Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Hvítar flygsur í Reykjavík 10. júní

Þegar þetta er skrifað - kringum miðnætti fimmtudagskvöldið 9. júní falla hvítar flyksur úr lofti í Reykjavík. Mér sýndist áðan að snjór væri niður í um það bil 300 metra hæð á Esjunni og hiti er um frostmark bæði í Þrengslum og á Hellisheiði. væntanlega í snjókomu. Úrkoma er sjaldan viðvarandi í norðanátt á þessum slóðum en meðan hún gengur yfir getur hiti á láglendi farið enn neðar. Kannski festir snjó stutta stund í efri byggðum höfuðborgarsvæðisins, en varla lengi.

Við lítum á mynd sem sýnir vind og hita í 850 hPa fletinum (um 1400 metra hæð) í hirlam [high resolution limited area model] spá sem gildir um hádegi föstudaginn 10. júní. Þetta er ekki alveg létt að skoða en það er samt vel þess virði.

w-blogg100611c

Jafnhitalínur eru sýndar með bláum strikum þar sem frost er (erfitt er að lesa úr þeim), græna línan er frostmark og þær rauðu sýna hita ofan frostmarks. Allar jafnhitalínur eru dregnar með 2 stiga millibili. Langhlýjasta loftið er norðaustast á kortinu. Þar er hiti yfir 8 stig og ekki er langt í 12 stiga línuna. Kaldasta loftið er hér komið suðvestur fyrir land og þar má einhvers staðar sjá mínus 8 jafnhitalínu. Sú lína er nú um miðnættið (aðfaranótt fimmtudags) yfir Norðurlandi en hefur þegar hér verður komið sögu borist suðvestur fyrir landið.

Fyrir norðan land má sjá hvernig vindörvar liggja þvert á jafnhitalínurnar og þar ber vindur hlýtt loft í stefnu sína. Nær landi liggja vindörvar og jafnhitalínur nokkurn veginn samsíða. Þar helst hiti svipaður, austast eykst flatarmál bláu svæðanna heldur. En það er samt von til þess að loft sem er 0 til  mínus 3 stig komist vestur fyrir landið. Ef austanáttin nær alveg til vesturlands hlýnar hún heldur í niðurstreymi, rétt eins og litli græni hringurinn sýnir loft á niðurleið í vesturjaðri Vatnajökuls (reyndar fjalls í líkaninu sem er einungis til þar en ekki í raunveruleikanum).

Uppi í 500 hPa er myndin svipuð. Sömu tákn eru notuð nema hvað hvergi er þar frostlaust.

w-blogg100611d

Í norðausturhorninu má sjá mínus 14 jafnhitalínuna, ótrúleg hlýindi það enda hitamet slegin í Norður-Noregi. Í Saltdal í Nordlandfylki fór hitinn í 31,8 stig, Lausafregnir herma að það sé hæsti hiti sem mælst hefur í öllum Norður-Noregi í júní frá því að mælingar hófust og hiti fór í yfir 23 stig í Lofoten-eyjaklasanum. Vonandi berast nánari fréttir af því síðar, en norska veðurstofan hafði í dag mestar áhyggjur af úrfellisrigningu og flóðum sunnar í landinu - og á íþróttamótinu á Bislettvelli í Osló.

En aftur til Íslands. Hér sjáum við að flestar vindörvar blása meðfram jafnhitalínum þannig að hvorki gengur né rekur með hlýtt og kalt aðstreymi. Þeir sem hafa dug til að rýna nákvæmlega í kortið sjá þó að undantekningar eru frá megindráttunum og þær undantekningar skipta máli þegar til lengdar lætur.

Þessa dagana er gengið á veðurfræðinga og þeir spurðir um það hversu óvenjulegur kuldinn sé. Svarið við því er þannig að sé miðað við upphaf júnímánaðar er kuldinn svipaður og búast má við á um það bil 10 ára fresti. Ámóta kuldaköst komu á þessum tíma bæði 2001 og 1997. Kastið 1997 var snarpara sérstaklega vegna þess að á undan því fóru nokkrir mjög hlýir dagar með hita vel yfir 20 stigum norðanlands. Þá stóðu smáþjóðaleikar yfir í Reykjavík og mátti sjá hvít korn fjúka um Laugardagsvöllinn meðan á keppni stóð. Þá gerði alhvítt á láglendi í kringum Selfoss.

Sumir benda réttilega á að nú hafi kuldakast staðið í þrjár vikur og spyrja hversu óvenjulegt það sé. Til að geta svarað þessu gríp ég til morgunhitaraðarinnar miklu úr Stykkishólmi. Sé tímabilið 19. maí til 9. júní á árunum 1846 til 2011 lagt undir kemur í ljós að 2011 lendir í 25. neðsta sæti af 166. Slakur árangur? Langkaldast var þetta tímabil 1860, meðalhiti 1,7 stig, meir en þremur stigum kaldara en nú (5,0 stig).

Sé litið á síðustu 70 ár lendir 2011 í 6. sæti. Langkaldast á þessum tíma var 1949, meðalhiti 3,1 stig. Í mig hringdi athugull og fróður maður í dag og rifjaði upp þann einkennilega júnímánuð og umskiptin miklu sem þá urðu. Ég þakka honum fyrir það. Fyrst hlýnaði austanlands, í kringum þann 10. og um það bil viku síðar kom mikil hitabylgja sem virðist hafa greipst í þá sem hana upplifðu - umskiptin voru svo mikil. Þrátt fyrir gríðarkalda byrjun endaði mánuðurinn í Reykjavík í nærri því 10 stigum, vel yfir meðallagi - hvaða 30-ára tímabils sem er.


Þreyjum enn kuldann

Nú er mesti kuldinn í háloftunum skriðinn hjá og þar með tekið eitt skref að skárri tíð. En þegar hlýtt loft nálgast gerist það yfirleitt þannig að fyrst hlýnar uppi, en síðast niðri. Þykktin yfir landinu fór niður fyrir 5200 metra síðastliðna nótt og verður um hádegi á morgun komin upp í um 5300 metra, hlýnun um 5 stig að meðaltali í neðri hluta veðrahvolfs. Um helgina er henni síðan spáð í 5400 metra, 5 stiga hlýnun til viðbótar. Það er samt ekki gott - í óskaheiminum.

Í 5 km hæð er nú 33 stiga frost en á að fara upp í 26 síðdegis á morgun. Í 1400 metra hæð hlýnar hins vegar lítið til morguns. Heldur meira þó sunnanlands en norðan. Norðanáttin á að verða nokkuð stríð á morgun (fimmtudag) og hætt er við því að úrkoman sem fylgir verði hvít. Ekki veit ég hversu víða það verður - en fylgist með því á vef Veðurstofunnar.

w-blogg090611a

Við sjáum hér hefðbundið 500 hPa-veðurkort. Svörtu heildregnu línurnar sýna hæð flatarins í dekametrum (dam=10 metrar). Því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Rauðu strikalínurnar sýna þykktina í dekametrum. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Það er 5340 metra línan sem liggur yfir Austurlandi, það þykir okkur lélegt á þessum tíma árs, helst viljum við 5460 metra eða meira.

L og H sýna háloftalægðir og háloftahæð. Blái punkturinn er kuldapollurinn sem fór yfir síðastliðna nótt og er hann nú að hringsóla sunnan við land. Hann verður því miður að slaga á þeim slóðum eins langt og séð verður í spám - en minnkar samt að afli og verður misnálægt okkur. Það er erfitt að losna við svona polla yfir sjó á sumrin - nema að bylgjugangur vestanvindabeltisins sparki í þá. Við skulum þó ekkert endilega vera að óska eftir einhverju slíku sparki því það getur kostað frekara vesen, t.d. lagt okkur á brautarteina lægðalestarinnar sem rennir stundum yfir okkur vikum saman á sumrin. En vel má vera að með lagni megi sparka pollinum út af svæðinu án þess að það komi niður á veðri hér.

En slíkt er langt í framtíðinni. Á kortið eru lagðar tvær örvar. Sú rauða sýnir hvar mjög hlýtt loft er í framrás norðan við land, óvenjuhlýtt er óhætt að segja. Ef strönd Noregs tekst að losa sig við þungt sjávarloftið fer hiti þar í um 30 stig, en bara ef. Ef við skoðum rauðu örina nánar sést að hún er að ýta jafnþykktarlínubunka á undan sér í átt til Grænlands.

Brúna örin liggur hins vegar samsíða þykktarlínunum og gengur þar hvorki né rekur með framrás á hlýrra lofti. Allt er þar samsíða hæðarlínum utan um kuldapollinn.

En við þreyjum kuldann. Mér telst til að hiti í Reykjavík sé nú um 1,7 stigi undir meðallagi, en eystra, á Dalatanga, hangir hitinn enn í meðallaginu. En nimbus er að vanda með mánuðinn í gjörgæslu og er áhugasömum bent á að leita þangað varðandi frekari hitaupplýsingar á líðandi stund.


Eitthvað skárra?

Nú skríður síðari hluti kuldans slæma suður yfir landið í nótt og á morgun. Þá tekur eitthvað skárra við. Skárra í þeirri merkingu að heldur hlýnar en ósagt skal látið um annað.

w-blogg080611a

Kortið er þykktarspá sem gildir klukkan 9 að morgni miðvikudags 8. júní. Svörtu heildregnu línurnar sýna þykktina í dekametrum (dam=10 metrar), en lituðu fletirnir hita í 850 hPa fletinum. Lægsta jafnþykktarlínan yfir landinu er 5200 metrar. Það er með því lægsta sem vænta má í júnímánuði.

Sólinni tókst i dag að kreista skúrir út úr kalda loftinu á stöku stað og þegar þetta er skrifað (um miðnætti) hefur útgeislun ekki enn tekist að ganga frá öllum skýjum dagsins. Lágmarkshiti næturinnar fer nokkuð eftir því hvort skýjað er eða ekki. Þrátt fyrir skýin fer hiti samt víða niður fyrir frostmark að næturlagi. Þar sem úrkoma er á annað borð yfir nóttina og fram á morgun er jafnlíklegt að hún falli sem snjór.

En kuldinn á að fara suður yfir land og hringsólar milli Íslands og Bretlands næstu daga, en sjávarhitinn dregur smám saman úr honum mesta broddinn. Á kortinu má sjá að fyrir austan land er mikill þykktarbratti - hiti vex hratt til austurs. Þetta loft sækir til vesturs fyrir norðan land. Meðan á framsókn þess stendur hvessir eitthvað hér á landi. Við látum veðurspámenn um að dreifa upplýsingum um þann vind og úrkomu sem fylgir. En lítum á 500 hPa-kort af stærra svæði.

w-blogg080611b

Þetta er spá evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir hún um hádegi á fimmtudag (9. júní). Línurnar á myndinni sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum, sú rauða, þykka, er 5460 metra jafnhæðarlínan og sú þynnri rauða er 5820 metrar. Að undanförnu höfum við verið að sjá að svæðin sem liggja neðar en 5460 metra línan minnka stöðugt að flatarmáli. Sumarið er að stækka yfirráðasvæði sitt.

Kalt loft hefur á kortinu lokast inni sunnan Íslands, vel aðskilið frá öðrum köldum svæðum. Mikil hæð er yfir Finnlandi norðanverðu og beinir hún mjög hlýju lofti til norðvesturs, í svipaða stefnu og rauðbrúna örin sýnir. Því miður nær það varla til Íslands, en þó nóg til þess að koma þykktinni upp fyrir 5400 metra um helgina. Það þýðir að við fáum yfir okkur loft sem er 10 stigum hlýrra heldur en það sem nú er yfir landinu og munar um minna. Hvenær nákvæmlega það verður kemur í ljós í veðurfréttum næstu daga.

En við þyrftum helst að losna við 5460 metra línuna frá landinu til þess að almennilega hlýni. Framtíðarspár eru hikandi hvað það varðar. En hlýja loftið um helgina ýtir eitthvað við henni þó ekki sé nema í bili.

Í viðhenginu má sjá dægurlágmörk júnímánaðar fyrir Reykjavík og Akureyri. Þar skal taka eftir því að Reykjavíkurröðin er tvískipt, skipt er um 1949. Á Akureyri voru engar lágmarkshitamælingar fyrir 1937. Í leit að eldri gildum þurfti að líta til lægsta hita á athugunartíma. Í júní er dægursveifla hitans hvað eindregnust og kerfisbundinn munu er þá á lágmarkshita og hita á fyrsta athugunartíma morgunsins. Þetta er ekki eins áberandi þegar sól er lægra á lofti.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Dægurlágmörk í júní

Það er ágætt að hafa við höndina lista með lægstu dægurlágmörkum júnímánaðar, ef kuldinn skyldi ofbjóða okkur. Listinn fyrir byggðir og landið allt er í viðhenginu en við kíkjum lauslega á mynd.

w-d_tn-juni

Landsmetið er frá stöðinni í Nýjabæ á Nýjabæjarfjalli inn af Eyjafirði en þar var starfrækt mönnuð veðurstöð í eitt ár. Sennilega mesta veðravíti allra mannaðra stöðva á landinu. Helstu keppinautar eru Sandbúðastöðin sem rekin var í fimm ár mönnuð og stöðin á Jökulhálsi við Snæfellsjökul veturinn 1932 til 1933. Kuldakastið 1973 er eftirminnilegt, ég var að vísu ekki á landinu. Var ekki hvítasunnufagnaður unglinga í Þjórsárdal - þar sem snjóaði? Athugulir lesendur sjá smávillu í myndinni og í viðhenginu en hún ætti ekki að koma að sök.

Byggðarmetið er gamalt, úr Grímsey 3. júní 1890. Sennilega er vissara að athuga það nánar, en kuldakastið í upphafi júní það ár var alvöru. Þennan dag var hámarkshiti í Reykjavík 3,5 stig og hefur aldrei orðið lægri í júní. Tveimur dögum síðar gerði ökklasnjó í Vestmannaeyjum og bátur fórst á leið frá Akranesi í Borgarnes.

Í viðhenginu má sjá að háfjallastöðvarnar eru smám saman að hirða upp dægurmetin fyrir landið í heild. Gagnheiði á 11 dægurmet, Skálafell 4 og Sandbúðir 6 (samtals mannað og sjálfvirkt). Í byggð er Grímsstaðir á Fjöllum metasæknust stöðva, í þessum mánuði drýgri heldur en Möðrudalur - ég veit ekki hvers vegna. Staðarhóll í Aðaldal sækir í sig veðrið þegar líður á mánuðinn en síðan eru stöðvar á stangli um landið með met, syðra eru það bæði Þingvellir og Stórinúpur. Stórinúpur á 2 dægurmet í byggð.

Lengi var tala úr Möðrudal frá 1917 að flækjast fyrir sem landsmet. En athugun á skýrslunni sýnir ekki þá tölu úr hendi athugunarmanns. Einhver góður maður á dönsku veðurstofunni hefur krotað -11 ofan í aðra miklu trúlegri lágmarkstölu seint í mánuðinum. Engin skýring er gefin og málið því líklega úr sögunni.

Á myndinni má sjá talsvert þrep í kringum þann 10. Þá hækka lágmörkin um 2 til 3 stig en hækka hægar eftir það.

Verða kuldamet slegin næstu daga? Það er hugsanlegt þar til síðari háloftalægðin sem minnst var á hér á hungurdiskum í gær er gengin hjá á miðvikudaginn (þann 8.). Júní 2011 hefur því tvær nætur til að reyna. Við hugum frekar að júnímetum næstu daga.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Beint frá norðurpólnum?

Örlitlar ýkjur felast í þeirri fullyrðingu að nú (sunnudagskvöld 5. júní) sé loft yfir okkur sem upprunnið er á norðurpólnum, en kalt er það.

w-blogg060611

Þetta er hefðbundin mynd af ástandinu í 500 hPa fletinum. Jafnhæðarlínurnar eru svartar og heildregnar, merktar í dekametrum (dam = 10 metrar). Vindur blæs nokkurn veginn samsíða jafnhæðarlínunum, með hærri flöt til hægri við vindstefnuna. Rauðu strikalínurnar sýna þykktina á milli 500 hPa og 1000 hPa þrýstiflatanna, einnig i dekametrum. Því lægri sem hún er því kaldara er loftið í neðri hluta veðrahvolfs.

Það er 5220 metra jafnþykktarlínan sem snertir norðurströnd Íslands. Þetta er um 200 metrum lægra heldur en það sem sæmilegt þykir á þessum tíma árs. Þumalfingursregla er að hverjir 20 metrar í þykkt jafngildi 1 stigi í hita. Óánægja okkar nemur því að minnsta kosti 10 stigum. Þykktin 5220 býður upp á næturfrost um mestallt land. Gaddfrost meira að segja þar sem vindur er hægur.

En á móti kemur í björtu veðri í júní að sólin er dugleg og þar sem lygnt er getur hitamunur dags og nætur hæglega orðið 15 til 20 stig - og þá auðvitað kuldi aftur næstu nótt.

Ég hef merkt áköfustu framrás kuldans á kortið með blárri línu - kuldaásinn. Svo vill til að ekki er mjög langt í hlýrra loft vesturundan og smávægilegar sveiflur í samspili þykktar- og jafnhæðarlína gætu dregið úr afli frostsins aðra nótt vestast á landinu - en ekki veit ég um það.

Lofti sem berst hratt til suðurs er boðið upp á að fletjast út í neðri lögum. Við það dragast veðrahvörfin ofan við niður og - hókus-pókus - til verður snörp háloftalægð, kuldapollur. Þetta er auðvitað illskiljanlegt en samt mikilvægur hluti af veðurævintýrinu mikla sem við fylgjumst með frá degi til dags.

Norðanáhlaup dagsins er á kortinu (gildir kl.15 á mánudag 6.6.) búið að mynda svona lægð sunnan við land. Hún dýpkar og strandar við Bretlandseyjar. Þar verður boðið upp á mikið skítkast næstu daga. Á kortinu er síðan að verða til önnur ámóta lægð fyrir norðan land. Hún fer suður yfir landið á miðvikudag eða svo og eftir það er fyrst von um að kuldakastinu linni.

Jafnframt þessari atburðarás hér við land, ryðst hlýtt loft langt úr suðri norður um Skandinavíu. Satt best að segja eru spár um hlýindin þar nærri því með ólíkindum. Þykktin yfir Nordland í Noregi (í námunda við Bodö) á að fara upp í 5650 metra á fimmtudag og föstudag, slík tala getur boðið upp á hitamet - yfir 30 stig við bestu skilyrði önnur. Við getum ornað okkur við það að hlýtt loft tempraðabeltisins er á fleygiferð um þessar mundir og með smáheppni (réttara væri að segja með stórheppni) gætum við orðið á vegi þess - en ekki alveg næstu daga.


Veðurkerfi úr norðri - eru þau algeng?

Þegar farið var að teikna veðurkort eftir samtímaveðurskeytum (synoptísk kort) þurftu menn að velja hversu stórt svæði hentugast væri að láta þau ná yfir. Í vestanvindabeltinu koma flest veðurkerfi úr vestlægum áttum og þau sem þaðan koma hreyfast yfirleitt hraðar en önnur. Rétt þótti því að láta kort ná lengra til vesturs heldur en til austurs. Gjarnan tvisvar sinnum lengra, af breidd kortsins eru þá um 2/3 sem liggja vestan landsins sem spáð var fyrir, en 1/3 austan þess.

Á Íslandi sjá veðurkort því austur um Eystrasalt og jafnvel til Finnlands, en vestur um Hudsonflóa í Kanada. Skiptingin á milli suðurs og norðurs er meira álitamál. Íslensk kort hafa gjarnan náð norður að 80°N og suður að 35 til 40°N. Þetta er ekki fjarri 1/3 og 2/3 skiptingu. Þetta tryggir það að veðurkerfi sem eru á leið til landsins sjást á kortunum áður en hingað er komið.

Í sjónvarpi þykir útlit korta skipta jafnmiklu eða meira máli heldur en innihald. Ég hef sjálfur látið það yfir mig ganga og vorkenni bæði mér og öðrum þá nauð. Núverandi sjónvarpskerfi eru líka einhvers konar málamiðlun útlits og efnis. Við verðum að sætta okkur við það enn um sinn.

En það er bara erfitt að horfa á þegar norðanáhlaup, stór og smá virðast koma fyrirvaralaust inn á kortið - stundum án nokkurra sýnilegra tengsla við eiginleg veðurkerfi. Ekki eru þó allar norðanáttir af þessari gerð - stundum tengjast þær kerfum sem sýnileg hafa verið á kortunum áður en þau skella yfir.

En þetta er langur inngangur að skýringarmynd dagsins. Hún sýnir tíðni vindátta í 500 hPa fletinum yfir Íslandi í prósentum.

w-blogg050611

Hér eru tölur settar í kringum Ísland. Þær eiga við vindáttirnar, 21% tímans er vindur af stefnu milli suðvesturs og vesturs, 17% tímans er hann úr stefnu milli vesturs og norðvesturs - og svo framvegis. Fjörutíu prósent tímans er vindátt í veðrahvolfinu miðju úr norðlægri átt, sextíu prósent tímans úr suðlægri. Þrjátíu prósent úr austri og sjötíu úr vestri.

Nú er það svo að það eru vindar enn ofar sem mestu ráða um framrás veðurkerfanna og þar er vestsuðvestanáttin enn eindregnari. En þessi mynd sýnir samt að við eigum líka að líta til norðvestlægu áttanna - þótt sú átt sé afarsjaldgæf niður við jörð norðvestan Íslands.

Í neðstu lögum lofthjúpsins eru það austlægu áttirnar sem eru ríkjandi við Ísland. Áraskipti hvort það er austsuðaustan- eða austnorðaustanáttin. Þetta er einkennandi veðurlag á okkar slóðum, vestanátt efra undirstungin af austanátt neðar.

En á morgun (5. júní) kemur krappt lægðardrag úr norðvestri yfir Ísland og veldur kuldakasti, öðru dragi er spáð úr norðri rétt um miðja viku. Það á að halda kuldanum við.


Blikubleðill fer hjá

Síðdegis í dag (3. júní) drukknaði sólin frá Faxaflóa séð í blikubakka sem sló upp á himininn. Á undan honum fóru langar klósigatrefjar eða blikubönd. Engin greinileg lægð fylgdi og mjakaðist loftvog heldur upp á við. Blikan sást vel á gervihnattamyndum sem hvítur bleðill sem nálgaðist landið úr vestri. Lítum á mynd kvöldsins frá móttökustöðinni í Dundee á Skotlandi.

w-blogg040611-2a

Við sjáum Ísland teiknað inn á myndina. Þar norðaustur af er kuldapollurinn sem fór yfir í morgun og olli skúrum eða slydduéljum, einkum vestan- og norðvestanlands. Þetta er svokölluð hitamynd, þar eru heit svæði svört, en köld hvít. Hvítastar eru háar blikubreiður. Þær eru merktar með tölustöfunum 1 til 4, sú sem nú fer hér hjá er merkt sem 1. Við sjáum breiðu 4 illa, en í hinum þremur tilvikunum sjáum við skarpar brúnir bakkanna og að þeir virðast hvítastir næst þessum brúnum.

Skýaform af þessu tagi einkenna snarpar vindrastir hátt í veðrahvolfinu nærri veðrahvörfum. Þessar vindrastir eru gjarnan nefndar skotvindar. Margir (veðurfræðingar og aðrir) nota orðið skotvindur um það sem ég kalla ætið heimskautaröst og verða lesendur að afsaka sérvisku mína en gæta jafnframt að henni. Ég nota skotvind um það sem á ensku kallast jet streak og er annað hvort bútur úr heimskautaröstinni (e. polar jet stream), þar sem vindhraði er mestur eða þá stutt röst, stubbur lítt tengdur röstinni miklu. En fyrir alla muni takið ekki um of mark á sérvisku minni.

En allir blikubleðlarnir á myndinni tengjast skotvindum vindrasta. Lítum á 300 hPa-kort sem gildir á svipuðum tíma og myndin sýnir.

w-blogg040611-2b

Svörtu, heildregnu línurnar sýna hæð 300 hPa-flatarins í dekametrum (dam = 10 metrar). Við erum hér í í kringum 9 kílómetra hæð frá jörðu. Vindörvar eru hefðbundnar, sýna vindhraða og vindstefnu. Þau svæði eru lituð þar sem vindhraði er meiri en 40 m/s eða 80 hnútar. Á dökkgrænu svæðunum er vindur meiri en 50 m/s.

Númerin á kortinu svara til númeranna á gervihnattamyndinni og við sjáum greinilega samsvörun á milli blikubleðla og grænlituðu svæðanna. Vindhraða og stefnubreytingar í kringum rastirnar fjórar búa til lóðrétta hringrás og þar með skýjakerfin. Kerfin eru hins vegar ekki eins til orðin. Við laumumst e.t.v. í þau fræði síðar.

Hvernig gátu svo forfeður okkar séð mun á blikuppsláttartegundunum fjórum á myndinni? Það hefur verið þrautin þyngri og vart á færi nema allrabestu skýjarýna, hvort sem þeir höfðu loftvog eða ekki. Reynt var að skrifa reglur þeirra niður og getum við lesið sumt á bók en ábyggilega hefur verið erfitt fyrir skrásetjara að átta sig á því út á hvað reglurnar gengu - enda háloftarastir óþekktar - eða voru þær það?

En blikubleðlar dagsins verða allir úr sögunni hvað okkur varðar á morgun (laugardag) nema númer 4. Ástæða er til að fylgjast með röstinni yfir N-Grænlandi og lægðardraginu sem fylgir henni. Ekki er víst að mikil uppsláttur sjáist þegar hingað er komið. Munum niðurstreymið austan Grænlands. Fimmta blikubakkans er líka að vænta úr vestri - yfir Suður-Grænland til austurs fyrir sunnan land. Verða þá margar blikur á lofti? Kannski missum við af atburðum vegna þess að lágskýjasúpa byrgir alla sýn til himins um helgina?  


Mikil veðrabreyting - að litlu gagni?

Fram til laugardags (4. júní) verða miklar breytingar í skipan háloftaveðurkerfa við norðanvert Atlantshaf. Í stað þess að kalt loft hefur verið ríkjandi fyrir suðvestan og vestan okkur tekur hlýtt loft völdin á þeim slóðum. Óvíst er hvort þetta gagnast framsókn sumarsins hér á landi. En lítum á málið. Fyrst er þykktarspákort fyrir föstudagsmorgun (3. júní) kl. 9.

w-blogg040611a

Þetta kort ætti að vera orðið kunnuglegt föstum lesendum hungurdiska, það sýnir myndarlegan kuldapoll á austurleið yfir Vestfjörðum. Jafnþykktarlínur eru svartar og sýna þykktina í dekametrum (dam = 10 metrar). Því lægri sem hún er, því kaldara er loftið. Á sumrin viljum við helst ekki sjá þykkt sem er minni en 5400 metrar. Hér er hún innan við 5240. Kuldapollurinn er á miklu skriði þannig að óvíst er hvort hann muni valda miklum skúrum þegar hann fer hjá - ekki alveg víst það.

Lituðu svæðin sýna hita í 850 hPa - hér í um 1450 metra hæð. Þeir sem sjá vel greina lítinn blett yfir landinu þar sem frostið er meira en 8 stig. Þetta er allt of kalt, frostmarkið er kannski í 500 metra hæð yfir sjó, og næturfrost verður í byggð þar sem vindur er hægur og lítið af skýjum.

En nú verða hins vegar veruleg umskipti til laugardagskvölds (4. júní) kl. 21.

w-blogg040611b

Þetta er eitthvað annað, blái liturinn nærri kominn út af kortinu. Framrás hlýindanna er svo snörp að aftasti hluti kalda loftsins lokast inni og hrekst nú til Bretlandseyja. Skyldi hann valda þrumuveðri þar? Við Hvarf á Grænlandi er hlýr hóll, þar er þykktin 5600 metrar - hitabylgjutala. Það er 5460 metra línan sem strýkur vestur- og suðurströnd Íslands. Frostlaust er í 850 hPa víðast hvar á kortinu. Nú á eftir að losna við svalt sjávarloftið í neðstu lögum við landið. Það tekst ekki nema þar sem vindur stendur af landi og sólin skín. Ég hef ekki litið á það í smáatriðum hvort hiti muni einhvers staðar ná 20 stigunum. Það kemur bara í ljós.

En - en þið sjáið að jafnþykktarlínurnar eru gríðarlega þéttar fyrir norðvestan land og þar liggur kuldaboli í leyni - tilbúinn til sóknar suður um Ísland strax á sunnudag. Lítum betur á það.

w-blogg040611c

Við horfum á þessa mynd í tveimur áföngum. Fyrst er það norðurhvelið allt - bera má saman við myndir hér á blogginu fyrir nokkrum dögum. En kortið sýnir spá um legu 500 hPa-flatarins yfir norðurhveli um hádegi á laugardag (4. júní). Jafnhæðarlínur eru teiknaðar með bláum og rauðum heildregnum línum. Þykka rauða línan er 5460 metrar. Fyrir aðeins nokkrum dögum var hún langt sunnan Íslands en fer norður yfir landið á morgun (föstudag).

Við sjáum líka að hin sjaldgæfa 5820 metra lína (rauð) hefur tekið á sig mikinn krók langt fyrir suðvestan land. Það er skemmtilegt að sjá hvernig vestanáttarhringrásin mikla um norðurhvel hefur nú brotnað niður í fjölmargar smálægðir (kuldapolla) sem spilla (?) veðri hver á sínum stað. Undir hæðinni miklu yfir Bandaríkjunum er þykktin orðin meir en 5760 metrar. Það fer að verða óþægilegt, sérstaklega þar sem rakur vindur stendur af hlýjum Mexíkóflóanum. Þar fer fellibyljatíminn að hefjast og hitabeltislægðir fara að komast á kreik þegar hvarfbaugsröstin mikla slaknar nægilega. Hún býr við veðrahvörfin og sést á 200 hPa-kortum.

Fjólubláu svæðin á kortunum sýna hvar tölvan telur spána óvissa sem nemur 2 til 4 dekametrum. En Ísland er þarna einhvers staðar og við lítum á sömu mynd, nú sýnir hún minna svæði.

w-blogg040611d

Kortið gildir á hádegi á laugardag (4. júní). Hér sjáum við hæðina miklu og 582 dam (= 5820 metrar) línan sést vel. Kuldapollurinn sem lokaðist inni er hér sem mjög snarpt lægðardrag suður af landinu á leið til Bretlands. Síðan er mikill vindstrengur yfir Grænlandi og honum fylgir snarpt lægðardrag. Ég hef merkt það sem gula ör sem stefnir skammt norðan Íslands.

Nú er spurningin hvað úr verður á sunnudag og síðan áfram. Lægðardragið fer fljótt hjá en á eftir því kemur síðan hæðarhryggur norður úr hæðinni miklu. Hvar lendir hann? Hversu þrálátur verður hann? Verðum við í hæðar- eða lægðarbeygju í næstu viku? Endist hæðin mánuðinn út? [Þessi síðasta spurning er vafasöm - við getum ekkert um það vitað - spáið frekar í kaffibolla].


Júníhiti í Stykkishólmi afbrigðilegur undanfarin ár

Við lítum nú á júníhita í Stykkishólmi frá upphafi mælinga. Fyrir 8 árum (2003) var ég spurður um það í dagblaði fyrstu dagana í júní hvernig útlitið væri. Ég var auðvitað mjög varkár í orðum og lét hafa eftir mér að útlitið væri nokkuð gott - en ólíklegt væri þó að sá mánuður sem fór í hönd yrði jafnhlýr og sá árið áður (2002).

Þetta var ekki aðeins vitlaust það árið heldur hafa allir júnímánuðir síðan nema einn verið hlýrri en júní 2002. Árið 2006 var hann lítillega kaldari, en ómarktækt. Þetta þýðir að hitareynsla fortíðar segir lítt eða ekki neitt um framtíðina. En auðvitað hlýtur þessi röð hlýrra júnímánaða að taka enda.

w-t78-juni

Þetta sést mjög vel á myndinni. Við sjáum að júníhitar síðustu ára eru beinlínis úti úr myndinni miðað við önnur tímabil. Júní áranna 2001 til 2010 voru að meðaltali 1,4 stigi hlýrri heldur en meðalhiti sama mánaðar á árunum 1961 til 1990 og um 0,3 stigum hlýrri en júní áranna 1932 til 1941 sem er það 10 ára tímabil sem næst kemst því nýliðna. Þá skaust einn mikill spillimánuður inn í safnið, 1937 en þá var meðalhiti aðeins 7,2 stig.

Ef til vill höfum við átt hlýindin inni því áður en þau hófust svo snögglega hafði hiti aðeins einu sinni (1953) náð þeirri makalausu röð hlýinda sem fylgt hefur okkur á 21. öldinni.

Hlýir júnímánuðir um 1830 eru ekki fastir í hendi - reiknast trúlega eitthvað niður í næstu umferð yfir tímann fyrir 1840. En reglan er sú að eftir að fyrst er reiknað eru grunsamlega hlýir mánuðir ekki bara þurrkaðir út vegna þess að veðurfræðingnum finnst þeir reiknast of hlýir.

En hvað með okkur nú? Er einhver von fyrir veðurfræðinginn nú hefur í 9 ár beðið eftir júnímánuði kaldari heldur en 2002? Ekki fer hann að segja að kaldir júnímánuðir séu úr sögunni? Nei, þeir eiga eftir að koma í röðum - vonandi fáum við samt frest.


Enn um svalann (og enn hann endist)

Ekki er að sjá afgerandi lát á svalanum sem hefur plagað okkur um sinn, en hugsanlega breytir hann um bragðtegund. Við skulum líta á háloftastöðuna í kringum okkur eins og henni er spáð um hádegi á miðvikudag (1. júní).

w-blogg010611

Svörtu, heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (dam = 10 metrar), en rauðu strikalínurnar þykktina á milli 500 og 1000 hPa - en hún er mál á meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem þykktin er, þú hlýrra er loftið. Ísland verður á morgun á milli 5280 metra og 5340 metra jafnþykktarlínanna, það er í slakara lagi á þessum tíma árs - enda er frekar kalt. Sólin er þó öflug þar sem veður er bjart og vindur stendur ekki beint af hafi. Þar er bærilegasta sumarveður í góðu skjóli í görðum eða sunnan undir vegg.

Ég hef bætt örvum og fleiru inn á kortið. L-in tákna að venju háloftalægðir. Mjög kröpp háloftalægð er við suðurströnd Frakklands. Þar um kring eru veðurfræðingar á tánum. Litla lægðin við Ísland fer mjög hratt til norðausturs og er úr sögunni. Kyrrstæð lægð er við strönd Grænlands, grynnist en fer lítið fyrr en á fimmtudag eða föstudag. Suðvestur úr henni er mjög kalt lægðardrag, þykktin þar er í kringum 5250 metra þar sem hún er minnst, það svæði er merkt með bláum bletti á kortinu.

Lægðardragið fer hér hjá á föstudag (bláa örin), ekki er víst að úrkoma fylgi, vegna þess að þegar það fer hjá snýst vindur snögglega til vesturs - beint frá Grænlandi. Niðurstreymi austan Grænlands bælir uppstreymi og skúramyndun. En kuldinn nægir alveg í snjó á hálendinu og niður í fjallahlíðar - ef úrkoma nær sér á strik.

Suðvesturendi lægðardragsins er suðaustur af Nýfundnalandi, merktur sem B á myndinni. Hann virðist njóta þess frjálsræðis að þurfa ekki að fara til Íslands en fer þess í stað til suðausturs eins og brúnleita örin sýnir. Úr því mun verða dálítil háloftalægð sem ryður á undan sér mjög hlýu lofti til norðurs (rauðlitaði bletturinn). Þetta hlýja loft fer með þykktina sunnan Grænlands upp fyrir 5580 metra - það er alvöru hitabylgjuhiti.

Þetta hlýja innskot veldur því að heimskautaröstin breytir verulega um stað og stefnu frá því sem verið hefur. Hvað skyldi það tákna? Við upplýsumst vonandi um það síðar, en rétt að taka fram að ekki er sérstök ástæða til bjartsýni hvað hita varðar.


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 411
  • Sl. sólarhring: 423
  • Sl. viku: 1727
  • Frá upphafi: 2350196

Annað

  • Innlit í dag: 371
  • Innlit sl. viku: 1574
  • Gestir í dag: 361
  • IP-tölur í dag: 349

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband