Í skammdeginu miðju (er ekki mikið um sólskin)

Pistill dagsins er hluti pistlaraðar um mesta mældan sólskinsstundafjölda í Reykjavík og á Akureyri. Myndin sýnir hámarkssólskinsstundafjölda sem mælst hefur á hverjum degi í desember í Reykjavík og á Akureyri. Árin sem notuð eru til viðmiðunar eru 88 í Reykjavík, frá 1923 til 2010, en 60 á Akureyri. Þar byrjar röðin sem miðað er við 1951. Sólskinsstundamælingar hófust á Akureyri 1925 en fáein ár á stangli vantar inn í röðina. Auk þess eru daglegar mælingar ekki aðgengilegar á stafrænu formi nema frá 1951.

w-blogg141211a

Lárétti ásinn sýnir daga desembermánaðar, en sá lóðrétti klukkustundir. Fyrstu daga mánaðarins er hámarkssólskinsstundafjöldi um fjórar stundir í Reykjavík en innan við ein á Akureyri. Ætli við verðum ekki að trúa því að þessa daga hafi sólin skinið nánast allan þann tíma sem mögulegur er.

Í þessum mánuði skiptir miklu máli hvar er mælt á þessum stöðum. Sólskin hefur ekki markað sig á mæliblöð á Akureyri eftir þann 9. en þann dag hafa mest mælst 0,4 stundir (um 20 mínútur). Lágmarkið í Reykjavík er flatt, í kringum þrjár stundir í fimm til sex daga sitt hvoru megin við sólstöðurnar. Á þessari mynd er lágmarkið þann 11. 2,7 stundir. Við viljum þó trúa því að síðar meir muni fleiri stundir mælast þann dag og þann 12.

Þótt sólskinsstundafjöldi hafi verið mældur í Reykjavík allt frá 1923 er ekkert dægurmetanna 31 í desember frá tímabilinu fyrir 1946, en síðarnefnda árið voru mælingar fluttar úr miðbænum upp að Sjómannaskóla. Þar virðist hafa fengist hreinni sjóndeildarhringur - hús hafa skyggt á í miðbænum þannig að munar um 20 mínútum næst sólstöðunum. Meðalsólskinsstundafjöldi var einnig minni í desember heldur en síðar. Önnur skýring er hugsanleg. Mengun var miklu meiri á lygnum heiðskírum dögum á þessum tíma heldur en síðar varð. Mikill kolareykur lá þá stundum yfir bænum og spillti skyggni. Á Akureyri sést þessi munur á milli staða varla - dreifing þeirra fáu daga þegar sólskin mælist á Akureyri virðist vera nokkuð tilviljanakennd á mæliskeiðinu. Enn er auglýst eftir þeim stað á Akureyri þar sem sólargangur er lengstur.

En hversu margar gætu sólskinsstundirnar orðið í Reykjavík ef heiðskírt væri allan þann tíma sem sól er á lofti? Við förum nærri um það með því að leggja saman hámarkssólskinsstundafjölda hvers dags og fáum út 62,0 stundir. Rétt útkoma er reyndar aðeins hærri því eins og við sáum á myndinni vantar aðeins upp á að allir dagar hafi fengið að njóta sín. Á Akureyri er talan mjög lág, aðeins 4,8 stundir.

Flestar hafa sólskinsstundirnar í Reykjavík orðið 31,8. Það var í fyrra, í desember 2010. Þetta er rúmlega 50% af hugsanlegu hámarki, ekki slæmt það. Á Akureyri voru sólskinsstundirnar flestar í desember 1934, 3,1. Mjög algengt er að ekkert sólskin mælist á Akureyri í desember, það hefur gerst 50 sinnum í þeim 82 desembermánuðum sem við höfum upplýsingar um. Í Reykjavík hafa sólskinsstundir í desember fæstar orðið 0,7, það var 1943 (á mengunartímanum).

Ekki er oft alveg heiðskírt í Reykjavík heilan sólarhring, aðeins er vitað um slíkt einu sinni í desember síðustu 60 árin. Það var á annan í jólum 1978. Tvisvar vitum við um heiðskíra desemberdaga á Akureyri, þann 20. árið 1961 og þann 21. árið 1973.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11
 • w-1945v
 • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (24.5.): 32
 • Sl. sólarhring: 83
 • Sl. viku: 1500
 • Frá upphafi: 2356105

Annað

 • Innlit í dag: 32
 • Innlit sl. viku: 1405
 • Gestir í dag: 32
 • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband