Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Nærri 10 ár frá ámóta köldum mánuði?

Reyndar er alltof snemmt ennþá að fullyrða um meðalhita í desember - en fyrri hlutinn hefur verið óvenjukaldur - sá kaldasti í Reykjavík síðan í desember 1950 (það er staðan í augnablikinu). Á Akureyri hefur núverandi desember aðeins vinninginn í kulda miðað við 1950.

Ef kuldinn helst verður spurt hversu langt er síðan ámóta kalt hefur verið í einhverjum mánuði. Til að meta það er tvennt til ráða. Annars vegar er að athuga vik frá meðalhita mánaðar og bera saman alla mánuði. Það truflar samanburð þann samanburð að vik á vetrum eru mun stærri heldur en að sumarlagi. Hægt er að fela þetta aðeins með því að leiðrétta fyrir árstíðabundnum breytileika. Hér er það gert með því að reikna staðalvik hitans í hverjum mánuði yfir langt tímabil og nota það til leiðréttingar. Staðalvik að sumarlagi er innan við helmingur þess sem er í vetrarmánuðunum.

Hér að neðan er mynd sem sýnir niðurstöður slíkra reikninga. Á hana er settur litakvarði. Ef rýnt er í myndina má sjá að dökkrautt sýnir þá mánuði sem hitinn hefur verið meira en 1,8 staðalvik ofan við meðallag. Dökkblátt sýnir þá mánuði sem hafa verið 1,8 staðalvik eða meira undir meðallagi. Mörk ljósari lita eru sett við 0,9 staðalvik.

w-blogg161211

Til gamans hefur núlíðandi desember verið settur í dökkbláa flokkinn. En alls ekki er víst að hann nái því að verða svo kaldur. Taflan sýnir að dökkblátt hefur ekki sést á sveimi síðan í febrúar 2002 - fyrir nærri 10 árum. Þar áður gerðist það í nóvember 1996. Síðan kemur milliblár litur aðeins tvisvar fyrir á nýju öldinni, síðast í október 2008, fyrir rétt rúmum þremur árum. Enginn mánuður ársins 2011 hefur verið undir meðallagi í Reykjavík til þessa nema mars.

Greinilega sést hvernig sumarið hefur staðið sig betur í hlýindum á tímabilinu sem hér er til umfjöllunar heldur en aðrir árstímar, dökkrauðu blettirnir eru mjög áberandi. Febrúar er oft bláleitur og október bregður til beggja átta. Ekki er mikla reglu að sjá á myndinni - ekki einu sinni ef maður tekur ofan gleraugun.


Miðstykkið úr hlýindaskeiðinu mikla - veðrafar síðustu áratuga (9)

Nú lítum við á miðstykkið úr hlýindaskeiðinu mikla um og fyrir miðbik 20. aldar. Áður höfum við litið á aðdraganda og fyrsta hluta þess. [Til að finna þá umfjöllun má leita að „veðrafar“ í leitarreitnum á síðunni - hin sérviskulega orðmynd „veðrafar“ er notuð til að auðvelda leit].

Á árunum 1929 til 1941 höfðu fjórar stórar hlýindabylgjur gengið yfir landið, það var 1929, 1933, 1939 og 1941. Í þremur þeirra komst 12-mánaða meðalhiti í Reykjavík yfir 6 stig og sú fjórða (1933) er enn ósigruð hvað methlýindi varðar á Norðausturlandi. Á öldinni nýju hafa tvær hlýindabylgjur þegar náð 6 stiga markinu. Á myndinni sjáum við 12-mánaða keðjumeðaltöl hita í Reykjavík á árunum 1941 til 1953. Fyrsti punktur lengst til vinstri á við tímabilið febrúar 1940 til janúar 1941, en sá síðasti við janúar til desember 1953. Ártölin eru merkt þar sem meðaltölin eiga við hrein ár.

w-blogg151211

Reykjavíkurhitinn er táknaður með bláum punktum og línu, kvarðinn er til vinstri á myndinni. Rauða línan og punktarnir eiga við hæð 500 hPa-flatarins yfir Íslandi fyrir sömu tímabil, kvarðinn er til hægri og er mælt í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Græna línan sýnir meðalhita áranna 1961 til 1990.

Við sjáum að hitinn á þessu tímabili ræðst talsvert af hæð 500 hPa-flatarins. Í fyrri pistlum höfum við séð að hiti hér á landi ræðst mest af tveimur þáttum. Annars vegar hæð 500 hPa-flatarins og hins vegar styrk sunnanáttarinnar. Ísland er langoftast í sunnanáttinni austan við mikinn bylgjudal (lægðardrag) í vestanvindabeltinu og vestan við veikan hæðarhrygg yfir Bretlandseyjum og Skandinavíu. Hlýjast verður hér á landi þegar bylgjan öll (lægðardrag og hryggur) hnikast lítillega til vesturs frá venjulegri stöðu. Þá verður 500 hPa-hæðin meiri en venjulega og hæðarbeygja nær undirtökum í sunnanáttinni. Þar með er sunnanáttin af austlægari uppruna heldur en annars.

Árið 2010 gerðist það hins vegar að miðja hryggjarins lenti rétt vestan við land. Það þýddi að sunnanáttar naut ekki. Þó var mjög hlýtt á Íslandi og fádæma hlýtt á Grænlandi - hlýindi hryggjarins ná aðeins austur fyrir fald hans. Fari hryggurinn enn vestar - það er sárasjaldgæft - blasir norðankuldinn við hér á landi.

En víkjum aftur að árabilinu 1941 til 1953. Við sjáum tvær hitabylgjur. Sú fyrri er sú sama og kölluð var númer fjögur hér að ofan. Á eftir henni fylgdu nærri þrjú kaldari ár. Þau voru þó ekki kaldari en svo að hiti var ofan við meðaltalið 1961 til 1990 nær allan tímann (græna línan á myndinni). Árið 1943 (þegar 500 hPa-flöturinn var hvað lægstur) var illviðra- og umhleypingasamt og meira að segja kom nokkur hafís upp að Norðurlandi.

En aftur hlýnaði og fimmta hlýindabylgja hlýskeiðsins mikla gekk í garð. Hún stóð þó ekki nema í rúmt ár. Freistandi er að halda því fram að frá og með 1948 (jafnvel 1947) hafi mestu hlýindin verið gengin hjá. Alla vega fækkaði nú hlýjum sumrum miðað við það sem verið hafði í tvo áratugi. Þótt hlýtt hafi verið í stöku sumri síðar var það ekki fyrr en á þessari öld sem þau náðu þeim gæðum sem voru algeng á fyrri hluta hlýskeiðsins. Þarna fór ársmeðalhitinn lítillega niður fyrir meðaltalið 1961 til 1990.

Árið 1949 var mjög umhleypingasamt og tíð ekki sérlega hagstæð og árin fram til 1952 litlu betri. Hér sýnum við ekki sunnanáttina á þessu tímabili en hún var allmikil 1949 en vegna þess að 500 hPa-flöturinn var mjög lágur bar hún vestrænt loft til landsins (í lægðarbeygju frá Kanada) í stað þess suðræna árin á undan. Það gerðist síðan það merkilega 1950 til 1952 að mikið dró úr sunnanátt og 1952 er eitt minnsta sunnanáttarár síðari tíma ásamt 2010.

En hlýskeiðinu var ekki lokið og verður vonandi fjallað um síðasta þriðjung þess síðar.


Í skammdeginu miðju (er ekki mikið um sólskin)

Pistill dagsins er hluti pistlaraðar um mesta mældan sólskinsstundafjölda í Reykjavík og á Akureyri. Myndin sýnir hámarkssólskinsstundafjölda sem mælst hefur á hverjum degi í desember í Reykjavík og á Akureyri. Árin sem notuð eru til viðmiðunar eru 88 í Reykjavík, frá 1923 til 2010, en 60 á Akureyri. Þar byrjar röðin sem miðað er við 1951. Sólskinsstundamælingar hófust á Akureyri 1925 en fáein ár á stangli vantar inn í röðina. Auk þess eru daglegar mælingar ekki aðgengilegar á stafrænu formi nema frá 1951.

w-blogg141211a

Lárétti ásinn sýnir daga desembermánaðar, en sá lóðrétti klukkustundir. Fyrstu daga mánaðarins er hámarkssólskinsstundafjöldi um fjórar stundir í Reykjavík en innan við ein á Akureyri. Ætli við verðum ekki að trúa því að þessa daga hafi sólin skinið nánast allan þann tíma sem mögulegur er.

Í þessum mánuði skiptir miklu máli hvar er mælt á þessum stöðum. Sólskin hefur ekki markað sig á mæliblöð á Akureyri eftir þann 9. en þann dag hafa mest mælst 0,4 stundir (um 20 mínútur). Lágmarkið í Reykjavík er flatt, í kringum þrjár stundir í fimm til sex daga sitt hvoru megin við sólstöðurnar. Á þessari mynd er lágmarkið þann 11. 2,7 stundir. Við viljum þó trúa því að síðar meir muni fleiri stundir mælast þann dag og þann 12.

Þótt sólskinsstundafjöldi hafi verið mældur í Reykjavík allt frá 1923 er ekkert dægurmetanna 31 í desember frá tímabilinu fyrir 1946, en síðarnefnda árið voru mælingar fluttar úr miðbænum upp að Sjómannaskóla. Þar virðist hafa fengist hreinni sjóndeildarhringur - hús hafa skyggt á í miðbænum þannig að munar um 20 mínútum næst sólstöðunum. Meðalsólskinsstundafjöldi var einnig minni í desember heldur en síðar. Önnur skýring er hugsanleg. Mengun var miklu meiri á lygnum heiðskírum dögum á þessum tíma heldur en síðar varð. Mikill kolareykur lá þá stundum yfir bænum og spillti skyggni. Á Akureyri sést þessi munur á milli staða varla - dreifing þeirra fáu daga þegar sólskin mælist á Akureyri virðist vera nokkuð tilviljanakennd á mæliskeiðinu. Enn er auglýst eftir þeim stað á Akureyri þar sem sólargangur er lengstur.

En hversu margar gætu sólskinsstundirnar orðið í Reykjavík ef heiðskírt væri allan þann tíma sem sól er á lofti? Við förum nærri um það með því að leggja saman hámarkssólskinsstundafjölda hvers dags og fáum út 62,0 stundir. Rétt útkoma er reyndar aðeins hærri því eins og við sáum á myndinni vantar aðeins upp á að allir dagar hafi fengið að njóta sín. Á Akureyri er talan mjög lág, aðeins 4,8 stundir.

Flestar hafa sólskinsstundirnar í Reykjavík orðið 31,8. Það var í fyrra, í desember 2010. Þetta er rúmlega 50% af hugsanlegu hámarki, ekki slæmt það. Á Akureyri voru sólskinsstundirnar flestar í desember 1934, 3,1. Mjög algengt er að ekkert sólskin mælist á Akureyri í desember, það hefur gerst 50 sinnum í þeim 82 desembermánuðum sem við höfum upplýsingar um. Í Reykjavík hafa sólskinsstundir í desember fæstar orðið 0,7, það var 1943 (á mengunartímanum).

Ekki er oft alveg heiðskírt í Reykjavík heilan sólarhring, aðeins er vitað um slíkt einu sinni í desember síðustu 60 árin. Það var á annan í jólum 1978. Tvisvar vitum við um heiðskíra desemberdaga á Akureyri, þann 20. árið 1961 og þann 21. árið 1973.


Enn af kuldakastinu - samanburði haldið áfram

Kuldakastið verður auðvitað marktækara eftir því sem lengra líður - en hafa verður í huga að það hefur „hitt vel í mánuðinn“, það er þægilegt að reikna út meðaltal x-fyrstu daga mánaðarins og bera saman við fyrri tíma. Þægindin eru svo mikil að við sleppum því ekki að fara þannig að.

Í Reykjavík er staðan þannig að kuldinn nú er um það bil að komast „fram úr“ sama tímabili í desember 1936. Fyrstu 12 dagar mánaðarins hafa sumsé ekki orðið kaldari í Reykjavík síðan þá. Við eigum ekki á lager samfelldan lista meðalhita sólarhringsins í Reykjavík. Leynilistar hungurdiska geta þó náð lengra aftur - en aðeins með eyðum og/eða talsverðri ónákvæmni.

Meðalhiti fyrstu 12-dagana í desember 1917 er ekki við höndina en að þeirri eyðu slepptri virðist mega halda áfram allt aftur til desemberbyrjunar 1895 til að finna ámóta kulda og nú en þar rétt aftan við eru 1893 og 1892 sem virðast hafa verið kaldari - sérstaklega 1892.

Öllu samfelldari er hitalistinn úr Stykkishólmi en hann nær aftur til 1845, að vísu vantar desember 1919, en hann kemur varla við sögu í þessari keppni. Þegar hungurdiskar fjölluðu um stöðu kuldamála síðast, fyrir fimm dögum (pistill dagsettur 8. 12.) var desemberbyrjun nú í 17. sæti að neðan á listanum. Það kemur nokkuð á óvart, en núlíðandi desember hefur síðan aðeins færst til um tvö sæti, situr nú í því 15.

 ármeðalhiti
11887-7,53
21847-7,13
31893-6,17
41863-5,58
51892-5,40
61917-5,10
71856-5,02
81848-4,85
91904-4,61
101895-4,27
152011-3,73

Þetta eru samt allt nokkuð fornar tölur. Yngsta gildið kaldara en nú er frá 1917. Talsverðar breytingar hafa orðið á innbyrðis röð annarra ára á listanum og desemberbyrjun 1887 er efst en 1892 sem var í efsta sæti fyrir fimm dögum er kominn niður í 5. sæti.

En hvað með þetta „að hitta í mánuðinn“? Þótt fyrstu 12 dagar desember í ár séu þeir köldustu síðan 1917 er ekki þar með sagt að einhverjir aðrir 12 dagar desembermánaðar (í röð) hafi ekki verið kaldari en einmitt nú - kuldakastið hafi byrjað t.d. 5 dögum síðar.

Til að bregða ljósi á þetta skulum við muna töluna -3,73°C og athuga hversu mörg tilvik við finnum með lægri meðalhita en hana dagana 13. til 24. desember á sama árabili.

Á þeim lista lenti talan -3,78°C í 21. sæti og þar eru til þess að gera nýlegir desemberkaflar kaldari en nú. Árið 1982 gerði t.d. kuldakast sem er ámóta mikið og það sem nú hefur gengið yfir og nýjasta dæmið um ámóta eða kaldari kafla er frá desember 1993. Talsvert kaldara var 1981 og 1973. Enginn þessara síðasttöldu desembermánaða byrjaði með jafnköldu veðri og nú.

Svo er spurningin um hversu lengi kastið nú endist. Sumir myndu e.t.v. segja að það sé þegar búið - hiti var víða vel yfir frostmarki á landinu bæði í gær (sunnudag) og í dag (mánudag). En þar sem spáð er frekar köldu veðri næstu daga er rétt að halda vöku sinni í mánaðametingnum. Það er aldrei að vita hversu langt núlíðandi mánuður kemst á kuldanum. Ekkert vita hungurdiskar um það.

En fyrst haft var fyrir því að reikna meðalhita tveggja 12-daga tímabila var lítið mál að athuga fylgni hitabútanna. Hversu vel spá fyrstu 12-dagarnir í desember um hita næstu 12-daga? Svarið er einfalt: Hiti fyrstu 12 dagana segir ekkert um hita næstu 12 daga. 

Annars hefur hitafar á landinu í dag (mánudag) verið afskaplega skemmtilegt. Hiti hefur verið vel yfir frostmarki víða við strendur landsins en hörkufrost inn til landsins, t.d. var -11 stiga frost á Hvanneyri á miðnætti, en aðeins -1 stig á Hafnarmelum á sama tíma.


Afbrigðilegir desembermánuðir 2 (austan- og vestanáttir)

Við lítum í skyndi á desembermánuði þegar austan- og vestanáttir voru óvenju tíðar. Flokkunin er gerð eftir fimm aðferðum sem byggja á mismunandi gögnum.

1. Mismunur á loftþrýstingi sunnanlands og norðan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1881. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri norðanlands heldur en syðra séu austlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi austanáttin  verið. Þrýstingur er langoftast hærri norðanlands heldur en sunnan. Af þeim 130 desembermánuðum sem hér eru teknir til rannsóknar var þrýstingur hærri sunnanlands aðeins 14 sinnum.

En desember 1911 er mestur austanáttarmánaða. Úrkomusamt var austanlands - eins og við er að búast. En tíð var almennt talin góð og sömuleiðis var frekar hlýtt í veðri. Í öðru og þriðja sæti austanáttarmánaða eru jafnir desember 1965 og 1978. Tíðarfar í desember 1978 var talið óvenju hægstætt. Eldri veðurnörd muna vel hina gríðarlegu snjókomu sem gerði suðvestanlands síðustu tvo daga ársins. Við vissum auðvitað ekki að kuldaárið 1979 fór í hönd - enda eins gott að vita sem minnst um það. 

Vestanáttin var mest í desember 1975 - þá var fádæma umhleypingasamt. Lægðakerfin ruddust látlaust yfir landið oft með miklum hvassviðrum og stundum tjóni. Næstmest vestanátt var nærri 100 árum áður, í desember 1883. Þá var einnig mjög umhleypingasamt, snjólétt var syðra. Í þriðja sæti vestanáttarmánaða er desember 1926.

2. Styrkur átta eins og hann kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær aðeins aftur til 1949.

Desember 1985 skýst í efsta austanáttarsætið en 1978 og 1965 eru skammt undan. Vestanáttin var samkvæmt þessu máli langmest 1975 (auðvitað) en næstmest 1990 og 2004.

3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindathugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðaustan-, austan-, suðaustan- og sunnanátta lögð saman. Þá fæst heildartala austlægra átta. Þessi röð nær aftur til 1874. Vestanáttin er metin á sama hátt.

Hér nær desember 1876 efsta austanáttarsætinu, var ekki með í keppni undir liðum 1 og 2. Desember 1907 er í öðru sæti, 1934 í því þriðja og síðan koma kunningjarnir 1978 og 1965. Desember 1975 heldur fyrsta sæti í vestanáttakeppninni, 1925 (svo) og 1917 eru í öðru og þriðja sæti.

4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð.

Desember 1985 er mestur austanáttarmánaða, en síðan desember árið 2000 og 1978 í þriðja sæti. Allir þessir mánuðir hafa komist á lista í fyrrnefndum röðunum. Vestanáttin var langmest 1975 og þar á eftir koma 1926 og 1990. 

5. Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum.

Hér er austanáttin langmest í desember 1978 en síðan koma desember 1911 og 1934 (báðir nefndir áður). Vestanáttin var langmest í desember 1975 og síðan í desember 1926 og 1917.

Vestanátt er miklu algengari heldur en austanátt í háloftunum yfir Íslandi - öfugt við áttatíðni við jörð.

Enga langtímaleitni er að sjá í tíðni austan- og vestanátta í desember. 
 


Þar sem 486 hittir 534?

Fyrirsögnin kann að virðast óræð (í meira lagi) - en fasta lesendur hungurdiska grunar ef til vill hvað býr undir. Frekar hefði átt að orða þetta svo: Þar sem 500 hPa hæðin 486 dam á stefnumót við 500/1000 hPa-þykktina 534 dam verður til 940 hPa djúp lægð. Þetta er hins vegar of löng fyrirsögn - sú styttri gengur betur upp.

Hér á landi fer þrýstingur við sjávarmál niður fyrir 940 hPa á sjö ára fresti - eða þar um bil. Hvert ár er talið eitt tilvik þótt þetta hafi gerst oftar innan ársins. Mjög djúpar lægðir koma oft í klösum nokkrar í senn. Þrýstingur fer hins vegar niður fyrir 950 hPa í þremur árum af hverjum fimm.

Þrýstingur er mjög lágur þar sem hlýtt loft gengur inn undir mjög lág veðrahvörf. Hæð 500 hPa-flatarins fylgir hæð veðrahvarfanna nokkuð vel og þykktin milli 500 hPa og 1000 hPa flatanna er góður mælikvarði á það hversu hlýtt loftið er. Þegar 500 hPa hæðin er lág á stórum svæðum er gott lag fyrir djúpar lægðir. Aðstæður eru sérstaklega góðar þegar veðrahvörfin eru mjög lág þar sem ekki er langt í hlýtt loft (mikla þykkt).

Staðan er einmitt svona þessa dagana því 500 hPa-flöturinn er í lágri stöðu langt suður fyrir Ísland. Þar er mjög hlýr sjór vestan Írlands og ekki er langt í alvöruhlýsjó sunnan við 50. breiddargráðu. Ekki þarf mikið að stugga við því hlýja lofti til þess að það ryðjist norður í átt að veðrahvörfunum lágu.

Lægðirnar kröppu og djúpu sem plöguðu Færeyjar, Bretland og sunnanverð Norðurlönd að undanförnu eru allar afleiðingar af þessari stöðu og kuldarnir hér á landi eru samfara lágum veðrahvörfum (það eru kuldar hins vegar ekki alltaf).

En aftur að fyrirsögninni. Næsta lægð sem kemur að Bretlandi úr vestri á að ná niður fyrir 945 hPa, sé að marka spár er það einmitt 486 sem á að hitta 534. En alls ekki er víst að stefnumótið verði svo vel heppnað - en við verðum að fylgjast vel með. Síðan er enn ólíklegra stefnumóti spáð við Skotland á aðfaranótt föstudagsins, þar á 548 dam þykkt að hitta 486 dam hæðina. Vill einhver reikna út hversu djúpa lægð það stefnumót getur af sér? Já, sennilega er rétt að efast um þessa spá -  en ætli við þurfum samt ekki að fara að athuga Bretlandsmet í lágum loftþrýstingi?


Litið hátt í heiðhvolfið

Í tilefni glitskýjasýningar í dag (föstudaginn 9. desember) skulum við líta upp á við. Talið er að glitskýjamyndun þurfi afspyrnulágan hita, -80 stig eða lægra.

w-blogg101211a

Myndin sýnir hita (blár ferill, °C - neðri kvarði á myndinni) og vindhraða (rauður ferill, hnútar - efri kvarði myndar). Við jörð var hiti -6,3 stig. Hann fellur síðan ákveðið upp í um 4 kílómetra hæð en þar kemur hik á fallið. Þar eru hitahvörf - hiti hækkar lítillega með hæð. Þar ofan við fellur hann aftur að öðrum hitahvörfum í 11 km hæð. Þar eru veðrahvörfin. Hitafallið er minna þar ofan við, í heiðhvolfinu.

Mestan hluta ársins fellur hiti reyndar ekki neitt í neðst í heiðhvolfinu en hækkar frekar eftir því sem ofar dregur. Hér er því ekki að heilsa, hitinn heldur áfram að falla allt upp í 24 km hæð. Frostið fer í -80 stig í um 22 km hæð. Líklegast er því að glitskýin séu þar. Hugsanlegt er að þau hafi verið neðar ef mikill bylgjugangur hefur verið í neðri hluta heiðhvolfs. En við skulum ekki velta okkur upp úr því.

Vindhraðinn (rauði ferillinn) sýnir að í neðsta laginu er vindur á bilinu 15 til 25 hnútar, en vex síðan nokkuð snögglega í námunda við hitahvörfin og þar fyrir ofan. Hann nær hámarki nærri veðrahvörfunum og fer í 86 hnúta í kringum 10 km hæð. Eftir það helst hann svipaður upp í 20 km en vex síðan upp í hámark í 25 km þar sem hann er 104 hnútar.

Af þessu má ráða að mjög mikill bratti er á hæðarflötum í heiðhvolfinu. Við sjáum hann vel á næstu mynd. Hún er því miður tveggja daga gömul en það kemur ekki svo mjög að sök. Aðalatriðin eru svipuð og þau í dag.

w-blogg101211

Myndin er fengin af frábærri heiðhvolfsvefsíðu Andreas Dörnbrack. Þökk fyrir það. Greina má norðurskaut á miðri mynd en hún sýnir hæð 50 hPa flatarins og hita í honum yfir norðurhveli suður á 40°N á miðnætti aðfaranótt þess 8. Við sjáum hér hið gríðarmikla lægðasvæði sem á erlendum málum er kennt við heimskautanóttina (polar night vortex). Íslenskt nafn hefur ekki enn fest sig í sessi (enda hefur nær ekkert verið ritað um fyrirbrigðið á íslensku - hungurdiskar hafa þó nefnt það áður - að því er ritstjórann minnir).

Þessi lægð myndast á svæði sem er inni í jarðskugganum í mesta skammdeginu. Þar skín engin sól og engin inngeislun hitar ósonið og aðrar geislagleypnar sameindir með þeim afleiðingum að útgeislun nær undirtökum. Eins og lesendur hungurdiska vita falla hæðarfletir ofan við þegar loft kólnar. Tölurnar sem við sjáum eru hefðbundnir dekametrar háloftakorta, mér sýnist innsti hringurinn vera 1888 dekametrar = 18880 metrar. Hæð flatarins yfir Keflavík í dag var 19580 metrar. Í leynimetatöflum ritstjóra hungurdiska má sjá að þetta er óvenju lág staða flatarins,

Litirnir sýna hita, reyndar er kvarðinn í Kelvingráðum (K = °C-273). Kaldasta svæðið - yfir Norður-Grænlandi sýnist mér vera 192K, -81°C. Í háloftaathuguninni frá Keflavík í dag var hitinn í 50 hPa -76,5 stig.

Hvað eigum við eiginlega að kalla þessa stórmerku háloftalægð? Í íslensku getum við auðveldlega gripið til langyrða en þau eru ekki fögur þótt lýsandi séu: Skammdegisheiðhvolfslægðin? Í lengsta lagi - er það ekki?

En þessi lægð - hvað sem við svo köllum hana - er missterk og liggur misvel hringinn í kringum skautið. Hér hallar hún sér t.d. í átt til okkar. Hún endist líka mislengi. Heiðhvolfstrúarmenn segja hana hafa afgerandi áhrif á stöðu NAO-fyrirbrigðisins og myndun fyrirstöðuhæða niðri í veðrahvolfi. Hér verður ekki tekin afstaða til þeirra vangaveltna.

Það er hins vegar vitað að styrkur lægðarinnar hefur afgerandi áhrif á ósonbúskap heiðhvolfsins. Sé hún öflug - hiti mjög lágur - vaxa líkur á ósoneyðingu. Þau efnaferli sem við sögu koma eru afkastamest í mjög miklu frosti. Í ljós hefur komið að kuldinn merkir sig að nokkru með myndun glitskýja. Það að glitský myndist þýðir þó ekki endilega að ósoneyðing sé í gangi. Önnur heiðhvolfsský koma líka við sögu. Bíðum við - eru glitskýin ekki einu heiðhvolfsskýin? 

Hér er komið að smámunasemi sem skiptir litlu, enn er lag til að kalla öll heiðhvolfsský glitský á íslensku. En hvers eðlis voru t.d. hvítu skýjaböndin sem sáust rétt eftir sólarlag á Suðvesturlandi í dag (föstudag)? Litlaus glitský? Eða var þetta kannski einhver óværa í veðrahvörfunum? Er einhver óværa þar á sveimi? 

Það skal tekið fram að glitský sjást ekki á nóttunni - aðeins kvölds og morgna og líka yfir miðjan daginn þar sem sól er mjög lágt á lofti, t.d. norðanlands. Það eru silfurský sem sjást á nóttunni, síðsumars - ekki má rugla þessum tveimur ólíku skýjategundum saman.


Afbrigðilegir desembermánuðir 1

Hungurdiskar taka í dag hvíld frá kuldakastinu sem enn plagar stóran hluta landsins. Við víkjum þó fljótlega aftur að veðurstöðunni því mikill atgangur verður á Atlantshafinu næstu viku - þó að mestu sunnan við okkur. Spár eru þó afskaplega óstöðugar - við verðum því að bíða nánari frétta.  

Á undanförnum mánuðum hafa hungurdiskar reynt að búa til lista yfir þá mánuði sem hafa skorið sig úr hvað tíðni vindátta varðar. Niðurstöður hafa verið birtar í tveimur pistlum hvern mánuð. Nú er litið á sunnan- og norðanáttadesembermánuði. Síðar kemur að austan- og vestanáttunum. Flokkunin er gerð eftir fimm aðferðum sem byggja á mismunandi gögnum.

1. Mismunur á loftþrýstingi austanlands og vestan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1881. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri vestanlands heldur en eystra séu norðlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi norðanáttin verið.

Að þessu máli er desember 1916 mesti norðanáttarmánuðurinn. Hann var líka býsna kaldur. Þessi eftirmæli fær hann í hnotskurn: Þurrviðrasöm og lengst af góð tíð sv-lands, en harðari með nokkrum snjó na-lands. Kalt. Mestan sprett átti kuldinn dagana 10. til 23. Næstmesti norðanáttardesember kom 1925. Tíð var þá talin hagstæð nema á Norðausturlandi, kalt var í veðri. Nær okkur í tíma er desember 1973 - hann er í þriðja sæti.

Sunnanáttin var mest í desember 1953. Ritstjórinn man hann ekki - en man þó að einum til tveimur áratugum síðar lifði minning hans enn fyrir óvenjumikla umhleypinga og illviðri. Í öðru og þriðja sæti eru desember 1881 og 1896. Þeir fengu ekki slæma dóma þrátt fyrir umhleypinga.

2. Styrkur átta eins og hann kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær aðeins aftur til 1949.

Norðanáttin var mest á þessu tímabili í desember árið 2000. Tíð var talin hagstæð og góðviðrasöm. Í öðru sæti er desember 1981 og desember 2009 í því þriðja. Desember 1973 er í sjöunda sæti. Sunnanáttin var mest 1953 og næstmest 1991.

3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindathugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðvestan, norðan, norðaustan og austanáttar lögð saman. Þá fæst heildartala norðlægra átta. Þessi röð nær aftur til 1874. Sunnanáttin er metin á sama hátt.

Hér er norðanáttin mest 1916 - hún hefur greinilega verið óvenju mikil í þeim mánuði. Í öðru sæti er desember árið 2000 og desember 1985 í þriðja sæti. Sunnanáttin var mest 1953 og síðan eru 1890 og 1932 í öðru sæti.

4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð.

Enn er 1916 langmestur norðanáttardesembermánaða, 1925 er í öðru sæti og 1950 í því þriðja. Mikil norðanillviðri gerði í desember 1950. Sunnanáttin er mest í desember 1890 - síðan kemur 1933 og 1953 þar á eftir.

5. Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum. Hér er desember 1878 mestur norðanáttarmánaða og desember í fyrra, 2010 næstefstur. Í þessum tveimur mánuðum var loftþrýstingur einstaklega hár. Skýjahula hefur aldrei verið jafnlítil eða minni í desember í Stykkishólmi frá 1873 til okkar daga eins og 1878. Heiðskírt var á öllum athugunartímum frá jóladagskvöldi til áramóta og fleiri heiðskírir dagar voru fyrr í mánuðinum - en það var ansi napurt.

Sunnanáttin í 500 hPa var mest í desember 1953 og þar á eftir koma desember 1933 og 2007.

Ætli við segjum sunnanáttina ekki mesta 1953 og að mesta norðanáttin hafi verið 1916.


Af kuldakeppninni

Eins og margoft hefur komið fram í miðlum undanfarna daga hefur byrjun desember verið óvenjuköld, kuldarnir byrjuðu næstsíðasta dag nóvembermánaðar. Af einhverjum (tilviljanakenndum?) ástæðum hafa kaldar desemberbyrjanir ekki verið í tísku um langa hríð. Reyndar hafa kuldaköst ekki verið mörg síðari árin, hvorki í desember né öðrum mánuðum.

Aðeins ein desemberbyrjun síðustu 60 ára hefur verið kaldari í Reykjavík - það var 1961. Nú þegar er ljóst að hún dettur aftur úr - jafnvel strax á morgun (fimmtudag 8. desember). Þá er að fást við desember 1936. Hann er mun þrekmeiri, þá héldust kuldar allt fram yfir sólstöður. Kaldasti desember 20. aldar var mun lengur að taka við sér og kom ekki inn í keppnina fyrr en um miðjan mánuð.

Á Akureyri er fyrsta vika desember nú sú langkaldasta síðustu 60 árin, 2,5 stigum kaldari heldur en desemberbyrjunin 1961. Þar var mjög kalt í desember 1936 eins og í Reykjavík, m.a. fór frostið niður í -20,8 stig þann þriðja. Ég hef ekki athugað lægsta lágmark á stöðvunum þremur á Akureyri í þessari syrpu nú (Lögreglustöðin, Krossanesbraut og Akureyrarflugvöllur).

Röðin sem sýnir hita í Stykkishólmi kl. 9 á hverjum morgni 1873 til 2011 og kl. 8 1845 til 1872 er þægileg til samanburðar mjög langs tíma. Hiti fyrstu 7 dagana nú er þar í 17. sæti að neðan talið. Köldustu 10 eru:

 árhiti 7-daga
11892-6,33
21887-5,91
31936-5,81
41847-5,61
51895-5,53
61914-5,41
71856-5,33
81863-5,19
91885-4,99
101854-4,77
172011-4,01

Í Stykkishólmi er desember 1973 sá þriðji kaldasti sé meðalhitinn reiknaður á þennan hátt. Á 7-daga listanum er hann í 83. sæti og er þar með í hlýrri hluta töflunnar (mjög hlýtt var fyrstu þrjá dagana). Eftir 12 fyrstu daga desember verður hann kominn upp í 55. sætið og upp í níunda sætið þann 20. Eftir 12 fyrstu daga desember er 1936 í 15. sæti, en hækkar sig aftur og er í 10. sæti eftir 20 fyrstu dagana. Hann endaði svo í 18. sæti. Hvar skyldi desember 2011 lenda?

Allt þetta minnir mjög á langhlaup. Lítið er að marka röð keppenda í maraþonhlaupi eftir 10 kílómetra (7 daga af 31).

Enn er spáð heldur hlýnandi veðri um helgina - en engin hlýindi eru enn í kortunum. Aftur á móti er miklum illviðrum spáð á Bretlandseyjum og í Vestur-Evrópu á næstunni. Vaktbloggari dönsku veðurstofunnar orðaði þetta skemmtilega í morgun (miðvikudag - af dmi.dk):

„Det er med lidt skrækblandet interesse meteorologer i skrivende stund ser frem til fredagen“. [Veðurfræðingar líta til föstudagsins með óttablöndnum áhuga].


Bragðbreyting síðar í vikunni?

Þótt en sjáist ekki fyrir endann á kuldakastinu er samt útlit fyrir að það mildist umtalsvert undir helgina. Við lítum nú á forsendur þessarar breytingar eins og þær birtast á tveimur háloftakortum frá evrópureiknimiðstöðinni. Það fyrra sýnir ástandið í dag, þriðjudaginn 6. desember en það síðara gildir tveimur dögum síðar, á fimmtudaginn 8.

w-blogg071211a

Kortið er klippt út úr norðurhvelskorti eins og þeim sem hungurdiskar halda upp á og sýna oft. Fastir lesendur kannast nú við táknmálið. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð.

Gríðarleg vindröst liggur um Atlantshafið þvert og er svo bein að riðalægðir ná sér ekki á strik. En á því verður breyting næstu daga. Takið eftir því að yfir Íslandi og Grænlandi er vestanátt í háloftunum. Þessi vestanátt er svo köld hún sér Grænland illa - liggur nánast beint yfir það. Engar bylgjur er að sjá sunnan við röstina, allt til Texas - nema háloftalægðina langt suður af Nýfundnalandi. Hún á að hörfa enn lengra til suðurs næstu daga. Óllíklegt er því að hlýtt loft að sunnan sveigi röstina til norðurs - að svo komnu máli.

En yfir Kanadísku heimskautaeyjunum er öflugur kuldapollur á leið til suðausturs í átt að Hudsonflóa. Hann virðist ætla að setjast þar að næstu daga. Við að þrýstast til suðurs vekur hann hæðarhrygg (þar sem græn sporaskja hefur verið sett á kortið) og ryður síðan hryggnum til austurs í átt að Suður-Grænlandi. Takið þó sérstaklega eftir því að þessi nýi hæðarhryggur nær ekki suður í aðalröstina - hann skefur aðeins norðan úr henni. Hann nær þó í það mikið efni að á fimmtudaginn sést hann miklu betur.

w-blogg071211b

Hér að ofan er spá um hæð 500 hPa flötinn á fimmtudaginn. Hér á að taka eftir nokkrum atriðum.

(i)  5460 metra línan (sem er nærri norðurbrún hlýloftsins) hefur ekki færst mikið frá fyrra korti. það eru þó komnar smábylgjur á hana - þær berast hratt til austurs en aflaga línuna ekki mikið.

(ii) hryggurinn er orðinn býsna áberandi yfir Grænlandi og hefur framrás hans orðið til þess að vindur í háloftum er að snúast til norðurs á Íslandi (en er nú vestlægur). Það þýðir að kalt loft sturtast suður yfir landið. Því er aftur spáð harðnandi frosti - í bili - meðan kaldasta lofti fer suðuraf.

(iii) Þessi snúningur á áttinni úr vestri í norður hefur orðið til þess að áberandi bylgja - hæfilega löng fyrir dýpkandi lægð hefur náð sér á strik vestan Skotlands. Þar verður á fimmtudaginn sannkölluð hrunalægð - á að dýpka um 40 hPa á sólarhring. Lægðin ræðst á Skotland og hugsanlega einnig Suður-Noreg og Danmörku - hún mun einnig valda hárri sjávarstöðu víða við Norðursjó. Eina huggunin fyrir lönd þessi er að lægðin á að grynnast fremur fljótt aftur.

Hæðarhryggurinn á síðan að yfirskjóta sem kalla má - en spár eru þó ekki alveg sammála um það atriði. Það fellst í því (ef af verður) að hann fellur aftur fyrir sig og myndar litla fyrirstöðuhæð fyrir norðan Ísland. Ef það gerist hindrast framrás lægða yfir landið - og allar fara til austurs fyrir sunnan land. En þó er mun hlýrra loft í þeirri austan og norðanátt heldur en er núna og fram á fimmtudag. Þessi þróun hryggjarins er þó harla óljós og spár langt í frá sammála. En það er talsvert mikill munur á 10 stiga frosti og hita um frostmark.

Það er merkilegt hvernig frekar lítil hreyfing kuldapolls yfir Viktoríueyju getur valdið fárviðri í Skotlandi. En svona er nú veðrið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg250125d
  • w-blogg250125c
  • w-blogg250125b
  • w-blogg250125a
  • w-blogg220125id

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.1.): 7
  • Sl. sólarhring: 124
  • Sl. viku: 2121
  • Frá upphafi: 2436942

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 1938
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband