Í aprílbyrjun

Þá er það apríl og verður að venju fjallað um veðurlag hans í nokkrum pistlum meðan hann varir. Veðurnörd geta í viðhengi séð lista yfir metaprílmánuði af ýmsu tagi - ekki eru þar þó met sem sett eru á ákveðna daga. Það kemur síðar.

Rétt er að geta þess að mars var ansi duglegur á lokasprettinum þetta árið. Meðalhiti mánaðarins í Reykjavík komst nærri því upp í meðaltalið - þrátt fyrir að um tíma hefði verið útlit fyrir kaldasta mars í 16 ár. Hiti var lítillega yfir meðallagi á Akureyri. Úrkoma var komin yfir meðallag á þeim stöðvum sem ég fylgist reglulega með - lítið þó yfir á sumum.

En apríl. Hæstur var mánaðarloftþrýstingur 1973. Ég var eitthvað lítið á landinu í þeim mánuði. Stuttaralegur dómur (að hætti bókargagnrýnenda i jólaösinni) segir einfaldlega: Lengst af hagstæð tíð.

Lægstur var mánaðarloftþrýstingurinn í apríl 1863 - hinn stuttorði veðurrýnir hefur enn ekki dæmt þann mánuð - en fletta má upp í Árferði á Íslandi í þúsund ár  eftir Þorvald Thoroddsen en það frábæra rit er nú aðgengilegt á netinu. Prófið að leita.

Mesta úrkoma sem mælist hefur samtals í apríl er 523,7 mm en það kom úr mælinum á Kvískerjum 2009. Í þeim mánuði fór óvænt að leka í anddyrinu hjá mér. Á stuttu tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar segir að mánuðurinn hafi verið mjög úrkomusamur um mestallt land. Takið sérstaklega eftir orðinu mestallt- en það er eitt af mörgum úrogídráttarorðum sem algeng eru í veðurtextum - er þetta sérstakur setningarliður? (Sjá bloggið fyrir nokkrum dögum).

Hlýjastur varð apríl árið 1974 og kaldastur 1859. Óvíða var mælt 1859, sá sem þetta skrifar á aðeins 3 stöðvar í þeim mánuði, Reykjavík, Stykkishólm og Hvanneyri í Siglufirði. Reykjavík slapp furðuvel miðað við hina staðina. Vonandi bætast fleiri stöðvar við síðar. Ég vona að Sigurður Þór fjalli ítarlega um kalda og hlýja aprílmánuði á sínu góða bloggi svipað og að undanförnu fyrir aðra mánuði almanaksársins.

Ég hef reiknað það út að apríl 2002 sé sá úrkomusamasti á landinu í heild. Hvernig ég fæ það út mun ég fjalla um síðar, en röðin sú nær aðeins aftur til 1924 og samanburði við eldri tíma er ekki lokið - og verður það e.t.v. ekki alveg á næstunni. Þetta úrkomumatsverkefni er raunar hálfkarað þannig að endurskoðun er hugsanleg.

Á sama hátt hef ég ákveðið að apríl 1935 skuli teljast sá þurrasti. En hann er hins vegar ekki sá þurrasti í úrkomulandshlutunum þremur sem ég nota. Lítið á viðhengið til að komast að raun um hvaða mánuðir það eru.

Snjóþyngsti apríl á landinu er apríl 1990 - það var reyndar ískyggilegur mánuður á flestan máta. Minnisstæður er mér enn útsynningur sem gerði síðast í mánuðinum - rétt eins og enn væri febrúar.

Hæsti mánaðarmeðalhiti sem getið er um í mánuðinum eru 7,1 stig á Hellu á Rangárvöllum í þeim frábæra mánuði 1974. Enn hærri meðalhiti mældist reyndar í Hvammi undir Eyjafjöllum í apríl 2002 (þeim úrkomusama sem minnst var á að ofan). Talan frá Hvammi (7,8 stig) telst þó ekki met ennþá vegna þess að stöðin hefur oft verið óþekk, þó ekki endilega í þessu tilviki.

Áður var minnst á lægsta mánaðarmeðalhita í apríl (Siglufjörður 1859) en tala frá Grímsey 1876 er sú lægsta ef aðeins er miðað við veðurstofumælingar.

En lítið á viðhengið.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Frábær endasprettur hjá mars. Náði því að vera yfir frostmarki í Reykajvík. Hann náði þar með ólympíulágmarkinu sem er náttúrlega núllið!

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.4.2011 kl. 01:08

2 identicon

Já,hann var ískyggilegur apríl 1990. var að fletta í dagbókinn frá þeim tíma.5.4. Enginn skóli vegna ófærðar 19.4. sumardagurinn fyrsti. Hellisheiði varð ófær í kvöld. 21.4. Snjóhryðjur. 25.4. Í kvöld gerði vitlaust veður sem skall á kl 8.Brjálað nvestan. Komst ekki út fyrr en um miðnætti.Þá var veðrið dottið niður

27.4. Hvað er hægt að skrifa um svona veður ? Frost og snjókoma allan daginn ,breytist þó í sliddu undir kvöld.

30.4. Snjókoma en á að rigna og hlýna. 1.5. Loksins,loksins 7 stiga hiti og rigning. Vegir sundur vegna flóða.

Ólafur

Ólafur Stefánsson (IP-tala skráð) 1.4.2011 kl. 17:32

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Ólafur. Það er gaman að sjá að einhverjir halda enn veðurdagbækur - það er meiri stemning í þeim heldur en tölunum hráum. Mars í ár náði svo sannarlega góðum og jöfnum endaspretti - án örþrifaráða svosem daglegra hitameta síðustu dagana.

Trausti Jónsson, 2.4.2011 kl. 01:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 37
  • Sl. sólarhring: 71
  • Sl. viku: 435
  • Frá upphafi: 2343348

Annað

  • Innlit í dag: 31
  • Innlit sl. viku: 391
  • Gestir í dag: 29
  • IP-tölur í dag: 28

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband