Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Febrúar aftur orðinn kaldastur

Hver er merking fyrirsagnarinnar? Merkileg tíðindi? Kaldastur miðað við hvað? Hvað er átt við með febrúar? Er það febrúar á þessu ári eða hefur einhver reikniskekkja verið leiðrétt fyrir einhverja febrúarmánuði fortíðarinnar? Sé svo, þá hvar og hvenær?

En lítum á mynd til skýringar á því hvað hér er átt við. Myndin getur verið skemmtiefni fréttasjúkra veðurnörda - eins og ritstjóra hungurdiska - en óvíst hvort aðrir telja sig einhverju nær.

w-blogg030212

Myndin sýnir 30-ára keðjumeðaltöl hita í Stykkishólmi fyrir mánuðina janúar (blár), febrúar (rauður) og mars (grænn). Fyrsta 30-ára tímabilið er 1823 til 1852, en það síðasta er 1982 til 2011. Ártölin á kvarðanum eiga við síðasta ár hvers 30-ára tímabils.

Það sést nú ekki sérlega vel á myndinni, en febrúar hefur síðustu þrjú þrjátíu ára tímabilin verið kaldastur mánaðanna þriggja. Þetta er hin merka frétt fyrirsagnarinnar. Hann hefur verið það oft áður en ekki síðustu áratugina. Svo hittist á að á tímabili því sem nú er notað til viðmiðunar, 1961 til 1990 var hann hlýjastur - mjög óvenjulegt í langtímasamhengi. Munurinn á mánuðunum þremur er líka óvenjulítill um þessar mundir. Það sést vonandi vel á myndinni að ekki er sérlega auðvelt að velja eitt ákveðið 30-ára tímabil öðrum fremur sem „Meðaltalið“ með stórum staf og greini.

Það er merkilegt að hiti í febrúar hefur haldist lítið breyttur allt frá því á tímabilinu 1921 til 1950 þar til nú. Áður hlýnaði hann mjög hratt - rétt eins og hinir mánuðirnir tveir sem báðir skutu yfir markið í hlýindunum sem náðu hámarki á árunum 1935 til 1964. 

Janúar og mars tóku miklar dýfur á skeiðinu frá 1965 fram undir síðustu aldamót. Janúar hefur að mestu jafnað sig á dýfunni - en mars ekki. Hann á talsvert í það að ná fyrri hlýindum. Dýfan á síðari hluta 19. aldar var langmest í mars, á stuttu skeiði varð hann meira að segja kaldastur mánaðanna þriggja. Það var 1859 til 1888. Telja má víst að hafísmagn við landið hafi mest áhrif á hitann í mars - meiri heldur en í febrúar og janúar.

Síðan háloftaathuganir hófust fyrir 1950 hefur sunnanátt í háloftunum náð hámarki ársins í febrúar. Ekki er enn ljóst hvort svo hefur líka verið á 19. öld, hafi svo verið hefur sú sunnanátt að jafnaði komið meira úr vestri (við lægri þrýsting) heldur en verið hefur síðustu áratugina. Svo má auðvitað vera að ís hafi einfaldlega verið fyrr á ferð hér við land heldur en var síðar á hafísárum 20. aldarinnar og þar með merkt febrúar líka.

Myndin geymir einnig smá leitnileik, sjá þunnar hallandi strikalínur. Leitin reiknast mest í febrúar, 1,7 stig á 100 árum, síðan kemur mars með 1,2 stig og janúar með 1,0 stig. Það er skemmtilegt að munur á 19. aldar hitahámarki marsmánaðar og 20. aldar hámarkinu um 100 árum síðar er um 0,7 stig.

En eins og venjulega má ekkert mark taka á reiknaðri leitni þegar litið er til framtíðar.


Órólegar spár

Fyrirsögnin hefur eiginlega tvöfalda merkingu. Annars vegar er spáð órólegu veðri næstu daga - en hins vegar eru tölvuspárnar mjög órólegar sem slíkar, þær breytast ört frá einum reiknitíma til annars. Í augnablikinu segir evrópureíknimiðstöðin að fimm lægðakerfi muni renna hjá næstu sjö daga en bandaríska veðurstofan segir kerfin muni verða sex á þessum sama tíma. Þetta gæti allt breyst á næsta reiknitíma - þannig að ekki er nokkur leið fyrir hungurdiska að fylgja því eftir.

Spárnar eru þó að mestu leyti sammála um morgundaginn (fimmtudag 2. febrúar), suðaustanslagviðrisrigningu á Suður- og Vesturlandi stóran hluta dagsins. En spár um smáatriði þess má finna á vef Veðurstofunnar og jafnvel víðar. Rétt er fyrir þá sem fara um fjallvegi eða langar leiðir að líta á alvöruspár.

En við horfum hins vegar á tvö óvenjuleg veðurkort - aðallega í uppeldisskyni. Kortin gilda bæði kl. 18 fimmtudaginn 2. febrúar og eru úr faðmi evrópureiknimiðstöðvarinnar (ecmwf). Viðkvæmir lesendur eru varaðir við  textanum hér á eftir - hann er ansi tyrfinn.

w-blogg020212a

Hér er eitt atriði kunnuglegt öllum kortalæsum. Svörtu heildregnu línurnar sýna loftþrýsting við sjávarmál, dregin er fjórða hver jafnþrýstilína og sýnir innsti hringurinn við lægðarmiðjuna 980 hPa þrýsting. Ekki svo djúp lægð, en þrýstilínur eru þéttar yfir vestanverðu Íslandi. Þar er því hvass vindur, í nokkurri hæð fylgir vindur þrýstilínunum í stórum dráttum (með hærri þrýsting á hægri hönd snúi menn baki í vindinn). Við jörð veldur núningur því að vindurinn blæs heldur í átt að lægri þrýstingi. Þrýstivindur er af suðsuðaustri í strengnum en er af suðaustri eða austsuðaustri við jörð. Landslag flækir málið svo enn frekar.

Þetta er allt kunnuglegt. Sé rýnt í kortið má sjá daufar punktalínur. Þær sýna hita í 850 hPa-fletinum og er á kortinu ekki gert hátt undir höfði, dregnar með 5°C millibili. Einni er þó látin vera áberandi, breiðari fjólublá punktalína sem sýnir -5°C.

En það eru skærir litaðir fletir sem mest ber á og kvarðinn til hægri lýsir. Þetta er mættishiti í 850 hPa-fletinum. Hvað er mættishiti? Við gætum kallað hann þrýstileiðréttan hita, það er sá hiti sem loftið fengi væri það togað niður í 1000 hPa þrýsting. Nú hlýnar loft sem togað er niður um 1°C á hverjum 100 metrum sem hæðin lækkar.

Það sést nú ekkert allt of vel á þessu afriti myndarinnar að rauði liturinn yfir landinu sýnir að mættishiti er þar meiri en +10°C. Við Vestfirði má greina staðbundið hámark þar sem 11,1 stig er merkt með tölustöfum. Svo illa vill til að hitt staðbundna hámarkið yfir landinu lendir ofan í þrýstitölu og sést því illa, en lesendur verða að trúa því að þar stendur talan 14,2 stig.

Loftið sem er í 850 hPa hæð (um 1440 metrum yfir Norðausturlandi) yrði sem sagt 14 stiga hlýtt ef það næðist niður í 1000 hPa. Þrýstingur við sjávarmál er þarna um 1016 hPa - það þýðir að 1000 hPa þrýsting er að finna í um 130 metra hæð, til sjávarmáls er því um eitt stig til viðbótar.

Ef við nú næðum lofti niður úr 850 hPa á litlu svæði - yrði það óhjákvæmilega hlýrra en loftið umhverfis (sem ekki er komið beint að ofan) og lyftist því strax aftur. Ef það flæðir niður þar sem snævi þakin háslétta er undir kælir snjóbráðnun loftið og hlýindanna nýtur síður. Á þessum árstíma eru líkur á því að sé loftinu dælt niður norðan Vatnajökuls kólni það á leið til byggða. Mestar líkur á hlýviðri að ofan eru því við brött fjöll þar sem niðurstreymi getur átt sér stað - eða þá að hlýja loftið geti að minnsta kosti blandast niður á við. Þetta er á þessum árstíma helst við utanverðan Tröllaskaga, í Vopnafirði og austur á fjörðum (sjálfsagt einnig norður í Fjörðum - en þar er engin veðurstöð).

Kort sem þetta eru stundum notuð til að giska á hæsta hámarkshita þar sem skilyrði til niðurstreymis geta verið til staðar. Stigin 14 gætu þá verið ágiskun um hámarkshita norðaustanlands síðdegis á fimmtudag. En vel að merkja - þykktin á ekki að fara í meir en um 5360 metra og það dugir varla í 14 stig.

En fróðleiksfúsir lesendur eru ekki alveg sloppnir því við lítum líka á kort sem sýnir svokallaðan jafngildismættishita. Þetta er ekki sérlega aðlaðandi orð - verður þó að duga þar til betra sýnir sig. Jafngildismættishiti er sá sem verður til þegar að loftið er togað niður til 1000 hPa en þar að auki er dulvarminn sem í því þýr leystur úr læðingi. Vatnsgufa ber í sér mikla orku sem losnar þegar hún þéttist. En lítum á kortið.

w-blogg020212b

Þetta er sama kort og að ofan, jafnþrýstilínur við sjávarmál og jafnhitalínur í 850 eru þær sömu og áður, þar með talin fjólubláa punktalínan. Litafletirnir sýna hins vegar umræddan jafngildismættishita (æ). Til að koma í veg fyrir rugling við mættishitann hefur hér verið valið að nota Kelvinstiga í stað hins hefðbundna frá Andrési Celcíus. Þar eru 273K = 0°C (eða nærri því). Hæsta talan 298,2K er vestur af landinu er því = 25°C.

Nú er það svo að talsvert af dulvarmanum losnar, bæði við lóðréttar hreyfingar í lægðakerfinu sjálfu sem og í uppstreymi áveðurs við fjöll. En mestallt loftið sem hlýnar (eitthvað blandast) lyftist. Það er óhætt að upplýsa að mjög stór hluti vatnsgufunnar að sunnan þéttist um síðir - og fellur út sem úrkoma en það loft sem hlýnar kemst ekki niður - síður en svo - heldur leitar það upp. Hluti rigningarinnar sem fellur niður úr þéttingarhæðinni kælir hins vegar það loft sem hún fellur niður í (gufar upp og það kostar varma).

Þetta kerfi fer fljótt hjá og næsta lægð komin að landinu með sinn háa mættishita og raka rúmum sólarhring síðar.


Janúarlok

Þrátt fyrir töluverða ófærð og almennan óróa í veðri er liðinn janúarmánuður samt hlýrri en í meðallagi um land allt. Úrkoma á Suður- og Vesturlandi var langt umfram meðallag. Vonandi má lesa um það á vef Veðurstofunnar von bráðar.

Meðalloftþrýstingur hefur verið lágur í janúar en þó hafa eftirtektarsöm veðurnörd trúlega gefið því gaum að þessa dagana er loftþrýstingur ekki sérlega siginn þrátt fyrir fjörugan lægðagang. Margar lægðir eiga að fara hjá næstu vikuna - býsna krappar og vindasamar en ekkert sérlega djúpar miðað við árstíma. Lægðirnar eru þó það nærgöngular að mestu hlýindin fara ýmist hjá landinu eða standa afskaplega stutt við.

Þar sem reglan um að hollusta fylgi háloftakortum er í hávegum höfð á hungurdiskum skulum við nú líta á eitt slíkt. Það er í kunnuglegu gervi hirlam 500-hPa og þykktarspár sem gildir kl. 18 þriðjudaginn 1. febrúar.

w-blogg010212

Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar, jafnþykktarlínurnar eru rauðar strikaðar. Hvoru tveggja er mælt´í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem jafnhæðarlínurnar eru því meiri er vindurinn í veðrahvolfinu miðju og því meiri sem þykktin er því hlýrri er neðri hluti veðrahvolfs. Vindurinn dregur þykktarlínurnar til rétt eins og um spunninn þráð sé að ræða (jæja, kannski ekki alveg). Þar sem þær bera hærri þykkt með sér er sagt að hlýtt aðstreymi ríki (t.d. við rauðu örina á myndinni) en þar sem lægri þykkt sækir á er aðstreymið kalt (t.d við bláu örina austan Nýfundnalands.

Ef við förum í saumana á kortinu má sjá að það er 5340 metra jafnhæðarlínan sem liggur um Ísland, þetta er um 100 metrum yfir meðaltali árstímans. Það er 5160 metra jafnþykktarlínan sem sveigist inn á norðvestanvert landið. Þykktin sú er heldur undir meðallagi árstímans en stendur stutt við. Yfir landinu er frekar skarpt lægðardrag og má gera ráð fyrir að það sé á töluverðri ferð til norðausturs - samkvæmt þeirri þumalfingurreglu að stutt skörp lægðardrög fari hraðar yfir en löng. En við skulum þó aldrei ofgera þumlinum - munum það.

Það sem er athyglisverðast á þessu korti í augum sem gera lítið annað en að stara á veðurkort er að þykktin skuli varla komast undir 5040 metra á öllu svæðinu vestan og suðvestan Grænlands. Þar ríkir ein allsherjar þykktarflatneskja. Það liggur við að hægt sé að líta undan - en við skulum samt ekki vanmeta þann þykktarbratta sem er í kringum heimskautaröstina - en hana er að finna á þeim slóðum þar sem jafnhæðarlínurnar eru þéttastar. Þar er í sjálfu sér nægt fóður í illviðri.

En austur í Evrópu bendir blá og þykk ör á 4920 metra jafnþykktarlínuna sem rétt gægist inn á kortið og dregur að sér athygli veðurnörda - þótt þau ættu að vera að fylgjast með allt öðru og jafnvel þótt línan sú komist ekki lengra vestur.


Austanhafs og vestan - ólíkt hefst veðrið að

Við lítum til gamans á spá bandarísku veðurstofunnar um hitavik næstu sjö daga í Evrópu og í Kanada. Þar blasir ólík mynd við. Tengillinn sem hér fylgir bendir á upphafssíðu þar sem hægt er að velja á milli ámóta korta fyrir aðskiljanlega heimshluta. Þau endurnýjast tvisvar á dag. Vikasamanburðurinn miðar við gögn Climatic Research Unit í Bretlandi fyrir mánuði í heild - en ekki viðkomandi sjö daga tímabil. Meðaltalsgögnin hafa verið reiknuð í ferninga - eins og sjá má á kortunum. Fyrst er það Evrópa.

w-blogg310112a

Kuldi ríkir um alla álfuna og er hitinn allt að 8 til 10 stigum undir meðallagi. Nyrst í Skandinavíu er svæði þar sem hita er spáð yfir meðallagi og svo er einnig á Íslandi. Hitt kortið gildir fyrir sama tíma í Kanada og Alaska.

w-blogg310112b

Hér kveður við annan tón og hiti er ámóta yfir meðallagi á stóru svæði og hann var undir því í Evrópu. Enn er þó kalt í Alaska og á svæðum við Kyrrahafsströndina. Eins er gert ráð fyrir því að hiti verði undir meðallagi á Suður-Grænlandi.

En þetta er allt miðað við meðallag. Í raun og veru er hlýrra í Vestur-Evrópu heldur en í Norður-Kanada hvað sem litirnir segja. En þetta er ástand sem taka má eftir.

Þegar hlutirnir eru á óvenjulegu róli lítur ritstjórinn oft á heimasíður veðurstofa í viðkomandi landi. Þó verður að játa að tungumálakunnátta hans er með þeim hætti að varasamt má telja þegar hún blandast saman við alræmt en skapandi misminni. Finna má lista um vefsíður veðurstofa um heim allan á vef Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (alltaf jafngaman að skrifa nafn hennar). Sömuleiðis má sjá veðurviðvaranir næsta sólarhrings í Evrópu á meteoalarm.eu. Þar má nú sjá viðvaranir um kulda, snjó og hálku um mestalla álfuna.

Sé vefsíðum nágrannalandanna flett má m.a. sjá umfjöllun um merkilegt veðurmet í Nýja-Álasundi á Svalbarða á vef norsku veðurstofunnar (met.no). Þar mældist sólarhringsúrkoma að morgni 30. janúar 98 mm. Mun þetta það mesta sem sést hefur í nokkrum mánuði þar á bæ frá upphafi mælinga. Þetta er sama hlýja loftið og kom við hér á landi núna um helgina (28. og 29. janúar).

Hjá sænsku veðurstofunni (smhi.se) er bent á að loftþrýstingur í Haparanda nyrst í Svíþjóð hafi á sunnudag (29.1.) mælst 1057,0 hPa, það hæsta í 40 ár í Svíþjóð en þrýstingur á sama stað fór í 1059,9 hPa 30. janúar 1972. Einnig segir þar að hæsti loftþrýstingur sem mælst hafi í Svíþjóð sé 1063,7 hPa. Það var 23. janúar 1907 á Gotlandi og í Kalmar.

Sænska veðurstofan býst ekki við góðu næstu daga. Svíar eiga við sérstakt vandamál að eiga í þessari stöðu - þegar ískalt loft blæs frá Rússlandi yfir ófrosið Eystrasaltið. Þá gufar mikið upp úr sjónum og fellur síðan í miklum éljum við Svíþjóðarstrendur. Í spá þeirra í dag var orðið „snökanon“ notað. Fletti maður upp á því kemur fram að átt er við samfelldar éljagarðalengjur sem liggja samhliða vindáttinni yfir Eystrasaltið og er sem þær haldi uppi samfelldri snjóskothríð á ákveðin svæði við Svíþjóðarstrendur - rétt eins og um fallbyssuskothríð væri að ræða. Íslenskt heiti vantar.

Hjá dönsku veðurstofunni er fyrirsögnin: „Sibirisk bekendtskab sender Danmark i dybfryseren“ - kunningi frá Síberíu sendir Danmörku beint oní frystikistuna - eða hvað?

Hjá finnsku veðurstofunni stendur: „Pakkanen voi aiheuttaa riskiryhmille terveysongelmia“ - ekki gott að giska sig í gegnum þetta, en óhætt mun að upplýsa að þetta á ekki við um allt landið - eða hvað?

Vestur í Kanada steðja önnur vandamál að í „hlýindunum“. Aðvörun er gefin út fyrir nokkur spásvæði í Manitoba: „Freezing rain is expected today and this evening“ - frostrigningar er að vænta ... 


Köldustu janúardagarnir (meira fyrir nördin)

Janúar hefur liðið hratt á hungurdiskum í ár og er víst að verða búinn. Ekki er hægt að skilja Yfirlitið um köldustu janúardagana (að meðaltali yfir landið allt) úti á klakanum og hér kemur það. Miðað er við meðaltal allra stöðva í byggð.

röðármándagurmhiti
1196812-14,75
2196813-14,14
31981115-13,28
4197018-13,14
51969114-13,12
61971120-13,10
71969131-13,09
81966124-12,52
91971129-12,49
101988123-12,49
11197114-12,34
121971119-12,23
131969115-12,22
141955113-12,10

Á toppnum eru tveir mjög eftirminnilegir dagar í upphafi árs 1968. Þarna lá við að hitaveita Reykjavíkur gæfist upp og hiti fór niður fyrir frostmark í mörgum húsum - einkum á Skólavörðuholti og þar um kring. Veður var hvasst með hörkunni, en slíkt er mjög óvenjulegt. Þessa daga fór „þverskorinn kuldapollur“ til suðausturs fyrir norðaustan land. Enn á víst eftir að útskýra hvað það er og verður að bíða.

Eftirtektarvert er að allir dagarnir á listanum nema þrír eru frá árunum 1966 til 1971. Þessi ár (og 1965 til viðbótar) eru gjarnan kölluð „hafísárin“. Þá hrökk veðurfar um skeið aftur til nítjándualdartísku - voru það mikil viðbrigði.

Þessir þrir dagar sem eru utanhafísára eru 23. janúar 1988, 15. janúar 1981 og 13. janúar 1955. Taka má eftir því að í janúar 1955 voru líka mjög hlýir dagar. Í upphafi mánaðarins reis upp mikil fyrirstöðuhæð austur yfir Skandinavíu og gjörbreytti veðurlagi. Hún þokaðist síðan vestur á bóginn og þann 13. var svo komið að mikill kuldastrengur kom suður yfir Ísland þá austan hæðarinnar.

En þá er það lægsti meðallágmarkshitinn.

röðármándagurmlágmark
11971130-16,94
2196812-16,67
31979131-15,94
4196813-15,91
5197018-15,83
61966124-15,82
71969115-15,80
81981115-15,43
9196814-15,42
101988123-15,38

Þetta eru mest sömu dagarnir og í fyrri töflunni en röðin hefur breyst. Kaldastur er 30. janúar 1971. Þá mældist mesta frost eftir 1918 í Reykjavík, -19,7 stig, aðeins hársbreidd frá -20 stigunum. Sama morgunn mældist lágmarkið á Hólmi fyrir ofan Reykjavík -25,7 stig - ískyggilegt það. Enginn nýlegur dagur er í þessari töflu, næst okkur er sem fyrr 23. janúar 1988.

Að lokum er það lægsti hámarksmeðalhitinn (erfitt að segja - ekki satt).

röðármándagurmhámark
1196813-13,23
21969115-11,34
31969114-11,13
41971120-11,06
51971119-10,71
6197018-10,45
71969131-10,35
81966124-9,56
91955113-9,09
101988124-9,07

Þrítugasta janúar 1971 hefur verið sparkað út af listanum þótt enn séu tveir dagar úr þeim sama mánuði á honum. Þriðji janúar 1968 er langlægstur, nærri tveimur stigum neðar en 15. janúar 1969. Síðan koma 14. og 15. janúar 1969 - miklir illviðradagar, sérstaklega sá 15.

Rétt er að taka fram (sjá athugasemd við pistilinn) að samanburðurinn nær aðeins aftur til janúar 1949.


Kuldapollar langt úr austri

Við skulum í flýti lita á kuldapollana austrænu sem hungurdiskar minntust á í gær. Framtíð þeirra er enn óviss og því er e.t.v. til lítils gefa þeim rúm.

Við horfum á hluta af kunnuglegu norðurhvelskorti evrópureiknimiðstöðvarinnar. Það sýnir að vanda hæð 500 hPa-flatarins eins og hún reiknast verða um hádegi á mánudag (30. janúar).

w-blogg290112

Breiða rauða línan sýnir 546 dekametra (eða 5460 metra). Þetta er ekki lág tala um miðjan vetur. En undir er samt mjög kalt loft - sérstaklega í kuldapollunum kröppu sem sjá má á kortinu í halarófu frá Síberíu vestur til Svartahafs. Minni pollar eru alveg vestast í Evrópu - þar er þó ekki nærri því eins kalt eins og austar - en samt venju fremur kalt svo vestarlega. Þykktin undir kuldapollinum sem er yfir Norður-Frakklandi er hér um 5220 þar sem lægst er. Reynsla sýnir að það veldur þar vandræðum Þykktin yfir Alsír er alveg niðri í 5280 metrum sem þýðir að það snjóar langt niður í dali í Atlasfjöllum.

Sjónvarpsfréttir sögðu okkur frá snjó í Tyrklandi og vandræðum í Rúmeníu. Þeir kuldar eru í tengslum við Svartahafspollinn sem núna (á aðfaranótt sunnudags) hefur þó varla náð til þessara landa.  

En norðan við kuldapollakeðjuna er austanátt sem smám saman flytur kaldara og kaldara loft úr austri í átt að Vestur-Evrópu. Þetta tekur nokkra daga. Telja má nokkuð víst að staðan sem sýnd er á kortinu komi upp í raun og veru. Það er framhaldið sem er óvíst - en ég held að veðurfræðingar Evrópu séu órólegir yfir þessu.

Hér halda umhleypingar áfram - vonandi lætur ísinn þó undan síga. Snjókoma er minna mál.


Hlákan - enn einn spillblotinn eða eru breytingar í vændum?

Þegar þetta er skrifað (seint á föstudagskvöldi 27. janúar) virðist mikill bloti vera í uppsiglingu (er reyndar þegar hafinn). Hann virðist í fljótu bragði ekki vera miklu öflugri eða langvinnari heldur en helstu fyrirrennarar hans að undanförnu. Meiri þó en þeir minni (gáfulega sagt eða hitt þó heldur). Alla vega er þykktinni spáð fljótt niður aftur - í 5220 metra strax á sunnudagskvöld.

En við lítum til málamynda á 500 hPa- og þykktarstöðuna síðdegis á laugardag (28. janúar) eins og hirlam-spáin vill hafa hana.

w-blogg280112

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru svartar og heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er bratti flatarins og vindur meiri. Einingin er dekametrar (1 dam=10 m). Strengurinn fyrir vestan land er mjög myndarlegur og kemur langt sunnan úr hafi. Rauðu strikalínurnar sýna þykktina - einnig í dekametrum. Þykktin er hitamælir, því meiri sem hún er því hlýrra er í neðri hluta veðrahvolfs. Mikil háloftahlýindi skila sér ekki alltaf niður til jarðar en fljóta ofan á lofti sem ýmist er kælt af sjó eða köldu yfirborði landsins. Mestar líkur á að ná því niður er þar sem brött fjöll brjóta loftstreymi en þá blandast hlýja loftið niður og hiti þar hækkar. Von um háar hitatölur er því mest næst fjöllum fyrir norðan og austan. Syðra verða hlýindin vart meiri en sem nemur sjávarhita sunnan við land (ekki slæmt það).

Við sjáum að þykktin er talsvert lægri vesturundan heldur en í hlýja geiranum - en samt er mjög kalt loft (þykkt minni en 5000 metrar) varla að sjá á kortinu - ekki nema í plati yfir norðanverðum Grænlandsjökli. Hlýjasta gusan fer beint til Svalbarða (rauða örin). Síðan virðast fleiri hlýjar bylgjur eiga að berast til landsins - með meðalköldu lofti á milli.

Athyglisverð þróun í austri virðist koma hér við sögu. Tveir til þrír smáir kuldapollar stefna frá Síberíu til vesturs um Evrópu - þeir valda óbeinum hiksta í bylgjuframrásinni í námunda við okkur þannig að bylgjurnar rekast á hindrun vestan við kuldapollana. Á kortinu á bláa örin að sýna þessa þróun. Það loft sem sést austast á kortinu er þó ekki sérlega kalt ennþá, þykktin rétt innan við 5160 metra á Norðurlöndum og ívið hærri sunnar.

Gaman verður að fylgjast með þróuninni næstu daga og hvort átök verða í raun og veru milli Síberíuloftsins, loftsins að vestan og hvernig hæðarhryggnum þar á milli reiðir af. En taka verður margoft fram að þetta er mikilli óvissu bundið - spár eru lítt sammála nema tvo til þrjá daga fram í tímann.


Hlýjustu dagar janúarmánaðar (nördafærsla)

Hungurdiskar hafa nú um nokkurra mánaða skeið birt lista yfir hlýjustu og köldustu daga mánaða á landinu í heild. Nú er komið að hlýjustu dögum janúarmánaðar. Pistillinn er einnig skyldur þeim sem birtist 13. janúar síðastliðinn. Þar var fjallað um hláku sem spáð var um þá helgi og þykktarkortið sem prýddi pistilinn er furðulíkt þykktarspákorti fyrir sunnudagsmorguninn 29. janúar næstkomandi - en það er aðeins of fjarlægt til umfjöllunar í dag. Snúum okkur því að hlýjustu janúardögunum á landinu í heild.

röðármándagur mhiti
1200614 8,28
21992113 7,77
31973110 7,68
4197319 7,67
52010125 7,50
61964110 7,48
71992114 7,45
82011122 7,42
9200212 7,29
101992129 7,27
112006129 7,05
121992126 7,03

Meðalhiti alla dagana á listanum er meiri en 7°C (við lítum það öfundaraugum). Það er 4. janúar 2006 sem er á meðalhitatoppnum. Þetta var í miðri umhleypingasyrpu. Engin stórmerkileg stöðvamet voru sett þennan dag - þótt fáeinar sjálfvirkar stöðvar eigi þar sín janúarmet.

Þrettándi janúar 1992 var hluti af merkri syrpu hlýrra daga í óvenjulegum hlýindamánuði, dagurinn eftir, sá 14. er hér í sjöunda sæti, sá 29. í því 10. og 26. í 12. sæti. Í þriðja og fjórða sæti eru svo 9. og 10. janúar 1973. Ef við skiptum tímabilinu 1949 til 2011 í tvennt eru koma þrír dagar í hlut fyrra skeiðs en 9 í hlut þess síðara.

Svo er listi um hæsta meðalhámark á landinu.

röðármándagurmhámark
1201012510,53
219921199,99
32002169,95
419921299,73
52006149,65
619921279,49
719921149,42
82002139,29
919921219,25
102006159,25

Hér tekur 1992 fimm sæti af tíu, en 25. janúar 2010 er þó langefstur með 10,5 stiga meðalhámark.  Langur listi sjálfvirkra stöðva á sín hæstu janúarhámörk þennan dag og nokkrar mannaðar. Innbyrðis röð dagana hlýju 1992 er önnur en í fyrri lista, metdagur meðalhitalistans 4. janúar 2006 er þarna í 5. sæti.

Að lokum er hér listi um hæstu meðallágmörkin. Maður þarf að vanda sig við að segja saman orðin „hæsta meðallágmark“ til að ruglast ekki í ríminu. Á öðrum tíma árs væri auðveldara að tala um hlýjustu nóttina - en í janúar getur hiti orðið lægstur á hvaða tíma sólarhrings sem er. Mjög óvísindaleg skyndikönnun á lægstu lágmörkum janúarmánaðar á sjálfvirku stöðvunum sýnir reyndar að algengasti metatíminn er kl. 20 í janúar, sá fátíðasti er kl. 4 að nóttu. Ekki hafa þessa niðurstöðu eftir. 

röðármándagurmlágmark
119731106,35
21973196,13
319921145,91
420111225,47
51960195,25
620111235,17
719921135,14
81973165,12
919851124,86
101955124,84

Þessi listi er ekki eins og hinir. Dagarnir hlýju 1973 eru hæstir og janúar á síðastliðnu ári, 2011, á tvo daga sem ekki sáust áður. Einnig eru þarna dagar frá 1960 (nokkuð óvænt satt best að segja - ritstjórinn hefur greinilega ekki alveg tök á þessu) og 1955 (ekki eins óvænt fyrir ritstjórann - hann hefur séð þann dag birtast áður).

Jú, rétt er að upplýsa að hæstu hámörk sjálfvirku stöðvanna eru algengust kl. 15 í janúar - rétt eins og um sumar væri að ræða - en sjaldséðust kl. 4 að nóttu - rétt eins og lágmörkin. En ég endurtek - ekki má hafa þetta eftir talningin þolir ekki skoðun.


Litið til 17. janúar 1937

Mesta snjódýpt sem mælst hefur í Reykjavík er 55 cm og var færð í bækur að morgni 18. janúar 1937. Því miður er nokkur óvissa um mælinguna. Lesa má um hana í fróðleikspistli á vef Veðurstofunnar. Þar er fjallað um mestu snjódýpt á Íslandi og þar á eftir um Reykjavíkurmetið. Ekki er ástæða til að endurtaka það hér. Nýja dagblaðið hafði eftir bæjarverkfræðingi í Reykjavík: „Síðan ég kom hingað til bæjarins fyrir rúmum þrjátíu árum, man ég ekki eftir að hafi komið eins mikill og jafnfallinn snjór hér í bæ og nú". (Forsíða ND 19. janúar 1937 á timarit.is).

En við skulum líta á 500 hPa kort kl. 18 síðdegis þann 17. sem ameríska endurgreiningin stingur upp á. Ef til vill er ástæða til að taka fram að hungurdiskar hafa ekki borið stöðuna saman við raunverulegar veðurathuganir - það ætti auðvitað að gera.

En kortið er þetta:

w-blogg260112a

Þetta er óskastaða fyrir mikla snjókomu í Reykjavík - hitti ákafasta úrkoman á höfuðborgarsvæðið. Mjög kalt loft streymir frá Kanada út yfir hlýtt Atlantshafið - drekkur þar í sig raka, verður óstöðugt og úrkoman fellur síðan í miklum éljabökkum. Af grunnkortinu (ekki sýnt hér) má sjá að snarpt lægðardrag liggur nærri Suðvesturlandi og mesta úrkoman bundin við það.  

Þetta kort er ekki svo ólíkt 500 hPa stöðunni í gær (þriðjudag). Köld sunnanátt í háloftum er ekkert sérlega algeng. Ólíkt er aftur á móti að 1937 var kuldapollurinn dýpri (4850 m) en nú (4980 m), sennilega ívið kaldari en hreyfðist ekki mikið. Kuldapollurinn okkar er hins vegar á ákveðinni norðausturleið og hríðin sem geisar á Vestur- og Norðurlandi þegar þetta er skrifað fylgir miklum vindstreng á vesturhlið lægðarinnar. Árið 1937 var norðaustanáttin afmörkuð við stíflustrenginn á Grænlandssundi. Hann slapp ekki suður um Ísland.

En mikil snjókoma í Reykjavík á sér fleiri óskastöður - rifja mætti þær upp síðar ef tilefni gefst til.


Síðasti mánuður í háloftunum

Það er ómaksins vert (finnst veðurnördum) að líta á ástandið í veðrahvolfinu miðju síðasta mánuðinn og líta á höfuðdrætti loftstrauma. Okkur til aðstoðar höfum við bandarísku veðurstofuna og teiknitól hennar - þau eru ekki sérlega flott en virka.

w-blogg250112a

Við sjáum hér hálft norðurhvel norðan 38. breiddarbaugs. Óþarflega mikið fer fyrir ríkjaskiptingu á kortinu (Júgóslavía og Sovét lifa þar enn - Þýskaland þó sameinað) en aðalatriðið felst í mýkri heildregnu línunum sem sýna hæð 500 hPa-flatarins í metrum. Þar er 5160 metra línan sem liggur um Ísland. Við sjáum kuldapollinn mikla vestan við Grænland en hann hefur samt ekki verið mjög ógnandi í vetur.

Það þarf nokkuð vant auga til að sjá hvað er óvenjulegt á þessu korti. Einkum vekur athygli að flöturinn stendur neðarlega yfir Íslandi og er um 80 metrum undir langtímameðaltali. Með öðrum orðum þá hefur kuldapollurinn breitt úr sér til suðausturs í átt til Íslands meira heldur en algengast er. Þetta þýðir að landið hefur verið meira í leið lofts frá Kanada heldur en venjulega. Meginstrengur vestanvindabeltisins er líka lengra fyrir sunnan land heldur en að meðaltali.

Ameríska endurgreiningin sem oft er minnst á gerir það mögulegt að leita að ættingjum síðasta mánaðar. Við förum þó ekki sérlega nákvæmlega í það en þuklum á heilum janúarmánuðum (það er auðveldara) frekar en þessu ákveðna tímabili sem tekið er fyrir á myndinni.

Leit letingjans finnur fjóra umsækjendur, janúarmánuði áranna 1957, 1925, 1903 og 1887. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa verið illviðrasamir - illviðrasamari heldur en núlíðandi janúar. Umsagnir þeirra eru svona:

1957: Sæmilega hagstætt framan af, en síðan mjög óhagstætt á S- og V-landi, með mikilli ófærð, illviðrum  og slæmum gæftum. Hlýtt.

1925: Óstöðug tíð og stormasöm. Fremur úrkomusamt, einkum v-lands. Gæftir slæmar. Hiti var yfir meðallagi.

1903: Umhleypingar um miðjan mánuð. Snjór síðari hlutann. Fremur kalt.

1887: Hagleysur og stirð tíð. Mikil útsynningshryðja með mikilli snjókomu sunnan- og vestanlands síðustu vikuna.

2012: Umhleypingar, hagleysur og stirð tíð?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.7.): 129
  • Sl. sólarhring: 329
  • Sl. viku: 1777
  • Frá upphafi: 2485434

Annað

  • Innlit í dag: 120
  • Innlit sl. viku: 1576
  • Gestir í dag: 116
  • IP-tölur í dag: 116

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband