Norðanáttajúní - hver er mestur?

Norðan- og norðaustanátt hefur nú verið viðloðandi mestallan mánuðinn. Veðurnördum dettur þá í hug að athuga í hvaða júnímánuðum norðanáttir hafa verið mestar og þrálátastar. Sem stendur ráðum við yfir fimm mælitölum sem notast má við. Þær ná mislangt aftur í tímann, en lítum nú á:

1. Mismunur á loftþrýstingi austanlands og vestan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1881. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri vestanlands heldur en eystra séu norðlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi norðanáttin verið. Ákveðin atriði flækja þó málið - en við tökum ekki eftir þeim hér. Samkvæmt þessum mælikvarða er það júní 1952 sem er mesti norðanáttarmánuðurinn, 1938 er í öðru sæti og 1897 í því þriðja.

2. Styrkur norðanáttarinnar eins og hann kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær aðeins aftur til 1949. Eftir þessum mælikvarða er júní 1952 í fyrsta sæti, 1997 í öðru og 1998 í því þriðja.

3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindatugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðvestan, norðan, norðaustan og austanáttar lögð saman. Þá fæst heildartala norðlægra átta. Samkvæmt þessari mælitölu er júní 1952 mesti norðanáttarmánuðurinn, 1897 í öðru sæti og 1946 í því þriðja.

4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð. Í þessum lista er júní 1952 í fyrsta sæti, 1928 í öðru, 1991 í þriðja og 1897 í því fjórða.

5. Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum. Hér er 1952 enn í fyrsta sæti, 1928 í öðru, 1987 í þriðja og 1927 í því fjórða.

Allir dómarar eru sammála um það að 1952 sé mestur norðanáttarjúnímánaða, ætli sé ekki best að trúa því. Ekki er samkomulag um annað sætið, en 1897 fékk samtals fleiri atkvæði en aðrir.

Hvernig voru svo júlí og ágúst þessi tvö ár?

Júlí 1952: Fremur óhagstæð tíð, en þurr. Tún seinsprottin. Hiti nærri meðallagi.
Ágúst 1952: Hagstætt til heyskapar framan af, en óhagstætt n-lands síðari hlutann. Hiti var í tæpu meðallagi.

Júlí 1897: Mjög stopulir þurrkar. Hiti nærri meðallagi á S- og V-landi, en hlýtt fyrir norðan.
Ágúst 1897: Votviðrasamt í flestum landshlutum. Hiti í meðallagi.

Ekki er hægt að segja að þessi sumur hafi verið lík. Enda segir veður í júní ekkert um veðrið í júlí og ágúst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta eru athyglisverðar upplýsingar. Einhvernveginn er mér sumarið 1952 ekkert sérlega minnisstætt, hvernig sem á því stendur. - Veðurminni fólks, bæði mitt og annarra, er ansi vandnotað og óáreiðanlegt, svo ekki sé meira sagt. En af því við erum báðir uppaldir við svipuð veðurfarsskilyrði, þótt nokkuð sé milli Borgarness og Ólafsvíkur, þá hef ég á tilfinningunni að sunnan og suðaustan slagviðrisrumbur séu mun sjaldgæfari síðari ár en var áður fyrr. Af einhverjum ástæðum hef ég bitið það í mig að það merkilega ár 1995, hafi markað einhverja breytingu í veðurfari hér á landi, hvort sem það skýrist nú af því fyrirbrigði sem kallað er "Global Warming" eða einhverju öðru. Síðan þá hefur mér þótt að norðáttarsumur hafi verið ríkjandi, undantekning er reyndar sumarið 2000, sem var átakalítið í veðurfarslegum skilningi. Auðvitað getur þetta tengst því að þessar vindáttir virka allt öðruvísi hér þar sem ég dvel nú en á suðvestanverðu landinu. Samt sýnist mér á veðurbókunum mínum, sem eru samfelldar frá árinu 2000, að lægðagangur yfir sumarið allavega hafi færst til suðurs, miðað við það sem var algengast á árunum þar á undan, og það hafi m.a. leitt af sér að suðlægar áttir yfir sumarið séu sjaldgæfari.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 19.6.2011 kl. 11:50

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka fróðlega athugasemd Þorkell. Ég held að það sé rétt hjá þér að síðustu 10 árin hafi lægðir farið oftar sunnan við land að sumarlagi heldur en við vorum vanir á árum áður. Alla vega hefur ekki komið gegnheilt rigningasumar á Suðurlandi síðan 1984, en fyrir þann tíma voru þau frekar regla heldur en undantekning. Nokkra slæma rigningasumarmánuði hafa sunnlendingar þó fengið síðan, en aldrei nema í mesta lagi 4-5 vikur samfellt í senn, síðast í júní og fyrri helming júlí 2006.

Trausti Jónsson, 20.6.2011 kl. 01:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 61
  • Sl. sólarhring: 401
  • Sl. viku: 1886
  • Frá upphafi: 2350622

Annað

  • Innlit í dag: 58
  • Innlit sl. viku: 1686
  • Gestir í dag: 58
  • IP-tölur í dag: 58

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband