Afbrigðilegir desembermánuðir 2 (austan- og vestanáttir)

Við lítum í skyndi á desembermánuði þegar austan- og vestanáttir voru óvenju tíðar. Flokkunin er gerð eftir fimm aðferðum sem byggja á mismunandi gögnum.

1. Mismunur á loftþrýstingi sunnanlands og norðan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1881. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri norðanlands heldur en syðra séu austlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi austanáttin  verið. Þrýstingur er langoftast hærri norðanlands heldur en sunnan. Af þeim 130 desembermánuðum sem hér eru teknir til rannsóknar var þrýstingur hærri sunnanlands aðeins 14 sinnum.

En desember 1911 er mestur austanáttarmánaða. Úrkomusamt var austanlands - eins og við er að búast. En tíð var almennt talin góð og sömuleiðis var frekar hlýtt í veðri. Í öðru og þriðja sæti austanáttarmánaða eru jafnir desember 1965 og 1978. Tíðarfar í desember 1978 var talið óvenju hægstætt. Eldri veðurnörd muna vel hina gríðarlegu snjókomu sem gerði suðvestanlands síðustu tvo daga ársins. Við vissum auðvitað ekki að kuldaárið 1979 fór í hönd - enda eins gott að vita sem minnst um það. 

Vestanáttin var mest í desember 1975 - þá var fádæma umhleypingasamt. Lægðakerfin ruddust látlaust yfir landið oft með miklum hvassviðrum og stundum tjóni. Næstmest vestanátt var nærri 100 árum áður, í desember 1883. Þá var einnig mjög umhleypingasamt, snjólétt var syðra. Í þriðja sæti vestanáttarmánaða er desember 1926.

2. Styrkur átta eins og hann kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær aðeins aftur til 1949.

Desember 1985 skýst í efsta austanáttarsætið en 1978 og 1965 eru skammt undan. Vestanáttin var samkvæmt þessu máli langmest 1975 (auðvitað) en næstmest 1990 og 2004.

3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindathugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðaustan-, austan-, suðaustan- og sunnanátta lögð saman. Þá fæst heildartala austlægra átta. Þessi röð nær aftur til 1874. Vestanáttin er metin á sama hátt.

Hér nær desember 1876 efsta austanáttarsætinu, var ekki með í keppni undir liðum 1 og 2. Desember 1907 er í öðru sæti, 1934 í því þriðja og síðan koma kunningjarnir 1978 og 1965. Desember 1975 heldur fyrsta sæti í vestanáttakeppninni, 1925 (svo) og 1917 eru í öðru og þriðja sæti.

4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð.

Desember 1985 er mestur austanáttarmánaða, en síðan desember árið 2000 og 1978 í þriðja sæti. Allir þessir mánuðir hafa komist á lista í fyrrnefndum röðunum. Vestanáttin var langmest 1975 og þar á eftir koma 1926 og 1990. 

5. Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum.

Hér er austanáttin langmest í desember 1978 en síðan koma desember 1911 og 1934 (báðir nefndir áður). Vestanáttin var langmest í desember 1975 og síðan í desember 1926 og 1917.

Vestanátt er miklu algengari heldur en austanátt í háloftunum yfir Íslandi - öfugt við áttatíðni við jörð.

Enga langtímaleitni er að sjá í tíðni austan- og vestanátta í desember. 
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 157
  • Sl. sólarhring: 273
  • Sl. viku: 1731
  • Frá upphafi: 2350358

Annað

  • Innlit í dag: 96
  • Innlit sl. viku: 1545
  • Gestir í dag: 92
  • IP-tölur í dag: 91

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband