 19,9 stig en þau mældust á Lambavatni á Rauðasandi. Þetta met hlaut þó aldrei almenna viðurkenningu. Ein hærri eldri tala fannst við lúsaleit fyrir nokkrum árum, 21,4 stig sem mældust á Seyðisfirði þann 16. apríl 1908. Einnig mætti setja út á trúverðugleika þeirrar mælingar - en við látum það vera að þessu sinni.
11.4.2012 | 00:57
Úrkomubakki við Vesturland
Síðdegis í dag (þriðjudag 10. apríl) myndaðist úrkomubakki úti fyrir Vesturlandi. Þegar þetta er skrifað (um miðnætti) er ekki alveg ljóst hversu ágengur hann verður við landið. Spár gera helst ráð fyrir því að hann mjakist vestur og að úrkoma verði ekki mikil á landi. Á þessum árstíma geta bakkar af þessu tagi valdið snjókomu þar sem úrkomuákefðin er hvað mest.
Fyrst lítum við á bakkann eins og hann leit út í veðursjá Veðurstofunnar á Miðnesheiði (mynd af vef Veðurstofunnar).
Bakkinn myndaðist upp úr þurru nú síðdegis - sást ekki fyrr í dag. Engin venjuleg lægða- eða skilakerfi voru á svæðinu, en mjög vön augu gátu trúlega merkt að eitthvað væri á seyði. Við sjáum að ratsjársvörunin er mest á þröngu belti frá suðaustri til norðvesturs og myndar einskonar krók á Faxaflóa. Sé röð ratsjármynda skoðuð fæst sú tilfinning að kerfið sé á hreyfingu til norðvesturs.
Næst er spákort frá evrópureiknimiðstöðinni sem gildir um hádegi á miðvikudag (11. apríl).
Á kortinu eru jafnþrýstilínur dregnar með 2 hPa-bili. Það er þéttara en algengast er á veðurkortum og lægðin virðist því mun öflugri heldur en hún er í raun og veru. Í norðvesturjaðrinum eru þrýstilínurnar raunverulega þéttar - þar er spáð stormi, 20 til 25 m/s vindi. Úrkoma er táknuð með grænum og bláum litum. Í bláu blettunum er spáð meir en 10 mm úrkomu á 6 klst. Þetta nægði ábyggilega í allgóða snjókomu á landi því hitinn í 850 hPa (blástrikaðar línur) er ekki nema mínus sex stig. En kerfið er á leið vestur á bóginn þegar hér er komið sögu og að mestu stytt upp á landi rætist spáin.
En róum nú aðeins dýpra - þeir sem vilja geta stokkið í land.
Veður dagsins býður upp á að hugtakið úrstreymi sé nefnt til sögunnar. Orðið er þýðing á alþjóðaheitinu divergence sem í almennum orðabókum er þýtt sem sundurleitni. Í veðurfræði er þetta hugtak einkum notað um það að loft streymi út úr ákveðnu rými. Vissulega leitar loft þá í sundur en ritstjóra hungurdiska finnst mun einfaldara er að tala um úrstreymi lofts. Andstæða þess er ístreymi.
Þar sem loftþrýstingur fellur er úrstreymi meira heldur en ístreymi. Ein ástæða þess að loft rís er sú að úrstreymi sé í efri loftlögum - ef loftþrýstingur á ekki að falla úr öllu valdi vaknar ístreymi í neðri lögum, lóðrétt hringrás verður til og úrkoma myndast. Dragist loft að úr ólíkum áttum myndast gjarnan skilafletir - úr engu að því er virðist.
Kort sem sýna úr- og ístreymi eru mjög flókin og oftast illgreinanleg - jafnvel gerist að vanir menn fái hiksta við að líta dýrðina. En úrkomubakkinn gefur samt tilefni til að sýna lítinn hluta úr kortum af þessu tagi. Dæmið á við sama tíma og kortið að ofan, á hádegi miðvikudaginn 11. apríl. Evrópureiknimiðstöðin hefur reiknað - þökk sé henni.
Vinstri helmingur myndarinnar sýnir úrstreymi í 400 hPa fletinum, en hann er í um 7 km hæð. Þarna eru líka jafnhæðarlínur flatarins og sýna þær nokkuð skarpt lægðardrag skammt vestur af Íslandi. Rauðu skellurnar eru úrstreymið - þar er því líklega uppstreymi undir. Rauði liturinn er dekkstur vestur af Vestfjörðum
Hægra megin á myndinni má sjá úrstreymi í 850 hPa-fletinum, í um 1400 metra hæð. Jafnþrýstilínur við sjávarmál eru einnig dregnar á kortið (þær sömu og á efri mynd) og vindörvar sýna vindstefnu nærri yfirborði. Styrk má marka af lengd örvanna. Hér er blái liturinn meira áberandi - hann táknar ístreymi, þar er væntanlega uppstreymi fyrir ofan.
Úrkomubakkinn er orðinn til við samspil úrstreymis í efri lögum og ístreymis í þeim neðri. Við sleppum því núna að minnast á það hver ástæða úrstreymisins í 400 hPa er að þessu sinni.
Bakkakerfið á síðan að eyðast á þann hátt að úrstreymið fer til austurs og deyr, þar með deyr ístreymið líka og lægðin veslast upp - hringrásin helst þó lifandi í einn til tvo daga í viðbót - hringhreyfingar deyja helst ekki.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.4.): 22
- Sl. sólarhring: 61
- Sl. viku: 1050
- Frá upphafi: 2460828
Annað
- Innlit í dag: 20
- Innlit sl. viku: 923
- Gestir í dag: 20
- IP-tölur í dag: 20
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010