Færsluflokkur: Vísindi og fræði
21.2.2022 | 13:14
Fyrstu 20 dagar febrúarmánaðar
18.2.2022 | 22:25
Hugleiðingar í köldum febrúar
Það sem af er hefur febrúar nú verið kaldur. Víða um land hinn kaldasti á þessari öld. Hann keppir helst við hinn sérkennilega nafna sinn árið 2002. Sá mánuður kólnaði eftir því sem á leið - þannig að enn er allsendis óvíst að sá núlíðandi geti slegið honum við. Febrúar 2002 er einn af sárafáum mánuðum þessarar aldar sem getur kallast kaldur - í hvaða tímasamhengi sem er.
Fyrir utan mjög slæmt norðanveður sem gerði fyrstu daga febrúar 2002 var tíð furðugóð - svona lengst af. Ritstjóri hungurdiska var alla vega hissa á blíðunni - blíða og kuldi gat sumsé farið saman. Ekki hefur það oft gerst nánast mánuðinn út í huga ritstjórans - en sýnir að veðrið á sér margar hliðar.
Einhverjir muna e.t.v. eftir illviðrinu í upphafi mánaðarins - um það segir í atburðayfirliti ritstjórans:
Fyrstu helgi mánaðarins gerði mikið norðanveður sem olli tjóni allvíða um vestan- og norðvestanvert landið og samgöngutruflunum víða um land. Talsvert tjón varð á nokkrum bæjum í Staðarsveit. Margar rúður brotnuðu í Lýsuhólsskóla og fólk varð þar veðurteppt, þar skemmdist einnig bíll, hesthús skemmdist á Lýsuhóli, hluti af fjárhúsþaki fauk á Bláfeldi og þar urðu fleiri skemmdir, gömul fjárhús og hlaða fuku í Hlíðarholti og refahús skemmdist í Hraunsmúla. Gamall fjárhúsbraggi eyðilagðist á Framnesi í Bjarnarfirði. Bílar fuku af vegum á Kjalarnesi, undir Ingólfsfjalli og tveir í nágrenni við Blönduós. Á Blönduósi varð mikið foktjón í iðnaðarhúsnæðinu Votmúla, rúður brotnuðu þar í fleiri húsum og bifreiðastjórar í nágrenninu óku út af vegum. Skaðar urðu á Hvammstanga. Nokkuð foktjón varð í Reykjavík og loka þurfti Sæbrautinni vegna sjógangs. Víða urðu miklar rafmagnstruflanir. Bifreiðir fuku út af vegi undir Ingólfsfjalli og í Kollafirði, báðir bílstjórar slösuðust. Bíll sem kviknaði í við Haukaberg á Barðaströnd fauk síðan út af veginum. Brim olli talsverðu tjóni á Drangsnesi. Prestsetrið í Reykholti skemmdist lítillega þegar byggingarefni fauk á það. Mikill sjógangur var á Suðurnesjum og flæddi sjór í nokkra kjallara í Keflavík og þar skaddaðist sjóvarnargarður og hluti Ægisgötu fór í sjóinn. Flutningaskip lentu í vandræðum í höfninni á Sauðárkróki.
Á kalda tímabilinu 1965 til 1995 hafði febrúarmánuður þá sérstöðu að vera eini mánuður ársins sem ekkert kólnaði - miðað við hlýindaskeiðið næst á undan. Meðalhiti á landsvísu var meira að segja um 0,4 stigum hærri 1961 til 1990 heldur en 1931 til 1960. Bæði janúar og mars voru hins vegar talsvert kaldari heldur en verið hafði á hlýskeiðinu. Væri janúar kaldur var maður eiginlega farinn að gera ráð fyrir talsvert hlýrri febrúar - en aftur mjög köldum mars. En svona reglur eiga sér þó enga langtímastoð.
Á tímabilinu frá 1961 fram til 2002 höfðu febrúarmánuðir áranna 1989, 1973, 1969 og 1966 þó allir verið kaldir eða mjög kaldir. Bakgrunnur þessara kulda var þó ekki hinn sami.
Hér að ofan má sjá kort sem sýna veðurstöðuna í fjórum köldum febrúarmánuðum, 2002, 1989, 1969 og 1947. Notast er við endurgreiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar - í aðalatriðum treystandi. Heildregnar línur sýna hæð 500 hPa-flatarins, strikalínur þykktina en þykktarvik eru lituð, bláleit eru neikvæð og sýna kulda, en hlýindi eru gul og rauð. Myndin verður talsvert skýrari sé hún stækkuð.
Árin 2002 og 1989 getum við gróflega sagt að kuldinn sé af vestrænum uppruna. Sérlaga kalt er vestan Grænlands og þaðan liggur strókur af kulda í átt til Íslands. Í febrúar 1969 ber svo við að hlýtt er vestan Grænlands, en neikvæðu vikin eru mest við Bretlandseyjar. Þykktin er ekki mjög langt undir meðallagi hér við land - í raun var töluvert kaldara heldur en þykktin ein segir. Árið 1947 var alveg sérlega kalt í Evrópu - þetta er einn frægra kulda- og vandræðavetra þar um slóðir. Einnig var kalt hér við land - við vitum hins vegar ekki hvort þykktin var í raun svona lítil - má vera að óvissa sé í greiningunni (sem er ekki 1969). Þó mánuðurinn væri kaldur hér - var hann samt talsvert hlýrri heldur en þykktin gefur til kynna.
Við lítum nú á samband mánaðarmeðalhita á landsvísu og þykktar í febrúar.
Lárétti ásinn sýnir meðalþykkt, en sá lóðrétti meðalhita hvers febrúarmánaðar. Ártöl eru sett við hvern mánuð. Við sjáum að febrúarmánuðir áranna 2002 og 1989 falla ekki langt frá aðfallslínunni - þykktin fer nærri um hitann. Þessir mánuðir voru þó allólíkir að veðri. Eins og áður sagði var tíð í febrúar 2002 furðugóð miðað við kulda og snjóalög - en heldur ömurleg og erfið í febrúar 1989, snjór mikill og samgöngur erfiðar.
Hér sést vel að hiti í febrúar 1969 er langt neðan aðfallslínunnar. Landsmeðalhiti var þá um -4,4 stig (er í kringum -3 stig það sem af er þessum mánuði), en hefði átt að vera um -1,6 stig - hefði þykktin ráðið. Þetta er að vísu undir meðallagi, en hátt í 3 stigum kaldara en vænta mætti. Loft í neðri hluta veðrahvolfs var ekki sérlega kalt - en kalt var í neðstu lögum. Skýringin er tiltölulega einföld - norðanátt var sérlega þrálát og hafísútbreiðsla gríðarleg í norðurhöfum, allt að Íslandsströndum. Loftið var mun stöðugra heldur en venjulega. Við sjáum að fleiri febrúarmánuðir eru ámóta langt frá aðfallslínunni - 1955, 1968 og 1966 - allt saman norðanáttamánuðir þegar austurgrænlandsloft hafði undirtökin hér á landi. Í febrúar 1947 er eitthvað annað uppi á teningnum - þá var mun hlýrra heldur en aðfallslínan segir að það hefði átt að vera. Kannski var þykktin ekki svona lítil - en kannski var sjór í norðurhöfum hlýr. Þarfnast nánari skoðunar?
Langhlýjasti febrúarmánuður alls þessa tímabils (eftir 1920) var 1932. Hann er á nákvæmlega sínum stað (giski endurgreiningin rétt á þykktina - það vitum við ekki).
Þó þykktin ráði miklu um hitafar er hún samt að miklu leyti afleiðing af ríkjandi vindáttum. Hvaðan er loftið að koma? Ritstjóri hungurdiska hefur lengi fylgst náið með stöðunni í háloftunum - lengst af með hjálp svonefndra hovmöllerstika eða mælitalna. Þessar mælitölur voru skýrðar í löngu máli í pistli sem birtist hér 3. maí 2918. Mældur er styrkur vestan- og sunnanátta yfir Íslandi - en þriðji þátturinn er hæð 500 hPa flatarins. Reynslan sýnir að því sterkari sem vestanáttin er því kaldara er hér á landi, því meiri sem sunnanáttin er því hlýrra er og því hærra sem 500 hPa-flöturinn liggur, því hlýrra er í veðri. Hæðarþátturinn segir að nokkru leyti frá því af hvaða breiddarstigi loftið er komið. Áhrif vestanþáttarins eru minni en hinna tveggja.
Við reiknum meðaltöl þessara þriggja þátta í hverjum mánuði og finnum samband við hitann. Í ljós kemur að fylgnistuðull er mjög hár (0,84) - við giskum síðan á meðalhita hvers mánaðar. Febrúarmyndin er svona:
Ágiskaður hiti er á lóðrétta ásnum, en sá mældi á þeim lárétta. Höfum bak við eyrað að endurgreiningin er ekki endilega rétt - og sömuleiðis er nokkur óvissa í reikningum landsmeðalhita. Febrúar 1932 sker sig úr sem fyrr - þá var bæði mjög mikil sunnanátt - og 500 hPa-flöturinn óvenjuhár (loftið af óvenjusuðrænum uppruna). Við sjáum að hér er febrúar 1969 heldur nær aðfallslínunni heldur en á fyrri mynd - og febrúar 1947 sker sig ekki úr. Það gerir hins vegar febrúar 2014 - sumir muna að það var sérlega óvenjulegur mánuður. Hann er hér mun hlýrri heldur en háloftastikarnir gefa einir til kynna.
Ritstjórinn getur bent á það að á köldu hliðinni (þeir febrúarmánuðir sem liggja langt til hægri við aðfallslínuna) eru engir nýlegir mánuðir - febrúar 2002 að vísu þeim megin línunnar. Meira er af nýlegum febrúarmánuðum ofarlega í skýinu (lengst frá línunni til vinstri) þar á meðal áðurnefndur febrúar 2014 sem og febrúar 2020.
Þegar tíu dagar eru eftir af febrúar 2022 er tilfinningin sú að líklega verði meðalhæð 500 hPa-flatarins mjög lág þegar upp er staðið - sunnanáttin verður trúlega undir meðallagi (það er þó ekki útséð) - en vestanáttin kannski nærri meðallagi (heldur ekki útséð). Það verður því líklega hinn lági 500 hPa-flötur sem stendur fyrir kuldanum nú - loft af norrænum uppruna - í þessu tilviki að vestan, svipað og 2002 og 1989. Hvorum þeirra mánuðurinn verður svo líkari í minningunni vitum við ekki. Þrátt fyrir margs konar leiðindi í veðri hefur samt hingað til farið vel með - miðað við aðstæður.
Vísindi og fræði | Breytt 19.2.2022 kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2022 | 11:46
Fyrstu 15 dagar febrúarmánaðar
Fyrstu 15 dagar febrúar hafa verið kaldir hér á landi. Meðalhiti í Reykjavík er -2,1 stig, -2,5 stigum neðan meðallags sömu daga áranna 1991 til 2020, og -3,3 stig neðan meðallags síðustu tíu ára. Í Reykjavík er hitinn í næstkaldasta sæti aldarinnar (aðeins var kaldara sömu daga 2002, -2,2 stig). Hlýjastir voru dagarnir 2017, meðalhiti +4,1 stig. Á langa listanum er hiti nú í 118. sæti (af 150). Kaldastir voru þessir dagar 1881, meðalhiti þá -5,9 stig, en hlýjast var 1932, meðalhiti +4,5 stig.
Á Akureyri er meðalhiti nú -4,3 stig, -3,4 stig neðan meðallags 1991 til 2020 og -4,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
Á Vestfjörðum, Austfjörðum, Suðausturlandi og Suðurlandi eru dagarnir þeir köldustu á öldinni, en næstkaldastir á öðrum spásvæðum.
Kaldast að tiltölu hefur verið í Möðrudal, þar er hiti -5,5 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Minnst er hitavikið miðað við síðustu tíu ár á Reykjanesbraut, -2,6 stig.
Tvö landsdægurlágmarksmet hafa verið sett, þann 13. og 14. í Möðrudal - og slá út eldri met sem líka voru sett á þeim stað, annað 1988 (13.) og hitt 1888 (14.). Hiti fór niður í -26,8 stig þann 14. (hafði komist í -26,2 stig 1888 - en þá var reyndar ekki lágmarkshitamælir á staðnum og þar með er ekki víst að mælingin sýni lægsta hita þann dag).
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 43 mm, og er það í tæpu meðallagi. Úrkoma á Akureyri hefur mælst 56 mm, rúmlega tvöföld meðalúrkoma sömu daga 1991 til 2020.
Sólskinsstundir hafa mælst 32,5 í Reykjavík, en 16,3 á Akureyri - í rétt rúmu meðallagi á báðum stöðum.
Ekki virðast miklar breytingar á veðurlagi á döfinni - þó hiti gæti komist upp fyrir frostmark á hluta landsins dag og dag.
11.2.2022 | 12:20
Fyrstu 10 dagar febrúarmánaðar
10.2.2022 | 17:55
Liggur í loftinu
Þó veðrið sé rólegt í dag - og verði það sennilega líka næstu daga - liggja samt ákveðin vandræði í lofti. Vetrarbragð.
Myndin sýnir stöðuna á morgun, föstudaginn 11. febrúar - eins og evrópureiknimiðstöðin hugsar sér hana. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, af þeim ráðum við vindstyrk og vindstefnu í miðju veðrahvolfi. Þykktin er sýnd með litum, hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Grænu litunum fylgir almennt frostleysa - eða frostlint veður, ljósasti blái liturinn nokkuð óráðinn sitt hvoru megin frostmarksins - en dökkbláu litirnir eru kaldir - þeir fjólubláu ofurkaldir.
Við sjáum tvo meginkuldapolla norðurhvels, sem við til hagræðis köllum Stóra-Bola og Síberíu-Blesa. Sá síðarnefndi er í slakara lagi - eins og lengst af í vetur. Stóri-Boli hefur náð sér nokkuð vel á strik upp á síðkastið - og hefur eðlilegt og heilbrigt útlit - án mjög mikilla öfga þó á þessu korti. Við þurfum þó alltaf að gefa honum og hreyfingum hans gætur.
Á morgun (föstudag) verður lægð að fara hratt til suðurs fyrir sunnan land. Hún virðist aðallega meinlítil - og nær ekki að grafa um sig í námunda við landið. Síðan kemur dálítill hæðarhryggur (rauð punktalína) í kjölfarið - allt í rólegheitum meðan hann fer hjá. Eitthvað eru spár hins vegar að velta upp möguleika á smálægðardragi við Suðvesturland á sunnudag - eða sunnudagskvöld. Það myndi bæta í snjóinn um landið suðvestanvert.
Næstu bylgjur eru síðan vestur yfir Ameríku (svartar strikalínur). Reiknilíkönin eru dálítið óráðin með örlög þeirra. Helst er því haldið fram að svo stutt sé á milli draganna að það fyrra nái sér lítt á strik og renni aðallega til austurs fyrir sunnan land. Gæti þó hæglega valdið leiðindum hér á mánudag - ekki þarf mikið til vegna stöðu Bola.
Síðan er allt í óvissu. Reikningar eru þó helst á því að vetrarríki haldi áfram. Fari svo er mjög líklegt að annað hvort sé (talsvert) meiri snjór í vændum - eða fleiri óskaplega djúpar lægðir (rigning og snjór). Kannski hvort hvort tveggja.
Aldrei þessu vant eru reiknimiðstöðvar nokkuð sammála um að lægðagangur haldi áfram afgang mánaðarins og áfram allan marsmánuð. En slíkar spár eru auðvitað frægar fyrir að bregðast (en ekki er einu sinni hægt að vera viss um að þær séu rangar) - og ekkert segja þær um það hvort lægðirnar verði slakar eða snarpar.
9.2.2022 | 22:28
Illviðrametingur - mánudagsillviðrið
Ritstjóri hungurdiska telur illviðradaga. Hann hefur lengst af notað tvær aðferðir til að meta styrk illviðra - á landsvísu. Annars vegar telur hann á hversu mörgum veðurstöðvum í byggð vindhraði hefur náð 20 m/s (einhvern tíma sólarhringsins - 10-mínútna meðaltal) og hve hátt hlutfall sá fjöldi er af heildarfjölda veðurstöðva. Hins vegar reiknar hann meðalvindhraða allra veðurstöðva - allan sólarhringinn.
Til að komast á fyrri illviðralistann þarf fjórðungur veðurstöðva að hafa náð 20 m/s markinu, en til að komast á þann síðari þarf meðalvindhraði að vera meiri en 10,5 m/s. Sögulegar ástæður eru fyrir þessari pörun - hún þarf ekkert að vera nákvæmlega þessi.
Þessar tvær flokkanir mæla ekki alveg það sama - sú fyrri (vindhraðahlutfallið) segir vel frá snerpu veðra - skila sér vel á lista þó þau standi ekki lengi á hverjum stað. Hin síðari (sólarhringsmeðaltalið) mælir úthald vel. Veður sem ekki er yfirmáta mikið getur komist á þann lista haldi það áfram allan sólarhringinn.
Veðrið á mánudaginn (7.febrúar) skorar hátt á snerpulistanum, fær 620 stig (af 1000 mögulegum) í einkunn. Þetta er hæsta hlutfall síðan 14. febrúar 2020 - og sé farið lengra aftur komum við að 7. og 8. desember 2015 - og 14. mars sama ár. Töluvert tjón varð í þessum veðrum öllum.
Á úthaldslistanum er veðrið miklu minna, meðalvindhraði 11,2 m/s, svipað og 22.janúar á þessu ári. Mánudagsveðrið varð því býsna snarpt, en hafði ekki mikið úthald (náði þó á listann).
Myndin sýnir hvernig dagar falla á þessa tvo flokkunarvísa. Lárétti ásinn sýnir snerpuna, en sá lóðrétti úthaldið. Við sjáum að allgott samband er á milli. Lóðréttu og láréttu strikalínurnar sýna mörkin áðurnefndu og skipta fletinum í fjögur svæði eða horn. Í horninu sem er efst til hægri eru 149 dagar áranna 1997 til 2020 - þetta eru dagar þegar illviðri höfðu bæði snerpu og úthald. Í neðra horninu til hægri eru 145 dagar - sem komast allir á snerpulistann - en skorti úthald. Í efra horni til vinstri eru 87 úthaldsgóðir dagar - sem komast ekki á snerpulistann. Í neðra horni til vinstri er svo afgangur daganna - sem gera ekki tilkall til að komast á illviðralistana (takið þó eftir því að vel má vera að hvesst hafi illa í einstökum landshlutum eða stöðvum þessa daga).
Efst á snerpuleistanum er mikið vestanveður sem gerði í nóvember árið 2001. Efst á úthaldslistanum er norðaustanillviðri mikið í janúar 1999. Á myndinni bendir ör á veðrið á mánudaginn - það var greinilega alvöru.
Til gamans eru líka merkt inn veður sem stóðu sig í öðrum hvorum flokknum - en illa í hinum. Norðaustanveður sem gerði 10. desember árið 2000 virðist hafa haft gott úthald - en ekki komist í stormstyrk víða. Þá fauk þó áætlunarbifreið út af vegi við Hafursfell á Snæfellsnesi. Veðrið sem við nefnum fyrir snerpu - en lélegt úthald gerði 11. desember árið 2007 - af suðaustri. Þetta var reyndar nokkuð minnisstætt veður og segir í atburðaskrá ritstjóra hungurdiska:
Talsverðar skemmdir af foki um landið suðvestanvert, mest í Hafnarfirði, Kópavogi og í Reykjanesbæ. Járnplötur fuku, rúður brotnuðu, bátur slitnaði upp, hjólhýsi tókust á loft og mikið af jólaskrauti skemmdist. Skemmdir urðu einnig í Vestmannaeyjum. Gámur og hjólhýsi fuku á hliðina í Njarðvík.
Það er skemmtilegt við þetta síðarnefnda veður að bæði 2006 og 2007 gerði svipuð veður nærri því sömu daga í desember - og ruglast í höfði ritstjórans (og hugsanlega fleiri).
Hér hefur verið miðað við sjálfvirka stöðvakerfið eingöngu. Ritstjórinn á ámóta lista fyrir mönnuðu stöðvarnar. Báða flokka veðra aftur til 1949 - og snerpuflokkinn aftur til 1912. Á þessu langa tímabili hafa orðið miklar breytingar á stöðvakerfinu sem og athugunarháttum. Í ljós kemur að hlutfall illviðraflokkanna tveggja er ekki alveg það sama nú og það var fyrir 70 árum. Ástæðurnar eru kannski fyrst og fremst þær að athuganir voru miklu færri að nóttu á árum áður - sólarhringurinn var því styttri en hann er nú - og síðan hefur mönnuðum stöðvum fækkað svo á síðustu árum að kerfið missir frekar af snörpum en skammvinnum veðrum heldur en áður var. Við erum komin á svipaðar slóðir og var fyrir 100 árum. En vindathuganir sjálfvirka kerfisins eru þó miklu betri heldur en var - þannig að við getum ekki beinlínis saknað mönnuðu stöðvanna vindsins vegna - heldur fremur af öðrum ástæðum.
En lítum samt á samskonar mynd fyrir mönnuðu stöðvarnar - allt aftur til 1949.
Hér sjáum við að fleiri veður eru í efra vinstra horni heldur en í því hægra neðra (öfugt við það sem er á fyrri mynd). Líkleg ástæða er hinn styttri sólarhringur fyrri tíma. Versta veðrið í snerpuflokknum er hið illræmda veður 3. febrúar 1991, en í úthaldsflokknum annað, líka illræmt, 29. janúar 1966 (af norðaustri). Það veður stóð reyndar í meir en 3 sólarhringa - sérlega úthaldsgott. Um bæði þessi veður hefur verið fjallað nokkuð ítarlega hér á hungurdiskum.
Eitt veður kemst í úthaldsflokkinn - án þess að skora stig í snerpuflokknum. Það er norðanveður 26.apríl 2015. Ritstjóri hungurdiska kvartaði þá um kulda og trekk í pistli (ekki alveg af ástæðulausu).
Hinu megin eru tvö veður merkt, annað 13. janúar 1967 - af suðvestri, þetta er afgangur af öllu harðara veðri daginn áður (og líklega fram eftir nóttu). Í því veðri varð foktjón. Þessir dagar eru minnisstæðir ritstjóranum fyrir mikla glitskýjasýningu norðaustanlands - hafði hann aldrei séð slík ský áður.
Hitt dagsetningin er 14. janúar 1982 - skilar sér vel í stormatalningu - en illa í meðalvindhraða vegna skorts á næturathugunum. Eitthvað rámar ritstjórann í þetta veður - var líklega á vakt öðru hvoru megin við það.
Nokkur vinna fellst í því að tengja gagnaraðir mannaða og sjálfvirka stöðvakerfisins saman þannig að ekki verði ósamfellur til ama. Ólíklegt er að ritstjóra hungurdiska endist þrek til þess - og viðbúið að nútíminn finni einhverjar allt aðrar skilgreiningar á illviðrum. Í besta falli gæti ritstjórinn endurskrifað eða endurbætt langa ritgerð sem hann tók saman fyrir nærri 20 árum - tími til kominn.
8.2.2022 | 17:49
Leifar lægðarinnar
Lofthjúpur og haf eru fáeina daga að jafna sig eftir illviðrið. Kalda loftið úr vestri og sjórinn hafa ekki náð jafnvægi - miklir éljabakkar og klakkar á ferð. Öldugangur enn mikill - undiröldu mun ábyggilega gæta næstu daga langt suður eftir Atlantshafi - kannski til Brasilíustranda eða lengra.
Eins og oft gerist í djúpum lægðum lokaðist hlýtt loft inni nærri lægðarmiðjunni. Tíma tekur fyrir það að kólna eða blandast umhverfinu. Það ber einnig í sér mikinn snúning (iðu) - sem ekki gufar upp á andartaki - munum að iða varðveitist (veldur margskonar skringilegheitum).
Hér sjáum við stöðuna kl.21 í kvöld (þriðjudag). Heildregnu línurnar sýna hæð 700 hPa flatarins. Innsti hringurinn í lægðarmiðjunni fyrir suðvestan land er í rúmlega 2400 metra hæð - það er lágt, en vantar þó um 100 metra niður í flatarmet febrúar yfir Keflavíkurflugvelli. Vindörvar sýna vindátt og vindhraða. Litir marka hitann. Hitinn í lægðarmiðjunni er um -12°C - um 5 stigum hærri en spáin yfir Keflavíkurflugvelli. Greinilega hlýkjarna lægðarmiðja á ferð - einskonar litlasystir fellibylja hitabeltisins. Hún er á ákveðinni leið til austurs og síðar suðausturs. Sé að marka spár heldur snúningurinn svo vel utan um hana að hægt á að verða að fylgja hlýja blettinum allt austur undir Hvítarússland (Belarus) á laugardaginn - en þó dregur smám saman úr mun á hita hans og umhverfisins.
Lægðasveipir sem þessir sjást stundum ná upp í heiðhvolfið - og trufla veðrahvörfin - miklu fremur þó þeir sem eiga sér kalda miðju (öfugt við það sem hér er). Nú hagar þannig til að uppi í 300 hPa (í um 8500 m hæð) vottar ekkert fyrir lægðasveipnum.
Þetta kort sýnir stöðuna í 300 hPa um hádegi á morgun (miðvikudag). Þá verður hlýja lægðarmiðjan stödd suður af Ingólfshöfða (við L-ið á myndinni). Svo sýnist sem þarna uppi sé öllum sama. Það sem er merkilegt við þetta kort er kuldinn við Vesturland. Spáin segir að frostið í 8400 metra hæð eigi að vera -65°C. Sé kafað í metalista kemur í ljós að kuldi sem þessi er ekki algengur í febrúar (og reyndar aldrei). Ekki vantar mikið upp á febrúarmetið í Keflavík (-66 stig, sett 1990). Sé rýnt í hitaritaspár (þær sýna hita í veðrahvolfs og neðri hluta heiðhvolfs yfir ákveðnum stað) kemur í ljós að um hádegi á morgun (miðvikudag) eru veðrahvörfin einmitt í 300 hPa. Ekki treystir ritstjóri hungurdiska sér til að segja af eða á um orsakir þessa kulda - hann gæti verið kominn að norðan. Aftur á móti tók hann eftir því að óvenjumikil kólnun átti sér stað í 500 hPa í vestanstorminum í gær - svo virðist sem að illviðrinu hafi tekist að hræra upp í veðrahvolfinu öllu - þannig að mættishitastigull í efri hluta þess var með minna móti.
Við skulum að lokum líta á eina erfiðari mynd - vind- og mættishitaþversnið í gegnum lægðarmiðjuna sunnan við land um hádegi á morgun. Reikningar harmonie-líkansins (lægðin er aðeins vestar heldur en hjá reiknimiðstöðinni - en eðli hennar nákvæmlega hið sama).
Sniðið liggur frá suðri til norðurs (eins og litla kortið sýnir - þar eru heildregnar línur sjávarmálsþrýstingur). Sniðið til hægri á myndinni sýnir þó aðeins hluta þess - frá suðurjaðrinum rétt norður að suðurströndinni. Litir sýna vindhraða, vindörvar vindátt og vindhraða og heildregnar línur eru mættishiti.
Fyrir sunnan lægðarmiðjuna (lengst til vinstri á myndinni) blæs vindur af vestri, um 25 m/s, allt frá jörð og upp í 550 hPa - nyrðri mörk vindstrengsins eru mjög skörp. Norðan lægðarmiðjunnar er annar ámóta strengur, nema hann er grynnri, nær ekki nema upp í um 800 hPa. Þar blæs vindur af norðaustri. Lægðarmiðjan er þarna á milli. Í henni er vindur mun hægari og áttin breytileg.
Ef við rýnum í jafnmættishitalínurnar sést að kaldara er í vindstrengjunum báðum heldur en í lægðarmiðjunni - munar nokkrum stigum (hér er mælt í Kelvinkvarða, 283 = 10°C). Brúnu strikalínurnar marka gróflega jaðar kerfisins, en rauða punktalínan fylgir nokkurn veginn hlýjasta kjarnanum. Um lægðir af þessu tagi hefur verið margt og mikið ritað. Ritsjórinn fylgdist allvel með þeirri umræðu hér á árum áður, en en hefur slegið nokkuð slöku við á seinni árum. Ástæður hlýindanna geta verið fleiri en ein, innilokun á lofti að sunnan, niðurstreymi á einhverju stigi lægðamyndunarinnar, blöndun á lofti úr heiðhvolfinu þegar óðadýpkunin átti sér stað, dulvarmalosun í kerfinu áður en lægðin var fullmynduð, dulvarmalosun í kerfinu eftir að leifalægðin varð til - eða jafnvel allt þetta og fleira til - þar sem orkusamskipti við yfirborð sjávar koma við sögu. Fyrir 35 árum voru menn jafnvel dónalegir við hvern annan þegar þetta var rætt. En ritstjórinn er farinn að dragast aftur úr fræðilegu umræðunni, segir því sem minnst og hefur lítt til mála að leggja - nema benda á.
6.2.2022 | 18:20
Fáeinir punktar um illviðrið
Nú stefnir enn ein lægðin til okkar. Hún er með dýpsta móti. Spár eru yfirleitt með tæplega 930 hPa í miðju, kannski 928 hPa. Þar sem lægðin fer ekki yfir landið verður þrýstingur samt ekki svo lágur hér á landi, kannski niður undir 956 hPa þegar lægst verður - þá annað kvöld (mánudag). Spár virðast sammála um að veðrið verði verst seint í nótt eða undir morgun á landinu suðvestanverðu - en eitthvað síðar annars staðar. Vindátt veður af suðaustri - eða landsuðri eins og oft er sagt.
Það sem hér fer á eftir er ekki alveg fyrir hvern sem er - kannski enga. Aðrir lesendur hungurdiska eru beðnir forláts.
Hér má sjá stöðuna í 500 hPa, eins og evrópureiknimiðstöðin gerir ráð fyrir að hún verði kl.6 í fyrramálið, um þær mundir sem veðrið verður hvað verst hér suðvestanlands. Lægðin varð til - eins og margar systur hennar - í jaðri kuldapollsins mikla Stóra-Bola. Til allrar hamingju heldur hann sig þó að mestu vestan Grænlands - nóg eru leiðindin samt. Stóri-Boli hefur hingað til í vetur látið heimskautaröstina að mestu í friði hér við land - (kannski ekki alveg satt - en nógu satt) - enda var hann aðallega að plaga Alaskabúa (sem er algengt) og líka vesturströnd Kanada (sem er síður venjulegt).
Við sjáum að stroka af köldu lofti (litir sýna þykktina að vanda) stendur frá Bola og til austurs fyrir sunnan Hvarf á Grænlandi - og í átt til okkar. Einnig hefur lægðin dregið nokkuð af hlýju lofti sunnan úr höfum hingað norður. Þetta er allt saman afskaplega stílhreint.
Þetta er sama myndin - bara stækkuð til þess að við sjáum smáatriðin betur. Rauða strikalínan sýnir ás hlýja loftsins - þar er hlýjast á hverju hæðarbili - gráhvít strikalína sýnir aftur á móti ás kalda loftsins. Mest samsvörun er á milli háloftavinda og vinda niður undir jörð nærri slíkum ásum - eða þar sem mikil flatneskja er í þykktinni. Á svæðum þar sem þykktin vex með lækkandi hæð 500 hPa-flatarins er vindur í lægri lögum meiri heldur en háloftavindurinn gefur til kynna. Þannig er staðan sunnan við lægðarmiðjuna - hlýr kjarni í háloftalægð bætir í vind - kaldur kjarni dregur hins vegar úr honum.
Hér á landi verður einna hvassast þegar hlýi ásinn fer hjá. Þá nær háloftaröstin sér hvað best niður - en þar að auki bætast áhrif kalda lofsins á undan við - því þarf að ryðja burtu - það tekur tíma - þar til stíflan annað hvort brestur - eða flyst til. Á eftir skilunum fylgir hins vegar svæði þar sem þykktarbratti dregur úr vindi - það er kaldara lægðar - en hæðarmegin. Spár gera enda ráð fyrir því að vindur gangi mjög niður til þess að gera snögglega eftir að hlýi þykktarásinn (skilin) eru farin hjá.
Síðan nálgast kaldi ásinn - eins og við sjáum er þykktarbrattinn þar hlutlaus - nánast þvert á vindáttina. Þar geta háloftavindar náð sér niður - og norðan ássins er vindur nærri jörð meiri en háloftavindurinn. Það vill bara svo til að háloftalægðin mun síðan fara að grynnast og þá dregur úr vindi - þrátt fyrir þann vindauka sem hlý lægðarmiðjan gefur.
Fyrir sunnan lægðarmiðjuna er gríðarleg vestan- og suðvestanátt sem magnar upp feiknaöldu á Grænlandshafi - þessi alda berst upp að ströndinni síðdegis á morgun (mánudag) og aðra nótt - rétt að hafa gæta sín við sjávarsíðuna.
Þriðja myndin er ekki auðveld - en sýnir snið meðfram vesturströnd landsins (smámynd í efra hægr horni) - frá jörð og upp í um 10 km hæð. Syðsti hluti sniðsins er lengst til vinstri - við sjáum Snæfellsnes og Vestfirði sem gráar hæðir neðst á myndinni. Litir sýna vindhraða í m/s, einnig má sjá vindhraða og vindátt á vindörvunum. Jafnmættishitalínur eru heildregnar.
Hér sjáum við vel að lengst til vinstri eru skil lægðarinnar farin yfir - háloftavindstrengurinn mikli (efst á myndinni) nær ekki af fullu afli niður til jarðar (það svæði er inni í sporöskjunni á fyrri mynd - þar sem þykktarbrattinn vinnur á móti). Vindur er mestur í um 1500 metra hæð (svipað og hæstu fjöll) - um 50 m/s - um það bil nærri hlýja ásnum á fyrri mynd. Landsynningsveður eru af tveimur megingerðum - svona - þegar fyrirstaða er í köldu lofti norðan við (við getum greint það af halla mættishitalínanna) - en í hinni tegundinni nær meginröstin niður í átt til jarðar.
Sjálfsagt er hér um einhverja blöndu af þessum tveimur megingerðum að ræða.
Hvað sem öðru líður er margs konar óvissa tengd þessu veðri - við látum það vera hér að masa um hana - treystum Veðurstofunni til að fylgjast vel með og færa okkur nýjustu spár og fréttir á fati.
Vísindi og fræði | Breytt 7.2.2022 kl. 09:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2022 | 14:48
Smávegis af janúar
Veður var heldur órólegt í janúar, Austurland slapp þó einna best - og þar var úrkoma minnst. Fokskaðar urðu þó þar snemma í mánuðinum. Þegar á heildina er litið virðist mánuðurinn hafa verið sá næststormasamasti á öldinni - á eftir janúar árið 2020. Meðan við bíðum eftir uppgjöri Veðurstofunnar fyrir einstakar stöðvar lítum við (óábyrgt) á meðalhitaröðun á spásvæðunum.
Hitinn er víðast nærri meðallagi, raðast í 10. til 12. hlýjasta sæti (af 22) á flestum svæðum. Vestfirðir skera sig þó aðeins úr. Þar var mánuðurinn í 19. hlýjasta (fjórðakaldasta) sæti aldarinnar - kannski í samræmi við það að lægðir fóru margar hverjar yfir landið þannig að sunnanhlýindi lægðanna náðu sjaldnar vestur á firði heldur en í aðra landshluta.
Háloftauppgjör sýnir að langt er síðan vestanátt háloftanna hefur verið svona stríð í janúar. Við þurfum að fara aftur til janúarmánaðar 1981 til að finna svipað - og síðan benda endurgreiningar (bæði sú bandaríska og sú evrópska) á janúar 1923 sem eitthvað svipað.
Myndin sýnir meðalhæð hæð 500 hPa-flatarins í janúar. Hún var ekki fjarri meðallaginu hér á landi, en mikil jákvæð vik voru sunnan við land, en neikvæð norður og vestur undan. Þetta þýðir að vestanáttin var umtalsvert stríðari en venjulegt er. Við sjáum líka að áttin var sunnan við vestur (eins og reyndar er langalgengast).
Í janúar 1981 var jákvæða vikið sunnan við land enn meira en nú - og staðan vestan Grænlands nokkuð önnur heldur en nú.
Illviðrasamt var í janúar 1981. Það gerðist nokkrum sinnum að bílar fuku af vegum og foktjón varð. Sömuleiðis urðu krapa- og vatnsflóð seint í mánuðinum. Minnisstæðast er framhlaupið við Lund í Lundarreykjadal, en það sópaði burt fjósi, hlöðu og litlu hesthúsi og drap nokkra gripi. Mál sem þyrfti sannarlega að rannsaka nánar (ég man ekki eftir sérstakri skýrslu um þetta). Sömuleiðis varð flóð á Sauðárkróki og krapahlaup á Bíldudal.
Annars hurfu illviðri janúarmánaðar 1981 mjög í skuggann fyrir veðrinu mikla 16.febrúar en það var gjarnan kennt við Engihjalla í Kópavogi. Eitt af verstu veðrum síðari tíma. Fjallað var um það í sérstökum pistli hér á hungurdiskum fyrir nokkrum árum.
Kortið hér að ofan er ágiskun um stöðuna í janúar 1923. Þetta var afskaplega illviðrasamur mánuður, eins og lesa má um í yfirliti hungurdiska um veður og veðurlag ársins 1923. Mikið tjón varð á Grandagarði við höfnina í Reykjavík þ.13. til 14. Tjón varð í fleiri veðrum. Í vestanáttinni reif ís úr Grænlandssundi og komust stakir jakar inn á Önundarfjörð undir lok mánaðarins. Mikil umskipti urðu um og fyrir miðjan febrúar og gerði eindregnar austanáttir og mátti heita afbragðstíð það sem eftir lifði vetrar.
Hvað gerist nú í framhaldinu vitum við ekki - en við sjáum ekki enn enda háloftavestanáttasyrpunnar. Við þökkum BP að vanda fyrir kortagerðina.
27.1.2022 | 17:54
Lítið lát á
Eins og hér hefur komið fram áður hefur janúarmánuður verið heldur órólegur. Þó hefur lengst af ekki farið illa með. Mjög slæmir dagar hafa ekki verið margir, veðrakerfi hafa staðið mjög stutt við og flest þeirra hafa lítt náð sér á strik. Þó hafa fjórir dagar mánaðarins komist á óopinberan ofviðralista hungurdiska - jafnmargir og komust á listann allt síðastliðið ár (2021). Árið 2020 var hins vegar illviðraár og þessir dagar voru þá 17 á árinu í heild. Meðaltalið á öldinni er 11 dagar á ári.
Við vitum ekki hversu lengi þessi ákafi háloftavinda yfir landinu heldur áfram. Enga reglu er að finna í því. Sé leitað að ámóta stríðum vestanáttarjanúarmánuðum og athugað hvað síðan gerðist er engin regla í augsýn. Stundum varð umsnúningur, stundum ekki.
Myndin sýnir norðurhvel jarðar. Smáar vindörvar sýna vindátt og styrk í 300 hPa-fletinum, en litir merkja þau svæði þar sem vindur er stríður. Guli liturinn byrjar þar sem vindhraði er meiri en 60 hnútar (um 30 m(s), grænir og bláir litir sýna enn meiri vindhraða. Við tökum eftir því að vindurinn liggur í strengjum - vindröstum. Fyrirferðarmest er svonefnd hvarfbaugsröst (kallast sub-tropical jet á erlendum málum). Vindhraði í henni er reyndar mestur ofar, uppi í 250 eða jafnvel 200 hPa - þannig að við sjáum aðeins hes hennar á þessari mynd. Svo má heita að hún nái hringinn í kringum norðurhvel (og svo er önnur á suðurhveli). Bylgjur eru á þessari miklu röst, en þó mun minni heldur en á þeirri sem legið hefur nærri okkur mestallan mánuðinn. Hana köllum við ýmist heimskautaröst eða pólröst. Sumir nota orðið skotvindur eða skotvindurinn - ritstjóri hungurdiska hefur í sjálfu sér ekki neitt á móti því orði - nema hversu ógagnsætt það er í þessu samhengi - en það venst sjálfsagt. Gott væri að eiga skotvindinn á lager fyrir eitthvað annað fyrirbrigði - t.d. styttri rastir sem liggja neðar - ótengdar meginröstum. [En þetta er auðvitað þus í gömlum karli].
Pólröstin liggur almennt neðar heldur en hvarfbaugsröstin, í 8 til 10 km hæð á okkar slóðum og hún sveiflast mun meira til norðurs og suðurs heldur en hin öfluga suðlæga systir hennar. Hún getur beint mjög hlýju lofti langt til norðurs - en köldu langt til suðurs. Loft er þó almennt lítið hrifið af því að skipta um breiddarstig - og mótmælir slíkum flutningum með því að snúa upp á sig. Snúningarnir verða oft það miklir að röstin slitnar í sundur - hlýir hólar verða þá til norðan hennar, en kaldar (afskornar) lægðir sunnan við.
Í þessum janúar hefur röstin ausið hverjum skammtinum af hlýju lofti á fætur öðrum frá vestanverðu Atlantshafi til norðausturs yfir Ísland og áfram, ýmist til norðausturs, austurs eða suðausturs. Kalt loft hefur hvað eftir annað þurft að hörfa undan til suðurs um Rússland og jafnvel suður á Miðjarðarhaf austanvert þar sem kalt hefur verið í veðri og venju fremur snjóasamt - jafnvel í lágsveitum. Svo er að sjá að það ástand haldi áfram.
Bylgjurnar á röstinni hafa verið mjög stuttar - þar með hraðskreiðar og lítt náð sér á strik sem stórar og miklar lægðir. En þó svo sé má litlu muna - þessir sterku háloftavindar geta teygt sig í átt til jarðar eða styrkt neðri vindrastir, líkt og gerðist hér í fyrradag (þriðjudag) þegar mjög hvasst varð á hluta landsins. Fleiri slík skammvinn áhlaup eru í kortunum næstu daga, þó varla nái þau til landsins alls.
Kuldapollurinn mikli, sem við höfum stundum til hagræðingar kallað Stóra-Bola, hefur lítt haft sig í frammi hér við land í vetur fram að þessu, við þökkum bara fyrir það afskiptaleysi sem hefur valdið því að hríðarbyljir hafa verið færri en vænta hefði mátt í jafnáköfum umhleypingum um miðjan vetur. Er á meðan er, en rétt að fylgjast vel með hreyfingum kuldans - hann gæti fyrirvaralítið rásað í átt til okkar.
En lægðagangurinn heldur áfram - með ónæði. Mikilvægt er að fólk haldi áfram að hagræða seglum eftir vindi, hafa ferðaáætlanir milli landshluta sveigjanlegar og fylgjast vel með spám Veðurstofunnar og annarra til þess bærra aðila.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.7.): 34
- Sl. sólarhring: 262
- Sl. viku: 1682
- Frá upphafi: 2485339
Annað
- Innlit í dag: 30
- Innlit sl. viku: 1486
- Gestir í dag: 28
- IP-tölur í dag: 28
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010