Færsluflokkur: Vísindi og fræði
2.5.2012 | 00:26
Samsíða og jafnmargar
Þrátt fyrir áhugaverðan titil er hér um erfiðan nördapistil að ræða. Flestir munu líta undan þegar upplýst er átt er við samsíða og jafnmargar jafnhæðar- og jafnþykktarlínur. Sjá má gott dæmi á tveimur spákortum hér að neðan. Það fyrra sýnir spá sem gildir um hádegi á morgun, miðvikudaginn 2. maí. Kortin eru frá evrópureiknimiðstöðinni.
Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru svartar og heildregnar, merktar í dekametrum (1 dekametri = 10 metrar), en jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar. Þær eru einnig merktar í dekametrum. Í báðum tilvikum eru 6 dekametrar (60 metrar) milli lína. Mjög hvasst er í 500 hPa yfir landinu, það sést af því hversu þéttar jafnhæðarlínurnar eru. Vindhraðinn er um 40 metrar á sekúndu.
Lítið fréttist af þessum vind niður við jörð - nema þar sem sést til fagurra vindskafinna netjuskýja eða blikuhnoðra (maríutásu). Hugsanlegt er að vindinum geti slegið niður á stöku stað ef miklar fjallabylgjur ná sér á strik - en aðallega sitjum við samt í hægum vindi. Það má sjá af því að jafnþykktarlínur falla að mestu saman við jafnhæðarlínur, þykktarbrattinn er mjög svipaður og hæðarbrattinn. Að auki (alveg bráðnauðsynlegt skilyrði) eru lágu tölurnar sömu megin fyrir bæði sviðin.
Þrýstisviðið við jörð kemur í ljós ef þykktin er dregin frá hæðinni. Útkoman úr þeim frádrætti sýnir svo til sömu tölu báðu megin við landið, um 18 dekametra (180 metra) það er ekki fjarri því að samsvara 1022 hPa sjávarmálsþrýstingi. Þeir sem eru mjög smámunasamir geta þó fundið grunna lægð nærri Vesturlandi ef þeir rýna í kortið.
Bleiki slóðinn fyrir norðan og vestan land sýnir iðu í 500 hPa. Hér er hún greinilega tengd beygjunni kröppu í hæðarsviðinu. Sömuleiðis má sjá hvernig vindurinn er að bera hana til austurs (vindur liggur undir horni á iðuslóðann) yfir landið. Handan beygjunnar er norðanátt. Við lítum á hana á næstu mynd, sams konar korti en með gildistíma sólarhring síðar (fimmtudagur kl. 12).
Hér er norðvestanstrengur kominn á fullt yfir landinu. En - (hjúkk) svo vill til að enn eru jafnhæðar- og jafnþykktarlínur nær samsíða og jafnmargar. Það þýðir að norðvestanáttin hvassa (um 30 m/s) nær sér ekki niður. En - það er samt breyting, við sjáum að á fyrra kortinu (miðvikudag) var þykktin yfir Norðausturland 5340 metrar, en er hér um 5220 metrar. Þetta er kólnun um 120 metra - allt að því fimm til sex stig miðað við meðalhita sólarhringsins. Suðvestanlands er þykktarfallið mun minna.
Fleiri lægðardrög bíða auðvitað í norðvestanáttinni - þegar þetta er skrifað (seint á þriðjudagskvöldi) sýnist það kaldasta að fara hjá á aðfaranótt sunnudags. En óvarlegt er að taka spár svo langt fram í tímann alvarlega hvað smá veðurkerfi varðar.
1.5.2012 | 01:36
Réttu megin rastar
Víða var hlýtt í dag (mánudaginn 30. apríl) enda lá hlýr loftstraumur úr suðvestri austur um landið. Ef trúa má greiningum fór þykktin yfir Suðausturlandi upp fyrir 5520 metra stutta stund síðdegis. Undir kvöld mátti sá stóra flekki af blikuhnoðrum (maríutásu) á norðvesturlofti í gegnum göt á flákaskýjabreiðunni sem annars þakti himininn við Faxaflóa. Breiður blikuhnoðra sjást oft þar sem loft er í þvinguðu, hægu uppstreymi hægra megin við háloftarastir (sé horft í stefnu vindsins).
Á morgun og miðvikudaginn verður röstin enn fyrir norðan land og sýnir kortið ástandið í 300 hPa síðdegis þriðjudaginn 1. maí. Afurðin kemur úr hirlam-líkaninu.
Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar og eru dregnar með 4 dekametra (40 metra) millibili. Þrengsta línan í kringum hæðina fyrir suðvestan land sýnir 9380 metra en flöturinn er lægstur yfir Norður-Grænlandi. Þar sést í 8660 metra jafnhæðarlínuna. Á kortinu eru einnig hefðbundnar vindörvar sem sýna hraða og stefnu en litafletir greina hvar vindurinn er mestur. Í bláu flötunum er hann yfir 120 hnútar (60 m/s).
Heimskautaröstin gengur þvert fyrir kortið með dældum og kryppum, öldudalir og faldar vestanvindabeltisins. Suðvestur af Bretlandseyjum hefur einn dalurinn lokast inni og myndar þar svonefnda afskorna lægð. Slíkar lægðir lifa oft dögum saman. Öldudalurinn suðaustur af Nýfundnalandi er að lokast af og myndar aðra afskorna lægð. Lægðardragið vestan Grænlands slitnar þar með frá og fer hratt austur um Ísland á fimmtudag. Á eftir því fylgir norðanátt og við lendum inni í kalda loftinu.
Hæðin fyrir suðvestan land þokast vestur og á að setjast að við Suður-Grænland. Það er óþægilegur staður fyrir okkur - beint í skotlínu lægðardraga sem þá koma suðaustur yfir Grænland og síðan Ísland. Þetta er sígild vorhretastaða - en þó ekki vís. Miklu máli skiptir hversu öflug lægðardrögin eru og hvar þau stökkva yfir Grænland. Hretloftið kemur ekki ofan af Grænlandi sjálfu heldur ryðst suður með austurströnd þess í kjölfar lægðardraganna. En við höfum ekki áhyggjur af því í bili.
30.4.2012 | 00:35
Þurrt (og veðurlaust) á athugunartíma
Fyrir nokkrum dögum litum við á aukna tíðni úrkomu í grennd (án ábyrgðar). Í sama pistli var einnig fjallað um það að veðurathugunarmönnum er gert að flokka veður á athugunartíma í hundrað mismunandi tegundir. Þetta kann að virðast mikið en oftast er lítill vafi á flokkuninni þannig hún er ekki mjög erfið í reynd.
Fjórir fyrstu flokkarnir, 0, 1, 2 og 3 eru notaðir þegar þurrt er á athugunartíma, skyggni gott og engin úrkoma hefur fallið síðustu klukkustund og þá klukkustund hefur heldur ekki orðið vart við þoku eða þrumur. Hver um sig greina tölurnar fjórar frá mismunandi breytingum á skýjahulu. Við höfum engar áhyggjur af því.
Hér er rétt að benda á að þótt þurrt sé getur verið hvasst og hvassviðri er sjaldan veðurleysa. Sé mjög hvasst fer að verða líklegt að skyggni sé takmarkað, t.d. vegna misturs eða skafrennings - þótt úrkoma hafi ekki fallið síðustu klukkustund. Um leið og skyggni versnar má ekki nota tölurnar 0 til 4.
Það er fróðlegt að athuga hversu oft lykiltölurnar 0 til 3 eru notaðar í athugunum hér á landi. Í ljós kemur að veðurleysan er langalgengasta veður á Íslandi, á árunum 1961 til 1990 kom hún við sögu í 63,9 prósentum allra athugana.
Á landinu í heild eru hins vegar um 55% allra daga úrkomudagar. Í sameiningu þýða þessar tölur að úrkoma fellur með köflum hér á landi - oft, en ekki lengi í einu og þurru stundirnar eru talsvert fleiri heldur en þær votu.
Nokkur breytileiki er frá ári til árs - veðurleysa var algengust árið þurra 1952 (gögn ná aftur til 1949), þá náði tíðnin 70%. Fátíðust var hún árið 1975 rétt tæp 60% athugana. Árið 1975 er í hópi illviðrasömustu ára þessa tímabils.
29.4.2012 | 01:09
Viðsnúningur í háloftunum?
Árið 2010 var mjög afbrigðilegt við norðanvert Atlantshaf - hin venjulega hringrás var mjög úr lagi gengin. Mikill háloftahryggur var vestan við land, en venjulega er þar lægðasvæði. Loftþrýstingur hafði sjaldan eða aldrei verið hærri á Íslandi og gríðarleg hlýindi ríktu á Grænlandi - alveg út úr kortinu satt best að segja. Mjög þurrt var á Íslandi.
Í janúar 2011 skipti snögglega um gír og venjulegra ástand tók aftur völdin. Umhleypingar ruddust yfir Ísland og verulega kólnaði á Grænlandi. Úrkoma færðist í aukana hér á landi. Svo fór um síðir að lægðagangurinn fór að verða óvenju þrálátur og þegar árið hringdi út kom í ljós að meðalþrýstingur þess var með allra lægsta móti. Umhleypingarnir héldu áfram fram á árið í ár þar til umskipti urðu aftur fyrir nokkrum vikum.
Þegar litið er á kort sem sýnir meðalhæð 500 hPa flatarins það sem af er apríl kemur í ljós að ástandið er orðið nærri því eins og 2010. Hæðarhryggur vestan við land en lægðardrag liggur úr norðri suður um Bretlandseyjar.
Kortið er úr smiðju bandarísku veðurstofunnar. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru svartar. Rauða línan er sett inn við öldufald hryggjarins. Árið 2010 var mjög hlýtt - þrátt fyrir það að norðlæg átt ríkti í háloftunum. Hiti í þeim aprílmánuði sem nú er að líða hefur verið yfir meðallagi um meginhluta landsins - hæðarbeygjan hefur séð til þess að niðurstreymi hefur verið ríkjandi og auk þess er hún það kröpp að loftið yfir Íslandi er að miklu leyti af suðrænum uppruna. En kalt loft að norðan hefur öðru hvoru stungið sér undir það vestræna.
Kalda loftsins hefur mest gætt á Norðaustur- og Austurlandi og þar hefur hiti sums staðar verið undir meðallagi.
Nú er spurning hvort staðan frá 2010 hefur snúið aftur - eða hvort þetta er millileikur meðan beðið er eftir næsta umhleypingaskammti.
28.4.2012 | 01:22
Falleg þykktarbylgja
Á laugardag (28. apríl) gengur dálítil lægð til austnorðausturs skammt undan Norðurlandi. Hún hefur skrapað upp litla bylgju af hlýju lofti og dreifir henni fyrir austan og suðaustan land á sunnudaginn. Við lítum á þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á laugardagskvöld.
Jafnþykktarlínur eru svartar og heildregnar en litafletir sýna hita í 850 hPa fletinum (í um 1400 metra hæð). Þykktin segir til um meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mesta þykktin á kortinu er í suðvesturjaðri hans, við sjáum 5540 metrar, en lægst er hún þar sem 5100 metra jafnþykktarlínan gægist inn yfir Grænlandi. Ekki er mikið að marka þykktar- og hitatölur yfir Grænlandsjökli sjálfum en jaðarinn ætti að vera í lagi.
Loftið sem streymir niður austurhlíðar Grænlands hlýnar og er sem hlýr hryggur fylgi ströndinni. Síðan sjáum við hvernig kalda loftið laumast til suðurs í átt til Íslands og til suðvesturs um Grænlandssund.
Örvar eru settar á kortið. Sú svarta á að sýna hreyfingu kalda bylgjudragsins til austurs, en þær rauðu gefa til kynna að hlýi hryggurinn flest út hlýjasta loftið fer til suðurs en smávegis af því smyrst út til austurs.
En kalda loftið stendur stutt við og við fáum nýjan hlýjan hrygg úr suðvestri - aðeins veigameiri heldur en þennan.
27.4.2012 | 00:07
Umhleypingar í nokkra daga?
Það er hollt að líta yfir norðurhvelið endrum og sinnum. Stóri-Boli er enn að veltast um - en angrar okkur vonandi ekki. Hins vegar eru bylgjurnar í vestanvindabeltinu mjög háreistar og valda afbrigðum í veðurlagi þar sem þær sitja.
Kortið sýnir 500 hPa-hæð í dekametrum (svartar, heildregnar línur) og þykkt, einnig í dekametrum (litafletir), eins og evrópureiknimiðstöðin spáir á laugardaginn kemur (28. apríl) kl. 18 síðdegis. Hægt er að smella sig inn á talsvert skýrara eintak af myndinni og er mælt með því.
Nú má fara að fylgjast með fækkun jafnhæðarlína á norðurslóðum. Innsta línan sem sést (örsmár hringur við Thúle á Grænlandi) sýnir 5040 metra, en á laugardaginn eftir viku finnur spáin lægst 5160 metra jafnhæðarlínu - ekki er víst að svo fari, en stórt skref í átt til sumars sé rétt spáð.
Lítil fjólublá klessa (Stóri-Boli) er einnig við Thúle, þar er þykktin neðan við 4920 metra og veturinn í fullu veldi. Við sjáum að lág þykkt liggur í rennu suður um Bretlandseyjar og gæti snjóað langt niður í hlíðar í Skotlandi og N-Englandi um helgina. Reiknimiðstöðin gerir einnig ráð fyrir úrhellisrigningu og hvassviðri við suðurströnd Englands - en amerískir reikningar gera minna úr því.
Miklar rigningar verða einnig viðloðandi sunnar í lægðardraginu. Snarpar lægðarbeygjur valda nær alltaf mikilli úrkomu í Suður-Evrópu. Austan við lægðardragið er hins vegar mikil sunnanátt. Hún á að valda óvenjulegum hlýindum í Þýskalandi, Póllandi og jafnvel austar um helgina og upp úr henni. Þykktin á að komast upp fyrir 5640 metra þegar best lætur - það er með því hæsta sem gerist í apríllok. Hlýindin eiga einnig að ná til Danmerkur, en varla þó með metum.
Vestur í Ameríku er gríðarleg hitabylgja nýlega gengin yfir suðvesturríki Bandaríkjanna - en er búin að gefa eftir á þessu korti. Þykktin fór upp undir 5800 metra þegar mest var en það er óvenjulegt.
Snörp lægðarbylgja er rétt vestan við land á kortinu. Hún veldur talsverðri rigningu vestanlands á laugardaginn - ekki veitir víst af eftir þurrkinn að undanförnu. Á sunnudaginn verður hún komin hjá og dálítill hæðarhryggur tekinn við. Hvað gerist á eftir honum er ekki mjög greinilegt en yfir okkur verður þó væntanlega nokkuð sterk vestsuðvestanátt ríkjandi í háloftunum. Þá gæti sumarloft (Þykkt meiri en 5460 metrar) komist um tíma til landsins (helst á mánudag) - en það nýtist varla vel á sinni hraðferð, með skýjahulu í farteskinu.
26.4.2012 | 00:46
Úrkoma í grennd færist í aukana
Þegar horft er á veðurgögn og gagnaraðir á hverjum degi árið út og inn fer ekki hjá því að ýmislegt skrýtið ber fyrir augu. Mynd dagsins sýnir eitt slíkt atriði. Svo virðist sem úrkoma í grennd hafi færst í aukana á síðustu áratugum og aldrei verið eins algeng og á síðasta ári (2011).
En hvað er úrkoma í grennd? Veðurathugunarmönnum er gert að flokka veður á athugunartíma í 100 mismunandi gerðir veðurs, hver gerð á sér tölu á bilinu frá 00 til 99. Frá 1949 til 1981 var algjör skylda að nefna einhverja tölu, en frá og með 1982 var leyft að sleppa henni ef hún féll á flokkana 00 til 03 - en þær greina aðeins á milli mismunandi þróunar skýjahulu frá síðustu athugun.
Eitthvað verður því veðrið að heita. Í listanum langa eru þrjár mismunandi tölur sem taka til úrkomu sem sést frá athugunarstað - en fellur þó ekki á stöðinni þegar athugun fer fram. Þetta köllum við lauslega úrkomu í grennd. Tölurnar þrjár eru 14, 15 og 16 - eiga þær eftirfarandi skilgreiningar:
14 Úrkoma sjáanleg, en nær ekki til jarðar.
15 Úrkoma sjáanleg og nær til jarðar í meira en 5 km fjarlægð frá athugunarstað, en úrkomulaust á athugunarstað.
16 Úrkoma sjáanleg og nær til jarðar í minna en 5 km fjarlægð frá athugunarstað, en úrkomulaust á athugunarstað.
Lykiltala 15 er langalgengust, yfir 80% athugana á úrkomu í grennd falla á hana.
Nú hefur tíðni athugana sem falla á þessar tölur verið reiknuð hvert ár og fyrir allt tímabilið 1949 til 2011. Úrkoma í grennd reynist nokkuð algeng því um það bil ein athugun af hverjum 20 segir frá henni eða um 5%. Á myndinni hér að neðan eru þúsundustuhlutar notaðir (af óviðkomandi ástæðum), meðaltal tímabilsins alls er 50,2 þúsundustuhlutar (prómill).
Lárétti ásinn sýnir ár en sá lóðrétti tíðnina. Kemur nú hið furðulega í ljós. Tíðnin leitar greinilega upp á við og árið í fyrra, 2011, er algjört metár. Annað er líka einkennilegt, breytingar frá ári til árs eru mjög litlar - en áratugasveiflur og leitni eru mun meiri. Þetta kemur mjög á óvart. Frekar var búist við óreglulegum stökkum milli ára og lítilli eða engri leitni.
En eru einhverjar skýringar til? Tíðnihámarkið milli 1970 og 1980 er illskiljanlegt, en lágmarkið fyrstu árin gæti stafað af leka úr eldri athugunarlykli. Hann var í notkun á árunum 1929 til 1948. Svo vill til í honum táknuðu tölurnar 14, 15 og 16 ekki úrkomu í grennd:
14 Rosaveður, loftið svipað og í skúraveðri, en engin úrkoma á síðustu klukkustund
15 Hryðjur og éljagangur síðustu 3 stundirnar
16 Vatnsstrókar (kisur) hafa sést síðustu þrjár stundirnar
Kann að vera að sumum veðurathugunarmönnum hafi verið gömlu tölurnar tamar fyrstu árin eftir merkingarbreytinguna.
Einnig getur verið að leki hafi orðið á milli úrkomu í grennd og misturs - en mistri hefur fækkað að mun á þessu tímabili. Geta lesendur rifjað upp pistil hungurdiska frá 16. febrúar s.l.
En úrkoma í grennd var sérlega algeng í fyrra - stökkið frá 2010 til 2011 er trúlega aðeins að sýna eðlilegan breytileika frá ári til árs. Þegar mannaðar veðurathuganir hætta alveg styttir væntanlega upp í grennd - gagnaglámar finna þá eitthvað annað skrýtið og skemmtilegt í staðinn.
En fyrir alla muni tengið myndina ekki auknum gróðurhúsaáhrifum án þess að láta þess getið hvert líklegt orsakasamhengi sé.
25.4.2012 | 01:00
Af sólskini í apríl
Hér er fjallað um hámarkssólskinsstundafjölda í Reykjavík og á Akureyri í aprílmánuði. Sól hækkar nú mjög á lofti og daginn lengir. Upplýsingar eru við höndina um sólskinsstundir í Reykjavík alla daga allt aftur til 1923 og á Akureyri flesta daga aftur til 1949, en þó vantar upplýsingar þar í apríl 1950, 1951 og 1989. Mælingar hafa verið gerðar lengur á báðum stöðum en daglegar tölur hafa ekki verið settar inn í tölvutæka töflu.
Þótt reiknaður sólargangur (og þar með birtutími) sé lengri á Akureyri heldur en í Reykjavík í apríl sýna mælingar samt lægri tölur á fyrrnefnda staðnum. Þetta stafar af nálægð fjalla fyrir norðan. Fjöll stytta líka sólargang í Reykjavík. Þeir sólskinsmælar sem hafa verið notaðir mæla ekki mikið lengri sólskinsstundafjölda en 18 til 19 klukkustundir - því þeir skyggja á sjálfa sig komist sólin í nægilega norðlæga stöðu. Margt miður skemmtilegt getur spillt sólskinsmælingum - en við þykjumst ekki taka eftir því. Höfum þó í huga að mæliaðstæður hafa breyst á stöðunum báðum - stöðvar hafa verið fluttar um set og skráning hefur ekki verið nákvæmlega eins allan tímann.
Lárétti ásinn sýnir daga aprílmánaðar, en sá lóðrétti klukkustundir. Fyrstu daga mánaðarins er hámarkssólskinsstundafjöldi um 12 til 13 klukkustundir í Reykjavík en um 11 til 12 á Akureyri. Við verðum að trúa því að þessa daga hafi sólin skinið nánast allan þann tíma sem mögulegur er. Smáóregla frá degi til dags bendir þó til þess að gera megi aðeins betur þá daga sem lágt liggja.
Sólskinsstundum fjölgar jafnt og þétt eftir því sem á mánuðinn líður. Sé bein lína dregin í gegnum Reykjavíkurferilinn kemur í ljós að hámarkssólskinsstundafjöldi vex um rúmar 6 mínútur á dag, en um tæpar 8 mínútur á dag á Akureyri.
En heiðskírir dagar eru fáir á Íslandi - meira að segja í apríl. Séu skýjahuluathuganir í Reykjavík teknar bókstaflega hefur enginn alveg heiðskír dagur komið þar í apríl að minnsta kosti frá 1949. En þá er miðað við allan sólarhringinn - ekki bara þann tíma sem sól er á lofti. Nokkrir dagar voru nærri því heiðskírir - 21. og 22. apríl 1964, 2. apríl 1999 og 19. apríl 2000. Fimm dagar voru heiðskírir á Akureyri á sama tíma (þar skyggja fjöll ekki aðeins á sól heldur einnig á ský niður undir sjóndeildarhring).
Hversu margar yrðu sólskinsstundirnar ef heiðskírt væri alla daga aprílmánaðar? Í Reykjavík væru þær að minnsta kosti 422 en 385 á Akureyri. Við fáum vonandi aldrei að upplifa það - þá væri heimsendir líklega í nánd. En flestar hafa sólskinsstundirnar orðið 242,3 í apríl í Reykjavík. Það var árið 2000. Sól skein þá í um það bil 57% af þeim tíma sem hún var á lofti. Meðaltal aprílmánaðar er mun lægra, 140 stundir. Í apríl 2000 gerði einn lengsta samfellda sólskinskafla sem vitað er um í Reykjavík þegar sólin skein í meir en 10 klst 12 daga í röð dagana 14. - 25.
Sólskinskaflinn mikli byrjaði með sérkennilegu norðanskoti þann 14. apríl. Þá skemmdust m.a. 130 bílar af grjótfoki á Selfossi - eigendur þeirra hljóta að muna vel eftir því.
Á Akureyri var apríl 2000 einnig metsólskinsmánuður, þá mældust þar 196,3 sólskinsstundir, meðaltalið er 129,7.
Í algjöru framhjáhlaupi má geta þess að óvenju djúp lægð miðað við árstíma er nú suðvestur af Bretlandseyjum. Þrýstingur er undir 970 hPa í lægðarmiðju. Hungurdiskum hefur ekki tekist að finna nákvæmlega hvert apríllágmarkið er á þessum slóðum. Trúlega er eitthvað niður í aprílmet fyrir England eða Frakkland - en alla vega er þetta nokkuð óvenjulegt. Sömuleiðis er 500 hPa-hæðinni spáð niður fyrir 5160 metra í lægðamiðjunni - og það er ekki venjulegt í apríl á Ermarsundi.
Hér á landi fer þrýstingur niður fyrir 970 hPa í fjórða til fimmta hverjum aprílmánuði að meðaltali.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2012 | 01:10
Sumarkoma í heiðhvolfinu - nepjumánuður í jaðarlaginu?
Fyrir mánuði birtu hungurdiskar kort sem sýndi hæð og hita í 30 hPa-fletinum yfir norðurhveli. Áhugasamir lesendur voru beðnir um að leggja kortið á minnið - en ekki var ætlast til þess að nokkur gerði það. En nú lítum við á samskonar kort sem gildir á morgun, þriðjudaginn 24. apríl kl. 18.
Á kortinu fyrir mánuði mátti sjá gríðarmikið lægðarsvæði og umhverfis það var fjöldi jafnhæðarlína (12 voru þær). Lægðin var þó farin að láta á sjá miðað við það sem verið hafði fyrr í vetur. Á korti dagsins er lægðin varla til lengur - máttlítil hæð er kominn í stað hennar - en jafnhæðarlínur eru svo fáar að erfitt er að meta hvað er hæð og hvað lægð. Sú jafnhæðarlína sem næst er bókstafnum H sýnir 23900 metra.
Þetta er í rétt tæplega 24 kílómetra hæð frá jörðu - meir en tvöfalt hærra en farþegaflugvélar fljúga. Þrýstilandslagið er nærri því alveg flatt og vindur sáralítill. Litafletirnir sýna hita. Hlýjast er næst hæðinni, þar er frostið um -45 stig. Kaldast er yfir Mið-Asíu rúmlega -60 stig, þar er trúlega smávegis uppstreymi vegna hlýinda neðar.
Á næstunni mun hæðin heldur styrkjast. Venjulega sest hún að yfir Norður-Íshafi þar sem sól skín nú allan sólarhringinn og hitar mest óson sem aftur hitar aðrar loftsameindir með árekstrum við þær. Við það að hæð myndast fyrir norðan okkur snýst vindur til austurs í heiðhvolfinu í stað vestanáttarinnar sem ríkir meirihluta ársins.
Um þetta leyti dregur einnig úr vestanátt í veðrahvolfinu. Það sést greinilega í langtímameðaltölum en breytingartíminn er ekki jafn vel negldur niður og uppi í heiðhvolfi. Þá vex austan- og norðaustanátt að tíðni hér á landi. Tíminn frá því um 20. apríl og fram undir 20. maí er eiginlega sérstök árstíð, mánuðurinn harpa. Sumir segja að það þýði nepjumánuður. - Vel til fundið hjá forfeðrum okkar.
23.4.2012 | 01:03
Frekar kuldalegt
Í dag lítum við á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um 500/1000 hPa þykkt (heildregnar svartar línur) og 850 hPa hita (litakvarði). Þykktin er mælikvarði á hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Þykkt er oftast tilfærð í dekametrum (1 dam = 10 metrar) á kortum. Meðalþykkt í apríl hér við land er um 5280 metrar en 5340 metrar í maí. Munar 60 metrum.
Spákortið gildir kl. 18 mánudaginn 23. apríl. Ná má myndinni (og þar með tölunum) talsvert skýrari með því að tvísmella sig inn í hana. Sjá má að það er einmitt 528 dekametra jafnþykktarlínan sem er yfir landinu. Þykktin er því ekki fjarri meðallagi árstímans.
En á kortinu er ekkert hlýtt loft nærri, þykktin yfir Skotlandi er aðeins sjónarmun hærri en hér og litakvarðinn sýnir að hiti er alls staðar undir frostmarki í 850 hPa fletinum. Vestan við Grænland er svo ískyggilega kalt loft, -20 stiga frost er i 850 hPa og þykktin ekki nema 4980 metrar. Við höfum lauslega notað það viðmið að vetrarríki sé þar sem þykktin er minni en 5100 metrar (og sumarhiti þar sem hún er yfir 5460 metrum).
Aðeins hlýrra er yfir Norðaustur-Grænlandi heldur en vestan þess, en samt var -20 stiga frost í Scoresbysundi kl. 21 i kvöld (sunnudag).
Framtíðarspár eru óljósar eftir að kemur fram á miðvikudag. Eins og oftast ver Grænland okkur fyrir framsókn mesta kuldans úr vestri og við vonum að hann fari ekki að steypast yfir okkur úr norðri.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.7.): 47
- Sl. sólarhring: 209
- Sl. viku: 1843
- Frá upphafi: 2484723
Annað
- Innlit í dag: 43
- Innlit sl. viku: 1656
- Gestir í dag: 42
- IP-tölur í dag: 42
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010