Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011
20.4.2011 | 00:09
Sundurtættar lægðir hraða sér hjá
Varla hefst undan að telja þau lægðakerfi sem sífellt berast að landinu þessa dagana. Þegar þetta er skrifað (að kvöldi þriðjudags 19. apríl) er lægð á hraðri leið til norðausturs skammt vestur af landinu og á morgun fer önnur svipaðaleið, en sameinast í leiðinni annarri sem fer yfir landið á sama tíma. Auðvelt er að teikna eitthvað sem kalla má skil í þessa súpu en hvers eðlis þau eru er ekki gott að segja - og segi ég ekkert um það. Á gervihnattamynd í kvöld má með góðum vilja sjá þessar lægðir og við lítum á hana.
Lægðin vestan við landið er merkt sem L1, bláa örin sýnir áætlaða hreyfistefnu. Leggjast þarf yfir myndina til að sjá eitthvað sem gæti verið lægðarmiðja og skil - en hvoru tveggja finnst ef vel er leitað. Þetta er eitt af þeim tilvikum sem væri skýrara í huga veðurfræðingsins ef hann sæi aðeins grunnkortið. Þar er allgóð lægðasveigja á þrýstilínum, loftvog fellur mjög heiðarlega og allt virðist í góðu lagi. Af greiningu grunnkortsins einu og sér gæti fræðingurinn farið að hafa áhyggjur, loftvogin fellur ansi mikið í kvöld. En - viðbótarupplýsingar nútímans sýna að í raun og veru er lítið um að vera varðandi þessa fyrstu lægð.
Lægð númer tvö hefði varla sést á grunnkortum fortíðarinnar. Hún sést hins vegar greinilega á myndinni sem allreglulegur sveipur (eða hálfsveipur) í kringum miðju. Tölvugreiningar sýna að lægðin nær furðuhátt upp í veðrahvolfið sem sérstök hringrás sem hreyfist hratt til norðausturs í átt að landinu. En hringrásin er svo smá um sig að hún nær ekki í frekara fóður - þar til á morgun.
Áður en við lítum betur á það verður að minna á að þessar smálægðir, sem og allar lægðir síðustu daga og gott ef ekki næstu vikuna eru aðeins smáhrukkur á jaðri kuldapollsins sem sífellt er á dagskrá hér á hungurdiskum. Lægðir 1 og 2 á myndinni eru mjög stuttar hrukkur (ná varla þúsund kílómetrum að umfangi), lægð 3 er hins vegar mun stærri - en smáhrukka samt.
Til morguns færist lægð tvö nær miðju kuldapollsins, en jafnframt lendir hún í stefnumóti við bylgju þá sem merkt er á myndina sem svartur hringur. Taki maður spár bókstaflega étur hringurinn L2 um miðjan dag á morgun og úr verður myndarleg lægð sem hreyfist hratt norður í haf og veldur hvassvirði á Svalbarða á fimmtudaginn. Stefnumótið veldur því að á morgun (miðvikudag) verða um tíma tvær lægðarmiðjur eða mikil flatneskja yfir landinu og vindur því lengst af hægur.
Á meðan nálgast lægð 3 (L3) okkur og veldur hvassviðri hér á landi á fimmtudagskvöld. Ég hef sett rauða ör í myndarlegan skýjagöndul hennar - hlýja færibandið. Það á nú eftir að veltast talsvert um á leiðinni. Fylgjast má vel með því á myndunum á vef Veðurstofunnar. Má vera að hungurdiskar láti það sig einhverju varða þegar nær dregur.
Það er ekki að sjá annað en að hingað komi nýjar lægðir á 1 til 3 daga fresti næstu vikuna, en færa okkur heldur hlýrra loft en það sem yfir er í dag og á morgun (miðvikudag). Hver stór bylgja sem til okkar berst úr suðri færir með sér væntingar um vorhlýindi, kannski að pakkinn komi með næstu áætlunarferð? Eða - þarf að bíða lengur. Nokkrar ferðir eru á áætlun næstu vikuna.
19.4.2011 | 01:26
Dægursveifla hita og vinds í apríl
Sól hækkar nú hratt á lofti og vorið nálgast. Þá stækkar dægursveifla hita og vindhraða. Á björtum dögum fer hafgolan að láta á sér kræla og sést á meðaltölum sé eftir henni leitað. En lítum á stöðuna í Reykjavík.
Vinstri kvarðinn og bláa línan eiga við hitann. Næturlágmark hans er rétt um klukkan 6, en hámarkið er klukkan 16. Á myndinni má taka eftir því að í byrjun sólarhringsins er meðalhitinn um 2,5 stig, en um 2.8 stig þegar hann endar. Þetta er hlýnunin frá fyrsta degi mánaðarins til þess síðasta, jöfnuð út.
Hægri kvarði og rauð lína eiga við vindhraðann. Dægursveifla hans fylgir hitasveiflunni furðuvel. Við tökum eftir því að vindhraðaferillinn er ekki alveg jafn fágaður og hitaferillinn. Sennilega er árafjöldinn ekki alveg nægilegur til að negla dægursveiflu hans jafn vel niður og sveiflu hitans.
Við skulum líka líta á meðaltal hitans á léttskýjuðum og alskýjuðum dögum.
Blái ferillinn sýnir hitasveiflu í apríl í Reykjavík í léttskýjuðu veðri. Þá er að meðaltali frost á nóttum, mest um kl. 5. Svo má hitinn heita jafnhár frá kl. 14 til kl. 17, um 3 stig. Dægursveiflan er rúm 5,5 stig. Mjög lítill munur er á hita í upphafi og við enda sólarhringsins. Trúlega er það vegna þess að norðanátt er ríkjandi þegar bjart veður er í Reykjavík, þá er mikið aðstreymi af köldu lofti og sólin hefur ekki í við það.
Mun hlýrra er í alskýjuðu veðri (þá er oftast suðlæg átt), en dægursveiflan ekki nema um 2 stig. Sami hiti er mestalla nóttina. Hér munar hátt í einu stigi á hita í upphafi og enda alskýjaðs sólarhrings. Sunnanáttin ber með sér hlýtt loft og varmatap vegna útgeislunar er lítið.
Nærri þremur stigum munar á meðalhámarkshita í léttskýjuðu og alskýjuðu veðri í apríl. Athuga ber að þetta segir svosem lítið um einstaka daga - þeir geta verið alla vega.
Þótt hitagildin hnikist lítillega til eftir tímabilum er mesta furða hvað lögun og spönn dægursveiflu hans verða stöðugar ef meir en 5 ár eru að baki meðaltalsins. Þá staðreynd nota menn sér þegar reikna á meðalhita mánaða á stöðvum sem aðeins athuga að deginum.
18.4.2011 | 01:05
Dulin átök í dag (17. apríl 2011) - kuldi sækir að
Í dag var vindur hægur um meginhluta landsins þrátt fyrir að hitamunur milli Austur- og Vesturlands væri allmikill og hátt í lofti var mikil vindstrengur, 40 m/s í 5 kílómetra hæð og 60 m/s enn ofar. Ástæðu hægviðrisins má vel sjá á kortinu hér að neðan sem fengið er úr smiðju hirlam-líkansins, greining kl. 18 sunnudag 17. apríl.
Fastir lesendur hungurdiska (séu þeir nokkrir) kannast við línurnar á kortinu. Þær svörtu, heildregnu, sýna hæð 500 hPa-flatarins frá sjávarmáli í dekametrum (dam=10 m). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn í fletinum. Rauðu strikalínurnar sýna aftur á móti fjarlægðina milli 500 hPa og 1000 hPa þrýstiflatanna, einnig í dekametrum, þessi fjarlægð er kölluð þykkt og við notum gjarnan ákveðinn greini: Þykktin. Því meiri sem þykktin er því hlýrra er loftið.
Kuldapollurinn óþægilegi er enn á sínum stað þar sem hann hefur haldið til með stuttum hléum frá því snemma í febrúar. Þykktin í honum miðjum er innan við 4900 metrar - helkuldi. Nú er hlý hæð yfir Bretlandseyjum, þykktin þar er í kringum 5500 metrar, reyndar sumarþykkt hjá okkur en ekki svo mjög óvenjuleg yfir Bretlandi síðari hluta aprílmánaðar. Spurning hvort við munum njóta góðs af þessu lofti eða hvort bíða þurfi fleiri áætlunarferða úr suðri til að svo megi verða.
Á svæðinu við Ísland má sjá að þykktar- og hæðarlínur falla eiginlega alveg saman. Þar kemur skýringin á hægviðrinu við jörð. Kalda loftið vestur af landinu gengur svo snyrtilega undir hlýja loftið austur af að allur þrýstimunur jafnast út. Þau fáu nörd sem vilja smá hugarvinnu ættu að prófa að draga þykktarsviðið frá hæðarsviðinu í kringum Ísland og skoða útkomuna, þá kemur hægviðrið í ljós.
En þetta ástand er ekki stöðugt. Hæðarsviðið er að aflagast, allmikill hæðarhryggur nálgast úr vestri (rauð ör). Hann þrengir að lægðardraginu sem liggur vestan Íslands og á að skipta því í tvennt (svartar örvar). Hluti fer suður til Portúgal og gæti valdið úrfelli og þrumuveðrum þar (ekki þó víst). Annar hluti fer til norðausturs milli Íslands og Grænlands og hreinsar hlýja loftið sem nú er yfir Austurlandi frá landinu.
Hitamunur verður talsverður yfir landinu mestallan mánudaginn. Þegar þetta er skrifað (eftir miðnætti aðfaranótt mánudags) snjóar talsvert á Snæfellsnesi en hláka er litlu austar. Ekki treysti ég mér til að segja hvar lína á milli snjókomu og rigningar liggur mestallan mánudaginn meðan lægð er að dýpka í námunda við landið, en kalda loftið nær loks undirtökunum á mánudagskvöld.
Loftið sem stefnir þá að landinu úr suðvestri er kalt, kaldasti hluti þess á að fara yfir landið á aðfaranótt þriðjudags, þykktin á þá um stund að fara niður fyrir 5120 metra.
Kortið sýnir þykktarspá hirlam-líkansins aðfaranótt þriðjudags 19. apríl. Hér eru þykktarlínur heildregnar en litafletirnir sýna hita í 850 hPa fletinum, hann er í um 1300 metra hæð. Frostið í miðjum kuldapollinum er -10 til -12 stig í þeirri hæð. Það er því að sjá að veturinn heimsæki okkur enn á ný og verði staða sem þessi raunin má gera ráð fyrir miklu leiðindaveðri á heiðum um landið vestanvert þegar þetta kort gildir og hálku á láglendi. Vetrarkuldinn dvelur þó ekki lengi við landið og verður farinn hjá fyrr en varir.
En fylgist vel með spám Veðurstofunnar. Umhleypingarnir eru ekki búnir og ekki ólíklegt að meira heyrist um þá á hungurdiskum síðar í vikunni.
Kortin eru fengin af brunni Veðurstofunnar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.4.2011 | 01:27
Mest snjódýpt á veðurstöðvum í apríl (nefnd með hálfum huga)
Í viðhenginu er tvískiptur listi yfir mestu snjódýpt á veðurstöðvum í aprílmánuði. Annars vegar frá og með 1961 til 2010 en hinsvegar fyrir 1960. Listinn er birtur hér með hálfum huga vegna galla sem í honum eru. Ég vona þó að ekki sé mikið af röngum tölum - vonandi engar - líklega fáeinar.
Vandamálið er fremur það að snjódýptarmælingar eru erfiðar - ekki síst í mánuði þar sem fyrningar frá því um háveturinn liggja misdreifðar um grundir á stöðvunum. Af sögulegum ástæðum sem ekki verða tíundaðar hér eru tölur frá því fyrir 1965 nokkuð gisnar þar sem snjódýptargögn frá tímabilinu 1957 til 1964 eru aðeins að litlu leyti komnar inn í gagnagrunninn. Vonandi verður bætt úr því á næstu árum.
En með þessa miklu fyrirvara í huga skulum við líta á tíu hæstu tölurnar. Fyrsti dálkurinn sýnir fyrsta ár viðmiðunartímabils (ekki alltaf að marka það), sá næsti síðasta ár viðmiðunartímabil (alveg að marka), síðan koma metár og metdagur í apríl, metsnjódýptin í cm og loks stöðvarnafnið:
1961 | 1993 | 1990 | 17 | 260 | Gjögur |
1971 | 2010 | 1995 | 6 | 211 | Skeiðsfoss |
1961 | 2008 | 1967 | 1 | 205 | Raufarhöfn |
1961 | 1995 | 1966 | 3 | 200 | Hornbjargsviti |
1987 | 2009 | 1994 | 9 | 190 | Kálfsárkot |
1961 | 2010 | 1990 | 1 | 188 | Æðey |
1991 | 1998 | 1995 | 6 | 188 | Hvannstóð |
1963 | 2000 | 1967 | 1 | 180 | Garður |
1998 | 2010 | 1999 | 1 | 179 | Birkihlíð í Súgandafirði |
1980 | 2010 | 1990 | 1 | 162 | Lerkihlíð |
Við sjáum að 1990 kemur fyrir þrisvar og 1967 og 1995 tvisvar, hin þrjú ártölin eru stök. Í fimm tilvikum er metið sett fyrsta dag mánaðarins, það gæti bent til þess að um fyrningar sé að ræða. Svo vel vill til að hæsta talan er frá miðjum mánuði, þeim 17. Við skulum ímynda okkur hversu miklum vandræðum snjódýpt af þessu tagi myndi valda í þeim byggðum landsins þar sem fólk þarf að ferðast til og frá vinnu á farartækjum eins og bílum. Nokkrar borgir á norðuslóðum hafa þó aðlagað sig að ástandi af þessu tagi með góðum árangri.
Sé listanum í viðhenginu raðað eftir árum kemur í ljós að fjöldi meta er mestur 1990, en 1989 fylgir fast á eftir og þarnæst 1995 og 1999. Allt saman eru kunnir snjóavetur, þeir þrír fyrstnefndu um mestallt land, auk þess sem aprílmánuðir áranna 1989 og 1990 voru óvenju óhagstæðir á margvíslegan hátt. Það má rifja upp að veðurfræðingar (og fleiri háskólamenn) voru í verkfalli allan apríl 1989 - ekki er því þó haldið fram hér að veðurlag hafi úr lagi gengið þess vegna.
Af eldri mánuðum má auk 1967 nefna 1966, 1973 og 1983, allt miklir snjóavetur. Veturinn 1965 til 1966 var þó öðru vísi en hinir að því leyti að óvenjulegt snjóleysi (og þurrkar) voru þá suðvestanlands, en óvenju snjóþyngsli nyrðra.
Af eldri mánuðum er lítið að frétta - en þó má nefna apríl 1936. Þeim vetri var svipað varið og 1966 að því leyti hve snjóalögum var misskipt eftir landshlutum. Þá var snjódýpt á Grímsstöðum á Fjöllum talin 150 cm þann 3.
En áhugasamir líti á viðhengið - með öllum þeim fyrirvörum sem tíundaðir voru hér að ofan.
16.4.2011 | 01:27
Lægsti hiti á veðurstöðvum í apríl
Í viðhenginu er listi yfir lægstu lágmörk á veðurstöðvum í apríl. Honum er, eins og fyrri listum af þessu tagi, skipt í fjóra hluta. Fyrst koma sjálfvirku stöðvarnar, síðan sjálfvirkar Vegagerðarstöðvar sér, þarnæst mannaðar stöðvar 1961-2010 og loks mannaðar stöðvar 1924 til 1960. Íslandsmetið er eldra en 1924, sett á Siglufirði 1. apríl 1881 - eins og getið var um hér á hungurdiskum nýlega. Hugsanlegt er að stöku eldri met standi enn á þeim stöðvum sem athugað hafa lengur en frá 1924. Það er helst 1. apríl 1881 sem gæti truflað.
Annars er mikill fjöldi meta frá 1. apríl 1968 og er hann kaldastur apríldaga á fjölmörgum mönnuðu stöðvanna. Þar á meðal eru bæði Reykjavík og Akureyri. Telji maður ártöl og daga í töflunni kemur í ljós að þessa dags er getið 63 sinnum.
Síðan sjálfvirku stöðvunum fór að fjölga fyrir um 15 árum hafa kuldaköst ekki verið mjög skæð. En stöðvar sem byrja seint eiga samt met. Met er skráð á 70 stöðvum 7. apríl 2005. Nokkrar stöðvar hafa aðeins athugað í 1 til 2 ár og þarf varla að taka fram að þau segja lítið um metamöguleika þeirra - ég hefði kannski átt að sleppa þeim. En ég veit að nördin hafa gaman af því að sjá þessar tölur líka - og ég er í þeirra hópi hvað þetta varðar. Ef ég færi að sleppa einu ári, ætti ég þá ekki líka að sleppa tveimur - eða fleiri?
Á tímanum 1924 til 1953 sker 2. apríl 1953 sig nokkuð úr með 19 bókanir (í miðju hræðilegu kuldakasti) og af síðari ónefndum köstum má nefna 3. apríl 1990 með 16 bókanir og 11. apríl 2001 með 34 bókanir, aðallega sjálfvirkar stöðvar. Af dögum seint í mánuðinum er 20. apríl 1951 eftirtektarverður með 6 bókanir.
Þeir sem vilja geta nú lagst yfir töfluna og raðað henni að vild. Verði ykkur að góðu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.4.2011 | 01:07
Sprækir umhleypingar - lægð straujuð
Enn sér ekki útúr umhleypingunum og ekkert lát er á vestsuðvestanáttinni í háloftunum á okkar slóðum. Þessu veldur enn einn kuldapollurinn vestan Grænlands. Góðu fréttirnar eru þær að hann á ekki að nálgast, en þær verri að lítið lát er á honum. Hann er þó ekki alveg jafnfeitur og bræður hans sem ríktu á svipuðum slóðum hvað eftir annað í febrúar og mars.
Hann sendir okkur þó kuldasleikjur eins og þá sem gengið hefur yfir landið vestanvert í dag kvöld og veldur því að alhvít jörð hér í Reykjavík þegar þetta er skrifað (laust eftir miðnætti aðfaranótt 15. apríl). Það er eðlilegt þegar þykktin er undir 5180 metrum og er spáð enn neðar í nótt. Austlendingar njóta bæði hærri þykktar (=hlýrra lofts) og dágóðrar dægursveiflu hitans í sólríku veðri.
Kortið sýnir spá um hæð 300 hPa-flatarins um hádegi á morgun. Svörtu línurnar eru hæð flatarins í dekametrum (=10 m). Ég hef sett stórt K við miðju kuldapollsins, þar eru aðeins rúmir 8200 metrar upp í flötinn.
Græn- og blálituðu fletirnir tákna svæði þar sem vindur er hvassastur, litun byrjar við 80 hnúta = 40 m/s. Einnig má sjá venjulegar vindörvar þar sem flögg tákna 50 hnúta (=25 m/s). Vindhraði er um 120 hnútar (= 60 m/s) þar sem hann er mestur austan Nýfundnalands.
Ég hef sett feitar, gular línur í þau tvö lægðardrög sem eru mest áberandi. Þau hreyfast bæði til austurs. Erfitt er að greina hæðarhrygginn á milli lægðardraganna. Í dag var lægð við Nýfundnaland og um hádegi á morgun (föstudaginn 15. apríl) þegar þetta kort gildir er hún fremst í grænlitaða svæðinu suðaustur af Hvarfi á Grænlandi, komin langt fram úr bylgjunni sem ætti að gefa henni dýpkunarmátt. Segja má að heimskautaröstin straui hana í klessu.
Skýjakippa hennar og úrkomusvæði fer þó yfir Ísland á föstudagskvöld og þaðan á ofsahraða til Noregs. Síðan kemur næsta lægð og sú næsta og enn áfram og fram að páskum. Framtíðarspár eru þó mjög óöruggar í þessari fjörugu stöðu og ekki gott að segja hvort fleiri lægðir straujast við að fara fram úr sjálfum sér eða hvort þær ná andanum og mynda alvöruhringrás.
Heimskautaröstin tekur aðeins hóflegt mark á meðaltölum og mikil áraskipti eru á því hvenær eða hvernig hún skiptir yfir í snemmsumarsgírinn. Í stöku sumri losnum við ekkert við hana - en að meðaltali turnast hún síðustu 10 daga aprílmánaðar.
Ef við rýnum í meðaltöl mjög langs tíma sést að röstin heldur að jafnaði nærri fullum vetrarstyrk fram undir það síðasta - en jafnframt snýst hún til aðeins hærri áttar (hærri tölu á áttavitanum). Það þýðir að leið hennar í apríl (og maí) liggur oftar yfir Grænland heldur en tíðast er yfir háveturinn. Vorin eru sá tími árs sem Grænland með sínum háa jökulhrygg beyglar röstina og þá vilja skiptast á bjartir og hægir dagar annars vegar og leiðindanorðankuldaköst - vorhretin illræmdu. Ég hef því miður enn ekki nákvæma tölu á tíðni þessa erfiða veðurlags á hinum ýmsu tímum árs en tilfinning mín (sem ekki er rétt treystandi) telur Grænlandsbylgjuhret á vorin um tvöfalt líklegri heldur en á öðrum tímum árs. Vonandi upplýsist um sannleikann í því máli síðar.
En eins og að ofan sagði lætur heimskautaröstin meðaltöl sig litlu varða og við verðum því að taka framleiðsluvörum hennar í vor með jafnaðargeði.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.4.2011 | 01:07
Nokkur apríllandsmet
Fyrr í mánuðinum var hæsti hámarkshiti aprílmánaðar tilgreindur hér á hungurdiskum. Hann er 23,0 stig og mældist í Ásbyrgi í hitabylgjunni miklu í lok mánaðarins 2007 (þann 29.). Lægsti hiti sem mælst hefur í mánuðinum er -30,2 stig og stendur enn frá 1. apríl 1881. Hann mældist á Siglufirði sem nokkrum dögum áður greip kuldamet marsmánaðar og hefur haldið því síðan. Ég hef hugsað mér að gera þessum Siglufjarðarmælingum skil síðar.
1. apríl 1968 varð metkuldadagur víða um land og á apríllágmarksmet bæði í Reykjavík (-16,4 stig) og á Akureyri (-18,2 stig). Þá var kalt í gisnu menntaskólahúsinu man ég þennan óvenjulega dag.
Sólarhringsúrkomumetið, 157,0 mm, var sett á Kvískerjum í Öræfum 3. apríl 1984. Annars er ég aldrei viss um hvort heimamenn segja í eða á Kvískerjum - getur einhver upplýst mig um það?
Loftþrýstimetin tvö, hæsti og lægsti þrýstingur í apríl eru bæði tiltölulega ung. Lágþrýstimetið, 951,0 hPa, var sett á Bergstöðum í Skagafirði 11. apríl 1990, þeim afspyrnuvonda mánuði. Þennan dag fuku járnplötur af húsum og inn í hús á Akureyri. Ég er mest hissa á því að 21 ár skuli vera liðin síðan þetta var, ósköp flýtir tíminn sér. Hámarksþrýstimetið kom rétt rúmu ári síðar, þann 15. og 16. apríl 1991. Þá mældist þrýstingur bæði á Egilsstöðum og í Grímsey 1050,8 hPa.
Mesta snjódýptin í apríl mældist á Gjögri í Árneshreppi 17. apríl 1990 (já, sá vondi mánuður aftur), 260 cm (2 metrar og 60 cm). Ef til vill þarf þetta nánari skoðunar við, en mælingin er örugglega ekki mjög nákvæm. Reynið að fara um og mæla í tveggja metra snjó. Veturinn 1989 til 1990 var einn af mestu snjóavetrum síðari áratuga, úrkomumælirinn á Gjögri fór á kaf þótt reynt væri að moka frá honum þannig að ekki var hægt að mæla úrkomu þar um tíma.
Mesta snjódýpt í apríl í Reykjavík mældist 1. apríl árið áður (1989), 32 cm, en sá vetur var einnig eftirminnilegur snjóavetur.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.4.2011 | 00:41
Skýringarmynd af ósonlaginu
Fyrir nokkrum dögum var rætt hér um ósonlagið. Þar stóð myndin sem fylgir pistlinum í dag út af borðinu og rétt að birta hana áður en fyrri pistill hverfur alveg niður fyrir línuna þar sem stendur næsta síða,
Myndin á að sýna dæmigerðan styrk óson(s) upp í gegnum veðrahvolf og heiðhvolf. Lóðrétti kvarðinn sýnir hæð í kílómetrum, rauð lína þvert yfir myndina markar hæð veðrahvarfanna í um 10 km hæð, brúnar hrúgur með hvítu í toppinn eiga að sýna hæð Öræfajökuls og Everestfjalls. (Einnig er reynt að teikna ský þar í hlíðum). Lárétti kvarðinn sýnir hlutþrýsting ósonsins í míkróbörum. Hér höfum við ekki áhyggjur af þeirri sjaldséðu einingu, en einingin er afskaplega lítil, milljónastihluti loftþrýstings við sjávarmál. Við verðum samt að grípa til aukastafa til að koma styrk ósonsins á kvarðann.
Bláa línan sýnir hvernig magn ósons breytist frá jörð og upp í 50 km hæð. Hann nær lágmarki um eða neðan við mitt veðrahvolfið en eykst síðan hratt upp á við og nær miklu hámarki í um 20 til 30 kílómetra hæð. Þar er settur rauður grunnlitur undir. Ofar minnkar styrkurinn aftur.
Þegar ósoneyðing á sér stað skerst af bláa ferlinum og þegar verst lætur myndast lágmark í hann í 20 til 25 kílómetra hæð. Líta má á dæmi síðar ef vel viðrar til þess. Það vekur sífellda furðu að svona lítið af einhverju efni geti haft þau miklu áhrif að vernda það sem neðar er fyrir hættulegum útfjólubláum geislum sólar. Ef öllu ósoni ofan við okkur hverju sinni væri safnað saman og því komið fyrir í seilingarhæð (það er í loftþrýstingi við sjávarmál) væri það teppi ekki nema um 3 mm þykkt.
Þetta ákaflega sérstaka glæra gler sem lofthjúpsins er næstum því ógegnsætt á ákveðnum bylgjulengdum rafsegulrófsins. Undarlega erfitt er fyrir flesta að meðtaka það.
Kvarðar myndarinnar, ósonstyrksferillinn og fleira er tekið eftir mynd (númer 1.13) sem birtist í ágætri kennslubók í loftslagseðlisfræði og nánar er getið hér að neðan. Ég mæli með bókinni.
Bókin:
Taylor, F.W. Elementary Climate Physics, Oxford University Press, 2005, 212 síður.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.4.2011 | 20:01
Fáeinar tölur úr sunnudagsillviðrinu (10. apríl 2011)
Hér er til gamans samantekt um illviðrið á sunnudaginn (10. apríl 2011). Í viðhengi má finna lista yfir mesta vindhraða og mestu vindhviðu á sjálfvirkum veðurstöðvum. Í listanum er þess einnig getið hvaða vindátt var þegar meðalvindhraðinn var mestur. Athugið að þarna er einnig dálkur þar sem greint er á milli vegagerðarstöðva (vg) og annarra sjálfvirkra (sj). Á flestum vegagerðarstöðvunum miðast vindhviður við 1 til 2 sekúndna gildi, en 2-4 sekúndna á öðrum stöðvum. Listanum er raðað eftir 10-mínútna hámörkunum - mesti vindhraði efstur - en síðan koll af kolli. Þeir sem vilja geta afritað listann yfir í töflureikni og raðað að vild.
Á myndinni má sjá að það var kl. 17 sem flestar stöðvar náðu hámarki sínu í veðrinu. Bæði var snerpan í veðrinu sennilega mest þá, en auk þess fór það þá yfir stöðvaþéttasta svæði landsins. Enn var að hvessa á fáeinum stöðvum um miðnættið. Fylgjast má með framrás veðursins með því að rýna listann í viðhenginu.
Myndin hér að ofan sýnir af hvaða átt veðrið var þegar vindhraði var mestur á stöðvunum. Sjá má að vinsælasta vindáttin var 190 gráður eða rétt vestan við hásuður. Tíðnin er ekki samhverf um þá átt heldur eru vestlægu áttirnar heldur algengari en þær austlægu.
Áhugasamir geta líka dundað sér við að sjá hvaða vindátt var verst á hverri stöð. Það er fróðlegur lestur. Einnig má reikna hviðuhlutfall, hlutfallið milli mestu vindhviðu og mesta meðalvinds. Af þeim stöðvum þar sem mesti vindur náði 20 m/s var Grundarfjörður með langhæsta hviðuhlutfallið, 2,54 en hæst var hviðuhlutfallið á Vattarnesi 2,74. Algengustu gildin eru í kringum 1,3 til 1,4. Lægst var hlutfallið við Sátu - veðurstöð norðan Hofsjökuls.
10.4.2011 | 23:23
Illviðrið í dag (10. apríl 2011)
Lægðin snarpa sem hungurdiskar fjölluðu um í gær olli svo sannarlega usla um landið vestanvert nú síðdegis og í kvöld (sunnudaginn 10. apríl 2011). Lægðir af þessari ætt koma sjaldan við sögu hér á landi í apríl. Norðan- og norðaustanveður eru þá mun algengari. En sé litið á söguna má þó finna allmörg dæmi. Við bíðum með það. En lítum nú á þrjár myndir.
Sú fyrsta sýnir þrýstigreiningu hirlam-líkansins frá því kl.18. Ekki er annað að sjá en að hún falli vel að raunveruleikanum. Þetta líkan spáði veðrinu vel strax í gær. Almennt má segja að tölvuspánum hafi tekist vel til að þessu sinni. Margir dagar eru síðan illviðrið kom fyrst fram sem möguleiki í spánum en síðan gekk úr og í með snerpu þess. Það er eðlilegt sérstaklega vegna þess að lægðin var ekki mjög stór um sig. Hefði lægðin farið aðeins aðra leið hefðum við ekki svo orðið vör við hörkuna í henni.
Greiningin setur lægðina skammt vestur af Snæfellsnesi kl. 18, 965 hPa í lægðarmiðju (af brunni Veðurstofunnar). Vel sést hversu kröpp lægðin er og að þrýstilínurnar austan við hana eru gríðarlega þéttar. Þar sýna vindörvarnar mest um 30 m/s sýnist mér. Í þeirri tölu er búið að reikna með þeim helstu þáttum sem hafa eiga áhrif á vindhraðann. Það eru þrýstibrattinn, núningur við jörð, sveigja þrýstilínanna og hraði og stefna lægðarmiðjunnar.
Hungurdiskar hafa fjallað um samband vinds og þrýstibratta, en lítið hefur verið minnst á hin atriðin þrjú. Að þeim kemur vonandi síðar en geta má þess að núningur hægir á vindi og snýr vindáttinni til lægri þrýstings, lægðasveigt þrýstisvið dregur úr vindi (miðað við þrýstibratta) og sé lægðin hraðskreið hefur vindur tilhneigingu til að verða meiri hægra megin við hreyfistefnu lægðarinnar. Áður en tölvuspár fóru að geta vindhraða sérstaklega þurftu veðurfræðingar að taka tillit til allra þessara þátta þegar vindi og vindátt var spáð.
Við skulum líta á bút úr Íslandsþrýstigreiningunni (af vef Veðurstofunnar) á sama tíma og kortið hér að ofan gildir.
Ég biðst afsökunar á því hversu loðin myndin er. Hér eru jafnþrýstilínur dregnar fyrir hvert hPa. Gömul hjálparregla veðurfræðinga er sú að telja fjölda þrýstilína yfir eitt landfræðilegt breiddarstig og áætla þrýstivind út frá því. Fyrir þrjátíu árum, þegar ég var í spánum, hafði maður þessar talningar í hendinni en nú eru tölvuspárnar búnar að spilla henni svo að grípa þarf til þess að hugsa við mælinguna.
Rauða línan á kortinu sýnir lengd eins breiddarstigs og við talningu kemur í ljós að hún spannar 12 þrýstilínur. Það þýðir að þrýstivindurinn er 120 hnútar eða um 60 m/s. Þá tölu notar maður til að áætla mestu vindhviður. Síðan margfaldar maður 60 m/s með 0,7 (70%) til að fá hámarksvind yfir sjó. Útkoman er um 40 m/s. Það er kannski vel í lagt í þessu tilviki því ekki hefur verið reiknað með sveigju þrýstisviðsins. Mesti vindur yfir landi er gjarnan talinn 50% af reiknuðum þrýstivindi. Í þessu tilviki væri hann þá um 30 m/s.
Mesti 10-mínútna meðalvindhraði á Keflavíkurflugvelli í veðrinu var 30,1 m/s og 31,2 m/s á Garðskagavita. Mesta vindhviða dagsins sem ég hef enn frétt af mældist 55,5 m/s á Miðfitjahól á Skarðsheiði. Af þessu má sjá að gömlu þumalfingursreglurnar standa vel fyrir sínu í þessu tilviki. Ég kíki betur á vindhraðatölur á morgun eftir að ég hef komist í gagnagrunn Veðurstofunnar.
Síðasta myndin í dag er tekin af gervihnetti rétt fyrir kl. 15 í dag.
Örin sem merkt er með tölustafnum 1 sýnir þurru rifuna sem fjallað var um hér á hungurdiskum í gær. Ýmsir munu hafa tekið eftir því þegar hún birtist í dag. Skil fóru yfir með gríðarlegum vatnsgangi uppúr kl. 13 hér á höfuðborgarsvæðinu, þá snerist aðeins á áttinni og öll háský hreinsuðust burt á augabragði. Í þurru rifunni hefur mjög hlýtt og þurrt loft að ofan náð að blandast neðra lofti. Á myndinni má sjá að hér hefur það náð að hringa sig umhverfis lægðarmiðjuna og mynda einskonar hlýjan kjarna í lægðinni og eykur afl hennar að mun.
Bláu örvarnar (2) benda á þau svæði í lægðinni þar sem vindhraði er langmestur. Sumir kalla þessi svæði ýmist snúð, brodd eða afturbeygð skil lægðarinnar. Ég kýs fyrri nöfnin tvö frekar heldur en það síðasta. Mér finnst það orðalag villandi - en smekkurinn er misjafn og ég hef engin dómararéttindi.
Þriðja örin bendir á mikla bylgju, sennilega svokallað straumstökk. Það einkennist af dökku svæði (þar sem sér til jarðar) og mjög skörpum jaðri á fannhvítum háskýjum. Oftast tengjast straumstökkin miklum fjallabylgjum en sjást víðar. Form af þessu tagi sjást mjög oft yfir landinu og ættu áhugasamir lesendur að gefa þeim gaum.
Vísindi og fræði | Breytt 11.4.2011 kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.11.): 36
- Sl. sólarhring: 429
- Sl. viku: 2398
- Frá upphafi: 2410700
Annað
- Innlit í dag: 29
- Innlit sl. viku: 2112
- Gestir í dag: 29
- IP-tölur í dag: 29
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010