Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012

Langt í hlýtt loft

Nú er langt í sumarloftið - en samt er kuldinn ekki svo mjög ógnandi. Veturinn er að gefa eftir á norðurhveli en á eftir að gera skæð úthlaup úr virki sínu á næstu vikum. Við vonum samt að þau verstu fari hjá garði hjá okkur. En við lítum á norðurhvelskort.

w-blogg100412

Það þarf að rýna í myndina til að átta sig á henni, hún verður aðeins skýrari sé hún tvístækkuð. Norðurskaut er rétt við bókstafinn H á miðri mynd, Ísland er þar fyrir neðan í daufbláa litnum. Kortið nær suður til Kanaríeyja og vestur til Mexíkó á vinstri hlið. Persaflói er lengst til hægri.

Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar en litafletirnir sýna þykktina. Til hagræðis er hér talað um að sumarið ráði ríkjum þar sem þykktin er meiri en 5460 metrar, það nær yfir sandgul og brúnleit svæði. Í hlýindunum að undanförnu hefur sandguli liturinn náð að strjúka Ísland. En sannleikurinn er sá að það er kröfuharka að biðja um þann lit á þessum árstíma. En til þess að hann snúi aftur þurfa mjög háreistar bylgjur að rísa á heimskautaröstinni og skella á okkur.

Við viljum hins vegar forðast blálituð lægðardrög - sérstaklega þau sem koma úr norðri eða norðvestri, með þykkt undir 5100 metrum. Með þeim koma vorhretin og hafa komið frá upphafi. Það er mikil heppni ef við sleppum heilt vor. En - ekkert er í pípunum þessa dagana sem lenda á beint á okkur. Við sitjum hins vegar í nokkuð svölu lofti, stutt er í 5100 metra litinn á Grænlandssundi en vonandi sleppum við með - norðankalda og næturfrost.

Svo snjóar oftast eitthvað í apríl. Að meðaltali eru 11 alhvítir dagar í apríl á Akureyri, en ekki nema þrír í Reykjavík. Flestir urðu alhvítu dagarnir í apríl í Reykjavík 1990, 13 talsins. Það var ekki mjög gaman.


Norðanáttin grunna

Nú fellur enn einn norðanáttarstrengurinn til suðvesturs yfir landið vestanvert. Þótt dæmi hungurdiska um þetta atriði veðurlagsins séu orðin allmörg skal enn hjakkað í farinu.

w-blogg090412a

Kortið sýnir spá hirlam-líkansins um vind og hita í 950 hPa fletinum kl. 6 að morgni annars páskadags. Meðalhæð 950 hPa-flatarins hér við land er um 400 metrar yfir sjávarmáli. Í þessu tilviki er hann reyndar aðeins neðar, það neðarlega að hann er ekki til yfir hálendinu (þótt kortið sýni vind í hönum). Vindur og vindátt eru táknuð með hefðbundnum vindörvum, flaggað er við 25 m/s. Vindur er 25 m/s á stóru svæði nærri Vestfjörðum.

Jafnhitalínur eru litaðar, rauðar sé hiti ofan frostmarks en bláar strikalínur tákna frost. Það er mest við totu sem örin bendir á. -12 stiga frost. Munur á hita þar og við Suðausturland er því meiri en 14 stig. Þar sem vindurinn er mestur liggur hann nokkurn veginn samsíða jafnhitalínunum, fyrir norðan og vestan land þó aðeins þvert á þær og ber heldur kaldara loft suður og suðvestur á bóginn.

Þessi mikli vindstrengur er mjög grunnur og háloftavindrastir koma ekki við sögu. Með nokkrum rétti má segja að norðaustanátt sé hið eðlilega ástand hér á landi séu háloftavindar hægir. Við skulum líta á sjávarhitakort.

w-blogg090412b

Við sjáum að hér munar 16 stigum á hlýja sjónum suðaustan við land og köldu hafísyfirborði næst Grænlandi. Ekki er það mjög ólíkt hitamuninum á 950 hPa-kortinu að ofan. Við gætum leikið okkur að því að setja vindörvar á sjávarhitakortið. Lægð væri fyrir suðaustan land en hæð yfir hafísnum og norðaustanátt á milli. Þessi norðaustanáttartilhneiging bíður ætíð færis hér á landi hvað sem líður hreyfingum veðurkerfa.


Átakalítil umskipti

Eftir nær stöðuga suðvestanátt og frekar háan loftþrýsting á nú að skipta yfir í norðaustlægar áttir í nokkra daga. Þegar á heildina er litið munu veðurkerfi halda áfram að koma til okkar úr vestri eða norðvestri en háloftavindar verða mun hægari en verið hefur - ef trúa má evrópureiknimiðstöðinni. Við lítum á spá hennar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktarinnar síðdegis á páskadag 8. apríl.

w-blogg080412a

Eins og venjulega eru jafnhæðarlínur heildregnar, en jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar. Við sjáum líka fáeina bleika iðuflekki - en sinnum þeim lítið. Vindur er mikill þar sem jafnhæðarlínur eru þéttar t.d. suður af Grænlandi. Yfir okkur eru jafnhæðarlínur fáar og vindur því lítill í miðju veðrahvolfinu.

Svörtu örvarnar sýna hreyfingu háloftalægðarinnar, síðdegis á laugardag var hún suðvestan Grænlands, á sunnudag á Grænlandshafi og á mánudag er henni spáð suðaustur til Skotlands. Hún hefur ýtt hæðinni miklu sem var suðvestur af landinu til austurs og flatt hana út - allt án átaka sem talandi er um.

Lægðarmiðjan er ekki sérlega köld það er 5220 metra jafnþykktarlínan sem sjá má sem örlítinn hring í miðju lægðarinnar. Þykktin yfir landinu er um 5300 metrar en meðalþykkt í apríl er um 5270 metrar. Ástandið er því ekki mjög fjarri meðallagi árstímans.

En fyrir norðan land er veiklulegur hæðarhryggur og mjög langt bil er á milli jafnhæðarlína. Hins vegar eru jafnþykktarlínurnar miklu þéttari. Þykktarmunur á milli Vestfjarða og Scoresbysunds er um 130 metrar, það eru um 16 hPa. Vegna þess að háloftavindur er nær enginn kemur þykktarbrattinn fram að fullu sem þrýstimunur (og þar með vindur) niður undir jörð. Því er norðaustanstrengur á Grænlandsundi, 15 til 20 m/s. Líklegt er að eitthvað af honum sleppi suður á landið sjálft þegar háloftalægðin fer hjá.

Við sjáum 5160 metra jafnþykktarlínuna í laumast við Grænlandsströnd, nái hún hingað sleppum við ekki við frost - en sólin er farin að hjálpa til.

Við Baffinsland má sjá lítið x sett í miðjan iðuhnút. Þessi litli hnútur á að snúa upp á jafnþykktarlínur vestan við land á þriðjudag. Spár greinir þó á um atriði málsins - enda hnúturinn litill og á eftir að fara yfir Grænland. Þetta verður í öllu falli lítil lægð - en spurning hvort snjóar.


Hversu hátt náði þokusúpan?

Svar er ekki einhlítt, en við lítum á ástandið yfir Keflavíkurflugvelli að kvöldi föstudags 6. apríl - eins og það birtist á háloftariti. Við skulum ekkert óttast svip þess og horfum á það einbeittum augum.

w-blogg070412

Myndin klippt út úr stærri mynd á vef Veðurstofunnar. Á háloftariti má sjá hita, daggarmark, vindátt og vindhraða (og fleira) í sniði upp í gegnum lofthjúpinn. Hæðarmælikvarðar eru tveir á myndinni. Sá til vinstri sýnir þrýsting - en hann minnkar upp á við. Því lægri sem tölurnar eru því hærra er mælingin gerð. Hægri kvarðinn (heldur ógreinilegur) sýnir hæð þrýstiflatanna í fetum (fyrir flugmenn).

Upp á myndinni er upp í lofthjúpnum - ekkert erfitt við það. Lárétti kvarðinn sýnir hita í °C. Kaldast er lengst til vinstri en síðan hlýnar til hægri. Hér er byrjað í mínus 10 stigum, síðan kemur frostmark (0°C) og neðst í hægra horni má sjá töluna 40°C.

Á flestum venjulegum myndum af hita og hæð væri hitakvarðinn hornréttur á hæðarkvarðann. Slík háloftarit eru oft sýnd - en það er óvenjulegt. Hér liggja jafnhitalínurnar á ská upp myndina frá vinstri til hægri.

Tveir ferlar, annar grár en hinn rauður eru merktir inn á ritið, sá grái sýnir hita en sá rauði daggarmark. Daggarmarkið er mælikvarði á raka loftsins. Þar sem hiti og daggarmark eru jöfn er loft rakamettað, því meira bil sem er á milli línanna því þurrara er loftið.

Nú ætti að vera auðvelt að lesa gróflega úr myndinni, Hiti í 850 hPa er um 5°C en um mínus 3 í 700 hPa (grái ferillinn). Daggarmark í 850 hPa er um 3°C en -10°C í 700 hPa.

Svarið við spurningunni í fyrirsögninni liggur nú nokkurn veginn í augum uppi. Rauði og grái ferillinn eru harðlega klesstir saman frá jörð og nærri því upp í 850 hPa, þar gliðna þeir í sundur. Loft á þessu bili er því rakamettað og við erum inni í skýi eða þoku. Ef ferlarnir eru skoðaðir nákvæmlega má sjá smábil í neðsta punkti - e.t.v. hefur ekki verið dimm þoka rétt niður undir jörð.

Á hæðarkvarðanum til hægri má sjá að 850 hPa-flöturinn er hér í 4810 feta hæð, það eru um 1467 metrar. Þokusúpan endar rétt neðan við þá hæð.

Á ritinu má einnig sjá vindhraða. Hann er táknaður með venjubundnum vindörvum. Í 850 hPa eru um 20 m/s (40 hnútar) af vestnorðvestri. Við jörð er minni vindur og þar að auki vestlægari - þetta eru áhrif núnings.


Köldustu apríldagarnir

Haldið er áfram að rekja köldustu daga hvers mánaðar á tímabilinu 1949 til 2011. Nú er komið að apríl. Fyrst er reiknaður meðalhiti allra apríldaga tímabilsins á öllum mönnuðum veðurstöðvum (nema fáeinum á hálendinu). Þeir köldustu eru:

röðármándagurmeðalh.
1196841-12,70
21963410-10,89
3195342-10,06
41967417-8,90
5199043-8,75
6196142-8,45
7196141-8,24
8195341-8,23
9196143-8,19
101988416-8,06
111988411-7,94
121975411-7,93

Fyrstu þrír dagar mánaðarins eru áberandi. Það er ekki óeðlilegt því þeir tilheyra vetrarhluta aprílmánaðar. Í apríl hlýnar hratt meðalhiti í lok mánaðarins er um þremur og hálfu stigi hærri heldur en í upphafi hans.

Á toppinum trónir 1. apríl 1968 nærri tveimur stigum undir deginum í öðru sæti. Hafís lá við norður og austurströndina. Frostið var meir en -16 stig í bæði Reykjavík og Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Ótrúlegt en satt.

Dagurinn í öðru sæti er ekki síður minnisstæður, 10. apríl 1963, páskahret allra páskahreta. Ritstjórinn man ekki 2. apríl 1953 en þessi dagur var inni í mikilli kuldadagasyrpu sem byrjaði nokkrum dögum áður. En viðbrigðin voru líka mikil eftir hlýjan vetur. Fyrir nokkrum dögum var hér rifjað upp að apríl 1953 varð kaldsti mánuður ársins. Nóvember stal því sæti 1963. Vont hefur einnig verið í upphafi apríl 1961, 1., 2. og 3. eru allir á listanum. Yngsti dagurinn er sá þriðji 1990, en apríl það ár var mjög óvenjulegur fyrir sérlega kaldar suðvestanáttir og var hörkuútsynningséljagangur í síðustu viku hans.

Lítum síðan á þá daga sem eiga lægsta meðallágmarkið og hámarkið - fyrst lágmarkið.

röðármándagurm-lágmark
1196841-18,39
21963411-13,33
3197342-12,38
4195342-12,20
5196842-12,16
6199043-12,16
71963410-11,83
81967417-11,63
9196142-11,43
101951414-11,19

Þetta eru að miklu leyti sömu dagar. þó skýst 2. apríl 1973 upp í þriðja sætið. Hér er 1. apríl 1968 með fimm stigum lægra meðallágmark heldur en dagurinn í öðru sæti og sýnir það vel þann sérflokk sem þessi dagur skipar.

Flestir sofa af sér lágmarkshita næturinnar en eru á ferðinni í hámarki dagsins. Lágt hámark er eitthvað sem menn finna á líkamanum. Yfirleitt er bæði sólarlítið og hvasst þá daga sem skipa lista lægstu hámarka.

röðármándagurm-hámark
1196841-9,33
2195342-8,05
31988411-5,84
41963411-5,63
5195341-5,26
6197341-5,22
7196142-4,87
8197342-4,68
91975411-4,49
10196141-4,46

Enginn dagur á möguleika í 1. apríl 1968 og 2. apríl 1953 er einnig langt neðan annarra. Ellefti apríl 1988 er þarna kominn í þriðja sætið, fulltrúi leiðinlegrar viku þar sem m.a. féllu snjóflóð og ollu tjóni bæði á Siglufirði og í Seyðisfirði.


Risabóla af hlýju lofti fer hjá (eins og algengt er)

Áður en við leggjum á hið fræðilegra djúp skulum við fyrst líta á veðurkort eins og flestir eru vanir að rýna í. Þetta er spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um þrýsting við sjávarmál, úrkomu og hita í 850 hPa-fletinum kl. 18 síðdegis á fimmtudag 5. apríl (skírdag).

w-blogg050412a

Jafnþrýstilínur eru svartar og heildregnar (með 4 hPa bili). Grænu og bláu litafletirnir sýna 6 klst úrkomumagn (sjá kvarðann) og litaðar strikalínur sýna hita í 850 hPa-fletinum (á gildistíma í 1400 til 1500 metra hæð yfir Íslandi). Frostmarkslínan (0°C - grænstrikuð))  liggur um Ísland frá norðvestri til suðausturs. Skammt suðvestur af landinu er +5°C jafnhitalínan rauðstrikuð.

Rauðu örvarnar fylgja nokkurn veginn hlýjum loftstraumi langt sunnan úr hafi og breiðir hann úr sér á Grænlandshafi. Bláu örvarnar sýna hins vegar ískalt heimskautaloft ryðjast í átt til Noregs - en þar er leiðindahret - því verra eftir því sem norðar dregur. Sjá má að þessi kaldi straumur teygir arma í átt til Íslands en verður lítið ágengt í bili hlýja loftið er svo fast fyrir. Það mun ráða ríkjum hér á landi í að minnsta kosti tvo til þrjá daga.

Eins og fjallað var um á hungurdiskum fyrir nokkrum dögum fer illa um vind úr norðvestri hér á landi (aðallega vegna áhrifa Grænlands). Því er kalda loftið tregt til að yfirgefa svæðið nema vindur snúist í vestur eða suðvestur. Frekar að það sitji eftir og blandist hlýja loftinu sem þar með nær sér síður á strik niður við jörð. Tölvuspár gera því ekki ráð fyrir hitametum á landinu - þótt full efni séu í slíkt - rétt eins og í síðustu viku´- þykktin á að fara upp fyrir 5500 metra.  

En leggjum nú frá landi í átt til nördamiða og lítum á tvö spákort til viðbótar frá evrópureiknimiðstöðinni, bæði gilda á sama tíma og grunnkortið hér að ofan, kl.18 á skírdag.

w-blogg050412b

Þaulsetnir lesendur hungurdiska kannast við svipinn á þessu korti - ættingjum þess hefur brugðið fyrir nýlega. Hér má sjá mættishita í veðrahvörfunum í 9 til 12 km hæð. Mættishiti galdrast fram með því að láta loft taka ímyndaða dýfu niður að sjávarmáli (1000 hPa-flötinn). Það gerist aldrei - en við dýfuna hitnar það um 1°C á hverja 100 metra lækkun. Tölurnar eru í Kelvinstigum (K=°C+273). Hæsta talan á kortinu er 400K eða 130°C!

Á kortinu sést sérlega vel hvernig strókur af hlýju lofti gengur sunnan frá Asóreyjum til Grænlands, fellur þar fram yfir sig (til austurs) og býr til risabólu af hlýju lofti. Bólan hreyfist hratt til austurs og síðar suðausturs til Bretlands. Við lendum þá í heldur kaldara lofti sem fylgir á eftir. Græna svæðið sem hér er yfir Labrador fer austur um og yfir okkur, en kalt loft úr norðri stingur sér undir það við Ísland - sé eitthvað að marka spár.

Eitt kort enn. Lesendur eru að venju hvattir til að dást að formunum á því frekar en að brjóta heilann um  hvað þetta nákvæmlega er.

w-blogg050412c

Flestir munu sjá sama strókinn sunnan úr hafi mynda risabóluna á Grænlandshafi. Svörtu heildregnu línurnar sýna hæð 200 hPa-flatarins og slagar hann í 12 km í hæðinni í miðju bólunnar. Litafletirnir sýna mættisiðu í fletinum. Við skulum láta það liggja á milli hluta hvað það er. Rauðu örvarnar eiga að sýna hvernig hæðin breiðir úr sér til allra átta. Að hún gerir það sjáum við á  dökkrauðum borða sem liggur í kringum mestalla hæðina. Hvaða borði er þetta?


Hve oft hefur apríl verið kaldasti mánuður ársins?

Oftast er það einhver vetrarmánaðanna, desember til mars, sem er kaldasti mánuður ársins á landinu. Í lista hungurdiska um meðalhita allra mánaða frá og með 1823 til og með 2011 eru 189 ár. Á þessu árabili hefur janúar verið kaldastur 52 sinnum (28%), febrúar 51 sinnum (27%), mars 44 sinnum (23%) og desember 30 sinnum (16%). Þá eru 12 tilvik (6%) eftir handa öðrum mánuðum.

Þeir eru reyndar aðeins tveir, nóvember og apríl. Þar af á nóvember 9 tilvik en apríl ekki nema 3 af 189. Hungurdiskar hafa reyndar minnst á þetta óeðli aprílmánaðar áður og var þá fjallað um Reykjavík eingöngu. En nú hefur samsvarandi listi verið gerður fyrir landið í heild. Hvaða aprílmánuðir skyldu þetta vera?

Fremstur í flokki er apríl 1876, þá var talið áfreðasamt nyrðra en þurrkar voru til ama sunnanlands. Kannski hefur verið þolanlegt sunnan undir vegg á Suðvesturlandi í norðanátt og sólskini. Það gerðist ekki aftur fyrr en 1922 að apríl var kaldasti mánuður ársins. Sá mánuður fékk allgóða dóma. En mjög lítill munur var á fjórum fyrstu mánuðum ársins hvað hita snerti. Næstur í röðinni er apríl 1953. Þá var mjög leiðinleg tíð með hríðarveðrum og gróður sem lifnaði á góu þennan vetur sölnaði aftur.

Síðan hefur apríl aldrei verið kaldasti mánuður ársins. Slík upplifun er ekkert sérstaklega eftirsóknarverð - eða hvað?


Kuldaskeið nútíma (söguslef 19)

Orðið nútími er hér í jarðfræðilegri merkingu (sumir nota stórt N) það er að segja tímabilið frá lokum síðasta jökulskeiðs til okkar daga. Þetta eru um 11 þúsund ár. Í dag verður slefað um kuldaskeið nútíma eins og þau hafa verið göldruð út úr þokunni í fáeinum greinum þar sem maður að nafni Heinz Wanner er fyrsti höfundur.

Wanner og ritstjórinn eru gamlir samstarfsmenn í veðurfarssöguþykkninu - snertiflöturinn var að vissu leyti 18. öldin. Meðan sá sem þetta skrifar hefur haldið sig nær eingöngu í veðurmælingum lenti Heinz í veðurvitnafræðum - og hefur á síðustu árum gefið út nokkrar greinar í samstarfi við fjölda manns um veðurfar á nútíma (þeim jarðfræðilega). Að þessu sinni er aðeins vitnað í tvær þeirra - þær eru fleiri.

Sú frá 2008 (sjá lok pistilsins) er „nauðsynlegur“ bakgrunnur fyrir þá sem vilja fara út í smáatriði málsins (en þau eru fjölmörg). Myndirnar tvær hér að neðan eru hins vegar fengnar að láni úr nýrri greininni (2011).

Höfundar greinarinnar frá 2011 leggja út í það fen að telja saman kuldaköst sem minnst er á í nærri 50 greinum um veðurlag nútíma - víðs vegar um heiminn. Fyrst eru þau merkt á blað eins og myndin hér að neðan sýnir.

w-blogg030412a

Það er helst að þessi mynd minni á gamla rúllu úr sjálfspilandi píanói en hún er samt nokkuð skýr. Lárétti ásinn sýnir þúsundir ára frá okkar tíma en sá lóðrétti breiddarstig jarðar. Tilgangur þessarar myndar er fyrst og fremst sá að skýra út hvernig síðari myndin er gerð. Þar hefur fjöldi kuldakasta á hverju tímabili verið lagður saman og kemur þá í ljós hvenær þau hafa komið flest á sama tíma á flestum breiddarstigum.

w-blogg030412b

Blái ferillinn sýnir það. Greinilegt er að kuldaköstin hafa komið í klösum - en síðan er eitthvað undirliggjandi suð. Lárétti ásinn er sami tímakvarði og áður. Bleikleiti ferillinn sýnir aftur á móti svokallaðar Bond-sveiflur í magni ísamalar í djúpsjávarkjörnum á Atlantshafi. Ísamöl (ird) er eins og nafnið bendir til möl (eða frekar grófur sandur) sem fátt nema ís hefur getað borið langt suður fyrir þau ísútbreiðslumörk sem við eigum að venjast. Magn ísamalar virðist hafa komið í hrinum með um 1500 ára bili. Tölurnar á myndinni eiga við Bond-sveiflur sem hafa hlotið sérstök númer. Það er álitamál hvort kuldakastavísitalan og ird-virknin falla saman.

Rétt er að minnast á að enginn hitamælir er borinn saman við línuritið þannig að langtímaleitni hitans er marklaus á myndinni. Kuldaköstin eru eingöngu kaldari heldur en skeiðin fyrir og eftir.

Bláu, lóðréttu böndin á myndinni sýna sex kuldaskeið sem höfundar telja hafa gengið yfir frá því að ísöld lauk. Eru þau sem hér segir (ártöl fyrir okkar daga):

  byrjarendarokkar tímatal
183008100
264006200
346004300
428002600
516501450300 til 500
66504501300 til 1500 

Ekki ber að taka tímamörkin allt of hátíðlega. Í greininni eru einnig birtar myndir sem sýna jökla- og þurrkavísitölur unnar á sama hátt, sem hvor um sig eru byggðar á tugum vísindagreina. Þegar allt er saman komið má e.t.v. fara að giska á ástæður kastanna. Þær kunna að vera mismunandi. Wanner og félagar eru með vangaveltur þar um - en þegar saman kemur hópur manna sem getur varla verið alveg sammála verður útkoman heldur loðin málamiðlun. Kannski samt sú skásta sem býðst vilji menn hafa sitt nokkurn veginn á hreinu.

En okkur ber að virða tilraunina og þá miklu vinnu sem liggur að baki. Fleira verður e.t.v. um þetta fjallað síðar.

Vitnað er í:  

WANNER, H., J. BEER, J. BÜTIKOFER, T.J. CROWLEY, U. CUBASCH, J. FLÜCKIGER, H.GOOSSE, M. GROSJEAN, F. JOOS, J.O. KAPLAN, M. KÜTTEL, S.A. ÜLLER, I.C.PRENTICE, O. SOLOMINA, T.F. STOCKER, P TARASOV, M. WAGNER and M. WIDMANN,2008: Mid- to Late Holocene climate change: an Overview, Quaternary Sci. Rev., 27, 1791-1828, DOI:10.1016/j.quascirev.2008.06.013.

WANNER, H., SOLOMINA, O., GROSJEAN, M., RITZ, S.P., and JETEL, M., 2011: Structure and origin of Holocene cold events, Quaternary Science Reviews 30 (2011) 3109-3123


Frostmarkskort mánudaginn 2. apríl

Hversu hátt frá jörð lendum við í frosti? Svarið er mikilvægast fyrir flugmenn sem þurfa að forðast ísingu. Handa þeim eru framleidd kort sem sýna svarið við þessari spurningu á hverjum tíma. Við lítum á eitt slíkt úr fórum evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir það kl. 18 mánudaginn 2. apríl. Hæð yfir sjó er alltaf tilgreind í fetum í flugi - við umberum það með bros á vör.

w-blogg020412

Útlínur landa eru daufar en ættu samt að sjást. Kortið nær suður til Írlands, vestur fyrir Grænland og austur á vesturströnd Noregs. Ör bendir á Ísland, fyrir miðju korti. Einnig má sjá jafnþrýstilínur við sjávarmál á kortinu. Þær eru dregnar með tveggja hPa millibili.

Dekksti grænblái liturinn sýnir hvar frostmarkið liggur niður undir sjávarmáli (eða á yfirborði lands). Þannig er það yfir meginhluta Íslands þegar kortið gildir og einnig yfir stóru svæði austur og norður af landinu. Suðvestanlands er frostmarkið í 500 til 1000 feta hæð (u.þ.b. 200 til 300 metrum). Yfir landi er þó nákvæmni ekki að treysta.

Á kortinu virðist verði niðri við frostmark í Færeyjum á morgun - eins og nú í kvöld (sunnudag), það er harla kalt. Snjóa mun á hálendi Skotlands. Spár segja að 5220 metra jafnþykktarlínan (ekki sýnd hér) fari næstu daga alveg suður á Frakkland, henni fylgir hvít úrkoma - alla vega að næturlagi.

Þótt mánudagurinn verði kaldur hér á landi miðað við það sem hefur verið að undanförnu er útlit fyrir að við sleppum við aðalbitið í þessu kuldakasti norðan úr íshafi. Í dag (sunnudag) var gríðarlegur éljagangur við strendur Þrændalaga og Hálogalands í Noregi.

En megintilgangurinn með því að sýna þetta kort er að benda á hlýju blettina í niðurstreymi við Grænland. Annars vegar í austanáttinni á Vestur-Grænlandi og hins vegar blæs mildur vindur af suðvestri við Scoresbysund og frostmark þar reiknast í yfir 1000 metra hæð þar sem það er hæst.

Hlýja loftið er sumsé enn á ferð fyrir vestan okkur - skyldi það ná til okkar aftur?


Norðvestanátt í háloftunum

Nú er slétt og falleg norðvestanátt í háloftunum en meinlítið kusk við jörð. Við lítum fyrst á spá um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina. Hún gildir kl. 18 á sunnudag (1. apríl). Textinn hér að neðan flokkast ekki undir léttmeti og höfðar til fárra.

w-blogg010412a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar og svartar, dregnar með 6 dekametra bili (1 dam=10 metrar). Jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar einnig dregnar með 6 dekametra bili. Iða í 500 hPa er sýnd sem grábleikur litur - en kemur ekki við sögu í textanum að neðan.

Við sjáum þéttar jafnhæðarlínur liggja yfir Ísland og hafsvæðin austan við land. Yfir landinu er vindstyrkur um 20 m/s en yfir 40 m/s austur af. Við sjáum af legu jafnhæðarlínanna að vindstefna er úr norðvestri. Þessi mikli vindur nær ekki til jarðar. Vanir kortalesarar sjá hvers vegna - en við skulum ekki velta okkur upp úr því hér.

Þykktar- og hæðarlínurnar í norðvestanáttinni eru ekki alveg samsíða. Inn á kortið hefur verið bætt nokkrum bláum og rauðum örvum til að hlýtt og kalt aðstreymi sjáist betur. Kalda loftið sækir hægt að á mestum hluta svæðisins.

Við skulum líta á þykktargildin. Það er 5340 metra línan sem liggur beint yfir Reykjavík. Þegar hitametið var sett á fimmtudaginn var þykktin uppi í um 5500 metrum, hún hefur fallið um 160 metra. Gróflega jafngildir það um 8 stiga kólnun. Línan sem liggur um Melrakkasléttu sýnir 5220 metra - þar er því um 6 stigum kaldara í neðri hluta veðrahvolfs heldur en yfir Reykjavík.

Vegna truflandi áhrifa Grænlands er oft lítið samband á milli lofts í 5 km hæð og þess sem lægst liggur þegar vindur blæs úr norðvestri. Þá fær mjög þunnt lag af köldu lofti úr norðri oft tækifæri til þess að fleygast undir það hlýrra. Þá vill verða talsvert kaldara í neðstu lögum heldur en þykktin segir til um. Og þannig er það nú.

Við lítum á spá um vind og hita í um 500 metra hæð á sama tíma og kortið að ofan.

w-blogg010412b

Kortið sýnir hefðbundnar vindörvar og auk þess jafnhitalínur. Tveggja stiga jafnhitalínan er rauð, frostmarkslínan græn og bláar strikalínur sýna hita neðan frostmarks, 2 stig eru á milli línanna. Mínus 10 stiga jafnhitalínan er skammt undan Norðausturlandi og virðist heldur þokast nær.

Hér sést aðsókn kalda fleygsins nokkuð vel. Kalda loftið er svo grunnt að það flæðir sitt hvoru megin við landið án þess að komast yfir. Það kemur úr austri meðfram suðausturströndinni, en úr norðvestri eða norðri um landið vestanvert. Spár eru ekki alveg sammála um úrkomumagn eða úrkomutegund samfara syðri fleygnum og skilasinnar varla sammála um hvers konar veðraskil séu hér á ferðinni. Ég bið bara að oss verði vægt við samskilabút.

Ef til vill er þessi staða dæmi um það sem amerískir skilaspekúlantar kalla bakdyrakuldaskil (back door cold front). Slík skilakerfi koma þar úr norðaustri inn yfir Nýja-England þegar kalt loft fleygast undir hlýtt svipað og við sáum að ofan. Ritstjóri hungurdiska er andsnúinn þessari hráu þýðingu hér að ofan. Hvað sem við svo köllum þetta á íslensku er það ekkert líkt hefðbundnum kuldaskilum - en á e.t.v. skilið að heita eitthvað því staða sem þessi er ekki svo óalgeng.  


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 45
  • Sl. sólarhring: 78
  • Sl. viku: 443
  • Frá upphafi: 2343356

Annað

  • Innlit í dag: 37
  • Innlit sl. viku: 397
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 33

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband