Enn í verndarhringnum

Eins og kom fram í pistli á hungurdiskum í gær ræður risastór lægð suður í hafi veðri á öllu Atlantshafi norðanverðu og gerir það næstu daga. Sá hluti skilakerfis hennar sem liggur norðan lægðarmiðunnar nær þó trauðla til landsins því vindar blása að mestu samsíða því. En meira er að gerast sunnan og austan í lægðinni þar sem kalt loft frá Kanada nær að skafa upp hlýrra loft úr suðri og senda í átt til Bretlandseyja og síðar meginlands Evrópu.

Hér á landi er að mestu meinlaust veður - en ansi kalt þó inn til landsins í hægu bjartviðri. En svipaðar lægðir og þessi valda oft illviðrum hér á landi - en þurfa þá að ná í heimskautaloft úr norðri til að búa til þann þykktarbratta sem nauðsynlegur er til að keyra upp vindinn. Háloftahlýindi fyrir norðan land koma í veg fyrir að það verði í bili að minnsta kosti. Við lítum á spá um 500 hPa hæð og þykkt sem gildir um hádegi á föstudag (14. desember).

w-blogg131212

Ef vel er að gáð má sjá Ísland fyrir neðan miðja mynd. Skandinavía ætti einnig að sjást sæmilega á myndinni. Annars er táknmálið hefðbundið, jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar en þykktin sýnd með litum. Mörkin á milli grænu og bláu svæðanna er við 5280 metra - Ísland er rétt inni í bláu og er ekki fjarri meðallagi árstímans.

Allmikil - en þó minnkandi fyrirstöðuhæð er yfir Grænlandi og önnur öflugri við norðurströnd Rússlands. Kuldapollurinn ægilegi er með miðju ekki fjarri norðurpólnum, þar er þykktin í miðju rétt neðan við 4800 metra - veturinn er ekki alveg í fullum styrk í dag - en lægsta lágmark norðurhvelsins er nokkuð breytilegt frá degi til dags. Í sameiningu halda hæðirnar tvær kaldasta loftinu alveg í skefjum og hjálpar lægðin hlýja suður undan til. Segja má að við séum umlukin verndarhring.

En nokkrar hræringar eru innan hringsins. Þar er veikur kuldapollur, miðja hans er yfir Skandinavíu og mun hluti hans sleppa út norður í gegnum verndarhringinn sem þó lokast aftur. Annar hluti beyglast til vesturs í átt til okkar þegar hlýja loftið sem sjá má yfir Ermarsundi og nágrenni þrýstir sér til norðnorðausturs - eins og rauða örin á að sýna.

Við þetta skýst hluti kalda loftsins í mjóum fleyg til vesturs yfir Ísland - fleygurinn er mjór m.a. vegna þess að hlýindin yfir Grænlandi halda á móti. Kaldasta loftið á að fara hér hjá á laugardag - en það er ekkert sérlega kalt, þykktin fer e.t.v. niður í 5180 metra eða þar um bil - vel sloppið.

Fleygurinn sést enn betur á veðrahvarfakortinu hér að neðan (kortið er ekki fyrir viðkvæma).

w-blogg131212b

Ísland er nærri miðri mynd og Bretlandseyjar ættu að sjást þar neðar til hægri. Þetta kort verður skýrara við stækkun heldur en það fyrra. Hlýja loftið er komið lengra norður á bóginn við veðrahvörf heldur en í 500 hPa. Þrýstingur á gulu og grænu svæðunum er á milli 200 og 250 hPa en nærri 300 á bláu svæðunum. Tölur og litakvarði eiga við mættishita, en hann er því hærri sem veðrahvörfin eru ofar. Tölur eru í Kelvingráðum - en við höfum engar áhyggjur af því - dáumst frekar að formunum.

Hér má (með smávegis ímyndunarafli) sjá kalda loftið (bláa svæðið) í þrenglum á milli hlýju skjaldanna í norðri og suðri. Þar sem kalt og hlýtt loft mætast eru dökkbláar rendur - þar sveigjast veðrahvörfin niður við áreksturinn og kalda loftið fleygast undir það hlýja - fyrirstaðan er minni neðan til í veðrahvolfinu. Í botni sveigjunnar segir reiknimiðstöðin að veðrahvörfin nái niður í 600 hPa - eða um 4 km hæð.

Á efri myndinni (500 hPa-kortinu) má sjá að Ísland er í greinilegri hæðarbeygju en hún er oftast merki um niðurstreymi. Þegar kuldafleygurinn kemur til landsins skiptir um beygju, loft verður þá óstöðugra og úrkomulíkur aukast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 9
  • Sl. sólarhring: 106
  • Sl. viku: 1500
  • Frá upphafi: 2348745

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 1306
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband