Bloggfærslur mánaðarins, september 2011

Óvenju þurrt loft yfir landinu vestanverðu (og sjálfsagt víðar)

Næturfrostin undanfarna daga hafa verið meiri heldur en tilefni er til - miðað við að loftið yfir landinu er ekkert sérlega kalt. Dægurmet landsins hafa þó ekki verið slegin - en þó er nægilega kalt til þess að það teljist fremur óvenjulegt svo snemma í september. Ástæðan er ekki langt undan því ekki þarf að rýna mikið í gögn til að sjá að loftið hefur verið óvenju þurrt. Nú vill svo til að fyrir nokkrum dögum fjölluðu hungurdiskar um þurrkmet septembermánaðar þannig að taflan sem lá þar að baki er nokkuð fersk í huga ritstjóra.

Fjöldi dægurmeta lágmarkshita á einstökum stöðvum hefur verið sleginn - en líka þurrkmet. Nú verður að játa að ekki hefur gefist tóm til þess að athuga nýju metin í smáatriðum en ljóst er að þurrkurinn er óvenjulegur. Rakastig á sjálfvirku stöðinni í Reykjavík fór vel niður fyrir 30% og Hvanneyri niður í 20%. Daggarmark hefur verið sérlega lágt, jafnvel niður í -10 til -15 stigum og er það óvenjulegt þegar þurr hiti (sá sem mælist á venjulega mæla) er yfir +10 stig.

Þetta þýðir að dulvarma er nær engan að finna í loftinu. Hvað er svo dulvarmi? Það er sá varmi sem felst í hugsanlegri þéttingu þeirrar vatnsgufu (eims) sem er í loftinu. Daggarmark og hlutþrýstingur vatnsgufunnar (rakaþrýstingur) segja nokkuð vel til um það hversu mikill rakinn er á hverjum tíma. Daggarmark lofts breytist ekki nema að raka sé bætt í loftið eða þá að hann þéttist. Við getum því fylgst með rakanum með því að fylgjast með daggarmarkinu.

Hækki daggarmark þýðir það að raki hefur bæst í loftið (eða nýtt loft annars staðar að hafi birst á vettvangi), lækki daggarmarkið þýðir það að raki hefur þést (eða nýtt loft annars staðar að hafi komið í stað þess sem fyrir er).

Sá hiti sem við mælum á venjulegan mæli (oft kallað hitastig loftsins) fer nærri um það hversu mikill varmaorka fellst í þurru loftinu. Þessi varmaorka er oftast kölluð skynvarmi. Þurrt loft er ákaflega lélegur varmageymir.

Vatnsgufa (eimur) ber í sér þá orku sem fór í að láta hana gufa upp - sú orka nefnist dulvarmi loftsins. Þéttist vatnsgufan breytist dulvarminn í skynvarma og hiti (hitastig) hækkar, við tölum þá um dulvarmalosun. Dulvarmalosun á sér stað þegar (þurr) hiti og daggarmark eru jafnhá.

Til þess að dulvarminn geti losnað þarf loft að kólna. Það gerist aðallega á tvo vegu, annars vegar vegna þess að skynvarmi loftsins glatast, oftast við útgeislun - eða þá við þrýstifall, oftast vegna uppstreymis. Fleira getur þó valdið og hafa hungurdiskar áður fjallað um dæmi þar um.

Er þá komið að þurrknum þessa dagana. Ef loftið er svo þurrt að daggarmark þess er mínus 10 stig kemur ekki að dulvarmalosun fyrr en (þurri) hitinn hefur fallið niður í sömu mínus 10 stig. Væri daggarmarkið t.d. mínus eitt stig færi raki að þéttast um leið og útgeislunin hefur fellt (þurra) hitann niður í þann hita. Þá hefst rakaþétting og hún heldur í við hitafallið. Dulvarmalosun getur orðið það mikil að hitinn falli ekki mikið meira en þetta. Þá verður jörð rök af dögg - það verður náttfall - eða þá hrím á jörð eins og oft er í september. Einnig er talað um áfall á jörð.

Við sem förum á berjamó vitum að áfallið getur forðað berjum frá frostskemmdum. Oft bíður maður þess að áfallið þorni áður en farið er að tína. En núna - þessa dagana - ekkert áfall, allt skraufþurrt þar sem ég hef farið um. Rakamagn í lofti getur verið mjög staðbundið, nærri sjó getur raki í lofti verið meiri heldur en inn til landsins.

Ástand sem þetta er óvenjulegt í september, venjulega er rigning flesta daga á þessum árstíma og raki og þar með daggarmark er hátt. Þar sem jörðin er svona þurr er enginn raki til sem sólargeislar dagsins geta komið yfir í dulvarmaveltuna. Ólíklegt má telja að ástand sem þetta standi lengi, enda algengara í apríl, maí eða júní. En þetta eru óvenjulegir tímar.

Af stafrófsstormunum er það að frétta að fellibyljamiðstöðin í Miami hefur sleppt hendinni af Katiu  og lætur evrópska veðurfræðinga taka við. Þeir fara vonandi létt með það. En sem fyrr er Bretland í sigtinu. Maria  strögglar enn og fellibyljamiðstöðin efast nú um að fellibylsstyrk verði náð næstu fimm daga. Fellibyljir sumarsins hafa verið fáir en hitabeltisstormar margir - þess vegna nota ég hugtakið stafrófsstormur um þessar mundir. Það er erfitt að tala sitt á hvað um fellibyl, hitabeltisstorm eða hitabeltislægð um sama kerfið. Stafrófsstormur skal það heita - þar til fellibyljahlutfallið tekur sig á. Mér skilst helst að stormurinn Nate  eigi að verða einn af þessum þriggja- til sexklukkustundarfellibyljum sem fjölgaði svo mjög eftir að farið var að fylgjast með hitabeltisveðurkerfum í smásjá. Ekki má taka því svo að ég sé eitthvað að gagnrýna þetta - síður en svo - enda væri ég að kasta steinum úr glerhúsi.  

 


Snubbótt af stafrófsstormunum

Hungurdiskar eru heldur snubbóttir í dag. Það stafar aðallega af glápi ritstjórans á afspyrnuvonda útgáfu af söngleiknum South Pacific í sjónvarpinu. Lögin standa reyndar fyrir sínu þótt þau hafi sum hver verið ákaflega illa sungin. Viðhorf ritstjóra til höfundanna verða því málum blandnari eftir því sem árin líða - en á góðu kvöldi er þetta samt besti söngleikur þeirra félaga - en ekki núna.

Stafrófsstormar geisa líka á Suður-Kyrrahafi - en nóg um það. Eins og fram hefur komið undanfarna daga eru nú þrír slíkir á Atlantshafi. Katiaer um það bil að breytast í lægð - sem alltaf verður betra og betra að fylgjast með bæði með tunglmyndum sem og tölvulíkönum. Fellibyljamiðstöðin í Miami hefur ekki sleppt hendinni af Katiu og fylgir henni allt norður að Hjaltlandi - þeir segjast vegna galla í tölvubúnaði ekki ráða við austurlengd í teikniforriti sínu (ótrúlegt en satt).

Mariahefur bólgnað út ekki mjög langt austur af Antilleyjum en ekki náð réttum snúningi. Ég er ekki með smáatriði þess máls alveg á hreinu og klukkan er orðin svo margt að rétt mun að halda aftur af sér áður en eitthvað ófyrirséð lekur úr fingrum fram á lyklaborðið. En fellibyljamiðstöðin segir Maríu hressast næstu daga og rétt sé að fylgjast vel með. Framtíðartölvuspár segja storminn komast inn á Norður-Atlantshaf seint í næstu viku - en ekkert samkomulag er um það.

Nate er örsmár stormur sem enn bara liggur og rótast á sama stað og áður við Yúkatanskaga og kemur okkur vonandi ekki við.


Dægurlágmörk september í Reykjavík (og smávegis af stafrófsstormunum)

Við segjum að kuldakastið þessa dagana (9. sept.) sé tilefni til að rifja upp dægurlágmörk Reykjavíkur í september. Með því er átt við hver sé lægsti hiti sem mælst hefur einstaka daga mánaðarins. Skipt er í þrjú tímabil - af upplýsingatæknilegum ástæðum (eða heitir það ekki eitthvað svoleiðis) - sjá má þá skiptingu á myndinni.

w-blogg090911

Lárétti ásinn sýnir daga septembermánaðar en sá lóðrétti er hitakvarði. Línur og tákn sýna síðan dægurlágmörkin. Við tökum strax eftir því að þau lækka mjög ört eftir því sem líður á mánuðinn. Frost eru mjög sjaldgæf fyrstu vikuna. Þá eru lægstu þekkt gildi jafnvel ofan frostmarks. Reyndar hefur frosið í ágúst í Reykjavík en það er afarsjaldgæft og telst til tíðinda.

Bláa línan sýnir tímabilið 1949 til 2010. Lægsta gildið er -4,4 stig þann 24. árið 1974. Þá haustaði hastarlega á Íslandi - reyndar hálfum mánuði fyrr ef mig minnir rétt - eftir afargott sumar. Yngsta gildi töflunnar er frá þeim 25. árið 2005 en þá var líka alvarlegt hret sem víða sló met í snjódýpt. Hartnær helmingur núverandi mælistöðva mun eiga sitt mánaðarsnjódýptarmet í þessu hreti, en margar þeirra hafa að vísu ekki mælt snjódýpt lengi.

Rauða linan sýnir met tímabilsins 1871 til 1948. Tuttugu þessara meta eru frá 19. öld og þar með er það sem við verðum að telja opinbert septemberlágmark Reykjavíkur, -4,8 stig frá þeim 29. árið 1899. Lægsta lágmarkið að tiltölu (það sem víkur mest frá meðalleitnilínunni) er frá þeim 13. árið 1882. ´

Græna línan er samsuða enn eldri talna. Jón Þorsteinsson mældi í Reykjavík og Nesi á árunum 1820 til 1854 og Rasmus Lievog í Lambhúsum við Bessastaði á 18. öld. Fáein ár af mælingum hans hafa varðveist, þar á meðal er lægsta septembertala allra tíma, -6,3 stig, frá þeim 30. árið 1782. Reyndar er rökstuddur grunur um að mælirinn sem Rasmus notaði á árinu 1782 hafi sýnt of lágt - þannig að tölurnar eru aðeins ótrúverðugar. Samræming mælinga Rasmusar og mælinga okkar tíma hefur staðið í hálsinum á mér í hátt i 20 ár. Vonandi hósta ég henni þó upp um síðir.

Af stafrófsstormunum er þetta að frétta: Katia er enn fellibylur en fellibyljamiðstöðin í Miami telur að umbreyting í riðalægð verði innan tveggja sólarhringa. Síðan er sama spá og í gær varðandi stefnuna, hún er á Skotland eða þar rétt norðan við. Nokkur munur er hins vegar á styrkspánni, evrópureiknimiðstöðin er aðeins linari heldur en bandaríska spáin. Skaðar gætu orðið miklir á Bretlandseyjum norðanverðum gangi harðari spárnar eftir. Einar Sveinbjörnsson fjallar um Katiu á bloggsíðu sinni.

Stormurinn María er enn í reifum og tekst á við sniðafenið norðaustur og austur af Antilleyjum. Sumar spár eru farnar að gefa í skyn að hann muni komast til Norður-Atlantshafs um síðir - en allt of snemmt er að fullyrða um það. Stormurinn Nate sem liggur í bæli í Campeche-flóa undan Yukatan á að verða að fellibyl hvað úr hverju og enginn veit hvað hann gerir af sér - auk fárviðris er aftakaúrkoma líkleg þar sem hann ber hjá.


Snjókoma á Grímsstöðum á Fjöllum

Nú er allt í einu vaknaður áhugi um veðurfar á Grímsstöðum á Fjöllum. Rétt er að nota tækifærið og kanna fjölda snjókomudaga í septembermánuði á þeim slóðum í gegnum tíðina. Þar snjóar nefnilega þegar þetta er ritað (miðvikudagskvöldið 7. september 2011). Fáein orð eru um sögu veðurathugana þar á staðnum í fjögurra ára gömlum fróðleikspistli á vef Veðurstofunnar.

Rétt er að taka fram að fjöldi snjókomudaga segir ekkert um það hversu oft snjó hefur fest á stöðinni. Á haustin er mjög algengt að það snjói án þess að hann festi. Snjókomudagafjöldi getur því miður verið háður athugunarmanni. Sumum finnst ekki taka því að nefna þegar slítur aðeins úr korn og korn og aðrir eiga erfitt með að greina mun á hagli (sem getur gert í talsverðum hita) og snjóéljum - enda getur slík aðgreining verið erfið í stöku tilviki. En lítum á línurit.

w-blogg080911

Lárétti ásinn sýnir ártöl en sá lóðrétti fjölda daga. Meðalfjöldi snjókomudaga í september á Grímstöðum er 4,8. Tvo mánuði vantar í röðina, 1918 og 1990.

Við tökum eftir því að engin leitni er sjáanleg, við fyrstu sýn virðist tíðnin vera tilviljanakennd. Með því að leggja inn síu sem þreifar á margra ára sveiflum (blár ferill) sést hins vegar að tíðnin er hvað lægst þegar hlýjast var á fjórða áratugnum, milli 1930 og 1940 og sömuleiðis nýliðinn áratug en hann hefur einnig verið afspyrnuhlýr. Tíðnihámarkið er hins vegar á árunum í kringum 1990 og annað um og upp úr 1920. Áratugasveiflur í veðurfari sýna sig hér að einhverju leyti.

Það er nýlegur september sem tekur metið, árið 2005, mjög sér á parti á þessum áratug með 18 snjókomudaga. September árið eftir, 2006, var engrar snjókomu getið á Grímsstöðum. Aðrir septembermánuðir með háa tíðni snjókomudaga eru 1979 (þegar ég hélt að ísöld hlyti að vera að skella á) og 1940 en þá var mikil umhleypingatíð um tveggja mánaða skeið frá því í ágúst og fram í október. Þetta var fyrsta hernámshaustið hér á landi.

Mesta snjódýpt á Grímsstöðum í september sýnist mér vera 21 cm sem mældist dagana 10. og 11. 1972, en þá var leiðinda norðvestankuldakast um landið norðaustanvert. Snjódýptarskrár þær sem ég hef við hendina á aðalskrifstöfu hungurdiska eru þó gloppóttar - lesendur virði það til betri vegar.

Fellibylurinn Katia er nú farinn að slappast eins og ráð var fyrir gert og fer að venda til norðurs og síðan norðausturs. Framtíðarspár eru svipaðar og í gær og stefna lægðinni til Hjaltlands. Fari svo fer illviðrið að mestu framhjá Íslandi. Tveir aðrir stafrófsstormar eru komnir til sögunnar: Mariasem er að verða til á svipuðum slóðum og Katia fæddist. Hann á að fara svipaða leið og virðist sömuleiðis lenda í sniðafeni á leið sinni. Hinn stormurinn sem er að myndast er staddur í krikanum norðan við Yúkatanskaga í Mexíkó. Hann hefur fengið nafnið Nate og á að grafa þar um sig í nokkra daga - óvíst er um frekari þróun þar um slóðir. Við gefum Katiu gaum áfram og síðan Maríu ef þannig horfir.


Minniháttar kuldakast

Nú kólnar heldur í veðri með norðlægri átt en hún er sjaldan hlý á þessum tíma árs (kemur þó fyrir). Þykktin á að detta niður í 5320 metra aðra nótt (aðfaranótt fimmtudagsins 8. sept.) eins og sjá má á kortinu hér að neðan. Ég veit að mörgum lesendum þykir textinn hér að neðan óttalegt torf en sumir hafa líka ánægju af því að læra betur að lesa úr veðurkortum. Jafnþykktarlínurnar á kortinu eru svartar og heildregnar. Lituðu svæðin eru spá um hita í 850 hPa fletinum (ca. 1250 metrar).

w-blogg070911a

Þetta er hirlam-spá af brunni Veðurstofunnar og gildir á miðnætti á miðvikudagskvöld. Lægsta lokaða jafnþykktarlínan á kortinu er 5320 metrar. Þetta er reyndar ekki sérstaklega lágt miðað við september - en að undanförnu hefur verið frekar hlýtt og mjög hlýtt suðvestanlands. Þykktin hefur verið nærri 5400 metrum undanfarið og suma daga talsvert meira. 

Sé aðfallslina þykktar og hita reiknuð kemur í ljós að hiti hækkar um það bil 0,4 til 0,5 stig við hverja 10 metra aukinnar þykktar (1 dekametra) og að línan sker 0°C í kringum 5240 metra. En stundum bregður mikið út frá þessu. Frostlaust getur verið við lægri þykkt og mikið frost þótt þykktin sé meiri.

Eftir þessu meðalsambandi að dæma verður ekki frost við sjávarmál innan lokuðu 5320 metra jafnþykktarlínunnar. Frostmarkið á þar að vera í um 300 til 500 metra hæð yfir sjó. En samt er spáð næturfrosti inn til landsins langt niður fyrir þessi hæðarmörk. Til þess að það geti orðið þurfa hitahvörf að myndast í neðstu lögum. Það gerist ekki nema í hægum vindi og léttskýjuðu veðri. Þegar við notum þykktina til að gera hitaspár þurfum við að vita þetta.

Í ljós kemur við athugun að frostmarksþykkt í hægu og björtu er mjög misjöfn eftir stöðum á landinu. Frostgæfustu staðir landsins eru í næturfrosthættu jafnvel þótt þykktin sé á bilinu 5400 til 5440 metrar sé vindur hægur og veður bjart. Á öðrum stöðum frýs trauðla við svipuð skilyrði fyrr en neðan við 5280 metra. Sé vindur hvass getur hið gagnstæða átt við - loftið blandast þá betur heldur en meðaltalið gefur til kynna. Þá þarf þykktin að fara niður fyrir 5200 metra til þess að það frjósi.

Einnig ætti að veita því athygli að þar sem vindur stendur upp bratta fellur hiti um 1 stig á hverja 100 metra hækkun (sé loft ekki rakamettað). Þar getur því frostmark verið i 300 metra hæð þótt það sé annars í 500 metrum.

En annars vonum við að spáin sé vitlaus og að þykktin fari ekki svona langt niður - eða þá að vindur hræri svo vel í að lágstæð hitahvörf myndist ekki.

Spár um örlög fellibylsins Katiu eru nú að fá betri skerpu. Hann náði upp á fjórða fellibyljastig í morgun - en hefur nú slaknað heldur aftur og er þegar þetta er skrifað (um miðnæturbil) dottinn niður á annað stig. Uppáhaldsstefna fellibylja á heimaslóðum er í vestnorðvestur og norðvestur en um síðir leita þeir til norðausturs - venda sem kalla má (e. recurve). Katia á að venda aðra nótt og vart síðar en á fimmtudag. Þá tekur hann strikið til norðausturs inn á Norður-Atlantshaf.

Fellibyljamiðstöðin í Miami gerir ráð fyrir því að fellibylurinn muni umturnast í riðalægð á laugardag og verði á sunnudag kominn norður á 53°N og 29°V. Eins og venjulega eru engar spár sammála um það hvernig síðan fer. Í dag stefndu flestar spár bylnum til Færeyja eða Bretlands og gerðu mismikið úr.

Evrópureiknimiðstöðin sendir hann um Hjaltland til Noregs á þriðjudag í næstu viku. Kanadíska veðurstofan er með svipaða stefnu en miklu slappari lægð. Bandaríska veðurstofan leyfir sér að skipta um skoðun fjórum sinnum á dag en síðast þegar fréttist var stefna mjög djúprar lægðar sett milli Íslands og Færeyja. Breska veðurstofan var heldur linari en lægðinni spáð nær Íslandi. Við verðum að fylgjast með þessu enn um sinn.


Rakamet - hvað er það?

Um leið og minnst er á mettunarrakaþrýsting ganga menn út eða sveigja frá. Reynslan segir svo vera. Sé því bætt við að mettunarakaþrýstingur yfir ís sé lægri heldur en yfir vatni taka flestir til fótanna. Nei, nei, hér stendur ekki til að minnast frekar á þennan ógnvald allrar athygli. Réttur er samt áskilinn til að nefna hann síðar.

Hugtakið loftraki er ekki auðvelt viðfangs. Um hann eru notuð mörg hugtök, öll nauðsynleg hvert á sinn hátt. Aðgæslu þarf í umgengni við þau. Hér minnumst við á tvö. Annars vegar rakastig og hins vegar daggarmark.

Varðandi skilgreiningar er hér vísað til nokkurra fróðleikspistla á vef Veðurstofunnar. Rakastig er tilgreint í prósentum, sé rakastigið 100 prósent er sagt að loft sé mettað raka. Það er til ákveðinna óþæginda þegar rætt er um rakastig að mettun er mjög háð hita loftsins. [Strangt tekið er mettunin háð hita vatnsgufunnar í loftinu en langoftast er hiti hennar og loftsins sá sami - þó með athyglisverðum undantekningum.] Sama loftið úti (við lágan hita) og inni (við háan hita) hefur því gjörólíkt rakastig. En - rakastigið er samt hagkvæmt hugtak því það gefur ágæta hugmynd um það hversu vel raki gufar upp þar sem mælt er og þannig séð hvort þurrt er eða rakt. Skiptar skoðanir eru um æskilegt rakastig í húsum - við gætum rætt þar síðar en ekki nú.

Málið hér er að rakastig (útivið) hér á landi er oftast á bilinu 60 til 100%. Rakastig er oft 100% - þannig að við höfum ekki áhuga á metum í þann endann. Metadeild hungurdiska hefur hins vegar áhuga á því hversu lágt það getur orðið. 

Lægsta gildi á sjálfvirkum stöðvum í september er 6%. Talan er frá ótrúlegum stað, Stórhöfða í Vestmannaeyjum og er nærri því örugglega röng. Það getur varla verið rétt. Hins vegar mældist rakastigið aðeins 15% í Vestmannaeyjabæ þann sama dag, 14. september 2007 og 10 stöðvar aðrar eiga sín þurrkmet sama dag.

Lægsta tala á mannaðri stöð í september er 13%, mæling frá Sauðanesvita þann 17. árið 1998. Nokkrar stöðvar eiga minna en 20% raka þann 2. september 1976. Ef nógu margir tyggja það sama hallast maður að því að trúa því. Ég held að við verðum að gera ráð fyrir því að rakastig hafi komist niður fyrir 20% í september hér á landi. En - ef við lítum á þetta í hverjum mánuði næsta árið ættum við að læra smám saman hverju er trúandi og hverju ekki.

Daggarmarkið látum við bíða - en máli skiptir að vita hversu hátt það fer. - Hvaða máli? - það er nú það.

Fellibylurinn Katia hefur staðið undir nafni í dag. Fellibyljamiðstöðin í Miami segir miðjuþrýsting nú 959 hPa og vindhraða (1-mínútu meðaltal) 100 hnúta, hviður í 115 hnútum. Það er þriðja stigs fellibylur. Búist er við að styrkur haldist svipaður eða litlu minni næstu tvo sólarhringa en síðan dragi úr - þegar kólnar undir Katiu. Eftir 5 daga á bylurinn að vera kominn í útjaðar veðurkorta af Norður-Atlantshafi. Þá hefur vonandi skýrst hvort hann verður að hrelli eða ekki. Spár eru enn mjög misvísandi hvað það varðar - það misvísandi að ekki þýðir að ræða það til gagns.


Haustar á norðurhveli - (og fleira)

Fyrirsögnin telst vart til tíðinda 5. september - en hungurdiskar vilja samt gefa því gaum. Og við lítum á norðurhvelskort frá evrópsku reiknimiðstöðinni - spá sem gildir þriðjudaginn 6. september kl. 12.

w-blogg050911a

Fastir lesendur kannast við kortið og táknmál þess - en fyrir aðra er rétt að skýra það aðeins. Höfin eru blá, löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en sú þunna sýnir hæðina 5820 metra.

Nú hefur það gerst að 5460 metra jafnhæðarlínan umfaðmar risastórt svæði á norðurslóðum en í sumar skiptist hún upp í marga smáa hringi. Kólnun á norðurslóðum er hafin. Kalt loft er fyrirferðarminna heldur en hlýtt og þess vegna styttist upp í 500 hPa þrýsting. En 5820 metra línan (sú þunna rauða) hefur lítið sem ekkert hörfað til suðurs. Það þýðir að bratti hæðarsviðsins hefur aukist og þar með er vindhraði í háloftum orðin meiri heldur en hann var fyrr í sumar. Gríðarlegur vindstrengur er t.d. yfir Bretlandi og þar gengur yfir hvert lægðakerfið á fætur öðru.

Við sjáum lægðirnar hins vegar fara hjá fyrir sunnan land. Að lægðir fari til austurs fyrir sunnan land þýðir auðvitað austlægar og norðlægar áttir hér á landi - svipað því sem verið hefur lengst af í sumar. Það er hins vegar nokkuð langt í verulega kalt loft norðurundan. Þykktin verður að lóna í kringum 5350 til 5430 metra næstu dagana. Það þýðir að ef vind lægir og hann léttir jafnframt til verður hætta á næturfrosti inn til landsins - en það tilheyrir septembermánuði.

Þykktin yfir Norðuríshafinu er ekki enn komin niður fyrir 5160 metra þannig að þar er vetur varla skollinn á. Á kortum í dag sást hins vegar að -4 til -6 stiga frost er við Norður-Grænland og norðurskautið, marktækt neðar en frostmark sjávar (um -2°C). Ís bráðnar þar trúlega ekki meir og ísflatarmál næstu tvær til þrjár vikur ræðst mest af vindi sem ýmist dreifir úr ísnum eða þjappar honum saman. Eitthvað bráðnar þó áfram við Austur-Grænland. Spennandi er að fylgjast með því hver lágmarksútbreiðslan verður.

Á kortinu má sjá fellibylinn Katiu sem er nú komin framhjá keldunni sem hún hefur verið að berjast í síðustu daga og er nú orðin alvöru fellibylur. Langtímaspár eru enn (auðvitað) mjög óvissar um örlög hans hér á norðurslóðum. Ýmist á honum ekki að takast að stökkva inn á vestanvindabeltið eða þá að verða að afskaplega myndarlegri lægð. Þetta ætti að fara að skýrast undir lok vikunnar. Við fylgjumst með.

Óvenjuleg úrkoma var á Ströndum síðastliðna nótt og segist Jón G. Guðjónsson veðurathugunarmaður í Litlu-Ávík aldrei hafa mælt svo mikla úrkomu eftir 15. klukkustundir (frá kl. 18 þann  3. til kl. 9 þann 4.) Um þetta má lesa á vef hans - Litlahjalla - kíkið á það.

Við notum tilefnið til að birta lista um hámarkssólarhringsúrkomu á öllum veðurstöðvum í september í viðhengi. Listinn er þrískiptur á sama hátt og hámarks- og lágmarkslistarnir sem hér birtust í gær og í fyrradag. Fyrst eru sjálfvirku stöðvarnar. Þar verður að athuga að sjálfvirkar mælingar á úrkomu eru nýtilkomnar og því eru mörg metanna varla marktæk. Neðan við er listi með mönnuðum stöðvum 1961 til 2010 og síðan listi sem nær frá 1857 til 1960.

Úrkoma var mæld á sárafáum stöðvum fyrir 1925 - en þær mælingar eru samt með. Það má t.d. sjá að Grímsey, Teigarhorn, Stykkishólmur og Eyrarbakki eiga allar tölur frá 19. öld í þessum lista. Stykkishólmur og Eyrarbakki meira að segja sama daginn, þann 4. árið 1893. Þann dag varð mikið skipsstrand í Ólafsvík - ég þarf að fletta meira til að finna nákvæmlega hvað það var.

Hæsta talan í listanum eru 197 mm sem mældust á Nesjavöllum þann 17. september 2008, næsthæsta talan, 187 mm var mæld sama dag en gerði gríðarlega úrkomu um sunnan- og vestanvert landið í tengslum við leifar (eða þannig) fellibylsins Ike. Miklir vatnavextir urðu og foktjón einnig. Um þetta veður má lesa í fróðleikspistli á vef Veðurstofunnar. Athugið að vegna annarrar skiptingar milli sólarhringar ber tölum í pistlinum ekki saman við þann lista sem hér fylgir.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Köldustu septemberdagarnir

Við lítum nú á köldustu septemberdagana frá og með 1949 - að meðaltali yfir landið í heild. Það kemur ekki á óvart að þeir eru allir seint í mánuðinum.

Fyrst koma þeir dagar sem eru kaldastir að meðaltali:

ármándagurmeðalhiti
1969930-1,27
1954927-0,71
1969929-0,41
1954925-0,22
1994929-0,06
1975929-0,01
19819300,16
20059240,31
19549260,35
19749230,37
19549290,38
19699280,40
19549280,42
19949300,43
19689300,44

Hálendisstöðvar eru ekki með í meðaltalinu. Við sjáum að 6 dagar síðustu 61 árin hafa endað með meðalhita neðan frostmarks. Eftirminnilegur dagur er í efsta sæti lístans, 30. september 1969. Á hann hefur áður verið minnst á hungurdiskum - daginn áður var hríð um mikinn hluta landsins og mikil röskun á umferð.

Síðasta vika september 1954 var einnig óvenjuleg fyrir kulda sakir. Þann 27. mældist mesta frost sem mælst hefur í þessum mánuði, -19,6 stig í Möðrudal. Vonandi verður slíkt ekki endurtekið á næstunni. Á listanum er aðeins einn dagur á nýrri öld, 24. september 2005. Þá segir í annálum að hjólhýsi hafi fokið heilan hring á tjaldstæði við Skagaströnd.

Listinn yfir lægsta meðallágmark er ekki alveg eins.

ármándagurmeðalhiti
1994930-3,52
1954927-3,17
1994929-2,98
1969930-2,90
1954926-2,88
1975929-2,87
1954929-2,86
1982922-2,35
1954928-2,33
1975930-2,29

Hér skýtur 30. september 1994 öðrum ref fyrir rass, en sá 27. 1954 er enn í öðru sæti. Fáeinar veðurstöðvar eiga sín lágmarksmet þennan dag 1994 (sjá listann í viðhenginu).

Og alltaf er áhugavert að líta á lista yfir lægstu hámörk.

ármándagurmeðalhiti
19699301,59
19699291,80
19749232,49
19909202,64
19549282,66
19889262,72
19889292,87
19549262,90
20059252,92
19549272,94

Þar fer 1969 aftur á toppinn og 2005 er aftur á listanum, en þarna koma inn bæði 1988 með tvo afspyrnukalda daga og 1974 með einn.

En listi yfir septemberlágmörk allra stöðva er í viðhenginu. Hann er þrískiptur, fyrst koma allar sjálfvirku stöðvarnar - þar koma kuldaköst síðustu 15 ára vel fram. Þar fyrir neðan er listi yfir mönnuðu stöðvarnar 1961 til 2010 og loks listi yfir lágmarkshita mannaðra stöðva 1924 til 1960.

Ástæða er til að geta þess að lægsti hiti sem mælst hefur í september í Reykjavík er -4,8 stig. Mældist í miklu kuldakasti þann 29. 1899. Í þeim mánuði varð alhvítt í Reykjavík þann 22.

Fellibylurinn Katia er ekki fellibylur í augnablikinu heldur hitabeltisstormur. Heldur þó áfram leið sinni til vestnorðvesturs. Hann er nú á leið undir háloftavindstreng sem tætir ofan af uppstreymiskerfinu. Tölvuspár eru enn ósammála um framhald stormsins (eða fellibylsins) og gera ýmist ekkert úr honum eða þá mikið hér á norðuslóðum. Við fylgjumst með svo lengi hann lifir.

En nördin ættu að kíkja á viðhengið. Það má afrita og líma inn í töflureikni og raða á ýmsa vegu. Varið ykkur þó á því að met sem sett eru á stöðvum sem aðeins hafa athugað í eitt til þrjú ár eru afskaplega veigalítil. Mesti kuldi sýnir ekki tennur sínar nema á margra ára fresti.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Góður dagur á höfuðborgarsvæðinu - hvaðan kom loftið?

Hér var fyrir hálfum mánuði (18. ágúst) vísað á slóðareikni bandarísku veðurstofunnar (hysplit). Við gerum það aftur í þessum pistli og látum reikna hvaðan loftið sem var yfir Reykjavík í dag var komið - að mati líkansins. Myndin er dálítið erfið en menn ættu þó að átta sig á henni sé athygli stunduð. w-blogg030911

Ferlarnir þrír sýna loft í mismunandi hæð. Eins áður hefur verið sagt felst veðrið í endalausum stefnumótum lofts úr ólíkum áttum - misólíkum þó. Á þessari mynd má sjá að loftið í 300 metra og í 1599 metra hæð hefur undanfarna fjóra daga verið á leið frá Bretlandseyjum eftir að hafa hringsnúist þar. Ekkert fellibyljaloft það.

Ofar, í 5 km hæð, er loftið hins vegar komið að vestan. Neðri hluti myndarinnar sýnir í hvaða hæð loftið hefur verið á ýmsum tímum frá því kl. 6 að morgni 29. ágúst þar til kl. 6 að morgni 2. september - athugið að tímaásinn gengur frá hægri til vinstri. Blái ferillinn (1500 metra hæð) var fyrir fjórum dögum í svipaðri hæð og í lokin eftir að hafa fyrst lent í niðurstreymi og síðan uppstreymi. Uppstreymið er nokkuð mikið og á sér stað á frekar stuttum tíma. Kannski það hafi búið til regndropana síðastliðna nótt. Lægsta loftið er á niðurleið í endann - hefur þá hlýnað um 1 stig á hvert 100 metra sig.

Þegar leið á daginn hefur kannski enn hærra loft blandast inn þannig að hitinn komst í um 18 stig á höfuðborgarsvæðinu - en það er mjög mikið á þeim slóðum í september (samanber metalistann sem birtist í viðhenginu hér á hungurdiskum í gær - merkt 2, september).

Loftið í 5 kílómetra hæð er komið að vestan - reyndar mjög svipaða leið og leifar fellibylsins Irene. Það er gaman að sjá að það hefur verið í 5 km hæð í byrjun reikninganna síðan sigið verulega, allt niður fyrir 2 kílómetra á leiðinni en síðan risið aftur. Mér finnst ekkí ósennilegt að þetta loft hafi einmitt verið á niðurstreymissvæðinu sem við sáum svo vel á gervihnattamynd á dögunum (merkt 31. ágúst - innan rauða sporbaugsins á myndinni). Þetta loft er þó varla hitabeltiskyns þótt hlýtt sé, frostið í 500 hPa var þó aðeins -21 stig yfir Keflavík í dag en það telst hlýtt í þeirri hæð.

Fellibylurinn Katia hefur átt í ströggli í dag. Margs konar plágur herja á fellibylji. Tvær þeirra plöguðu Katiu í dag. Annars vegar þurrt loft og hins vegar vindsniði. Verði loft of þurrt bregst fóðrið  (losun dulvarma) og sé vindsniði of mikill sníðst fellibyljahringrásin bókstaflega í sundur. En ekki er skortur á hlýjum sjó á slóðum Katiu þannig að kannski tekst fellibylnum að hrista af sér þessa óværu.

Svo er vaxandi hitabeltisstormur á Mexíkóflóa og heitir nú Lee - gæti haft áhrif á örlög Katiu. Ég hef einnig séð á það minnst að hitabeltisstormurinn Talas (nú við Japan) muni hoppa á vestanvindabeltið um helgina og geti haft áhrif á langbylgjumynstur lofthjúpsins á Atlantshafi á ófyrirséðan hátt.


Hlýjustu septemberdagarnir

Hér lítum við á hverjir eru hlýjustu dagar á landinu í september frá 1949 til 2010 - auðvitað með þá von í brjósti að listinn úreldist sem fyrst. Hlýtt gæti orðið á stöku stað um landið næstu daga en varla á því í heild - eins og var þessa daga í fyrra. Já, það var aldeilis óvenjuleg hitabylgja eins og sjá má af lista sem sýnir 15 hlýjustu septemberdaga á landinu í heild - miðað við meðalhita sólarhringsins, allar tölur í °C:

ármándagurmeðalh
20109314,68
20109414,61
20109513,72
194991213,40
20039113,32
20109213,30
19969413,19
200291413,19
199691713,18
195891713,14
20039212,91
198891412,86
19989112,85
195891112,83
20109712,69

September 2010 á fimm daga af fimmtán á listanum og þar af þá þrjá hæstu. Mánuðurinn í heild olli hins vegar miklum vonbrigðum því það skipti rækilega um veðurlag í síðari hluta hans. Aðeins þrír ágústdagar hafa á tímabilinu verið hlýrri heldur en 3. september 2010.

Á meðalhámarkslistanum skorar 2010 einnig með afbrigðum vel:

ármándagurmeðalhámark
20109418,33
20109317,61
20109517,57
20109217,17
200291416,46
20109716,39
20039115,92
19969415,89
20039415,83
200291315,76

September 2010 á hér fjóra efstu, en 3. og 4. hafa skipt um sæti. Hæsti hiti ársins 2010 mældist á Möðruvöllum í Hörgárdal þann 4., 24,9 stig. Sama dag varð einnig metseptemberhiti á Akureyri og Krossanesbrautin hafði meira að segja lítillega betur (24,0°C) heldur en Lögreglustöðin (23,6°C). Hér eru allir dagar nema einn frá 21. öldinni. Er að hlýna?

Og næturlágmarkið - hlýjustu næturnar?

ármándagurmeðalhámark
20109412,00
20039211,46
20109511,40
20109311,05
19989110,87
200991310,77
19569210,60
20109610,59
199792310,57
20109710,56

Enn er 4. september 2010 efstur, en nú er dagur frá 2003 í öðru sæti og þarna er einnig fulltrúi gamla tímans, 2. september 1956 - aðeins fáum dögum eftir kuldametadagana í lok ágúst það ár.

Svona er nú það. Í viðhenginu (textaskrá) er uppfærður listi hámarkshita á einstökum veðurstöðvum. Um hann fjölluðu hungurdiskar í fyrra - eftir að hitabylgjan var gengin yfir. Listinn er því endurtekið efni að mestu. En sérstaða hitabylgjunnar kemur vel fram í lista meta sjálfvirkra stöðva. En í listum mönnuðu stöðvanna (1924 til 1960 og 1961 til 2010) rifjast upp margir góðir dagar.

Þeir sem vilja geta tekið listann inn í töflureikni og raðað honum að vild.

Af fellibylnum Katiu er það að frétta að styrkurinn í dag hefur gengið upp og niður - ýmist fellibylur eða hitabeltisstormur. Auga hefur ekki náð að myndast. Þeir sem fylgjast með langtímaveðurspám á netinu hafa efalaust tekið eftir því að fellibyl er öðru hverju spáð hingað til lands. Kannski er það Katia eða einhver annar fellibylur. Kannski gufa þeir allir upp.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • w-blogg220724b
  • w-blogg220724a
  • w-blogg210724
  • Slide2
  • Slide1

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 17
  • Sl. sólarhring: 427
  • Sl. viku: 2733
  • Frá upphafi: 2378309

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 2421
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband