Af afbrigðilegum aprílmánuðum - fyrri hluti, norðan- og sunnanáttir

Við lítum á fastan lið, þá mánuði þar sem vindáttir hafa verið hvað þrálátastar. Þeim sem leiðist þetta má benda á að ársumferðinni fer að verða lokið. Aðeins apríl og maí eru eftir. Notaðir eru sömu fimm flokkunarhættir og áður.

1. Mismunur á loftþrýstingi austanlands og vestan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1873. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri vestanlands heldur en eystra séu norðlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi norðanáttin verið.

Samkvæmt þessu varð norðanáttin mest í apríl 1953. Við rifjuðum nýlega upp að þessi ákveðni apríl var á sinni tíð kaldasti mánuður ársins 1953 - það er mjög óvenjulegt fyrir aprílmánuð. Næstmest var norðanáttin í apríl 1910 og april 1920 er í þriðja sæti. Af nýlegum mánuðum má nefna apríl 1994, i sjötta sæti. Á þessari öld er apríl 2006 með mestu norðanáttina (í 21. sæti af 139).

Mesta sunnanáttin var í fyrra, 2011. Þá var bæði hlýtt og hvassviðrasamt - eins og sumir kunna að muna. Margt var um það spjallað á hungurdiskum á sínum tíma (flettið upp á apríl 2011 í listanum vinstra megin á síðunni). Langt er í næstmestu sunnanáttina í apríl 1874, en hlýjasti apríl allra tíma,  1974, er í þriðja sæti ásamt apríl 1955.

2. Styrkur norðanáttarinnar eins og hann kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær aðeins aftur til 1949.

Apríl 1953 nær hér aftur toppnorðanáttarsætinu - reyndar með talsverðum mun, en síðan koma fjórir mánuðir jafnir í 2. til 5. sætinu, 1959, 1951, 1950 og 1979. Samkvæmt þessu máli er apríl 2011 líka í fyrsta sunnanáttarsætinu og 1974 í öðru sæti.

3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindathugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðvestan, norðan, og norðaustanáttar lögð saman. Þá fæst heildartala norðlægra átta. Þessi röð nær aftur til 1874.

Enn er það apríl 1953 sem tekur efsta norðanáttarsætið en síðan kemur vonbrigðamánuðurinn apríl 1932. Tíðarfarið olli vonbrigðum eftir eindæma hlýjan febrúar og býsna góðan mars, gróður var kominn vel af stað en kulnaði í norðanáttum aprílmánaðar. Þetta var líka einn af gleymdum hafísmánuðum hlýskeiðsins mikla. Ísjakar komust suður fyrir Látrabjarg - sem varla gerist og sömuleiðis suður á Borgarfjörð eystra. Ísinn skemmdi líka bryggjur á Siglufirði. Til allrar hamingju var þetta allt gisinn ís - magnið var ekki mikið.

Mest var sunnanáttin i apríl 2011 og 1974 var hún nánast jafnmikil. Þá voru tún sögð algræn í lok mánaðarins 1974 og garðatrjágróður nær laufgaður suðvestanlands.

4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð.

Enn var norðanáttin mest í apríl 1953, næstmest 1950 og apríl 1932 í þriðja sæti. Allir hafa þeir verið nefndir áður. Sunnanáttin var mest í apríl 1938 en apríl 1974 og 2011 koma skammt á eftir.

5. Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum. Hér er apríl 1953 í þriðja sæti, skammt á eftir 1973 í fyrsta sæti og 1917 í öðru. Sunnanáttin er mest 2011 og næstmest 1974.

Hér voru nokkuð skýrar línur, apríl 1953 er norðanáttamánuðurinn mikli og 2011 mestur sunnanáttarmánaða. Ekkert segir þetta um hvað gerist næst - enga langtímaleitni vindátta er að sjá allt það tímabil sem hér hefur verið fjallað um.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Sunnanáttin 1974 hefur væntanlega verið í hæðarsveigju miðað við hvað hún var hlý. Í fyrra var hinsvegar mikill útsynningsbragur á sunnanáttinni með risjóttu veðri suðvestanlands. Í mínum bókum (frá 1987) er sunnanáttin í apríl vissulega mest árið 2011 en suðvestanáttin skorar þó enn hærra.

Emil Hannes Valgeirsson, 15.4.2012 kl. 16:53

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Jú, Emil. Það munaði um 18 hPa á meðalloftþrýstingi í apríl 1974 og 2011 og var meðalþrýstingur í apríl 2011 einn sá lægsti sem vitað er um. Miklu hefur því munað á beygjunni.

Trausti Jónsson, 16.4.2012 kl. 01:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5
  • Slide4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 68
  • Sl. sólarhring: 114
  • Sl. viku: 1692
  • Frá upphafi: 2349652

Annað

  • Innlit í dag: 62
  • Innlit sl. viku: 1533
  • Gestir í dag: 60
  • IP-tölur í dag: 57

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband