Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011
30.11.2011 | 00:31
Kuldalegt kort
Ætli spákortið hér að neðan sé ekki það kuldalegasta sem við höfum séð í haust. Hálfleiðinlegt er að sjá einn hlýjasta nóvember allra tíma lenda í þessu. En hann verður samt ofarlega á hitalistanum. Kortið gildir um hádegi miðvikudaginn 30. nóvember.
Svörtu, heildregnu línurnar sýna þykktina - eins og venjulega er hún tilfærð í dekametrum (1 dam=10 metrar). Því lægri sem talan er því kaldara er loftið í neðri hluta veðrahvolfs. Þegar mest var fyrr í mánuðinum komst þykktin yfir landinu upp fyrir 5500 metra, en línan sem á kortinu liggur yfir Vestfjörðum er 5040 metrar. Þarna munar 460 metrum - þumalfingursregla segir að 20 metrar í þykkt jafngildi 1°C. Það munar því um 23 stigum á hlýindunum og þeim kulda sem spáð er á kortinu.
Hiti við yfirborð jarðar er ekki jafnbundinn þykktarmálinu, sérstaklega er það í hægum vindi sem þykktin sér kulda nærri yfirborði alls ekki.
Ég hef merkt tvær háloftabylgjur gróflega á kortið og nota sömu merki og í pistlinum í gær. B2 er samfara krappri lægð sem fer til norðausturs og veldur illviðri í Vestur-Noregi nokkru síðar en kortið gildir. Grænu örvarnar eiga að tákna hreyfingu hverrar bylgju.
Bylgja sem merkt er B3 er miklu vægari og nær ekki í hlýtt loft svo teljandi sé. Ef við fylgjum 65. breiddarbaug til vesturs frá Íslandi, um það bil meðfram grænu örinni, sjáum við að á leiðinni hækkar þykktin í að bylgjutoppnum þó um 6 dam. Það eru 3°C. Bylgjan á eftir að rísa ívið meira en kortið sýnir þegar hún nálgast Ísland. Bylgjutoppurinn á að fara yfir Ísland á fimmtudag.
Bylgjunni fylgir éljabakki eða svæði með samfelldri snjókomu. Hversu mikið snjóar vita hungurdiskar ekki en spár hafa nefnt töluna 8 cm í Reykjavík (?). Hitabreyting verður meiri til landsins heldur en þau 3 stig sem hrá þykktarspáin nefnir því hafátt fylgir bakkanum. Frostið í landáttinni gæti hæglega verið 8 til 10 stig (meira inni í sveitum) en hiti í hafáttinni er ekki langt undir frostmarki.
Lituðu svæðin á kortinu sýna hita 850 hPa-fletinum (u.þ.b. 1300 metra hæð). Fjólublái liturinn yfir landinu táknar 16 til 18 stiga frost. Þar uppi á að hlýna um 6 stig samfara bylgjunni.
Græna örin lengst til vinstri á kortinu á að tákna hina gerðarlegu bylgju 4 sem hingað kemur á föstudag. Spár eru enn ósammála um tök hennar.
Þeir sem höfðu þrek til þess að lesa pistil gærdagsins til enda mega taka eftir því að á kortinu að ofan er þykktin yfir Grænlandi rétt við 5000 metra, en var 4860 metrar á kortinu sem notað var í gær. Reiknilíkan evrópureiknimiðstöðvarinnar fer greinilega öðrum (og raunhæfari) höndum um Grænlandsjökul heldur en það afbrigði hirlam-líkansins sem hungurdiskar oftast vísa til. Við jaðar jökulsins eru líkönin hins vegar mjög svipuð.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.11.2011 | 01:10
Háloftastaða þriðjudagsins - til fræðslu?
Við lítum á spá hirlam-líkansins um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina kl. 15 þriðjudaginn 29. nóvember. Fastir lesendur kannast við táknfræði kortsins en svörtu heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa flatarins í dekametrum og rauðu strikalínurnar tákna þykktina, hún er einnig mæld í dekametrum (dam = 10 metrar). Því meiri sem þykktin er - því hlýrra er loftið. Því þéttari sem svörtu hæðarlínurnar eru því hvassara er í 500 hPa-fletinum en hann er eins og kortið sýnir í 5 til 6 kílómetra hæð.
Mjög myndarleg lægð er fyrir norðaustan land. Vonandi verður heldur farið að draga úr illviðrinu hér á landi þegar tími kortsins rennur upp - alla vega segir þetta kort að svo muni vera. Nú skulum við rifja upp eftirfarandi: Til þess að vindur verði mikill við jörð þarf annað hvort mikinn hæðarbratta eða mikinn þykktarbratta - séu hvoru tveggja hlíðin brött - geta þeir eytt vindi hvors annars (eða aukið hann). Næsta málsgrein er frekar þungmelt - sleppið henni bara.
Í vesturjaðri lægðarinnar norðausturundan er mjög mikill þykktarbratti - en lítill hæðarbratti. Af þeirri staðreynd einni má ráða að vindur niður undir jörð sé mjög mikill. Í lægðarbylgjunni sem merkt er B1 (við Skotland) eru bæði hæðar- og þykktarlínur mjög þéttar - við eigum erfitt með að meta á andartaki hvort vindur við jörð sé mikill - eða ekki. Ekki er þó erfitt að reikna það út - en við gerum það ekki hér. Svipað er uppi á teningnum við bylgju sem merkt er B2. Þar eru bæði þykktar- og hæðarlínur þéttar. Við skulum þó taka eftir því að framan við bylgjuna eru þykktarlínur talsvert gisnari heldur en hæðarlínurnar. Við látum hjá líða að greiða úr þeirri flækju hér, það nægir í lærdómsatriði dagsins að taka eftir þessu.
Engar vindhraðamælingar eru á svæðinu milli Jan Mayen og Grænlands en þrýstibrattinn þar á milli á að vera um 40 hPa þegar kortið gildir. Þetta dugar í vindhraða sem er meir en 35 m/s - fárviðri. Ekki hef ég ölduspár í fingrunum en líklegt er að vindurinn æsi upp býsna mikla öldu á svæðinu.
Bylgja B1 veldur úrkomu og vindi í Vestur-Noregi á þriðjudag. Bylgja B2 ógnar Vestur-Noregi á fimmtudag (ansi ógnandi). Bylgja B3 nær sér illa upp (svífur til austurs rétt aftan við lágan öldufald hæðarhryggsins vestur af Grænlandi - sjá kortið), en á samt að gera vart við sig hér á landi á fimmtudag sem smálægð með úrkomubakka og strekkingsvindi. Rétt utan við kortið er svo B4 sem á að koma hér við sögu á föstudag. Stóru spálíkönin (evrópureiknimiðstöðin og bandaríska veðurstofan) gera mismikið úr henni. Evrópureiknimiðstöðin setur hana niður í um 955 hPa fyrir sunnan land - en sú ameríska niður undir 945 hPa á svipuðum slóðum. Báðar telja okkur þó sleppa furðuvel - en láta nágrannalöndin þjást.
Allt of snemmt er þó að segja til um þróun allra þessara lægða nema þeirrar sem fylgir B1.
Eitt atriði til viðbótar á kortinu: Þeir sem geta talið jafnþykktarlínurnar sjá að innsta línan yfir Grænlandsjökli er 4860 metrar. Þetta er hrikalega lág þykkt - en vegna þess að hún er yfir jöklinum er hún ekki raunveruleg - jökullinn er 2500 til 3000 metra hár og hæð 1000 hPa-flatarins sem nauðsynleg er til að reikna þykktina (á móti 500 hPa) er auðvitað ekki til - hún væri langt undir yfirborði jökulsins. Við lítum því frekar á þykktina við strendur Grænlands - austan og vestan megin til að sjá hita loftsins, 4920 og 4980 metra jafnhæðarlínurnar ná hvergi út fyrir jökulinn á þessu korti - nema alveg í norðurjaðri þess. Kuldaógnin hjá okkur er því helst sú að 5040 metra línan nái til landsins. Það er reyndar nokkuð slæmt - en meir um það síðar ef af verður.
28.11.2011 | 00:32
Upphaf tveggja hlýskeiða - veðrafar síðustu áratuga (8)
Við lítum nú á hitafar í Reykjavík á árunum 1927 til 1943 í samanburði við tímabilið 2001 til 2011.
Blái ferillinn sýnir 12-mánaða keðjumeðaltal hita í Reykjavík 1927 til 1943, en sá rauði 2001 til 2011. Fyrsti punktur á bláa ferlinum á við 12-mánaða tímabilið febrúar 1926 til janúar 1927, en fyrst á rauða ferlinum er tímabilið febrúar 2000 til janúar 2001. Í báðum tilvikum var búið að hlýna umtalsvert áður en upphaf myndarinnar sýnir, en alls ekki var orðið ljóst að um eitthvað óvenjulegt væri að ræða.
Flestir gerðu sér þó grein fyrir því veturinn 1928 til 1929 að eitthvað hefði gerst og svipað kom upp veturinn 2002 til 2003. Ekki er marktækur munur á hlýindum þessara ára þótt myndin sýni að 2002 til 2003 hafi gert sjónarmun betur.
Eftir hlýindin 1928 til 1929 datt hitinn nokkuð niður aftur. Þótt hér sýnist fallið vera mikið var það þó ekki meira en svo að kuldakaflinn 1930 til 1931 er ámóta hlýr og hlýjustu ár áratuganna á undan höfðu verið. Aftur hlýnaði 1932 og er árið 1933 enn það hlýjasta sem vitað er um á Norðurlandi. Síðan kólnaði heldur 1935 til 1937. Að því loknu komu tveir afarmiklir hitatoppar, 1939 og 1941, sá fyrri toppaði á 12-mánaða tímabilinu mars 1939 til febrúar 1940 en sá síðari í apríl 1941 til mars 1942. Þessir tveir toppar eru ekki marktækt lægri heldur en 2002 til 2003-toppurinn.
Það hlýindaskeið sem við nú lifum hefur verið miklu jafnara heldur en það fyrra. Hitinn hefur verið ofan við 5 stig nærri því allan tímann. Á árinu 2011 hefur hann verið heldur á niðurleið en síðasta 12-mánaða tímabilið á meðaltali 5,26°C.
Við sjáum að ekki er hægt að tala um að hlýskeiðinu sé lokið eða að hiksti sé í því fyrr en hitinn fer niður fyrir 4 stig í einhvern tíma. Þessi jafni hiti frá 2002 hefur verið með ólíkindum - líka miðað við hlýskeiðið á fjórða áratugnum.
Við lítum fljótlega á það hvað var á seyði í háloftunum á fyrsta hluta stóra tuttugustualdarhlýskeiðsins, fram til 1943.
Lægðin sem fór til austsuðausturs yfir Noreg í dag (sunnudag 27. nóvember) reyndist mjög skæð eins og hungurdiskar höfðu bent á. Það má þó ekki túlka það þannig að diskarnir hafi spáð veðrinu - svo er ekki - engar spár er hér að finna - en hins vegar er gjarnan malað um möguleika.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.11.2011 | 01:04
Á milli lægða
Við lítum á gervihnattamynd sem tekin er um miðnætti aðfaranótt sunnudagsins 27. nóvember. Þetta er hitamynd, hvít svæði eru köld, því hvítari - því kaldari.
Við Skotland er kröpp illviðrislægð á leið austsuðaustur og mun hún valda illviðri í Danmörku og e.t.v. í Svíþjóð líka. Pólverjar hafa áhyggjur af sjávargangi í norðvestanáttinni á Eystrasalti og Finnar búast við hríð.
Lægðin suður af Grænlandi er enn grunn, 992 hPa í miðju. Hún stefnir í átt til Íslands og fer að hafa áhrif á sunnudagskvöld. Hún dýpkar mikið aðra nótt en sennilega hvessir ekki mikið fyrr en hringrásin í kringum hana fer að þrengja að norðaustanáttinni austan við Grænland. Hvassviðrið verður því til vegna hitabratta í lægstu lögum lofthjúpsins - en ekki undir háloftavindröst eins og í lægðinni norðan við Skotland.
En þeir sem eiga eitthvað undir veðri líta á spár Veðurstofunnar en taka hóflega mark á hjalinu á hungurdiskum.
26.11.2011 | 00:13
Illiviðrislægðin sleikti Austurland
Lægðin sem olli fárviðrinu í Færeyjum straukst við Austurland síðastliðna nótt (aðfaranótt 25. október). Meðalvindhraði var þó mun minni heldur en mest var Færeyjum (sjá blogg Einars Sveinbjörnssonar). Við skulum samt líta á lista yfir mesta vindhraða hér á landi í veðrinu - fyrst 10-mínútna meðalvindinn:
Hámarksvindhraði á íslenskum veðurstöðvum 24. til 25. nóvember 2011
dagur | klst | vindátt | mestiv | mestahviða | nafn | |
25 | 2 | 214 | 30,0 | 51,7 | Hamarsfjörður | |
24 | 24 | 2 | 27,6 | 33,7 | Gagnheiði | |
25 | 5 | 311 | 26,6 | 31,7 | Vatnsskarð eystra | |
25 | 1 | 330 | 26,5 | 39,5 | Seley | |
24 | 20 | 2 | 26,1 | 34,1 | Papey | |
25 | 5 | 306 | 24,1 | 30,4 | Öxi | |
25 | 4 | 333 | 24,0 | 29,5 | Bjarnarey | |
24 | 18 | 8 | 23,6 | 35,2 | Hvalnes | |
25 | 2 | 312 | 23,4 | 30,3 | Eyjabakkar | |
25 | 1 | 310 | 23,3 | 37,0 | Hallsteinsdalsvarp | |
24 | 21 | 47 | 23,2 | 34,7 | Þórdalsheiði | |
24 | 23 | 331 | 22,9 | 29,5 | Höfn í Hornafirði sjálfvirk stöð | |
25 | 4 | 299 | 22,1 | 29,5 | Vattarnes | |
24 | 21 | 318 | 21,9 | 26,1 | Stórhöfði sjálfvirk stöð | |
24 | 24 | 347 | 21,7 | 28,4 | Dalatangi sjálfvirk stöð |
Mestur varð meðalvindhraðinn (og vindhviða) í Hamarsfirði kl. 2 um nóttina. Þá var vindátt skráð 214° en það er af suðsuðvestri - í öfuga átt við þrýstivind á svæðinu. Ég verð að játa að ég er ekki kunnugur við veðurstöðina en þetta gæti gefið tilefni til athyglisverðra vangaveltna um hegðan vinds í landslagsfarvegum. Vindhviðan í Hamarsfirði var litlu minni en sú mesta sem enn hefur frést af í Færeyjum. Næstmestur varð vindhraðinn á Gagnheiði, þar stóð áttin af hánorðri (2°).
Við skulum einnig líta á hæstu vindhviðuhámörkin:
dagur | klst | vindátt | mestahviða | nafn | ||
25 | 2 | 214 | 51,7 | Hamarsfjörður | ||
25 | 3 | 300 | 42,1 | Seyðisfjörður | ||
25 | 1 | 330 | 39,5 | Seley | ||
25 | 1 | 310 | 37,0 | Hallsteinsdalsvarp | ||
24 | 19 | 45 | 35,7 | Streiti | ||
24 | 18 | 8 | 35,2 | Hvalnes |
Þar er Seyðisfjörður í öðru sæti með hviðu upp á 42,1 m/s. Mesti meðalvindhraði á stöðinni var aðeins 19,1 m/s. Gildið er ábyggilega rétt - fleiri hviður náðu ámóta styrk. Rétt er að geta þess að veðurstöðin á Seyðisfirði er ekki staðsett í bænum (því miður) heldur utar með firðinum í um 70 metra hæð. E.t.v. er réttara að segja að stöðin sé í Seyðisfirði en ekki á.
Af næstu tveimur lægðum er lítið nýtt að frétta - þær fara enn þá leið sem spáð var í gær. Danska veðurstofan er óviss með ástandið á sunnudag - enda er ekki enn ljóst hversu hvasst verður í Danmörku. Þó nefna menn þar mögulegar vindhviður upp á meir en 30 m/s á Norður-Jótlandi.
Lægðin sem hér kemur á aðfaranótt mánudags er nú kraftlítil yfir Labrador en sækir í sig veðrið þegar nær okkur dregur.
Það er skemmtilegt hvað þessi þrjú illviðri eru afskaplega ólík að gerð. (?)
25.11.2011 | 01:20
Lægðin fór milli Færeyja og Íslands - hvað með næstu lægðir?
Lægðin kröftuga sem fjallað var um á hungurdiskum í gær (24.11.) og fyrradag veldur þegar þetta er skrifað (rétt eftir miðnætti aðfaranótt föstudags 25. nóvember) allmiklu hvassviðri austanlands. Sömuleiðis hefur úrkoma verið töluverð. Fárviðri hefur verið sums staðar í Færeyjum, fréttir af tjóni eru þó enn litlar á heimasíðu færeyska útvarpsins. Þar hefur þó mátt sjá kort sem sýnir vindhraða eins og hann mælist á veðursstöðvum Landsverks. Okkur sem vön erum vönduðum línuritum Veðurstofunnar og Vegagerðarinnar finnst þó pirrandi að sjá ekki meir. En sjálfsagt verða fréttir færeyska útvarpsins ítarlegri þegar veðrinu slotar.
En fleiri lægðir bíða afgreiðslu. Sú sem var yfir Indianafylki í Bandaríkjunum í fyrradag er nú skammt austur af Nýfundnalandi á leið austnorðaustur yfir Atlantshaf. Hún er öðru vísi heldur en Færeyjalægðin. Spár láta hana dýpka lítið til morguns en hún straujast þó ekki alveg og verður mjög áberandi á gervihnattamyndum á föstudag.
Á laugardaginn nær hún loks í gott fóður. Hún dýpkar snögglega nærri Færeyjum (sem þó virðast eiga að sleppa við hvassviðri) og fer þaðan til austsuðausturs yfir Suður-Noreg á sunnudag. Lægðin er mjög viðsjárverð og má litlu muna að hún valdi ekki ofsaveðri í Skotlandi, Danmörku, Suður-Svíþjóð og S-Noregi. Alla vega fylgjast veðurfræðingar vel með þróuninni. Ef hún fer norðarlega gæti fjalllendi Suður-Noregs dregið úr mesta afli vindsins í byggðum.
En lítum á spákort sem gildir um hádegi á laugardag, 26. nóvember. Þetta er rammi úr norðurhvelsspá evrópureiknimiðstöðvarinnar og fastir lesendur kannast við táknfræðina.
Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð.
Leifar Færeyjalægðarinnar er falin í bylgjunni sem merkt er B1 á kortinu. Lægðin sem fer austur til Noregs á sunnudag er þarna falin í bylgju B2. Á undan henni fer gríðarlega breiður og flatur hæðarhryggur þrunginn raka. Mikið gæti því rignt á norðanverðum Bretlandseyjum um helgina fyrir svo utan vindógnina sem minnst var á að ofan - og óvissa er um.
Þessi lægð fer sumsé framhjá okkur líka, eina sem hún gerir er að kippa aðeins í háloftalægðina sem er yfir Grænlandi, norðvestan Íslands. Þá gæti éljabakka rekið að Vesturlandi með tilheyrandi hálku.
Lægðin sem okkur er ætluð er á kortinu falin í bylgju B3 sem á kortinu er yfir Nýfundnalandi og svæðinu þar fyrir vestan. Hún er mjög breið og ekki alveg búin að ákveða hvernig hún ætlar að taka það. Í augnablikinu lítur út fyrir að fyrsti hluti hennar komi að landinu á sunnudagskvöld - ekki með neinum látum - en síðan á hún að dýpka mjög rösklega í námunda við landið á mánudaginn.
En tökum samt hóflega mark á langtímaspám.
24.11.2011 | 01:05
Lægðin að taka á sig mynd
Hér er vísað í lægð sem minnst var á í pistli hungurdiska í gær og var þar kölluð fyrri lægðin. Hún dýpkar nú rösklega. Á miðnætti (aðfaranótt fimmtudags 24.11.) er giskað á að þrýstingur í miðri lægðinni sé 977 hPa - en á að vera komið niður í 944 hPa eftir sólarhring, 33 hPa-dýpkun á sólarhring. Lítum á hitamynd kl. 23 á miðvikudagskvöld (23.11.). Myndin er af vef Veðurstofunnar, vedur.is.
Þeir sem þekkja landaskipan sjá að Ísland er ofan miðju myndarinnar en hún spannar svæði suður til Spánar og vestur til Nýfundnalands. Því hvítari sem fletir eru á myndinni því kaldari eru þeir. Ský eru oftast kaldari heldur en undirliggjandi haf og land og því hvítari sem þau eru því hærra eru þau á lofti.
Mest áberandi af skýjakerfunum er það í námunda við rauðu örina sem ég hef sett inn á myndina. Hún sýnir nokkurn veginn svokallað hlýtt færiband lægðarinnar. Þar er rösklegt uppstreymi. Lægðarmiðjan er þar vestan við. Kerfið er um það bil að slitna frá syðra lægðarkerfi sem sitja mun eftir ræstist spár.
Fastir lesendur hungurdiska vita að mestur gangur er í lægðarkerfinu við skarpa brún hvíta svæðisins - í vesturkanti hlýja færibandsins. Þar bendir ör á niðurstreymissvæði vestan brúnarinnar. Þar leysast ský upp. Þetta er oft kallað þurra innskotið eða rifan (bókstafurinn Þ er við hinn enda örvarinnar). Næst norðvestan við hana er skýjabogi - ívið lægri (og grárri) heldur en skýin í hlýja færibandinu. Þessi bogi er stundum kallaður kalda færibandið - en í raun þarf að liggja dálítið yfir stöðunni til að greina það. Þetta gæti líka verið það sem við viljum kalla undanskot (undan) hlýja færibandinu. Ég hallast að fyrrnefnda möguleikanum í þessu tilviki - en er ekki viss. Hef helst það fyrir mér að undanskotin verði yfirleitt ekki áberandi fyrr en greinilegri krókur hefur myndast í kringum sjálfa lægðarmiðjuna. Krókurinn er ekki kominn í ljós á þessari mynd.
Á myndinni má sjá í jaðar næstu lægðar við Nýfundnaland sem hvítan skjöld, við horfum þar á hlykkinn á hlýju færibandi hennar.
En lítum nánar á spána um stöðu lægðarinnar kl. 18 á fimmtudag (24.11.).
Kortið sýnr stöðuna kl. 18. Þá er lægðin um 950 hPa í miðju og er að valda vondu í Færeyjum. Ég hef merkt inn stöðuna á miðnætti (aðfaranótt fimmtudags) sem L innan í brúnum hring þannig að vel megi greina hversu rösklega lægðin hefur farið á 18 klst. Um sólarhring síðar verður hún þar sem merkt er S í hring vestan við Lófót í Noregi. Bókstafurinn S er valinn vegna þess að þar á lægðin að fara í slaufu sína. Riðalægðir taka oft (ekki alltaf) slaufu á braut sinni í þann mund sem þær ná mestum þroska. Þá er veðrið sem fylgir lægðinni verst (ef landaskipan truflar ekki). Mig langar til að skýra það nánar síðar.
Þegar lægðin fer hjá milli Íslands og Færeyja er hún enn á rösklegri ferð. Áður en tölvuspár náðu þeim þroska sem nú er voru lægðir sem fóru hratt hjá suðaustan við land sérstakt vandamál. Vindur í norðvesturjaðri þeirra (samsíða hreyfistefnu) er nefnilega minni heldur en þrýstibratti gefur einn til kynna, en nær sér aftur á móti upp um leið og þrýstilínurnar taka að sveigja bakvið lægðina.
Nú segja tölvuspár okkur ekki einungis um þrýstibrattann sjálfan heldur reikna þær líka út vindhraða og vindstefnu. Þeir sem lesa úr tölvuspám - og eru órólegir yfir vindi - ættu því frekar að líta á vindhraðaspána (t.d. í 925 hPa-fletinum) heldur en að treysta þrýstibrattanum einum saman til vindmats. Til viðbótar þessu misræmi í þrýstibratta og vindi við krappar hraðfara lægðir verður líka að leiðrétta fyrir sveigju þrýstilínanna. Vindur í lægðarsveigju er minni heldur en þrýstibrattinn einn segir til um.
Þegar lægðir taka slaufuna hægja þær mjög á sér og þá hverfa þau skýlandi áhrif sem hreyfingin hefur þar sem þrýstivindurinn blæs andstætt henni. (Í þessu tilviki í norðvesturjaðri lægðarinnar). Áður en nákvæmar tölvuspár komu til var mjög erfitt að meta hvar eða hvort lægðarmiðjan tæki slaufu.
En þessi texti er orðinn ansi slaufukenndur og mál að linni. Rétt er þó að minnast á framtíð seinni lægðarinnar. Nú er henni spáð þannig að hún fletjist nokkuð út á leið sinni sunnan við land (strauist) en hún taki við sér svo um munar við Skotland og þar austur af á sunnudag.
23.11.2011 | 00:36
Órólegir dagar á Norður-Atlantshafi
Nú fara í hönd nokkrir mjög órólegir dagar á Norður-Atlantshafi. Mesta fjörið virðist þó ætla að verða sunnan við okkur - en samt er rétt að gefa því gaum því ekki má mikið út af bera. Margra daga spár eru því mjög óræðar. Lægð er nú að fara yfir landið og einhver óvissa fylgir vestanáttinni sunnan við hana. Við látum Veðurstofuna og aðra til þess bæra aðila fylgjast með því. En tvær lægðir virðast vera í byrjunarstöðu í dag - tilbúnar til ferðar um Atlantshafið.
Sú sem er fyrr á ferðinni er nú vestsuðvestur af Asóreyjum - um 1000 hPa í lægðarmiðju og hreyfist til norðausturs. Þessi lægð er búin að vera í bið í nokkra daga. Um tíma var allt eins búist við því að hún fengi tilverustimpil frá fellibyljamiðstöðinni i Miami og yrði þar með að stafrófsstormi, Tammy - en af því varð ekki. Mjög hlýtt loft er þarna á sveimi, þykktin hátt í 5700 metrar þar sem mest er.
Síðari lægðin er þegar þetta er skrifað yfir Indiana-fylki í Bandaríkjunum og er á leið austur. Þrýstingur í lægðarmiðju er um 1008 hPa. Þar er einnig mjög hlýtt sunnan við lægðarmiðjuna. Eins og spár liggja nú fara báðar þessar lægðir til norðausturs fyrir suðaustan land. En höfum í huga að lægðir eru ætíð nokkuð reikular í spori.
En lítum á háloftaspákort sem gildir kl. 18 - síðdegis miðvikudaginn 23. nóvember. Það ætti að vera föstum lesendum hungurdiska kunnuglegt. Svörtu heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa flatarins í dekametrum og rauðu strikalínurnar tákna þykktina, hún er einnig mæld í dekametrum (dam = 10 metrar). Því meiri sem þykktin er - því hlýrra er loftið. Því þéttari sem svörtu hæðarlínurnar eru því hvassara er í 500 hPa-fletinum en hann er eins og kortið sýnir í 5 til 6 kílómetra hæð.
Fyrri lægðin er þar sem stórt, rautt X er á áberandi stað suður í hafi. Þar má sjá dæmigert útlit dýpkandi lægðarbylgju. Bæði jafnhæðar- og jafnþykktarlínur eru mjög þéttar og þær síðarnefndu mynda form sem stingur sér inn í vindstrenginn, hér úr suðsuðaustri. Þeir sem sjá vel ættu að finna lítinn hring rauðra strikalína undir X-inu. Það er 5640 metra jafnþykktarlínan. Í kringum X-ið eru settar litlar rauðar og bláar örvar sem sýna hlýtt og kalt aðstreymi sem fylgir bylgjunni. Feitari strikalína sýnir lægðardragið sem síðar verður að lokaðri háloftalægð - í þann mund sem lægðin við jörð nær mestum þroska.
Hér má líka benda á samlokuform það sem jafnhæðar- og jafnþykktarlínur mynda í vaxandi riðalægðum. Jafnþykktarlínurnar (þær rauðu) fylgja formi vinstrihandar sem lögð er á rönd norðvestan við X-ið, en jafnhæðarlínurnar fylgja formi hægri handar sem lögð er á sama hátt suðaustan við X-ið.
Hin lægðin - sú seinni - er merkt við vinstri jaðar kortsins með X-i. Þar má ef vel er að gáð sjá sömu skipan hæðar- og þykktarlína.
Hér við Ísland er frekar kalt loft, þykktin er í kringum 5200 metrar. Þetta er ekki mjög kalt miðað við árstíma en hins vegar ansi svalt miðað við það sem hér hefur verið að undanförnu. Þegar best lét var þykktin á rólinu 5460 til 5500 metrar og hefur því lækkað um 260 til 300 metra. Það samsvarar 13 til 15°C.
Hið raunverulega kalda loft er yfir Labrador og vestan Grænlands þar sem þykktin er á bilinu 5000 til 5100 metrar. Stóra, bláa örin á kortinu er sett til að sýna framrás kaldasta loftsins. Vestari lægðin mun halda frekari framsókn þess eitthvað í skefjum þar til hún er komin framhjá.
En nú er spennandi að sjá hvað verður úr þessum tveimur lægðum. Þótt nú séu innan við tveir sólarhringar þar til fyrri lægðin fer hjá eru spár ekki orðnar sammála um braut hennar. Hirlam-spáin sú sem hér er notuð fer með lægðina milli Íslands og Færeyja og keyrir hana niður í 941 hPa - ansi krassandi. Evrópureiknimiðstöðin er nú með lægðina aðeins sunnar en kemur miðjuþrýstingi niður í 939 hPa. Bandaríska spáin er með lægðina sunnan við Færeyjar og heldur grynnri.
Sleppum við? Það vita hungurdiskar ekki - en rætist hirlam-spáin hvessir eitthvað austanlands um tíma. Þegar svona ört dýpkandi lægðir fara hratt hjá þá rífa þær niður veðrahvörfin - aðallega rétt vestan lægðarmiðjunnar - en líka á allstóru svæði vestan og norðvestan við. Í þessu tilviki við Ísland og þar vestur af. Við slík skilyrði snarast stundum aukalægðir út úr norðvesturjaðri meginlægðanna. Í þessu tilviki gerðist það þá þannig að vesturjaðar háskýjabakka þeim sem fylgir lægðinni kastar út aukakróki sem myndar élja- eða skúrabakka sem talsvert getur rignt eða snjóað úr. Hvort það gerist nú vitum við ekki enn.
Síðarl lægðinni er svo spáð gríðarkröftugri á leið um Skotland og Suður-Noreg á laugardag og sunnudag.
Margar spurningar vakna á órólegum dögum sem þessum.
22.11.2011 | 01:18
Dægurhámörk (og lágmörk) í nóvember á Akureyri
Rólegir hungurdiskar í dag. Rétt lítum á hæsta og lægsta hita á Akureyri í nóvember. Fyrst hæsta hita hvers dags (þeir sem vilja sjá ártölin líti á viðhengið).
Þegar litið er á þessa mynd og jafnframt hugað að því að landshitamet nóvembermánaðar er 23,2 stig gæti undrun látið á sér bæra. Akureyri er þrátt fyrir allt mjög vel í sveit sett í hlýrri sunnanáttinni - en samt er hæsti hiti sem mælst hefur þar í nóvember aðeins 17,5 stig. Undrunin hverfur að vísu fljótt þegar rifjað er upp að Reykjavík hefur hiti í nóvember aldrei náð nema 12,6 stigum, nærri fimm stigum undir Akureyrarmetinu og nærri 11 stigum undir landsmetinu. En nú er nóg af háum fjöllum í námunda við Akureyri og sömuleiðis er þar oft hvasst í sunnanáttinni. Skyldu 20 stigin bara að vera láta bíða eftir sér? En Akureyringar mega vera rólegir - þetta kemur í framtíðinni sé beðið nógu lengi.
Við sjáum að áberandi leitni er frá upphafi til enda mánaðarins (rauða línan). Það munar hátt í þremur stigum. Einnig er áberandi að mikill munur er á hámarkinu frá degi til dags. Það þýðir trúlega að ný dægurmet eru líkleg á næstu árum. Hámarkshitamælingar byrjuðu ekki á Akureyri fyrr en 1938. Hér hefur þó verið farið yfir hita á öllum föstum athugunartímum allt aftur til 1881, - án veiði. Eftir er að fara betur yfir hitasírita á Akureyri 1928 til 1937 - hugsanlega leynast einhver dægurmet þar (til að fylla upp í dældir línuritsins).
Lágmarksmælingar voru ekki heldur gerðar á Akureyri á árum áður, en samt er slatti af lágum hita á athugunartíma sem ekki verður sleppt.
Lágmarkið stefnir enn hraðar niður heldur en hámarkið gerði. Rauða línan er um 4,5 stigum lægri á myndinni í lok mánaðarins heldur en í upphafi hans. Yngsta metið á myndinni er frá 2004, það eru -15,0 stig þann 21. árið 2004 - í sama mánuði og hitamet mánaðarins. Við sjáum þó að það liggur vel ofan við rauðu línuna á myndinni og því líklegt til að falla - hvenær það svo gerist veit enginn.
Það gerðist helst merkilegt í nóvember 1893 að hafís fyllti Ísafjarðardjúp og bárust jakar alveg suður á Patreksfjörð. Nördin opna viðhengið.
21.11.2011 | 00:52
Skammdegismyrkrið sækir að
Pistill dagsins er hluti pistlaraðar um mesta mældan sólskinsstundafjölda í Reykjavík og á Akureyri. Sams konar pistlar hafa birst á hungurdiskum um sólskin í september og október. Myndin sýnir hámarkssólskinsstundafjölda sem mælst hefur á hverjum degi í nóvember í Reykjavík og á Akureyri. Árin sem notuð eru til viðmiðunar eru 88 í Reykjavík, frá 1923 til 2010, en 60 á Akureyri. Þar byrjar röðin sem miðað er við 1951. Sólskinsstundamælingar hófust á Akureyri 1925 en fáein ár á stangli vantar inn í röðina. Auk þess eru daglegar mælingar ekki aðgengilegar á stafrænu formi nema frá 1951.
Nú verður að hafa í huga að engin fjöll eru í almanakssólargangi og því síður húsbyggingar eða aðrir tilviljanakenndir skuggavaldar. Auk þess verða lesendur að vita að ýmislegt miður skemmtilegt getur plagað hefðbundnar sólskinsstundamælingar og úrvinnslu þeirra. Hungurdiskar gefa ekki út heilbrigðisvottorð á þessar mælingar - en við vonum þó að lítið sé um villur.
Þegar mælingar hafa verið gerðar um áratuga skeið eru allmiklar líkur á að einhver nærri því heiðskír dagur sé inni í mælingaröðinni. En lítum á myndina.
Lárétti ásinn sýnir daga nóvembermánaðar, en sá lóðrétti klukkustundir. Fyrstu daga mánaðarins er hámarkssólskinsstundafjöldi um sjö stundir í Reykjavík en um 5 stundir á Akureyri. Ætli við verðum ekki að trúa því að þessa daga hafi sólin skinið nánast allan þann tíma sem mögulegur er.
Sólskinsstundum fækkar síðan jafnt og þétt eftir því sem á mánuðinn líður. Munur á stjarnfræðilegum sólargangi í Reykjavík og á Akureyri vex þegar líður á mánuðinn, en munum að fjöll skyggja mun meira á fyrir norðan heldur en syðra.
Sé leitnin reiknuð á rauðu Reykjavíkurlínuna kemur í ljós að hámarkssólskinsstundafjöldi minnkar um 3 klukkustundir yfir mánuðinn allan eða 6 mínútur á dag. Þetta er svipað og í október. Á Akureyri lækkar hámarkið um rúmlega fjórar og hálfa klukkustund, eða átta og hálfa mínútu á dag. Sá tími sem sól skin lengst á Akureyri í lok mánaðarins er kominn niður í eina klukkustund. Í framhaldinu fer að muna um hvar mælingarnar eru staðsettar í bænum. Hvar á Akureyri er sólarlausi tími ársins stystur? Hvar er hann lengstur?
Og við spyrjum svipaðrar spurningar og við gerðum í október: Hversu margar yrðu sólskinsstundirnar ef heiðskírt væri alla daga nóvembermánaðar? Í Reykjavík væru þær 173, en 100 á Akureyri. En flestar hafa sólskinsstundirnar orðið 79,2 í nóvember í Reykjavík. Það var í þeim kalda en bjarta nóvember 1996. Við sjáum að sólin hefur þá skinið rúmlega 45% þess tíma sem hún var á lofti. Meðaltalið er mun lægra, 38,6 stundir. Einhvern tíma í framtíðinni bíða sólríkari nóvembermánuðir - þar gæti 100 stunda mánuður hæglega leynst.
Fæstar hafa sólskinsstundir í nóvember í Reykjavík orðið 4,6 - harla lítið það. Þetta gerðist í nóvember 1956 - hlýjum sunnanáttamánuði. Þá mældust 12,3 sólskinsstundir á Akureyri.
Fæstar mældust sólskinsstundirnar á Akureyri í nóvember 1997, 3,2. Nóvember 1937 er sá sólríkasti þar á bæ. Þá mældust 30,9 stundir. Meðalsólskinsstundafjöldi á Akureyri í nóvember er 14,3,
Mjög sjaldan er heiðskírt í nóvember, þó má frá 1949 finna tvo alveg heiðskíra daga í þeim mánuði í Reykjavík. Það var þann 13. 1949 og þann 16. 1965. Nóvember 1965 var merkilegur háþrýstimánuður.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 12
- Sl. sólarhring: 184
- Sl. viku: 2459
- Frá upphafi: 2434569
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 2184
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010