Tækifærið stendur stutt

Á hádegi í dag (sunnudaginn 25. mars) mældist mættishiti í 850 hPa rúm 18 stig í háloftaathugun sem þá var gerð frá Egilsstaðaflugvelli. Þykktin á sama tíma var 5470 metrar, um tíu metrum hærri heldur en greining evrópureiknimiðstöðvarinnar. Þetta dugði í 14,6 stiga landshámark á Fáskrúðsfirði.

Á morgun fer gusa af hlýju lofti hratt yfir landið. Tækifæri til meta verður þó skammvinnt. Við sjáum hlýja loftið vel á þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á hádegi á morgun (mánudaginn 26. mars).

w-blogg260312a

Jafnþykktarlínur eru svartar og heildregnar, en lituðu svæðin sýna hita í 850 hPa fletinum.  

Hér tekur 5480 metra jafnþykktarlínan sveig inn á landið austanvert. Tveir smáhringir 5500 metra þykktar eru yfir Austurlandi - en hvort það er raunhæft eða eitthvað líkanháð vitum við ekki. Hiti í 850 hPa er mestur 8 stig á kortinu í niðurstreyminu norðan Vatnajökuls.

En lítum líka á spá um hinn hámarkshitavísinn sem oft er notaður - mættishita í 850 hPa.

w-blogg260312b

Ísland ætti að sjást nærri miðju korti austan lægðarmiðjunnar á Grænlandshafi. Þetta kort gildir þremur tímum síðar en það efra. Jafnþrýstilínur við sjávarmál eru svartar og heildregnar en litafletir sýna mættishita í 850 hPa. Hámark hans rétt austan við landið er 22,5 stig. Hungurdiskar hafa oft áður skýrt út hvað mættishiti er, síðast fyrir nokkrum dögum, 23. mars.

En nú er spurningin hvort eitthvað af þessum góða hita nær niður til jarðar. Í dag nægði 18 stiga mættishiti í 14,6 stig - ef reikningar eru réttir og blöndun svipuð gætum við þá séð 14,6 + 4,5 = 19,1 stig. En þykktin sem var 5470 metrar í dag á í besta falli að verða 5500 metrar á morgun - þrjátíu metrum meiri - það er ekki nema 1,5°C, eða 14,6 + 1,5 = 16,1 stig.

Svona reikningar falla auðvitað undir ágiskanir, hlýtt loft að ofan kemst ekki niður nema þá í öflugum vindstrengjum af fjöllum eða þá blandað saman við neðra loft, sömuleiðis í vindi. Í síðara tilvikinu skiptir þá miklu máli hversu hlýtt þetta neðra loft var áður en blöndun hófst. Margt getur haft áhrif á það, of langt mál er að telja það upp hér.

En dægurmet 26. mars er 16,2 stig - sett á Skjaldþingsstöðum árið 2005. Kannski við náum því? Hitamet marsmánaðar er hins vegar 18,8 stig sem mældust á Eskifirði kl. 7 að morgni 28. mars 2000. Það er innan seilingar á morgun og hlýindatoppurinn á morgun liggur betur í sólarhringnum heldur en þá.

Þess má geta að nýtt marsmet mun hafa verið sett í Skotlandi í dag þegar hitinn fór í 22,8 stig. Eldra met var 22,2 stig. Þykktin slefaði þó varla upp í 5500 metra en mættishitinnn í 850 hPa var 21 til 22 stig í greiningu reiknimiðstöðvarinnar - hefur staðbundið verið meiri.

Hlýjasta loftið fer yfir Reykjavík um kl. 9 á mánudagsmorgun, mættishita í 850 hPa er þá spáð 19 stigum. Ekki er nokkur leið að ná því lofti niður, neðstu loftlög eru kæld af sjó og Bláfjöll ráða ekki við þá stórfelldu blöndun sem þyrfti að eiga sér stað. Þar að auki er spáð rigningu en uppgufun hennar kælir loftið. Dægurmet Reykjavíkur þann 26. mars er orðið gamalt, hiti mældist 11,3 stig 1932. Hæsti hiti sem mælst hefur í Reykjavík í mars er 14,2 stig, þann 27. árið 1948 en þá mældist einnig hæsti hiti sem mælst hefur á mannaðri stöð í mars, 18,3 stig á Sandi í Aðaldal.

Rétt er að minna þá sem eitthvað eiga undir veðri að Veðurstofan spáir stormi á mánudag - sérstaklega um landið norðvestanvert.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 77
  • Sl. viku: 971
  • Frá upphafi: 2341345

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 889
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband