Norðurhvel á sumardaginn fyrsta

Við lítum enn á norðurhvelsspákort - að þessu sinni gildir það fimmtudaginn 19. apríl - sumardaginn fyrsta. Hægt er að stækka kortið talsvert og bæta með því að smella það tvísvar inn á skjáinn.

w-blogg180412a

Kortið sýnir mestallt norðurhvel jarðar norðan við 30. breiddarstig (og rúmlega það í hornunum). Svartar heildregnar línur sýna hæð 500 hPa flatarins í dekametrum. Hún nær mest um 5880 metra hæð yfir Eþíópíu (í neðra horni til hægri) en lægst er hún skammt frá Svalbarða 5030 metrar.

Þykktin er táknuð með lit. Hún er mest um 5880 metrar (smáblettur yfir Eþíópíu) en lægst í kuldapollinum mikla nærri Svalbarða, 4980 metrar. Myndarlegur kuldapollur er einnig við Baffinsland. Hvorugur kuldapollurinn er í ógnandi stöðu fyrir okkur. Svalbarðapollurinn gengur í hringi í kringum sjálfan sig og gerir það áfram nema sparkað sé í hann. Það á ekki að gerast næstu vikuna - sé að marka tölvuspárnar. Baffinslandspollurinn helst líka á svipuðum slóðum áfram - en sendir áfram frá sér minni polla til austurs fyrir sunnan Grænland og Ísland - rétt eins og verið hefur undanfarna daga.

Fyrir okkur skiptir höfuðmáli að heimskautaröstin (svæðið þar sem jafnhæðarlínur eru þéttastar) liggur beint til austurs langt sunnan Íslands. Við erum því norðan lægðagangsins og skiptast nú á hægir háloftavindar úr vestri og austri. Á þessu korti má sjá að pínúlítill kuldapollur er við Norðausturland og skilur hann að vestræna og austræna loftið.

Því er spáð að máttlaus hryggur komi beint úr austri og fari vestur fyrir land. Þessi spásyrpa (sem lagði af stað um hádegi á þriðjudag) gerir nú ráð fyrir því að vestanáttin nái ekki aftur hingað fyrr en eftir viku - en því er lítið að treysta - þetta hringlast til með hverri nýrri spá. Hægar austanáttir eru alltaf erfiðar viðfangs því þeim fylgja oft minniháttar úrkomuhnútar sem sífellt eru að myndast og eyðast. Skipta þeir máli við útivinnu og gönguferðir. Norðaustanáttin er miklu eindregnari hvað veður varðar.

En hiti, það sem af er apríl, er langt yfir meðallagi á Suður- og Vesturlandi, hann er enn yfir meðallagi fyrir norðan - en Austurland er komið niður fyrir meðallagið. Dægursveifla hita er víða mikil þessa dagana þar sem bjart er í veðri og mjög víða frost um nætur þótt hiti sé allgóður að deginum.

En sem stendur er sem sagt langt í bæði hlýindi og alvörukulda. Eins og sjá má á myndinni tekst heimskautaröstinni nær hvergi að rífa upp mikil hlýindi sunnan úr hlýtempraða beltinu - helst þá í Mið-Asíu.

Við viljum auðvitað komast sem fyrst inn á sandgula svæðið eða betra (5460 metrar) - alla vega losna úr bláa litnum yfir í þann græna (mörkin eru við 5280 metra).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hann er mikill munurinn á apríl nú og í fyrra, hér á Austfjörðum

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.4.2012 kl. 09:31

2 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Sem betur fer er ekki sama upp á teningnum þetta árið og það síðasta hér fyrir austan þegar var 10 stiga hiti og þar yfir með tilheyrandi trjálaufgun. Tók mynd út af pallinum hjá mér 15 júlí þar sem aspirnar voru hálf-laufgaðar upp í 2 - 3 metra en auðar þar ofanvið. Í lok apríl sama ár voru þær al-laufgaðar.

Núna get ég ekki séð að gróðurinn komi til með að bera skaða af, þrátt fyrir NA fýlu og snjókomu, enda hitastigið rétt um 0 ið.

Sindri Karl Sigurðsson, 18.4.2012 kl. 21:17

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Auðvitað er ekki útséð með vorkomuna í ár, en kuldakastið sem gerði síðari hluta maí og í júní í fyrra kom illa ofan í óvenjugóða vorbyrjun - sem var harla óheppilegt.

Trausti Jónsson, 19.4.2012 kl. 00:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 172
  • Sl. sólarhring: 428
  • Sl. viku: 1997
  • Frá upphafi: 2350733

Annað

  • Innlit í dag: 155
  • Innlit sl. viku: 1783
  • Gestir í dag: 154
  • IP-tölur í dag: 153

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband