Munur á meðalhita norðanlands og syðra (hugvekja að gefnu tilefni)

Veðurlag hafísáranna 1965 til 1971 var heldur leiðinlegt, en nú, 45 árum síðar má segja að reynslan af þeim hafi ekki verið eingöngu neikvæð. Alla vega voru þau lærdómsrík. Veðurlag hrökk þá um skeið aftur til 19. aldar og sýndi þar með að sá landshlutamunur sem var svo algengur þá er alveg raunverulegur. Með reynslu ísáranna á bakinu féllu þeir sem stunda reikninga hitameðaltala ekki í þá freistni að strika yfir þennan hitamun - hann hlyti að vera óeðlilegur og ábyggilega afleiðing af breyttum mæliaðstæðum. Hitameðaltölum 19. aldar hefði síðan verið breytt á annan hvorn veginn. En lítum aðeins á - myndefnið hefur víst í aðalatriðum sést áður.

w-blogg230212a

Hér má sjá mismun ársmeðalhita í Vestmannaeyjum og í Grímsey allt frá 1874 til 2011 (eldri gerðir myndarinnar sýna 1878 til 2007). Glögglega má sjá hversu bókstaflega ástandið á hafísárunum var afturhvarf til þess sem ríkti fyrir 1920. Hér verður að taka fram að hitaraðirnar tvær eru ekki alveg lausar við galla.

Einn ósamfella er sýnu alvarlegust en það er flutningur stöðvarinnar í Vestmannaeyjum úr kaupstaðnum og út á Stórhöfða haustið 1921. Hæðarmunur er mikill á milli þessara staða. Því var ákveðið að lækka ársmeðalhita í Vestmannaeyjum um 0,7 stig á árunum 1877 til 1921. Mælingar hafa nýlega verið gerðar á báðum stöðum samtímis og munurinn sem þá kom fram er ekki fjarri þessari tölu - en ekki nákvæmlega sá sami - auk þess sem dálítil árstíðasveifla kemur þar fram. Fyrir 1878 var stöðin uppi við Ofanleiti og sama „leiðrétting“ á ekki við.

Í Grímsey hafa ýmsir hlutir gerst á tímabilinu - en svo virðist sem mögulegar ósamfellur af þeirra völdum séu minni heldur en þær raunverulegu veðurfarsbreytingar sem hafa orðið.

Breytingin á veðurlagi á hafísárunum er svo afgerandi að í augum sumra getur hún ekki verið rétt. Mörg smáatriði myndarinnar vekja athygli, árið 1984 er sérlega afbrigðilegt, munur á hita fyrir norðan og sunnan hefur aldrei orðið jafnlítill - enda voru kaldar suðvestlægar áttir ríkjandi með sudda sunnanlands en nyrðra var bjart og tiltölulega hlýtt í landáttinni.

Það er skemmtileg tilviljun að hitamunur á þeim fjórðungi 19. aldar sem við sjáum var minnstur 1884, nákvæmlega hundráð árum á undan muninum litla 1984. Það má líka benda á að á myndinni virðist svo sem hafísárin hafi ekki byrjað 1965 heldur tveimur árum fyrr, 1963. Munurinn 1963 er að vísu ámóta og 1943 og 1932. Bæði þessi ár var hafís undan Norðurlandi.

Grímsey er auðvitað ein þeirra stöðva á landinu sem viðkvæmust er fyrir áhrifum hafíss, en Vestmannaeyjar eru vel varðar. Reykjavík er líka mjög vel varin - betur heldur en flestar stöðvar í nágrenninu og Akureyri getur sloppið furðuvel við hafísáhrif séu landáttir ríkjandi. Mætti fjalla um það sérstaklega. En lítum á aðra mynd. Hún sýnir mun á ársmeðalhita í Reykjavík og á Akureyri 1882 til 2011.

w-blogg230212b

Spönn lóðrétta kvarðans á þessari mynd er sá sami og á þeirri fyrri þótt tölurnar séu aðrar. Við sjáum að hreyfingar frá ári til árs eru ekki eins miklar og á fyrri myndinni. Hafísárin koma greinilega fram sem hóll í línuritinu og sömuleiðis minnkar munur stöðvanna um 1920 rétt eins og á fyrri mynd.

Svo virðist sem munur frá 1973 og áfram, jafnvel fram yfir árið 2000 sé minni en var fyrr á öldinni. Á þessum tíma var tiltölulega hlýtt fyrir norðan miðað við suðvestanvert landið. Við sjáum hvernig árin 1976 og 1984 skera sig sérstaklega úr. Síðarnefnda árið er það eina þegar hlýrra var á Akureyri heldur en í Reykjavík. Á eldri tíð er það sérstaklega árið 1933 sem sker sig úr, enda var sumarið þá fádæma hlýtt nyrðra - líka hlýtt syðra en í sólarleysi og rigningu. Árið 1933 er hið langhlýjasta sem vitað er um á Akureyri hlýindi síðustu ára hafa ekki slegið það út.

Hér er rétt að taka fram að árin 1919 til 1926 voru athuganir á Akureyri sérlega aumar og talsverð óvissa er þá í meðaltölum - rétt er að búast við því að einhverjar breytingar verði gerðar á hitaröðinni frá því sem hér er birt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 27
  • Sl. sólarhring: 340
  • Sl. viku: 1601
  • Frá upphafi: 2350228

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 1474
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband