Bloggfærslur mánaðarins, september 2011
21.9.2011 | 01:13
Enn af afbrigðilegum septembermánuðum (austan- og vestanáttir)
Við rifjum enn upp fáeina afbrigðilega septembermánuði. Í þetta sinn eru það þrálátustu austan- og vestanáttamánuðir. Að vanda fer flokkunin fram á nokkra vegu. Útskýringar fylgja. Austanáttarmánuðir eru að jafnaði mjög úrkomusamir austanlands og vestanáttarmánuðir ættu því að vera úrkomusamir vestanlands. Þó er það nú þannig með vestanáttina að komi hún beint frá Grænlandi getur hún verið þurr. Sannleikurinn er sá að suðvestan- og vestanlands ræður sunnanáttin mun meiru um úrkomuna heldur en vestanáttin.
Vestan og austanáttirnar eru þannig ekki spegilmynd hvor af annarri - síður en svo. Ísland er nefnilega í austanvindabelti heimskautaslóða í lægstu lögum lofthjúpsins en inni í vestanvindabelti háloftanna. Tíðni austanáttar er aðeins helmingur tíðni vestanáttarinnar við veðrahvörfin auk þess sem hún er yfirleitt hægari. Austanáttamánuðir einkennast gjarnan af stórum hægfara lágþrýstisvæðum suður og suðaustur af landinu. Vestanáttarmánuðir einkennast af hraðfara veðurkerfum sem hvert um sig stendur stutt við.
Við notum enn fimm flokkunarþætti.
1. Mismunur á loftþrýstingi sunnanlands og norðan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1881. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri norðanlands heldur en syðra séu austlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er því þrálátari hafi austanáttin verið. Samkvæmt þessum mælikvarða er september 1935 mestur austanáttarmánaða. Enda er hann þurrasti september sem þekktur er á Vesturlandi. Úrkoma í Reykjavík mældist aðeins 12,6 mm og 1,6 í Stykkishólmi - ótrúlegt en satt. Í öðru sæti er september 1998, þá var tíð vestanlands talin góð, 1987 er síðan í þriðja sæti mikill berjamánuður vestanlands - einn þeirra bestu sem ég man eftir. Fyrstu daga mánaðarins voru miklir vatnavextir á Ströndum og á Snæfjallaströnd.
Mestur vestanáttarseptembermánaða er 1931. Þá hittist svo á að fram eftir mánuðinum var vestanáttin af Grænlandi og loftþrýstingur hár. Síðan kom úrkomugusa þegar vindur snerist meir til suðvesturs. Fær mánuðurinn þessi ummæli: Hagstæð og hægviðrasöm tíð, þó brá til verulegra votviðra á S- og V-landi eftir miðjan mánuð. Nokkuð þurrt na-lands. Næstmest var vestanáttin 1938, sá mánuður taldist líka hagstæður. Fáir muna nú þessa mánuði. Hvort fleiri muna september 2009 veit ég ekki, en hann er í fjórða sæti.
2. Styrkur austanáttarinnar eins og hún kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær aðeins aftur til 1949. Mest var austanáttin í september 1981. Þá féllu margar aurskriður á Seyðisfirði og Eskifirði. Tjón varð þó ekki mjög mikið. Hér er 1987 líka í öðru sæti austanáttar.
September 1986 er mestur vestanáttarmánaða samkvæmt þessu viðmiði og síðan 1990. September 2009 skorar einnig hátt, hann er hér í þriðja - enda þarf hann ekki hér að keppa við vestanáttarmánuði fyrir 1949.
3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindathugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðaustan-, austan, suðaustan og sunnanáttar lögð saman. Þá fæst heildartala austlægra átta. Hér lendir öndvegismánuðurinn 1968 á toppi listans. Þá var fádæma góð tíð - nema allra síðustu dagana - sannkallaðir spillidagar. Í næstu tveimur sætum eru fornir gæðamánuðir, 1901 í öðru sæti og 1915 í því þriðja.
Mestur vestanáttarseptembermánaða eru hér 1952 og 1940 sá síðarnefndi hefur komið við sögu áður á hungurdiskum í hlutverki snjóamánaðar norðaustanlands (ef hægt er um slíkt að tala í september).
4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð. Hér kemur 1935 aftur sem mesti austanáttarmánuðurinn og 1998 er í öðru sæti. Vestanáttin 1986 er í þriðja sæti á eftir tveimur fornum mánuðum, 1900 og 1910 sem deila fyrsta til öðru sæti.
Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum. September 1935 er hér með langmestu austanáttina. Hann hlýtur því að dæmast mesti austanáttarmánuður allra tíma (eða eins langt og séð verður). Mestur vestanáttarmánaða í 500 hPa í september er 1888 og síðan koma 1910 og 1900, 1986 er í fjórða sæti. Þetta þýðir að við fáum varla eindreginn sigurvegara í vestanáttarkeppninni. Við gefum 1986 samt aukaverðlaun.
20.9.2011 | 01:16
Dagurinn styttist
Nú eru jafndægur á hausti í nánd og dagurinn styttist hratt. Við gætum litið á almanak háskólans og flett því upp hversu hratt dagurinn styttist. Þeir lesendur sem hafa almanakið við höndina ættu að líta á tölurnar þar - en hér lítum við á hámarkssólskinsstundafjölda sem mælst hefur hvern dag septembermánaðar síðastliðin 87 ár í Reykjavík en í tæp 60 ár á Akureyri. Á síðarnefnda staðnum vantar 4 septembermánuði inn í röðina sem notuð er.
Nú verður að hafa í huga að engin fjöll eru í almanakssólargangi og því síður húsbyggingar eða aðrir tilviljanakenndir skuggavaldar. Auk þess verða lesendur að vita að ýmislegt miður skemmtilegt getur plagað hefðbundnar sólskinsstundamælingar og úrvinnslu þeirra. Hungurdiskar gefa ekki út heilbrigðisvottorð á þessar mælingar - en við vonum þó að lítið sé um villur.
Þegar mælingar hafa verið gerðar um áratuga skeið eru allmiklar líkur á að einhver nærri því heiðskír dagur sé inni í mælingaröðinni. En lítum á myndina.
Lárétti ásinn sýnir daga septembermánaðar, en sá lóðrétti klukkustundir. Fyrstu þrjá daga mánaðarins er hámarkssólskinsstundafjöldi um 14 klukkustundir í Reykjavík en um 12 stundir á Akureyri. Ætli við verðum ekki að trúa því að þessa daga hafi sólin skinið nánast allan þann tíma sem mögulegur er.
Sólskinsstundum fækkar síðan jafnt og þétt eftir því sem á mánuðinn líður. Gildið 11,8 stundir á Akureyri þann 14. september 1995 er trúlega rangt. Það þarf þó að athuga það sérstaklega. Í september munar ekki miklu á stjarnfræðilegum sólargangi í Reykjavík og á Akureyri, en fjöll skyggja mun meira á fyrir norðan heldur en syðra.
Sé leitnin reiknuð á rauðu Reykjavíkurlínuna kemur í ljós að hámarkssólskinsstundafjöldi minnkar um 6,5 mínútur á dag - skyldi því bera saman við almanakið? Á Akureyri lækkar hámarkið um nærri 7 mínútur á dag.
En heiðskírir septemberdagar eru afskaplega fáir. Ef trúa má skýjahuluathugunum hefur aldrei orðið algjörlega heiðskírt í Reykjavík í september frá 1949 að telja. Þeir þrír dagar sem komist hafa næst því eru 18. september árið 1950, sá 17. árið 1957 og hinn 13. árið 1986.
Hversu margar yrðu sólskinsstundirnar ef heiðskírt væri alla daga septembermánaðar? Í Reykjavík væru þær 365, en 312 á Akureyri. Við fáum vonandi aldrei að upplifa það - ég held að heimsendir væri þá í nánd. En flestar hafa sólskinsstundirnar orðið 186,9 í september í Reykjavík. Það var í þeim kalda september 1975. Við sjáum að sólin hefur þá skinið meir en helming þess tíma sem hún var á lofti. Meðaltalið er mun lægra, 126 stundir. Trúlega mun sólskinsstundafjöldi september í Reykjavík einhvern tíma í framtíðinni ná 200 stundum (án þess að heimsendis sé að vænta).
Meðalsólskinsstundafjöldi er svipaður í Reykjavík og á Akureyri í maí til ágúst, en Reykjavík hefur þó ætíð vinninginn þegar litið er á hámarkssólskinsstundafjölda mánaðanna. Þess vegna kemur talsvert á óvart að fleiri sólskinsstundir mældust á Akureyri í september 1976 heldur en nokkurn tíma hefur mælst í september í Reykjavík. Að vísu munar ekki nema tæpum tveimur stundum (186,9 í Reykjavík en 188.7 á Akureyri) - ansi gott sé tekið mið af þeirri forgjöf sem Reykjavík hefur vegna lægri fjalla.
19.9.2011 | 01:12
Minnkar vindur þegar byrjar að rigna?
Svar: Það er nú allur gangur á því. Úrkoma fylgir gjarnan loftþrýstibreytingum og þegar þær eru miklar er vindur oftast hvass. Hvassviðri með rigningu er eitt einkenna íslensks veðurlags.
Engu að síður verður ákveðin eðlisbreyting á hvössum vindi þegar úrkoma hefst - alla vega sumstaðar. Vindstrengir af völdum landslags eru meiri þegar loft er stöðugt heldur en þegar það er óstöðugt. Hugtakið stöðugur er notað þegar loft er tregt til lóðréttrar hreyfingar. Þá vill vindur frekar beygja framhjá fjöllum heldur en að fara yfir þau og ef það neyðist til að fara yfir verða til ægilegir strengir í fjallaskörðum og á fjallshryggjum.
Þegar loft er óstöðugt sér það landslagið mun síður og fer hiklítið þvert yfir fjöll - í stað þess að beygja framhjá. Úrkoma dregur (að jafnaði) úr stöðugleika. Þar með dregur úr vindstrengjum. Þar sem þannig hagar til á landinu að vindur verður hvassastur þegar hann leggst í strengi getur því dregið úr átökum þegar hellirignir og lóðréttur stöðugleiki minnkar.
Þetta er þó varla hálfur sannleikur. Vindhraði er í reynd afleiðing margra samverkandi orsakaþátta. Sé loft óstöðugt og vindur jafnframt hvass getur óstöðugleikinn aukið vindhraða vegna þess að skriðþungi efri vinds dreifist betur niður á við heldur en þegar loft er stöðugt.
Minnkar vindur þá eða vex hann þegar byrjar að rigna? Ekki geta hungurdiskar svarað því á einhlítan hátt - en lesendur ættu að gefa þessu gaum, hver á sínum stað á landinu.
18.9.2011 | 01:13
Mesti vindhraði í september
Við lítum á vindhraðamet septembermánaðar. Bylting varð í vindhraðamælingum hér á landi þegar sjálfvirkar stöðvar komu til sögunnar fyrir rúmum 15 árum. Á síðustu árum hafa mælingar sjálfvirkra og mannaðra stöðva verið að renna saman í eitt hvað mælingar á vindi varðar. Sem kunnugt er bæði mældur meðalvindhraði og hviður. Vindhraði er oftast mældur í 10 metra hæð frá jörðu.
Hér á landi er meðalvindhraði miðaður við 10-mínútur og er það víðast hvar í öðrum löndum. Breska veðurstofan miðaði lengi við klukkustund og víða er farið að nota eina mínútu sem viðmið. Vindhviður eru oftast miðaðar við 3 sekúndur á veðurstöðvum hérlendis, en viðmið á stöðvum vegagerðarinnar mun vera styttra, 1 til 2 sekúndur. Á móti kemur að vindmælingar flestra vegagerðarstöðva eru gerðar í 6 metra hæð frá jörðu. Meðalvindhraði er ívið minni í 6 metra hæð heldur en í 10 metrum en ég held að enginn viti hversu miklu munar á hviðum í þessum tveimur hæðum.
Eins og við er að búast eru hæstu tölurnar í september frá háfjallastöðvum, mælt er í m/s. Taflan miðar við 10-mínútna meðaltal.
byrjar | nær til | metár | metdagur | met | stöð | |
1996 | 2010 | 2003 | 21 | 51,1 | Skálafell | |
1994 | 2010 | 2002 | 1 | 48,0 | Gagnheiði | |
2004 | 2010 | 2004 | 16 | 43,8 | Stórhöfði sjálfvirk stöð | |
1993 | 2010 | 2008 | 17 | 40,9 | Sandbúðir | |
2005 | 2010 | 2008 | 17 | 37,4 | Flatey á Skjálfanda | |
1998 | 2010 | 2003 | 21 | 36,3 | Rauðinúpur | |
2006 | 2010 | 2008 | 17 | 34,1 | Brúaröræfi | |
2002 | 2007 | 2004 | 16 | 33,8 | Vestmannaeyjar - hraun | |
1999 | 2010 | 1999 | 9 | 33,5 | Hraunsmúli | |
2000 | 2010 | 2004 | 16 | 33,5 | Vatnsskarð eystra |
Hæsta talan í töflunni er frá því 21. september 2003. Minniháttar foktjón varð víða um land, sjötta hæsta talan er úr þessu sama veðri, á Rauðanúpi á Melrakkasléttu. Lægðina bar óvenjulega að miðað við árstíma - byrjaði sem lægðardrag í skjóli Grænlands og olli síðan norðanáhlaupi. Þetta er algengt í apríl og maí - mun algengara heldur en í september.
Næsthæsta talan er frá Gagnheiði og mældist 1. september 2002. Þá fór dýpsta lægð sem vitað er um svo snemma hausts yfir landið. Á þessum árstíma býst maður eiginlega ekki við svo djúpum lægðum (rúmlega 950 hPá í miðju) - nema helst það séu leifar fellibylja. En þessi lægð var það ekki. Tjón varð víða um land.
Óvenjulegt var líka veðrið 16. september 2004. Það er gjarnan kennt við Freysnes í Öræfum en mikið tjón varð þá á hótelbyggingu þar. Víðar varð tjón í sama veðri. Í fjórða, fimmta og sjöunda sæti eru svo tölur úr miklu illviðri árið 2008. Það veður er kennt leifum fellibylsins Ike, tjón varð bæði af vindi og vatnavöxtum. Hæsta gildi á vegagerðarstöð er í 9. sæti á listanum, mældist það á Hraunsmúla í Staðarsveit 1999.
Við lítum einnig á vindhviðulistana.
byrjar | nær til | metár | metdagur | met | stöð | |
1994 | 2010 | 2002 | 1 | 65,8 | Gagnheiði | |
1996 | 2010 | 2003 | 21 | 63,0 | Skálafell | |
2001 | 2010 | 2004 | 16 | 58,4 | Skrauthólar | |
2010 | 2010 | 2010 | 26 | 56,4 | Skarðsheiði Miðfitjahóll | |
2004 | 2010 | 2004 | 16 | 54,1 | Stórhöfði sjálfvirk stöð | |
2003 | 2010 | 2008 | 17 | 52,9 | Þyrill | |
1996 | 2010 | 2007 | 23 | 51,9 | Öræfi | |
1996 | 2010 | 2003 | 21 | 51,7 | Seyðisfjörður | |
1997 | 2010 | 2004 | 16 | 51,7 | Steinar | |
1996 | 2010 | 2005 | 27 | 50,7 | Fróðárheiði |
Hér koma aðrar stöðvar inn. Það er nefnilega þannig að sumstaðar er vindur mjög byljóttur og hviður því miklar þótt meðalvindhraði sé ekki svo hár. Hér hafa Gagnheiði og Skálafell skipst á sætum, en dagarnir eru þeir sömu, 65,8 m/s er ansi mikið.
Þriðja hæsta talan er frá Skrauthólum á Kjalarnesi. Þetta gerðist í Freysnesveðrinu en það á tvær aðrar tölur á listanum. Stöðin nýja við Miðfitjahól á Skarðsheiði á fjórðu hæstu töluna - en hefur aðeins verið í gangi einn septembermánuð. Spurning hvort þaðan muni ekki koma fleiri háar tölur a næstu árum. Norðanáhlaupið 2003 gerði sig svo sannarlega gildandi á Seyðisfirði (8. sæti)
Einhver aftakaveður liggja í leyni í septembermánuðum framtíðarinnar. Hverrar gerðar skyldu þau verða?
17.9.2011 | 01:36
Vetrarbyrjun í Norður-Íshafi
Nú mun óhætt að segja að vetur sé byrjaður í Norður-Íshafi. Frost er komið niður fyrir 10 stig á ísbreiðunni. Við sjáum nú bæði 5100 metra þykktarlínuna og 5100 metra hæðarlínuna í kuldapolli sem nú er á hefðbundnum stað við Norðvestur-Grænland. Kíkjum af því tilefni á 500 hPa Norðurhvelskort.
Fastir lesendur kannast við kortið en aðrir verða að fá að vita að höfin eru blá og löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en sú mjóa sýnir hæðina 5820 metra.
Nú verður að bæta því við að mjóu rauðu línurnar eru orðnar tvær, 5820 metra línan er suður yfir Miðjarðarhafi og hörfar lítið, en ef kortið er skoðað í smáatriðum má sjá lítinn rauðan hring við undan Norðvestur-Grænlandi. Þetta er 5100 metra hæðarlínan. Hún hefur ekki sést á korti sem þessu í nokkra mánuði en mun smám saman fara að breiða úr sér á norðurslóðum. Hún mun einnig fara að sjást í djúpum lægðum í námunda við okkur.
Einnig er farið að sjást í 5100 metra þykktarlínuna á sömu slóðum, þar fer veturinn sjálfur. Vonandi mun það dragast langt frameftir hausti að hún komi í námunda við okkur - þykktin hefur t.d. aldrei orðið svo lág í september yfir Keflavík (þar eru háloftaathuganir). Lægsta septemberþykkt sem vitað er um þar í kring er 5130 metrar. Það var þann kalda merkisdag 26. september 1954 og nefndur var hér á hungurdiskum á dögunum. Slíkt ástand er harla óvenjulegt - en kemur auðvitað aftur síðar meir. Við megum vonandi bíða sem lengst.
Lægðabylgjan suðvestur af Íslandi inniheldur leifar fellibylsins Maríu sem vestanvindabeltið tók föstum tökum í dag. Ótrúlega föstum tökum reyndar því ekki tók nema um 4 klst að strauja hringrás Maríu til ólífis nálægt Nýfundnalandi. Hlýja loftið nýtist lægðarkerfinu og lægðarmiðjan á að dýpka um meir en 20 hPa næsta sólarhringinn og jafnframt valda fárviðri undan Labradorströndum. Hingað kemur á sunnundaginn mjó gusa af tiltölulega hlýju lofti (aðeins hlýrra heldur en var í dag - föstudag) með úrkomu og hvassviðri.
Lægðarmiðjan kemur ekki fyrr en síðar og þá væntanlega farin að grynnast verulega. En eins og má sjá á kortinu að ofan er bylgjan býsna stór um sig og ætli það taki ekki mestalla vikuna að losna við hana af svæðinu, hvort sem hún grynnist á staðnum eða fer austur fyrir land. Síðarnefnda kostinn nefna tölvuspár í dag (föstudag).
16.9.2011 | 00:55
María hresstist snögglega
Stafrófsstormurinn María náði skyndilega fellibylsstyrk í dag eftir að hafa nærri því geispað golunni í gær og fyrradag. En fellibylstilveran stendur ekki lengi því nú tekur kaldur sjór við og stefnumót við vestanvindabeltið. En í kvöld kom ljómandi falleg mynd á heimasíðu kanadísku veðurstofunnar og sýnir hún stöðuna á afskaplega skýran hátt. Textinn hér að neðan er nokkuð tyrfinn - en þið ættuð alla vega að dást að myndinni.
Myndin sýnir norðvestanvert Atlantshaf. Ísland er alveg efst til hægri og ef vel er gáð má sjá austurströnd N-Ameríku til vinstri frá Norður-Labrador ofarlega rétt vinstra megin við miðju og suður að Virginíu í Bandaríkjunum lengst til vinstri.
Fellibylurinn er nú ekki langt frá Bermúda og stefnir á suðausturhorn Nýfundnalands - á annað kvöld (föstudagskvöld) að vera nærri þeim stað sem merktur er X á myndinni. Yfir V-Labrador er lægð (strikalínuhringurinn) sem hreyfist til austurs og verður miðja hennar annað kvöld nærri þeim stað sem merktur er Y á myndinni. Kerfin tvö eiga svo stefnumót á laugardag um það bil þar sem spurningarmerki er sett á myndina. Þá verður fellibylurinn orðinn sundurtættur af vindsniða.
Rétt er að taka eftir lagi skýjabreiðunnar norður af fellibylnum. Vestanvindabeltið er þegar búið að aflaga skýjakerfið í glæsilegan boga - boginn er í hæðarbeygju (fyllir upp í vinstrihandargrip með þumalinn upp - prófið bara). Hlýtt loft að sunnan lendir alltaf í hæðarbeygju. Skýjaröndin austan í Labradorlægðinni er háloftarastarættar. Það er reyndar ekki mjög skýrt á þessari mynd, en rastarkerfin einkennast af skörpum brúnum vinstra megin rastarinnar. Þetta höfum við áður kallað hlýtt færiband, nyrsti hluti þess myndar líka hæðarbeygjuboga. Skýjasveipur Labradorlægðarinnar er aftur á móti í lægðarbeygju (hægrihandargrip - þumallinn upp). Ég hef stækkað út hluta myndarinnar til að skýra þetta betur.
Segja má að lægðin sé samsett úr tveimur minni kerfum með andstæðar beygjur. Skýjakerfi fellibylsins á myndinni er það líka, þar er mjög stórt hæðarbeygjukerfi sem má gróflega segja að gubbist upp og út úr mjög krappri lægðabeygju fellibylsins sjálfs. Það er ekki heiglum hent að segja til um hvernig þessi (fjögur?) kerfi síðan slá sér saman.
Í fellibylnum er nú mjög hlýtt loft eins og vera ber. Mér sýnist á greiningarkortum mega sjá 5820 metra þykktarlínuna nærri miðju hans. Það er þó aðeins á litlu svæði. Hlýja loftið getur nýst lægðinni allvel en hversu vel verður bara að fá að sýna sig. Spár gera ráð fyrir því að þetta sameinaða kerfi komi hér við sögu á sunnudaginn - en hungurdiskar spá engu um það - en fylgjast með.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2011 | 00:28
Meira um óvenjulega þurrt loft
Nú hefur gefist tóm til að líta betur á tölur um lágt rakastig um landið sunnan- og vestanvert síðastliðna helgi. Samanburður hefur verið gerður við eldri mælingar. Eins og áður hefur verið minnst á eru rakamælingar tiltölulega óáreiðanlegar og erfitt að komast fyrir tilviljanakenndar villur. Rakastig reikar oft um sem svarar tugum prósenta á mjög stuttum tíma. En látum slíkt ekki á okkur fá.
Septembermet voru slegin eða jöfnuð á um það bil 45 sjálfvirkum stöðvum og 24 stöðvum vegagerðarinnar. Það er auðvitað ekkert vit í að telja með stöðvar sem athugað hafa í aðeins mjög fá ár. Met féllu á 17 stöðvum sem athugað hafa í 10 ár eða meira og sjö vegagerðastöðvum sem sömuleiðis hafa athugað svo lengi.
Flestar mönnuðu stöðvarnar hafa starfað lengur - en þeim hefur hins vegar fækkað mjög. Ný lágmarksrakastigsmet fyrir september voru þó slegin á fimm stöðvum sem athugað hafa í meira en 10 ár. Merkast þeirra meta er það frá Keflavíkurflugvelli, lægsta septemberakastig í 59 ára sögu mælinga þar, 30%. Nýtt met var einnig sett á Eyrarbakka en þar hefur rakastig verið athugað meir en 50 ár. Hins vegar hafa rakamælingar þar verið eilítið stopular - þannig að vissara er að athuga málið nánar.
Rakastig fór niður fyrir 25% á fjölmörgum stöðvum. Þegar þetta loft kemur inn í hús og er þar hitað upp í 25°C verður þurrkurinn beinlínis óþægilegur og bætist ofan á óþægindin sem ryk- og öskufok hefur valdið undanfarna daga.
Eins og bæði hungurdiskar og Einar Sveinbjörnsson hafa fjallað um áður ýtir þurrkur lofts og jarðvegs mjög undir stóra dægursveiflu hita. Á þessum árstíma munar mest um nánast frjálst fall hitans í logni og heiðskíru að nóttu.
Gríðarlegur fjöldi dægurmeta á einstökum stöðvum hefur verið sleginn. Flest er það lítið marktækt vegna þess að athuganir hafa staðið svo stutt en það má samt nefna tölurnar.
Á sjálfvirku stöðvunum (vegagerðarstöðvar hér ekki taldar með) höfðu 523 dægurmet verið slegin í september til hádegis í dag (miðvikudaginn 14. september). Á sama tíma höfðu ekki verið slegin nema 62 dægurhámörk. Þetta ætti að sýna að næturkuldinn hefur haft undirtökin í fyrri hluta september. Hér ber auðvitað að athuga að síðustu ár hafa verið mjög hlý og erfitt er t.d. að toppa hitabylgjuna miklu í fyrstu viku september í fyrra (2010).
Á mönnuðu stöðvunum er hlutfallið þannig að 25 dægurlágmarksmet hafa verið slegin, en ekki nema tvö dægurhámarksmet (hér er miðað við síðustu 60 árin).
Þurrkurinn nú í fyrri hluta september á Suður- og Vesturlandi er óvenjulegur - t.d. hefur varla komið deigur dropi í Stykkishólmi og úrkoma hér í Reykjavík er líka sáralítil til þessa. En hver veit nema að suðlægir vindar beri hingað regn og raka á næstu dögum.
Af stafrófsstorminum Maríu er það að frétta að hann hefur nú sveigt til norðurs og á að fara hjá Nýfundnalandi á föstudagskvöld. Frekari framtíð er óviss en hann hittir vel á lægð sem þá ber að úr vestri og á að valda rigningu hér á landi á sunnudaginn. En engu spá hungurdiskar um það.
Nú er vetur loks byrjaður á norðurslóðum - lítið fer fyrir honum ennþá - við lítum á norðurhvelskort á næstu dögum.
14.9.2011 | 01:00
Af afbrigðilegum septembermánuðum (norðan- og sunnanáttir)
Nú lítum við á þrálátustu norðan- og sunnanáttarseptembermánuðina (skemmtileg þessi löngu orð). Rétt er að endurtaka reglurnar þótt þær hafi verið margnefndar áður og gerum við það eftir því sem fram vindur:
1. Mismunur á loftþrýstingi austanlands og vestan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1881. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri vestanlands heldur en eystra séu norðlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi norðanáttin verið. Ákveðin atriði flækja þó málið - en við tökum ekki eftir þeim hér.
Eftir þessum mælikvarða er september 1974 mestur norðanáttarmánaða. Hann var líka kaldur og voru viðbrigðin mikil eftir gæðasumar víðast hvar á landinu - þjóðhátíðarsumarið. Þá var 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar minnst með hátíðum um land allt. Ógleymanleg er bein útvarpsútsending af flugeldasýningu í Reykjavík - nei, ekki sjónvarp - en við landsbyggðamenn heyrðum sprengingarnar mjög vel - sérstaklega vegna þess að enginn þulur truflaði þær. Næstur í röð norðanáttamánaða er 1954 - þá snjóaði um mestallt land í síðustu vikunni - líka í Reykjavík.
Á hinum endanum er mesti sunnanáttarmánuðurinn, september 1901. Hann fær þau eftirmæli að hann hafi verið mjög hlýr en óþurrkar hafi verið til vandræða sunnanlands. Næstmest sunnanátt var 1881. Þá taldist tíð hagstæð og mjög hlýtt var í veðri en nokkuð óþurrkasamt síðari hlutann.
2. Styrkur norðanáttarinnar eins og hann kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær aðeins aftur til 1949. Hér stelur 1954 fyrsta sætinu, 1981 er í öðru og 1974 síðan í því þriðja. Sunnanáttin er mest í september 1959 og svo kemur 2008 í öðru sæti. Það er athyglisvert að þrír septembermánuðir í röð, 1958, 1959 og 1960 eru meðal fimm mestu sunnanáttarmánaðanna. Er þar dæmi um hin íslensku þráviðri?
3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindathugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðvestan, norðan, norðaustan og austanáttar lögð saman. Þá fæst heildartala norðlægra átta. Þessi röð nær aftur til 1874. Hér tekur september 1954 aftur fyrsta sæti norðanáttarmánaða og 1935 er í öðru sæti. September 1935 var í meðallagi hlýr þrátt fyrir norðanáttina. Þá þótti tíð góð vestanlands en mun lakari eystra.
Sunnanáttin er mest samkvæmt þessum mælikvarða 1959, síðan er september 1933 - frægur rigninga- og flóðamánuður.
4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð. Hér er september 1954 enn mestur norðanáttarmánaða og 1974 í öðru sæti.
Sunnanáttin var hér mest 1941 - í hinum afbrigðilega hlýja september þegar mest gekk á þráláta hjarnskafla í fjöllum landsins. September 1904 er síðan í öðru sæti, 1959 er í fjórða sætinu, næst á eftir 1933.
5. Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum. Hér koma aðrir mánuðir inn í norðantoppinn, efstur er september 1918. Mjög kalt var þá í veðri, eins og við vitum gaus Katla í október þetta haust. Næstmestur norðanáttarmánaða er hér september 1932 - ekki sérlega frægur fyrir eitt eða neitt - en kartöflumyglan gerði mönnum lífið leitt.
Sunnanátt í 500 hPa var mest 1904 en næstmest 1933 - 1959 er síðan í þriðja sæti.
Ætli sé ekki óhætt að gefa 1954 efsta sæti norðanáttar - sunnantoppurinn er aðeins meira álitamál. Við sem munum september 1959 höllum okkur frekar að honum heldur en einhverju eldra.
Notum breytileika loftþrýstings frá degi til dags til að meta lægðagang og óróa. Sá mælikvarði nær aftur til 1823. Órólegastur septembermánaða er hér 1855 - ansi langt síðan það var. Varla nefnanlegt. Af nýrri mánuðum kemur september 2007 í 11. sæti. Við munum að þá var mjög úrkomusamt. Rólegastur septembermánaða að þessum hætti var 1837 og þarf að fara niður í níunda sæti til að finna mánuð utan 19. aldar. Þar situr september 1927, en 1998 er ekki langt undan.
Stafrófsstormurinn María berst nú (á þriðjudagskvöldi) fyrir lífi sínu nokkuð langt frá landi norður af Hispanjólu. Á að skipta um föt á föstudag eða þar um bil og hoppa á vestanvindabeltið. Enn er verið að spá leifum í átt til okkar. Katia olli allmiklum sköðum á norðanverðum Bretlandseyjum og eitthvað minntist danska veðurstofan á vind þar í landi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2011 | 00:57
Heiðasti septemberdagurinn (nei - ekki í dag)
Þessi pistill er úr flokknum heiðustu dagar mánaðanna. Reiknuð er út meðalskýjahula á öllum veðurstöðvum frá 1949 til 2010 og heiðasti dagur fundinn. Í september fær sá 14. árið 1994 þann sess. Við lítum á mynd úr safni gervihnattamóttökustöðvarinnar í Dundee í Skotlandi.
Þetta er hitamynd. Því hvítari sem svæði eru því kaldari eru þau. Stórjöklar landsins sjást auðvitað vel - en upplausn myndarinnar er ekki nógu góð til þess að við getum greint hvort snjór er á háfjöllum. Á ljósmynd sem tekin er á sama tíma sést smáskýjabakki við Súgandafjörð og Önundarfjörð og annar alveg yst á Snæfellsnesi - en það er allt og sumt af skýjum. Hér sést vel hversu misheitur sjórinn var við landið og ekki var langt í ískaldan sjó úti af Vestfjörðum. Meðalskýjahula dagsins var aðeins 0,9 áttunduhlutar. Næstir koma svo 28. september 1983 og 6. september 1967.
Skýjaðastur er hins vegar 26. september 1999, þá var meðalskýjahulan 7,99 áttunduhlutar - einn veðurathugunarmaður hefur séð einn bláan blett - eða eina stjörnu einhvern tíma dags/nætur.
Versta skyggnið (lítið að marka þá reikninga) var 21. september 1967 og er hann jafnframt mesti þokudagurinn á tímabilinu. Mesti rigningardagurinn var 20. september 1956. Sá dagur kemst inn á illviðralista septembermánaðar en er þar ekki nálægt toppsæti. Best varð skyggnið (ekki heldur að marka það) þann 30. 1994.
Munum við eitthvað af þessum dögum? Hafa þeir allir lent í hversdagshrúgunni miklu?
Stafrófsstormurinn María strögglar enn í sniðanum og virðist jafnvel ætla að geispa golunni. En bandaríska reiknilíkanið enn að gera eitthvað úr lægðinni á okkar slóðum. Evrópureiknimiðstöðin er sem fyrr mun hógværari en leyfir lægðinni nú að lifa alla leið hingað (á börunum). Leifar Katiu ollu í dag talsverðum usla á Bretlandseyjum og lét að minnsta kosti einn lífið þegar tré féll á bifreið hans.
12.9.2011 | 00:54
Hitabeltissvipurinn öðru sinni
Fyrir tæpum hálfum mánuði fjölluðu hungurdiskarum leifar fellibylsins Irene og þann sérstæða svip sem oft sést á lægðakerfum sem berast af suðlægari breiddarstigum. Nú fáum við að líta þetta svipmót öðru sinni og í þetta sinn á leifum fellibylsins Katiu sem nú er fyrir vestan Bretlandseyjar. Myndin er af vef Veðurstofunnar.
Lægðarmiðjan er um það bil við bláa L-ið á myndinni. Málið er það að nær engin háský eru fyrir sunnan lægðarmiðjuna og erfitt að finna kuldaskil. Frekar er eins og grá slikja þeki svæðið suður og suðaustur af lægðinni. Þetta er svæði þar sem mjög hlýtt loft er í háloftum og bælir það allt uppstreymi um hríð. Þykktin er yfir 5700 metrar. Þetta er samt ekki eiginlegt hitabeltisloft heldur er það frekar úr norðurjaðri hlýtempraða beltisins. Trúlega hefur Katia náð venjulegu útliti á morgun. Það er vel þess virði að veita þessu sérkenni athygli. Það sést reyndar stundum líka á lægðum sem ekki eiga sér hitabeltisuppruna.
Annað atriði er á myndinni sem taka ætti eftir. Það liggur gríðarleg háskýjakápa til norðvesturs frá lægðarmiðjunni og allt til Suður-Grænlands. Hvernig skyldi hún vera tilkomin? Eru einhver skil samfara henni? Hvernig geta þau þá myndast? Hvar er hlýi geirinn eða kuldaskilin? Hvert hreyfist kerfið? Það er óhætt að upplýsa að kerfi sem þessi sjást mjög oft verða til þegar dýpkandi lægðir hreyfast hratt til austurs fyrir sunnan land. Rétt er einnig að taka eftir hinni skörpu suðvesturbrún skýjakerfisins. Hún bendir á tilveru háloftavindrastar sem liggur væntanlega nokkuð samsíða brúninni. Til morguns snarast lægð væntanlega út úr kerfinu um það bil þar sem sporbaugurinn er settur skammt frá Suður-Grænlandi.
Af stafrófsstorminum Maríu er það að frétta að miðja stormsins er nú norðaustur af Puerto Rico en vindhraði er ekki nema um 25 m/s því kerfið er þjáð af sniða. Samt býst fellibyljamiðstöðin í Miami við því að María nái fellibylsstyrk um stutta stund eftir þrjá sólarhringa - í þann mund sem kerfið vendir til norðurs og norðausturs. Fimm sólarhringar eru til Nýfundnalands. Nú er skemmtilegt að sjá hversu gríðarlega tölvuspár eru ósammála um það hvað síðan gerist. Evrópureiknimiðstöðin drepur kerfið og það sést varla á spám hennar. Bandaríska veðurstofan gerir Maríu að meiriháttar lægð sem marka á upphaf haustsins hér á landi. Hvoru skal trúað? Evrópureiknimiðstöðin tók Katiu miklu betur heldur en amerísku spárnar. Eigum við þá að trúa henni varðandi dauða Maríu? Málin ættu að skýrast fljótlega.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 13
- Sl. sólarhring: 156
- Sl. viku: 1934
- Frá upphafi: 2412598
Annað
- Innlit í dag: 13
- Innlit sl. viku: 1687
- Gestir í dag: 12
- IP-tölur í dag: 12
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010