Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Óvenjuhlýtt loft nálgast landið (en nær því varla)

Mikil sunnanátt austur af Nýfundnalandi og sunnan Grænlands ber nú mjög hlýtt loft langt til norðurs. Það kemst nærri því til Íslands - grátlega nærri. Lítum á þykktarspá sem sýna á ástandið eftir sólarhring (um miðnætti mánudagskvölds).

w-blogg130212

Eins og sjá má er stórt svæði vestur af landinu þar sem þykktin er meiri en 5480 metrar, en sú þykkt getur við bestu skilyrði dugað í 20 stig að sumarlagi. En nú er ekki sumar - enginn sólarylur og þar að auki vetrarkaldur sjór og enn kaldara land þar sem yfirborðið er nærri frostmarki. En þar sem vindur er nægilega mikill við brött fjöll geta samt komið hitaskot - þannig að veðurnörd fylgjast með hámarksmælum meðan þetta ástand varir.

Líkanið sem býr til þessa spá sér hálendi Íslands en ekki einstök fjöll eða brattar hlíðar. Þar sem hvass vindur stendur af þeim fjöllum sem líkanið þó sér má sjá einkennileg þykktarhámörk eða lágmörk. Eitt slíkt hámark er í norðvestanáttinni við suðurhlíðar Vatnajökuls þar sem greina má 5500 metra jafnþykktarlínuna og töluna 8 sem táknar að 8 stiga hita sé að vænta í 850 hPa hæð. Smáóskhyggjusamlagning gefur þá nær ónefnanlega tölu sem hita við sjávarmál.

Enn betra gerir samt austurströnd Grænlands en norðaustan við Ammasalik má sjá örlítinn 5580 metra hring. Við tökum þessum smáhringjum mátulega alvarlega - en mun trúlegra er stóra 5480 metra teppið. Það sem truflar þessa fögru mynd er dálítill kuldapollur sem bent er á með ör á myndinni. Kaldasta loftið í kuldapollinum er reyndar mjög hlýtt miðað við árstíma, innsti hringurinn er 5380 metrar, en þarna er kalt miðað við umhverfið. Pollurinn stefnir til Íslands og spillir þykktarhámarkinu.

Ekki má gleyma að benda á gríðarlegan þykktarbratta norður eftir kortinu. Þar má sjá glitta í 4960 metra jafnþykktarlínuna sem minnir okkur harkarlega á að veturinn er aldrei langt undan á þorranum.

 


Stormdagatíðni

Líkur eru mestar á stormum hér á landi á tímabilinu frá því snemma í janúar til miðs febrúar. Hungurdiskar hafa fjallað um árstíðasveiflu illviðra fyrir löngu og við látum bíða að endurtaka það.

Hér er hins vegar litið á stormatíðni síðustu 60 ára rúmra og breytileika hennar. Mörg vandamál koma upp við talningar á stormum. Veðurstöðvakerfið hefur tekið miklum breytingum - ekki síst á síðustu árum og sömuleiðis er ekkert sjálfsagt mál hvernig á að skilgreina stormdag. En við skulum að þessu sinni gleyma öllum áhyggjum og ímynda okkur að allt sé í lagi með allt.

Við lítum fyrst á daga þar sem 10-mínútna vindhraði á fjórðungi stöðva hefur náð 20 m/s eða meira. Þetta er nokkuð hörð skilgreining enda er algengt að tjón verði í fleiri en einum landshluta þegar veður af þessari gerð gengur yfir landið.

w-blogg120212a

Lárétti kvarðinn sýnir árin en sá lóðrétti er fjöldi stormdaga á ári. Hvert ár á einn punkt en mýkri lína dregur fram aðalatriði. Við Sjáum mikinn áramun og einnig tímabilaskiptingu en engin leitni er áberandi. Meðalfjöldi stormdaga á tímabilinu er 11,3 á ári.

Við erum núna á tiltölulega hægu tímabili síðustu miklu stormaárin eru 2000 og 2001. En mest er árið 1975 en þá voru að þessum hætti 23 stormdagar - það er mjög mikið. Árið 1960 var stormafæð og einnig var árið 1977 mjög rólegt hvað þetta varðar. Það þýðir þó ekki að stormar hafi engu tjóni valdið þessi ár heldur hafa illviðri þessara ára verið bundin við einstaka landshluta og ná ekki upp í þá skilgreiningu sem hér er notuð. 

Sé þess krafist að 10-mínútna vindhraði hafi náð 20 m/s á 45% stöðva fækkar dögunum mjög, meðaltalið er 2,2 á ári. Sum þessara veðra hafa valdið gríðarlegu tjóni - en ekki þó öll.

w-blogg120212b

Hér er sennilega engin marktæk leitni - síðasti áratugur er þó mjög rýr. Það er merkilegt að árið 2000 sem átti 21 dag í fyrri flokknum á engan hér. Þegar mörg ár eru tekin saman (mjúka línan) sést að hámörkin eru á svipuðum slóðum og á efri myndinni.

Rétt er að taka fram að séu notaðar aðrar flokkunaraðferðir virðist stormatíðni fara minnkandi síðustu 60 árin. Við lítum e.t.v. á þau mál síðar. Um framtíðina segja myndirnar ekkert.


Hlýjustu febrúardagarnir

Hæsti hiti sem mælst hefur á Íslandi í febrúar er 18.1 stig, Þetta var á Dalatanga þ. 17. árið 1998 kl. 18. Þá fór mjór hlýindahryggur framhjá landinu í háloftunum - nánast einkennilegt að þessum háa hita skuli hafa verið náð. Engin önnur stöð á sitt febrúarmet þennan dag og ekki kemur hann við sögu á lista yfir 15 hlýjustu febrúardagana, en hér er hann:

 ármándagurmeðalh.
11960278,45
219652167,58
31956287,51
420062227,48
519852287,36
61959247,33
719612227,13
820062217,13
92006247,09
101959226,99
1119652156,56
1220042146,56
131965256,55
1419632286,54
1519792246,51

Miðað við samskonar lista fyrri mánaða vekur athygli að hér einoka síðustu 12 til 15 ár ekki toppinn í febrúar. Langefstur er sá 7. árið 1960 en þá urðu skaðaflóð í asahláku bæði norðanlands og sunnan. Í atburðaskrá segir: Ölfusá flæddi inn í kjallara húsa á Selfossi og bæir á Skeiðum einangruðust. Jakaburður í Blöndu braut símastaura og á Akureyri flæddi sums staðar inn í kjallara. Mikill vatnsflaumur braust í nokkur hús á Dalvík og olli tjóni. Svarfaðardalsá rauf veginn milli Akureyrar og Dalvíkur.

Mikil hlýindi voru lengst af í febrúar 1965. Afbrigðilegt þrýstifar bar mikinn hafís að Norðurlandi og markaði upphaf hafísáranna svonefndu sem stóðu til 1971. Mánuðurinn á þrjá daga á þessum lista. Það á líka febrúar 2006. Þá varð vart við ísdreifar norður af Ströndum - en svo ekkert meir.

Á lista yfir daga hæsta meðalhámark febrúar ganga sömu dagar aftur.

 ármándagurhámark
119602710,00
220062219,76
320062229,74
420052219,53
51960289,33
619652169,25
720032169,09
819852289,08
919802239,07
1020042199,04

En ekki munar hér jafnmiklu á fyrsta og öðru sæti listans. Hlýindin 2006 þrengja sér ofar en á fyrri listanum og árin eftir 2000 eiga helming sætanna.

En hæstu meðallágmörkin?

 ármándagurlágmark
11960275,69
219652165,45
31965255,15
419852285,05
51965264,71
620082184,71
719672144,63
81965244,54
919652194,50
1020042114,42

Hér eru dagar eftir 2000 ekki nema tveir og 2006 sést ekki, en febrúar 1965 á fimm sæti í topp tíu. Minnir bara á stöðu Bítlanna á vinsældalistum vestan hafs og austan um svipað leyti.

En munum að veðrið var ekki endilega gott alla þessa hlýju febrúardaga. Á þessum ártíma þarf miklar sunnanáttir til að halda hitanum uppi hér á norðurslóðum. Mikilli sunnanátt fylgir oft mikil rigning sunnanlands og vestan. Hár hiti krefst þess að skýjahula dragi úr útgeislun því sólin gagnast ekkert - en fer nú að gera það undir lok mánaðarins.


Fimm lægðir á einni viku

Undanfarna viku hafa fimm lægðir farið yfir landið. Smáar að vísu en talsvert krappar. Furðuhvasst hefur orðið í mjóum geirum suður af lægðamiðjunum. Tölvuspám gekk nokkuð vel að eiga við lægðirnar bæði hvað varðar brautir og dýpi. En við skulum líta á loftþrýstirit frá sjálfvirku stöðinni við Kálfhól á Skeiðum í Árnessýslu. Hægt hefði verið að velja einhverja aðra stöð en vikuritin má sjá fyrir allar sjálfvirkar stöðvar landsins á vef Veðurstofunnar. Þórður Arason hefur hannað ritin.

w-blogg100212

Græni ferillinn sýnir loftþrýstinginn í hPa - leiðréttan til sjávarmáls. Á lárétta ásnum má sjá daga febrúarmánaðar - frá föstudeginum 3. til og með fimmudagsins 9. Til frekari greiningar hefur tölum og textum verið bætt inn á ritið.

Númerin eiga auðvitað við lægðarmiðjurnar fimm. Fyrir ofan ferilinn eru línur sem afmarka tíma á milli hámarkanna á honum í klukkustundum. Þar má sjá áhrifatíma hverrar lægðar í grófum dráttum. Rúmir tveir sólarhringar eru á milli fyrstu tveggja lægðanna, það er býsna stutt - en síðan styttist bilið niður í um það bil sólarhring. Svo virðist sem innan við tveir sólarhringar verði síðan í að loftvog fari að falla á undan sjöttu lægðinni.

Á myndinni má einnig sjá fimm lóðréttar, bláar, línur. Þær segja nokkurn veginn til um það hversu mikið loftvog féll á undan hverri lægð. Á Kálfhóli er sú fyrsta gerðarlegust, um 30 hPa djúp, en þriðjudagslægðin er 22 hPa. Hinar mun grynnri. Auðvitað er risið á eftir lægðunum síst ómerkilegra heldur en fallið á undan þeim - en við látum það liggja á milli hluta hér. Þó skal bent á að á undan næstu lægð á loftvog að stíga upp undir rauða strikið sem merkt er í efra hægra horni myndarinnar og sunnudagslægðinni er síðan spáð um 10 til 15 hPa djúpri hér suðvestanlands.

Í lægðum er ýmist hvort er meira hvassviðri í fallinu eða það sem skellur á þegar loftvog fer að rísa. Fer það eftir efri gerð lægðanna. Mjög hvasst varð í risinu á eftir þriðjudagslægðinni - að vísu engin aftök nema á litlu svæði. Vestur á Tálknafirði var sú lægð álíka djúp og fyrsta lægð syrpunnar, þrýstiritinn þaðan sýnir um 30 hPa fall alls.

Lægðin sem er að ganga yfir þegar þetta er skrifað (um miðnæturbil á fimmtudagskvöldi) var dýpri á þrýstiritum um landið norðvestanvert heldur en á Kálfhóli og var fallið komið í 22 hPa á Sauðárkróksflugvelli þegar síðast fréttist - en þá hafði vindur snúist í vestsuðvestan 24 m/s. Enn hvassara varð á fjallvegum og við horn í landslagi.

Eftir allar þessar lægðir sem hafa fylgt smáum bylgjum á heimskautaröstinni (en hún hefur í aðalatriðum legið úr suðvestri til norðausturs ekki langt frá Íslandi), hrekkur aftur í stórgerðari bylgjur - en harla óvíst er þó enn hvernig þeim verður háttað.


Heiðasti febrúardagurinn

Þá er komið að heiðasta febrúardeginum í pistlaröðinni um heiðustu daga hvers mánaðar. Myndefnið er eins og oftast áður úr frábæru safni móttökustöðvarinnar í Dundee í Skotlandi. Það nær aftur til haustsins 1978.

Ekki þarf að leita langt aftur í tímann að þessu sinni því heiðastur febrúardaga er sá 9. árið 2009 - fyrir aðeins þremur árum.

w-blogg090212a

Hér er harla lítið um ský í námunda við landið, smávegis við Austfirði og yfir Selvogi að því er virðist. Þarna var heiðarleg hæð yfir Grænlandi og náði hún einnig upp í háloftin og myndaði dálitla fyrirstöðu. Vindur í háloftunum var nánast af hánorðri, en norðaustanátt við jörð. Þegar vindur snýst mót sólargangi með vaxandi hæð yfir sjávarmáli ríkir kalt aðstreymi í neðri hluta veðrahvolfs. Næstheiðasti febrúardagurinn var sá 15. árið 1987.

Við leitum líka að skýjaðasta deginum. Þar er samkeppnin mun harðari og reyndar vafasamt að veita einhverjum sérstökum degi titilinn. Við gerum það samt og upp koma jafnir þeir 19. árið 1958 og 13. 1953.  Það kemur á óvart að þrýstingur var hár báða þessa daga og hæðarhryggur yfir landinu í háloftunum í báðum tilvikum (krappir háloftaöldutoppar). Skýjagagnasafnið nær aftur til 1949.

Einnig var leitað að besta skyggninu. Sú keppni er enn vafasamari - en þar kemur 15. febrúar 1987 í fyrsta sæti, sá sami og var í öðru sæti heiðskírra daga. - Og versta meðalskyggnið var 13. febrúar 1973. Þá geisaði mikið norðanillviðri á landinu með hríðarbyl, samgöngutruflunum, rafmagnsleysi og snjóflóðum. Meira að segja fór heitt vatn af flestum húsum á þjónustusvæði Hitaveitu Reykjavíkur í rafmagnsleysinu. Þetta veður stóð marga daga og þann 11. varð mikið sjóslys fyrir sunnan land. Sjálfsagt erfið vakt á Veðurstofunni - en ritstjóri hungurdiska var erlendis.


Fylgst með kuldapollum norðurhvels

Við lítum nú sem oftar á 500 hPa spákort en það gildir um hádegi á fimmtudag (9. febrúar) og sýnir meginhluta hringrásarinnar á norðurhveli.

w-blogg080212a

Að þessu sinni er Kyrrahafið að mestu útundan en að öðru leyti ætti kortið að vera kunnuglegt. Höfin eru blá, löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en þynnri rauðar línur eru við 5820 metra og 5100 metra hæð. Almennt má segja að því lægri sem flöturinn er því kaldara er veðrahvolfið.

Aldrei þessu vant sjáum við nú í fjórðu rauðu línuna, hún kemur fram sem lítill hringur í kringum miðju kuldapollsins mikla við Norður-Labrador og markar 4740 metra hæð flatarins. Oftast nær sést lítið til þessarar línu nema rétt þegar veturinn er í hámarki á norðurhveli. Mikil hlýindi hafa verið í heimskautalöndum Kanada að undanförnu en nú hafa orðið þar mikil umskipti til þess venjulega.

Austanhafs er hins vegar allt með harla óvenjulegum hætti. Við sjáum að enn liggur mikið lægðardrag til vesturs frá sléttum Asíu og vestur um allt Miðjarðarhaf en hæðarhryggur er aftur á móti þar fyrir norðan eins og nú hefur verið um hríð. Breytingar á þessu eru ekki miklar, kuldapollurinn yfir Póllandi fer suður til Miðjarðarhafs og endurnýjar þann sem nú er yfir Alsír. Mjög kalt verður því enn við Miðjarðarhafið og á Balkanskaga - en gríðarlegar rigningar í Grikklandi og víðar. Þar snjóar auðvitað langt niður eftir fjallshlíðum.

Kuldapollurinn norður af Svartahafi á ekki að ógna Vestur-Evrópu að sinni - virðist einna helst stefna til Moskvu næstu daga með ofurlágri þykkt, um 4900 metrum í miðju. Ekki sér enn í lok Evrópukuldans - því hugsanlegt er að næsti kuldapollur komi beint úr norðri og fari suður um. Þótt ekki sé Síberíukuldi þar á ferð er allt sem kaldara er heldur en 5200 metrar algjört eitur í Frakklandi og á öllu svæðinu þar sunnan við. Pólland og innsveitir Balkanskaga eru vanari að bregðast við svo lágri þykkt eða lítið eitt lægri.

En umskipti hafa sem sagt orðið vestanhafs þegar þetta kort gildir. Kuldapollurinn yfir Labrador er gríðarlega öflugur. Því er spáð að 4740 metra jafnþykktarlínan birtist við miðju hans á föstudag eða svo, en hungurdiskar hafa áður kennt hana við ísöldina. Ísaldarlínan sést af og til á kortum um miðjan vetur.

Kuldapollurinn mikli (í fyrra var ámóta pollur kallaður Stóri-Boli hér á hungurdiskum) er á fimmtudaginn orðinn tiltölulega hringlaga og hreyfist ekki mikið meðan svo er. Þó má sjá smáhorn standa út úr honum til vesturs - eitthvað lægðardrag er þar á ferðinni. Meðan Boli hefur hægt um sig ógnar hann okkur ekki - en er í ógnandi stöðu fyrir austurhéruð Kanada og jafnvel norðausturríki Bandaríkjanna. En við skulum ekki velta vöngum yfir því - í bili að minnsta kosti.

Ísland er enn í lægðabraut og fara nú bylgjur yfir landið nánast á hverjum degi. Við lítum nánar á þau mál gefist tilefni til.


Vika krappra smálægða

Nú rennur hver smálægðin á fætur annarri eftir heimskautaröstinni - ýmist yfir Ísland, fyrir vestan það eða austan. Eins og gefur að skilja veldur þetta talsverðri óvissu í veðurspám og að auki er óþægilegt að sumar þessara smálægða verða nokkuð krappar þegar þær fara hjá. Hungurdiskar taka enga afstöðu til spánna - og bendir þeim sem eitthvað eiga undir veðri að fylgjast með spá Veðurstofunnar eða annarra þeirra sem fylgjast náið með lægðunum og hegðun þeirra. En við getum litið á hitamynd sem numin var kl. 23 á mánudagskvöldi 6. febrúar og birtist (stærri) á vef Veðurstofunnar.

w-blogg070212a

Hér má sjá tvo þroskaða lægðasveipi. Annar þeirra er í hlutverki gömlu lægðarinnar, þeirrar sem færði okkur hlýindi og úrkomu mánudagsins. Miðja þess sveips er rétt vestan við Hvarf á Grænlandi. Hiti komst í 13 stig bæði fyrir norðan og austan í dag.

Annar lægðarsveipur er fyrir sunnan land, merktur sem L1 á kortinu. Við sjáum að hann er mjög lítill um sig. Sveigurinn í kringum hann er varla mikið stærri en Ísland. Smáatriði framhjágöngu hans skipta því miklu máli. Það er að sjá að mjög hvasst sé í sveipnum sunnan- og suðaustanverðum - e.t.v. hvassast um það bil þar sem tölustafurinn einn nærri lægðarmiðunni.

Óþægilega stutt er í næsta lægðarkerfi fyrir sunnan (L2). Það liggur við að það valti yfir L1. Mjög hlýtt loft ryðst fram á undan því eins og vel má sjá af furðuheillegu en örmjóu skýjabandi næstum alveg ofan í bakhlutanum á L1. Þriðja smálægðin er síðan að myndast við Nýfundnaland (L3). Þetta er óþægilega þröng staða fyrir lægðavöxt sem helst vill geta dregið loft af stóru svæði inn i lægðarhringrás í mótun.

En L1 hefur þegar náð hringsnúningi og líklegt er að hann haldist alla leiðina framhjá vesturströnd Íslands á morgun. En það skiptir mjög miklu fyrir veðrið vestast á landinu, á Reykjanesi, Snæfellsnesi og í Faxaflóa nákvæmlega hvar lægðarmiðjan fer um. Mikill munur er t.d. á vindi hvort leiðin liggur 100 eða 200 km vestur af Reykjanesi - því illa hvasst er aðeins á tiltölulega litlu svæði.

Reynslan hnígur þó að því að þetta gerist allt mjög fljótt, suðaustanhvassviðrið á undan kerfinu (ef eitthvað er) verður varla skollið á þegar suðvestanveðrið tekur við. Undir þessum kringumstæðum fylgjast veðurnörd mjög náið með loftvogum sínum (jafnvel þeim ómerkilegustu). Séu þær af gömlu gerðinni berja menn létt með fingri á glerið sjá nálina hrökkva til og færa síðan viðmiðunarnálina ofan í stöðuna. Þá er auðvelt að sjá hver breytingin er þegar næst er barið. Í venjulegu veðri er nóg að lesa af voginni á 3 klst fresti. Ef fylgjast á með því hvort hraði breytingarinnar vex þarf að lesa af oftar oft á klukkustund - og helst skrá á einhvern hátt - annað hvort með því að skrifa aflesturinn á blað/tölvu eða með því að færa inn á gamaldags millimetrapappír (ef einhver veit hvað það er).

Þeir sem ekki hafa yfir eigin loftvog að ráða geta fylgst með þrýstibreytingum á vef Veðurstofunnar - en þar endurnýjast tölur því miður ekki nema á klukkustundar fresti. Fyrir þessa ákveðnu lægð er gott að fylgjast með ástandinu á Keflavíkurflugvelli á vefsíðu hans. Nú (eftir kl. 24 aðfaranótt þriðjudags) er þrýstingur þar þegar farinn að falla, síðustu klukkustund úr 1015,1 niður í 1014,8. Þetta er svo lítil breyting að hennar gætir lítt á dósarloftvogun. Í nótt og á morgun ætti þrýstingur að falla niður í um 986 hPa og honum er spáð lægstum upp úr hádeginu. Þetta er ekkert sérlega mikið fall (29 hPa alls) - en gæti orðið meira eða minna. En við sjáum að fallið er að meðaltali rúm 2 hPa á klukkustund, verður e.t.v. 3 til 4 þegar mest er - ef það fer að verða meira - er ljóst að eitthvað hefur farið úrskeiðis og rétt að búast við vondu.

Fyrir tíma tölvuspáa og netsins var enn meira gaman að fylgjast með heimaloftvoginni - og reyna að ráða í þróunina upp á eigin spýtur.  


Þurrt loft frá Grænlandi svífur yfir landið

Í dag (sunnudag) fór mjög þurrt loft ofan af Grænlandi yfir landið. Málið er þó ef til vill ekki alveg svo einfalt - hugsanlega var þurrkurinn líka tengdur bröttum hæðarhrygg sem fór hjá í háloftunum. En við látum það liggja á milli hluta. En lítum á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um rakastig í 925 hPa-fletinum kl. 18 í dag, en flötur sá er oft í um 600 metra hæð yfir sjó - snertir því fjalllendi Íslands.

w-blogg060212

Áður en við förum í rakann verðum við að afgreiða í stuttu máli það sem er mest áberandi á myndinni - lituðu svæðin. Þau sýna dulvarmaskipti við yfirborð jarðar (aðallega sjávar reyndar). Þar sýna rauði og bleiki liturinn svæði þar sem raki (og þar með dulvarmi) berst úr sjó til lofts en sá græni sýnir hið gagnstæða. loft skilar dulvarma til yfirborðs (ekki er ólíklegt að þar sé í þessu tilviki þoka eða súld). 

Tölurnar eru í wöttum á fermetra, býsna stórar eins og vill verða á þessum árstíma - en geta þó orðið mun hærri. Á þessu korti má sjá smásvæði með meira en 200 W á fermetra. Trúlegt er að einhvern tíma fyrir vorið fáum við að sjá talsvert hærri tölur. En á kortinu má einnig sjá örvar sem sýna vindstefnu.

Þar eru einnig svartar, heildregnar línur. Þær ystu afmarka svæði þar sem rakastig er innan við 60%, síðan eru dregnar jafnrakalínur fyrir hver 10% þar neðan við. Svo ótrúlegt sem það er sjáum við línur allt niður í 10%. Á kortið hafa verið settir fjórir gulir blettir sem benda eiga á rakalágmörk (þau eru fleiri). Athugið að undan norðausturlandi er allstórt svæði þar sem rakastigið er yfir 60% umkringt af lægri jafnrakalínum.

En rakastig breytist mjög með hæð frá jörðu og er gjarnan hærra neðst þar sem loftið er i snertingu við raka jörð (eða haf) heldur en aðeins ofar. Þess er því varla að vænta að rakastig á veðurstöðvunum fari jafnlangt niður og hér er sýnt.

En þó var það þannig í dag (sunnudag) að rakastig datt niður um tíma á allflestum veðurstöðvum landsins. Mismikið, en austanlands (þar sem niðurstreymi hjálpar til) fór að víða vel niður fyrir 30%. Sem dæmi um það getum við litið á rakastigið í dag á Fáskrúðsfirði (línurit af vef Veðurstofunnar).

w-blogg060212b

Þar var lægsta rakastig dagsins rétt rúm 20%. Rakaspá reiknimiðstöðvarinnar reyndist furðugóð.


Loftþrýstingur í febrúar

Sá sem þetta skrifar hefur nú fylgst náið með veðri í rúm 50 ár. Einhvern veginn varð fljótt til eins konar tilfinning um það hvernig veðrið ætti að vera - hvað væri eðlilegt. En allan þennan tíma hefur gengið á með óvæntum uppákomum. Ein sú óvæntasta var þegar febrúar fór út af sporinu fyrir rúmum 20 árum. Reyndar má segja að aðkenningar hafi þegar orðið vart í febrúar 1982. En lítum á stuðningsmynd.

w-blogg050212

Hún sýnir meðalloftþrýsting í febrúar í nærri 200 ár. Aðaleinkenni myndarinnar er mikið suð - gildin sveiflast út og suður frá ári til árs og ekki mikla reglu að sjá. Um 1960 er þó áberandi klasi af háum gildum, það langhæsta 1965. En þessi háþrýstiklasi er það sem sá sem þetta skrifar ólst upp við ef svo má segja - febrúarmánuðir hlutu að vera svona í eðli sínu. Ef frekar er rýnt í þetta má sjá að háþrýstiklasinn hafði reyndar staðið meira eða minna frá því 1932.

EF við höldum í hina áttina, nær okkur í tíma, sést að á árunum 1971 til 1974 slaknaði á háþrýstingnum og reyndar líka 1967. Enda lentu þessir mánuðir á reynslujaðri, ósjálfrátt taldir lágþrýstimánuðir - febrúar gat varla farið mikið niður fyrir þetta. Að auki náðu töflur Veðráttunnar (tímarits Veðurstofunnar) ekki nema aftur til 1924 og fátt um samanburð fyrir þann tíma.

Svo gerðist það snemma í febrúar 1982 að allt í einu birtist lægð sem fór niður fyrir 930 hPa skammt fyrir sunnan land. Dýpt lægðarinnar þóttu tíðindi út af fyrir sig en að það skyldi gerast í febrúar var enn ólíklegra. Næsta árið rak á hvern stóra lágþrýstiatburðinn af öðrum (ekki þó í febrúar). Um svipað leyti bárust fréttir af því að árið 1981 hefði mælst það hlýjasta sem vitað var um á norðurhveli frá upphafi mælinga. Voru hér einhver tengsl á milli?

Meðalþrýstingur í febrúar 1982 var sá lægsti í þeim mánuði síðan 1922. Var þetta þá 50 ára lágþrýstimánuðurinn? Febrúar árið eftir, 1983 féll hins vegar nær gamla farinu og það virtist staðfestast næstu árin. Í febrúar 1986 var þrýstingur aftur mjög hár, sá langhæsti síðan 1965.

En 1989 birtist allt í einu annar lágþrýstifebrúar - sjónarmun lægri heldur en 1982. Síðan komu stóru tíðindin, 1990 datt út úr kortinu. Meðalloftþrýstingur var þá 10 hPa undir 1982. Þegar upp var staðið kom í ljós að þetta var nýtt met - ekki aðeins fyrir febrúar heldur fyrir alla mánuði ársins. Mjög lágur mánaðarþrýstingur hafði fram að þessu verið talinn mun líklegri í desember eða janúar. Varla nokkur bjóst við því að febrúar stæði í þessu enda er meðalþrýstingur þá ívið hærri heldur í hinum mánuðunum.

En talnaglöggir lesendur munu væntanlega átta sig á því að hér nýtur febrúar smáforskots á hina mánuðina tvo - hann er þremur dögum styttri og þar með aðeins líklegri til útgildameta (að öðru jöfnu).

Síðustu tíu árin eða svo virðist febrúar hafa jafnað sig en það segir auðvitað ekki neitt um framtíðina. En það er samt einkennilegt hvernig há- og lágþrýstingur leggst í væga klasa í tíma.

Eitt atriði enn. Þegar rætt er um þrýsting er NAO-fyrirbrigðið ekki langt undan. Þar sem helsta vísitala þess ræðst að miklu leyti af þrýstingi við Ísland vill það líka leggjast í væga klasa. NAO-vísitalan var þannig mjög lág á meðan háþrýstiskeiðið stóð og mjög há í lágþrýstiklasanum. Í öllum þeim skrifum sem fjallað hafa um NAO virðast sárafáir hafa veitt því eftirtekt að það var einkum febrúar sem var afbrigðilegur meðan á í lágþrýsiklasanum stóð - lágþrýstiskeið vetrarins við N-Atlantshaf lengdist í afturendann - framendinn, í desember, breyttist lítið.  


Nokkur orð um Reykjavíkurhitasóttina illræmdu

Vonandi fjalla hungurdiskar á næstu mánuðum um Reykjavíkurhitasóttina svokölluðu - hún er e.t.v. ekki af alveg sama stofni og hænsnaveikin sem var alveg áreiðanleg - en einkennin eru svipuð. Einkennum þeirrar fyrrnefndu er best lýst í langri grein sem Ernest Hovmöller, veðurfræðingurinn heimskunni, ritaði 1960 og þróunaraðstoð Sameinuðu þjóðanna gaf út - íslenska ríkið ... (jæja).  Hænsnaveikinni er sem kunnugt er lýst í sögu H.C. Andersen.

Svo virðist sem áhugamenn um eðli sóttarinnar beri það ekki við að lesa Hovmöller - það er alveg áreiðanlegt. Auðvitað er hún afspyrnuleiðinleg fyrir óinnvígða - þótt skýr og vel skrifuð sé. Þess í stað keppast menn við að éta upp erlendar flugufréttir - sem magnast í hverri umferð eins og sagan um hænsnadauðann í sögunni góðu. Að vísu fuku í raun og veru nokkrar fjaðrir á erlendu stórbúi - en að öll egg frá búinu séu þar með orðin eitruð er orðum aukið - svo ekki sé meira sagt.

En - lýsing heilkenna sóttarinnar er bæði löng og leiðinleg. Reynslan sýnir að allir nema þeir þrekmestu gefast upp á þulunni strax í upphafi. Hungurdiskar munu því vægja lesendum við smáatriðum. En - því miður eru þessi smáatriði aðalatriði málsins.

Hvað er þá til ráða? Lesendur verða að virða ritstjóranum það til betri vegar að geta ekki hrist skýringar fram í svo stuttu máli að læsilegt verði í einni bloggsetu. Hann ætlar t.d. helst ekki að endurskrifa hina ágætu grein Hovmöllers. Hún fjallar m.a. um það vandamál að skilgreina meðalhita og hvernig subbuskapur í umgengni við slíkar skilgreiningar getur, ef ekki er varlega farið, endað á versta veg - eins og við höfum orðið vitni að.

En hungurdiskar hafa stofnað útibú á fatlaensku (icelandweather blog) til að sýna fram á leiðindi málsins í raun. Þar er hins vegar aðeins einn erfiður pistill sem stendur og þýðir ekkert að búast við nýjum nema rétt af og til. En þeir sem eru innvígðir í æstu bræðrareglu veðurnörda kunna bakvið enskufroðuna að sjá glitta í hinn hreina platónska meðaltalsreikning (ja hérna vitleysan). Já, hér er ekki tengill á bræðrabloggið - hungurdiskar kannast ekki enn við króann. Kannski að Gúggli þekki hann?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.7.): 214
  • Sl. sólarhring: 230
  • Sl. viku: 1996
  • Frá upphafi: 2485282

Annað

  • Innlit í dag: 193
  • Innlit sl. viku: 1771
  • Gestir í dag: 176
  • IP-tölur í dag: 176

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband