Umhleypingar í nokkra daga?

Það er hollt að líta yfir norðurhvelið endrum og sinnum. Stóri-Boli er enn að veltast um - en angrar okkur vonandi ekki. Hins vegar eru bylgjurnar í vestanvindabeltinu mjög háreistar og valda afbrigðum í veðurlagi þar sem þær sitja.

w-blogg270412

Kortið sýnir 500 hPa-hæð í dekametrum (svartar, heildregnar línur) og þykkt, einnig í dekametrum (litafletir), eins og evrópureiknimiðstöðin spáir á laugardaginn kemur (28. apríl) kl. 18 síðdegis. Hægt er að smella sig inn á talsvert skýrara eintak af myndinni og er mælt með því.

Nú má fara að fylgjast með fækkun jafnhæðarlína á norðurslóðum. Innsta línan sem sést (örsmár hringur við Thúle á Grænlandi) sýnir 5040 metra, en á laugardaginn eftir viku finnur spáin lægst 5160 metra jafnhæðarlínu - ekki er víst að svo fari, en stórt skref í átt til sumars sé rétt spáð.

Lítil fjólublá klessa (Stóri-Boli) er einnig við Thúle, þar er þykktin neðan við 4920 metra og veturinn í fullu veldi. Við sjáum að lág þykkt liggur í rennu suður um Bretlandseyjar og gæti snjóað langt niður í hlíðar í Skotlandi og N-Englandi um helgina. Reiknimiðstöðin gerir einnig ráð fyrir úrhellisrigningu og hvassviðri við suðurströnd Englands - en amerískir reikningar gera minna úr því.

Miklar rigningar verða einnig viðloðandi sunnar í lægðardraginu. Snarpar lægðarbeygjur valda nær alltaf mikilli úrkomu í Suður-Evrópu. Austan við lægðardragið er hins vegar mikil sunnanátt. Hún á að valda óvenjulegum hlýindum í Þýskalandi, Póllandi og jafnvel austar um helgina og upp úr henni. Þykktin á að komast upp fyrir 5640 metra þegar best lætur - það er með því hæsta sem gerist í apríllok. Hlýindin eiga einnig að ná til Danmerkur, en varla þó með metum.

Vestur í Ameríku er gríðarleg hitabylgja nýlega gengin yfir suðvesturríki Bandaríkjanna - en er búin að gefa eftir á þessu korti. Þykktin fór upp undir 5800 metra þegar mest var en það er óvenjulegt.

Snörp lægðarbylgja er rétt vestan við land á kortinu. Hún veldur talsverðri rigningu vestanlands á laugardaginn - ekki veitir víst af eftir þurrkinn að undanförnu. Á sunnudaginn verður hún komin hjá og dálítill hæðarhryggur tekinn við. Hvað gerist á eftir honum er ekki mjög greinilegt en yfir okkur verður þó væntanlega nokkuð sterk vestsuðvestanátt ríkjandi í háloftunum. Þá gæti sumarloft (Þykkt meiri en 5460 metrar) komist um tíma til landsins (helst á mánudag) - en það nýtist varla vel á sinni hraðferð, með skýjahulu í farteskinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg101124c
  • w-blogg101124b
  • w-blogg101124a
  • w-blogg081124d
  • w-blogg081124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.11.): 206
  • Sl. sólarhring: 457
  • Sl. viku: 1695
  • Frá upphafi: 2409126

Annað

  • Innlit í dag: 191
  • Innlit sl. viku: 1518
  • Gestir í dag: 190
  • IP-tölur í dag: 188

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband