Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Snörp lægð tekur mið (og smáflækja í framhaldinu)

Þegar þetta er skrifað (að kvöldi 9. apríl 2011) er kröpp lægð á leið til landsins. Hún verður gengin yfir strax síðdegis á morgun og fréttagildi þessa pistils orðið að engu. En ég nota tækifærið til að koma haldbetri boðskap til skila.

Lítum á gervihnattarmynd af skýjakerfi lægðarinnar. Þetta er innrauð mynd fengin af vef móttökustöðvarinnar í Dundee í Skotlandi - takk fyrir það Skotar. Því hvítari sem skýin eru því kaldari eru þau.

w-blogg-090411x

Hér má sjá skýjamynstur vaxandi lægðar, lægðarmiðjan er nærri þeim stað sem endi rauðu örvarinnar bendir. Þessi lægð er reyndar með minna móti að umfangi. Það þýðir að spár um þróun hennar og stefnu eru nokkuð óvissar. Vægustu spárnar gera ráð fyrir því að hringrás gömlu lægðarinnar á svæðinu (við stóra L-ið) éti hana upp nærri Íslandi og það verði frekar lægðardrag heldur en lægð sem hjá Vesturlandi. Aðrar spár halda lægðarhringrásinni betur og gera mikið úr vindi í kringum lægðarmiðju sem færi þá norður um Reykjanes, Faxaflóa og Snæfellsnes. Hér er ekki tekin afstaða til þess - en lesendum bent á spár Veðurstofunnar. En mikil snerpa er nú í lægðinni.

Þar sem lægðin er fremur lítil um sig er hún ekki með öll skýr einkenni hinnar fullkomnu bylgjulægðar. Hlýja færibandið greinist t.d. ekki vel frá þeim köldu og þarf nokkuð að rýna í myndina til að sjá hvað er hvað. Myndaraðir eins og birtast reglulega á vef Veðurstofunnar auðvelda þó það verk.

En í lægðinni er samt greinileg þurr rifa. Þurra rifan hefur nokkrum sinnum komið við sögu á hungurdiskum. Hún sést hvað best á þessari mynd þar sem valtað yfir kuldaskil lægðarinnar nærri lægðarmiðju. Skoðið svæðið við enda örvarinnar nákvæmlega. Þá sést þar skýlaust svæði og rétt til hægri við það er gráleit skýjaþekja. Kuldaskil lægðarinnar voru upphaflega við suðvesturjaðar þessa gráa svæðis, en þurra loft rifunnar sneiðir ofan af hlýja loftinu niður undir jörð.

Það er einkennilegt að aðkomuloft geti ruðst yfir loftið í hlýja geiranum. Það hlýtur því að vera enn hlýrra. Hvaðan kemur það? Svarið er að það kemur að ofan. Loft í miklu niðurstreymi hlýnar mjög mikið og þar með verður það líka mjög þurrt.

Ég verð að játa að ég hef sögu hugmyndarinnar um þurru rifuna ekki alveg á reiðum höndum. Grunur um hana er þó mjög gamall, að minnsta kosti um 70 ára. Á tímum gisinna háloftaathugana var þó lítið hægt að fullyrða um hana, gervihnattamyndir voru ekki heldur komnar til sögunnar.

Eins og flestum er kunnugt kepptust stórveldin um 1960 við að sprengja vetnisprengjur í andrúmsloftinu - menn eru sjálfsagt enn að deyja af þeirra völdum. Í þessum sprengjum varð til töluvert magn af þrívetni, en það er samsæta vetnis með einni róteind og tveimur nifteindum. Þrívetnissamsætan er sárasárasjaldgæf í náttúrunni. Vetnissprengjurnar dældu nýju þrívetni inn í hringrás lofts og hafs (og lífs). Í upphafi var langmest af því í heiðhvolfinu og ofar.

Þetta skapaði óvænt tækifæri til að rekja slóð þrívetnisins, fyrst milli heiðhvolfs og veðrahvolfs, úr veðrahvolfið í hafið og þaðan smám saman út í alla afkima djúphafanna. Með mælingum var hægt að meta hraða og leiðir margvíslegra náttúrulegra blöndunarferla. Þar á meðal voru loftskipti heiðhvolfs og veðrahvolfs.

Farin voru mikil og dýr mælingaflug út og suður, þar á meðal í kringum lægðir og ofan við þær. Í ljós kom að loft úr heiðhvolfinu slapp niður í veðrahvolfið að baki ört vaxandi lægða og blandaðist neðra lofti, þrívetnismælingarnar sýndu það greinilega. Um þetta voru skrifaðar margar greinar. Þar á meðal var skýrsla eftir E.F. Danielsen. Ég veit því miður ekkert um hann persónulega (Einar Friðrik?), en hann skrifaði á þessum tíma fjölmargar greinar um mælingarnar og að auki ýmsar fræðilegar pælingar í kringum þær. Ég held að hann hafi síðar lent í heiðhvolfsósoninu og öllu því.

En skýrslan sem hvergi er ínáanleg (alla vega hefur mér ekki enn tekist að hafa upp á henni) varð fræg fyrir mynd sem í henni birtist og birtist síðan ítrekað hvað eftir annað síðar. Hér er afrit af henni - reynt er að gera hana aðeins greinilegri en þá upphaflegu með því að bæta inn litum. Ég vona að höfundurinn fyrirgefi það.

w-blogg-100411-danielsen

Hér er gerð tilraun til að búa til þrívíða mynd. Á fletinum sem liggur á myndinni er teiknað venjulegt veðurkort. Þar sjáum við lægð (L), hæð (H), þrýstilínur í kringum þær auk hita og kuldaskila við lægðina. Rauðu örvarnar eiga að sýna loftstraum sem kemur að ofan sem einskonar strókur en breiðir síðan úr sér til allra átta eins og blævængur þegar hann nálgast jörðu. Lengst til vinstri virðist hann gripinn af hæðinni en hinn hlutinn streymir inn í lægðina (þurra rifan), nær þar sinni lægstu stöðu og fer síðan að lyftast aftur.

Raunveruleikinn er sjaldan þetta einfaldur, en þó nær þessi mynd miklu aðalatriði við lægðadýpkun. Vonandi á ég eftir að koma betur að þessu síðar, ég veit ekki enn hvort mér tekst í einföldu máli að skýra ástæður fyrirbrigðisins eða afleiðingar þess. Ætli maður lendi ekki í þessu venjulega vandamáli með eggið og hænuna. En við sjáum hvað setur - en þið vitið nú af þurru rifunni.


Óvenjuleg hlýindi efra skjótast hjá

Meiri þykkt en 5500 metrar mjög óvenjuleg yfir Íslandi í apríl. Ég veit ekki um mörg tilvik í áranna rás. Í metatöflu minni er 5510 metrar hæsta talan í háloftaathugun yfir Keflavíkurflugvelli, en ekki má taka hana alveg bókstaflega sem met vegna þess að skrá mín yfir háloftamet er ógróin satt best að segja flakandi sár - en talan er nærri lagi sem met.

Um hádegi á laugardag er því spáð að þykktin yfir Austurlandi verði 5510 metrar. Heldur lægri þykkt er spáð yfir Keflavík þannig að varla verður slegið met þar að þessu sinni. Þetta má sjá á kortinu hér að neðan.

w-blogg-090411

Þetta er falleg mynd. Svörtu línurnar sýna þykktina, en litirnir hita í 850 hPa eða í um 1300 metra hæð. Hiti í þessari hæð á að fara upp fyrir 10 stig á morgun. Bætum hundruðum metra við og fáum út 23 stig, en loft í hreinu niðurstreymi hlýnar um 1 stig fyrir hverja 100 metra lækkun. Þetta eru sumarhlýindi. Aftur á móti er ekki létt að koma hlýja loftinu til jarðar og ólíklegt að það takist án verulegrar blöndunar við kaldara loft sem flatmagar neðar. Sólin gæti hjálpað til en ætli háský dragi ekki eitthvað úr áhrifum hennar. Líklegt er því að hæsti hiti á landinu verði á bilinu 16-19 stig. En - með heppni hærri.

Hæsti hiti í 850 hPa yfir Keflavík í mínum götóttu skrám er 9,0 stig í apríl. Yfir Keflavík á laugardagshitinn að fara í 8 stig og nær þvi ekki meti þar séu spárnar réttar.

En hlýja loftið berst mjög hratt yfir og mun kaldara loft úr suðvestri tekur við. Á sunnudaginn kemur kröpp lægð á miklum hraða með háloftasuðvestanáttinni upp að landinu og á hún að fara yfir Vesturland síðdegis á sunnudag. Ekki er samkomulag um hver braut lægðarinnar nákvæmlega verður, né hve hvasst verður. En ástæða er til að hafa varann á varðandi þessa lægð.

Spár eru síðan loðnar um framhaldið. Mjög kalt er vesturundan og hótanir eru uppi um kalda éljagusu eða snjó í vikunni, en allt er það heldur óljóst í þessu mikla umhleypingaástandi. Fylgist með spám Veðurstofunnar. Hungurdiskar spá ekki.


Nýtt dægurhitamet í dag (7. apríl) og stöðvahitamet aprílmánaðar

Fyrir nokkrum dögum birtu hungurdiskar mynd sem sýndi hæsta hita á landinu hvern dag í aprílmánuði. Einn dagur skar sig nokkuð úr fyrir aumt hámark (7.) og lá því best við höggi ef setja ætti nýtt dægurmet í apríl. Varla var búið að sleppa orðinu fyrr en 7. apríl rann upp og setti nýtt met. Hiti komst í 14,4 stig á Kollaleiru við Reyðarfjörð, eldra met frá Akureyri sama dag 1974 var slegið um 1,0 stig.

Þrátt fyrir þetta er sá 7. enn með lélegasta dagsmet aprílmánaðar. Næstlægstur er sá 6., hann er liðinn i ár án mets. Fjórði lægsti dagurinn er sá 9., með 15,8 stig. Svo vill til að þann dag (á laugardaginn) er einmitt spáð sérlega metavænu veðri á landinu norðaustanverðu. Þykktin, hungurdiskar miða gjarnan við hana í metavangaveltum, á að fara í nærri 5500 metra. Henni var reyndar spáð enn hærra fyrr í dag (fimmtudag 7.) þannig að eitthvað er verið að draga í land. En nördin bíða spennt.

Eftir laugardaginn er svo spáð einhverjum leiðindaumhleypingum - hungurdiskar vita ekki enn hvort þeir fjalla um þau leiðindi. Jú, það má t.d. geta þess að hita á Vestur-Grænlandi er spáð niður undir botn í næstu viku, 4920 metra þykktarlínan á að snerta ströndina þar - en ætli það sé ekki eitthvað orðum aukið. Kannski við fáum enn einn skammtinn af vestrænum kulda með snjó (æ) áður en allt of algengir norðannæðingar tímabilsins 20. apríl til 20 maí taka við (æ, enn meira æ). Þessi norðannæðingatími er eiginlega sérstök árstíð - sú langstysta. Oft sýnir hún sig þó ekki - vonandi sést hún ekki í ár.

En í viðhengi lítum við á hæsta hita á veðurstöðvum landsins í aprílmánuði. Þetta er hluti af samantekt minni á útgildum Íslands en henni er langt í frá lokið og ýmsir gallar kunna að leynast í þessum listum minum. Ég biðst velvirðingar á því. Listi dagsins er fjórskiptur eins og fyrirrennarar hans. Fyrst koma sjálfvirku stöðvarnar, stöðvar Vegagerðarinnar sem ekki eru alveg sambærilegar við hinar í útgildamælingum eru þó teknar sér. Raðað er eftir nafni, en nörd geta auðvitað kippt listanum inn í töflureikni og raðað að lyst. Hér, sem og annars staðar verður að gæta að mælitímabilinu, sumar stöðvar byrjuðu að mæla 2009 eða 2010 og eru því varla til stórræða ennþá.

Þriðji skammturinn í listanum samanstendur af mönnuðu stöðvunum og nær yfir tímabilið frá 1961 til vorra daga. Þar eiga lesendur einnig að vara sig á mislöngum mælitímabilum. Fjórði listinn nær yfir mönnuðu stöðvarnar á árabilinu 1924 til 1960. Hann er með þeim galla að aðeins eru með stöðvar þar sem hámarksmælir var á staðnum. Nokkur há gildi til viðbótar hafa fundist á sumum stöðvanna en eru ekki öll með í þessum lista. Hámarksmælar brotna mun oftar en aðrir hitamælar.

Sé rýnt í listann kemur í ljós að 7 hæstu tölurnar eru frá sama degi, 29. apríl 2007 í aldeilis óvenjulegri hitabylgju. Þar í þriðja sæti er hæsta talan á mannaðri stöð, 21,9 stig, mælt á Staðarhóli í Aðaldal. Það kemur dálítið á óvart að engin af stöðvunum í Skaftafellssýslum skuli skjóta sér hátt á blað og ekki heldur stöðvarnar undir Eyjafjöllum, Kvísker hafa þó náð 19,7 stigum og Skaftafell 19,4.

Hæsta talan utan Norður- og Austurlands mældist á Ásgarði í Dölum í hitabylgjunni miklu 29. apríl 2007, 20,2 stig. Síðan kemur gamal met frá Lambavatni á Rauðasandi 19,9 stig frá 29. apríl 1942. Ég hef ekki litið á trúverðugleika þess - en á þeim árum komu nokkrar háar tölur frá Lambavatni - en síðan ekki söguna meir. Slík tímabundin hegðan er ekki traustvekjandi, en ég leyfi þessu að standa, sérstaklega vegna þess að sama dag mældist hæsti hiti sem vitað er um í Reykjavík, 15,2 stig og dagurinn á met tímabilsins 1924 til 1960 á 11 stöðvum. Því skyldi hann ekki hafa komist í 19,9 á Lambavatni?

Þegar kemur niður undir 17 stig og þar um kring fara stöðvarnar á Suðvesturlandi að detta inn ein af annarri. Eins og nefnt var hér að ofan á Reykjavík aðeins 15,2 stig og það í eldgömlu meti (1942) og enn verr er komið fyrir Stórhöfða í Vestmannaeyjum, þar er hæsta talan 12,2 stig og hefur staðið allt frá 1924 (byrjað var að mæla haustið 1921 á Stórhöfða). Þessar eldgömlu tölur hljóta nú að fara að láta á sjá.

Þess má reyndar geta að 28. apríl 1842 mældi Jón Þorsteinsson 16,3 stig í Reykjavík - gæti það verið sambærilegt við mælingar okkar tíma? Varla - hafi sól skinið í heiði, því mælir Jóns var að sögn lægra yfir jörð auk þess að vera ekki í skýli. Í slíkum kringumstæðum eru mælar stundum undir það miklum áhrifum af varmageislun frá yfirborði jarðar að lofthitamælingin fer forgörðum. Hafi hins vegar verið austræningur og veður skýjað er talan líklegri.

Annars eru dægurhámörk aprílmánaðar þessara fornmælinga Jóns ekki svo ótrúverðug, flest á svipuðu róli og dægurhámörk seinni tíma. Sama má segja um mælingar Rasmusar Lievog í Lambhúsum við Bessastaði á 18. öld.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þeir óvenjulegu þurrkar á síðasta ári

Hungurdiskar minntust á það í kringum áramótin hversu óvenjuþurrt árið 2010 var um allt vestanvert landið. Nú hafa árssummur verið reiknaðar fyrir 82 stöðvar þannig að betri heildarmynd er komin á. Í ljós kom að þurra svæðið náði frá Árnessýslu í suðri, vestur og norður um til Skagafjarðar. Á þessu svæði var árið meðal þeirra allra þurrustu og þarf víðast hvar að fara 50 til 70 ár aftur í tímann til að finna viðlíka. Það er þó aðeins breytilegt frá einni veðurstöð til annarrar.

Merkustu tíðindin að því er mér finnst er úrkomuleysið í Skagafirði. Ársúrkoman á Bergstöðum mældist ekki nema 257,5 mm. Ekki er langt þaðan niður í Íslandsmetin og aðeins stöðvar á stangli í gegnum tíðina sem verið hafa jafnþurrar yfir árið. Litlu meiri mældist úrkoman í Litlu-Hlíð inni í Vesturdal í Skagafirði, 263,8 mm. Ívið meiri úrkoma var í Húnavatnssýslu, minnst 295,3 mm á Brúsastöðum í Vatnsdal. Úrkoma var ámóta lítil á þessu svæði 1960, þá mældust 269,6 mm á Nautabúi í Skagafirði og 220,7 mm í Forsæludal í Húnavatnssýslu.

Í Reykjavík mældist úrkoman 592,3 mm, sú minnsta frá 1951. Þurrkmet var slegið á Keflavíkurflugvelli, en Veðurstofan byrjaði að mæla þar í apríl 1952 - og missti staðurinn því af árinu 1951. Setuliðið gerði mælingar á Keflavíkurflugvelli það ár, en ég hef þær ekki við höndina.

Lægsta viðurkennda ársúrkoma á landinu er 181,6 mm í Reykjahlíð við Mývatn 1941. Árferði var þá að mörgu leyti svipað og 2010, óvenju hlýtt og loftþrýstingur með allra hæsta móti. Met frá því ári situr enn á Akureyri, 258,0 mm - rétt það sama og Bergstaðametið nú.

Á þessum tíma árs lít ég venjulega yfir úrkomuna og bæti þá við nokkra úrkomuvísa sem ég fylgist reglulega með. Einn þeirra er meðalúrkoma á öllum veðurstöðvum. Hún er fundin með því að leggja saman úrkomu allra stöðva sem mældu allt árið og deila síðan með fjöldanum. Gallinn við þessa aðferð er sú að stöðvaþýðið er ekki einsleitt gagnvart úrkomu allan tímann. Með þessu er átt við að þær stöðvar sem bætast við eða hætta á hverjum tíma eru misúrkomugæfar. Þannig hækkaði landsmeðaltalið aðeins þegar Kvísker i Öræfum bættust í stöðvasafnið 1961.

En við lítum samt á mynd sem sýnir þetta meðaltal aftur til 1924. Lengra aftur treysti ég mér ekki til að reikna vísinn, en nota reyndar annan.

w-meurk-allarst

Myndin er óróleg, en ætti að vera lesanleg með skýringum og gát. Lárétti ásinn sýnir tímann í árum, en sá lóðrétti meðalúrkomu allra stöðva. Athugið að lóðrétti kvarðinn byrjar í 400 mm. Í bakgrunninn má sjá gráleitar súlur sem sýna meðalúrkomu hvers árs. Þar er bent á nokkur þurrustu og úrkomumestu árin.

Við sjáum að árið 2010 sker sig gríðarmikið úr síðustu 20 árum. Fara þarf allt aftur til 1987 og 1985 til að finna eitthvað ámóta. Nokkuð þurrt var einnig 1977 og 1979. Síðan er klasi af mjög þurrum árum frá 1960 til 1970 og um 1950. Nokkur ár skera sig einnig úr hvað mikla úrkomu snertir.

Rauða línan sýnir 7-ára keðjumeðaltal, gildið er hér sett við miðár tímabilsins. Ef við trúum tölunum má sjá að á undanförnum 40 árum hafa komið þrjú snörp úrkomuskeið en þurrara hefur verið á milli. Nokkur mjög vot ár komu einnig fyrir 1940.

Mikil óvissa er í meðaltalinu fyrir 1940, þá var úrkoma mæld á mjög fáum stöðvum. Þær voru aðeins 12 árið 1924, urðu fyrst fleiri en 20 árið 1932. Þær urðu 40 1939 og fleiri en 50 frá og með 1952. Flestar urðu stöðvarnar 114, árið 1973. Fjöldinn hélst síðan mjög svipaður fram til 2004. Árið 2010 voru stöðvarnar 82. Á síðustu árum hafa sjálfvirka stöðvar farið að koma í stað þeirra mönnuðu. Samantekt fyrir þær nýju stöðvarnar hefur ekki verið gerð enda verið að safna í sarpinn þannig að þær verði marktækt sambærilegar.

Ég hef reiknað eins konar óvissumörk í kringum 7-ára meðaltalið (grænir og bleikir punktar). Þau eru sett á myndina til þess að minna á að rétt sé að taka tölunum með ákveðnum fyrirvara. Reikningar óvissumarkanna eru subbulegir.


Veðurfréttir úr heiðhvolfinu

Í dag (5. apríl) komust veðurfréttir úr heiðhvolfinu inn í fjölmiðla. Það er óvenjulegt en gerist samt stundum. Eins og vill verða þegar fréttir berast úr mjög ókunnugum löndum var umfjöllunin heldur einkennileg. Sannleikskorn var í fréttinni en aðallega var hún samt ónákvæm og að sumu leyti villandi.

Fyrir nokkrum dögum gaf Alþjóðaveðurfræðistofnunin (alltaf gaman að skrifa nafn hennar) út fréttatilkynningu með yfirskriftinni: Record stratospheric ozone loss in the arctic in spring of 2011. Hvernig er best að þýða þetta? Metósonrýrnun í heiðhvolfinu yfir norðurslóðum vorið 2011. Eða aðeins skárra: Óson hefur aldrei verið jafn rýrt í heiðhvolfinu á þessum tíma árs á norðurslóðum.

Það kemur hins vegar hvergi fram að á þessum tíma árs er ósonmagn venjulega í hámarki eftir að hafa vaxið mjög ört á tveimur mánuðum. Heiðhvolfskuldapollur vetrarins hefur verið óvenjusnarpur og þrálátur þessa tvo mánuði. Hann hefur eins og bræður hans í veðrahvolfinu sullast fram og aftur um heimskautasvæðið og miðja hans (fyrirferðarlítil) hefur verið með kaldasta móti á þessum tíma árs. Fyrir um það bil viku fór kaldasta svæðið yfir Ísland til suðausturs eins og sjá má á þessari mynd:

h30hPa-dorn-ecmwf270311-00

Myndin er fengin af frábærri heiðhvolfssíðu Andreas Dörnbrack þar sem hann teiknar greiningar Evrópureiknimiðstöðvarinnar á kort.  Myndin sýnir norðurhvel allt norðan 40 breiddarbaugs. Hún kemst ekki mjög vel til skila hér á blogginu en þeir sem þekkja landaskipan ættu samt að vera fljótir að átta sig. Ég hef sett inn ör sem bendir á Ísland og aðra sem bendir á Japan.

Skárra eintak myndanna er í pdf-viðhengi.

Þykkdregnu línurnar eru jafnhæðarlínur 30 hPa-flatarins í dekametrum. Tölurnar byrja á 22 og 23 og af því má marka að við erum í 22 til 23 kílómetra hæð. Ég hef sett L þar sem er miðja heiðhvolfslægðarinnar. Litirnir tákna hita í Kelvingráðum. Þar er talan 182 lengst til vinstri (ljósblátt), 182K eru -91°C. Svæði austan Íslands nær nærri því niður í þennan hita. Hæsta talan (svart) er 238 stig svartlituð svæði eru því hlýrri en -35°C (næsta mynd).

Ósoneyðing er hröð þar sem frostið er meira en 80 stig. Raunar ætti að segja að ósoneyðing sé hraðari en venjulega því að vart má á milli sjá hvort hefur betur myndun eða eyðing. Svona mikið frost er eingöngu á ákveðnu hæðarbili (ég veit ekki nákvæmlega hverju í þessu tilviki), en hlýrra er bæði ofan og neðanvið. Þar er venjulegt ósonástand. Gatið - ef gat skyldi kalla er því innan í ósonskildinum, talsvert magn af ósoni er bæði ofan og neðan við - samtals meira heldur en heildarmagnið er á dimmasta tíma ársins þegar árstíðasveifla ósons er í lágmarki.

Seinni myndin er aðeins tveggja sólarhringa gömul (4. apríl kl. 00).

h30hPa-dorn-ecmwf040411-00

Hér sjáum við að bláa svæðið er nærri því horfið og mikið svart (hlýtt) svæði komið yfir Austur-Asíu og mun hlýrra er yfir Íslandi en áður. Vonandi hefur ósonmagnið aukist aftur við þá breytingu.

Hvers vegna er óvenju kalt í heiðhvolfinu?  Hvers vegna er venjulega mest af ósoni ofan Íslands á þessum tíma árs? Hvers vegna eyðist óson örast í ægikulda? Hvaða tengsl eru á milli ósoneyðingar og hinnar hættulegu útfjólubláu geislunar? Hver er árstíðasveifla útfjólublárrar geislunar á Íslandi? Hverju breytir ósonrýrnun þar um? Og svo framvegis. Þessum spurningum verður varla svarað öllum á hungurdiskum - það er helst þær tvær fyrstu sem við gætum e.t.v. skoðað betur síðar. Nokkrar upplýsingar um óson má finna á Vísindavef HÍ.

Í apríl verða gríðarlegar breytingar á hringrás heiðhvolfsins um leið og hiti hækkar að mun. Lægðin mikla sem nær nú yfir stóran hluta norðurhvels eyðist og i hennar stað kemur mikil heiðhvolfshæð, austlæg átt tekur við af vestlægri. Áttaskiptin eru mest áberandi aðeins ofar heldur en við sjáum hér en gætir einnig neðar. Raunar má rökstyðja það að áhrifanna gæti alveg niður að jörð. Að meðaltali á þessi umsnúningur sér stað mjög nærri sumardeginum fyrsta. Rétt eins og forfeður okkar hafi fylgst með meðalástandinu í heiðhvolfinu þegar þeir ákváðu að merkja daginn. Á haustin er viðsnúningurinn órólegri og smyrst út á öllu lengri tíma.

Nú er auðvitað spurningin hvort umskiptin miklu verði á réttum tíma í ár eða hvort kuldinn heldur áfram að þvælast fyrir - við bíðum spennt eftir því.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Síðasta jökulskeið í sjónhendingu (söguslef 17)

Söguslef heldur áfram. Við lítum nú á síðasta jökulskeið eins og það birtist undir sjónarhorni tveggja gerða veðurvitna. Annars vegar er það einn af mörgum ískjörnum frá Grænlandi (svokallaður grip-kjarni) en hins vegar fjölvitnasamantekt um sjávarstöðu. Vitnað er í þennan ákveðna ískjarna með því að benda á grein eftir Sigfús Johnsen og fjölda annarra 1997 (sjá hér að neðan). Upplýsingarnar um ágiskaða sjávarstöðu eru úr grein eftir Waelbroeck og margra annarra 2002 (sjá að neðan).

 w-s_jokulskeid_grip-rlsstg

Við minnum á að ískjarnaraðir eru fjölmargar og þeim ber auðvitað ekki nákvæmlega saman. Vonandi hafa hungurdiskar þrek til að sýna myndir af nokkrum þeirra í framtíðinni með viðeigandi texta. Það skal ætíð tekið fram að sá sem skrifar er veðurfræðingur en ekki annað og sjónarhornið er því úr þeim fræðaranni - aðrir kunna að líta öðrum og réttari augum á gögnin.

Í viðhengi sem fylgdi með söguslefi í haust var í nokkuð löngu máli fjallað um samsætumælingar og hitafar. Það verður ekki endurtekið hér - en þeir sem nenna því hefðu gott af því að rifja það upp . Þar var hugtakið sjávarsamsætuskeið (Marine Isotope Stage - MIS) kynnt til sögunnar.

Myndin sýnir tvo ferla. Sá bláleiti eru súrefnissamsætuvik úr grip-kjarnanum. Náð var í hann með borunum á hábungu Grænlands. Hann er talinn ná um það bil aftur á síðasta hlýskeið fyrir um 120 þúsund árum - eldri ís er í kjarnanum en hefur eitthvað aflagast. Því stærra sem samsætuvikið er því kaldara er talið hafa verið á Grænlandi. Núverandi hlýskeið er lengst til hægri á myndinni, en eem-hlýskeiðið er lengst til vinstri. Þar á milli eru gríðarlegar sveiflur. Ég mun síðar fjalla meira um þær.

Rauðleiti ferillinn á að sýna sjávarstöðu í aðalatriðum. Við sjáum að á eem var hún e.t.v aðeins hærri en nú á dögum, enda virðist fleira benda til þess að það hlýskeið hafi alla vega um tíma verið ívið hlýrra en það sem við nú upplifum. Síðan féll sjávarstaðan mikið, reyndar í nokkrum þrepum allt þar til lægstu stöðu var náð fyrir um það bil 20 þúsund árum. Þá segir ískjarninn líka hafa verið kaldast. Sjávarstaðan var lægst um 120 metra undir núverandi sjávarmörkum. Hér á landi þrýstu jöklar landinu niður með fargi sínu þannig að hér var sjávarborðið eitthvað allt annað. En þetta lága sjávarborð varð til þess að víða mynduðust landbrýr á milli meginlanda og eyjaklasa sem nú á dögum eru undir sjávarmáli. Nægir að minna á landbrúna yfir Beringssund milli Alaska og Asíu þar sem veiðimenn eru sagðir hafa farið yfir til Ameríku á þurrum fótum.  

Mjög athyglisvert er að sjá að hlýrri tímabil innan jökulskeiðsins og hærri sjávarstaða fylgjast að þótt sjávarborðið (jöklarúmmál) sveiflist ekki nærri því eins ört og hitinn. Mér (veðurfræðingnum) finnst þó líklegt að stærð jökla hafi sveiflast miklu meira heldur en þessi grófi sjávarborðsvísir getur sýnt.

Í næsta söguslefi (18) verða fleiri bráðnauðsynleg (?) hugtök kynnt til sögunnar.  

Vitnað er til: 

Johnsen, S.J., H.B. Clausen, W. Dansgaard, N.S. Gundestrup, C.U. Hammer, U.Andersen, K.K. Andersen, C.S. Hvidberg, D. Dahl-Jensen, J.P. Steffensen, H.Shoji, A.E. Sveinbjörnsdóttir, J.W.C. White, J. Jouzel, and D. Fisher. (1997). The d18O record along the Greenland Ice Core Project deep ice core and the problem of possible Eemian climatic instability. Journal of Geophysical Research 102:26397-26410.

Waelbroeck, C., L. Labeyrie, E. Michel, J.C. Duplessy, J. McManus,K. Lambeck, E. Balbon, and M. Labracherie. 2002. Sea-level and deep Water temperature changes derived from benthic foraminifera isotopic records. Quaternary Science Reviews, Vol. 21, pp. 295-305.

Einnig bendi ég á tvær greinar eftir Árnýju Sveinbjörnsdóttur í Náttúrufræðingnum 1993 og 1994. Í þeirri fyrri er á mjög greinargóðan hátt fjallað um samsætuhlutföll og samband þeirra við hitafar, en í þeirri síðari er sagt frá grip-kjarnanum góða og hvernig náð var í hann. Báðar greinarnar eru aðgengilegar á timarit.is.

Árný Erla Sveinbjörnsdóttir Fornveðurfar lesið úr ískjörnum. Náttúrufræðingurinn. 1993; 62 (1.-2.h.): s. 99-108.

Árný Erla Sveinbjörnsdóttir. Nýr ískjarni frá Grænlandsjökli. Náttúrufræðingurinn, 1994; 65(22): s. 83-96.


Dægurhámörk í apríl

Að hætti hungurdiska er hér línurit sem sýnir hæsta hámarkshita hvers dags í apríl. Ekki er listinn þó alveg skotheldur og ritstjóra þætti gott að fá ábendingar um vankanta. Listinn að baki myndinni fylgir í viðhengi.

w-txd-april

Við sjáum daga mánaðarins á lárétta ásnum, en hitakvarðinn er á þeim lóðrétta. Rauða línan og punktarnir sýna dægurhámörkin en sú blástrikaða leitnina yfir mánuðinn. Hún stígur frá 16 stigum og upp í 20 á 30 dögum. Furðuhátt gildi er þann 3. Hiti komst í 21,2 stig í Neskaupstað á þessum degi 2007 í mjög óvenjulegri hitabylgju. Á Kollaleiru í Reyðarfirði fór hiti sama dag upp í 20,9 stig og 19,1 á Eskifirði. Sama hitabylgja á líka metið daginn eftir.

Apríl 2007 varð hálfgerður kraftaverkamánuður því undir lok hans kom önnur afbrigðileg hitabylgja. Það er hún sem á hæsta hita sem mælst hefur í apríl á landinu, 23,0 stig í Ásbyrgi þann 29. Litlu munaði að það yrði hæsti hiti ársins. Mörg stöðvamet eru úr þessum hitabylgjum tveimur og einnig þeirri þriðju sem gerði um miðjan apríl 2003. Topparnir þann 18. og 19. á myndinni eru úr síðastnefndu bylgjunni. Hún var mest austanlands og toppaði á Hallormsstað.

Toppurinn þann 16. 21,4 stig sýnir elsta metið á myndinni, sett á Seyðisfirði 1908. Önnur gömul en ófallin met eru þann 5. en þá mældust 18,3 stig á Eiðum 1929 og þann 6. en 1913 mældust 15,3 stig á Seyðisfirði. Þorvaldsstaðir í Bakkafirði eiga líka metið þann 11., frá 1929. Góð hitabylgja 1938 á enn tvö met, þann 12. á Hallormsstað og þann 13. í Fagradal í Vopnafirði.

Það met sem best liggur við höggi fyrir nýtt met er talan þann 7. 13,4 stig sem mældust á Akureyri í þeim frábæra aprílmánuði 1974. En met hvaða dags sem er gæti svosem fallið. Neskaupstaðarmetið þann 3. ætti þó að verða erfiðast að slá. Hversu gamalt skyldi það verða, meir en 100 ára eins og metið þann 16. á Seyðisfirði?


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Andkaldur?

Á mannamóti sem ég sótti í dag kvörtuðu furðumargir undan andkulda þrátt fyrir að sól skini í heiði. Hitamælir sýndi 6 stig og er það bara gott í upphafi aprílmánaðar. En þetta gefur ástæðu til að líta á þykktarkort dagsins í dag. Þetta er spá úr hirlam-líkaninu og gildir kl. 21 að kvöldi laugardagsins 2. apríl 2011.

w-hirlam-500-1000-020411-21

Lesendur hungurdiska ættu að vera farnir að kannast við útlitið en myndin er fengin af brunni Veðurstofunnar. Heildregnu, svörtu línurnar eru jafnþykktarlínur 500/1000 hPa sviðsins, tölurnar eru dekametrar. Lituðu fletirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum (í um 1400 metra hæð yfir sjávarmáli). Þar er allstaðar frost, nema við brúngulu fletina yfir Bretlandseyjum. Við sjáum í jaðar mun öflugri kuldapolls vestan Grænlands og vonum að hann haldi sig þar.

K-ið er í miðju á nokkuð flötum kuldapolli þar sem innsta lína er 518 dam (=5180 metrar). Á vetrum þýðir þykkt upp á 5240 metra að hiti sé ekki fjarri frostmarki. Þessi tala lækkar heldur á vorin og yfir sumarið er það 5180 metra línan sem liggur nærri frostmarkinu. En sólin er býsna öflug á daginn þegar kemur fram á vorið og farið að muna um hana þegar hún skín.  

Á hádegi í dag var þykktin yfir Vesturlandi um 5220 metrar, en 5280 yfir Austurlandi. Þetta eru andkaldar tölur - og bjóða upp á næturfrost í björtu veðri þótt hiti komist í 6-8 stig yfir hádaginn. Í nótt fellur þykktin lítilsháttar - niður fyrir 5200 metra vestanlands. Það vill til að úrkoma er ekki mikil en ef úrkoma fellur í nótt er jafnlíklegt að það verði snjór - og sömuleiðis er hætt við hálku.

Smálægð - full af þroskuðum éljabökkum er nærri rauða L-inu á myndinni og hreyfist allhratt í austnorðaustur, e.t.v. gætir éljanna eitthvað þegar lægðin fer hjá.

En - vorið er á leiðinni og þegar bjart er helst hálka varla við yfir daginn. Aðra nótt á nýtt kerfi að hreinsa mesta kuldann frá, í bili að minnsta kosti.


Þrýstivindur - hjáþrýstivindur

Enn erum við í fræðabrekkunni. Einhver les þetta - einhver les þetta, er það ekki? Fyrir nokkrum dögum (22. mars) var hér fjallað um þrýstivind. Þar kom fram að þrýstimunur vekur vind en svigkraftur jarðar kemur í veg fyrir að munurinn jafnist út með því að sveigja vindinn til hægri þar til hann blæs samsíða jafnþrýstilínum. Þetta er endurtekið í reitum a) og b) á myndinni hér að neðan.

w-geostrofia-ageostrofia

Punktalínurnar sýna jafnþrýstilínur, hér eru þær teiknaðar með 5 hPa bili eins og venjan er. Rauða línan í reit a) á að tákna það að fyrst hreyfist loftið þvert á þrýstilínurnar en síðan sveigir það þannig að eftir nokkra stund blæs það samsíða þrýstilínum. Þrýstikraftur og svigkraftur togast á, hvorugur hefur hér betur.

Reitur b) sýnir það sama en á að minna á að það að því meiri sem þrýstimunurinn verður (þéttari línur) þvi meiri verður þrýstikrafturinn (í átt að lægri þrýstingi) en líka svigkrafturinn (til hægri við vindinn). Vindurinn vex líka með auknum þrýstimun.

Nú kemur að lúmsksnúnu atriði sem ég hef vonandi þrek til að endurtaka öðru hverju meðan hungurdiskabloggið stendur: Svigvindurinn er þræll vindsins. Það þýðir að ef þrýstisviðið slaknar skyndilega beygir vindurinn strax til hægri upp á móti auknum þrýstingi. Þetta hefur miklar afleiðingar.

Hér höfum við því tvö dæmi um það að loft getur sloppið í gegnum þrýstilínur. (i) Þegar þrýstisviðið þéttist missir loftið fótanna um stund og rennur niður þrýstibrekkuna - en svigvindurinn kemur fljótlega til hjálpar og nær því inn á braut sem fylgir þrýstilínu. (ii) Þegar þrýstisviðið slaknar fer loftið upp þrýstibrekkuna þar til jafnvægi er aftur náð.

Þetta þýðir t.d. að í raunveruleikanum er vindurinn sífellt að sveiflast í kringum kraftajafnvægið og er sjaldnast alveg sá sami og þrýstilínurnar segja hann vera. Þetta á reitur c) á myndinni að sýna. Vindur fer um þrýstilandslagið í bylgjugangi. Mismunurinn á vindi þeim sem lega þrýstilína gefur til kynna og hins raunverulega nefnist hjáþrýstiþáttur vindsins eða einfaldlega hjáþrýstivindur. Sumir hjáþrýstivindar eru merkilegri en aðrir. Það bíður betri tíma.


Í aprílbyrjun

Þá er það apríl og verður að venju fjallað um veðurlag hans í nokkrum pistlum meðan hann varir. Veðurnörd geta í viðhengi séð lista yfir metaprílmánuði af ýmsu tagi - ekki eru þar þó met sem sett eru á ákveðna daga. Það kemur síðar.

Rétt er að geta þess að mars var ansi duglegur á lokasprettinum þetta árið. Meðalhiti mánaðarins í Reykjavík komst nærri því upp í meðaltalið - þrátt fyrir að um tíma hefði verið útlit fyrir kaldasta mars í 16 ár. Hiti var lítillega yfir meðallagi á Akureyri. Úrkoma var komin yfir meðallag á þeim stöðvum sem ég fylgist reglulega með - lítið þó yfir á sumum.

En apríl. Hæstur var mánaðarloftþrýstingur 1973. Ég var eitthvað lítið á landinu í þeim mánuði. Stuttaralegur dómur (að hætti bókargagnrýnenda i jólaösinni) segir einfaldlega: Lengst af hagstæð tíð.

Lægstur var mánaðarloftþrýstingurinn í apríl 1863 - hinn stuttorði veðurrýnir hefur enn ekki dæmt þann mánuð - en fletta má upp í Árferði á Íslandi í þúsund ár  eftir Þorvald Thoroddsen en það frábæra rit er nú aðgengilegt á netinu. Prófið að leita.

Mesta úrkoma sem mælist hefur samtals í apríl er 523,7 mm en það kom úr mælinum á Kvískerjum 2009. Í þeim mánuði fór óvænt að leka í anddyrinu hjá mér. Á stuttu tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar segir að mánuðurinn hafi verið mjög úrkomusamur um mestallt land. Takið sérstaklega eftir orðinu mestallt- en það er eitt af mörgum úrogídráttarorðum sem algeng eru í veðurtextum - er þetta sérstakur setningarliður? (Sjá bloggið fyrir nokkrum dögum).

Hlýjastur varð apríl árið 1974 og kaldastur 1859. Óvíða var mælt 1859, sá sem þetta skrifar á aðeins 3 stöðvar í þeim mánuði, Reykjavík, Stykkishólm og Hvanneyri í Siglufirði. Reykjavík slapp furðuvel miðað við hina staðina. Vonandi bætast fleiri stöðvar við síðar. Ég vona að Sigurður Þór fjalli ítarlega um kalda og hlýja aprílmánuði á sínu góða bloggi svipað og að undanförnu fyrir aðra mánuði almanaksársins.

Ég hef reiknað það út að apríl 2002 sé sá úrkomusamasti á landinu í heild. Hvernig ég fæ það út mun ég fjalla um síðar, en röðin sú nær aðeins aftur til 1924 og samanburði við eldri tíma er ekki lokið - og verður það e.t.v. ekki alveg á næstunni. Þetta úrkomumatsverkefni er raunar hálfkarað þannig að endurskoðun er hugsanleg.

Á sama hátt hef ég ákveðið að apríl 1935 skuli teljast sá þurrasti. En hann er hins vegar ekki sá þurrasti í úrkomulandshlutunum þremur sem ég nota. Lítið á viðhengið til að komast að raun um hvaða mánuðir það eru.

Snjóþyngsti apríl á landinu er apríl 1990 - það var reyndar ískyggilegur mánuður á flestan máta. Minnisstæður er mér enn útsynningur sem gerði síðast í mánuðinum - rétt eins og enn væri febrúar.

Hæsti mánaðarmeðalhiti sem getið er um í mánuðinum eru 7,1 stig á Hellu á Rangárvöllum í þeim frábæra mánuði 1974. Enn hærri meðalhiti mældist reyndar í Hvammi undir Eyjafjöllum í apríl 2002 (þeim úrkomusama sem minnst var á að ofan). Talan frá Hvammi (7,8 stig) telst þó ekki met ennþá vegna þess að stöðin hefur oft verið óþekk, þó ekki endilega í þessu tilviki.

Áður var minnst á lægsta mánaðarmeðalhita í apríl (Siglufjörður 1859) en tala frá Grímsey 1876 er sú lægsta ef aðeins er miðað við veðurstofumælingar.

En lítið á viðhengið.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 68
  • Sl. sólarhring: 405
  • Sl. viku: 1893
  • Frá upphafi: 2350629

Annað

  • Innlit í dag: 65
  • Innlit sl. viku: 1693
  • Gestir í dag: 65
  • IP-tölur í dag: 65

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband