Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Fyrstu 20 dagar nóvembermánaðar

Enn halda nóvemberhlýindin áfram. Meðalhiti fyrstu 20 daga mánaðarins er +5,4 stig í Reykjavík, +2,9 stigum ofan meðallags sömu daga áranna 1991-2020 og +2,4 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Í Reykjavík er hitinn í þriðjahlýjasta sæti aldarinnar, á eftir sömu dögum 2011 (+6,7 stig) og 2014 (+5,5 stig). Síðasti þriðjungur nóvember 2011 var hins vegar mjög kaldur og líklegt að núverandi mánuður verði hlýrri. Keppnin við 2014 er hins vegar nokkru harðari, því þá bætti heldur í til loka mánaðar. Kaldast á öldinni var hins vegar 2017, meðalhiti þá +0,8 stig. Á langa listanum er hiti nú í 7. hlýjasta sæti (af 149). Langhlýjast var 1945, meðalhiti sömu daga +8,0 stig. Kaldastir voru dagarnir 20 árið 1880, meðalhiti -2,9 stig.
 
Á Akureyri er meðalhitinn nú +4,5 stig, +3,5 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og meðallags síðustu tíu ára. Þetta er það fjórðahlýjasta frá 1936 að telja á Akureyri.
 
Á öllum spásvæðunum eru dagarnir 20 þeir næsthlýjustu á öldinni, hlýrra var sömu daga 2011 (en þá varð afgangur mánaðarins mjög kaldur). Jákvæða vikið miðað við síðustu tíu ár er mest á Setri +4,6 stig, en minnst +1,4 stig í Ólafsvík.
 
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 64,8 mm og er það í rétt rúmu meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 55,5 mm og er það í rúmu meðallagi.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 26,7 í Reykjavík. Það er í tæpu meðallagi og á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 6,6, um helmingur meðallags. Sólargangur er nú mjög stuttur.
 
Meðalloftþrýstingur hefur verið óvenjulágur, 990,1 hPa í Reykjavík, -10,8 hPa undir meðallagi og hefur sömu daga aðeins 7 sinnum verið lægri síðustu 200 ár, síðast 1993.
 
Ekki er spáð afgerandi breytingum á veðurlagi næstu daga, þótt lítið eitt kaldari dagar komi inn á milli.

Smávegis um nóvemberhita í Reykjavík

Þessi færsla er aðallega fyrir fáein talnanörd - aðrir geta hreinlega sleppt því að lesa. Fyrri hluti nóvembermánaðar hefur verið óvenjuhlýr í Reykjavík, sá fimmti hlýjasti síðustu 150 árin. Þó er hann talsvert kaldari heldur en þeir allrahlýjustu. Ekki er samt víst að hann haldi út síðari hluta leiksins. Við lítum nánar á það.

w-blogg161122a

Á lárétta ásnum má sjá meðalhita fyrri hluta nóvember, allt aftur til 1871 (árin 1903 og 1904 eru þó ekki með). Lóðrétti ásinn sýnir lokameðalhita viðkomandi mánaðar. Þeir sem vanir eru dreifiritum af þessu tagi sjá strax að talsverð fylgni er á milli - varla við öðru að búast. Rauða línan sýnir reiknaða aðfallslínu. Lóðrétta strikalínan sýnir meðalhita fyrri hluta mánaðarins nú - og sker hún rauðu línuna í 3,5 stigum. Það verður kannski meðalhiti mánaðarins alls, meðalhiti síðari hlutans yrði þá að vera um 1,8 stig, -0,4 stigum neðan meðallags áranna 1991 til 2020. 

En einnig má sjá skásetta strikalínu. Neðan hennar er að finna þá mánuði þar sem síðari hluti mánaðarins hefur dregið meðalhita hans alls niður. Það er algengast - sérstaklega hafi fyrri hlutinn verið hlýr. Meðalhiti fyrri hluta mánaðarins árið 1945 var 8,2 stig (hreint ótrúleg tala - en sönn). Meðalhiti síðari hlutans var 4,9 - ámóta og hiti fyrri hlutans nú. Allur mánuðurinn endaði í 6,1 stigi. Til að núlíðandi nóvember nái því þarf hitinn síðari hluta mánaðarins að vera yfir 7 stig - slíkt væri með miklum ólíkindum.

Myndin - ein og sér - gefur okkur kannski þá tilfinningu að fyrst fyrri hluti mánaðarins hafi verið hlýr séu líkur á að síðari hlutinn verði það líka. Þannig er það þó ekki - hiti fyrri hlutans segir einfaldlega ekki neitt um þann síðari. Það sjáum við vel á síðari myndinni.

w-blogg161122b

Lárétti ásinn sýnir hér meðalhita fyrri hluta nóvembermánaðar í Reykjavík (eins og á fyrri mynd), en sá lóðrétti er meðalhiti síðari hlutans. Fylgni milli hita þessara tveggja mánaðarhluta er nánast engin. Lóðrétta strikalínan markar sem fyrr meðalhita fyrri hluta nóvember í ár. Við sjáum „hlýindakeppinautana“ hægra megin strikalínunnar. Það má þó segja að hiti síðari hluta þeirra hafi aldrei verið mjög lágur. En við sjáum líka að dæmi eru um að mikið hafi kólnað síðari hluta mánaðarins. Nefna má t.d. 1965 - þá var meðalhiti fyrri hlutans 4,7 stig (lítið lægri en nú). Meðalhiti þess síðari var hins vegar -3,4 stig og hiti mánaðarins í heild varð undir meðallagi. 

En það er furðuoft (og kemur á óvert) sem síðari hlutinn er hlýrri en sá fyrri (allir mánuðir ofan skástrikalínunnar). Þar í flokki er t.d. 2014 - fyrri hluti þess mánaðar var býsna hlýr, meðalhiti 4,8 stig (svipaður og nú). Hann bætti í, og meðalhiti síðari hlutans var 6,2 stig, hlýjastur allra síðari hluta nóvember. Við athugun kemur í ljós að fyrir allt tímabilið (frá 1871) er meðalhiti fyrri hluta mánaðarins 2,0 stig, en 1,3 síðari hlutann. Það munar 0,7 stigum. Á árunum 1991 til 2020 er meðalhiti fyrri hlutans hins vegar 3,3 stig, og þess síðari 1,8 stig, munar 1,5 stigum. Tvennt er athyglisvert, hið fyrra að síðustu 30 árin skuli meðalhiti síðari hluta nóvember vera orðinn nærri því sá sami og er fyrri hluta hans á tímabilinu öllu. Hitt vekur líka athygli að meiri munur er síðustu áratugina á fyrri hluta mánaðarins og þeim síðari. Það kólnar sum sé síðar en áður, en hraði haustkólnunarinnar (í nóvember) hefur aukist. 

En munum enn og aftur að þetta segir okkur ekkert um framtíðina (en er sýn á liðinn breytileika). 


Fyrri hluti nóvembermánaðar

Fyrri hluti nóvembermánaðar hefur verið mjög hlýr hér á landi. Meðalhiti í Reykjavík er +5,2 stig og er það +2,4 stigum ofan meðallags áranna 1991-2020 og +1,9 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Þessir dagar eru þeir næsthlýjustu á öldinni í Reykjavík (af 22). Talsvert hlýrra var 2011, meðalhiti þá +6,7 stig. Kaldastir á öldinni voru sömu dagar árið 2010, meðalhiti -0,5 stig. Á langa listanum er meðalhitinn nú í 5. hlýjasta sæti (af 149). Langhlýjast var 1945, meðalhiti fyrri hluta nóvember þá +8,2 stig og +7,1 árið 1956. Kaldast var 1969, meðalhiti -2,6 stig.
 
Á Akureyri hefur einnig verið hlýtt, meðalhiti fyrstu 15 dagana er +3,9 stig. Það er +2,6 stigum ofan meðallags 1991 til 2020, og +1,7 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
 
Á spásvæðunum er hitinn í öðru til fjórða hlýjasta sæti aldarinnar. Einna svalast á Austurlandi að Glettingi og Austfjörðum þar sem hann er í fjórða sæti.
 
Á einstökum stöðvum hefur að tiltölu verið hlýjast við Setur, hiti þar +3,9 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Giskað er á að þar sé snjólaust. Kaldast að tiltölu hefur verið í Ólafsvík, þar er hiti +0,7 stigum ofan meðallags.
 
Úrkoma var lítil fyrstu dagana í Reykjavík, en hefur nú mælst 47,1 mm - og er það í meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 55,2 mm og er það um 50 prósent umfram meðallag.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 23 í Reykjavík og er það í meðallagi. Á Akureyri hafa stundirnar mælst 6, lítillega undir meðallagi.
 
Loftþrýstingur hefur verið lágur í mánuðinum til þessa. Meðaltalið í Reykjavík er 991,7 hPa -8,0 hPa undir meðallagi og í 11. neðsta sæti sömu daga síðustu 201 árin, svipað og 2015.
 
Þó allramesti broddurinn sé e.t.v. úr hlýindunum að sinni er enga kalda daga að sjá á næstunni. Vel má því vera að hiti eigi enn eftir að þokast ofar á hitalistum.

Fyrirstaða við Norður-Noreg

Þessa dagana er öflug fyrirstöðuhæð í háloftunum við Norður-Noreg. Þetta er hlass af hlýju lofti sem lokast hefur af norðan við heimskautaröstina og stíflar framrás lægðakerfa á stóru svæði. Fyrirstöðuhæðir af þessu tagi eru oft nokkuð þaulsetnar. Staðsetning hennar veldur því að lægðir stranda nú fyrir sunnan land - komast vart austur um - nema einhverjir angar austur um Miðjarðarhaf. 

w-blogg141122a

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) á mestöllu norðurhveli eins og evrópureiknimiðstöðin spáir að hún verði síðdegis á miðvikudag, 16. nóvember. Litir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Við sjáum hæðina og hlýindi hennar vel - og hvernig jafnhæðarlínuarnar (og þar með loftið) taka stóran sveig umhverfis hana. Loft sem berst um Atlantshafi úr suðvestri og vestri fer langan sveig í kringum mikið lægðardrag fyrir sunnan land - en það beinir síðan einhverju af því til Íslands í ákveðinni suðaustanátt. 

Lægðirnar fyrir sunnan land eru mjög djúpar - en hafa samt ekki roð í hæðina. Úrkomubakkar þeirra sveigjast í hring og berast hver á fætur öðrum upp að Suðaustur- og Austurlandi. Sé að marka spár er enginn úrkomubakkanna gríðarlega efnismikill - en hins vegar koma þeir hver á fætur öðrum - nánast linnulaust næstu dagana (sé að marka spár). Evrópurekinimiðstöðin nefnir um 30 mm úrkomu á dag alla vikuna - og 10 tii 15 mm daglega alla næstu viku líka. 

Auðvitað mun úrkoman koma í gusum (eins og venjulega) og alls ekki er víst að spár rætist, en þetta er samt dálítið óþægileg staða fyrir landshlutann. 

Ekki er þetta óþekkt í fortíðinni, við gætum auðveldlega rifjað upp nóvember 2002 þegar mánaðarúrkoma á Kollaleiru fór í nærri því þúsund millimetra (971,5 mm), mesta sem mælst hefur í einum mánuði á veðurstöð hér á landi. 

Það er of flókið mál (og óábyrgt) að fara hér út í að ræða hættu á flóðum og skriðuföllum, en má þó rifja upp að skriðuhætta virðist að einhverju leyti fara eftir því hversu „vant“ landið er að taka við úrkomu. Magn sem ekki veldur skriðum á Austfjörðum getur verið mjög hættulegt inn til landsins á Vestur- eða Norðurlandi. Sömuleiðis virðist sem skammtímaúrkomuákefð skipti miklu máli. Þótt ýmisleg vandamál fylgi sjálfvirkum úrkomumælingum (og alls ekki búið að leysa þau öll) gefa þær þó mjög mikilvægar upplýsingar um ákefðina - sem eldri athugunarhættir gera ekki. Rétt er að gefa allri ákefð sem er meiri en 10 til 12 mm á klukkustund alveg sérstakar gætur - sérstaklega standi hún yfir klukkustundum saman. Á stað eins og Reykjavík sem er ekki jafnvanur ákafri úrkomu og þéttbýli austanlands virðast vandræði geta hafist við enn minni ákefð. Ákaft rigndi í Reykjavík í gærkveldi (sunnudagskvöld 13. nóvember). Hæsta klukkustundargildi var 6,7 mm. Í Víðidal nærri Selási var ákefðin mest 9,7 mm. Einhverjar fréttir eru á sveimi um flóðaama í bænum - þótt 10 mm mörkum væri ekki náð. 

Rétt er að gefa ákefðartölum gaum. Áhugasamir geta rifjað upp (eldgamlan) pistil hungurdiska frá 10. maí 2011.

Á kortinu að ofan má einnig sjá að veturinn er smám saman að sækja í sig veðrið - en er hins vegar enn nokkuð fjarri okkur. Við borð liggur að fyrirstöðuhæðin áðurnefnda - og mikill hryggur yfir Alaska klippi kuldasvæðið í sundur. Hluti kuldans á að hörfa til suðurs og gerir nokkuð kuldakast víða um Bandaríkin næstu daga (þar hefur reyndar verið kalt sums staðar upp á síðkastið). Allramestu hlýindin virðast hjá í Vestur-Evrópu, en þar er þó ekki spáð neinum teljandi kuldum næstu dagana (einhverjir munu þó kvarta).    


Nóvemberhitamet í Reykjavík?

Töluverð hlýindi eru á landinu þessa dagana og nokkuð um hitamet, fjöldi dægurmeta einstakra stöðva, en líka fáein nóvembermet. Í gær (sunnudaginn 13.nóvember) mældist hiti á hinni opinberu stöð á Veðurstofutúni 12,7 stig. Það er 0,1 stigi hærra en mælst hefur á henni til þessa. En nú kemur að ákveðinni flækju. Fram til hausts 2015 hafði hiti verið mældur á 3 stunda fresti í hitamælaskýli og lesið var af kvikasilfursmæli. Hámarkshiti var lesinn af kvikasilfurshámarkshitamæli tvisvar á dag. Frá því í desember 2015 hefur hiti mældur á mæli sjálfvirku stöðvarinnar verið notaður í stað kvikasilfursmælingar í skýli í veðurskeytum í Reykjavík - og þar með telst hann hinn opinberi hiti.

Þann 19. nóvember 1999 gekk feikihlýtt loft úr suðri yfir landið. Hámarkshiti mældist þá 12,6 stig á kvikasilfursmælinn í skýlinu. Aftur á móti mældi sjálfvirka stöðin hæst 13,2 stig þennan dag. Í gær (sunnudaginn 13. nóvember) mældi hin opinberi mælir (sá sjálfvirki) hæst 12,7 stig - eins og áður sagði. Ættu nú flestir að sjá hvaða vandi blasir við. Er 12,7 stig nýtt hitamet fyrir nóvember - eða á að slaka á og viðurkenna 13,2 stig sjálfvirku mælingarinnar frá 1999 sem slíkt met?

En þetta er ekki öll flækjan. Tvær hámarkshitamælingar er enn að finna í hefðbundnum skýlum á Veðurstofutúni. Þar standa enn tvö skýli. Í öðru þeirra er sjálfvirkur skynjari. Það skýli er aldrei opnað - nema til viðhalds. Hámarkshiti gærdagsins á þeim mæli var 12,8 stig. Ber vel saman við hinn sjálfvirka mælinn (munar aðeins 0,1 stigi).

Aftur á móti er nú lesið tvisvar á sólarhring af kvikasilfurshámarksmæli í hinu skýlinu. - Þar voru 13,0 stig lesin kl.18 í gær - og síðan 13,9 stig í morgun (14. nóvember). Líklegt er að síðari talan sé röng, hefði átt að vera 12,9 stig - en það vitum við auðvitað ekki með fullri vissu.

Hvort málið fer í nefnd veit ritstjóri hungurdiska ekki - en í augnablikinu stendur að hiti í gær fór í 12,7 stig á opinberu „stöðinni“ í Reykjavík - það hæsta sem mælst hefur í nóvember.

Það er út af fyrir sig athyglisvert að þegar litið er á lista yfir 10 hæstu hámörk nóvembermánaðar í Reykjavík að við þurfum að fara niður í 9. sæti til að finna eldri mælingu en gamla metið frá 1999, allar hinar tölurnar eru frá árunum 1999 og síðar. Hæsta eldri tala er 11,7 stig, frá 8. nóvember 1956.

Hitamet var einnig sett á höfuðborgarsvæðinu (naumlega þó), fór í 14,7 stig á Skrauthólum á Kjalarnesi. Gamla metið, 14,6 stig, var sett á sama stað þann 14. árið 2011 - þá komu líka allmargir hlýir nóvemberdagar. Ein eldri mæling sker sig úr í nóvember, 17,4 stig sem mældust (að sögn) á Víðistöðum í Hafnarfirði 19.nóvember 1945. Sá mánuður var að vísu sérlega hlýr, en mikill dellusvipur er á þessari Víðistaðamælingu - í handriti hefur verið krotað í hana - kannski á hún að vera 7,3 stig - væri meira í samræmi við aðrar tölur. En af einhverjum ókunnum ástæðum var henni sleppt inn í Veðráttuna. En ritstjórinn treystir sér ekki til að verja hana.


Fyrstu tíu dagar nóvembermánaðar

Meðalhiti fyrstu tíu daga nóvembermánaðar er +4,5 stig í Reykjavík. Það er +1,4 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og +1,2 ofan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Raðast hitinn í níunda hlýjasta sæti (af 22) á öldinni. Hlýjastir voru þessir dagar 2004, meðalhiti þá 6,1 stig, en kaldastir voru þeir 2010, meðalhiti +0,1 stig. Á langa listanum er hitinn í 29. hlýjasta sæti (af 149). Hlýjast var 1945, meðalhiti +8,2 stig, en kaldast 1899, meðalhiti -4,0 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti nú +3,4 stig. Það er +1,9 stigi yfir meðallagi 1991 til 2020 og +2,0 yfir meðallagi síðustu tíu ára.
 
Að tiltölu hefur verið einna hlýjast á Suðaustur- og Suðurlandi. Þar raðast hitinn í 6. hlýjasta sæti aldarinnar, en aftur á móti í 9. sæti við Breiðafjörð, á Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðausturlandi og Austurlandi.
 
Á einstökum veðurstöðvum hefur að tiltölu verið hlýjast við Setur, hiti þar +3,4 stig ofan meðallags (ætli sé ekki snjólaust - sem er líklega fremur óvenjulegt). Kaldast að tiltölu hefur verið á Húsafelli, hiti þar +0,1 stigi ofan meðallags, og +0,2 stig á Hvanneyri.
 
Mjög þurrt hefur verið suðvestanlands. Úrkoma í Reykjavík hefur aðeins mælst 5,9 mm eða um fimmtungur meðalúrkomu - en þetta er samt ekkert met. Á Akureyri hefur úrkoman aftur á móti mælst 34,2 mm sem er um 50 prósent umfram meðaltal.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 16,5 í Reykjavík og er það í meðallagi. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 4,4 og er það um 5 stundum neðan meðallags.

Smávegis af september og október - og um stöðuna nú

Við lítum nú á þykktarvikakort september- og októbermánaða. (Samband hefur komist á við gagnasafn evrópureiknimiðstöðvarinnar í Bólónu á Ítalíu). Þykktin mælir sem kunnugt er hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Sömuleiðis ræðum við aðeins stöðu dagsins - (en þar er erfiður kafli sem hlaupa má yfir). 

w-blogg091122va

Vikakort septembermánaðar er harla óvenjulegt - ekkert ámóta er að finna á sama árstíma í safninu sem nær nægilega vel til síðustu 100 ára. Gríðarleg hlýindi voru yfir Suður-Grænlandi. Þar er þykktarvikið um 140 metrar þar sem mest er, jafngildir um +7 stiga jákvæðu viki. Vikið fylgir hæðarhrygg á sömu slóðum, liggur norðan og vestan í honum eins og við er að búast. Hér á landi var vikið minna, norðvestlæg átt ríkjandi í háloftum - með hæðarsveigju. Síðasta atriðið er mikilvægt, blíðuveður fylgir að jafnaði hæðarsveigju norðvestanáttarinnar, þótt loft sé komið frá Grænlandi á það samt uppruna sinn á suðlægari slóðum - Grænland þurrkar það og veður verður til þess að gera hlýtt og bjart hér á landi. Lægðarsveigja í norðvestanátt er hins vegar afar óhagstæð. Slíku veðurlagi fylgir kuldi og alls konar hraglandi, jafnvel snjór í september. En þótt oft hafi verið hlýtt í september hér á landi hefur það sum sé ekki gerst á sama hátt og nú, í norðlægri átt. 

w-blogg091122vb

Hlýindabragur er einnig á októberkortinu. Litirnir sýna þykktarvik sem fyrr, heildregnar línur hæð 500 hPa-flatarins. Af þeim ráðum við ríkjandi vindátt og vindstyrk. Daufu strikalínurnar sýna þykktina sjálfa. Hlýindabragur er á þessu korti, en þó ekki eins mikill og á því fyrra. Hlýtt er yfir Íslandi (en athugum að miðað er við októbermánuði áranna 1981 til 2010, en þeir eru kaldari en þau viðmið sem annars hefur verið getið). Suðvestlæg átt var ríkjandi í háloftum, en nokkru vægari en að meðaltali og veit varla hvort um hæðar- eða lægðarsveigju er að ræða - en þetta er meðaltal og í raun var mánuðurinn nokkuð samsettur. 

Fáeinir októbermánuðir fortíðar eru svipaðir að einkennum, sá síðasti haustið 2017.

w-blogg091122vc

Hann var heldur hlýrri á okkar slóðum en þessi, en hæðarsvið 500 hPa-flatarins svipað að formi - en þó aðeins hærra í lofti en nú. Hlaut veður þá góða dóma: „Tíðarfar var hagstætt. Óvenju hlýtt var og hiti vel yfir meðallagi í öllum landshlutum. Fremur þurrt var á vestanverðu landinu en úrkomumeira á Austfjörðum og Suðausturlandi. Vindur var hægur“. - Þetta er ekki ósvipað og nú, nema ívið hlýrra - eins og þykktarkortið gefur líka til kynna. 

Fyrstu dagar nóvembermánaðar hafa verið einkar hagstæðir og staðan haldist svipuð og var í október.

w-blogg091122vd

Hér er spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina sem gildir síðdegis á morgun, fimmtudaginn 10.nóvember. Hér sýna litirnir þykktina sjálfa, en ekki vikin. Ísland er í græna litnum - meðaltalið á þessum tíma árs er dekksti græni liturinn. Háloftavindur er sáralítill við landið, blæs þó af norðaustri milli Vestfjarða og Grænlands (um 10 m/s í 500 hPa hæð). Neðar er norðaustanáttin öllu stríðari. Hún styrkist af völdum þykktarbratta milli Grænlands og Vestfjarða - líklega er um 150 metra munur á þykktinni við Scoresbysund og yfir Íslandi. Lesa má svonefndan „þykktarvind“ af þykktarbratta, rétt eins og háloftvind af hæðarkortum. Í þessu tilviki er hann um 15 -20 m/s af suðvestri. Því má gera ráð fyrir því að vindur í neðstu lögum sé um 25 - 30 m/s (10+15) - sem er reyndar það sem spáin segir. 

Önnur sporaskja hefur verið sett inn á kortið suðvestan Írlands. Þar er líka hvasst, en af öðrum ástæðum. Mun meiri vindur er þar í 500 hPa, 30 m/s af suðvestri. Þarna er líka þykktarbratti - en stefna hans sú sama (eða svipuð) og háloftavindsins - ekki andstæð eins og á Vestfjörðum. Þar með dregur þykktarvindurinn úr vindhraða við jörð. Vestar - við jaðar sporöskunnar er vindhraði í háloftunum enn meiri eða 40-50 m/s - en þykktarvindurinn er líka mjög sterkur - og kemur í veg fyrir að mjög hvasst verði við jörð. Hámarksvindur á þessum slóðum er því rúmir 20 m/s. 

Hvergi á kortinu er mjög kalt loft að finna (það er reyndar til annars staðar á norðurhveli - en sést hér ekki). Nokkuð kaldur straumur liggur þó til suðausturs vestan Grænlands (blá ör) og stefnir til móts við hlýtt loft sem er að komast inn á kortið úr suðri (rauð ör). Þessir straumar tveir eiga að rekast á undir helgina og búa til heilmikla lægð fyrir suðvestan land. Um tíma var útlit fyrir að hún ylli mjög vondu veðri um suðvestan- og vestanvert landið á laugardag, en seinni spár gera minna úr - einkum vegna þess að lægðin á nú ekki að koma jafnnálægt landinu og áður var ráð fyrir gert. Vonandi að þessar síðari spár rætist frekar en þær fyrri - en rétt samt að fylgjast vel með. 

Hlýindin sem stefna að hluta til til okkar um helgina munu líka ná til Skandinavíu sunnanverðrar og má á sumum spákortum sjá þykktina fara upp í 5640 metra. Það er mjög óvenjulegt á þessum árstíma. Þetta ofurhlýja loft á þó væntanlega erfitt með að ná til jarðar yfir flatlendi Danmerkur og Suður-Svíþjóðar það leggst aðallega ofan á kaldara loft sem tregðast við að hörfa til austurs. Það er samt verið að spá 13-14 stiga hita um mestalla Danmörku um helgina - býsna gott á þessum tíma árs. Hér á landi eru fjöll sem gætu hjálpað til að koma hitanum býsna hátt hér líka - þótt þykktinni hér sé ekki spáð „nema“ í 5480 metra. Noregur nýtur einnig fjalllendis þegar svona hlýindagusur fara hjá, sjá má að hita er spáð í 16 stig í Osló um helgina og reynist það rétt má ábyggilega finna aðrar veðurstöðvar þar um slóðir þar sem hiti fer enn hærra. 

Við þökkum BP að vanda fyrir kortagerðina. 


Hitt og þetta (október, ársúrkoma og fellibylur)

Nokkuð hlýrra hefur verið í október á þessari öld en næstu áratugina á undan. Á landsvísu var hiti í þeim nýliðna nærri meðallagi 90 ára (1931-2020), en aftur á móti neðan meðallags á þessari öld (það sem af er). 

w-blogg021122v-a

Taflan sýnir að hitavik voru nokkuð misjöfn í landshlutunum. Kaldast, að tiltölu, var á Austurlandi að Glettingi, þar var mánuðurinn sá fjórðikaldasti á öldinni. Aftur á móti var hlýrra á Austfjörðum, Suðausturlandi og við Breiðafjörð - þar er hitinn í 10. hlýjasta sæti aldarinnar (af 22). 

Úrkoma var ekki fjarri meðallagi í Reykjavík en mun meiri úrkoma var nyrðra. Við höfum áður gefið heildarúrkomu það sem af er ári í Reykjavík gaum - og rifjum það mál upp.

w-blogg021122b

Myndin sýnir uppsafnaða úrkomu í Reykjavík eftir því sem á árið líður. Lárétti ásinn sýnir mánuði ársins (merki í miðjum mánuði), en sá lóðrétti úrkomuna. Myndin skýrist sé hún stækkuð. Árið í ár (2022) er blámerkt (og feitari lína) - sá ferill endar 2. nóvember. Úrkoma ársins 1921 hefur ofast haft yfirhöndina síðan 10. apríl, en árið í ár fór nokkrum sinnum rétt framúr í september og í byrjun október. Hins vegar var úrkoma nú sáralítil frá 13. til 30.október og 1921 hefur aftur farið vel fram úr. Nú munar um 67 mm á úrkomu 2022 (952,0 mm) og 1921 (1018,7 mm). Raunar er 1959 líka rétt komið fram úr 2022 (962,1 mm).

Það var 2. október sem úrkoman í ár fór fram úr meðaltali áranna 1991 til 2020. Árið 1925 náði þeirri tölu fyrst ára (sjá myndina að ofan). Þá hafði meðalúrkoma heils árs fallið frá áramótum til 24. september. Árið 1921 náði þessu marki aðeins fáeinum dögum síðar, 29. september, 1887 náði þessari tölu sama dag og árið í ár. Úrkomumagnið 1925 hafði farið fram úr 1921 þann 13. september og hélt forystunni til 15. október.

Það er 1921 sem er úrkomumesta ár sem við vitum um í Reykjavík - hreinsaði af sér alla keppinauta og endaði í 1291,1 mm. Það var mikið úrhelli um og fyrir miðjan nóvember sem gerði útslagið, frá 8. til 19. rigndi meir en 120 mm. Mjög mikið rigndi síðari hluta árs árið 2007, lengi vel var það ár langt frá efstu sætum (neðst meðal áranna á myndinni), en tók svo við sér seint í ágúst, og nægilega mikið til að koma því ári í annað sæti, 1125,4 mm, en samt langt á eftir 1921. Til að úrkoman í ár nái nýju meti þarf hún að mælast 340 mm í nóvember og desember. Mesta úrkoma sem samtals hefur mælst í þeim mánuðum tveimur er 331,7 mm (1993) og reyndar 372 mm í nóvember og desember 1843. Þessa gömlu tölu getum við þó varla tekið formlega með í keppni sem þessa, en gefum henni samt gaum. Það er því harla ólíklegt að nýtt ársúrkomumet verði sett að sinni. Þeir sem vilja rifja upp tíðarfar ársins 1921 geta flett gömlum hungurdiskapistli um árið.

En þá er spurning með næstu sæti þar á eftir. Við lítum á aðra mynd. Hún er eins og sú fyrri nema við höfum stækkað síðasta hlutann út til þess að við sjáum leið keppenda betur.

w-blogg021122c

Við tökum fyrst eftir því að breiða bláa línan hefur verið meira og minna flöt frá því 13. október. Verði úrkoma í meðallagi það sem eftir er endar árið í 1130 mm - og þar með í öðru sæti, en árið 2007 er þá rétt á eftir, með 1125 mm. Það verða því að teljast sæmilegir möguleikar á 2. sætinu, en svo eru mörg ár í hrúgu skammt þar fyrir neðan. Yrði úrkoma engin til áramóta myndi ársúrkoman lenda í 26. sæti á listanum, eða 20. sæti samfelldra mælinga (sem hófust 1920). Engar líkur eru á þurrki til áramóta, en 80 mm í viðbót þarf til að komast inn á topp tíu. 

Bandaríska fellibyljastofnunin í Miami ákvað að skilgreina lægð sem nú er á 38°N og 47°V sem fellibyl og nefna hann Martin. Þessi skilgreining er kannski álitamál (en við skulum trúa sérfræðingunum) því nánast um leið og kerfið náði fellibylsstyrk telst það breytast í hefðbundna förulægð. Lægðin sú dýpkar nú gríðarhratt og mikið. Í hádeginu taldi evrópureiknimiðstöðin hana um 988 hPa í miðju, en fari niður í 936 hPa fyrir hádegi á föstudag (4. nóvember). Bandaríska veðurstofan gerir enn betur og segir miðjuþrýsting þá verða 928 hPa. Þetta eru harla óvenjulegar nóvembertölur. Þýska sjóveðurstofan (Deutsche Seewarte) í Hamborg taldi illviðrislægðina sem gjarnan er kennd við Edduslysið á Grundarfirði 16. nóvember 1953 hafa verið 928 hPa í lægðarmiðju. Um það veður hefur verið fjallað áður í tveimur pistlum hungurdiska (hér og hér). Sú lægð kom mjög langt sunnan úr höfum - og hefði e.t.v. lent í einhverjum hitabeltisflokki nú á dögum (þegar reglur um slíkt virðast hafa verið rýmkaðar - og upplýsingar eru ítarlegri). 

Lægsti þrýstingur sem mælst hefur hér á landi í nóvember er 940,7 hPa, sem mældust í Vestmannaeyjum þann 18. árið 1883 (sjá pistil hungurdiska þar um). Þá var reyndar aðeins lesið af loftvoginni þrisvar á dag og ekki ólíklegt að þrýstingur hafi orðið lægri en þetta. 

Fellibylurinn Martin á síðan að grynnast mjög hratt, hefur áhrif hér á landi með allhvassri austanátt sunnantil á landinu á laugardag. Að svo stöddu er ekki spáð mikilli úrkomu - en auðvitað þarf að fylgjast með skaðræðislægðum af þessu tagi. 

 


Sumarmisserið 2022

Um leið og ritstjóri hungurdiska þakkar lesendum fyrir liðið sumar og óskar þeim farsæls vetrarmisseris lítum við lauslega á hitafar sumarmisseris íslenska tímatalsins - eins og við höfum oft gert áður.

Sumarmisserið stendur frá og með sumardeginum fyrsta fram að fyrsta vetrardegi. 

w-blogg221021a

Myndin sýnir sumarhita í Stykkishólmi frá 1846 til 2022 (eitt sumar, 1919, vantar í röðina). Það sumarmisseri sem nú er að líða var hlýtt (já), sé litið til langs tíma, en er hiti þess var nærri meðallagi á þessari öld í Stykkishólmi. Ekkert sumar á árunum 1961 til 1995 var hlýrra en þetta - og aðeins þrjú mega heita jafnhlý (1961, 1976 og 1980). Reiknuð leitni sýnir um 0,7 stiga hlýnun á öld - að jafnaði - en segir auðvitað ekkert um framtíðina frekar en venjulega.

Hitinn í Stykkishólmi var í sumar ekki fjarri meðallagi landsins. Ólíkt því sem var í fyrra var nú fremur lítill munur á hitavikum í einstökum landshlutum.

w-blogg221022b 

Þó fellur hiti sumarmisserisins í hlýjasta þriðjung dreifingar á öldinni á einu spásvæði, Suðausturlandi, þar sem hiti þess raðast í 6. sæti - eins og sjá má í töflunni. Röðin nær til þessarar aldar (22 sumarmisseri), en vikin reiknast miðað við síðustu tíu ár. Vonandi er rétt reiknað.

Að tiltölu var kaldast á Norðurlandi eystra. Þar raðast hitinn í 13. sæti aldarinnar, en við sjáum að engin hitavik eru stór. 


Fyrstu 20 dagar októbermánaðar

Meðalhiti fyrstu 20 daga októbermánaðar er +4,9 stig í Reykjavík, -0,7 stigum neðan meðallags sömu daga 1991-2020 og -1,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 18.hlýjasta sæti (af 22 á öldinni). Þessir sömu dagar voru hlýjastir árið 2016, meðalhiti þá +9,1 stig, en kaldastir voru þeir 2008, meðalhiti +4,2 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 84. sæti (af 149). Hlýjast var 1959, meðalhiti +9,5 stig, en kaldast var 1981, meðalhiti -0,3 stig (og næstkaldast árið áður, 1980, +1,1 stig).
 
Á Akureyri er meðalhiti nú +3,8 stig, -0,5 stigum neðan meðallags 1991-2020 og -1,0 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.
 
Ekki er mikill munur á vikum í einstökum landshlutum, einna hlýjast að tiltölu á Austfjörðum þar sem hitinn raðast í 13.hlýjasta sæti, en annars í 14. til 17. í öðrum landshlutum.
 
Á einstökum veðurstöðvum hefur að tiltölu verið hlýjast í Kvískerjum í Öræfum. Þar er hiti í meðallagi síðustu tíu ára. Kaldast (að tiltölu) hefur verið í Bláfjallaskála. Þar er hiti -1,9 stig neðan meðallags.
 
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 65,7 mm og er það í rétt rúmu meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 138,1 mm. Hefur aldrei mælst jafnmikil sömu daga, meir en þreföld meðalúrkoma.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 67 í Reykjavík, í rétt rúmu meðallagi. Á Akureyri hefur frést af 45,5 stundum og er það líka í rúmu meðallagi.
 
Þótt mánuðurinn hafi ekki verið illviðralaus er tilfinningin samt sú að fremur vel hafi farið með veður lengst af - sérstaklega um landið sunnan- og vestanvert, en úrkoma norðanlands aftur á móti með allra mesta móti. Það á ekki aðeins við Eyjafjörð, heldur einnig Húnavatnssýslur og Skagafjörð.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg060725a
  • w-blogg040725a
  • w-blogg020725c
  • w-blogg020725b
  • w-blogg020725a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.7.): 118
  • Sl. sólarhring: 124
  • Sl. viku: 1775
  • Frá upphafi: 2482998

Annað

  • Innlit í dag: 102
  • Innlit sl. viku: 1597
  • Gestir í dag: 94
  • IP-tölur í dag: 91

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband