Færsluflokkur: Vísindi og fræði
4.3.2012 | 01:50
Verstu marsveðrin?
Hungurdiskar eru mikið fyrir alls konar lista. Lítum nú á tilraun til að finna hver eru verstu veður sem gert hefur í marsmánuði síðustu hundrað árin. Þessi listagerð er dálítið vandræðaleg vegna þess að niðurstaðan fer talsvert eftir aðferðinni sem notuð er. Auk þess er erfitt að bera beint saman veður fyrstu áratuganna og þeirra síðari. Listarnir verða því fleiri en einn og aðeins efstu sætin nefnd.
Í þeim fyrsta er raðað eftir hlutfalli stöðva (af öllum stöðvum) sem tilkynntu um meiri en 20 m/s vind ákveðinn sólarhring, mælt er í prósentum stöðva. Listinn tekur til áranna 1949 til 2011. Fimm efstu sætin eru:
ár | mán | dagur | hlutfall | |
1 | 1969 | 3 | 5 | 69 |
2 | 1953 | 3 | 28 | 66 |
3 | 1995 | 3 | 16 | 65 |
4 | 1992 | 3 | 8 | 61 |
1995 | 3 | 17 | 55 | |
5 | 1976 | 3 | 3 | 52 |
Á toppnum er Akureyrarveðrið svonefnda, gríðarlegt vestanveður sem olli miklu tjóni. Á eftir því fylgdi jökulkuldi. Veðrið í lok mars 1953 var af norðri og hluti af óvenjulega hörðu norðanáhlaupi sem stóð í um vikutíma með fleiri en einni lægð. Mikil snjóflóð urðu í þessum veðrum. Veðrið 1995 var líka mjög óvenjulegt - þá gerði einhvern versta hríðarbyl sem vitað er um á norðanverðu Vesturlandi. Mikið var um snjóflóð - mest austanlands. Þetta veður náði líka deginum eftir inn á listann - við höfum hann ónúmeraðan. Miklir skaðar einnig í veðrinu 1992 - en þá var áttin af suðri. Veðrið 1976 var hluti af óvenjulegri illviðrasyrpu sem stóð með litlum hléum allan febrúar og mestallan mars.
Annar listi tekur til sömu ára en hér er frekar mælt úthald veðranna. Reiknað er hlutfall veðurathugana með meiri vindhraða en 20 m/s af öllum athugunum sólarhringsins. Skammvinn veður komast síður á þennan lista.
röð | ár | mán | dagur |
1 | 1953 | 3 | 28 |
2 | 1995 | 3 | 16 |
3 | 2001 | 3 | 4 |
4 | 1970 | 3 | 24 |
5 | 1958 | 3 | 15 |
Hér er norðanveðrið 1953 á toppnum. Það er einmitt einkenni norðan- og norðaustanveðra að þau standa lengur en sunnan- og vestanveðrin. Bylurinn mikli 1995 er í öðru sæti, en veðrið 4. mars 2001 skýst í það þriðja. Það var líka norðaustanhríðarbylur - þá féll lítið snjóflóð á Blönduósi, börn lentu í flóðinu en var bjargað. Veðrið í mars 1970 var úr vestri og stóð þegar allt er talið í eina þrjá daga. Miklir skaðar urðu austanlands. Veðrið 1958 var af austri - og er eitt það versta sem gert hefur á suðurlandsundirlendi - og var sérlega hart í Rangárvallasýslu.
Toppfimm listinn 1912 til 1948 er svona:
röð | ár | mán | dagur |
1 | 1938 | 3 | 5 |
2 | 1921 | 3 | 3 |
3 | 1916 | 3 | 24 |
1916 | 3 | 25 | |
4 | 1943 | 3 | 16 |
5 | 1913 | 3 | 13 |
Meðan veðrin á fyrri lista eru mörgum enn minnisstæð er trúlega farið að fenna yfir veðrin á þessum lista. Vera má að einhverjir muni enn eftir veðrinu sem er efst á listanum. Það var af vestri og er frægast fyrir það að hafa jafnað flest hús í Húsavík eystra (norðan Loðmundarfjarðar) við jörðu. Gríðarlegt tjón varð víða um sunnan- og austanvert landið. Skaðalisti er hér að neðan.
Helsta tjón í veðrinu aðfaranótt 5. mars 1938 en þá gerði aftakaveður af vestri á landinu:
Mörg erlend fiskiskip löskuðust. Timburhús í Kleppsholti í Reykjavík fauk af grunni og mölbrotnaði, íbúana sakaði lítið, þök tók af nokkrum húsum, bílskúr eyðilagðist. Talið er að meir en 20 önnur hús í Reykjavík hafi orðið fyrir teljandi fokskemmdum. Fjárhússamstæða fauk á Reynisvatni í Mosfellssveit, þak rauf á Korpúlfsstöðum. Járnplötu- og reykháfafok varð á húsum í Grindavík, Sandgerði, Keflavík og á Akranesi, tjón varð í höfninni í Sandgerði og þar fauk heyhlaða og önnur brotnaði. Margir vélbátar skemmdust í Vestmannaeyjahöfn.
Á Húsavík í Borgarfirði eystra jöfnuðust flest hús við jörðu og þrír menn slösuðust, barnaskólahús laskaðist á Borgarfirði og þar skemmdust mjörg hús illa og skekktust á grunnum, auk rúðubrota og járnplötufoks. Mikið tjón varð í Seyðisfirði, þak tók af tveimur hlöðum og á Vestdalseyri fauk stórt fiskipakkhús, íbúðarhúsið á Dalatanga skekktist og rúður brotnuðu, þar fauk og þak af hlöðu, járnplötur fuku og gluggar brotnuðu í kaupstaðnum.
Tjón varð á flestum húsum í Eskifjarðarkaupstað, minniháttar á flestum, en fáein skemmdust verulega, þak tók af kolaskemmu og rafmagns- og símalínur í bænum rústuðust. Tjón varð einnig mikið á nágrannabæjum og nokkuð foktjón varð á Búðareyri. Járn tók af húsum í Neskaupstað, bryggjur og bátar löskuðust. Þak fauk af húsi á Sauðárkróki. Þak síldarverksmiðjunnar á Raufarhöfn skaddaðist og tjón varð á bæjum á Melrakkasléttu. Þakhluti fauk á Skálum á Langanesi og gafl féll á húsi, járnplötur fuku af prestsetrinu á Sauðanesi og sláturhús fauk á Bakkafirði og þar í grennd sködduðust útihús á nokkrum bæjum. Tjón varð á útihúsum á nokkrum bæjum í Miðfirði. Járnplötur fuku á nokkrum bæjum í Hornafirði. Heyskaðar og miklar símabilanir urðu víða og bryggjur brotnuðu á Fáskrúðsfirði og í Norðfirði. Á Fáskrúðsfirði tók þök alveg af tveimur íbúðarhúsum og fleiri hús þar og í nágrannabyggðum urðu fyrir skemmdum. Þak fauk af húsi á Jökuldal og talsverðar skemmdir urðu á Eiðum. Miklar bilanir á raflínum á Akureyri.
Tjón varð að á minnsta kosti 30 stöðum í Árnessýslu, tjón varð á fjölmörgum bæjum í Rangárvallasýslu vestanverðri austur í Fljótshlíð, fjórar hlöður fuku í Landssveit og tjón varð á fleiri húsum á nokkrum bæjum. Refabú fauk á Arnarbæli í Ölfusi.Miklar skemmdir urðu í Flóa og á Skeiðum, þar fuku þök af útihúsum á nokkrum bæjum, plötur fuku á nokkrum bæjum í Mosfellssveit.Í Vopnafirði fuku 7 hlöður og nokkuð foktjón varð í kauptúninu. Þak fauk af barnaskólanum á Eyrarbakka og veiðarfærahjallur fauk. Heyhlaða fauk á Flögu í Skaftártungu og þak af fjárhúsi á Fossi á Siðu, minniháttar tjón varð í Landbroti. Miklar símabilanir urðu, fjara var suðvestanlands þegar veðrið var sem verst.
Hvert þessara veðra var svo verst - koma e.t.v. fleiri til greina?
3.3.2012 | 01:37
Mikið um að vera - vetur í hámarki á norðurhveli?
Við lítum nú á tvær útgáfur af sömu háloftaspánni. Fyrri gerðin hefur oft verið sýnd hér á hungurdiskum áður - en sú síðari ekki. Ástæða þess að báðar útgáfur eru sýndar hér er eingöngu uppeldisleg.
Undanfarna daga hefur meginkuldapollur norðurhvels (Stóri-Boli) verið á hringferð vestan Grænlands af fullu afli vetrarins. En nú þegar er farið að hlýna sunnar á hvelinu og smám saman mun þrengja að vetrinum á næstu vikum. Styrkur Stóra-Bola gengur í öldum - hann veikist lítillega og styrkist á víxl. Á næstunni gerir hann sig áfram gildandi - en spurningin er hvort hann heldur sambandi við heimskautaröstina - eins og hann virðist eiga að gera næstu daga. En lítum á hina venjulegu gerð kortsins - spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á hádegi á sunnudag (4. mars).
Höfin eru blá, löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en þynnri rauðar línur eru við 5820 metra og 5100 metra hæð. Almennt má segja að því lægri sem flöturinn er því kaldara er veðrahvolfið.
Við sjáum hvernig heimskautaröstin hringar sig um norðurhvelið, hún er þar sem jafnhæðarlínurnar eru þéttastar. Áberandi minni kraftur er í henni yfir austanverðu hvelinu heldur en því vestanverðu. Við sjáum líka að línurnar eru þéttari í kringum Stóra-Bola (bókstafurinn K) og fylginaut hans yfir Ellesmereeyju (L) heldur en almennt er norðan við röstina. Það er varla að við getum talað um bolaröst um þessar þéttari línur - en gerum það samt - sögunnar vegna.
Við sjáum að heimskautaröstin og bolaröstin snertast yfir Suður-Grænlandi. Við getum tekið eftir því að þar er heimskautaröstin í hæðarbeygju - en bolaröstin í lægðarbeygju. Heimskautaröstin hefur betur - en hryggurinn hreyfist hratt til austurs. Við Nýfundnaland er hraðfara bylgja sem er á leið til norðausturs. Þegar hún fer hjá suður af beygjunni á bolaröstinni kippir hún í Stóra-Bola, stelur hluta hans og fer með inn á Grænlandshaf - en Grænland stendur fyrir og miðja Bola hrekkur undan.
Ef trúa má spám myndar útskotið nýjan kuldapoll á Grænlandshafi á aðfaranótt þriðjudags. Hann gæti valdið afar vondu veðri hér á landi á þriðjudag og miðvikudag. En munum að hungurdiskar spá ekki veðri og í raun og veru eru fleiri (mildari) möguleikar í stöðunni heldur en hér er lýst.
Síðara kortið er alveg eins - en þó allt öðru vísi. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru hér svartar og eru nærri því nákvæmlega þær sömu og á fyrra korti (teiknipakkarnir draga þær þó ekki nákvæmlega eins). Lituðu fletirnir sýna þykktina. Helfjólublátt er kalt og hér sést Stóri-Boli sérlega vel í öllu sínu veldi.
Sjá má daufar útlinur landa - kortið þekur ámóta svæði og það fyrra, Spánn og Norður-Afríka eru fyrir mðju neðst. Ísland er rétt neðan við miðja mynd, rauða línan - sem sýnir lægðardragið er á sama stað og á efra kortinu. Þykktin í miðju Bola er um 4740 metrar og á öllu fjólubláa svæðinu er hún minni en 4920 metrar. Grænland á að sjá um að þessi mikli kuldi komist ekki austurfyrir. Grænu litirnir byrja við 5280 metra og er enn einn skammturinn af hlýju lofti á leið um Svalbarða.
Við sjáum að í öllum aðalatriðum fylgjast jafnþykktarlitir og jafnhæðarlínur að - en það misgengi sem sést er afskaplega mikilvægt og það alveg sérstaklega þar sem kalt loft sækir að. Það nefnum við riða (þykktar- og hæðarlínur mynda net).
2.3.2012 | 01:21
Hlýjustu mánuðir (reiknikúnstir fyrir nördin)
Þegar fjallað er um hlýjustu mánuði er oftast um að ræða samanburð innan hvers almanaksmánaðar fyrir sig. Þannig er hægt að búa til lista yfir hlýjustu febrúarmánuðina á hinum aðskiljanlegu veðurstöðvum auk þess sem hægt er að búa til lands- og landshlutameðaltöl mánaða og lista yfir þau. Fyrir venjuleg fólk er þetta auðvitað heldur smámunasöm iðja - en við veðurnördin fylgjumst með af athygli - rétt eins og áhugamenn um hjónabandserjur poppgoða smjatta á hinum smæstu fréttum af þeim. En hvers vegna mega veðurnörd ekki líka smjatta fyrir framan alþjóð? Og við gerum það í dag.
Reiknum út hverjir eru hlýjustu mánuðir allra tíma á landinu öllu og í tveimur landshlutum (fleiri eru til) - nú á þann hátt að hinir ólíku mánuðir eru bornir saman á ímynduðum jafnréttisgrundvelli staðalvika. Strangt tekið er það réttlæti ekki algjört - en er eitthvað réttlæti til yfirleitt?
Fyrsta listabrotið nær yfir landið allt - gerð hans er reyndar nokkuð vafasöm - hann nær yfir lengra tímabil en skynsamlegt er við að eiga. Þegar ámóta listi verður næst birtur (hver veit hvenær það verður) má búast við annarri niðurstöðu - en látum slag standa: Sex hlýjustu mánuðir landsins alls - allt frá 1823 eru:
ár | mán | mhiti | staðalvik | |
1 | 1824 | 6 | 11,30 | 3,11 |
2 | 1941 | 9 | 10,57 | 2,89 |
3 | 1939 | 9 | 10,44 | 2,79 |
4 | 1996 | 9 | 10,23 | 2,63 |
5 | 1932 | 2 | 3,95 | 2,58 |
6 | 2003 | 8 | 12,20 | 2,55 |
Við útreikning staðalvika hvers almanaksmánaðar var notast við allt tímabilið 1823 til 2011. Alvöru veðurnörd sjá auðvitað að það er grunsamlegt að þarna eru þrír septembermánuðir - eitthvað einkennilegt það. Efstur er júní 1824 - er hann frægur fyrir eitthvað? Við leyfum honum samt að sitja þarna. Aðrir mánuðir eru allir frægir fyrir einstök hlýindi.
Suðvesturlandsröðin er normuð með tuttugustualdargildum eingöngu - en nær samt aftur til 1866. Hér eru sex hlýjustu mánuðirnir:
ár | mán | mhiti | staðalvik | |
1 | 2003 | 8 | 12,74 | 2,89 |
2 | 1932 | 2 | 4,91 | 2,65 |
3 | 1929 | 3 | 5,95 | 2,56 |
4 | 1945 | 11 | 5,85 | 2,55 |
5 | 1880 | 8 | 12,43 | 2,49 |
6 | 1939 | 9 | 11,09 | 2,47 |
Hér kunna veðurnörd vel við sig - allt saman gamlir og góðir kunningjar. En ágúst 2003 í sigursætinu og annar frægur ágústmánuður í 5. sæti - 1880. Febrúar 1932 er auðvitað mættur á svæðið.
Og norðausturland:
ár | mán | mhiti | staðalvik | |
1 | 1932 | 2 | 3,17 | 2,67 |
2 | 1974 | 4 | 5,24 | 2,58 |
3 | 1941 | 9 | 10,19 | 2,52 |
4 | 1946 | 10 | 6,60 | 2,52 |
5 | 1996 | 9 | 10,17 | 2,51 |
6 | 1929 | 3 | 4,06 | 2,45 |
Toppurinn er febrúar 1932 - apríl 1974 vekur auðvitað góðar minningar og þarna er september 1941 í stað sama mánaðar 1939 á Suðvesturlandi. Mars 1929 er á báðum listum.
Hægt er að upplýsa að mars 1929 er efstur á lista yfir hlýjustu mánuði um landið norðvestanvert en sá listi nær aðeins rétt aftur fyrir aldamótin 1900. Febrúar 1932 er í öðru sæti. Á Suðausturlandi er ágúst 2003 hlýjastur en september 1941 í öðru sæti.
Lokum nú metabókinni að sinni.
1.3.2012 | 01:08
Átján lægðir á 29 dögum (jafnvel fleiri)
Nú er febrúar lokið - hann var hlýr um land allt. Mikil úrkoma var um landið sunnanvert og órólegt veðurlag. Að minnsta kosti átján lægðir eða lægðardrög fóru framhjá landinu á 29 dögum mánaðarins - um það bil tvær lægðir á hverjum þremur dögum.
Þetta er örugglega óvenjumikið - en talsvert verk er að leita uppi ámóta mánuði - eða að finna einfalda leið til að negla þá. Nokkrir mánuðir eru þó grunaðir - en ekkert er látið upp um það að sinni hverjir þeir eru.
En hvernig var talið að þessu sinni? Aðferðin er auðvitað ekki skotheld og þar að auki gamaldags. Notast var við línuritið hér að neðan.
Það sýnir lægsta loftþrýsting hverrar klukkustundar á sjálfvirku stöðvunum á landinu allan mánuðinn. Síðan voru lágmörkin í línuritinu fundin og tala sett við hvert þeirra. Talin voru 18 lágmörk. Sé rýnt í ritið má finna enn fleiri lágmörk - kannski voru lægðirnar 21. Ámóta línurit voru líka gerð fyrir hæsta þrýsting hverrar klukkustundar, meðalþrýsting og einnig var gert línurit sem sýndi lágmarksþrýsting á mönnuðu stöðvunum á þriggja stunda fresti. Talning lágmarka hvers þessara atriða gaf tölu á bilinu 18 til 21.
Það vekur athygli að lægsti þrýstingur mánaðarins var ekkert sérstaklega lágur, 969,1 hPa, - en heiðarlegt samt. Flestar lægðirnar voru ekki sérlega kröftugar, einna mest var sú númer fimm. Af línuritinu má ráða að þær hafa flestar verið smáar um sig.
Lítið var um útbreidd illviðri í mánuðinum - oft hvessti verulega í einstökum landshlutum en ekki um land allt. Það var helst lægð númer 5 sem skar sig úr hvað þetta varðar.
Við skulum einnig líta á mynd sem sýnir bæði meðalvindhraða hverrar klukkustundar og mun á hæsta og lægsta þrýstingi klukkustundarinnar.
Blái ferillinn sýnir mismun hæsta og lægsta þrýstingsins og sá rauði meðalvindhraða. Veðrið þann 7. sker sig úr. Þá varð þrýstimunurinn mestur, nærri 26 hPa og meðalvindhraði á landinu (hálendið með) var 16 m/s - sem er ansi mikið.
Við sjáum að hámörk og lágmörk ferlanna fylgjast vel að. Hér má telja hámörk til að leita að lægðakerfum, útkoman er svipuð og á fyrri mynd - ef sá sem telur er ekki allt of smámunasamur.
29.2.2012 | 00:36
Grænland hlífir (- að mestu)
Þótt vetur sé farinn að láta undan síga suður í löndum ríkir hann enn með óskertum styrk á norðurslóðum. Hér á landi telst mars til vetrarmánaða og er stundum kaldastur þeirra, í Reykjavík að meðaltali einu sinni á hverjum sjö árum. Ekkert er vitað um það hvernig fer að þessu sinni. Hlýindi hafa ríkt í febrúar og ekki er spáð miklum kuldum næstu daga - en samt kólnar lítillega. En þessa dagana er mjög stutt á milli mikilla kulda og mikilla hlýinda. Við lítum á 500 hPa hæðar- og þykktarkort sem gildir kl. 18 á miðvikudag. Það er reiknað í reiknimiðstöðinni í Reading á Englandi.
Svartar (gráar) heildregnar línur sýna hæð 500 hPa-flatarins, rauðar strikalínur sýna þykktina og bleiklitaðar klessur og borðar sýna lægðaiðu. Þykktin segir til um það hver hiti er í neðri hluta veðrahvolfs, af jafnhæðarlínunum má ráða vindátt og vindstyrk, vindur blæs samsíða línunum með meiri hæð til hægri. Vindur er því meiri eftir því sem jafnhæðarlínur eru þéttari.
Margt er eftirtektarvert á þessu korti. Við sjáum þykkt ofan við 5520 metra þekur allstórt svæði í Vestur-Evrópu. Í dag (þriðjudaginn 28. febrúar) lá við hitametum bæði í Skotlandi og í Danmörku, þau voru þó ekki slegin. Eins og sjá verður líka hlýtt á þessum slóðum á morgun (miðvikudag) - en þar sem vindur er ekki mikill er ólíklegt að þessi mikla þykkt nýtist í hitamet.
Vestan Grænlands er hins vegar mjög öflugur kuldapollur (Stóri-Boli). Við miðju hans er þykktin innan við 4740 metra. Þetta gæti orðið lægsta tala vetrarins á þessum slóðum. Í kvöld var -39 stiga frost í Syðra-Straumfirði og -20 stig í höfuðstað Grænlands, Nuuk. Við megum líka taka eftir því að jafnþykktarlínurnar eru mjög þéttar yfir hábungu Grænlands. Þetta má túlka svo að Grænlandsjökull hindri framsókn kuldans til austurs og hlífi okkur þar með við að hann leggist af fullum þunga til okkar. Reyndar sleppur eitthvað yfir jökulinn sunnanverðan - en líka kemst eitthvað suður fyrir. Ekki þó úr miðju kuldapollsins.
Þetta (ekki mjög svo) kalda loft sækir að þegar kortið gildir (kl. 18), þykktin yfir landinu er komin niður í 5160 metra en var í dag (þriðjudag) um 5250 metrar - lækkar sum sé um 90 metra til morguns, 4 til 5 stig á venjulegum hitamæli. Undir svo lítilli þykkt má reikna með frosti - og að úrkoma verði snjór. Reyndar er allsnörpum éljabakka spáð upp að landinu á miðvikudagskvöld - vilji menn fá nánari tímasetningu er bent á vef Veðurstofunnar.
Miðja kuldapollsins er á leið til norðvesturs - út af kortinu en fer síðan í allkrappan hring á 4 til 5 dögum.
Suðvestur í hafi er bylgja, hún er nokkuð uppvafin (sést af iðudreifingunni í kringum hana) en jafnframt er áberandi hversu mikið misgengi jafnþykktar- og jafnhæðarlína er við hana. Lægðabeygja (auðvitað) er á hæðarlínum en hæðarbeygja á þykktarlínum. Mynstur sem þetta þykir efnilegt - enda á lægðin að dýpka mikið á fimmtudag og síðan á hún að senda hlýindagusu til Íslands.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.2.2012 | 00:49
Hlaupársdagurinn (veðurfarsbreytingagrín)
Það skal tekið fram í upphafi að hér er ekki um alvarlegan veðurfarsbreytingapistil að ræða - frekar fyrsti apríl hungurdiska. Vonandi að menn hlaupi ekki mjög langt. - Lesendum er látið eftir að greina hvar vitið endar en bullið byrjar. En menn ættu að hafa í huga að sumt af því sem sést á prenti um veðurfarsbreytingar er álíka gáfulegt og það sem hér fer á eftir - geta menn greint ruglinginn þar?
Spurningin er: Hversu sjaldan má mæla hita til að draga megi af því ályktanir um hnattræna hlýnun? Er kannski nóg að mæla hitann í Stykkishólmi kl. 9 á hverjum hlaupársdagsmorgni - og síðan ekki söguna meir? Ætti hlaupársdagurinn ekki að vera jafn tilviljanakenndur og aðrir dagar? Lítum á mynd.
Hér má sjá morgunhita í Stykkishólmi hlaupársdaginn allt frá 1848 til 2008. Þetta eru 40 mælingar, athugið að enginn hlaupársdagur var aldamótaárið 1900 (eftir reglu Gregoríusar 13. páfa). Hefði verið hlaupársdagur það ár hefði morgunhitinn í Stykkishólmi verið 1,1 stig - en þá hefði líka afgangur alls línuritsins litið talsvert öðru vísi út. [Að vísu er allmikil fylgni með hita í dag og í gær].
Kaldasti hlaupársdagurinn og sá hlýjasti eru hlið við hlið, 1924 og 1928 - en það er nokkuð áberandi að hlaupársdagar fyrri hluta tímabilsins eru að jafnaði kaldari heldur en þeir síðari. Fyrstu 15 hlaupársdagana er meðalhitinn -2,6 stig en -0,3 stig síðustu 15.
Enda er það svo að marktæk leitni reynist vera í hitanum, reiknuð hækkun á öld er 2,6 stig. Þetta er mun meira heldur en almenn hlýnun, leitni vetrarins er um 1,2 stig á öld, en ársins um 0,7 stig. Hlýnunin á hlaupársdaginn er því um fjórum sinnum meiri heldur en hin almenna - enda er aðeins hlaupár fjórða hvert ár.
Það er því sennilega nóg að mæla hitann einn vetrarmorgun á einum stað á fjögurra ára fresti til að sjá hlýnunina. Hvers vegna að vera að eyða fjármunum í endalausar mælingar þegar spara má með þessum hætti?
Jæja lesendur góðir, hvar fór textinn hér að ofan út af sporinu?
27.2.2012 | 01:25
Innsveitir og útsveitir
Mynd dagsins er einskonar aukaafurð endalausrar leitar að ósamfellum í hitamælingum og segir e.t.v. enga sérstaka sögu - en látum slag standa.
Reiknaður er ársmeðalmeðalhiti í Grímsey og í Vestmannaeyjum og meðalhiti á Grímsstöðum og Hæli í Gnúpverjahreppi (fyrst Hrepphólum og síðan Stóra-Núpi ) dreginn frá. Kemur þá út eftirfarandi línurit:
Grímsstaðir byrjuðu ekki að athuga fyrr en 1907 og fyrir þann tíma er notast við hitamælingar í Möðrudal. Háu gildin í upphafi raðarinnar gætu bent til þess að ekki hafi tekist nógu vel til með færsluna milli þessara stöðva og verður því að athuga nánar. Árið 1902 vekur athygli - líklegasta ástæðan fyrir afbrigðilegu gildi það ár er sú að þá brotnaði mælir dönsku veðurstofunnar á Stóra-Núpi og tölur eru því skáldaðar - sennilega ekki alveg rétt.
Að öðru leyti eru skyndileg stökk ekki sérlega áberandi - síðustu hundrað árin er þó lítilsháttar leitni í þessum mun útsveita og innsveita. Fyrir hundrað árum sveiflaðist munurinn í kringum 1,4 stig - en er frekar í kringum 1,6 stig á síðari áratugum. Ein möguleg ástæða er sú að Vestmannaeyjaröðin hafi verið ofleiðrétt þegar flutt var úr kaupstaðnum að Stórhöfða 1921, en fleira gæti valdið, t.d. raunveruleg breyting.
Kalda árið 1979 sker sig nokkuð úr. Þá voru innsveitir sérlega kaldar miðað við strandarstöðvarnar tvær.
26.2.2012 | 01:06
Af afbrigðilegum febrúarmánuðum - 2
Þá eru það austan- og vestanáttarmánuðirnir. Til að finna þá notum við sömu fimm flokkunarhætti og notaðir hafa verið áður.
1. Mismunur á loftþrýstingi sunnanlands og norðan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1873. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri norðanlands heldur en syðra séu austlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi austanáttin verið. Það eru hins vegar ekki nema 26 mánuðir af 135 sem þrýstingur er hærri sunnan lands en norðan - austanáttin hefur yfirburðastöðu hér á landi.
Það er febrúar 1885 sem er mestur austanáttarmánaða. Eins og sumir kunnu að muna var hann líka mestur norðanáttarmánaða. Mikill fádæmamánuður - eins og nefnt var í norðanáttarpistlinum á dögunum. Febrúar 1966 er í öðru sæti. Þá var óvenju þurrt á Suður- og Vesturlandi en snjóþungt nyrðra. Síðan kemur febrúar 1923 í þriðja sætinu. Það er merkilegt að síðustu þrjátíu árin hafa miklir austanáttarfebrúarmánuðir verið fátíðir.
Vestanáttin var mest í febrúar 1932, en hann er hlýjasti febrúar allra tíma - reyndar með algjörum ólíkindum. Meðalhiti var 5 stig í Reykjavík, 4,6 stig yfir meðallaginu 1961-1990 og 5,2 stig yfir 1931-1960. Á Akureyri var meðalhitinn 6,4 stig yfir 1961-1990. Vestanáttin var næstmest aðeins tveimur árum síðar, 1934 og jafnmikil 1993.
2. Styrkur austanáttarinnar eins og hann kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær því miður aðeins aftur til 1949.
Hér var austanáttin mest 1966 og næstmest 1957. Vestanáttin var mest 1993 og næstmest 1959. Síðarnefndi mánuðurinn er einnig á meðal þeirra sem eiga sterkustu sunnanáttina.
3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindathugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðaustan-, austan- og suðaustanáttar lögð saman. Þá fæst heildartala austlægra átta. Þessi röð nær aftur til 1874.
Það er 1923 sem á mesta austanáttafebrúar samkvæmt þessu tali og 1966 er í öðru sæti. Febrúar 1885 fellur í það níunda. Febrúar 1923 hlaut nokkuð góð eftirmæli þótt hann hafi ekki verið alveg skaðalaus, m.a. gerði mikið brim um norðan- og austanvert landið snemma i mánuðinum.
Vestanáttatíðni er reiknuð með því að leggja saman tíðni áttanna suðvesturs, vesturs og norðvesturs. Febrúar 1934 er á toppnum. Gríðarleg úrkomu- og leysingaflóð urðu víða um land og skaðar urðu víða.
4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð. Það er enn febrúar 1966 sem er efstur á austanáttarlistanum og síðan koma 1957 og 1923 sem báðir hafa verið nefndir áður. Mest var vestanáttin að þessu tali í febrúar 1934 (einnig nefndur áður) en 1965 er í öðru sæti en sá mánuður var mjög afbrigðilegur - og hlýr.
5. Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum. Enn er 1923 nefndur í fyrsta sæti og 1893 í öðru. Það er sérlega skemmtilegt að janúar 1923 var á toppnum í háloftavestanáttinni - umskiptin yfir í febrúar hafa verið gríðarmikil og snögg. Kannski var það einmitt þarna sem hlýindaskeiðið mikla byrjaði? [Þetta síðasta er óábyrgt]. Langmest var vestanáttin í febrúar 1934, þá var sunnanáttin líka drjúg (ekki þó nærri meti).
25.2.2012 | 00:18
Hlýindin að undanförnu og háloftin (sólarhringsgamall pistill)
Eftirfarandi pistill átti að birtast fyrir sólarhring - en þá var prentsmiðjan lömuð og ekkert hægt að vista. En vonandi hefur ekki slegið svo í textann að hann sé orðinn óætur.
Þótt hlýindin að undanförnu séu ekki ennþá orðin söguleg (eða þannig) er ágætt að staldra aðeins við og líta á meðalástandið í háloftunum undanfarnar fjórar vikur. Þótt óvenju margar lægðir hafi farið hjá hafa þær langflestar verið óttalega aumingjalegar miðað við árstíma (ekki þó alveg allar).
En lítum fyrst á kort. Það sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins dagana 25. janúar til 21. febrúar. Kortið er úr smiðju Bandarísku veðurstofunnar - þökk sé henni.
Það sér auðvitað ekki nokkur maður hvað afbrigðilegt er á þessu korti. Meira að segja sjá þrautþjálfuð háloftaugu ritstjórans varla nokkuð - og þó. Það er 5340 metra jafnhæðarlinan sem liggur um Ísland þvert. Þetta er rúmlega einu línubili (60 metrum) ofan við meðaltal, Ísland hefur færst um rúma breidd sína til norðurs. Hæðarhryggurinn á austanverðu Atlantshafi sem hungurdiskar hafa áður nefnt Golfstraumshrygginn (rauð strikalína) er talsvert öflugri heldur en venja er til. Auk þessa er eitthvað mikið á seyði við Miðjarðarhafið og í Evrópu. Vestanhafs er ástandið ekki jafn óvenjulegt.
Næsta mynd er mun vænlegri fyrir sjónhimnuna, en hún sýnir vikin - hversu mikið hæð 500 hPa-flatarins víkur frá meðallagi árstímans.
Línurnar eru hér dregnar með 20 metra millibili. Það vekur strax athygli að vikin eru jákvæð á nærri því öllu kortinu (heildregnar línur) - mest vestur af Bretlandseyjum. Suðlægar áttir eru talsvert meiri heldur en að meðallagi allt frá svæðinu vestur af Asóreyjum í suðri og til Svalbarða í norðri. Við sjáum líka að hæðarbeygja er á vikalínunum kringum Ísland, frekar fjandsamlegt lægðunum mörgu. Það eru í sameiningu sunnanáttarauki og hár 500 hPa-flötur sem valda hlýindunum hér á landi.
Til hægðarauka er gott að halda þessu tvennu aðskildu og hnykkja á því - annars vegar hlýindunum sem sunnanáttaraukinn gefur og þeim sem hærri 500 hPa-flötur gefur. Sunnanáttaraukinn er eins og hitaveita en líta má á hæðarvikið sem norðurfærslu birgðastöðvarinnar. Að birgðastöðin færist til norðurs tryggir öryggi veitunnar og styrkir svæðið gegn innrásum kuldapolla.
Einu neikvæðu vikin eru yfir Miðjarðarhafi og Evrópu sunnanverðri. Þar eru vikalínur mjög þéttar og sýna mun sterkari aust- og norðaustlægan straum á þeim slóðum heldur en ríkir að meðaltali. Þetta er sannkölluð kuldaveita úr austri og þar að auki hefur birgðastöð kuldans sótt í átt að Miðjarðarhafi með aukinni lægðabeygju. Þetta þýðir að kuldinn hefur náð til Norður-Afríku jafnvel þótt þar sé austanáttarauki ekki svo mikill.
23.2.2012 | 01:16
Munur á meðalhita norðanlands og syðra (hugvekja að gefnu tilefni)
Veðurlag hafísáranna 1965 til 1971 var heldur leiðinlegt, en nú, 45 árum síðar má segja að reynslan af þeim hafi ekki verið eingöngu neikvæð. Alla vega voru þau lærdómsrík. Veðurlag hrökk þá um skeið aftur til 19. aldar og sýndi þar með að sá landshlutamunur sem var svo algengur þá er alveg raunverulegur. Með reynslu ísáranna á bakinu féllu þeir sem stunda reikninga hitameðaltala ekki í þá freistni að strika yfir þennan hitamun - hann hlyti að vera óeðlilegur og ábyggilega afleiðing af breyttum mæliaðstæðum. Hitameðaltölum 19. aldar hefði síðan verið breytt á annan hvorn veginn. En lítum aðeins á - myndefnið hefur víst í aðalatriðum sést áður.
Hér má sjá mismun ársmeðalhita í Vestmannaeyjum og í Grímsey allt frá 1874 til 2011 (eldri gerðir myndarinnar sýna 1878 til 2007). Glögglega má sjá hversu bókstaflega ástandið á hafísárunum var afturhvarf til þess sem ríkti fyrir 1920. Hér verður að taka fram að hitaraðirnar tvær eru ekki alveg lausar við galla.
Einn ósamfella er sýnu alvarlegust en það er flutningur stöðvarinnar í Vestmannaeyjum úr kaupstaðnum og út á Stórhöfða haustið 1921. Hæðarmunur er mikill á milli þessara staða. Því var ákveðið að lækka ársmeðalhita í Vestmannaeyjum um 0,7 stig á árunum 1877 til 1921. Mælingar hafa nýlega verið gerðar á báðum stöðum samtímis og munurinn sem þá kom fram er ekki fjarri þessari tölu - en ekki nákvæmlega sá sami - auk þess sem dálítil árstíðasveifla kemur þar fram. Fyrir 1878 var stöðin uppi við Ofanleiti og sama leiðrétting á ekki við.
Í Grímsey hafa ýmsir hlutir gerst á tímabilinu - en svo virðist sem mögulegar ósamfellur af þeirra völdum séu minni heldur en þær raunverulegu veðurfarsbreytingar sem hafa orðið.
Breytingin á veðurlagi á hafísárunum er svo afgerandi að í augum sumra getur hún ekki verið rétt. Mörg smáatriði myndarinnar vekja athygli, árið 1984 er sérlega afbrigðilegt, munur á hita fyrir norðan og sunnan hefur aldrei orðið jafnlítill - enda voru kaldar suðvestlægar áttir ríkjandi með sudda sunnanlands en nyrðra var bjart og tiltölulega hlýtt í landáttinni.
Það er skemmtileg tilviljun að hitamunur á þeim fjórðungi 19. aldar sem við sjáum var minnstur 1884, nákvæmlega hundráð árum á undan muninum litla 1984. Það má líka benda á að á myndinni virðist svo sem hafísárin hafi ekki byrjað 1965 heldur tveimur árum fyrr, 1963. Munurinn 1963 er að vísu ámóta og 1943 og 1932. Bæði þessi ár var hafís undan Norðurlandi.
Grímsey er auðvitað ein þeirra stöðva á landinu sem viðkvæmust er fyrir áhrifum hafíss, en Vestmannaeyjar eru vel varðar. Reykjavík er líka mjög vel varin - betur heldur en flestar stöðvar í nágrenninu og Akureyri getur sloppið furðuvel við hafísáhrif séu landáttir ríkjandi. Mætti fjalla um það sérstaklega. En lítum á aðra mynd. Hún sýnir mun á ársmeðalhita í Reykjavík og á Akureyri 1882 til 2011.
Spönn lóðrétta kvarðans á þessari mynd er sá sami og á þeirri fyrri þótt tölurnar séu aðrar. Við sjáum að hreyfingar frá ári til árs eru ekki eins miklar og á fyrri myndinni. Hafísárin koma greinilega fram sem hóll í línuritinu og sömuleiðis minnkar munur stöðvanna um 1920 rétt eins og á fyrri mynd.
Svo virðist sem munur frá 1973 og áfram, jafnvel fram yfir árið 2000 sé minni en var fyrr á öldinni. Á þessum tíma var tiltölulega hlýtt fyrir norðan miðað við suðvestanvert landið. Við sjáum hvernig árin 1976 og 1984 skera sig sérstaklega úr. Síðarnefnda árið er það eina þegar hlýrra var á Akureyri heldur en í Reykjavík. Á eldri tíð er það sérstaklega árið 1933 sem sker sig úr, enda var sumarið þá fádæma hlýtt nyrðra - líka hlýtt syðra en í sólarleysi og rigningu. Árið 1933 er hið langhlýjasta sem vitað er um á Akureyri hlýindi síðustu ára hafa ekki slegið það út.
Hér er rétt að taka fram að árin 1919 til 1926 voru athuganir á Akureyri sérlega aumar og talsverð óvissa er þá í meðaltölum - rétt er að búast við því að einhverjar breytingar verði gerðar á hitaröðinni frá því sem hér er birt.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.7.): 159
- Sl. sólarhring: 160
- Sl. viku: 2069
- Frá upphafi: 2485068
Annað
- Innlit í dag: 129
- Innlit sl. viku: 1835
- Gestir í dag: 108
- IP-tölur í dag: 106
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010