Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Lægðin hörfar

Nú (seint á mánudagskvöldi) er vindur að snúast til norðurs á landinu því lægðin hörfar til austurs. Hæðarhryggurinn sem fjallað var um í pistlinum í gær leitar á. Við lítum á tvær hitamyndir af svæðinu. Sú fyrri er frá því kl. 1 síðastliðna nótt og sýnir hvernig óstöðugt kalt loft hefur breiðst út yfir Atlantshaf allt frá Kanada í vestri og alla leið til Bretlandseyja.

w-blogg050213a

Útlínur landa eru markaðar með grænum línum. Ísland er ofan við miðja mynd. Þarna er lægðarmiðjan rétt suður eða suðaustur af landinu. Kringum hana hringast skýjabaugur sem er hér farinn að tætast nokkuð. Skemmtilegasta atriði myndarinnar er að hún sýnir vel hvernig lagður flákaskýja myndast í vestanáttinni við strönd Labrador, verður smám saman ljósari og gisnari eftir því sem austar dregur og myndar bólstra og síðan éljaklakka. Mikið uppstreymi er í skýjunum, en niðurstreymi í eyðunum á milli þeirra. Ef grannt er skoðað má sjá hvítan strók rísa upp við Pennínafjöll á Englandi. Þar minna aðstæður oft á Snæfellsnes - þegar gríðarleg vestanátt er á hákambi fjallanna og steypist niður í byggðir austanmegin.

Á mynd frá kl. 22 hefur staðan breyst nokkuð.

w-blogg050213b

Nýtt kerfi úr vestri hefur rutt sér leið inn á svæðið. Aðeins lítill hluti klakkasvæðisins er enn virkur (merktur með B). Élin á heiðum Skotlands og N-Englands hljóta að vera slæm. Lægðin er orðin mun tættari en þó má taka eftir skýjatrossunni sem merkt er C. D bendir á bilið milli kerfanna og A sýnir skarpan jaðar þess.

Næst koma tvö kort - ætluð nördunum - aðrir geta látið þau vera. Þau hafa sést áður á hungurdiskum, en við skulum ekki hafa áhyggjur af merkingunni í smáatriðum - en taka því betur eftir formunum.

w-blogg050213c

Kortin sýna stærra svæði en gervihnattamyndirnar. Bókstafirnir eru settir nokkurn veginn á sömu staði og á myndinni að ofan. Litirnir sýna mættishita í veðrahvörfum í Kelvinstigum (sjá kvarðann til hægri - hann batnar við stækkun). Bláir litir sýna lágan mættishita (lág veðrahvörf) á gulu og brúnu svæðunum eru veðrahvörfin há. Loft er að jafnaði óstöðugt á bláum svæðum, en stöðugt á gulum.

Flest hin merkari atriði myndarinnar sjást á þessu korti. Éljasvæðið (B) er blátt, skýjatrossan (C) við lægðina kemur fram sem grænn litur. Hærri heldur en bláu litirnir í lægðarmiðjunni sjálfri. Hlýja loftið úr nýja kerfinu við A-sem á efri mynd sýndi jaðar skýjakerfisins kemur fram hér sem skörp brún og er að ryðja lægri veðrahvörfum (D) upp.

Við lítum á þessa brún á síðustu myndinni. Hún sýnir vind í 300 hPa-hæð (um 8,5 til 9,5 km) sem venjulegar vindörvar. Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar. Litafletirnir sýna breytingu á vindi næstu þrjár klukkustundir í spásyrpunni.

w-blogg050213d

Hér sést kerfisbrúnin sérlega vel, hún er að ryðjast til austurs, mest er vindhraðaaukningin á fjólubláa svæðinu, meiri en 35 m/s. Loftið streymir ekki aðeins með vindi meðfram jafnhæðarlínunum heldur gengur kerfið allt jafnframt til austurs. Þarna er heimskautaröstin að skransa í krappri beygju og spænir upp veðrahvörfunum á vinstri hönd. Flug reynir að forðast svæði af þessu tagi eins og hægt er. Sé rýnt í smáatriði veðrahvarfakortsins að ofan má sjá lítill brúnan blett rétt innan við meginjaðar beygjunnar. Þar má sjá töluna 355 K - mun hærri heldur en litirnir umhverfis sýna. Hér gæti verið um bylgjubrot að ræða - en líkani og raunveruleika ber alls ekki endilega saman hvað smáatriði sem þetta varðar.


Aðeins tvö

Síðasta stóra bylgja vestanvindakerfisins bar aðeins með sér tvö lægðakerfi til landsins. Það fyrra fór yfir á laugardag og það síðara er í líki krapprar lægðar við Suðurströndina þegar þetta er skrifað (seint á sunnudagskvöld 3. febrúar).

Næsta bylgja rís hátt - eins og þær flestar hafa gert nú um alllanga hríð. Lítum á hana á norðurhvelskorti.

w-blogg040213

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) eins og evrópureiknimiðstöðin sýnir á þriðjudagshádegi (5. febrúar). Ísland sést rétt neðan við miðju kortsins - sem batnar að mun við stækkun. Vindur fylgja jafnhæðarlínum og er því meiri eftir því sem þær eru þéttari. Mikil norðvestanhryðja er þarna að ganga til suðausturs yfir Bretlandseyjar. Lægðakerfið yfir Skandinavíu situr á afgangi sunnudagslægðar okkar.

Litafletir sýna þykktina (í dekametrum) - loftið er því hlýrra eftir því sem hún er meiri. Mörk á milli grænu og bláu flatanna er sett við 528 dam (= 5280 metrar). Meðalþykkt janúarmánaðar yfir miðju Íslandi var 5296 metrar og nægði það til að koma mánuðinum í hóp þeirra hlýjustu.

Kuldapollurinn mikli yfir Kanada (Stóri-Boli) skefur upp hverja bylgjuna á fætur annarri. Þótt hann sé illilegur eru fjólubláu litatónarnir ekki nema þrír að þessu sinni - kuldinn nær ekki niður í það sem ritstjórinn hefur oft nefnt ísaldarþykkt - neðan við 4740 metra.  

Bylgjan sem stefnir til okkar er auðkennd með rauðri punktalínu og fer hér yfir á aðfaranótt miðvikudags. Þá fylgir fyrsta úrkomukerfi nýju lægðarbylgjunnar á eftir - á miðvikudagskvöld eða á fimmtudag.

Vestanáttin á enn erfitt. Austanáttin þráláta hefur þó verið að snúa sér. Hún var af norðaustri í október og nóvember, háaustri í desember og austsuðaustri í janúar. Í háloftunum var meðalvindátt í janúar nærri því úr hásuðri. Þegar vindur snýst úr austri í suður með hæð er aðstreymið hlýtt - enda var janúar mjög hlýr eins og áður sagði.


Fer fyrir sunnan land

Kröpp lægð kemur að landinu síðdegis á sunnudag (3. febrúar). Tölvuspár virðast hafa neglt niður braut hennar rétt fyrir sunnan land. Er það vel. Við sleppum þar með við versta veðrið -vestanfárviðrið sunnan við lægðarmiðjuna. Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um vindhraða og vindátt í 100 metra hæð yfir jörð kl. 18 síðdegis á sunnudag.

w-blogg030213

Litafletirnir sýna vindhraðann en örvar stefnu hans. Jafnhraðalínur áætlaðra vindhviða eru dregnar með hvítu og eiga tölurnar í hvítu kössunum við þær. Talan í gula kassanum sýnir hámarksvindhviðu. Myndin batnar talsvert við stækkun.  

Lægðarmiðjan er merkt með bókstafnum L. Hún er þarna  um 955 hPa djúp á hraðri leið til austurs rétt undan Suðurlandi, en meginvindstrengurinn er nokkru sunnar. Brúni liturinn byrjar við 36 m/s (10-mínútna meðaltal) og í honum miðjum má sá bleikfjólubláan blett þar sem vindhraðinn er 44 m/s eða meir. Það væri ekkert grín að fá streng af þessu tagi upp að strönd.

Guli kassinn litli sýnir að reiknuð hámarkshviða er 51 m/s - en enginn veit hvort líkön reikna slíkar hviður rétt.

En þrátt fyrir að braut lægðarinnar verði sennilega eins og spáin sýnir er talsverð óvissa varðandi úrkomuna sem fylgir um allt landið sunnanvert - og þar með veðrið. Reiknimiðstöðvar greinir á um úrkomutegund og magn. Að sjálfsögðu snjóar á fjöllum - þar gerir blindbyl um tíma en það gæti líka snjóað á láglendi, bæði á Suðvestur- og Suðausturlandi. Leiðindaveður sem rétt er að forðast. Sömuleiðis er enn óvissa um hvort úrkoma verður enn viðloðandi þegar vindur snýst um stund til norðvesturs á Suðvesturlandi eftir að lægðarmiðjan er komin hjá. Síðan snýst vindur til norðurs og snjóar þá væntanlega nyrðra.

En ferðamenn og -liðar ættu að fylgjast með alvöruveðurspám.


Vestanátt í sólarhring - eða tæplega það?

Að morgni laugardags (2. febrúar) fer úrkomusvæði til austurs yfir landið. Aðallægðin er hins vegar vestan Grænlands, harla djúp í dag, föstudag, rétt rúmlega 940 hPa samkvæmt greiningum tölvusetra. Úrkomusvæðinu fylgir hvöss sunnanátt með slyddu og rigningu en á eftir því er suðvestan- og vestanátt sem lítið hefur sést af hérlendis í vetur til þessa. Veðurkortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 síðdegis á laugardag.

w-blogg020213

Veðurkortavanir lesendur sjá strax að hér er úrkomusvæðið komið langleiðina austur af landinu og einnig að þrýstilínur eru fáar og gisnar á eftir því. Vestanáttin er sum sé býsna lin. Illileg og dýpkandi lægð austur af Nýfundnalandi þrýstir á dálítinn hæðarhrygg á undan sér. Þegar hann nálgast þéttast þrýstilínur vestanáttarinnar og vind herðir. Við sjáum líka að það er -5 stiga jafnhitalína 850 hPa-flatarins sem er við vesturströnd Íslands á leið austur. Hún er í þumalputtafræðum talin segja til um skil á milli rigningar og snjókomu. Élin eru því alla vega ekki langt vestur undan - kannski komin þegar staða kortsins er uppi. En vestanáttin fær alla vega eina nótt í þetta sinn.  

Nóttin er varla liðin þegar áhrifa lægðarinnar við Nýfundnaland fer að gæta. Hún á að fara alla leiðina sem rauða örin sýnir á einum sólarhring - fram til kl.18 á sunnudag. Allar spár gera ráð fyrir því að hún fari rétt sunnan við land - og því skilar vestanátt hennar sér varla til Íslands - en norðanátt fylgir í kjölfarið.

Lægðin er býsna grimm - fárviðri er spáð af vestri sunnan við lægðarmiðjuna þegar hún fer framhjá Íslandi. Úrkomuhaus hennar fer hins vegar yfir landið og á þessu stigi málsins er harla óljóst hvort um snjókomu eða rigningu verður að ræða á láglendi, þá í austlægri átt. Til fjalla snjóar örugglega. Ferðalangar fylgist með spám um veðrið síðdegis á sunnudag og áfram.  

Lægðum af þessu tagi fylgir stundum úrkomubakki sem gengur til vestnorðvesturs eða norðvesturs frá lægðarmiðjunni - oftast dreginn sem samskil (æ) á kort. Sunnan svona bakka er vestanáttin oft furðustríð og hríðargjörn. Fyrsta vonin nú er að hann myndist ekki - en til vara - ef hann myndast, að hann haldi sig alfarið fyrir sunnan land.

Svarta örin á myndinni bendir á umfjöllunarefni gærdagsins (fjallastíflur). Þar má sjá afarþéttar þrýstilínur við Alpafjöll sem stífla að mestu rás kaldara lofts að norðan suður til Ítalíu. Þessi staða er svo algeng að maður tekur ekki nema stundum eftir henni.


Fjallgarðar eru fyrirstaða - líka í dag

Fjallgarðar hafa mikil áhrif á veðurfar bæði staðbundið og á heimsvísu. Mest áhrif hafa þeir sem liggja frá norðri til suðurs þvert á vestanvindabeltið. Loft í neðri lögum lofthjúpsins fer trauðla eða alls ekki framhjá hindruninni og það sem ofar liggur truflast verulega í framrás sinni - því meira eftir því sem lóðréttur stöðugleiki loftsins er meiri.

Hér á landi hefur Grænland mest áhrif allra fjallgarða eins og iðulega hefur verið fjallað um á hungurdiskum. Áhrif fjarlægari fjalla eru einnig mikil sérstaklega hefur garðurinn mikli sem liggur um Norður-Ameríku vestanverða og við köllum oftast Klettafjöll mikil áhrif hér á landi. Þau stífla framrás sjávarlofts frá Kyrrahafi til austurs um álfuna auk þess að styrkja að mun mikið háloftalægðardrag sem liggur meirihluta ársins til suðurs um meginlandið austanvert. Háloftavestanáttin sem verður til við hitamun heimskautasvæða og jaðars hitabeltisins aflagast þannig að mun við að fara yfir fjallgarðinn.

Lægðardrag þetta veldur því að sunnanátt yfir Atlantshafi er mun meiri en ella væri. Bæði Evrópa og Ísland njóta góðs af.

Í dag (fimmtudaginn 31. janúar) sáust stífluáhrif Klettafjallanna í neðri lögum mjög vel á korti frá evrópureiknimiðstöðinni.

w-blogg010213a

Kortinu hefur verið snúið miðað við það sem venjulegt er hér á hungurdiskum. Norður-Ameríka er á miðri mynd. Örvar benda á Suður-Grænland og Flórídaskaga til auðkennis en ef vel er að gáð má sjá útlínur meginlands N-Ameríku og nágrennis á myndinni. Hún batnar ekki mjög við stækkun.

Jafnþrýstilínur (við sjávarmál) eru heildregnar - 20. hver lína er þykkdregin. Litakvarðinn sýnir hita í 850 hpa. Fjólublái liturinn sýnir þau svæði þar sem frostið er meira en -25 stig. Dekksti brúni liturinn við vesturströnd Mexíkó sýnir svæði þar sem hiti í 850 hPa er meiri en +20 stig - ekki mikill vetur þar þessa dagana.

Vel sést hvernig Klettafjöllin skilja að hlýtt Kyrrahafsloftið og ískalt meginlandsloft undir kuldapollinum Stóra-Bola. Stíflan sést alveg sunnan frá Mexíkó og norður til Alaska. Kalda loftið er á suðurleið, jafnþrýstilínur (sem sýna vindátt og vindstefnu) liggja nokkuð þvert á jafnhitalínurnar. Mikil lægð er yfir Nýfundnalandi, stefnir til norðurs vestan Grænlands og sendir okkur afurðir strax á föstudagskvöld (1. febrúar). Þessi lægð bjó til grimma skýstrokka í Georgíufylki og víðar á leið sinni. - Enn ein sprengilægðin - og þær verða fleiri.


Enn af ofviðrametingi

Þótt veðurlag hafi lengst af verið allgott í vetur hefur líka gert nokkur illviðri sem tekið var eftir. Við skulum nú láta þau metast. Hér er aðeins litið á einn mælikvarða - meðalvindhraða á öllum sjálfvirkum veðurstöðvum landsins.

Punktur er settur á línuritið á klukkustundarfresti alla daga frá og með 1. október til og með 30. janúar.

w-blogg310113

Landsmeðalvindhraði er á lóðrétta ásnum, en tíminn á þeim lárétta. Lóðréttu strikalínurnar marka viku - auk þess eru mánaðamótin þrenn mörkuð á sama hátt. Hér telst veður því verra eftir því sem það nær hærri meðalvindhraða. Nú verður að taka fram að illviðrið undanfarna daga hefur ekki verið villuhreinsað - fáeinir vindhraðamælar gengu af vitinu og gætu hafa hækkað gildin lítillega - en það kemur í ljós síðar. 

Veðrið í byrjun nóvember er það versta á tímabilinu. Það stóð lengi. Veðrið síðustu daga nær líka hátt og stóð líka lengi. Hríðarveðrið mikla rétt fyrir áramótin skorar einnig hátt en þess gætti aðeins á hluta landsins.

Annar mælikvarði sem ritstjórinn notar gjarnan er hversu hátt hlutfall stöðva mælir meir en 17 m/s sömu klukkustundina. Línurit sem sýnir það er furðusvipað (ekki sýnt hér). Myndin að neðan ber þessa tvo mælikvarða saman.

w-blogg310113b

Hér sýnir lárétti ásinn meðalvindhraðann, en sá lóðrétti stöðvahlutfallið. Efstu punktarnir sýna tæplega 18 m/s meðalvindhraða og um 60% hlutfall. Sjá má að nánast er sama hvor metingsaðferðin er notuð - röð verstu veðra verður svipuð. Eftir því sem landsmeðalvindhraðinn vex því líklegra er það að einhvers staðar verði svo hvasst að tjón eigi sér stað.

Nú geta áhugasamir borið meðalvindhraðamyndina hér að ofan saman við ámóta mynd sem birtist í pistli á vef Veðurstofunnar í febrúar 2008  og átti við mánuðina næst þar á undan.


Hreinsað frá - en aðeins skamma stund

Undanfarnir tíu dagar hafa verið stórgerðir á Norður-Atlantshafi - kuldapollurinn sem við höfum kallað Stóra-Bola ruddist út yfir Atlantshaf og hristi þar upp þrjár ofurdýpkandi lægðir og nokkrar í viðbót sem falla í ameríska lægðasprengiflokkinn. Í þeim flokki eru þær sem dýpka um að minnsta kosti 24 hPa á einum sólarhring. En nú virðast kynslóðaskipti framundan hjá kuldapollum og sá næsti tekur við völdum yfir heimskautaslóðum Kanada og veifar skönkum í átt til okkar. En fyrst er að hreinsa upp leifarnar af þeim gamla.

Ísland var ekki í lægðabrautinni þessa grófgerðu daga heldur fóru lægðirnar alllangt fyrir sunnan land. Þær voru djúpar og veittu lofti að norðan möguleika á að blanda sér í leikinn - þótt það loft hafi ekki verið beinlínis tengt lægðunum.

Úr þessu varð mjög hvöss austnorðaustanátt sem er erfið að því leyti að illa greinir á milli úrkomubakka og veðurkerfa. Tölvuspár og ratsjár hjálpa þó mjög miðað við það sem áður var. Úrkoma hefur verið sérlega mikil í hafáttinni á Austurlandi og margir staðir á Vesturlandi, á Vestfjörðum og nyrðra hafa fengið að kenna á vindstrengjum austnorðaustanáttarinnar. Að jafnaði varð hvassast á laugardagskvöld, en síðan hefur klukkustundarmeðalvindhraði á landinu öllu lengst af legið á bilinu 12 til 13 m/s, en er nú þegar þetta er skrifað að detta niður fyrir 10 m/s. Vonandi lægir meira til morguns (miðvikudags).

En lítum á spákort frá evrópureiknimiðstöðinni sem gildir síðdegis á miðvikudag.

w-blogg300113a 


Lægðin við vesturströnd Noregs veldur þar miklu hvassviðri og úrkomu eftir að hafa tekið á Skotum svo um munaði. Eftir sitja síðustu leifar kuldapollsins fyrir suðvestan land og fara til suðausturs og austurs. Taka má eftir úrkomulinda á milli lægðarinnar við Noreg og köldu leifanna. Spurning hversu nærgöngul úrkoman verður Suðvesturlandi um það leyti sem kortið gildir. Snjóar þá?

Rauða örin bendir á síðustu sprengilægð syrpunnar - ef hún þá verður það. Hún er rétt sunnan við kortið og er spáð yfir sunnanvert Bretland síðdegis á föstudag og sýnir kortið að neðan þá stöðu.

w-blogg300113b

Örin bendir enn á lægðina sem hér er gríðarkröpp - bandaríska veðurstofan er linari á því. En á kortinu er Ísland í hæðarhrygg sem þokast austur á bóginn.

Nýtt lægðasvæði er vestan Grænlands, gríðardjúpt og víðáttumikið, 940 hPa í miðju. Úrkomu- og skilakerfi lægðarinnar fellur mjög vel að því sem kennslubækur sýndu á árum áður - eitthvað hreint og klárt við þetta kerfi. Spurning hvort hér verður á ferð kennslubókaruppgangur skýja samfara kerfinu. Það á að brotna á suðurodda Grænlands - eins og kennslubækur segja - og ný lægð á að myndast sem fer þá til norðausturs - eða austnorðausturs milli Vestfjarða og Grænlands. Á eftir fylgir síðan kennslubókarvestanátt - nema hvað?

En þetta er nú bara spá evrópureiknimiðstöðvarinnar. Það eru þrír dagar í dæmið. Enn segist ekkert um framhaldið.


Af hitamálum (12-mánaða keðjumeðaltal í Reykjavík)

Hvernig kom hitinn í Reykjavík árið 2012 út í samhengi fyrstu ára aldarinnar?

w-blogg290113

Lóðrétti ás línuritsins sýnir hita í °C, en sá lóðrétti tíma í árum. Punktarnir sýna 12-mánaða keðjumeðaltöl hita í Reykjavík. Fyrsti punktur markar árið 2000 (janúar til desember) en sá síðasti árið 2012 (janúar til desember).

Ef reiknuð er leitni í gegnum allt tímabilið fæst út hlýnunin 0,3 stig á áratug. Athugið vel að strangt tiltekið er óheimilt eða alla vega illa séð að reikna leitni í gegnum keðjumeðaltöl - því má ekki hafa þessa tölu eftir á almennum markaði. 

Á tímabilinu 2005 til 2012 hefur hitinn greinilega leitað upp - en ekkert slær samt út hlýindin miklu á árunum 2002 til 2004. Þessi miklu hlýindi drepa leitnina þó ekki. Takið eftir því að ef hún heldur áfram - og ekkert annað gerist - tekur 30 ár að komast upp í hæsta 12-mánaðatímabilið á myndinni. Auðvitað geta á þeim tíma komið ámóta hrinur niður á við. 

Munum að línurit sem þetta spá eitt og sér engu um framtíðina - merkilegt hvað margir eru samt á því.

Meðalhiti tímabilsins á myndinni (2000 til 2012) er 5,41 stig, hitinn árið 2012 var 0,13 stigum yfir því meðaltali. Meðalhiti í Reykjavík 1961 til 1990 er 4,31 stig, en meðaltalið 1931 til 1960 er 4,96 stig. 

En vestanáttin lætur enn á sér standa í vetur, skyldi hún hafa gleymst heima? Hvað skyldi febrúar gera?


Austnorðaustan

Nú grynnist lægðin mikla fyrir sunnan land. Djúpum lægðum fylgja krappar beygjur á þrýstilínum og þegar slaknar á þrýstikraftinum tekur tíma að losna við snúninginn sem dettur þá gjarnan í sundur í smáa hvirfla, bæði inni við lægðarmiðjuna sem og utar í námunda við skýjabakkann sem flestir kalla samskil hennar.

Við lítum á mynd sem tekin er á sunnudagskvöldi (27. janúar) kl. rúmlega 21.

w-blogg280113a

Útlínur Íslands eru teiknaðar á kortið. Suður (neðst) af landinu eru litlir sveipir í námunda við lægðarmiðjuna gömlu. Mikið þrumuveður gerði suður af landinu og jafnvel syðst á því líka síðdegis en sá bakki er að mestu úr sögunni.

Lægðarhnútur er fyrir austan land og stefnir til vestsuðvesturs (merkt með ör). Meðan hann fer hjá herðir á vindi og úrkomu yfir landinu norðan og austanverðu - og viðheldur hvassviðri á Vestfjörðum.

Á undan hnútnum er vindur af norðaustri - slær jafnvel í norður en ríkjandi vindátt er samt úr austnorðaustri - langt upp í veðrahvolfið.  

Austnorðaustanátt í háloftum er oft erfið viðfangs í veðurspám, veðurkerfi sem berast úr þeirri átt eru gjarnan frekar veigalítil á þrýstikortum og á gervihnattamyndum er erfitt að greina þau. Þrátt fyrir þetta er úrkoma stundum mikli áveðurs auk þess sem vindur leggst í mikla strengi en allgott veður og hægur vindur er á milli.


Sýndarvor í heiðhvolfinu

Hitabylgjan í heiðhvolfinu er ekki alveg búin - en þar er þó allt að róast og orðið furðu vorlegt að sjá. Fróðlegt verður að fylgjast með framhaldinu. Eftir heiðhvolfsumfjöllunina er smápistill um stöðu dagsins í lægðamálum. Kortið hér að neðan er spá bandarísku veðurstofunnar um hæð og hita í 30 hPa-fletinum og gildir kl. 12 á hádegi á sunnudag (27. janúar).

w-blogg270113a

Daufar útlínur landa á norðurhveli sjást í bakgrunni, Ísland rétt neðan við miðja mynd í litlum hæðarhrygg milli tveggja lægða. Kaldast á kortinu er lítið svæði yfir Bandaríkjunum sunnanverðum þar sem frostið er um -70 stig, en hlýjast um -45 stig yfir Baffinslandi, 25 stiga munur.

Við skulum rifja upp kort sem birtist á hungurdiskum 2. janúar. Þar má sjá eitthvað sem nálgast eðlilegt ástand árstímans. Að vísu er hlýnunin byrjuð yfir Austur-Asíu þar sem hæsti hiti er um -30 stig.

w-blogg270113b

Á fjólubláa svæðinu á þessu korti er frostið meira en -82 stig. Munur á hlýjasta og kaldasta stað er rúmlega 50 stig. Það sem venjulega ræður mestu um hita í heiðhvolfinu er geislunarjafnvægi. Það fer annars vegar eftir sólarhæð og (og lengd dagsins) en síðan ræður ósonmagn miklu. Það grípur geisla sólar. Sólarlaust er á norðurslóðum í skammdeginu og þá kólnar smám saman vegna varmataps út í geiminn. Svo kalt getur orðið að ósonið helst ekki við og eyðing þess verður hraðari en myndun.

Þá myndast mikill kuldapollur - sá sem við sjáum á myndinni frá 2. janúar með gríðarhvössum vindi allt umhverfis. Miðja hans er venjulega í mikilli lægð ekki fjarri norðurskauti svipað og á myndinni. Bylgjubrot í veðrahvolfinu getur borist upp í heiðhvolfið og sett þar allt úr skorðum. Þetta var að gerast í kringum áramótin. Eftir rúma viku komst á jafnvægi að nokkru eftir að lægðin mikla skiptist í tvennt. Nú eru þær lægðir að brotna niður og hæðar- og vindasvið verða flatari, jafnvel þannig að minni á ástandið sem venjulega ríkir í apríl.

Nú er spurningin hvernig fer með þetta. Er of áliðið vetrar til að hringrásin jafni sig? Eða nær hún sér upp aftur? Við gefum því auga á næstu vikum.

Lægðin mikla suður í hafi hegðaði sér að mestu eins og spáð var. Ekki er algjört samkomulag um það hversu djúp hún varð nákvæmlega - en alla vega rétt neðan við 930 hPa - kannski 926. Það tekur svæðið nokkra daga að jafna sig. Við erum réttu megin á svæðinu þannig að hér gerist trúlega ekki mikið - hægt minnkandi vindur og kólnandi veður.

En sprengilægðaflaninu er ekki alveg lokið á suðurjaðri svæðisins. Við lítum á mynd sem fengin er af vef kanadísku veðurstofunnar (Environment Canada). 

w-blogg270113c

Við sjáum Ísland gægjast undan textaborðanum efst á myndinni. Nýfundnaland er til vinstri. Hér tákna gulir og brúnir litir mjög köld og háreist ský. Í kringum lægðina miklu suður af landinu eru gríðarlegir skúraflókar - sennilega munu þar myndast nokkrar smálægðir.

Suður af Nýfundnalandi er ný lægð á hraðri leið til austnorðausturs í stefnu á Skotland. Örin bendir á fremur veigalítið hlýtt færiband lægðarinnar. Hausinn, skýjaskjöldurinn norður af lægðarmiðjunni er efnismeiri - en hér þrískiptur.

Klukkan 18 í dag (laugardag) var þrýstingur í lægðarmiðju talinn 994 hPa, á morgun (sunnudag) kl. 18 er honum spáð í 959 hPa. Þetta er 34 hPa dýpkun á sólarhring - að vísu mun minna en ofurlægðirnar þrjár sýndu í liðinni viku - en nær samt að kallast sprengja á ameríska vísu. Til að fá þann merkimiða þurfa lægðir að dýpka um 24 hPa á sólarhring eða meira.

En hiksti á að koma í lægðina þegar hún ekur fram á hringrás þeirrar stóru undir röngu horni. Það verður seint á sunnudagskvöldi.

Evrópureiknimiðstöðin gerir nú ráð fyrir því að búið verði að hreinsa upp hratið sunnan Íslands og vestan Bretlandseyja á fimmtudagskvöld og þá verði nýr stór kuldapollur yfir Kanada tilbúinn til Atlantshafsátaka.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 160
  • Sl. sólarhring: 239
  • Sl. viku: 2086
  • Frá upphafi: 2484625

Annað

  • Innlit í dag: 129
  • Innlit sl. viku: 1866
  • Gestir í dag: 120
  • IP-tölur í dag: 118

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband