Risastór lægð

Risastór lægð er nú yfir Atlantshafi frá Labrador í vestri og ná áhrif hennar austur til Þýskalands, nærri suður til Madeira og norður fyrir Jan Mayen. Við lítum á spákort sem gildir um hádegi á fimmtudag.

Þegar ritstjórinn var yngri og vildi hafa fútt í hlutunum fylltist hann ákveðinni mæðu við að horfa á lægðir af þessu tagi - þeim fylgdi fyrirsjáanlegt tíðindaleysi dag eftir dag. Allar veðurfréttir byrjuðu á pistlinum: „Víðáttumikið og hægfara lægðasvæði er langt suður í hafi. Suðvesturland til Breiðafjarðar og Suðvesturmið til Breiðafjarðarmiða: Austan kaldi eða stinningskaldi, léttskýjað með köflum“. Nú er allt orðið með öðrum brag og sami ritstjóri harla ánægður - enda er nú hægt að drekkja sér í allskonar smáatriðum í veðurkortunum. Eins og roskin veðurnörd átta sig á var þetta fyrir spásvæðabreytinguna miklu fyrir rúmum 30 árum.

w-blogg121212

Hér má sjá þrýsting við sjávarmál eins og evrópureiknimiðstöðin spáir honum um hádegi á fimmtudag (13.12. 2012). Við sjáum úrkomusvæði hringa sig í kringum risavaxna lægðarmiðjuna. Flestallt virðist í læstri stöðu. En þó ekki allt.

Punktalínur á kortinu sýna hita í 850 hPa-fletinum og ef rýnt er í þær (stækkið kortið) má sjá að talsvert og ákveðið aðstreymi af köldu lofti er frá Labrador og langt austur á Atlantshafi - þessi straumur tekur þátt í því að hnika lægðinni austur á bóginn næstu daga. Kalda loftið skefur líka upp sneiðar af hlýrra lofti úr suðri og býr þar með til minniháttar lægðabylgjur.

Ein af þeim er nú við Landsendahöfða á Norðvestur-Spáni og stefnir inn á Evrópu. Önnur er að verða til rétt austan við þar sem bláa örin endar á kortinu og mun lenda á ívið norðlægari braut en sú fyrri. Gæti hún eða einhver ómynduð valdið leiðindaveðri og trúlega hláku í Danmörku eða Suður-Noregi undir helgina. Spá dagsins nefnir þann möguleika að rusl úr henni komi hér við sögu enn síðar - en allt of snemmt er að tala um það. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Það sem mér finnst oft vanta inn á svona myndir; það er að þið reynið að áætla stefnu lægðarmiðjunnar eins og um fellibyl væri um að ræða og þess vegna að setja einhverskonar tímasetningar inn á kortið> Hvar er núverandi miðja lægðarinnar og hvar mun miðjan vera eftir 3 daga?

http://www.hurricanesoftware.com/MoreImages.aspx

Jón Þórhallsson, 12.12.2012 kl. 10:31

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Jú, það væri sjálfsagt skýrara og til eftirbreytni - en í þessu ákveðna tilviki er um litla hreyfingu að ræða. Annars er hringrás fellibylja oftast mun langlífari heldur en hringrás lægða - sem sífellt endurnýjast af nýjum - koll af kolli. Fellibyljir liggja þannig mun betur sem fréttaefni.

Trausti Jónsson, 13.12.2012 kl. 01:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 91
  • Sl. sólarhring: 269
  • Sl. viku: 1665
  • Frá upphafi: 2350292

Annað

  • Innlit í dag: 56
  • Innlit sl. viku: 1505
  • Gestir í dag: 55
  • IP-tölur í dag: 54

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband