Hreinsað frá - en aðeins skamma stund

Undanfarnir tíu dagar hafa verið stórgerðir á Norður-Atlantshafi - kuldapollurinn sem við höfum kallað Stóra-Bola ruddist út yfir Atlantshaf og hristi þar upp þrjár ofurdýpkandi lægðir og nokkrar í viðbót sem falla í ameríska lægðasprengiflokkinn. Í þeim flokki eru þær sem dýpka um að minnsta kosti 24 hPa á einum sólarhring. En nú virðast kynslóðaskipti framundan hjá kuldapollum og sá næsti tekur við völdum yfir heimskautaslóðum Kanada og veifar skönkum í átt til okkar. En fyrst er að hreinsa upp leifarnar af þeim gamla.

Ísland var ekki í lægðabrautinni þessa grófgerðu daga heldur fóru lægðirnar alllangt fyrir sunnan land. Þær voru djúpar og veittu lofti að norðan möguleika á að blanda sér í leikinn - þótt það loft hafi ekki verið beinlínis tengt lægðunum.

Úr þessu varð mjög hvöss austnorðaustanátt sem er erfið að því leyti að illa greinir á milli úrkomubakka og veðurkerfa. Tölvuspár og ratsjár hjálpa þó mjög miðað við það sem áður var. Úrkoma hefur verið sérlega mikil í hafáttinni á Austurlandi og margir staðir á Vesturlandi, á Vestfjörðum og nyrðra hafa fengið að kenna á vindstrengjum austnorðaustanáttarinnar. Að jafnaði varð hvassast á laugardagskvöld, en síðan hefur klukkustundarmeðalvindhraði á landinu öllu lengst af legið á bilinu 12 til 13 m/s, en er nú þegar þetta er skrifað að detta niður fyrir 10 m/s. Vonandi lægir meira til morguns (miðvikudags).

En lítum á spákort frá evrópureiknimiðstöðinni sem gildir síðdegis á miðvikudag.

w-blogg300113a 


Lægðin við vesturströnd Noregs veldur þar miklu hvassviðri og úrkomu eftir að hafa tekið á Skotum svo um munaði. Eftir sitja síðustu leifar kuldapollsins fyrir suðvestan land og fara til suðausturs og austurs. Taka má eftir úrkomulinda á milli lægðarinnar við Noreg og köldu leifanna. Spurning hversu nærgöngul úrkoman verður Suðvesturlandi um það leyti sem kortið gildir. Snjóar þá?

Rauða örin bendir á síðustu sprengilægð syrpunnar - ef hún þá verður það. Hún er rétt sunnan við kortið og er spáð yfir sunnanvert Bretland síðdegis á föstudag og sýnir kortið að neðan þá stöðu.

w-blogg300113b

Örin bendir enn á lægðina sem hér er gríðarkröpp - bandaríska veðurstofan er linari á því. En á kortinu er Ísland í hæðarhrygg sem þokast austur á bóginn.

Nýtt lægðasvæði er vestan Grænlands, gríðardjúpt og víðáttumikið, 940 hPa í miðju. Úrkomu- og skilakerfi lægðarinnar fellur mjög vel að því sem kennslubækur sýndu á árum áður - eitthvað hreint og klárt við þetta kerfi. Spurning hvort hér verður á ferð kennslubókaruppgangur skýja samfara kerfinu. Það á að brotna á suðurodda Grænlands - eins og kennslubækur segja - og ný lægð á að myndast sem fer þá til norðausturs - eða austnorðausturs milli Vestfjarða og Grænlands. Á eftir fylgir síðan kennslubókarvestanátt - nema hvað?

En þetta er nú bara spá evrópureiknimiðstöðvarinnar. Það eru þrír dagar í dæmið. Enn segist ekkert um framhaldið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kærar þakkir fyrir þessar vangaveltur og fróðleik um veðrið. Þó ég búi í Þýskalandi þá fylgist ég með.

Sigurður Rúnar Jónsson (IP-tala skráð) 30.1.2013 kl. 17:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 110
  • Sl. viku: 1496
  • Frá upphafi: 2348741

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 1302
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband