Spákort sem sýna þykktarbreytingar

Það er  hálf klúðurslegt að nota fjögur orð þar sem komast má af með eitt. Hér er vísað í fyrirsögn pistilsins - hún kemst þó nærri því að vera skiljanleg. Orðið eina er hins vegar þetta: Þykktarhneigðarkort. Hefði einhver skilið þá fyrirsögn? Við lítum á eitt kort af þessu tagi.

w-blogg091212

Reyndar er margt sýnt á kortinu, en það gildir um hádegi á mánudag, 10. desember. Svörtu heildregnu línurnar eru jafnþrýstilínur við sjávarmál og eru algengastar allra lína á veðurkortum. Þykktin er sýnd með daufum rauðleitum strikalínum. Sé kortið stækkað má sjá að 5340 metra jafnþykktarlínan þverar Ísland. Hefðbundnar vindörvar sýna vindstefnu og hraða í 700 hPa-fletinum. Við sjáum að í öllum aðalatriðum fylgja þær jafnþrýstilínunum - þó bregður út af vegna þess að 700 hPa-flöturinn er í um 3 km hæð frá jörðu.

En þykktarbreytingar eru aðalatriði kortsins og eru sýndar með breytilegum litaflötum. Hér er miðað við síðustu 6 klukkustundir. Bláu litirnir sýna þau svæði þar sem þykktin hefur minnkað mest - þar hefur loftið kólnað umtalsvert, en þau gulu og brúnu sýna vaxandi þykkt - þar hefur hlýnað.

Mest áberandi er gusa af köldu lofti sem streymir til austurs út á Atlantshaf frá Kanada. Sé kortið stækkað má sjá töluna 23,1 í miðju bláa svæðinu. Þetta er ansi há tala - þykktin hefur fallið um 231 metra á 6 klst - jafngildir nærri 12 stiga kólnun að meðaltali í neðri hluta veðrahvolfs. Á næstu dögum mun sjórinn hita þetta loft þar til jafnvægi næst milli sjávar- og lofthita. Það tekur nokkra daga - sérstaklega vegna þess að gusan fer smám saman yfir hlýrri og hlýrri sjó.

Talsvert hefur hlýnað yfir Grænlandi síðustu 6 klukkustundir spárinnar en hér við land er þykktarhneigðin minni en 30 metrar (ekki litarhæfar á litamáli kortsins). Sé farið í saumana á afstöðu vindörva og jafnþykktarlína má þó sjá að vindurinn er að bera meiri þykkt inn yfir landið úr suðvestri, en hún hefur ekki aukist nægilega til þess að fá á sig lit. Tuttugu metrar samsvara um einu stigi.

Það er ekkert úrslitaatriði að miðað sé við 6 klst þykktarhneigð á kortinu - það gæti rétt eins verið sólarhringur eða eitthvað annað.

En á mánudaginn er sum sé spáð heldur hlýnandi veðri. Aðstreymið á þó í mikilli samkeppni við miskunnarlausa útgeislun í björtu veðri. Staðan á að haldast svipuð næstu daga en lægðasvæðið á þó að styrkjast eftir því sem á líður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020524b
  • w-blogg020524a
  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 70
  • Sl. sólarhring: 163
  • Sl. viku: 579
  • Frá upphafi: 2351370

Annað

  • Innlit í dag: 60
  • Innlit sl. viku: 497
  • Gestir í dag: 59
  • IP-tölur í dag: 58

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband