Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012

Óvenjulega hlý ársbyrjun norðaustan- og austanlands

Nú fer að líða að uppgjöri vetrarins. Desember var óvenjukaldur þannig að varla er von á háum hitatölum fyrir veturinn í heild, en uppgjörið fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins er hins vegar óvenjulegt. Svo virðist að meðalhiti þeirra verði sá hæsti norðaustanlands alveg frá 1964. Fyrstu þrír mánuðir þess árs eru í sérflokki um land allt og verður ekki hnikað að þessu sinni. Á Akureyri keppir byrjun ársins nú við þann fræga vetur 1929 um annað sætið í hlýindakeppninni.

Veðurstofan birtir uppgjör fyrir allmargar stöðvar á mánudag eða þriðjudag. Þrátt fyrir mjög hlýja tíð í Reykjavík er þar ekki um topphitakeppni að ræða - einkum vegna þess hve hlýindi síðustu 10 ára hafa verið ótrúleg í langtímasamhengi.

Nú er spurning um snjóa- og ísalög nyrðra - hafa heiðar og fjöll lent í svo miklum hlákum að undan svíði? Eða er þar allt með felldu?

Það þarf auðvitað ekki að taka fram að veðurlag þessara þriggja mánaða segir ekkert um framhaldið. Vetrarhlýindin 1929 og 1964 sáu þó til þess að þessi ár urðu í heild meðal þeirra allra hlýjustu sem vitað er um. Árið 1929 fór kulda að slá að eftir mitt sumar - og vor og sumar 1964 voru ekkert sem vert er að hlakka til.  


Þá féll það (marshitametið)

Gögn eru ekki sótt í sjálfvirka stöð Veðurstofunnar í Kvískerjum í Öræfum nema tvisvar á sólarhring, kl. 12 og 24. Biðin eftir nýjum gögnum var óvenjuspennandi í dag enda lofaði stöð Vegagerðarinnar á sömu slóðum mjög góðu. Þar mældist hámarkshiti dagsins 19,6 stig um kl. 17.

Skráningu á vegagerðarstöðvunum er þannig háttað að ívið minni líkur eru þar á ofurhámörkum heldur en á stöðvum Veðurstofunnar og annarra sem fylgja sömu háttum. Á móti kemur að vegagerðarstöðvarnar eru settar upp á stöðum þar sem vænta má hvassra vinda. Sú staðreynd eykur líkur á að hár hiti mælist.

Ákveðnar líkur voru því á að hámarkshiti á Kvískerjastöð Veðurstofunnar yrði meiri heldur en á vegagerðarstöðinni. En það var langt í frá gefið.

En þannig fór að hámarkshitinn varð 0,9 stigum hærri á veðurstofustöðinni, 20,5°C á móti 19,6. Glæsilegt marsmet, 1,7 stigum ofan við  gamla metið sem sett var á Eskifirði 28. mars árið 2000.

Samkvæmt greiningu/spá evrópureiknimiðstöðvarinnar var þykktin á þessum slóðum í 5520 metrum -svipað og mest er vitað um í mars. Mættishiti í 850 hPa fór í dag (í sömu greiningu/spá) hæst í um 24 stig.

Hafa nú landshámörk í mars fallið hér á landi, í Skotlandi og í Noregi. En Kvískerjastöðvarnar hafa ekki verið þar mjög lengi - og alveg hugsanlegt að hiti hafi á undanförnum áratugum farið jafnhátt og nú á þessum slóðum. En glæsilegt engu að síður.

En rétt er samt að taka fram að það tekur einhvern tíma að kanna metið - t.d. hvort hliðrun sé í mælinum. Vegagerðarmælingin bendir þó til þess að svo sé ekki.


Vikmögnun á norðurslóðum? (söguslef 18)

Nú er liðið nærri ár frá síðasta söguslefi hungurdiska. Sjálfsagt eru allir nema hörðustu lesendur búnir að gleyma hvað það er þannig að rétt er að rifja það upp. Söguslefið er umfjöllun um langtímaveðurfarssögu þar sem ritstjórinn slefar upp það sem aðrir hafa skrifað og setur fram á frjálslegan hátt. Beðist er afsökunar á slefvillum - þær eru ritstjóranum að kenna. Flest slefin flokkast undir nördaefni.

Að þessu sinni er fjallað um það sem kallað er „vikmögnun á norðurslóðum“ frjáls íslensk þýðing á enska hugtakinu „Arctic Amplification“ en það sést oft í umræðu um veðurfarsbreytingar. Hugmyndin er sú að veðurfarsbreytingar séu allar mun magnaðri á norðurslóðum heldur en annars staðar, músartíst í hitabeltinu verði að mammútsöskri í Síberíu og dauðaþögn á Grænlandi.

Um þetta er fjallað í góðri fjölhöfundagrein sem birtist í Quaternary Science Reviews árið 2010. Tilvísun er hér að neðan - fyrir alla muni lesið hana en hún er í opin á netinu og skilar sér strax í leit hjá frú gúgl. Quaternary í titli ritsins vísar til þess jarðsöguskeiðs þess sem staðið hefur í síðustu tvær til tvær og hálfa milljón ára og hefur verið nefnt kvartertíminn á íslensku (við látum vera að snúa út úr því að sinni).

Í greininni er rakið hvernig hitafari var háttað á fjórum skeiðum jarðsögunnar, annars vegar á norðurskautssvæðinu og hins vegar í „heiminum öllum“. Þessi fjögur skeið eru: Hlýjasti bútur plíósenskeiðsins fyrir um 3,5 milljónum ára síðan, hlýjasti bútur síðasta stórhlýskeiðs ísaldar (sem oft nefnt Eem-skeiðið) fyrir um 130 þúsund árum, kaldasti stubbur síðasta jökulskeiðs fyrir um 20 þúsund árum og svonefnt bestaskeið nútíma fyrir um 8 þúsund árum. Fimmta skeiðið er reyndar einnig með - en það er það tíðarfar sem við nú búum við.

Út úr þessu öllu kemur athyglisverð mynd sem við skulum líta nánar á.

w-blogg290312

Henni er óbeint stolið úr greininni þannig að notuð er gerð hennar sem birtist nýlega í fréttariti Pages-verkefnisins svonefnda en það fjallar um hnattrænar náttúrufarsbreytingar fyrri tíma (past global changes). Auðvelt er að finna það og fréttabréfin á netinu.

En lítum á myndina. Á lárétta ásnum má sjá vik heimshitans frá meðallagi (sem er auðvitað ekkert meðallag - heldur bara það sem við búum við í dag). Talið er að hiti þegar kaldast var á síðasta jökulskeiði hafi á heimsvísu verið um 5 stigum kaldari heldur en nú en á sama tíma hafi verið um 20 stigum kaldara heldur en í dag á norðurslóðum. Bláa svæðið á myndinni á að sýna þetta. Líklegustu ágiskanir eru taldar rúmast innan armanna á krossinum sem er í miðju svæðinu. Þar eru gefin nokkuð rúm mörk norðurslóðaviksins, frá -15 niður í -25 stig. Ískyggilegt.

Í efra hægra horni myndarinnar má hins vegar sjá ágiskanir um hitafar á plíósen. Giskað er á að þá hafi hiti á heimsvísu verið um fjórum stigum hærri heldur en er nú á dögum. Vissan um þetta er hins vegar lítil - láréttu örvarnar afmarka bilið frá tveimur og upp í sex stig. Hins vegar telja menn sig hafa neglt norðurslóðavikið betur niður, í kringum 10 til 12 stig. Það er líka ískyggilegt.

Á milli þessara öfgatíma eru svo tvö minni hlýskeið. Annað er það stóru hlýskeiðanna sem fór næst á undan því sem við nú lifum (Eem). Talið er að þá hafi hiti á norðurslóðum verið allt að fimm stigum hærri heldur en nú er - en heimshitinn er óvissari, á bilinu núll til tveggja stiga yfir nútímalagi.

Síðasta dæmið er svokallað bestaskeið nútíma - (holocene thermal maximum) en tilgátur eru uppi um það að hámarkshita á norðurslóðum hafi verið náð fyrir um átta þúsund árum. Þá hafi verið um tveimur stigum hlýrra heldur en nú á norðurslóðum en e.t.v einu stigi hlýrra í heiminum í heild.

Um ástæður þessara miklu veðurfarssveiflna er ekki fjölyrt hér, en greinin er með ýmsar vangaveltur þar um. Höfuðáhersla hennar er þó auðvitað sú hvernig menn fara að því að giska á hitafar fyrri tíma.

Út úr þessum fjórum (fimm) punktum er reiknuð aðfallslína og fæst þá niðurstaðan sem nefnd er á myndinni: Hitavik eru rúmlega þrisvar sinnum stærri (3,4) á norðurslóðum heldur en í heiminum í heild. Nákvæmnin hér er mikið álitamál en rök greinarinnar eru nokkuð sannfærandi.

Greinin fjallar einnig um hafísinn og örlög hans. Í hlýindum plíósen er talið að hans hafi aðeins gætt um hávetur og ábyggilega hafi hann þá ekki náð að þekja Norðuríshafið. Á Eem er talið að hann hafi horfið að mestu að sumarlagi en myndast á hverjum vetri - alla vega á stórum svæðum. Gert er ráð fyrir því að á bestaskeiði hafi hann flökt við það að hreinsast á sumrin - en ekki alltaf.

Við vitum hvernig ástandið er í dag (og gróflega síðan að bestaskeiði lauk fyrir um fjögur þúsund árum eða svo). Mikill ís er á Norðuríshafi allt árið um kring.

Við hámark síðasta jökulskeiðs er talið að jökull hafi víða gengið út á Norðuríshafið svipað og þekkt er nú á dögum á sjávarjöklum Suðurskautslandsins. Hafísinn sjálfur hafi einnig verið mun þykkari heldur en nú er, jafnvel tugir metra eða meira.

En hungurdiskar slefa meira síðar.

Greinin:

Miller, G.H.,Alley, E.B., Brigham-Grette, J., Fitzpatrick, J.J., Polyak, L., Serreze, M.C.,White, J.W.
C., 2010. Arctic amplification: can the past constrain the future? Quatern. Sci. Rev. 29,
1779–1790.


Sól hitar landið - landið hitar loftið

Nú er loksins farið að sjá í heiðarlega dægursveiflu varmastreymis yfir landinu - alla vega í spá evrópureiknimiðstöðvarinnar. Það skal tekið fram að miðstöðin veit ekki nægilega vel hvernig yfirborði landsins er háttað - t.d. er hún ekki viss um snjólag og raunverulegan raka í jarðvegsyfirborði. En hún reynir og við virðum það á besta hátt og horfum á reiknað skynvarmaflæði á Íslandi og svæðinu í kring kl. 15 í dag, þriðjudag.

w-blogg280312a

Lituðu fletirnir sýna reiknað skynvarmaflæði um yfirborð lands og sjávar. Orðið skynvarmaflæði er eitt þeirra sem hljómar ekki mjög vel í óvönum eyrum - en venst fljótt. Rauðu og bleiku svæðin sýna hvar sjór eða land er að hækka hita (sem mældur er með venjulegum hitamæli) en þau gulu og grænleitu sýna hvar landið eða sjór lækkar hita - kælir. Varmaflæði er mælt í wöttum á fermetra.

Mikinn hluta vetrarins hitar sjórinn loftið en landið kælir það. Við Ísland er sjávarhiti að meðaltali hærri heldur en lofthiti í 10 til 11 mánuði á ári. Skynvarmaflæðið er því yfirleitt úr sjó í loft nema stuttan tíma á sumrin. En mjög getur þó brugðið út af einstaka daga á öðrum árstímum. Það sjáum við hér. Í kringum landið er loft sem er hlýrra en sjórinn þar má sjá mínusmerki við tölur sem sýna staðbundin útgildi flæðisins.

Við sjáum rauð svæði á landinu sjálfu. Þar er jörð hlýrri en loftið, landið hitar það að neðan. Það er sólin sem hefur hitað landið. Lofthjúpurinn hleypir stuttbylgjugeislum sólar greiðlega í gegn þannig að þeir komast alveg niður á yfirborð - og hita það. Þá vex langbylgjugeislun frá jörð og hitar lofthjúpinn. Þetta er auðvitað nokkuð skrýtið.  

Rauði liturinn hverfur af landinu á nóttunni á kortum af þessu tagi. Við gefum málinu vonandi meiri gaum síðar.


Átök vors og veturs

Eftir hlýindin í dag (mánudaginn 26. mars) er gott að huga að norðurhvelsstöðunni. Mikill rembingur verður í háloftum yfir Íslandi næstu daga og takast hlýja vorloftið sem reynir að helga sér land og veturinn sjálfur í bæli sínu norðurundan fast á.

w-blogg270312a

Trúlega þurfa flestir að stara smástund á kortið til að átta sig. Ísland er neðan við miðja mynd sem annars nær yfir stóran hluta norðurhvels norðan 30. breiddarstigs. Alaska er undir hvíta L-inu sem efst er og heldur vinstra megin á kortinu. Kanaríeyjar og Afríkuströnd eru neðst á myndinni.

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru svartar og heildregnar en litafletir sýna þykktina. Því þéttari sem jafnhæðarlínurnar eru, því meiri er vindurinn en hann blæs samsíða hæðarlínum. Spáin gildir á hádegi miðvikudaginn 28. mars.

Gríðarleg hæð sunnan Íslands sker sig mjög úr á kortinu. Þar reynir vorið að negla sig niður. Það gengur auðvitað ekki til lengdar - en er á meðan er. Innsta jafnhæðarlínan sýnir 5760 metra - langt yfir meðallagi. Meginkuldapollur norðurhvels (Stóri-Boli) er í eðlilegri stöðu yfir kanadísku heimskautaeyjunum, innsta jafnhæðarlína hans er 4920 metrar - svipað og algengt er á þessum árstíma. Hann þrjóskast eitthvað við áfram en lætur illa þegar hlýja loftið klórar honum á kviðnum eins og nú er.

Mikill vindstrengur er á milli hæðar og lægðar í námunda við Ísland, hann sést líka á þykktarsviðinu (litirnir). Á þessum árstíma er meðalþykktin yfir Íslandi í kringum 5300 metrar, hér er hún 100 metrum hærri. Á miðvikudaginn verður því enn hlýtt yfir landinu. Við sjáum líka að greinileg hæðarbeygja er á jafnhæðarlinum. Erfitt er fyrir kalda loftið að ná taki á henni þannig að hún snúist yfir í lægðarbeygju. Norðvestanlægðarbeygjur eru afskaplega leiðinlegar á öllum tímum árs en ekki síst á vorin því þeim fylgja norðanáhlaup og hret.

Spár undanfarna daga hafa gefið til kynna að kalda loftið kæmist yfir okkur fyrir eða um helgina og hæðin hrykki undan. En þegar þetta er skrifað (á mánudagskvöldi) eru þær ekki jafnvissar um það og áður. Evrópureiknimiðstöðin lætur grunna lægðarbeygju fara hér hjá á aðfaranótt föstudags. Þá er hugsanlegt að köld sletta komi úr norðri inn yfir landið, en nái ekki taki og hæðarbeygjan taki aftur við. Lægðardragið á síðan að renna suður til Danmerkur og valda þar skammvinnu kuldakasti um helgina.

Þegar vindátt í háloftunum er jafn vestlæg og kortið sýnir þarf mjög lítið til að kalt loft að norðan fleygist undir það hlýja þannig að hitaspár út frá þykktinni einni gefa hærri hita við sjávarmál heldur en síðan verður. Á aðfaranótt fimmtudags (29. mars) á 5500 metra jafnþykktarlínan að strjúka suðurströndina. Þessarar óvenjulegu þykktar gætir varla í hitanum á jörðu niðri - en metasinnar geta svosem vonað. Þá er helst að einblína á staði eins og Kvísker í Öræfum, vindur verður varla nægilega norðvestanstæður til þess að Eyjafjöllin skjóti inn háum tölum að þessu sinni.


Tækifærið stendur stutt

Á hádegi í dag (sunnudaginn 25. mars) mældist mættishiti í 850 hPa rúm 18 stig í háloftaathugun sem þá var gerð frá Egilsstaðaflugvelli. Þykktin á sama tíma var 5470 metrar, um tíu metrum hærri heldur en greining evrópureiknimiðstöðvarinnar. Þetta dugði í 14,6 stiga landshámark á Fáskrúðsfirði.

Á morgun fer gusa af hlýju lofti hratt yfir landið. Tækifæri til meta verður þó skammvinnt. Við sjáum hlýja loftið vel á þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á hádegi á morgun (mánudaginn 26. mars).

w-blogg260312a

Jafnþykktarlínur eru svartar og heildregnar, en lituðu svæðin sýna hita í 850 hPa fletinum.  

Hér tekur 5480 metra jafnþykktarlínan sveig inn á landið austanvert. Tveir smáhringir 5500 metra þykktar eru yfir Austurlandi - en hvort það er raunhæft eða eitthvað líkanháð vitum við ekki. Hiti í 850 hPa er mestur 8 stig á kortinu í niðurstreyminu norðan Vatnajökuls.

En lítum líka á spá um hinn hámarkshitavísinn sem oft er notaður - mættishita í 850 hPa.

w-blogg260312b

Ísland ætti að sjást nærri miðju korti austan lægðarmiðjunnar á Grænlandshafi. Þetta kort gildir þremur tímum síðar en það efra. Jafnþrýstilínur við sjávarmál eru svartar og heildregnar en litafletir sýna mættishita í 850 hPa. Hámark hans rétt austan við landið er 22,5 stig. Hungurdiskar hafa oft áður skýrt út hvað mættishiti er, síðast fyrir nokkrum dögum, 23. mars.

En nú er spurningin hvort eitthvað af þessum góða hita nær niður til jarðar. Í dag nægði 18 stiga mættishiti í 14,6 stig - ef reikningar eru réttir og blöndun svipuð gætum við þá séð 14,6 + 4,5 = 19,1 stig. En þykktin sem var 5470 metrar í dag á í besta falli að verða 5500 metrar á morgun - þrjátíu metrum meiri - það er ekki nema 1,5°C, eða 14,6 + 1,5 = 16,1 stig.

Svona reikningar falla auðvitað undir ágiskanir, hlýtt loft að ofan kemst ekki niður nema þá í öflugum vindstrengjum af fjöllum eða þá blandað saman við neðra loft, sömuleiðis í vindi. Í síðara tilvikinu skiptir þá miklu máli hversu hlýtt þetta neðra loft var áður en blöndun hófst. Margt getur haft áhrif á það, of langt mál er að telja það upp hér.

En dægurmet 26. mars er 16,2 stig - sett á Skjaldþingsstöðum árið 2005. Kannski við náum því? Hitamet marsmánaðar er hins vegar 18,8 stig sem mældust á Eskifirði kl. 7 að morgni 28. mars 2000. Það er innan seilingar á morgun og hlýindatoppurinn á morgun liggur betur í sólarhringnum heldur en þá.

Þess má geta að nýtt marsmet mun hafa verið sett í Skotlandi í dag þegar hitinn fór í 22,8 stig. Eldra met var 22,2 stig. Þykktin slefaði þó varla upp í 5500 metra en mættishitinnn í 850 hPa var 21 til 22 stig í greiningu reiknimiðstöðvarinnar - hefur staðbundið verið meiri.

Hlýjasta loftið fer yfir Reykjavík um kl. 9 á mánudagsmorgun, mættishita í 850 hPa er þá spáð 19 stigum. Ekki er nokkur leið að ná því lofti niður, neðstu loftlög eru kæld af sjó og Bláfjöll ráða ekki við þá stórfelldu blöndun sem þyrfti að eiga sér stað. Þar að auki er spáð rigningu en uppgufun hennar kælir loftið. Dægurmet Reykjavíkur þann 26. mars er orðið gamalt, hiti mældist 11,3 stig 1932. Hæsti hiti sem mælst hefur í Reykjavík í mars er 14,2 stig, þann 27. árið 1948 en þá mældist einnig hæsti hiti sem mælst hefur á mannaðri stöð í mars, 18,3 stig á Sandi í Aðaldal.

Rétt er að minna þá sem eitthvað eiga undir veðri að Veðurstofan spáir stormi á mánudag - sérstaklega um landið norðvestanvert.


Afbrigðilegir marsmánuðir 2 - austan og vestanáttir

Í hávaðasamri umfjöllun um hita og litla ljóta bletti má ekki gleyma hinum fasta lið um afbrigðilega mánuði. Við höfum þegar kannað mestu sunnan- og norðanáttarmarsmánuðina og er því komið að austan- og vestanáttum. Við notum sömu flokkunarhætti og áður.

1. Mismunur á loftþrýstingi sunnanlands og norðan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1878. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri norðanlands heldur en syðra séu austlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi austanáttin verið. Reyndar er það svo að austlægar áttir eru mun algengari á Íslandi heldur en vestanáttin og af þeim 133 marsmánuðum sem hér eru undir var þrýstingur hærri sunnanlands í aðeins 13 tilvikum.

Mestu austanáttarmánuðirnir eru flestir gamlir, sá yngsti er í fjórða sæti, mars 1981. Mest var austanáttin í mars 1897. Það þótti fremur hagstæður mánuður - en ekki laus við hin stöðugu vertíðarsjóslys fyrri ára. Mánuðurinn í öðru sæti er hinn frægi mars 1881 - kaldasti mánuður hitamælingasögunnar hér á landi. Í þriðja sæti er mars 1903. Þessir mánuðir eiga fátt sameiginlegt nema austanáttina þrálátu.

Vestanáttin var mest í mars 1925, þá var rysjótt tíð en samt ekki talin mjög óhagstæð. Mars 1910 er í öðru sæti sömuleiðis með umhleypinga en mars 1929 er í þriðja sæti. Hann er álíka frægur fyrir hlýindi og mars 1881 er fyrir kulda.

2. Styrkur austanáttarinnar eins og hann kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær aðeins aftur til 1949.

Á þessum lista er austanáttin mest 1981 eins og fjórða sæti hér að ofan gaf sterklega til kynna, en mars 1978 er í öðru sæti. Í mars 1981 var tíð óhagstæð og frekar snjóþung. Samgöngur voru erfiðar og talsvert tjón varð í illviðri þann 26.

Vestanáttin var mest í mars í fyrra, 2011. Tíðarfar var umhleypingasamt eins og einhverjir muna ennþá - alla vega menn í Árneshreppi á Ströndum. Í næstu sætum eru mars 1961 og 1973, í báðum þeim tilvikum var tíð talin góð eystra en óhagstæð í hafáttinni á Vesturlandi.

3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindathugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðaustan-, austan og suðaustanáttar lögð saman. Þá fæst heildartala austlægra átta. Þessi röð nær aftur til 1874.

Að þessu máli telst mars 1963 mestur austanáttamánaða - fádæma góður mánuður á Vesturlandi. Mig minnir að flestar veðurfréttir hafi byrjað nokkurn veginn svona: Víðáttumikið og hægfara lágþrýstisvæði langt suður í hafi. Þetta var ekkert sérlega spennandi fyrir upprennandi veðurnörd, læst leiðindi eiginlega - en í baksýnisspeglinum er ekkert að sjá nema vorveðurblíðu - nema eina hráslagalega slyddunótt. Mars 1897 (áður nefndur) er í öðru sæti og síðan koma mars 1978 og 1981 sem einnig hafa verið nefndir.

Mesti vestanáttarmars þessarar aðferðar er 1961 og síðan koma 1929 og 1973. Allir hafa áður verið nefndir.

4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð.

Endurgreiningin segir austanáttina hafa verið mesta 1897 (eins og fyrsta aðferð hér að ofan) en næstmesta 1981. Vestanáttin er mest 1948 og næstmest 1949. Endurgreiningin nær ekki nær okkur í tíma en 2008 en bæti maður við með greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar fær 2011 toppsætið. Mars 1929 er í fjórða sæti.

5. Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum. Mars 1897 er enn mestur austanáttarmarsmánaða og 1963 í öðru sæti. Það vekur athygli að austanátt er ríkjandi í aðeins fjórum marsmánuðum. Vestanátt er ríkjandi í háloftunum yfir Íslandi í mars þótt austanátt ríki niðri.

Háloftavestanáttin var mest 1961 í endurgreiningunni - en með framlengingu evrópureiknimiðstöðavarinnar lendir mars 2011 enn á toppnum.


Hitamet eður ei?

Nú má telja fullljóst að bletturinn Litli-ljótur fer ekki yfir landið með svala sínum. En eins og minnst var á í pistli í gær er hann samt ekki alveg áhrifalaus. Líklega lækkar framhjáganga hans laugardagsþykktina (24. mars) um 20 metra miðað við fyrri spár - án Ljóts. Tuttugu metrar eru ekki nema 1°C á hitamælinum góða - nærri því ekki neitt.

En í mikilli keppni um met munar um allt - líka 1 stig. En þegar þetta er skrifað um miðnætti á föstudagskvöldi er auðvitað ekki komið í ljós hvert laugardagshámarkið verður. Þá kemur í ljós hvort þetta eina auma stig hefur skipt máli.

Á  bloggsíðu nimbusar  er náið fylgst með metunum sem máli skipta og ekki er ástæða til að fjölyrða um þau aðalsmáatriði hér.

En samt verður vel þess virði að fylgjast með hámarkshitanum á laugardag - sunnudagurinn á að verða aðeins slakari - en síðan er annar og stór hlýindaskammtur á mánudag. Best að segja sem minnst um framhaldið nema hvað það er spennandi.

Eftir um það bil viku lýkur síðan hinum formlega vetri og vor tekur við - á pappírnum. Síðastliðið vor voru mikil átök í veðrinu - allir sunnan- og suðvestanstormarnir í apríl og síðan var sturtað niður úr íshafinu eftir miðjan maí. Hvernig verður vorinu varið í ár?

En snúum úr froðu yfir í raunverulegan fróðleik.

Eitt af því sem fylgst er með á vorin er viðsnúningur hringrásarinnar í heiðhvolfinu þegar vindátt snýst úr vestri yfir í austur. Þessi viðsnúningur er mjög snöggur ofan 30 km hæðar en neðar eru skiptin heldur meira hikandi og því meir eftir því sem neðar dregur. Við skulum líta á ástandið í 30 hPa-fletinum eins og gfs-spá bandarísku veðurstofunnar segir það verða síðdegis á laugardag (24. mars).

w-blogg240312

Hungurdiskar fjalla vonandi betur um heiðhvolfið síðar en veðurnörd ættu að leggja aðalatriði þessa korts á minnið. Svartar heildregnar línur sýna hæð 30 hPa-flatarins. Hann er lægstur við L-ið, í um 22,6 km. Á jaðri kortsins er hæðin víða um eða yfir 23,7 km.

Lituðu fletirnir sýna hita. Dekkri blái liturinn sýnir svæði þar sem hann er lægri en -75 stig. Hæstur er hitinn kringum -40 stig við austurströnd Asíu. Þessi staða er venjuleg á þessum tíma árs - það er oftar kaldara atlantshafsmegin heldur en kyrrahafsmegin. Við gætum fjallað um ástæðu þess síðar.

Þegar -75 stiga jafnhitalínan hverfur endanlega af kortinu er greinilega farið að vora í heiðhvolfi. Ekki veit ég hversu lengi vestanröstin í kringum risavaxna lægðina endist í vor en það verður spennandi að fylgjast með því. Að meðaltali verða vindáttarskiptin gjarnan í kringum sumardaginn fyrsta. Veðurnörd ættu ekki að láta þann merka atburð fram hjá sér fara og hungurdiskar gefa málinu auga - leggið þetta (vetrar)kort á minnið.


Önnur lausn í dag

Í gær fjölluðu hungurdiskar um lítinn ljótan blett á leið til landsins. Hann er ekki að hverfa - en nú á hann að fara aðra leið heldur en spáð var í gær. Þrátt fyrir mikil gæði gengur tölvuspálíkönum ekki alltof vel að ráða við fyrirbrigði af þessu tagi - alla vega ekki marga daga fram í tímann. Þess vegna eru nýjar og nýjar lausnir boðnar fram í hvert skipti sem líkanið rennur skeiðið - og auðvitað eru mismunandi líkön ekki heldur sammála.

Við skulum líta á mynd. Við höfum séð fleiri af þessu tagi og hugsanlegt að einhverjir séu farnir að venjast framsetningunni. Þeir munu þó fáir ennþá. Lesendur geta að skaðlausu stokkið hér yfir nokkrar málsgreinar að þeim stað sem merktur er með þremur stjörnum (***).

w-blogg230312a

Kortið sýnir norðanvert Atlantshaf. Ísland er ekki langt ofan við miðja mynd. Spánn er neðst til hægri, en rétt sést í Nýja-Skotland (Nova Scotia) lengst til vinstri. Kortið er úr fórum evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir á miðnætti á aðfaranótt laugardags (föstudaginn 23. mars kl. 24).

Litafletirnir sýna mættishita í veðrahvörfum. Það hljómar ekki vel - en eftir að búið að horfa á nokkur svona kort verður það jafn eðlilegt og hver annar auglýsingabæklingur. Mættishiti er þannig reiknaður að fyrst mælum við hita loftsins og þvínæst drögum við það niður í 1000 hPa þrýsting (nærri sjávarmáli), mælum hitann aftur og köllum mættishita. Mættishiti hækkar með aukinni hæð. Til þess að minni hætta sé á ruglingi er venjan að tilfæra mættishita í Kelvinstigum (K = 273 + °C). Þau venjast fljótt.

Bláu litirnir sýna lágan mættishita - en þeir rauðgulu háan. Allgott samhengi er á milli hæðar veðrahvarfanna og mættishita í þeim (en ekki má þó taka regluna of bókstaflega). Tölurnar eru settar þar sem eru staðbundin hámörk og lágmörk.

Litli ljótur sést vel á kortinu sem blár blettur við Skotland, þar er hiti í veðrahvörfum ekki nema 293 K stig (= 20°C). Fleygur af köldu liggur skammt fyrir suðvestan Ísland - þar er hiti 310 K = 37°C. Langhæsti hiti á kortinu er yfir vesturströnd Grænlands, 262 K, kæmist þetta loft til jarðar væri hiti þess nærri 90°C - en það gerist ekki. Ástæða þessa staðbundna ofurhita er væntanlega bylgjubrot í veðrahvörfunum sem blandar enn „hlýrra“ lofti úr heiðhvolfinu niður á við.

Þrír bókstafir (A, B og C) afmarka hlýjan strók sunnan úr höfum - við sjáum lögun hans vel á kortinu.

(***) 

En beinum aftur sjónum að „litla ljót“. Í gær var honum spáð eins og örin sem merkt er „í gær“ sýnir, en í dag á hann að fara til austurs úr þessari stöðu. Reyndar er iðuhámark hans (snúningurinn) sem við litum á í gær svo eindregið að hann á að lifa í viku í viðbót. Á þeim tíma er honum spáð sólarsinnis í kringum Bretlandseyjar og lenda síðan enn á ný yfir Biskæjaflóa, á sama stað og hann vakti fyrst athygli okkar. Þetta sýnir hvað iðan er þrautseig. En hugsanlega verða einhver stór veðurkerfi búin að éta hann fyrir þennan tíma.

Það er hins vegar athyglisvert að þessari snöggu beygju til austurs fylgir lítið útskot til norðvesturs (mjóa örin). Ef við leggjum lauslega saman örina sem merkt er „í dag“ og þá mjóu er ekki fjarri því að útkoman sé örin „í gær“. Beygja til austurs verður möguleg með því að kasta iðu af sér til vesturs. Þetta er þó ábyrgðarlaust hjal.

En niðurstaðan er þó sú að litla ljót hefur tekist að stugga aðeins við hlýja loftinu - þótt þessi fleygur sé ómerkilegri en hann sjálfur.

En hlýindi liggja enn í loftinu. Reyndar var mjög hlýtt í dag (fimmtudag) víða um land og mánuðurinn vel yfir meðallagi til þessa, mest norðaustan- og austanlands.

Í viðhenginu er síða úr „Kortafylleríi“, síbólgnandi kortaskýringariti ritstjórans.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Verður lítill og ljótur blettur hlýindaspillir?

Undanfarna daga hefur legið í loftinu að hingað berist hlýindi langt úr suðri. Spár hafa að vísu verið nokkuð flöktandi varðandi fjölda hlýindaskota og umfang þeirra. Þær voru hvað bjartsýnastar fyrir okkar hönd í gær. En nú hefur ský dregið fyrir sólu - svo virðist sem lítill og ljótur blettur á veðurkortinu eigi að stórslasa eitt hlýindaskotanna.

Örsökina má sjá á háloftaspákorti evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 á morgun - fimmtudag 22. mars.

w-blogg220312a

Lesendur hungurdiska ættu að vera farnir að kannast við kortið. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru svartar og heildregnar - einingin er dekametrar (1 dam=10 metrar). Kortið er því vísir á vinda í 500 hPa - því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn - sem blæs að jafnaði meðfram línunum. Jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar - mælieiningin er líka dekametrar. Þykktin mælir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið.

Meðalþykkt um þetta leyti árs er um 5280 metrar hér á landi. Segja má að allt ofan við 5400 séu hlýindi og fari þykktin upp í 5500 metra á þessum tíma árs má búast við hitametum - séu aðstæður til blöndunar og niðurstreymis góðar.

Rauða örin á kortinu markar framrás hlýlofts úr suðri í átt til landsins, örin sker 5460 metra línuna á leið sinni norður. Það þýðir að hlýja loftið á þar framrás til landsins, en þykktin yfir því er kortinu á bilinu 5350 til 5390 metrar - talsvert ofan við meðallag. Þannig verður það á morgun, fimmtudag.

Næstu daga er spáð nokkrum þykktartoppum - þeim fyrsta á föstudagskvöld eða aðfaranótt laugardags. Þykktin á þá að fara í um 5450 metra. - Færi hærra ef ekki væri fyrir illa aðkomu lítils bletts sem er þegar kortið gildir staddur yfir Biskæjaflóa og fer hraðbyri til norðurs eins og bláa örin sýnir. Þessi blettur kom mjög vel fram í spám í gær en átti þá að sigla norður með Bretlandi en síðan til austurs - ekkert nærri Íslandi.

En auðvitað siglir hann beint hingað í spánum í dag, með miðjuþykkt um 5320 metra - algjört flopp yfir Austurlandi á laugardaginn einmitt þegar hlýindin áttu að vera í hámarki.

En - eins og venjulega - er þetta bara spá og spár bregðast sérlega oft þegar um fyrirbrigði eins og þennan litla kuldapoll er að ræða. Við getum því enn vonað hið besta og allir muna að hungurdiskar eru ekki spáblogg. Við ræðum opinskátt um veður og spár með nördahalla.

En fyrir sérlega áhugasama er gaman að líta betur á blettinn (fatastærð hans) - aðrir ættu að láta sig hverfa því textinn hér að neðan er hættulegur - ekki geðheilsunni - en einhverju svoleiðis.

w-blogg220312b 

Myndin er sú sama og áður - nema að við þysjum inn á lítið svæði í kringum blettinn. Rauða örin bendir á 5340 metra jafnþykktarlínuna, bletturinn á tvær jafnþykktarlínur alveg fyrir sig. Hann á líka tvær jafnhæðarlínur sú innri rétt sést og sýnir 5460 metra. Þetta þýðir að þrýstingur við sjávarmál veit lítið af tilveru blettsins. Hann sést varla á venjulegu veðurkorti - nema hvað úrkomuklessa fylgir. Væri bara skemmtilegt í öllu öðru samhengi heldur en nú blasir við.

Litaðir fletir sýna svokallaða iðu. Fyrir þá sem eru tæknilega sinnaðir má geta þess að þetta er sérstakt nafn sem gefið er hverfiþunga lofts á flatareiningu -  það er helst að vélamenn átti sig á þessu. Aðrir eru auðvitað beðnir velvirðingar á þeirri áráttu hungurdiska að subba útþynntum fræðum inn á borð blogglesenda.

Við getum talið fimm mismunandi bleikgráa liti í kringum miðjuna á blettinum. Mælieining iðunnar (eins og hún er sett fram á kortinu) er sekúnda í mínus fyrsta veldi, það sem venjulega er kallað Hz eða rið. Snúningshreyfingar í lofti taka langan tíma - tölugildi tíðninnar er því mjög lágt, á efra kortinu er kvarði til hægri og þar standa tölur á bilinu frá 0 og upp í 60 en 10 í mínus 5. veldi fylgja. Þeir sem slyngir eru í hugarreikningi sjá að hér er um margra klukkustunda snúningstíma að ræða. Einingin á kortinu, míkrórið, er aldrei notuð í veðurfræði - aðeins sett hér ritstjóranum til gamans - hún hljómar svo miklu betur heldur en „50 sinnum tíu í mínus fimmta sekúndur í mínus fyrsta“.

En hvað segir þetta? Hér skal upplýst að loft verður að fórna iðu til að hafa það norður á bóginn. Snúningur jarðar sér um það. Iðubirgðir þurfa því að vera góðar og hér nægir iðan vel í ferðina norður til Íslands og meir en það - en vonandi er að tölvan hafi hér misreiknað sig.

En hlýindi liggja samt í loftinu.


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 4
  • Sl. sólarhring: 266
  • Sl. viku: 2383
  • Frá upphafi: 2434825

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 2114
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband