Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Hversu mikið kuldakast?

Eftir að venju fremur kalt (eða hlýtt) hefur verið á landinu í nokkra daga vex áhugi á samanburði veðurs í fortíð og nútíð. Það er eðlilegur áhugi en sannleikurinn er sá að samanburður er oft ekki auðveldur. Þótt sambærileg köst komi hitta þau auðvitað ekki alltaf á sömu mánaðardagana. Því lengra sem kastið er því auðveldari verður samanburðurinn. Núverandi kuldakast er ekki orðið nægilega langt til þess að það skeri sig greinilega úr fjöldanum í fortíðinni. En það telst nú samt ekki alveg venjulegt.

Lausleg könnun bendir til þess að ámóta köst geri í desember á 8 til 10 ára fresti. Sé hins vegar miðað við fyrstu vikuna eingöngu er kastið óvenjulegra. Hægt er að gera samanburð af þessu tagi á nokkra vegu.

Einfaldast er að reikna meðalhita fyrstu 5 daga desembermánaðar og bera saman aftur í tímann. Síðustu 60 árin (lítil óvissa í samanburði) hafa þessir 5 dagar aðeins einu sinni verið kaldari í Reykjavík, það var í desember 1961. Á Akureyri er engin desemberbyrjun á þessu tímabili kaldari heldur en nú.

Hægt er að ná samanburði í Reykjavík lengra aftur (slæðing af árum fyrir 1920 vantar þó í samanburðinn og hann er stundum ekki alveg á jafnréttisgrundvelli). Þá kemur í ljós að mun kaldara var í byrjun desember 1892 og 1936 og nokkru kaldara 1885, 1887, 1891 og 1895. Flest tilvikin eru sem sagt á 19. öld - á alræmdu kuldaskeiði. Dæmið frá 1936 er hins vegar úr hlýindaskeiðinu mikla á árunum 1920 til 1965. Þetta er e.t.v. gott dæmi um að kuldaköst eru algeng á köldum skeiðum, en mestu hlýskeið eru alls ekki ónæm fyrir þeim.

Samanburður af þessu tagi er ekki alveg sanngjarn fyrir stutt tímabil því í öðrum árum geta hafa komið ámóta eða kaldari kaflar sem ekki hitta á sömu daga. Sanngirnin verður meiri eftir því sem dögunum fjölgar. Ég hef gert gróflega talningu á ámóta köflum í desember. Þá kemur í ljós að síðasta vika nóvember 1965 var ámóta köld og síðastliðnir 7 dagar (til og með 5. desember).

Nokkrar ámóta kaldar vikur eru í öðrum desembermánuðum síðustu 60 ára - en seinna í mánuðinum. Það þýðir að búast má við svona kafla einhvern tíma í desember á 8 til 10 ára fresti. Sé leyft að hiti fari rétt yfir frostmark einn dag inni í frostakafla fjölgar köflunum nokkuð. Reyndar fór hiti í +0,1 stig í Reykjavík 2. desember (síðastliðinn föstudag), þannig að frostakaflinn „okkar“ nú er ekki alveg tandurhreinn eða syndlaus (þótt við höfum látið svo) - fyrri köflum var ekki veittur slíkur afsláttur þegar leitað var.

Mikil kuldaköst eru líkleg til þess að skila mörgum kuldametum. Fjölmörk desemberlágmarksmet einstakra stöðva hafa þegar fallið í þessu kasti en einkum á stöðvum sem ekki hafa athugað lengi. Við getum gert þau mál upp þegar kastinu er lokið (eða það lengra komið). Aðrir veðurbloggarar gætu þó komið með fréttir af slíku áður - en spáð er áframhaldandi kulda.

En til að menn hafi eitthvað að bíta þangað til er rétt að láta lista yfir lægsta lágmark á einstökum veðurstöðvum í desember fylgja í viðhengi. Listinn nær til 2010 - ný met eru ekki á listanum en sjá má að þau eru allnokkur. Í þetta sinn er listinn fjórskiptur. Fyrst koma allar sjálfvirkar stöðvar (líka stöðvar Vegagerðarinnar) þeim er raðað eftir lægsta lágmarki. Vilji menn t.d. raða eftir stafrófsröð er bara að líma listann inn i töflureikni og velja röðun (sort) eftir því sem við á. Nú er lágmarksklukkustund nefnd í listanum og er það nýmæli. Það þýðir þó að fleiri endurtekningar (metajafnanir) eru fleiri í listanum en í þeim sem áður hafa birst á hungurdiskum.

Lægstu lágmörk á sjálfvirku stöðvunum (til 2010) eru þessi:

byrjarnær tilmetármetdagurmetklstmetstöðvarnafn
1997201020042318-30,6Setur
199320102004242-28,9Þúfuver
1996201020102223-28,6Mývatn
1993201019991813-28,2Veiðivatnahraun
2003201020102218-28,1Möðrudalur sjálfvirk stöð
2003201020102222-28,1Möðrudalur sjálfvirk stöð
2003201020102223-27,9Svartárkot sjálfvirk stöð
2003201020102224-27,9Svartárkot sjálfvirk stöð
200520102010228-27,7Brúarjökull B10
2005201020102212-27,7Brúarjökull B10
2005201020102216-27,7Brúarjökull B10

Ég held að svona lágar tölur hafi ekki enn sést í yfirstandandi kasti. Lægstu gildin eru úr Þorláksmessukastinu 2004 en síðan mörg úr skammvinnu kuldakasti rétt fyrir jól í fyrra (2010).

Neðan við þennan lista í viðhenginu kemur listi sem nær yfir skeytasafn í gagnagrunni Veðurstofunnar. Við sleppum honum hér (en sjá viðhengið), hann er efnislega mjög líkur þriðja listanum en hann nær til mannaðra stöðva á tímabilinu 1961 til 2010. Þar eru lægstu tölurnar:

stöðbyrjarnær tilmetármetdagurmetstöðvarnafn
49019612009199526-32,2Möðrudalur
49519612010199526-29,2Grímsstaðir
89219652003197719-28,5Hveravellir
46819612010199526-28,2Reykjahlíð
44919731977197719-27,5Sandbúðir
47319612010198825-26,8Staðarhóll
94519611982197422-26,8Þingvellir
54219691998198218-26,5Brú á Jökuldal I
46219612010199526-25,5Mýri
46219612010199527-25,5Mýri

Hér er annar í jólum 1995 áberandi og kaldur 19. árið 1977. Fyrir neðan þennan lista má sjá lægstu lágmörk á stöðvunum á árabilinu 1924 til 1960:

stöðbyrjarnær tilmetármetdagurmetstöðvarnafn
49019381960194921-31,5Möðrudalur
4951924196019363-29,5Grímsstaðir
46619241931192530-26,8Grænavatn
46819371960194921-25,0Reykjahlíð
3881935195419364-21,9Skriðuland
3011924193619364-21,6Kollsá í Hrútafirði
45219371960196024-21,3Sandur
4221929196019363-20,8Akureyri
31719381946194112-20,5Núpsdalstunga
94519371960195014-20,5Þingvellir

Hér er kastið 1936 sem lítilega var minnst á að ofan áberandi en aðeins fjórar stöðvar ná -25 stigum eða meira á öllu tímabilinu. Að lokum eru nokkur eldri lágmarksmet en sá listi er enn í vinnslu og kann að vera gloppóttur.

árdagurmetstöðvarnafn
19179-34,5Möðrudalur
191710-30,0Grímsstaðir á Fjöllum
191716-22,3Möðruvellir
191716-22,0Akureyri
191717-22,0Vífilsstaðir
188025-21,1Stykkishólmur
190627-21,0Holt í Önundarfirði
188018-20,4Grímsey
188018-18,8Teigarhorn
188026-18,7Reykjavík  

Hér má sjá Íslandsmet desembermánaðar -34,5 stig. Það er frá Möðrudal á Efra-fjalli (held ég að sagt hafi verið) 9. desember 1917. Lægsta lágmark Akureyrar (eftir 1881) er einnig úr sama mánuði - undanfara frostavetrarins 1918. Reykjavíkurlágmarkið er enn eldra, frá öðrum jóladegi 1880. Desember það ár var undanfari frostanna 1881. Skelfilegan byl gerði þá á landinu þriðja og fjórða jóladag og sá vart milli húsa í Reykjavík í heljarfrosti. Lægðin sú virðist hafa verið athyglisverð - endurgreiningin ameríska nær henni illa eins og flestum veðrum þessa dæmalausa frostavetrar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Af miklum háloftavindstreng sunnan við land

Við notum tækifærið og lítum á mikinn háloftavindstreng sunnan við land. Kortið sýnir hæð 300 hPa-flatarins ásamt vindhraða og vindátt mánudaginn 5. desember kl. 18 - eins og hirlam-líkanið segir til um. Vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum en sérstök áhersla er lögð á vindhraðann með því að sýna hann í mismunandi litum eftir því hversu sterkur hann er. Heildregnu línurnar sýna hæð 300 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam=10 metrar). Textinn hér að neðan er ekki sérlega aðgengilegur og er sem fyrr beðist velvirðingar á ósómanum. En það er ekki skylda að lesa hungurdiska.

w-blogg051211

Auk fastra merkinga hef ég sett inn nokkur áhersluatriði til viðbótar. Við lægðina yfir Norður-Grænlandi er hæð flatarins um 8140 metrar, en syðst á kortinu, vestur af Spáni, er hún rúmlega 9500 metrar, munar hér nærri 1,4 kílómetrum á hæstu og lægstu hæð flatarins. Það kann að virðast litið á 4000 kílómetra leið - en dugar samt til þess að búa til vindinn á milli sem nær meir en 330 km/klst (92 m/s) hraða þar sem hann er mestur.

Nú kemur tveggja málsgreina útúrdúr um orðanotkun - þeir sleppi þeim sem vilja.

Ég er hallur undir þá orðanotkun að tala um vindrastir þar sem vindur liggur í strengjum, hvort sem er háloftum eða lægra. Vindstrengur er þá aðeins almennari merkingar - við tölum varla um vindrastir við húshorn. Á háloftakortum sést að vindur leggst þar mjög í rastir sumar eru meira eða minna alltaf til staðar og hafa því fengið nöfn - ég nota nafnið heimskautaröst á þá sem á ensku nefnist polar jet stream. Þar er átt við röst sem hringar sig um mestallt norðurhvel (og önnur um suðurhvel). Vegna þess að heimskautarastirnar eru tvær ætti raunar að tala um heimskautaröst norðurhvels - en það er allt of langt - en síður vil ég tala um heimskautsröst.

En hvað um það. Heimskautaröstin er sjaldnast alveg samfelld - heldur er hún í bútum sem sveiflast út og suður í kringum lægðardrög og hæðarhryggi háloftanna. Innan hvers búts eru þröng svæði þar sem vindhraði er langmestur. Ég stel orðinu skotvindur sem nafni á þessi svæði. Þau hafa einnig verið nefnt rastarkjarni.

En aftur að myndinni. Við sjáum heimskautaröstina liggja nánast beint yfir Atlantshaf frá Labrador til Frakklands. Hún er reyndar aðeins stærri umfangs heldur en lituðu svæðin en að minnsta kosti svo stór. Sjá má að röstin fylgir jafnhæðarlínunum ekki alveg. Að þessu sinni munar þó ekki mjög miklu.

Af kortum sem sýna áframhaldandi þróun má sjá að svæðið þar sem skotvindurinn er snarpastur hreyfist til austurs með um 100 til 120 km hraða á klukkustund. Vindhraðinn er hins vegar miklu meiri, yfir 330 km/klst þar sem mest er. Þetta þýðir að skotvindssvæðið fylgir loftinu engan veginn eftir.

Sá bútur heimskautarastarinnar sem við sjáum á kortinu afmarkast af tveimur lægðardrögum austast og vestast á kortinu. Bláar strikalínur eru settar í miðjur þeirra endilangar. Á milli þeirra er veikur hæðarhryggur sem hér er merktur sem bogadregin rauð strikalína. Hryggurinn hreyfist austur. Óljóst er hvort hann slær tímabundið á smálægðamyndun sunnan og vestan við land.

Til að losna úr kuldanum sem ríkir nú hér á landi þarf hæðarhryggur að rísa upp úr heimskautaröstinni, helst fyrir austan okkur. Það gerir þessi hryggur ekki. Rétt sést í þann næsta efst til vinstri - margir dagar eru í að hann nái hingað til lands - sennilega 4 til 5 dagar. Stóru reiknimiðstöðvarnar eru mjög ósammála um ris hans - evrópureiknimiðstöðin segir hann gagnslítinn fyrir okkur en sú ameríska er mun bjartsýnni um norðurför hans.

Vestur-Evrópa er enn í skotlínu illviðra og verður það mestalla vikuna. Spár eru þó óræðar um það mál.


Kuldaframrás allt um kring

Í dag lítum við á spákort sem sýnir hita og vind í 850 hPa-fletinum yfir landinu og umhverfi þess sunnudaginn 4. desember kl 18. Kortið er fengið af flugveðurspásíðum vefs Veðurstofunnar.

w-blogg041211

Ég hef bætt nokkrum örvum og hringjum inn á kortið. Vindurinn er táknaður með hefðbundnum vindörvum sem sýna stefnu og styrk vindsins. Sterk norðvestanátt er bæði norðaustur af landinu sem og suðvestur í hafi. Norðaustanátt er á Grænlandssundi og óráðin átt á blettum suður og suðaustur af landinu. Vindörvarnar sýna að kalt aðstreymi er ríkjandi á meginhluta þess svæðis sem kortið sýnir. Það sjáum við með því að horfa á hornið á milli jafnhitalínanna (bláar strikalínur) og vindsins. Þar sem vindurinn liggur undir horni á jafnhitalínurnar frá kaldara svæði ýtir hann kalda loftinu áfram þannig að vegur þess vex.

Frostið er minnst við Skotland, þar má aðeins sjá í -5 stiga jafnhitalínuna. Gróf hjálparregla segir að sé frost meira en -5 stig í 850 hPa falli úrkoma líklega sem snjór niður undir sjávarmál. Þetta er þó ekki algilt og síst þar sem vindur blæs af hlýju hafi eða þar sem loft er sérlega vel blandað. Ekki er víst að það snjói við sjávarmál í Skotlandi - en örugglega á fjallvegum.

Eins og nefnt var að ofan leggst vindurinn í strengi á kortinu, Hvassastur er strengurinn fyrir suðvestan land þar sem vindi er spáð 25 m/s. Í hinum strengjunum er vindur á bilinu 15 til 20 m/s. Talsverður vindsniði er til beggja átta frá miðju strengjanna.

Það ætti að vera auðvelt að sjá að væru spaðahjól sett sitt hvoru megin vindstrengjanna myndu þau fara að snúast, í lægðahring (hægragrip) vinstra megin strengjanna, en í hæðarhring (vinstragrip) hægra megin. Hringirnir á kortinu og örvarnar í þeim eiga að sýna lægðahringina.

Það hlýtur því að teljast eðlilegt að lægðasveipir myndist vinstra megin strengjanna. Þetta er einna erfiðast í Grænlandssundi vegna þess hve farvegurinn er þröngur. Þess vegna er líklegast að sveipmyndun í þessari vindátt og vindstyrk hinkri aðeins þar til farvegurinn fer að víkka. (Lítil regla þó á því).

Svipað hagar til við suðurodda Grænlands, Hvarf. Þar kemur mikill vindstrengur oft úr vestri og þvingast þar í mjóa röst. Á ensku er fyrirbrigðið kallað tip jet, íslenskt nafn hefur ekki enn fest sig í sessi - kannski hornröst eða hvarfröst? Þegar loftið kemur lægðabeygjuþrungið fram hjá Hvarfi myndast gjarnan hvirflar út af ströndinni þar norður af.

Eftir að lægðasveipur hefur myndast og rifið sig lausan við upprunastaðinn fær hann valdið á nokkru svæði og hreyfist síðan gjarnan með vindum hærra uppi. Af því að aðstreymið er kalt vitum við að vindur snýst til lægri áttar með hæð - norðvestanátt verður vestlæg, austanátt norðaustlæg o.s.frv. Þegar kortið gildir er þvi líklegast að sveipir hreyfist til austurs á meginhluta svæðisins (nema í Grænlandssundi).

Undantekning er þó á hreyfifrelsi sveipanna í grennd við Íslandsstrendur. Það eru aðeins hæstu fjöll sem ná upp í 850 hPa flötinn, neðar ríkir sérstakt landloftslag. Þar kólnar loft stöðugt vegna neikvæðs geislunarjafnvægis í björtu veðri. Þetta loft streymir undan halla til sjávar og nýtt loft dregst niður í staðinn. Við vitum að niðurstreymi leysir upp ský og þar með heldur útgeislunarástandið sér sjálfkrafa við - það þarf vind og/eða öflug skýjakerfi til að breyta því. 

Kalda loftið af landi hefur hins vegar í för með sér að munur á hita lofts og sjávar verður meiri en ef landloftsins nyti ekki við. Loftið yfir hlýsjónum verður óstöðugt og éljaklakkar myndast. Losun dulvarma eykur lægðahringrás (allt of langt mál er að upplýsa hér og nú hvers vegna). Ekkert munar um einstaka klakka en þeir vilja leggjast í garða utan um áhrifasvæði landloftsins. Lægðasveipirnir myndast frekar í éljagörðunum en utan þeirra - sé um eitthvað val að ræða.

Hér hefur verið stiklað á stóru um stöðu sunnudagsins. Útlit er fyrir að svipað ástand haldist næstu daga. Sannleikurinn er hins vegar sá að mjög erfitt er að spá myndun einstakra lægðasveipa og segja fyrir um samskipti land- og sjávarlofts. Sú framför hefur þó orðið á síðustu árum að nákvæmustu tölvulíkön eru farin að sjá sveipina og mynda líka sveipi - þá e.t.v. ekki á réttum stað.

Í dag - laugardaginn 3. desember komust éljabakkar aðeins inn á landið vestanvert. Skýjafar var um stund mjög athyglisvert því loft var greinilega óstöðugt um stund ofan landloftsins og mátti sjá eins konar stýfða klakka. Meir um þá síðar gefist tilefni. Landloftið var mjög grunnt og lítt blandað, t.d. var -9 til -11 stiga frost á Hvanneyri, en ekki nema -5 til -7 í 480 metra hæð í Skarðsheiði. Hefði það loft komist alveg til jarðar hefði verið frostlítið í Borgarfirði.

Já, við sjáum að -20 stiga jafnhitalínan snertir Vestfirði á spákortinu. Hirlam líkanið var á árum áður alræmt fyrir að vera of kalt að neðan - hvort svo er ennþá veit ég ekki. En óvenjulegt er að þessi jafnhitalína snerti landið. Við getum litið betur á metkulda í þessari hæð ef þessi spá reynist rétt.  


Köldustu dagar desembermánaðar 1949 til 2010

í Tilefni af kuldanum þessa dagana er rétt að fara yfir köldustu desemberdaga síðustu áratuga. Hér er aðeins miðað við meðaltal stöðva í byggð.

Lægsti meðalhiti

ármándagur (°C)
19731217-13,42
19731218-12,90
19611228-12,68
20041223-11,86
19731213-11,72
19771219-11,57
19611227-11,32
19891220-11,32
19761231-11,29
19771218-11,15
19881224-10,95
19801218-10,86
19651226-10,82

Ekki er neinn dagur á listanum eftir 1989 nema Þorláksmessa árið 2004 (er virkilega svo langt síðan). Von að menn séu orðnir óvanir kuldum í desember. Efstu tvö sætin (það er varla hægt að segja verma) eru í höndum desember 1973 og einnig dagurinn í fimmta sæti. Það var eftirminnilegur mánuður. Sá sem skrifar kom einmitt heim í jólafrí frá Noregi þann 17. Þar sátu menn í hálfgerðu losti yfir olíukreppunni sem lamaði umferð og jafnvel húsahitun. Hér gætti olíukreppunnar ekki á þann hátt - verðið bara hækkaði. Bæði nóvember og desember 1973 voru mjög kaldir og ýttu undir hugmyndir um yfirvofandi ísöld. Fádæma illviðri plöguðu Vestur-Noreg og nýja olíuborpalla í Norðursjó. Mér er til efs að jafn hvassviðrasamir mánuðir hafi komið þar síðan - en ég veit það þó ekki.

Í þriðja sæti er óskaplega kaldur dagur milli jóla og nýjárs 1961. Einnig mjög eftirminnilegur í Borgarnesi. Þá sá ritstjórinn einmitt hungurdiska í fyrsta skipti um sína daga og gleymir þeirri sjón og frostreyknum mikla á firðinum ekki. Þá var -16,8 stiga frost í Reykjavík.

Þvínæst eru þeir dagar sem eiga lægstan meðallágmarkshita á landinu.

ármándagur (°C)
19731218-16,24
19771219-15,75
19731214-15,22
19611228-15,20
19741222-14,96
19731217-14,66
19611229-14,27
20041223-14,24
19691211-14,06
19891220-13,83
19761231-13,79
1949129-13,74

Hér er 18. desember 1973 í fyrsta sætinu, en sá 19. árið 1977 treður sér í annað sæti - en var í sjötta sæti meðalhitalistans. Þorláksmessa 2004 stendur sig enn best daga á nýju öldinni.

Í desember skiptir sólargangurinn nánast engu máli fyrir hitann. Á öðrum árstímum er hámarkshitinn oftast lægstur í hvössum norðanvindi. Listi yfir lægsta hámarkshita er því ekki mjög ólíkur hinum. En samt bregður þar fyrir öðrum dögum.

ármándagur (°C)
19731218-11,32
19611228-10,88
19771219-10,49
19761231-9,17
1967127-8,68
19651227-8,52
19891220-8,44
19881224-8,24
19681218-8,15
19951222-8,11
19951226-8,08
19651226-8,01
19661224-8,01

Enn er 18. desember 1973 í heiðurssætinu og sá 28. 1961 er nú í öðru sæti. Dagar frá nýrri öld sjást ekki. Þeir sem eru næst okkur í tíma sýndu sig um jólaleytið 1995, sá 22. og 26.

Fyrir þykktarnördin (þau eru vonandi orðin nokkur) er það 28. desember 1961 sem á minnstu þykktina í þeim punkti amerísku endurgreiningarinnar sem næstur liggur háloftastöðinni á Keflavíkurflugvelli. Hún var þá 4920 metrar. Dagarnir köldu 1973 eru skammt undan.

Hungurdiskar hafa einnig leitað uppi lægstu þykkt í fleiri punktum í námunda við Ísland og allra lægsta gildið er einnig frá sama degi 1961, 4882 metrar, á 66°N og 14°V. Greiningin nær aftur til 1871 - en við höfum ekki allt of mikla trú á þykktarmáli hennar á 19. öld - hvað metalista varðar.

Þá vitum við það. Síðar kemur listinn með lægstu lágmörkum veðurstöðvanna í desember. Spár gera ráð fyrir því að þykktin næstu daga eigi að fara niður fyrir 5000 metra norðantil á landinu, en það lægsta sem ég hef séð á spákortum næstu daga yfír Keflavíkurflugvelli er 5020 metrar - 100 metrum meira en hungurdiskadaginn 28. desember 1961 (hálf öld það).


Norðan meginrasta - eins og séð verður(?)

Hversu óvenjulegt er frostið nú? Hart frost í nokkra daga er ekki óvenjulegt á þessum árstíma, tíu daga harður frostakafli er frekar óvenjulegur. Við getum sett upp nokkur viðmið: Í Reykjavík er óvenjulegt að frost fari niður fyrir -13 stig. Í nágrannasveitum ýmsum innar í landi liggja mörk þess óvenjulega frekar við -17 til -20 stig. Á Akureyri gætum við sett mörkin við -17 til -20 stig og á landinu í heild þarf enginn að æsa sig þótt frost fari niður í -20 til -25 stig. Þrjátíu stig eru alltaf óvenjuleg.

Þessi pistill er skrifaður seint á fimmtudagskvöldi 1. desember. Enn er smávegis éljagangur suðvestanlands. Kaldasta loftið blandaðist víða en enn eimir eftir af því inn til landsins, t.d. á Suðurlandsundirlendinu þar sem hafa verið athyglisverðar hitasveiflur í dag - stöðvar hafa hrokkið inn og út úr þunnum kuldaskildi sem legið hefur yfir láglendinu án þess að blandast.

En á morgun fer mjög djúp lægð hratt til austurs fyrir sunnan land. Spár telja þó að landið sleppi að mestu við illviðrið sem henni fylgir - sem er verulegt. Það stefnir til Suður-Noregs. Hér á landi er það helst svæðið allra syðst á landinu sem gæti lent inni í skammvinnu austnorðaustanveðri með hríðarbyl. Rétt að huga að spám Veðurstofunnar þar um.

Landið er nú norðan allra meginrasta vestanvindabeltisins. Þar ríkir mikil flatneskja í háloftum og kuldapollarnir hættulegu sem vilja vera á sveimi á vetrum eru satt best að segja heldur linir miðað við það sem oftast er. Ekki virðist næstu daga heldur vera mikill áhugi hjá hlýjum hryggjum að skjóta sér norður á bóginn til móts við kuldapollana - að minnsta kosti ekki hér við norðanvert Atlantshaf. En til að sjá þetta betur lítum við á 500 hPa norðurhvelsspá sem gildir um hádegi á laugardag.

w-blogg021211a

Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð. Þau tíðindi hafa þau helst orðið frá því að hér var litið á þetta kort síðast að þunna rauða línan sem markar hæðina 5100 metra nær nú í kringum allt norðurskautssvæðið og liggur meira að segja sunnan við Ísland. Gríðarlegur vindstrengur er yfir Norður-Atlantshafi frá Nýfundnalandi til Bretlands og síðan austur um.

Lægðabylgjur berast hver á fætur annarri til austurs nærri þessum vindstreng og stefna á Vestur-Evrópu - en láta okkur í friði að mestu. Smávægilegar breytingar eru á stöðunni frá degi til dags en spár gera samt ráð fyrir því að ástandið haldist næstu viku. Ekki er nú víst að það gerist þótt spár helstu reiknimiðstöðva séu sammála um þetta. Strengurinn sem við sjáum nú nærri Hudsonflóa á þannig að hreyfast beint austur um haf án þess að byggja upp bylgju á undan sér.

Mikil hlýindi fylgja vestanáttinni langt austur um Evrópu - hlýindin eru því meiri eftir því sem austar og norðar dregur þar um slóðir. Einnig er óvenjuhlýtt í Kanada og Alaska þessa dagana. Ástandið í Síberíu er mjög óljóst eins og sjá má á kortinu. Þar er í aðalatriðum hlýtt - þótt þau hlýindi séu nú svona og svona - en varla sást meir en -40 stiga frost þar í dag nema í afdölum og uppsveitum. Kalt er í Miðausturlöndum og ekki sérlega hlýtt í Bandaríkjunum. Frost á veðurstöðvum Austur-Grænlands norðan við Ísland var ekki mikið meira í dag heldur en á Suðurlandsundirlendinu.

Sérstökum áhugamönnum - þeim sem nenna að skoða nýjar langtímaspár á 6 klukkustunda fresti allan sólarhringinn og þreytast kunna á læstri stöðu hér um slóðir - er nú bent á bylgjuna sem á kortinu er við Aljúteyjar. Reiknimiðstöðvarnar eru algjörlega ósammála um þróun hennar (það má nefnilega alltaf finna eitthvað spennandi, ágætu nörd).

Eftir að lægðin verður farin hjá á morgun (föstudag) lendum við í veðurlagi þegar hver smálægðin á fætur annarri myndast á Grænlandshafi og hreyfist síðan til austsuðausturs við landið eða sunnan við það. Ekkert hlýtt loft er í kringum þessar smálægðir - ekkert aðstreymi frá suðlægari slóðum heldur aðeins varminn frá kólnandi hafi. Lægðirnar myndast því ekki sem bylgjur á meginskilum eins og okkur er sagt að algengast sé. En hvernig þá? Ástæðurnar geta verið nokkrar - ef tölvurnar spýta út úr sér skýrum kortum næstu daga má e.t.v. reyna að upplýsa málið hér á hungurdiskum. Ekki er þó víst að af því verði.


Heldur kuldinn áfram?

Óvenju kalt er nú (miðvikudagskvöldið 30. nóvember) víða um land. Þegar betur er að gáð kemur í ljós að óvenjulegheitin eru bundin við frekar þunnt lag af lofti. Þannig hefur nú síðdegis verið hlýrra í Bláfjöllum heldur en niðri í Reykjavík og frostið á Skálafelli er „aðeins“ -11 stig - en meir en -20 á Þingvöllum þegar þetta er skrifað (milli kl. 23 og 24). Ekki er sérlega kalt á annesjum vestanlands og frostlaust er undir Eyjafjöllum.

Kalda loftið sem streymdi til landsins í gær hefur sums staðar fengið frið til að kólna enn frekar í heiðskíru og hægu veðri. Í nótt og í fyrramálið fer vind að hreyfa og jafnvel blæs hann þá af hafi. Með meiri vindi og hafátt hlýnar umtalsvert - þótt hláku sé varla að vænta.

Frostið á Þingvöllum í kvöld er mjög óvenjulegt, komst niður í -21,6 stig milli kl. 22 og 23 - og enn hefur vind ekki hreyft. Þetta er mesta frost sem vitað er um í nóvember á Þingvöllum - eða er enn nóvember? Mönnuð stöð á Þingvöllum hefði ekki fengið viðurkennt met sem sett er eftir kl. 18 síðasta dag mánaðarins. Aðeins er lesið af lágmarks- og hámarkshitamælum tvisvar á sólarhring og reglan er sú að tala á mæli telst ætíð til þess dags sem hún er lesin.

Sjálfvirkar stöðvar bóka hita hins vegar miklu oftar. Mánuðinum á sjálfvirku stöðinni á Þingvöllum lýkur ekki fyrr en með athugun kl. 24:00. Mest frost í nóvember á Þingvöllum til þessa eru -19,5 stig, 18. nóvember 2006. Mannaða stöðin sá mest jafnlága tölu þann 23. árið 1963. Margir muna daginn áður.

Ógrynni dægurmeta einstakra stöðva hefur verið sleginn í þessum mánuði. Fyrst hrúguðust hitametin upp og nú síðustu daga kuldametin. Flest þessara meta eru marklítil vegna þess hversu stutt stöðvarnar hafa athugað. En dægurmet fyrir landið allt eru merkilegri. Svo virðist sem tvö dægurhámarksmet hafi verið slegin í mánuðinum. Þau komu bæði úr fórum sjálfvirku veðurstöðvarinnar á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði. Hún hafði verið sambandslaus um hríð en átti samt góðan slatta af veðurathugunum á lager. Þær komu í hús þegar sambandi var komið á.

Milli kl. 3 og 4 aðfaranótt þess 8. fór hiti á stöðinni í 21,0 stig - það er landsmet fyrir daginn þann og meðal hæstu hámarka í nóvember. Mannaða stöðin sýndi á sama tíma 20,5 stig - líka met. Var gott að stöðvunum ber saman um þennan háa hita. Nýja metið er 2 stigum hærra heldur en það gamla. Hitt dægurmetið frá Skjaldþingsstöðum er 17,9 stig sett þann 15. Það er 2,7 stigum hærra heldur en eldra met þessa dags en það var sett í Hólum í Hornafirði 1956.

Kuldinn í kvöld á Þingvöllum og í dag í Svartárkoti er landsdægurmet 30. nóvember seinni áratuga (en langt frá nóvemberkuldameti Mývatns sem er -30,4 stig). En 30. nóvember 1893 fór frostið í Möðrudal niður í -25,7 stig. Sami dagur á læsta hita í nóvember í Reykjavík, -16,7 stig.

En heldur kuldinn áfram?

Þegar vind hreyfir dregur úr mesta frostinu. Þá blandast ískalt landloftið ívið hlýrra lofti ofan við. Það tekur sennilega lengstan tíma norðaustanlands. Lægðardrag morgundagsins og lægðin sem fer hér hjá á föstudag sjá um vindinn í hræruna. En síðan virðist staðan nærri því læst í eina viku - ef trúa má spám. Það kólnar aftur þegar vind hægir og aftur léttir til. Við getum vonandi litið betur á þessa stöðu einhvern næstu daga - ef spár reynast hafa rétt fyrir sér með þetta. Lægsta þykkt sem ég hef enn séð í spám fyrir næstu daga er 5020 metrar - á mánudaginn 5. desember.

Lægðir fara þá til austurs fyrir sunnan land og við sitjum í köldu heimskautalofti með éljabakka allt um kring. Þessi ákveðna staða er mjög óþægileg fyrir norðvestanvert meginland Evrópu. Það situr framan við gríðarmikla háloftaröst þar sem óráðnar lægðabylgjur æða til austurs - hótandi illum verkum - en gera ekki endilega neitt úr þeim. Á morgun fá Sogn og firðafylki og Sunnmæri í Noregi yfir sig enn eina gusuna og lægðin sem hér fer hjá á föstudaginn er ekki búin að taka nákvæmt mið.


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 120
  • Sl. sólarhring: 190
  • Sl. viku: 2362
  • Frá upphafi: 2348589

Annað

  • Innlit í dag: 106
  • Innlit sl. viku: 2069
  • Gestir í dag: 96
  • IP-tölur í dag: 96

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband