Gagnaraðir þorna upp

Þegar hætt verður að athuga á mönnuðum veðurstöðvum þorna ýmsar gagnaraðir upp. Ef við leggjum vel við hlustir heyrum við kveinið úr framtíðinni. En lítið þýðir að fjasa um það - annað kemur í staðinn. Við lítum á hluta úr röð sem mun þorna upp á næstu árum. Veðurskeytaathuganir hafa verið gerðar eftir lítið breyttum lykli í rúm 60 ár. Árið 1982 voru gerðar smábreytingar á lyklinum - sumar til bölvunar og á síðustu árum hafa líka orðið lúmskar breytingar - en látum þau mál liggja á milli hluta.

Meinlegust fyrir framtíðina er fækkun sjónrænna athugana, t.d. á skyggni, skýjahæð og veðri. Vegna þess að að þessi atriði eru eins og nafnið bendir til nokkuð háðar mati einstakra athugunarmanna fylgir þeim talsverð óvissa. Komið er á móts við þessa óvissu með því að hafa athugunarmennina nógu marga. Skeytastöðvum hefur á undanförnum árum fækkað um rúmlega 40% - þær eru vonandi enn nægilega margar til að halda gagnaröðunum gangandi - en trúlega heldur áfram að fækka á næstu 5 til 10 árum.

Við skulum nú líta á tvær raðir - úr sama hluta veðurskeytisins, þeim hluta þar sem veðurathugunarmaðurinn fær að segja hvaða veður er hjá honum þegar athugun er gerð. Þetta er tíðni annars vegar misturs en hins vegar þoku á öllum gildistíma veðurlykilsins frá 1949. Lykilbreytingin það ár var mun meiri heldur en síðari breytingar - eldri lykill var að stofni til frá 1929 en var ekki víða notaður hér á landi fyrr en á árunum 1931 til 1935. Grunur leikur á að þessi eldri lykill hafi að einhverju leyti mengað þann yngri langt fram eftir sjötta áratugnum.

Það kemur í ljós að furðumiklar breytingar hafa átt sér stað í notkun talna sem standa fyrir mistur og þoku. Kannski eru breytingarnar að einhverju leyti skýranlegar með tískusveiflum - einhverri lensku - kannski ekki.

w-blogg160212a

Lárétti kvarðinn sýnir árin frá 1949 til 2011 en sá lóðrétti tíðni iðnaðarmisturs, þurramisturs og ryks í þúsundustuhlutum allra veðurathugana viðkomandi árs. Talan 10 táknar því að tíu þúsundustuhlutar eða 1 prósent allra veðurathugana ársins hafi greint frá mistri.

Þetta er auðvitað ótrúleg breyting. Á síðari árum er tíðnin yfirleitt í kringum 3 til 5 þúsundustu en var milli 1950 og 1960 yfirleitt á bilinu 12 til 16 þúsundustu - fækkun niður í þriðjung eða fjórðung á tímabilinu. Þeir sem muna vel hvernig veður var fyrir 50 til 60 árum vita vel að tilvikum mengunarmóðu frá Evrópu hefur í raun og veru fækkað að mun - þessi sértaka blámóða sem var svo algeng sést varla lengur.

Um og fyrir 1960 var farið að grípa til verulegra ráðstafana gegn iðnaðarmengun bæði vestanhafs og austan og alvarlegum mengunartilvikum fækkaði á þeim slóðum. Síðasta mikla banvæna Lundúnaþokan var í desember 1962. Þá urðu, að því er talið var, 1000 ótímabær dauðsföll vegna þokunnar. Nákvæmlega tíu árum áður gerði enn verri þoku. Þá voru umframdauðsföllin 5 til 12 þúsund að því er talið er. Þetta hefði auðvitað haldið áfram ef ekkert hefði verið að gert. Svipað ástand var einnig víða á meginlandi Evrópu og í iðnaðarsveitum vestra. Nú er mesta mengunin af þessu tagi langt frá okkur - í austur Asíu.

Það er athyglisvert að árin 2010 og 2011 hrekkur mistrið upp í um 10 þúsundustu - tvöfalt það sem annars hefur verið á síðustu árum. Varla er nokkur vafi því að hægt sé að kenna eldgosunum tveimur og öllu öskurykinu sem þeim fylgdi um þessa aukningu. Vonandi verður öskufokið minna í ár, 2012, en það kemur ekki í ljós fyrr en snjóa leysir í vor og sumar.

Þokan (næsta mynd) sýnir líka mikinn breytileika frá einu tímabili til annars.

w-blogg160212b

Þoku hefur greinilega fækkað á tímabilinu. Ekki er ótrúlegt að hin lága tíðni á allra síðustu árum sé tengd fækkun veðurstöðva - þeim hefur fækkað meira í útsveitum heldur en inn til landsins. Að öðru leyti á þokan yfirleitt á bilinu 7 til 12 þúsundustuhluta athugana. Mjög áberandi topp má sjá á hafísárunum svokölluðu 1965 til 1971. Sjávarkuldi var þá óvenjulegur við Norður- og Austurland að sumarlagi og loft niður undir sjó hefur verið mun stöðugra heldur en fyrr og síðar og þokan þar með meiri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mjög athyglisverðar upplýsingar sem hér koma fram. Eins og venjulega vakna ýmsar spurningar hjá þeim sem lítið vita. Í fyrsta lagi dettur mér í hug hvort það sé rangt sem ég hef á tilfinningunni, að síðustu tvo áratugina (ekki nákvæm skilgreining) hafi sunnan og suðaustlægar áttir orðið sjaldgæfari en áður? Mér finnst til dæmis að taka að það sé orðið mun sjaldgæfara nú orðið að það komi dagar, hvað þá margir dagar, að sumrinu til með svokölluðu "Akureyrarveðri", þ.e. sunnan þey með björtu en hlýju veðri?

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 16.2.2012 kl. 11:53

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Það er rétt Þorkell að lítið hefur borið á „Akureyrarveðrinu“, sem þú kallar svo, síðustu árin. En oft hefur verið langt á milli slíkra sumra norðanlands. Það ruglar okkur sem komnir eru yfir miðjan aldur dálítið í ríminu hversu algeng þau voru að tiltölu á tímabilinu 1974 til 1991 miðað við bæði fyrr og síðar á sama tíma og rigningasumur voru algeng hér syðra. En ég tek þetta e.t.v. fyrir síðar meir.

Trausti Jónsson, 17.2.2012 kl. 01:32

3 identicon

Takk fyrir þetta, Trausti. Mér var nefnilega að detta í hug hvort það gæti verið samhengi í þessum "skorti" á þessum vindáttum og færri misturdögum síðasta áratug - að frátöldu öskutímabilinu, sem hlýtur að vera afbrigðilegt.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 17.2.2012 kl. 06:25

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Ég held að vindáttarbreytingar skýri ekki þessa mistursrýrnun - en ég bara held það - veit ekki.

Trausti Jónsson, 18.2.2012 kl. 01:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 225
  • Sl. sólarhring: 235
  • Sl. viku: 2050
  • Frá upphafi: 2350786

Annað

  • Innlit í dag: 207
  • Innlit sl. viku: 1835
  • Gestir í dag: 201
  • IP-tölur í dag: 200

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband