Bragðbreyting síðar í vikunni?

Þótt en sjáist ekki fyrir endann á kuldakastinu er samt útlit fyrir að það mildist umtalsvert undir helgina. Við lítum nú á forsendur þessarar breytingar eins og þær birtast á tveimur háloftakortum frá evrópureiknimiðstöðinni. Það fyrra sýnir ástandið í dag, þriðjudaginn 6. desember en það síðara gildir tveimur dögum síðar, á fimmtudaginn 8.

w-blogg071211a

Kortið er klippt út úr norðurhvelskorti eins og þeim sem hungurdiskar halda upp á og sýna oft. Fastir lesendur kannast nú við táknmálið. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð.

Gríðarleg vindröst liggur um Atlantshafið þvert og er svo bein að riðalægðir ná sér ekki á strik. En á því verður breyting næstu daga. Takið eftir því að yfir Íslandi og Grænlandi er vestanátt í háloftunum. Þessi vestanátt er svo köld hún sér Grænland illa - liggur nánast beint yfir það. Engar bylgjur er að sjá sunnan við röstina, allt til Texas - nema háloftalægðina langt suður af Nýfundnalandi. Hún á að hörfa enn lengra til suðurs næstu daga. Óllíklegt er því að hlýtt loft að sunnan sveigi röstina til norðurs - að svo komnu máli.

En yfir Kanadísku heimskautaeyjunum er öflugur kuldapollur á leið til suðausturs í átt að Hudsonflóa. Hann virðist ætla að setjast þar að næstu daga. Við að þrýstast til suðurs vekur hann hæðarhrygg (þar sem græn sporaskja hefur verið sett á kortið) og ryður síðan hryggnum til austurs í átt að Suður-Grænlandi. Takið þó sérstaklega eftir því að þessi nýi hæðarhryggur nær ekki suður í aðalröstina - hann skefur aðeins norðan úr henni. Hann nær þó í það mikið efni að á fimmtudaginn sést hann miklu betur.

w-blogg071211b

Hér að ofan er spá um hæð 500 hPa flötinn á fimmtudaginn. Hér á að taka eftir nokkrum atriðum.

(i)  5460 metra línan (sem er nærri norðurbrún hlýloftsins) hefur ekki færst mikið frá fyrra korti. það eru þó komnar smábylgjur á hana - þær berast hratt til austurs en aflaga línuna ekki mikið.

(ii) hryggurinn er orðinn býsna áberandi yfir Grænlandi og hefur framrás hans orðið til þess að vindur í háloftum er að snúast til norðurs á Íslandi (en er nú vestlægur). Það þýðir að kalt loft sturtast suður yfir landið. Því er aftur spáð harðnandi frosti - í bili - meðan kaldasta lofti fer suðuraf.

(iii) Þessi snúningur á áttinni úr vestri í norður hefur orðið til þess að áberandi bylgja - hæfilega löng fyrir dýpkandi lægð hefur náð sér á strik vestan Skotlands. Þar verður á fimmtudaginn sannkölluð hrunalægð - á að dýpka um 40 hPa á sólarhring. Lægðin ræðst á Skotland og hugsanlega einnig Suður-Noreg og Danmörku - hún mun einnig valda hárri sjávarstöðu víða við Norðursjó. Eina huggunin fyrir lönd þessi er að lægðin á að grynnast fremur fljótt aftur.

Hæðarhryggurinn á síðan að yfirskjóta sem kalla má - en spár eru þó ekki alveg sammála um það atriði. Það fellst í því (ef af verður) að hann fellur aftur fyrir sig og myndar litla fyrirstöðuhæð fyrir norðan Ísland. Ef það gerist hindrast framrás lægða yfir landið - og allar fara til austurs fyrir sunnan land. En þó er mun hlýrra loft í þeirri austan og norðanátt heldur en er núna og fram á fimmtudag. Þessi þróun hryggjarins er þó harla óljós og spár langt í frá sammála. En það er talsvert mikill munur á 10 stiga frosti og hita um frostmark.

Það er merkilegt hvernig frekar lítil hreyfing kuldapolls yfir Viktoríueyju getur valdið fárviðri í Skotlandi. En svona er nú veðrið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Merkilegt hvernig öll veður virðast byrja yfir N-Ameríku,sækja í sig veðrið á miðri leið og fjara út yfir N-Evrópu, svona með smá varíasjónum.  Jú,jú, snúningur jarðar veldur vestanvindi á norðurhveli og líklega sækja lægðirnar "fóður" í hafið. En er þá ekkert að gerast hjá bloggandi veðurkarli t.d. í Verkhojansk,(eða Khatanga)? Kanski eitthvað farið að fjörgast í Petropavlovsk og á Aleútaeyjum?

Er Ísland "staðurinn" fyrir veðurpælingar á n.hveli svona rétt eins og í jarðfræði?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 7.12.2011 kl. 13:04

2 identicon

.........þetta er að mörgu leyti rétt ( hef ég heyrt )  , að margar lægðir sem okkur

angra, fæðist yfir sléttunum miklu í N. Ameríku.  Svo koma líka lægðir með

fellibyljagen frá karabiska hafinu ,  en eru orðnar tannlausar - eða úr þeim mesti vindurinn , þegar ( og ef)

þær koma hér við sögu. Varðandi bloggskrif og atvinnumál veðurfræðinga austan

Atlantsála , þá voru þeir bara furðu iðnir við kolann þau 6 ár sem ég dvaldi í

Finnlandi , og eru þó staðviðri algengari þar - einkum á veturna.  En Ísland er

auðvitað á mjög veðrasömum stað á hnattkúlunni og þessar köldu smálægðir

sem geta fæðst án meðgöngu nærri Grænlandi,  eru afar viðsjárverðar og 

ill- útreiknanlegar.

óli Hilmar Briem Jónsson (IP-tala skráð) 7.12.2011 kl. 16:01

3 identicon

Svo má kanski ætla að þegar höfin fyrir norðan Ameríku "opnast" að þá lifni svæðið hressilega við með lægðamyndun.Hugsanlega yrði staðan þá stundum lík kortunum hér að ofan.  Meiri kuldatíð hér en óveður við Bretlandseyjar og svo upp með Skandinavíu.Væntanlega táknar meiri lægðagangur þó meiri umbrot í veðri fremur en kuldastillur.  Ekki myndi kuldinn minka við það ef golfstraumurinn færi af meiri krafti vestan við Grænland, hafi ísinn verið fyrirstaða.

Ja maður spyr sig ;-)

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 7.12.2011 kl. 20:56

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Bjarni Gunnlaugur og Óli Hilmar - Veður á okkar slóðum gerist innan langrar og að meðaltali fastrar bylgju í vestanvindabeltinu. Á vetrum nær þessi bylgja frá Klettafjöllum og austur til Skandinavíu og að nokkru leyti allt austur fyrir Úralfjöll. Yfir Kyrrahafinu er enn lengri bylgja sem nær frá miðri Síberíu austur um og allt til Klettafjalla. Til að komast frá einni meginbylgju til annarrar þurfa venjuleg lægðakerfi að fara yfir hryggina á milli eða skjótast í gegnum þá. Það er ekki auðvelt. Þótt fylgjast megi með lægðakerfum í gegnum þessar meginhindranir ganga þau oftast í gegnum endurnýjunarferli - þannig að tala má um nýmynduð kerfi eftir að skipulagi er komið á vestast í bylgjunum. Bloggarar í Austur-Síberíu hafa um nóg að tala, hitasveiflur eru þar miklu meiri en hér. Nú ganga þar mikil hlýindi. Í Vestur-Síberíu sprengja þau alla kvarða - frostlaust er austur fyrir Úral. Sjálfsagt fylgja því alls konar vandræði sem blogga má um mikið og lengi. Öllu kaldara er í Austur-Síberíu en hiti samt langt ofan meðallags, frost varla undir 40 stigum neins staðar í dag. Óvenjuleg hlýindi eru enn á Norður-Grænlandi og í Kanada nánast öllu. Ísland er þannig ekki endilega staðurinn. Veðrið er svo fullt af smáatriðum að um það má endalaust tala - alls staðar. - Ef ís minnkar í íshafinu fjölgar lægðum þar en hvaða afleiðingar það hefði hér á landi er mjög flókið mál.

Trausti Jónsson, 8.12.2011 kl. 00:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 19
  • Sl. sólarhring: 474
  • Sl. viku: 2261
  • Frá upphafi: 2348488

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 1980
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband