Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Spurt var

Í dag er mánudagur 14. mars og enn eitt slagviðrið að ganga yfir. Ritstjóri hungurdiska var spurður að því hvort á þessu ári hefði verið hvassara á mánudögum heldur en aðra daga - tilfinning manna, hér á suðvesturhorninu alla vega, væri sú. 

Jú, mánudagar hafa verið hvössustu dagar vikunnar bæði á landsvísu og á höfuðborgarsvæðinu. Meðalvindhraði höfuðborgarsvæðisstöðva hefur verið 7,8 m/s á mánudögum, en ekki nema 5,5 m/ á miðvikudögum - en þeir hafa á þessum tíma verið hægustu dagar vikunnar. Á eftir mánudeginum koma þriðjudagar (7,1 m/s)og laugardagar (7,0) m/s. Á landsvísu hafa mánudagar og laugardagar verið jafnhvassir, en miðvikudagar hægastir.  

Meðalvigurvindátt hefur verið af suðaustri á mánudögum - og reyndar alla aðra daga líka, nema þriðjudaga. Þá hefur verið suðsuðvestanátt að meðaltali. Á sunnudögum hefur verið austsuðaustanátt. 

Á Akureyri hefur meðalvindhraði einnig verið mestur á mánudögum, en á þriðjudögum á Egilsstaðaflugvelli - (veðrakerfi hreyfast oftast til austurs).

Á sama tíma í fyrra var að meðaltali hvassast á sunnudögum, hægast á þriðjudögum og í hitteðfyrra hvar hvassast á mánudögum - eins og nú. Þá var munur milli daga hins vegar lítill að öðru leyti en því að langhægast var á laugardögum. 

Sannleikurinn er auðvitað sá að veðrið „veit ekki“ hvaða dagur vikunnar er - eða er alla vega alveg sama. Aftur á móti er bylgjugang vestanvindabeltisins þannig háttað að hver meginbylgja er oft 4 til 7 daga að fara hjá á leið sinni - ekki er það þó nægilega reglulegt til að á sé byggjandi.


Óvenjuleg lægð

Nú er „óðalægð“ (tilraunaþýðing á enska hugtakinu „bomb cyclone“) á leið um Nýfundnaland. Spár gera ráð fyrir að þrýstingur í lægðarmiðju fari niður fyrir 935 hPa, og e.t.v. niður fyrir 930 hPa. Þetta er óvenjulegt hvar sem er við Atlantshaf, en þó enn óvenjulegra á þessum slóðum heldur en hér við land. Þar að auki er nú kominn marsmánuður - og almennt minnka líkur á svo lágum loftþrýstingi þegar komið er nærri jafndægrum. 

w-blogg120322a

Hér má sjá spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl.18 síðdegis á morgun (sunnudag 13. mars). Lægðin á þá að vera við strönd Labrador, um 931 hPa í miðju. Ekki er víst að hún fari yfir veðurstöð þar sem þrýstingur er mældur reglulega, en fræðarar vestra telja ekki óhugsandi að kanadíska lágþrýstimetið (fyrir allt árið) verið slegið. Það er nú 940,2 hPa, sett 20.janúar 1977. (Upplýsingar um þetta met má rekja til Christopher Burt - hins þekkta metaskrásetjara). 

w-blogg120322d

Hér má sjá tillögu japönsku veðurstofunnar um metlægðina 1977. Hún er talin hafa verið um 934 hPa í miðju, en lægst mælt 940,2 hPa eins og áður sagði. Lægðin er mjög kröpp - og mælingar gisnar. 

Lægðin fer síðan frá Labrador til Grænlands. Þar er líka þrýstimet í hættu. Samkvæmt upplýsingum frá dönsku veðurstofunni (dmi.dk) er lægsti þrýstingur sem mælst hefur á Grænlandi 936,2 hPa. Hefur mælst tvisvar, í desember 1986 og í janúar 1988. Ritstjóri hungurdiska er þó ekki viss um að þrýstimetaskrá dönsku veðurstofunnar nái nema aftur til 1958 - hugsanlega leynast lægri gildi í eldri gögnum. 

w-blogg120322b

Kortið sýnir spá sem gildir kl. 6 á mánudagsmorgni 14.mars. Lægðin er þá samkvæmt spánni um 932 hPa í miðju - og mun höggva nærri Grænlandsármetinu - hvert marsmetið þar er liggur ekki á lausu - í bili að minnsta kosti - líklega verður það slegið. 

w-blogg120322c

Hér má sjá stöðuna í janúar 1988 þegar Grænlandslágþrýstimetið var sett. Ekkert stórlega ólíkt stöðunni nú. 

Svo virðist sem lægri tölur séu algengari við Ísland - og enn algengari yfir hafinu suðvestur og suður af landinu. Minnisstæð er auðvitað lægðin mikla 8. febrúar 1959 þegar togarinn Júlí fórst á Nýfundnalandsmiðum. 

w-blogg120322e

Sú lægð var enn dýpri heldur en þessar sem nefndar voru hér að ofan, japanska greiningin setur miðjuþrýstinginn í 924 hPa. 

Eins og áður sagði eru flest árslágþrýstimet á okkar slóðum sett í mánuðunum desember, janúar og febrúar. Tíðni þrýstings undir 945 hPa minnkar mjög í mars og eftir 1.apríl er slíkur lágþrýstingur sárasjaldgæfur. 

Við skulum nú rifja upp lægsta þrýsting í mars á Íslandi. Hann er 934,6 hPa. Kannski ekki nákvæmur nema upp á um 1 hPa en trúverðugur. Þótt bandarísku endurgreiningunni skjöplist oft á lágum þrýstingi nær hún þessu tilviki nokkuð vel - alla vega sú sem kölluð er v2c (v3 - sem er nýrri nær dýpt lægðarinnar heldur síður). 

w-blogg120322g

Línur sýna hæð 1000 hPa-flatarins - en auðvelt er að reikna sjávarmálsþrýstinginn út frá henni. Lægðarmiðjan um 933 hPa - mjög nærri tölunni í Reykjavík. Dagblaðið Vísir sagði: „Loftþyngdarmælir stóð svo lágt í morgun, að miðaldra menn muna ekki annað eins“.

Á 19.öld er vitað um eitt tilvik með lægri þrýstingi en 940 hPa hér á landi í mars, 937 hPa á Ketilsstöðum á Völlum 5. mars 1834. Gallinn er sá að við vitum ekki nákvæmlega hæð lofvogarinnar (þó er giskað). Það er hins vegar ljóst að þrýstingur var í raun mjög lágur þennan dag, mældist þá 944,7 hPa í Reykjavík (nokkuð áreiðanlegt). 

Þann 8.mars 1851 mældist þrýstingur á Akureyri 941,9 hPa þann 8.mars. Þennan sama dag var mælt bæði í Reykjavík og Stykkishólmi. Mjög lágur þrýstingur var á báðum stöðum, en Akureyrartalan er samt ekki alveg trúverðug í samhenginu - vonandi tekst að kanna hana nánar. 

Lægsti þrýstingur hér á landi í mars eftir 1913 er 942,0 hPa sem mældust á Keflavíkurflugvelli þann 22. árið 1994.

w-blogg120322f

Hér má sjá að evrópureiknimiðstöðin giskar á að þrýstingur í lægðarmiðju hafi farið niður í 939 hPa - rétt suðvestur af landinu. 

En þó lægðin mikla nú verði farin að grynnast þegar armar hennar ná hingað er samt gert ráð fyrir umtalsverðri úrkomu og hvassviðri af hennar völdum á mánudag. Síðan koma nokkrir dagar með möguleika á snörpum veðrum í kjölfar hennar. Minni lægðir, en geta orðið krappar og þar með skeinuhættar þar sem þær fara yfir. Umhleypingatíðin heldur því áfram - þó hiti sé nú talsvert hærri en var í illviðrakaflanum í febrúar. 

Lægsti þrýstingur í mars á Íslandi (tafla) í viðhengi:


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrstu 10 dagar marsmánaðar

Eftir kaldan febrúar bregður svo við að fyrstu 10 dagar marsmánaðar hafa verið fremur hlýir. Meðalhiti í Reykjavík er +1,5 stig, +1,2 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020, og +0,8 stigum ofan meðallags sömu daga síðustu 10 árin. Dagarnir tíu eru í áttundahlýjasta sæti (af 22) á þessari öld. Hlýjastir voru dagarnir tíu árið 2004, meðalhiti þá +6,3 stig, en kaldastir voru þeir 2009, meðalhiti -2,1 stig. Á langa listanum er hiti nú í 45. hlýjasta sæti (af 150). Á því tímabili var hlýjast 2004, en kaldast 1919, meðalhiti þá -9,9 stig.

Á Akureyri er meðalhiti fyrstu tíu daga marsmánaðar +2,4 stig, +3,4 stigum ofan meðallags 1991 til 2020, og einnig +3,4 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.

Að tiltölu hefur verið hlýjast á Austurlandi að Glettingi og Austfjörðum. Þetta er næsthlýjasta marsbyrjun aldarinnar á þeim slóðum, en kaldast hefur verið við Faxaflóa, á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra og á Suðurlandi. Á þessum slóðum eru dagarnir þeir sjöttuhlýjustu á öldinni.

Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum, mest við Mývatn, þar sem hitavikið er +4,2 stig. Að tiltölu hefur verið kaldast á Skagatá, þar er hitavikið +0,4 stig.

Úrkoma hefur mælst 95,3 mm í Reykjavík það sem af er mánuði, er það meir er þreföld meðalúrkoma sömu daga, það mesta á öldinni og hefur aðeins einu sinni mælst meiri sömu almanaksdaga. Það var 1931 (101,3 mm). Á Akureyri hefur úrkoma hins vegar aðeins mælst 4,3 mm (þó ekki met).

Sólskinsstundir hafa mælst 24,5 í Reykjavík og er það lítillega undir meðallagi. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 21,3 og er það nærri meðallagi.


Hitahógvær mars á síðari árum

Það hefur komið gömlum veðurnördum nokkuð á óvart hvað mars hefur verið hógvær á hitaöfgar síðustu árin - þó oft hafi hins vegar blásið nokkuð. Í barns- og unglingsminningu var mars landnyrðingsnæðingamánuður hinn mesti - eða þá í undantekningartilvikum vorboði (raunar þá oftar en ekki með falsfréttir). 

w-blogg030322a

Línuritið sýnir ágiskaðan landsmeðalhita í mars - síðustu 200 árin eða svo. Ekki eru reikningar þó nákvæmir lengi framan af. Það hefur hlýnað heil ósköp í mars frá 19.öld - þrátt fyrir allgóðan hlýindakafla um miðja þá öld. Á hlýindaskeiði 20. aldar komu líka margir mjög hlýir marsmánuðir - en líka allmargir töluvert kaldir. Enginn verulega kaldur mars hefur sýnt sig frá 1979 að telja og enginn kaldur frá því rétt eftir síðustu aldamót. 

En það hefur líka verið skortur á mjög hlýjum marsmánuðum. Það var hlýtt í mars 2012 (en síðan eru - flestum að óvörum - liðin 10 ár). Síðan var mjög hlýtt í mars 2003 og 2004 - en þá hafði lítið borið á hlýjum marsmánuðum í 30 ár - allt frá þeim ofurhlýja 1974. Á hlýskeiðinu áðurnefnda voru hins vegar hátt í 10 marsmánuðir svo hlýir að við höfum ekki séð slíkt næstliðinn áratug (en líka fjöldi kaldra). 

Hvenær skiptir svo um? Engin ástæða er til að halda að hógværð síðasta áratugar sé eins konar varanlegt ástand - það hefur bara ekki hitt í - mikil vindáttavik hefur „skort“. Því það er eins með mars og við minntumst á með febrúar á dögunum að „skýra“ má meðalhita mánaðarins með einföldum stikum vindátta í háloftunum. 

w-blogg030322c

Tíðni sunnanátta og hæð 500 hPa-flatarins ráða meiru en styrkur vestanáttanna. Lárétti ásinn sýnir ágiskaðan hita, en sá lóðrétti þann sem við höfum mælt. Samræmið er nánast undragott (fylgnistuðull 0,88). Hér eru háloftavísar úr evrópsku endurgreiningunni notaðir. Ritstjórinn hefur líka reiknað sams konar samband fyrir bandarísku greininguna. Efnislega munar engu (fylgnistuðull sá sami) - en þó er nokkur munur á giski í einstökum marsmánuðum, sérstaklega fyrir upphaf háloftaathugana - er við slíku að búast. Svo er líka nokkur óvissa í reikningi á landsmeðalhitanum. 

Það er kaldast neðst til vinstri á myndinni - þar er ekki nokkurn nýlegan marsmánuð að finna - og svipað má segja um hlýindin efst til hægri - við borð liggur að hlýjasti mars þessarar aldar (2004) liggi inni í þéttu skýi með öðrum - 1929 og 1964 langt þar fyrir ofan. 

Við megum taka eftir því að nýlegir mánuðir eru fleiri ofan aðfallslínunnar heldur en neðan hennar. Þetta bendir til almennrar hlýnunar - einhvers sem þessi einfalda tölfræðiaðferð nær ekki til. Norðanáttir eru t.d. orðnar töluvert hlýrri heldur en lengst af hefur verið. 

Nú ber svo við að evrópureiknimiðstöðin spáir hita yfir meðallagi næstu vikur - við getum að sjálfsögðu ekki treyst því að rétt reynist. 


Smávegis af febrúar

Meðan við bíðum eftir tölum Veðurstofunnar lítum við á meðalstöðuna í háloftunum í febrúar.

w-blogg010322a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar. Jafnþykktarlínur eru strikaðar (mjög daufar), en þykktarvik eru sýnd í lit. Bláu litirnir eru kaldir, en gulir og brúnir hlýir. Við sjáum að þykktin yfir Íslandi var um -50 metra undir meðallagi. Neðri hluti veðrahvolfs því um -2,5 stigum kaldari en að meðallagi 1981 til 2010 (viðmiðunartímabil þessa korts). Mánuðurinn var ýmist næstkaldasti eða þriðjikaldaski febrúar á öldinni hér á landi. Við sjáum að kaldast - að tiltölu - var vestan við Grænland. Að sögn dönsku veðurstofunnar var óvenjukalt og úrkomusamt í Nuuk. Vindrastir háloftanna voru að mestu fyrir sunnan við Ísland - en þó var suðlæg átt ríkjandi í miðju veðrahvolfi yfir landinu. Þrýstingur var vel undir meðallagi og sömuleiðis voru háloftafletir lægri en venjulega, 500 hPa-flöturinn um 150 metrum neðar en að meðaltali, en hefur fjórum til fimm sinnum staðið neðar en nú frá upphafi háloftaathugana, meðaltalið yfir miðju landi var nú 5103 metrar. Á fyrstu starfsárum ritstjóra hungurdiska á Veðurstofunni höfðu svona lág meðalgildi aldrei sést í febrúar - allt frá því háloftaathuganir hófust. Febrúar 1989 kom honum því mjög á óvart - meðalhæðin þá var aðeins 5071 metri - og í febrúar árið eftir 5044 metrar - þótti honum þetta mikil tíðindi. Síðan komu 5069 metrar 1997, 5104 metrar í febrúar 2000 og 5085 metrar árið 2020. Síðustu 30 ár hafa því verið allt öðru vísi hvað þetta varðar heldur en 40 árin þar næst á undan. Eitthvað er með öðrum hætti. 

w-blogg010322b

Myndin sýnir þykktarvik þeirra fjögurra febrúarmánaða sem líkastir eru þeim nýliðna. Rétt að benda á að viðmiðunartímabil vikanna er öll 20. öldin í 3 eldri mánuðunum - það breytir þó ekki stóru. Við sjáum að jafnhæðarlínur liggja afskaplega svipað í þessum mánuðum öllum - þeir eru hins vegar aðeins miskaldir suðvestan- og vestan Íslands. 

Mánuðirnir allir fá svipaða dóma - fréttir áberandi af vondri færð og hrakningum:

[2020]: Tíð var óhagstæð og fremur köld. Úrkomusamt var á Norður- og Austurlandi. Samgöngur riðluðust margoft vegna óveðurs. 

[2000]: Umhleypingasamt og snjór óvenju þrálátur á jörð á Suður- og Vesturlandi og tíð þar talin erfið. Óvenju mikið var um samgöngutruflanir á höfuðborgarsvæðinu.

[1997]: Tíðarfar var fremur erfitt, veður rysjótt og víða var mikill snjór, einkum undir lok mánaðarins.

[1989]: Slæm tíð og stormasöm. Snjóþungt víðast hvar.

Í bleytuhríðinni í gær (mánudaginn 28. febrúar) fékk ritstjóri hungurdiska einhverja óskiljanlega apríltilfinningu - honum fannst sem þetta væri aprílhríð - en ekki á góu. Ekki nóg með það - þegar hann horfði á spákort morgundagsins (2.mars)

w-blogg010322c

datt honum í hug annað kort - sama dag fyrir 59 árum (2.mars 1963):

w-blogg010322d

Ekki eins - auðvitað - en ákaflega svipað. Samt er samhengið allt annað. Febrúar 1963 var gjörólíkur nýliðnum febrúar. Það var að vísu ekki alveg snjólaust - en nálægt því. Austlægar og norðlægar áttir voru ríkjandi lengst af - en síðasta vikan var nokkuð rysjótt og hvassviðrasöm - en ekki með hríðarveðri. Marsmánuður var allur meira og minna mildur og hagstæður - austanáttin gaf sig ekki. 

Nú er annað uppi, mikill snjór og krapaelgur á jörðu - miklu harðara veður - og umhleypingum spáð í mars. En höfum í huga að mars veit í rauninni ekki neitt af febrúar - hann er meir og minna frír og frjáls.

w-blogg010322e

Þessi mynd sýnir þetta. Lárétti ásinn sýnir meðalloftþrýsting í febrúar (í 200 ár), en sá lóðrétti í mars sama ár. Ártölin eru merkt - (og má sjá þau sum sé myndin stækkuð). Ekkert veit mars af þrýstingi í febrúar. Við sjáum t.d. lengst til hægri og neðantil árið 1986 - þá var þrýstingur hár í febrúar - en sérlega lágur í mars. Aldamótaárið 1900 var þrýstingur hár bæði í febrúar og mars - en 1989 (sem við minntumst á hér að ofan) var þrýstingur í mars líka lágur - það ár er í hópi með fáeinum öðrum (1832, 1868 og 1903) neðarlega til vinstri á myndinni. Hvar kemur mánaðaparið sér fyrir í ár (2022)? Við vitum nú þegar að það verður vel vinstra megin (meðalþrýstingur í febrúar var 988,5 hPa).  


Alþjóðaveturinn 2021-22

Alþjóðaveðurfræðistofnunin telur vetur á norðurhveli ná til mánaðanna desember, janúar og febrúar. Alþjóðaveturinn er því styttri en vetur á Íslandi, við teljum mars með - enda oft kaldasti mánuður ársins hér á landi. Ritstjóri hungurdiska hefur undanfarin ár reiknað meðalhita alþjóðavetrarins hér á landi og fjallað um niðurstöður þeirra reikninga.

w-blogg280222

Reiknaður er meðalhiti veðurstöðva í byggð aftur til 1874 - og árum aftur til 1823 bætt við (en landsmeðalhiti fyrstu áranna er mikilli óvissu undirorpinn). Meðalhiti í byggðum landsins síðustu 3 mánuði er -0,7 stig og telst það nokkuð hlýtt á langtímavísu (eins og sjá má á myndinni), en er samt -0,6 stigum undir meðaltali áranna 1991 til 2020, -0,9 stigum neðan  meðaltals síðustu 10 ára og fjórðikaldasti alþjóðavetur á þessari öld. Ekki munar miklu á hitanum nú og hita þeirra þriggja köldustu. 

Veruleg leitni reiknast yfir tímabilið, +1,5 stig á öld. Á 20. öld allri var meðalhiti alþjóðavetrarins 16 sinnum ofan við frostmark, en hefur 9 sinnum verið það nú þegar á þessari öld - þó veturnir séu aðeins orðnir 20. Slíkt væri mikil breyting frá fyrra ástandi. Á 19.öld þekkjum við ekki nema 3 vetur ofan frostmarks (gætu þó verið eitthvað fleiri - reiknióvissa er mikil) á 78 árum.

En sannleikurinn er þó sá að við vitum ekkert um framtíðina frekar en venjulega. Rætist spár um hnattræna hlýnun að fullu verða hlýju veturnir væntanlega enn fleiri en 45 á 21.öld - en einnig er vel hugsanlegt að við höfum þegar „tekið út“ meiri hlýnun en okkur „ber“ og talan orðið nær 45 - jafnvel lægri.

Reiknuð leitni á myndinni er ekki síst há fyrir þá sök að vetur kuldaskeiðs 19. aldar voru almennt töluvert kaldari heldur en kaldir vetur kuldaskeiðs 20.aldar. Sömuleiðis hafa mjög kaldir vetur alls ekki látið sjá sig á nýrri öld. Minni munur er á hlýskeiðunum en samt voru kuldaköst 20.aldarhlýskeiðsins snarpari heldur en skyldulið þeirra á síðustu árum - eins og glögglega má sjá á myndinni. Er þetta allt í samræmi við ísrýrnun í norðurhöfum.

Veturinn nú er býsna ólíkur vetrinum í fyrra. Þá fór lengst af mjög vel með veður, óvenjusnjólétt var og lítið varð úr illu útliti. Veturinn nú byrjaði ekki illa, að vísu var umhleypingasamt í haust, en desember var sérlega hagfelldur. Um áramót skipti um og síðan hefur verið erfið tíð, sérstaklega í febrúar sem virðist ætla að verða með snjóþyngra móti, sérstaklega um landið sunnan- og vestanvert. Snjólétt hafði verið fram að því. Austanlands telja menn tíðina hafa verið allgóða, þrátt fyrir fáein skæð illviðri þar um slóðir.

Sem stendur virðast langtímaspár benda til þess að umhleypingatíðin haldi áfram - kannski verða austlægar áttir þó algengari en verið hefur og hiti ívið hærri. Við tökum þó hóflega mark á - oftast er ekki mikið á spár að treysta.


Hversu óvenjuleg er illviðratíðin?

Ekkert einhlítt svar er til við þeirri spurningu, en hér á eftir fer einfaldur samanburður sem byggist á stormdagavísitölu ritstjóra hungurdiska. Oft hefur hér verið fjallað um þessa vísitölu áður. Hún er þannig gerð að á hverjum degi er talið á hversu mörgum stöðvum í byggðum landsins vindur hefur náð 20 m/s og síðan deilt í þá tölu með heildarfjölda stöðva. Þá fæst hlutfallstala - af sérvisku einni notar ritstjórinn yfirleitt þúsundustuhluta. Næði vindur 20 m/s á öllum stöðvum væri þessi hlutfallstala því 1000 - nái vindur 20 m/s á engri er talan auðvitað núll. 

Hér á eftir hefur ritstjórinn lagt þessar hlutfallstölur hvers dags saman frá 1.júlí á síðasta ári allt til dagsins í dag - og stóð summan í morgun í 13840. Sú tala ein og sér segir ekki mikið - ekki fyrr en hún er borin saman við það sem hefur verið undanfarin ár - eða lengri tíma. Myndin á að sýna slíkan samanburð 9 ára.

w-blogg260222

Byrjað er að telja 1.júlí ár hvert - síðan haldið áfram allt til 30.júní. Tölurnar hækka mjög hægt í fyrstu - ekki er mikið um illviðri í júlí og ágúst, en eftir það fer að draga til tíðinda. Línurnar hækka síðan oftast ört sérstaklega eftir að kemur fram í desember. Í flestum árum er hækkunin ör allt þar til seint í mars - þá dregur úr og eftir 1. maí er oftast rólegt (þó ekki alveg alltaf). 

Núlíðandi vetur er merktur í rauðum lit (og með dálítið feitari línu en aðrir). Línan hækkaði nokkuð ört fyrst í haust - var fremst meðal jafningja í október - eftir talsverða illviðrasyrpu septembermánaðar. Síðan kom rólegt tímabil (miðað við það sem oftast er) - og um áramótin var staðan orðin sú að núlíðandi vetur var orðinn næstlægstur á línuritinu - enda var desember með rólegra móti - engin stórillviðri þá eins og sjá má 2014, 2015 og 2019. Í janúar og það sem af er febrúar hefur veturinn tekið fram úr hverjum á fætur öðrum og er nú kominn með næsthæstu summuna (af þessum 9). Það er aðeins illviðraveturinn mikli 2014 til 2015 sem er framar. Síðast var tekið fram úr 2019 til 2020 - nú fyrir nokkrum dögum. 

Það er alveg ljóst að veturinn nú verður ofan við 2013 til 2014, en auðvitað er ekki útséð með 2019 til 2020 - sá vetur átti mikinn sprett um mánaðamótin mars/apríl. Það er enn alveg hugsanlegt líka að hann muni ná 2014 til 2015 - en illviðrum má þá vart linna fyrr en í maí. 

Veturinn er nú þegar kominn framúr öðrum vetrum aldarinnar, nema 2007 til 2008, en hann endaði á svipuðum slóðum og 2019 til 2020. Nokkrir eldri vetur eru í flokki með 2014 til 2015 (sjá myndina) - en nákvæmur samanburður verður óljósari eftir því sem við förum lengra aftur - vegna stórfelldra breytinga á stöðvakerfinu og breytinga á athugunarháttum.

Af hægviðrasömum vetrum má nefna þann í fyrra, 2020 til 2021, sem var sá illviðraminnsti frá 1984 til 1985. Illviðraminnstur allra allt frá 1949 að minnsta kosti, var veturinn 1963 til 1964 - frægur fyrir hlýindi og góðviðri - mun maður vart lifa aftur annan slíkan. 

Svar við spurningunni í fyrirsögninni? Jú, þetta er með snarpara móti - (hvað sem svo verður). 


Enn eitt landsynningsveðrið

Eftir nokkuð fallegan dag (fimmtudag 24.febrúar) nálgast enn ein lægðin - líklega ekki alveg jafn illskeytt og þær sem ollu vandræðum mánudaginn 7. og mánudaginn 21. - en samt umtalsverð. Veldur miklu hvassviðri, trúlega rigningu á láglendi, en hríð til fjalla - þar á meðal á flestum fjallvegum. Ekkert ferðaveður satt best að segja - og varla innanbæjar einu sinni - þá vegna vatnselgs og tilheyrandi skyggnisleysis. Gangstéttir og stígar meira eða minna ófær.

w-blogg240222ib

Kortið gildir kl.15 síðdegis á morgun (föstudag) - þá er stutt í að skil lægðarinnar komi inn á land. Þá dregur talsvert úr afli veðursins. Litafletirnir sýna loftvogarbreytingu á milli kl.12 og 15. Þar sem mest er hefur hún fallið um nærri 15 hPa - ekki ósvipaður fallhraði og var í mánudagslægðinni síðustu. 

Myndin hér að neðan ber saman suður/norður-þversnið við Vesturland í fjórum illviðrum í þessum mánuði (skýrist talsvert sé myndin stækkuð). Litirnir sýna vindhraða, vindörvar líka vindátt (eins og væri um hefðbundið veðurkort að ræða). Jafnmættishitalínur eru heildregnar.

w-blogg240222ia

Öflugur landsynningurinn er sameiginlegur myndunum fjórum. Efst til vinstri er spá fyrir veður morgundagsins (gildir kl.12 á hádegi). Vindröstin kemur fram eins og pylsa á myndinni. Á fjólubláa svæðinu er vindur meiri en 40 m/s, mest um 45 m/s í um 850 hPa-hæð (um 1200 metrar). Bæði ofan og neðan við er vindur minni. Efst á myndinni má sjá í heimskautaröstina sjálfa, í 300 hPa eða hærra. 

Efst til hægri má sjá samskonar snið frá því á mánudaginn (21.). Þá var enn meiri vindur í landsynningsröstinni, um 53 m/s þar sem mest var - en í svipaðri hæð (850 hPa). Í grunninn er það hallinn sem sjá má á jafnmættishitalínunum í námunda við röstina sem knýr hana - kaldara er hægra megin á sniðinu heldur en vinstra megin. Auk þessa verða til nokkur þrengsli þegar loftið þarf annað hvort að beygja frá landinu - eða þvingast yfir það. Gróflega er röstin samspil þessara tveggja þátta. Sé rýnt í - má einnig sjá halla á jafnmættishitalínum við veðrahvörfin - hjálpar til. 

Neðst til vinstri er illviðrið mánudaginn 14. febrúar. Það er minnst þessara veðra - en samt er það nákvæmlega sömu ættar. Vindur er mestur rúmlega 40 m/s - og umfang rastarinnar heldur minna en á hinum myndunum.

Neðst til hægri er hins vegar mánudagsveðrið 7.febrúar. Það var nærri því eins öflugt og það 21. Hér er vindur umhverfis landssynningsröstina líka meiri en á hinum myndunum - einhver lítilsháttar bragðmunur í upphæðum - niðurstaðan hér í mannheimum þó svipuð. 

Tíma þeirra sem áhuga hafa á veðri er ágætlega varið við skoðun á þversniðum - en ekki fást þó allir til þess. 

Svo er að sjá sem lítið lát sé á umhleypingatíðinni. Næstu lægðar (að afloknum morgundeginum) er síðan að vænta á aðfaranótt mánudags. Spár virðast þó benda til þess að hún kunni að fara fyrir austan land - ekki sama bragð af henni og þeim hér að ofan, líklega leiðindi samt. Síðan er minnst á enn eitt landsynningsveðrið um miðja næstu viku. 

En ritstjóri hungurdiska hvetur alla til að fylgjast vel með spám Veðurstofunnar - þar er vel fylgst með. 

 


Loft að vestan - og síðan að norðan

Nú í kvöld - þriðjudaginn 22. febrúar - er komið skaplegt veður víðast hvar á landinu eftir rúmlega sólarhringsátök. Lægðin sem sótti inn yfir landið vestanvert í nótt - miðjuþrýstingur náði niður undir 945 hPa - er nú farin að grynnast og hún hefur hörfað vestur á Grænlandshaf. Þar tekur hún hring - verður svo gripin af kaldri háloftalægð sem fer til austurs fyrir sunnan land á morgun. 

Lægðin dró mikla stroku af köldu kanadalofti út yfir Atlantshaf - það er nú um það bil að ná til okkar - spurning hversu langt það fer norður á landið áður en það hörfar undan norðanáttinni sem nær undirtökum á landinu síðdegis og annað kvöld (miðvikudag). 

Á miðnætti í kvöld verður staðan þessi (að sögn harmonie-líkansins).

w-blogg220222a

Úrkomubakkinn við Suðurland er jaðar köldu strokunnar ð vestan. Ólgar þar og hrærist - vel blandað í glasi. Töluverð úrkoma virðist vera í þessum bakka. Þess vegna er spurning hvort bætir á snjóinn hér suðvestanlands í nótt eða í fyrramálið. Stendur það glöggt - því norðanáttin sækir fram fyrir norðan okkur. Við sjáum gríðarmikinn streng úti á Grænlandssundi. Heldur dregur úr honum þegar hann fellur suður yfir landið - en er þó nægilega öflugur til þess að Veðurstofan er með aðvaranir í gildi vegna hans um landið norðvestanvert - við tökum mark á þeim. 

w-blogg220222b

Hér má sjá ratsjármynd Veðurstofunnar kl. 21:20 nú í kvöld. Allmikill kraftur er í úrkomubakkanum - og svo sýnist sem hann hafi undið eitthvað upp á sig. 

w-blogg220222c

Það sést jafnvel betur á þessari mynd. Þar sýnist sem bakkinn sé samsettur úr fjölda lítilla kuðunga sem liggja hlið við hlið - væntanlega skiptast á snörp uppstreymissvæði með töluverðri úrkomu og síðan úrkomuminni belti á milli. Rétt fyrir ferðalanga sunnan- og suðvestanlands að gefa þessum bakka gaum í nótt og fram eftir morgni - sömuleiðis skefur ábyggilega á vegum þegar norðanstrengurinn nær undirtökum síðdegis.

Illviðrið í gær og í dag (21. og 22.) febrúar er í flokki þeirra verri hér á landi - miðað við vindhraða sennilega í flokki 10 til 15 verstu á þessari öld. Foktjón varð víða um land - auk þess sem vatnsagi olli sköðum og samgöngur röskuðust. Raflínur sködduðust. 

Nokkur tími verður þar til vindhraðamet á einstökum stöðvum verða staðfest - en líklega eru þau flest í lagi. Ársvindhraðamet voru slegin á þessum veðurstöðvum (upphafsár í sviga - aðeins stöðvar sem hafa mælt í meir en 18 ár eru tilgreindar): Haugur í Miðfirði (2003), Kálfhóll á Skeiðum (2003), Veiðivatnahraun (1993), við Gullfoss (2001), Skálholt (1998), Víkurskarð (1995) og Vatnsskarð eystra (1999). Uppgjör dagsins í dag (þriðjudags) hefur ekki borist þannig að hugsanlega bætast fleiri stöðvar við listann. Fjöldi febrúarmeta féll. 

Eins og minnst var á hér að ofan er þetta kalda loft sem sækir að landinu úr suðri sérlega vel hrært. Það sést vel á myndinni hér að neðan.

w-blogg220222d

Þetta er þversnið frá suðri (vinstra megin) til norðurs (hægra megin) - eftir 23°V, frá  63 til 67°N. Litir og vindörvar sýna vindátt og vindstyrk, en heildregnar línur mættishita. Það óvenjulega á þessari mynd er það hversu fáar jafnmættishitalínurnar eru. Yfir Faxaflóa er enga línu að finna fyrr en upp í um 700 hPa (3 km hæð) og þar fyrir ofan eru línurnar mjög gisnar, allt upp að veðrahvörfum í um 400 hPa hæð. Ofan veðrahvarfa (sem eru til þess að gera neðarlega) eru jafnmættishitalínur mjög þéttar að vanda. Eftir sólarhring verða 5 jafnmættishitalínur neðan 700 hPa ofan Faxaflóa - mun venjulegra ástand. Þéttni jafnmættishitalína sýnir hversu vel loftið er blandað (hrært) - því færri sem þær eru því betur er blandað. Þeir (fáu) sem fylgjast með myndum af þessu tagi ættu að gefa þessu gaum. 


Fylgst með þrýstibreytingum

Veðurnörðin fylgjast að sjálfsögðu með breytingum á loftþrýstingi - bæði í heimabyggð sem og á veðurkortum, ekki síst þegar þessar breytingar eru óvenjuhraðar. Þannig háttar til á landinu í dag, mánudaginn 21. febrúar. Ört dýpkandi lægð nálgast landið og loftvog þegar tekin við að hríðfalla þegar þetta er skrifað um kl.15. Frá hádegi hefur loftvogin í Reykjavík fallið um 8,6 hPa - og enn eykst hraði fallsins.

w-blogg210222i

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl.18 nú síðdegis mánudaginn 21.febrúar. Heildregnar línur sýna sjávarmálsþrýsting. Lægðin mikla á að hafa náð nærri því fullri dýpt, 950 hPa (miðjuþrýstingi er spáð niður í um 949 hPa síðar í kvöld - spennandi að sjá hvort þrýstingur fer enn neðar. Daufar strikalínur sýna þykktina, þeir sem rýna í mega taka eftir því að þykktin á að fara mest upp í um 5340 metra yfir landinu sunnanverðu síðar í kvöld (4 til 5 stiga hita þar sem mest verður - snjóbráðnun heldur hitanum þó niðri).

Lituðu fletirnir sýna þrýstibreytingu síðastliðnar 3 klst (milli kl.15 og 18). Þrjár klukkustundir voru hér á árum áður venjulegt bil á milli þess sem lesið var af kvikasilfursloftvog - og varð þar með eins konar staðaltími þrýstibreytinga. Nú gætum við þó hæglega talað um styttri tíma. Litakvarðarnir á kortinu eru þannig að þeir fara yfir í hvítt sé breytingin meiri en 16 hPa (fall eða ris). Það er mjög mikið á hverjum stað. Allt yfir 20 telst óvenjulegt og 25 hPa breyting á þrýstingi á 3 klst sést sárasjaldan. Þrýstifall hefur ekki náð 30 hPa á 3 klst hér á landi - svo vitað sé - gæti þó hafa átt sér stað en mælingar verið of gisnar til að grípa það. Íslandsmet í þrýstirisi er 33 hPa á 3 klst. 

Nú stefnir í að þrýstifall verði á bilinu  -16 til -18 hPa á 3 klukkustundum á Suðvestur- eða Suðurlandi. Séu spár réttar verður risið ekki jafnmikið - það verður farið að fletjast út (þótt það sé meira en fallið á þessu korti). Kannski 8 til 10 hPa á 3 klst. Það yrði sunnanlands, milli kl. 6 og 9 í fyrramálið (þriðjudag) í þann mund sem vestanáttin fellur inn á land. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.7.): 129
  • Sl. sólarhring: 194
  • Sl. viku: 1911
  • Frá upphafi: 2485197

Annað

  • Innlit í dag: 113
  • Innlit sl. viku: 1691
  • Gestir í dag: 103
  • IP-tölur í dag: 103

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband