Miðstykkið úr hlýindaskeiðinu mikla - veðrafar síðustu áratuga (9)

Nú lítum við á miðstykkið úr hlýindaskeiðinu mikla um og fyrir miðbik 20. aldar. Áður höfum við litið á aðdraganda og fyrsta hluta þess. [Til að finna þá umfjöllun má leita að „veðrafar“ í leitarreitnum á síðunni - hin sérviskulega orðmynd „veðrafar“ er notuð til að auðvelda leit].

Á árunum 1929 til 1941 höfðu fjórar stórar hlýindabylgjur gengið yfir landið, það var 1929, 1933, 1939 og 1941. Í þremur þeirra komst 12-mánaða meðalhiti í Reykjavík yfir 6 stig og sú fjórða (1933) er enn ósigruð hvað methlýindi varðar á Norðausturlandi. Á öldinni nýju hafa tvær hlýindabylgjur þegar náð 6 stiga markinu. Á myndinni sjáum við 12-mánaða keðjumeðaltöl hita í Reykjavík á árunum 1941 til 1953. Fyrsti punktur lengst til vinstri á við tímabilið febrúar 1940 til janúar 1941, en sá síðasti við janúar til desember 1953. Ártölin eru merkt þar sem meðaltölin eiga við hrein ár.

w-blogg151211

Reykjavíkurhitinn er táknaður með bláum punktum og línu, kvarðinn er til vinstri á myndinni. Rauða línan og punktarnir eiga við hæð 500 hPa-flatarins yfir Íslandi fyrir sömu tímabil, kvarðinn er til hægri og er mælt í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Græna línan sýnir meðalhita áranna 1961 til 1990.

Við sjáum að hitinn á þessu tímabili ræðst talsvert af hæð 500 hPa-flatarins. Í fyrri pistlum höfum við séð að hiti hér á landi ræðst mest af tveimur þáttum. Annars vegar hæð 500 hPa-flatarins og hins vegar styrk sunnanáttarinnar. Ísland er langoftast í sunnanáttinni austan við mikinn bylgjudal (lægðardrag) í vestanvindabeltinu og vestan við veikan hæðarhrygg yfir Bretlandseyjum og Skandinavíu. Hlýjast verður hér á landi þegar bylgjan öll (lægðardrag og hryggur) hnikast lítillega til vesturs frá venjulegri stöðu. Þá verður 500 hPa-hæðin meiri en venjulega og hæðarbeygja nær undirtökum í sunnanáttinni. Þar með er sunnanáttin af austlægari uppruna heldur en annars.

Árið 2010 gerðist það hins vegar að miðja hryggjarins lenti rétt vestan við land. Það þýddi að sunnanáttar naut ekki. Þó var mjög hlýtt á Íslandi og fádæma hlýtt á Grænlandi - hlýindi hryggjarins ná aðeins austur fyrir fald hans. Fari hryggurinn enn vestar - það er sárasjaldgæft - blasir norðankuldinn við hér á landi.

En víkjum aftur að árabilinu 1941 til 1953. Við sjáum tvær hitabylgjur. Sú fyrri er sú sama og kölluð var númer fjögur hér að ofan. Á eftir henni fylgdu nærri þrjú kaldari ár. Þau voru þó ekki kaldari en svo að hiti var ofan við meðaltalið 1961 til 1990 nær allan tímann (græna línan á myndinni). Árið 1943 (þegar 500 hPa-flöturinn var hvað lægstur) var illviðra- og umhleypingasamt og meira að segja kom nokkur hafís upp að Norðurlandi.

En aftur hlýnaði og fimmta hlýindabylgja hlýskeiðsins mikla gekk í garð. Hún stóð þó ekki nema í rúmt ár. Freistandi er að halda því fram að frá og með 1948 (jafnvel 1947) hafi mestu hlýindin verið gengin hjá. Alla vega fækkaði nú hlýjum sumrum miðað við það sem verið hafði í tvo áratugi. Þótt hlýtt hafi verið í stöku sumri síðar var það ekki fyrr en á þessari öld sem þau náðu þeim gæðum sem voru algeng á fyrri hluta hlýskeiðsins. Þarna fór ársmeðalhitinn lítillega niður fyrir meðaltalið 1961 til 1990.

Árið 1949 var mjög umhleypingasamt og tíð ekki sérlega hagstæð og árin fram til 1952 litlu betri. Hér sýnum við ekki sunnanáttina á þessu tímabili en hún var allmikil 1949 en vegna þess að 500 hPa-flöturinn var mjög lágur bar hún vestrænt loft til landsins (í lægðarbeygju frá Kanada) í stað þess suðræna árin á undan. Það gerðist síðan það merkilega 1950 til 1952 að mikið dró úr sunnanátt og 1952 er eitt minnsta sunnanáttarár síðari tíma ásamt 2010.

En hlýskeiðinu var ekki lokið og verður vonandi fjallað um síðasta þriðjung þess síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sæll Trausti.

 Hvernig var staðan á El Nino á 4. áratug síðustu aldar?

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.12.2011 kl. 03:24

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Mjög öflugur El Nino átti sér stað á árunum 1940 og 1941 og allöflugur 1932.

Trausti Jónsson, 16.12.2011 kl. 01:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 14
  • Sl. sólarhring: 151
  • Sl. viku: 1763
  • Frá upphafi: 2348641

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 1544
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband