Hlaupársdagurinn (veðurfarsbreytingagrín)

Það skal tekið fram í upphafi að hér er ekki um alvarlegan veðurfarsbreytingapistil að ræða - frekar fyrsti apríl hungurdiska. Vonandi að menn hlaupi ekki mjög langt.  - Lesendum er látið eftir að greina hvar vitið endar en bullið byrjar. En menn ættu að hafa í huga að sumt af því sem sést á prenti um veðurfarsbreytingar er álíka gáfulegt og það sem hér fer á eftir - geta menn greint ruglinginn þar?

Spurningin er: Hversu sjaldan má mæla hita til að draga megi af því ályktanir um hnattræna hlýnun? Er kannski nóg að mæla hitann í Stykkishólmi kl. 9 á hverjum hlaupársdagsmorgni - og síðan ekki söguna meir? Ætti hlaupársdagurinn ekki að vera jafn tilviljanakenndur og aðrir dagar? Lítum á mynd.

w-blogg280212

Hér má sjá morgunhita í Stykkishólmi hlaupársdaginn allt frá 1848 til 2008. Þetta eru 40 mælingar, athugið að enginn hlaupársdagur var aldamótaárið 1900 (eftir reglu Gregoríusar 13. páfa). Hefði verið hlaupársdagur það ár hefði morgunhitinn í Stykkishólmi verið 1,1 stig - en þá hefði líka afgangur alls línuritsins litið talsvert öðru vísi út. [Að vísu er allmikil fylgni með hita í dag og í gær].

Kaldasti hlaupársdagurinn og sá hlýjasti eru „hlið við hlið“, 1924 og 1928 - en það er nokkuð áberandi að hlaupársdagar fyrri hluta tímabilsins eru að jafnaði kaldari heldur en þeir síðari. Fyrstu 15 hlaupársdagana er meðalhitinn -2,6 stig en -0,3 stig síðustu 15.

Enda er það svo að marktæk leitni reynist vera í hitanum, reiknuð hækkun á öld er 2,6 stig. Þetta er mun meira heldur en almenn hlýnun, leitni vetrarins er um 1,2 stig á öld, en ársins um 0,7 stig. Hlýnunin á hlaupársdaginn er því um fjórum sinnum meiri heldur en hin almenna - enda er aðeins hlaupár fjórða hvert ár.

Það er því sennilega nóg að mæla hitann einn vetrarmorgun á einum stað á fjögurra ára fresti til að sjá hlýnunina. Hvers vegna að vera að eyða fjármunum í endalausar mælingar þegar spara má með þessum hætti?

Jæja lesendur góðir, hvar fór textinn hér að ofan út af sporinu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Ég myndi giska á að þar sem þetta er mæling á einum stað á hinum stóra hnetti, þá sé ekki verið að mæla hina hnattræna hlýnun - heldur eingöngu staðbundna breytingu. Mismunandi staðir heims bregðast mismunandi við hinni hnattrænu hlýnun og því ekki hægt að fullyrða um hnattræna hlýnun út frá einum punkti.

Að tímabilinu, þá getur vel verið að nóg sé að mæla í hálfa öld eða svo til að sjá leitni fyrir Stykkishólm - treysti mér samt ekki til um að fullyrða um það

Höskuldur Búi Jónsson, 28.2.2012 kl. 08:23

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Fyrri hluti tímabilsins var óvenju kaldur.  Væri gaman að sjá leitnina frá 1928

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.2.2012 kl. 11:47

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

„Hlýnunin á hlaupársdaginn er því um fjórum sinnum meiri heldur en hin almenna - enda er aðeins hlaupár fjórða hvert ár.“

Þarna finnst mér eitthvað hafa farið út af sporinu.

Emil Hannes Valgeirsson, 28.2.2012 kl. 11:58

4 identicon

„Hlýnunin á hlaupársdaginn er því um fjórum sinnum meiri heldur en hin almenna - enda er aðeins hlaupár fjórða hvert ár.“

Já, hér er maðkur í mysunni. Þegar bara er tekin með ein morgunmæling fjórða hvert ár mætti ætla að leitnin verði sú sama og fyrir allt safnið, en vikmörkin verði miklu stærri.

". . .marktæk leitni reynist vera í hitanum"

Ath. að þetta þýðir yfirleitt bara að 95% líkur eru á að leitnin sé ekki 0.

". . .reiknuð hækkun á öld er 2,6 stig"

En sá útreikningur byggir á fáum gildum og veðursveiflurnar eru stórar (yfir 20 C). Betra er að gefa upp bilið fyrir leitnina sem gögnin gefa til kynna, heldur en eina ákveðna tölu.

Jón Erlingur Jónsson (IP-tala skráð) 28.2.2012 kl. 14:14

5 identicon

Ef árið 1900 hefði verið með, með 1,1°c hita hefði þá ekki meðalhiti fyrstu 15 hlaupársdagana hækkað verulega þá dettur út 1908 með -8°c.  Mér sýnist þetta hafa einhver áhrif á hallatöluna til lækkunar.

Eitthvað  finnst mér skrítið að meðaltalslínan( held þessi bogalíina eigi að vera eitthvað svoleiðis) áranna 1924-1944 skuli öll liggja ofan við rauðu línuna og ekki skil ég hvernig 1928 og 1932 geta togað hana svona hátt upp en 1924 og 1936 virðast ekki hafa nein áhrif til lækkunar.

ég mundi nú vilja sjá hvernig þetta er eiginlega reiknað.  

v. Heiðdal (IP-tala skráð) 28.2.2012 kl. 18:23

6 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Textinn fer snemma út af sporinu að mínu mati... Það er t.d. ekki hægt að nota staðbundnar mælingar til að segja til um hnattræna hlýnun. Einstakir tilviljanakenndir dagar geta heldur ekki þótt góð latína í þessum efnum, enda getur það t.d. gefið einhverskonar skekkju (á alla mögulega vegu) sem ýkir eða dregur úr...þ.e. tilviljanakennt, eins og hitastigið frá degi til dags, sem getur innan ákveðina marka verið tilviljanakennt (ef svo má að orði komast). Við höfum meðal annars tekið fyrir skemmtilega mýtu á loftslag.is sem kemur fyrir stöku sinnum í umræðunni, sérstaklega þegar veður er staðbundið kalt (t.d. á Íslandi í desember s.l.), þá telja einstaka aðilar það vera merki um hnattræna kólnun (sjá mýtuna Það er kalt á Klonke Dinke og því er engin hnattræn hlýnun)...

Svona til að nefna það, þá er ein hugmynd í athugasemdum varðandi það að sérvelja gögn frá 1928 til að fá fram einhverja óska leitni (út frá gögnum sem gefa þar að auki ranga mynd), það er að mínu mati röng nálgun og það má segja að sá aðili fari einnig út af sporinu í sinni athugasemd. 

En alla vega eru þetta fróðlegar og skemmtilegar vangaveltur hjá þér Trausti og segja kannski eitthvað örlítið til um þær takmarkanir sem geta verið í umræðunni varðandi þessi mál, t.d. þegar öll gögnin eru ekki til skoðunar.

Sveinn Atli Gunnarsson, 29.2.2012 kl. 00:00

7 Smámynd: Trausti Jónsson

Mestallur textinn er langt úti af sporinu. Fyrsta spurningin sem lögð er fram er í sjálfu sér athyglisverð - skothelt svar við henni væri vænlegt til heimsfrægðar. Gögnin eru þó sannleikanum samkvæmt og reikningarnir „réttir“. Eins og bent var á er ekkert sagt um vikmörkin, trúverðugleikans vegna er þeim sleppt. Þetta með fjórfalda leitni hlaupársdagsins er þó besti brandarinn. En alvara málsins er sú að maður sér stundum í raun og veru  reikninga sem minna á þetta - sérstaklega þegar gögnin eru svokölluð veðurvitni en ekki harðar mælingar. Veðurvitni er íslenskt orð fyrir proxy data eða proxy record, dæmi um slíkt eru t.d. setlagagögn, trjáhringir, ískjarnar o.s.frv. Flestir þeir sem vinna með slík gögn birta þó aldrei nema vandaða vinnu.

Trausti Jónsson, 29.2.2012 kl. 01:03

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er alveg greinilegt að það er eitthvað mikið að þér á andlega sviðinu, Sveinn Atli. Ég er ekki að biðja um að sérvelja gögn, heldur nefni að gaman væri að sjá leitnina miðað við 1928.

Ég bendi hins vegar á að óvenju kalt var á seinni hluta 19. aldar, eða u.þ.b. frá þeim tíma sem reglulegar hitamælingar hófust. Það hentar ágætlega til þess að fá hressilega hlýnun sl. 140 ár eða svo.

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.2.2012 kl. 02:15

9 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Veðurvitni hafa sínar takmarkanir, en það er þó hægt að gera ráð fyrir að vinnan á bak við þess háttar rannsóknir sé vönduð og það sé eitthvað að marka þá vinnu, þó hún sé takmörkunum háð, eins og áður sagði.

Gunnar, takk fyrir hlý orð, það er þér líkt að telja fólk sem kemur með gagnrýnar athugasemdir vera eitthvað andlega vanheilt...ef ég ætti í krónu fyrir hvert skipti sem þú ýjaðir að einmitt þessu, þá ætti ég þó nokkuð margar krónur í dag

Sveinn Atli Gunnarsson, 29.2.2012 kl. 09:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5
  • Slide4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 51
  • Sl. sólarhring: 112
  • Sl. viku: 1675
  • Frá upphafi: 2349635

Annað

  • Innlit í dag: 46
  • Innlit sl. viku: 1517
  • Gestir í dag: 46
  • IP-tölur í dag: 43

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband