Kuldalegt kort

Ætli spákortið hér að neðan sé ekki það kuldalegasta sem við höfum séð í haust. Hálfleiðinlegt er að sjá einn hlýjasta nóvember allra tíma lenda í þessu. En hann verður samt ofarlega á hitalistanum. Kortið gildir um hádegi miðvikudaginn 30. nóvember.

w-blogg301111

Svörtu, heildregnu línurnar sýna þykktina - eins og venjulega er hún tilfærð í dekametrum (1 dam=10 metrar). Því lægri sem talan er því kaldara er loftið í neðri hluta veðrahvolfs. Þegar mest var fyrr í mánuðinum komst þykktin yfir landinu upp fyrir 5500 metra, en línan sem á kortinu liggur yfir Vestfjörðum er 5040 metrar. Þarna munar 460 metrum - þumalfingursregla segir að 20 metrar í þykkt jafngildi 1°C. Það munar því um 23 stigum á hlýindunum og þeim kulda sem spáð er á kortinu.

Hiti við yfirborð jarðar er ekki jafnbundinn þykktarmálinu, sérstaklega er það í hægum vindi sem þykktin „sér“ kulda nærri yfirborði alls ekki. 

Ég hef merkt tvær háloftabylgjur gróflega á kortið og nota sömu merki og í pistlinum í gær. B2 er samfara krappri lægð sem fer til norðausturs og veldur illviðri í Vestur-Noregi nokkru síðar en kortið gildir. Grænu örvarnar eiga að tákna hreyfingu hverrar bylgju.

Bylgja sem merkt er B3 er miklu vægari og nær ekki í hlýtt loft svo teljandi sé. Ef við fylgjum 65. breiddarbaug til vesturs frá Íslandi, um það bil meðfram grænu örinni, sjáum við að á leiðinni hækkar þykktin í að bylgjutoppnum þó um 6 dam. Það eru 3°C. Bylgjan á eftir að rísa ívið meira en kortið sýnir þegar hún nálgast Ísland. Bylgjutoppurinn á að fara yfir Ísland á fimmtudag.

Bylgjunni fylgir éljabakki eða svæði með samfelldri snjókomu. Hversu mikið snjóar vita hungurdiskar ekki en spár hafa nefnt töluna 8 cm í Reykjavík (?). Hitabreyting verður meiri til landsins heldur en þau 3 stig sem hrá þykktarspáin nefnir því hafátt fylgir bakkanum. Frostið í landáttinni gæti hæglega verið 8 til 10 stig (meira inni í sveitum) en hiti í hafáttinni er ekki langt undir frostmarki.  

Lituðu svæðin á kortinu sýna hita 850 hPa-fletinum (u.þ.b. 1300 metra hæð). Fjólublái liturinn yfir landinu táknar 16 til 18 stiga frost. Þar uppi á að hlýna um 6 stig samfara bylgjunni.

Græna örin lengst til vinstri á kortinu á að tákna hina gerðarlegu bylgju 4 sem hingað kemur á föstudag. Spár eru enn ósammála um tök hennar.

Þeir sem höfðu þrek til þess að lesa pistil gærdagsins til enda mega taka eftir því að á kortinu að ofan er þykktin yfir Grænlandi rétt við 5000 metra, en var 4860 metrar á kortinu sem notað var í gær. Reiknilíkan evrópureiknimiðstöðvarinnar fer greinilega öðrum (og raunhæfari) höndum um Grænlandsjökul heldur en það afbrigði hirlam-líkansins sem hungurdiskar oftast vísa til. Við jaðar jökulsins eru líkönin hins vegar mjög svipuð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég sagði það: allt færi á versta veg! Og þetta er bara byrjunin. Nú fáum við -40 stigin á Neslandatanga.

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.11.2011 kl. 00:45

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Leiðin að stigunum fjörutíu á Neslandatanga er þyrnum stráð. Mývatn þarf að frjósa herlega - það er sjálfsagt langt komið með það. Síðan þarf heiðskírt hægviðri í marga daga eða mun lægri þykkt en nú er í boði - eða helst hvoru tveggja. Möðrudalur átti bestu tilraunina í tiltölulega mikilli þykkt (5200 metrum) eftir langt hægviðri og heiðríkju þann 15. mars 1962 (-33,2 stig minnir mig). Loftið í Möðrudal var þó leifar mun lægri þykktar lofts sem barst til landsins viku áður (um 5000 metrar). Betri tilraun átti Neslandatangi í mars 1998 með -34,7 stig. Þá var þykktin nærri metlágmarki eða um 4900 metrar. Þótt ýmislegt sé hægt við frekar háa þykkt - eru líkur á metfrosti því meiri eftir því sem þykktin er lægri. Ég þykist hafa reiknað út að mesta mögulega frost á Íslandi við núverandi veðurlag sé um 48 stig - en þangað liggur mjög vandrötuð leið - ólíklegt er að hún finnist um okkar daga.

Trausti Jónsson, 30.11.2011 kl. 01:09

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hertu upp hugann! Eins og ég sagði þá er þetta bara byrjunin. Veðrið er núna bara að kulda upp fyrir aðal hörkurnar sem verða um white christmans sem alla dreymir víst um!

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.11.2011 kl. 08:53

4 identicon

Er 'Iceland Cooling' verkefnið ekki hluti af 'Global Warming'?

Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 30.11.2011 kl. 17:48

5 identicon

Sæll Trausti !

Fallegur blámi yfir þessu korti. Hungurdiskar spá ekki,  en samt verður

ekki hjá því komist að rýna í þau  og framtíðina með hliðsjón af öllum þessum

upplýsingum. Held að hugmyndir um frost ,  sem gerir   frystikistuna að

helmingi hlýrri vistarveru  , séu fjarstæðukenndar og þetta kuldakast

síðustu daga , endist tæplega nema viku af desimbris. Hvít jól , rauð eða flekkótt

kemur í ljós . Hvað ætli " Dalvíkurveðurklúbbsmenn/ -konur"  , hafi sagt um það?

óli Hilmar Briem Jónsson (IP-tala skráð) 30.11.2011 kl. 19:23

6 Smámynd: Trausti Jónsson

Þrátt fyrir allmörg skæð kuldaköst á þessu ári hafa hlýindin samt haft undirtökin. Hvað svo framtíðin ber á borð vitum við ekki. Síðasta mánaðarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar gerir ráð fyrir kulda að minnsta kosti til jóla. En þessar mánaðarspár eru líka þekktar fyrir að bregðast fyrirvaralítið. Við skulum vona að það gerist að þessu sinni.

Trausti Jónsson, 1.12.2011 kl. 00:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 17
  • Sl. sólarhring: 150
  • Sl. viku: 1766
  • Frá upphafi: 2348644

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 1547
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband