Fimm lægðir á einni viku

Undanfarna viku hafa fimm lægðir farið yfir landið. Smáar að vísu en talsvert krappar. Furðuhvasst hefur orðið í mjóum geirum suður af lægðamiðjunum. Tölvuspám gekk nokkuð vel að eiga við lægðirnar bæði hvað varðar brautir og dýpi. En við skulum líta á loftþrýstirit frá sjálfvirku stöðinni við Kálfhól á Skeiðum í Árnessýslu. Hægt hefði verið að velja einhverja aðra stöð en vikuritin má sjá fyrir allar sjálfvirkar stöðvar landsins á vef Veðurstofunnar. Þórður Arason hefur hannað ritin.

w-blogg100212

Græni ferillinn sýnir loftþrýstinginn í hPa - leiðréttan til sjávarmáls. Á lárétta ásnum má sjá daga febrúarmánaðar - frá föstudeginum 3. til og með fimmudagsins 9. Til frekari greiningar hefur tölum og textum verið bætt inn á ritið.

Númerin eiga auðvitað við lægðarmiðjurnar fimm. Fyrir ofan ferilinn eru línur sem afmarka tíma á milli hámarkanna á honum í klukkustundum. Þar má sjá áhrifatíma hverrar lægðar í grófum dráttum. Rúmir tveir sólarhringar eru á milli fyrstu tveggja lægðanna, það er býsna stutt - en síðan styttist bilið niður í um það bil sólarhring. Svo virðist sem innan við tveir sólarhringar verði síðan í að loftvog fari að falla á undan sjöttu lægðinni.

Á myndinni má einnig sjá fimm lóðréttar, bláar, línur. Þær segja nokkurn veginn til um það hversu mikið loftvog féll á undan hverri lægð. Á Kálfhóli er sú fyrsta gerðarlegust, um 30 hPa djúp, en þriðjudagslægðin er 22 hPa. Hinar mun grynnri. Auðvitað er risið á eftir lægðunum síst ómerkilegra heldur en fallið á undan þeim - en við látum það liggja á milli hluta hér. Þó skal bent á að á undan næstu lægð á loftvog að stíga upp undir rauða strikið sem merkt er í efra hægra horni myndarinnar og sunnudagslægðinni er síðan spáð um 10 til 15 hPa djúpri hér suðvestanlands.

Í lægðum er ýmist hvort er meira hvassviðri í fallinu eða það sem skellur á þegar loftvog fer að rísa. Fer það eftir efri gerð lægðanna. Mjög hvasst varð í risinu á eftir þriðjudagslægðinni - að vísu engin aftök nema á litlu svæði. Vestur á Tálknafirði var sú lægð álíka djúp og fyrsta lægð syrpunnar, þrýstiritinn þaðan sýnir um 30 hPa fall alls.

Lægðin sem er að ganga yfir þegar þetta er skrifað (um miðnæturbil á fimmtudagskvöldi) var dýpri á þrýstiritum um landið norðvestanvert heldur en á Kálfhóli og var fallið komið í 22 hPa á Sauðárkróksflugvelli þegar síðast fréttist - en þá hafði vindur snúist í vestsuðvestan 24 m/s. Enn hvassara varð á fjallvegum og við horn í landslagi.

Eftir allar þessar lægðir sem hafa fylgt smáum bylgjum á heimskautaröstinni (en hún hefur í aðalatriðum legið úr suðvestri til norðausturs ekki langt frá Íslandi), hrekkur aftur í stórgerðari bylgjur - en harla óvíst er þó enn hvernig þeim verður háttað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 26
  • Sl. sólarhring: 113
  • Sl. viku: 1517
  • Frá upphafi: 2348762

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 1323
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband