Af afbrigðilegum septembermánuðum (norðan- og sunnanáttir)

Nú lítum við á þrálátustu norðan- og sunnanáttarseptembermánuðina (skemmtileg þessi löngu orð). Rétt er að endurtaka reglurnar þótt þær hafi verið margnefndar áður og gerum við það eftir því sem fram vindur:

1. Mismunur á loftþrýstingi austanlands og vestan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1881. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri vestanlands heldur en eystra séu norðlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi norðanáttin verið. Ákveðin atriði flækja þó málið - en við tökum ekki eftir þeim hér.

Eftir þessum mælikvarða er september 1974 mestur norðanáttarmánaða. Hann var líka kaldur og voru viðbrigðin mikil eftir gæðasumar víðast hvar á landinu - þjóðhátíðarsumarið. Þá var 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar minnst með hátíðum um land allt. Ógleymanleg er bein útvarpsútsending af flugeldasýningu í Reykjavík - nei, ekki sjónvarp - en við landsbyggðamenn heyrðum sprengingarnar mjög vel - sérstaklega vegna þess að enginn þulur truflaði þær. Næstur í röð norðanáttamánaða er 1954 - þá snjóaði um mestallt land í síðustu vikunni - líka í Reykjavík.

Á hinum endanum er mesti sunnanáttarmánuðurinn, september 1901. Hann fær þau eftirmæli að hann hafi verið mjög hlýr en óþurrkar hafi verið til vandræða sunnanlands. Næstmest sunnanátt var 1881. Þá taldist tíð hagstæð og mjög hlýtt var í veðri en nokkuð óþurrkasamt síðari hlutann.

2. Styrkur norðanáttarinnar eins og hann kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær aðeins aftur til 1949. Hér stelur 1954 fyrsta sætinu, 1981 er í öðru og 1974 síðan í því þriðja. Sunnanáttin er mest í september 1959 og svo kemur 2008 í öðru sæti. Það er athyglisvert að þrír septembermánuðir í röð, 1958, 1959 og 1960 eru meðal fimm mestu sunnanáttarmánaðanna. Er þar dæmi um hin íslensku þráviðri?

3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindathugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðvestan, norðan, norðaustan og austanáttar lögð saman. Þá fæst heildartala norðlægra átta. Þessi röð nær aftur til 1874. Hér tekur september 1954 aftur fyrsta sæti norðanáttarmánaða og 1935 er í öðru sæti. September 1935 var í meðallagi hlýr þrátt fyrir norðanáttina. Þá þótti tíð góð vestanlands en mun lakari eystra.

Sunnanáttin er mest samkvæmt þessum mælikvarða 1959, síðan er september 1933 - frægur rigninga- og flóðamánuður.

4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð. Hér er september 1954 enn mestur norðanáttarmánaða og 1974 í öðru sæti.

Sunnanáttin var hér mest 1941 - í hinum afbrigðilega hlýja september þegar mest gekk á þráláta hjarnskafla í fjöllum landsins. September 1904 er síðan í öðru sæti, 1959 er í fjórða sætinu, næst á eftir 1933.

5. Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum. Hér koma aðrir mánuðir inn í norðantoppinn, efstur er september 1918. Mjög kalt var þá í veðri, eins og við vitum gaus Katla í október þetta haust. Næstmestur norðanáttarmánaða er hér september 1932 - ekki sérlega frægur fyrir eitt eða neitt - en kartöflumyglan gerði mönnum lífið leitt.

Sunnanátt í 500 hPa var mest 1904 en næstmest 1933 - 1959 er síðan í þriðja sæti.

Ætli sé ekki óhætt að gefa 1954 efsta sæti norðanáttar - sunnantoppurinn er aðeins meira álitamál. Við sem munum september 1959 höllum okkur frekar að honum heldur en einhverju eldra.

Notum breytileika loftþrýstings frá degi til dags til að meta lægðagang og óróa. Sá mælikvarði nær aftur til 1823. Órólegastur septembermánaða er hér 1855 - ansi langt síðan það var. Varla nefnanlegt. Af nýrri mánuðum kemur september 2007 í 11. sæti. Við munum að þá var mjög úrkomusamt. Rólegastur septembermánaða að þessum hætti var 1837 og þarf að fara niður í níunda sæti til að finna mánuð utan 19. aldar. Þar situr september 1927, en 1998 er ekki langt undan.

Stafrófsstormurinn María  berst nú (á þriðjudagskvöldi) fyrir lífi sínu nokkuð langt frá landi norður af Hispanjólu. Á að skipta um föt á föstudag eða þar um bil og hoppa á vestanvindabeltið. Enn er verið að spá leifum í átt til okkar. Katia olli allmiklum sköðum á norðanverðum Bretlandseyjum og eitthvað minntist danska veðurstofan á vind þar í landi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11
 • w-1945v
 • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (24.5.): 25
 • Sl. sólarhring: 81
 • Sl. viku: 1493
 • Frá upphafi: 2356098

Annað

 • Innlit í dag: 25
 • Innlit sl. viku: 1398
 • Gestir í dag: 25
 • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband