Færsluflokkur: Vísindi og fræði
15.2.2013 | 00:42
Kalt við Korpu
Á vef Veðurstofunnar má sjá hvar hiti er hæstur eða lægstur á landinu - bæði fyrir daginn í heild og síðastliðna klukkustund. Oftast er lægsti hiti landsins einhvers staðar inni í landi, uppi á hálendinu eða á fjallatindum. Í dag miðvikudaginn 14. nóvember ber hins vegar svo við að veðurstöðin á Korpu í úthverfi Reykjavíkur nær því að vera með lægsta lágmarkshita landsins. Lítum á listann klukkustund fyrir klukkustund:
STÖÐ MÁN DAGUR KLST lágmark NAFN stöðvar
1479 2 14 1 -4.6 Korpa
1479 2 14 2 -5.2 Korpa
1479 2 14 3 -5.4 Korpa
1473 2 14 4 -4.4 Straumsvík
1479 2 14 4 -4.4 Korpa
1479 2 14 5 -4.5 Korpa
6459 2 14 6 -4.9 Lónakvísl
6459 2 14 7 -5.2 Lónakvísl
6459 2 14 8 -4.7 Lónakvísl
6459 2 14 9 -4.5 Lónakvísl
6459 2 14 10 -4.5 Lónakvísl
6459 2 14 11 -4.0 Lónakvísl
1479 2 14 11 -4.0 Korpa
6459 2 14 12 -3.6 Lónakvísl
6459 2 14 13 -5.1 Lónakvísl
6459 2 14 14 -4.2 Lónakvísl
2636 2 14 15 -3.2 Þverfjall
6459 2 14 16 -3.6 Lónakvísl
2636 2 14 17 -3.6 Þverfjall
3474 2 14 17 -3.6 Vaðlaheiði
2636 2 14 18 -3.8 Þverfjall
1486 2 14 19 -4.0 Bláfjöll
1486 2 14 20 -4.6 Bláfjöll
6975 2 14 21 -4.4 Sandbúðir
6975 2 14 22 -4.5 Sandbúðir
1479 2 14 23 -4.9 Korpa
1479 2 14 24 -4.9 Korpa
Lágmarkið á Korpu kl. 3 er lægsti hiti sólarhringsins á landinu (miðað við almennar stöðvar). Dægursveifla á Korpu er allstór þannig að Lónakvísl á Tungnáröræfum [hæð 675 metrar] og nokkrar aðrar stöðvar hátt yfir sjó verða lægstar yfir daginn. Í dag var skýjað um mestallt land og víða vindur, en lygnt var á höfuðborgarsvæðinu og bjart. Við skulum líta á vegagerðarstöðvarnar líka:
STÖÐ MÁN DAGUR KLST lágmark NAFN stöðvar
31488 2 14 1 -7.1 Sandskeið
31488 2 14 2 -7.4 Sandskeið
31488 2 14 3 -6.9 Sandskeið
31488 2 14 4 -6.8 Sandskeið
31950 2 14 5 -4.0 Stórholt
31950 2 14 6 -4.1 Stórholt
31488 2 14 7 -2.8 Sandskeið
33357 2 14 8 -2.0 Öxnadalsheiði
31579 2 14 9 -2.3 Kjalarnes
31950 2 14 10 -4.0 Stórholt
31950 2 14 11 -3.9 Stórholt
31950 2 14 12 -1.7 Stórholt
34238 2 14 13 -1.5 Möðrudalsöræfi II
34326 2 14 13 -1.5 Biskupsháls
34238 2 14 14 -1.4 Möðrudalsöræfi II
34326 2 14 15 -1.3 Biskupsháls
32474 2 14 16 -1.4 Steingrímsfjarðarheiði
33357 2 14 16 -1.4 Öxnadalsheiði
33357 2 14 17 -1.6 Öxnadalsheiði
31488 2 14 18 -3.3 Sandskeið
31488 2 14 19 -3.2 Sandskeið
31488 2 14 20 -3.4 Sandskeið
31488 2 14 21 -2.2 Sandskeið
31392 2 14 22 -2.7 Hellisheiði
31488 2 14 23 -4.7 Sandskeið
31488 2 14 24 -5.4 Sandskeið
Sandskeið er í nágrenni borgarinnar og þar var enn kaldara heldur en á Korpu síðastliðna nótt. Kjalarnes náði því meira að segja að verða kaldasta vegagerðarstöðin kl. 9 Yfir miðjan daginn var lágmarkið á hefðbundnari stöðum.
Þá er spurningin hvort Korpa hafi áður átt lægsta hita á landinu frá því að sjálfvirkar athuganir hófust þar á bæ. Svarið er já, en aðeins einu sinni. Það var 29. september árið 2000. Lágmarkshitinn var þá 1,0 stig. Það er mun oftar að Sandskeið á lægsta lágmark vegagerðarstöðvanna, síðast 5. febrúar í ár.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.2.2013 | 01:12
Tvær mestu febrúarfyrirstöðurnar
Febrúar er ákaflega fjölbreyttur mánuður - í ökkla eða eyra. Við lítum hér snögglega á efri endann - mestu fyrirstöðurnar. Í titlinum eru þær tvær - í tímalengd - náðu yfir mestallan mánuðinn. Veðurfar var alveg út úr kortinu í febrúar 1932. Hlýindin þau afbrigðilegustu í nokkrum vetrarmánuði hér á landi. Í næstu sætum koma svo mars 1929, desember 1933, janúar 1847 og mars 1964. Þrír afbrigðilegustu vetrarhlýindamánuðirnir komu allir á inni á fimm ára tímabili. Nýhlýindaskeiðið sem við upplifum á enn eftir að toppa þennan árangur gamla tímans.
En fyrsta kortið sýnir hæðarvik í 500 hPa þennan ágæta mánuð með augum amerísku endurgreiningarinnar.
Risahlýindavik er yfir landinu. Harla mikil norðanáttarauki í Skandinavíu.
Ámóta atburður gerðist síðan aftur í febrúar 1965 - en ekki alveg eins hlýr.
Hér er hæðin aðeins vestar en 1932. Elsta kynslóð veðurnörda man vel þennan mánuð. Hann var mjög hlýr - með tveimur ofsaveðrum þó. Nákvæmlega þarna byrjuðu hafísárin svonefndu hér á landi - en í baksýnisspeglinum má þó sjá nokkurn aðdraganda. Í veðrinu er yfirleitt skýrari sýn í baksýnisspeglinum heldur en þangað sem leiðin liggur. Í þessu afbrigðilega mynstri náði hafísinn að breiðast út fyrir norðan land - með töluverðri nýmyndun auk stíflunnar á Grænlandssundi.
Ís kom líka vorið 1932 - en miklu minni - minna var þá fyrir af honum heldur en 1965.
Þessar fyrirstöður entust í margar vikur - en stöku sinnum birtast þær án þess að setjast að til langframa. Ef við lítum á einstaka daga finnur endurgreiningin ákaflega afbrigðilegan dag í febrúar 1890.
Þetta kort sýnir ekki vik heldur hæð 500 hPa-flatarins þennan ákveðna dag. Miðjuhæðin er 5840 metrar. Ansi gott þykir að ná 5700 metrum og gerist ekki nema stöku sinnum hér við land að vetrarlagi eða á fimm til tíu ára fresti í febrúar.
Loftþrýstingur var mjög hár og hefur aðeins tvisvar mælst jafnhár eða meiri í febrúar hér á landi. Taflan sýnir þetta - ekki er marktækur munur á efstu gildunum:
ár | mán | dagur | hámark (hPa) | Staður | |
1892 | 2 | 14 | 1051,8 | Stykkishólmur, Akureyri | |
1962 | 2 | 26 | 1051,7 | Akureyri, Dalatangi (25.) | |
1890 | 2 | 26 | 1051,6 | Akureyri | |
1889 | 2 | 25 | 1050,4 | Akureyri | |
2006 | 2 | 24 | 1050,0 | Skjaldþingsstaðir og Dalatangi | |
1965 | 2 | 21 | 1048,6 | Vopnafjörður | |
1932 | 2 | 10 | 1047,4 | Seyðisfjörður | |
1895 | 2 | 5 | 1047,0 | Akureyri | |
1944 | 2 | 25 | 1046,3 | Akureyri | |
1988 | 2 | 28 | 1046,3 | Bergstaðir |
Mánuðirnir tveir, 1932 og 1965 eru efstir á lista yfir þrýstihæstu febrúarmánuðina:
ár | febrúar | landið (hPa) | |
1932 | 2 | 1027,0 | |
1965 | 2 | 1026,9 | |
1947 | 2 | 1025,5 | |
1986 | 2 | 1023,6 | |
1895 | 2 | 1021,9 |
Síðan kemur febrúar 1947 í þriðja sæti - en hann var einnig afskaplega afbrigðilegur. Frægur í Evrópu fyrir snjó og kulda í skorti eftirstríðsáranna - við lá að allt færi á höfuðið.
13.2.2013 | 01:35
Norðurhvelsstaðan (auk klípu af nördmeti)
Fyrst lítum við á hefðbundinn hátt á stöðuna á norðurhveli á fimmtudaginn (14. febrúar) en síðan eru nokkur korn fyrir veðurnördin.
Ísland er rétt neðan við miðja mynd, N-Ameríka til vinstri en mestöll Asía til hægri. Jafnhæðarlínur eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn í veðrahvolfi miðju. Litafletir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mörkin á milli bláu og grænu litanna eru sett við 528 dekametra (1 dam = 10 metrar). Þau liggja einmitt yfir Ísland á myndinni - frá suðvestri til norðausturs.
Þau svæði þar sem þykktin er minni en 4920 metrar eru lituð fjólublá. Þar eru höfuðstöðvar kuldans hverju sinni. Þær eru tvískiptar eins og oftast á þessum árstíma, önnur miðjan er yfir kanadísku heimskautaeyjunum en hin yfir strönd Síberíu. Köld svæði með lítilli þykkt og lágum veðrahvörfum eru kölluð kuldapollar. Til auðkennis hafa hungurdiskar gefið þessum tveimur meginpollum nöfn - Kanadapollinn höfum við kallað Stóra-Bola - en hinn er Síberíu-Blesi. Eini tilgangur nafnanna er að auðvelda umtal og forðast rugling. Fleiri kuldapollar - veigaminni og skammlífari eru oftast á sveimi á kortinu. Hér er t.d. einn yfir Miðjarðarhafi og veldur þar leiðindaveðri allt suður til Afríkustranda - mikið ef ekki snjóar þar í fjöll.
Kuldapollarnir stóru eru frekar rólegir á kortinu. Það sjáum við af því að þykktarfletir og jafnhæðarlínur liggja nokkuð samsíða kringum þá og bratti þessara sviða er þar svipaður. Litakvarðinn sem notaður er (batnar mjög við stækkun) gerir ráð fyrir fjórum fjólubláum litatónum. Hér eru aðeins þrír notaðir - sá fjórði sést ekki nema stundum - þar er þykktin minni en 4740 metrar.
Umhverfis Ísland er vindur frekar hægur og bratti þykktarsviðsins ekki mikill. Fyrirstaðan sem verndað hefur okkur undanfarna daga hefur hörfað til austurs - en spár gefa góða von um að hún muni enn á ný endurnýja sig ekki fjarri Íslandi eins og gerst hefur hvað eftir annað í vetur. Þessi fyrirstaða hefur lengst af verið af veikari gerðinni - en það er að sumu leyti bara betra. Öflugar fyrirstöður stugga frekar við kuldapollunum og geta ýtt þeim úr bólum sínum.
Þótt Evrópumenn hafi sumir kvartað um kulda í vetur hefur sá kuldi verið af vægara taginu - í norðan- og norðaustanátt austan við veika fyrirstöðuna. Síberíu-Blesi hefur nær ekkert látið á sér kræla vestan Úralfjalla. Í vetur hafa öflugar fyrirstöður stundum birst í nágrenni Íslands í viku til tíu daga spám - en hingað til hefur ekkert orðið úr þeim. Við þurfum auðvitað stóra fyrirstöðu til að slá einhver hitamet - en það er áhættuleikur - við gætum alveg eins lent á austurhliðinni í klóm kuldans.
En lítum nú á töflu - hér kemur að nördafóðrinu.
mán | mhæð | mánmism | mþykkt | mánmism | h1000 | mánmism | þrýstingur |
jan | 524,3 | -1,1 | 523,4 | -0,9 | 0,9 | -0,2 | 1001,1 |
feb | 526,4 | 2,1 | 523,8 | 0,4 | 2,6 | 1,7 | 1003,3 |
mar | 527,8 | 1,4 | 524,0 | 0,2 | 3,7 | 1,1 | 1004,7 |
apr | 537,1 | 9,3 | 528,9 | 4,9 | 8,2 | 4,5 | 1010,3 |
maí | 546,7 | 9,6 | 535,5 | 6,6 | 11,3 | 3,1 | 1014,1 |
jún | 552,7 | 6,0 | 543,0 | 7,5 | 9,7 | -1,6 | 1012,2 |
júl | 555,9 | 3,2 | 547,5 | 4,5 | 8,4 | -1,3 | 1010,5 |
ágú | 553,7 | -2,2 | 546,2 | -1,3 | 7,5 | -0,9 | 1009,4 |
sep | 545,9 | -7,8 | 540,5 | -5,7 | 5,4 | -2,1 | 1006,8 |
okt | 537,3 | -8,6 | 533,9 | -6,6 | 3,4 | -2,0 | 1004,2 |
nóv | 530,9 | -6,6 | 528,0 | -5,9 | 2,9 | -0,5 | 1003,7 |
des | 525,4 | -5,5 | 524,3 | -3,7 | 1,1 | -1,8 | 1001,4 |
Taflan er ekki flókin en krefst samt nokkurrar yfirlegu - á varla heima í bloggmiðli. Hún sýnir árstíðasveiflu meðalhæðar 500 og 1000 hPa-flatanna og þykktarinnar yfir Íslandi miðju á tímabilinu 1951 til 2012.
Fyrsti dálkurinn sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í dekametrum. Við sjáum að í febrúar er hún 526 dam. Á kortinu að ofan er hún 529 dam, þremur dekametrum ofan meðallags. Næsti dálkur sýnir breytingu meðalhæðarinnar frá einum mánuði til þess næsta. Hæðin er í lágmarki í janúar en er hæst í júlí. Hún hækkar lítillega frá janúar og fram í mars en þá kemur stórt stökk yfir í aprílmeðaltalið og annað ámóta yfir í maí. Minna þrep er síðan milli maí og júní. Meðalhæðin fellur lítilega milli júlí og ágúst, en verulega milli ágúst og september. Mikið fall er allt haustið.
Þriðji dálkurinn sýnir meðalþykktina. Hún er svipuð allan veturinn frá desember og fram í mars. Þykktin tekur líka vorstökk - en miklu minna heldur en hæðin. Þetta stafar trúlega af tvennu. Annars vegar dregur fyrr úr sunnanátt vetrarins heldur en vestanáttinni. Þá aukast líkur á norðanátt meðan á snúningnum stendur. Nokkru síðar dregur snögglega úr vestanáttinni og þá er köldu lofti sturtað frá heimskautaslóðum til suðurs. Þetta hægir á vorhlýnuninni sem kemur fram í því að þykktin (sem er mælikvarði á hita) tregðast við að hækka. Haustið er síðan önnur saga.
Fimmti dálkurinn sýnir hæð 1000 hPa-flatarins (mismunur hæðar og þykktar). Hann er hæstur þegar misgengið er mest í maí. Þá er meðalloftþrýstingur hæstur á Íslandi - aftasti dálkur sýnir þann þrýsting sem 1000 hPa-hæðin gefur til kynna. Misgengið á haustin kemur fram í því að þrýstingur fellur lítið milli október og nóvember - en meira á milli nóvember og desember - við látum vangaveltur um ástæður þess liggja á milli hluta.
12.2.2013 | 00:55
Sýndarvor
Nú eru liðnar réttar 6 vikur frá áramótum og sýndarvorið heldur áfram. Já, auðvitað er það ekkert vor - en meðalhiti það sem af er ári hefur samt verið á svipuðu róli og gerist í þriðju viku aprílmánaðar, rétt fyrir sumardaginn fyrsta. Næstu daga verða varla hlýindi en ekki heldur kuldar og spár lengra fram í tímann eru ekki kuldalegar. Standi veðurlag af þessu tagi nógu lengi verður það merkilegt. Við skulum líta á hvernig árið stendur sig (lítið líka endilega á vef nimbusar þar sem fylgst er með stöðunni frá degi til dags).
Upplýsingar liggja fyrir um morgunhita í Stykkishólmi allt aftur til 1846. Meðalhiti kl. 9 fyrstu 42 daga ársins í ár er 1,9 stig. Aðeins fjórum sinnum hefur árið byrjað betur:
ár | hiti °C | |
1987 | 2,47 | |
1929 | 2,28 | |
1972 | 2,15 | |
1964 | 1,93 | |
2013 | 1,90 | |
1847 | 1,82 | |
2010 | 1,71 |
Við splæsum hér í tvo aukastafi í °C - þótt það sé vafasamt. Ársbyrjun 1987 er hlýjust, síðan í röð 1929, 1972 og 1964. Mikið þrek þarf til að halda í 1929 og 1964 til lengdar - þau ár voru sérlega hlý alveg fram í apríl. Fleiri ár áttu svo góða spretti í febrúar og mars að þau rífa sig upp listann fljótlega og lenda í harðri samkeppni.
Í Reykjavík og Akureyri ná upplýsingar um daglegan hita ekki alveg á lausu nema aftur til 1949, en á því tímabili hafa fyrstu 42 dagarnir aðeins fjórum sinnum orðið hlýrri en nú. Á Akureyri átta sinnum á sama tímabili.
Það er fyrst og fremst á þráanum (ef svo má að orði komast) og jöfnuði sem þessar fyrstu sex vikur hafa staðið sig svona vel. Þrátt fyrir góða byrjun á febrúar er hann samt ekki kominn nærri toppsæti enn (sjá xls-fylgiskjal nimbusar). Meðalhiti í hlýjasta febrúar í Reykjavík er 5 stig - ótrúlegt en satt (1932). Sýnist helst að hiti afgang mánaðarins þyrfti að haldast í einum sjö stigum til að nútímanum takist að toppa það. Slíku er alla vega ekki spáð þessa dagana.
11.2.2013 | 00:28
Sumarsvipur á þrýstisviðinu
Nú hittist svo á að lítið sést til öflugra þrýstikerfa á N-Atlantshafi - svo lítið að helst minnir á sumarið. Kortið að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 síðdegis mánudaginn 11. febrúar.
Hæðin fyrir norðaustan land rétt slefar í 1030 hPa og engin lægðanna á kortinu nær niður í 990 hPa. En við sjáum auðvitað að ekki er um sumarkort að ræða með því að horfa á hitann í 850 hPa-fletinum. Hann er sýndur með strikuðum jafnhitalínum. Með því að rýna í kortið (það batnar við stækkun) má sjá að yfir Íslandi er hitinn í fletinum einhvers staðar milli mínus 5 og mínus 10. Á raunverulegu sumarkorti værum við hinu megin frostmarks, í plús 5 til plús 10. Hér munar 10 stigum en það er einmitt meðalmunur sumar- og vetrarhita við sjávarsíðuna hér á landi.
Reiknimiðstöðin er helst á því að láta þetta ástand ná yfir mestalla vikuna - þó með þeirri skammvinnu undantekningu að ívið öflugri lægð á að fara til norðausturs skammt suður- og suðaustur af landinu á miðvikudag. Þrýstingi í miðju hennar er spáð niður í um 977 hPa - það er heldur sjaldséð tala á sumrin.
10.2.2013 | 01:02
Nokkuð snúið - en vonandi meinlaust
Eftir hlýindin í dag, laugardag, kólnar til morguns. Kaldara loft sækir að úr báðum áttum, austri og vestri. Tölvuspár hafa hringlað með það hvor áttin nær undirtökunum - og gera enn. Komist loftið úr vestri að snjóar sennilega vestast á landinu - en þótt loftið úr austri sé ekkert hlýrra fylgir því vindur af austri en sú vindátt er oftast þurr vestanlands. Ein spáin sem nú er í gildi segir að á aðfaranótt mánudags snjói 5 til 7 cm í Keflavík, en ekki neitt í Reykjavík. Síðan er það reglan (?) - ef nægilega mikið rignir í logni - snjóar.
Hungurdiskar verða að segja pass og bíða eftir niðurstöðunni. Á meðan getum við litið á 500 hPa hæðar- og þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 síðdegis á sunnudag (10. febrúar)
Jafnhæðarlínur eru heildregnar og merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Af þeim má ráða vindátt og vindhraða. Vindur blæs oftast nokkuð samsíða hæðarlínunum með hærri gildi til hægri við vindinn. Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn.
Jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar, einnig merktar í dekametrum. Því meiri sem þykktin er því hlýrra er í neðri hluta veðrahvolfs. Það er 528 dam jafnþykktarlínan sem snertir Suðvesturland kaldara loft er vestan hennar - en hlýrra austan við. Lína sömu þykktar liggur líka að Suðausturlandi - þar er kaldara austan línunnar. Vestari 528-línan er nánast kyrrstæð - en sú eystri hreyfist til vesturs.
Hlýja loftið sem fór yfir í dag (laugardag) er búið að byggja upp myndarlega fyrirstöðuhæð fyrir norðaustan land - eins og furðualgengt hefur verið síðustu 2 til 3 mánuði. Fyrirstaðan mun endast í nokkra daga og vernda okkur frá aðsókn meiriháttar lægðakerfa.
Lægðin við Nýfundnaland er sú sem olli laugardagssnjókomunni miklu í Bandaríkjunum. Afkomandi hennar mun komast til Íslands - en ekki fyrr en eftir verulega endurskipulagningu bylgjunnar.
9.2.2013 | 01:11
Hlýindi í hámarki á laugardag
Þegar þetta er skrifað (seint á föstudagskvöldi 8. febrúar) er hlýtt víðast hvar á landinu og hvergi meira en tveggja stiga frost. Sunnanáttin hefur ekki enn hreinsað alveg út úr Siglufirði og Ólafsfirði - en það ætti að gerast á hverri stundu. Hiti vestanlands var víða á bilinu sjö til níu stig.
Kortið sýnir þykktina á miðnætti (að kvöldi föstudags) eins og evrópureiknimiðstöðin reiknar hana.
Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og er því meiri eftir því sem hlýrra er, svörtu heildregnu línurnar sýna hana. Talnagildin eru í dekametrum (1 dam = 10 metrar) og má sjá 542 dam jafnþykktarlínuna yfir vestanverðu landinu. Meðalþykkt í febrúarmánuði hér við land er um 18 dam lægri. Gróflega má segja að hiti hækki um 1 stig við hverja tvo dekametra þannig að hitinn um 9 stigum yfir meðallagi árstímans. Það er mikið.
Litafletirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum, hann er í dag í 1200 til 1400 metra hæð. Mörkin milli gulu og blágráu svæðanna liggja við núll stig. Hér er því hláka upp í meir en þúsund metra hæð.
En hlýja svæðið stefnir beint til norðurs og á korti sem gildir um hádegi á sunnudag eru hlýindin farin að gisna.
Hér sækir kaldara loft að bæði úr austri og vestri. Eins og oftast er kaldara vestan við land heldur en austan þess. Kaldast er vestan við Grænland, þar sést aðeins í 494 dam jafnþykktarlínuna í jaðri kuldapollsins Stóra-Bola (kortið skýrist talsvert við stækkun). Í þessu tilviki stíflar Grænland framsókn hans algjörlega. Kalda loftið vestan við Ísland er komið vestan úr Kanada fyrir sunnan Hvarf.
Furðukalt er austan við Hjaltlandseyjar - þar sést í jaðar 512 dam línunnar. Kalt loft til beggja átta leitast við að fleygast undir hlýja loftið yfir Íslandi og ekki gott að segja hvor aðsóknin hefur betur - flókið skilakerfi hlýtur að verða til úr því (?).
Fyrir utan fiðringinn sem fylgir spurningunni um það hversu hátt hitinn fer á veðurstöðvum í hlýindagusunni (varla met - en samt mætti búa til veðmál um það) er ákveðin spenna samfara ástandinu á sunnudagskvöld. Lendir einhver hluti Suðvesturlands vestan við skilin? Snjóar þá? Verður krapaelgur? Fá skíðasvæðin spillihlákuna endurgreidda?
8.2.2013 | 02:06
Hlýindaspá
Nú stefnir mjög hlýtt loft í átt til landsins - miðað við árstíma. Tveggja stafa tölur eru ekki algengar í febrúar. Landsmetið er þó býsna hátt, 18,1 stig sem mældust á Dalatanga þann 17. árið 1997. Flest landsdagamet á þessum tíma árs eru á bilinu 14 til 16 stig. Þrátt fyrir að hlýtt verði næstu daga er frekar ólíklegt að þessi met hreyfist - en aldrei að vita.
Hiti hefur ekki nema þrisvar náð 10 stigum í Reykjavík í febrúar, mest 10,1 stig þann 8. árið 1935, en þá gekk mikið ofsaveður yfir landið og ofbeldi samfara því hefur náð hlýju lofti úr hæðum niður til Reykjavíkur. Sami hiti mældist í Reykjavík þann 16. árið 1942 og 10,0 stig daginn áður. Hiti komst einu sinni í 12 stig í febrúar meðan Jón Þorsteinsson landlæknir athugaði á árunum 1820 til 1854, það var þann 9. árið 1830.
En lítum aðeins á stöðu dagsins. Fyrst á gervihnattarhitamynd sem tekin er á miðnætti á fimmudagskvöldi 7. febrúar.
Útlínur landa eru merktar með grænum lit og má sjá Ísland ofan við miðju. Við sjáum mikinn boga af háskýjum (þau eru köld og hvít á myndinni). Til hægðarauka hefur hvítri strikalínu með ör á endanum verið komið fyrir í sveipnum og á að sýna hreyfingu loftsins, fyrst úr suðri en síðan í stórum boga til austurs, suðausturs og að lokum í enn meiri sveig. Öll er hreyfingin í hæðarbeygju.
Auk þessarar hringhreyfingar er hringrásin öll á hreyfingu til norðurs og norðausturs og breiðir þar að auki úr sér. Heildarhreyfingin er þannig samsett úr færslu - hringsnúningi og útþenslu. Hringsnúningurinn getur verið í hvora áttina sem er (sólarsinnis eða andsólarsinnis) og þrenging er möguleg í stað útþenslu. Loft sem lyftist og hreyfist til norðurs leitar í hæðarbeygju í efri hluta veðrahvolfs.
Þetta bogaform kemur í dag fram á flestum gerðum veðurkorta. Sést t.d. mjög vel á veðrahvarfakortum eins og þeim sem stundum hafa lent á borði hungurdiska, einnig á vinda- og þykktarkortum. Til a sjá hversu hlýtt þetta loft er skulum við líta á mættishitann í 850 hPa fletinum á sama tíma og myndin var gerð.
Mættishita mætti einnig kalla þrýstileiðréttan hita. Reiknað er út hversu hlýtt loft sem er í ákveðinni hæð yrði ef það væri flutt niður að sjávarmáli (1000 hPa-flötinn). Dökkrauða svæðið á myndinni fylgir boganum á gervihnattamyndinni nokkuð vel - enda gildir spáin á sama tíma og myndin.
Þarna eru sannkölluð eðalhlýindi á ferð, mættishitinn er 19,7 stig þar sem hann er hæstur. Munur væri að ná honum niður til okkar. Til þess þarf þó sérstök skilyrði - getur gerst í hreinu niðurstreymi við há fjöll. Slíkt niðurstreymi er þó sjaldnast eins konar foss að ofan heldur blandast það kaldara loftið á leiðinni niður og hitinn lækkar. Mættishitanum er spáð í 17 til 18 stig á aðfaranótt laugardags. Þá eru tveggjastafa hita tölur líklegastar í kringum háfjöll Norðurlands.
Síðdegis á laugardag snýst vindur um tíma til suðausturs - þá gætu sjaldgæfar tveggjastafatölur sést á Vesturlandi. Þar spillir úrkoma talsvert möguleikum. Ef mikið fellur af henni fer orka frekar í það að láta rigninguna gufa upp eða snjóinn að ofan bráðna heldur en að hækka hita þann sem mælist á hitamælum.
7.2.2013 | 00:23
Dugar samt
Þó nýja árið hafi ekki verið illviðralaust hér á landi hefur tíðarfarið verið gott þegar á heildina er litið - og hér suðvestanlands hefur veður suma daga minnt frekar á snemmvor heldur en janúar. Lega háloftavinda hefur reynst okkur hagstæð. Myndin hér að neðan er til vitnis um það. Hún er fengin af setri bandarísku veðurstofunnar og sýnir hæðarvik í 500 hPa-fletinum yfir norðanverðu Atlantshafi á tímabilinu 1. janúar til 4. febrúar 2013.
Miðað er við tímabilið 1981 til 2010. Skammt fyrir norðaustan land er vikhámark. Það er ekki sérlega mikið en dugar samt. Svartar heildregnar línur sýna vik í metrum. Það er 40 metra viklínan sem liggur yfir landið úr suðaustri til norðvesturs. Vikið er mest rétt rúmir 100 metrar (= 10 dekametrar). Á 500 hPa kortunum sem við lítum oftast á eru línur dregnar á 6 dekametra (60 m) bili.
Neikvæð vik eru suður af Grænlandi og yfir Evrópu. Vikamynstrið sýnir að hér á Íslandi hafa suðaustlægar áttir verið algengari heldur en að meðallagi. Skýrir það hlýindin í janúar. Myndin sýnir þar að auki að landið hefur ekki verið í lægðabraut - flestar lægðir hörfað undan.
Frekar kalt hefur verið í Evrópu - í meðallagi þó í Noregi. Austanvindar hafa samkvæmt þessu korti verið algengari en í meðalári. Þó kalt hafi verið hefur meginlandið samt sloppið við ógnarkulda úr austri - kuldapollurinn Síberíu-Blesi hefur varla komist vestur fyrir Úralfjöll.
Þótt vindi og úrkomu sé spáð hér á landi næstu vikuna virðist svo vera að staðan haldi sér í aðalatriðum. Veik fyrirstaða verður viðloðandi fyrir norðaustan land eins og verið hefur lengst af í vetur. Ef þær spár rætast verða umhleypingarnir ekki mjög beittir - miðað við árstíma. En munum að spár halda ekki alltaf.
6.2.2013 | 01:16
Skýjauppsláttur
Því var tíst að ritstjóranum einhvern daginn að hann mætti gjarnan rifja upp hvernig skýjafar fylgir á undan skilasvæðum. Það skal nú gert - en rétt að hafa í huga að staðhættir nær og fjær móta mjög skýjafar - og því meira eftir því sem skýin liggja lægra.
Í dag (sem er miðvikudagur 6. febrúar hjá flestum lesendum) nálgast einmitt skýjasvæði úr vestri og suðvestri. Fyrsta myndin sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar kl. 6 á miðvikudagsmorgni.
Umrædd skil eru í úrkomusvæðinu á Grænlandshafi. Þar má ef vel er skoðað sjá skilabrot (skarpt horn) í þrýstisviðinu. Sömuleiðis má ráða af vindörvum að vindur snúist þegar skilin fara yfir, úr suðaustlægri átt yfir í vestur og þar á eftir í suðvestur. Fjólubláa strikalínan sýnir hvar hiti í 850 hPa-fletinum er -5 stig. Við þá tölu er gjarnan miðað þegar áætla á hvort um snjókomu eða rigningu sé að ræða. Við sjáum að megnið af úrkomusvæðinu er hlýja megin við þessa línu - allt stefnir því í rigningu. - En miklu styttra er í fjólubláu línuna handan skilanna heldur en framan við þau.
Lítum næst á skýjaspá reiknimiðstöðvarinnar fyrir sama tíma.
Myndin sýnir heldur stærra svæði en sú fyrri. Þrýstilínur eru dregnar þéttari en þrýstisviðið er samt það sama. Til auðkenningar hafa skilin verið sett inn sem hvít punktalína. Litafletir sýna ský í mismunandi hæð. Greint er á milli þriggja hæðarbila, háský eru blágræn, miðský rauðbrún og lágský eru blá. Hér flækir málið að hærri ský geta skyggt á lægri. En ef vel er að gáð má átta sig á því.
Fyrir vestan Ísland er fyrst mikil háskýjabreiða - hún nær alla leið til skilanna. Dekkra svæði er skammt vestur af landinu. Þar er mikil miðskýjabreiða á ferð. Inni í henni eru enn dekkri blettir - þar eru bæði miðský og lágský undir háskýjabreiðunni. Allar samsetningarnar koma inn yfir landið í röð og skilin líka - sé að marka spána.
En lítum nú á staðalskilin - myndin er úr hinni ágætu - en höfundalausu - bók Elementary Meteorology sem eyðublaðastofa hennar hátignar bretadrottningar gaf út fyrir um 50 árum. Gagnast hún veðurnördum betur en aðrar byrjendabækur jafnvel enn þann dag í dag.
Ekki alveg einföld mynd við fyrstu sýn - en samt sú besta í boði. Lóðrétti ás myndarinnar sýnir hæð yfir sjávarmáli - nokkurn veginn upp í 10 km hæð. Sá lárétti sýnir fjarlægð, núll er sett þar sem skilin eru við jörð. Stórgerð ör sýnir hreyfistefnu skilanna. Bleiklitaði borðinn sýnir hvernig skilaflöturinn hækkar fram á við (hlýrra loft liggur ofan á kaldara). Af samanburði ásanna sést að halli skilaflatarins er gríðarlega ýktur. Á nútíma vegagerðarmáli er hann aðeins um 1 prósent.
Veðrahvörfin liggja ofan á öllu eins og þak mörkuð sem rauð lína á myndinni. Sjá má að í kringum skilin er bratti þeirra á litlu svæði mun meiri en annars - þar er loft að ryðja sér leið í þröngri stöðu fram á við. Þótt uppstreymið sé býsna öflugt ræður það engan veginn við þann múr sem veðrahvörfin eru.
Frostmark er markað með blárri strikalínu. Að vetrarlagi er það lengstum við jörð í kalda loftinu hægra megin á myndinni en hækkar smám saman og að mun í skilunum. - Þetta eru hitaskil, gætu líka verið svokölluð hlý samskil (æ). Skilin á kortunum að ofan eru merkt sem slík á hefðbundnum veðurkortum.
En þá er komið að skýjategundasyrpunni. Tegundir eru merktar með alþjóðlegum skammstöfunum meginskýjaætta- en þær eru tíu. Af þessum tíu eru átta nefndar á myndinni. Þær tvær sem afgangs eru gætu líka verið þar (klakkaský (cb) og netjuský (ac)). Gúggla má erlendu heitin og birtast þá tenglar á ótal myndir.
Lengst til vinstri er cu (cumulus = bólstrar). Sá bólstri sem lengst er til hægri gæti verið klakkur (cb) - því efri endi hans nær vel upp fyrir frostmarkið.
Síðan bælast bólstrarnir niður í flákaský (sc = stratocumulus). Þau eru að jafnaði mun flatari heldur en bólstraskýin. Hærra á lofti eru klósigar (ci = cirrus). Þeir eru fyrstu merki þess að nú nálgist úrkomusvæði athugunarstað. Klósigar eru erfiður skýjaflokkur - mismunandi merkingar - en hér merkingin nokkuð skýr því skammt á eftir fylgir blika (cs = cirrostratus). Hún er eins og klósigarnir úr ískristöllum - þunn og hvít að sjá. Sól og tungl sjást í gegnum hana og oft fylgja aukasólir og rosabaugar.
Þánæst kemur gráblikan (as = altostratus), gráleit eins og nafnið bendir til. Hún er úr vatnsdropum og sér móta fyrir sól í gegnum hana (engir rosabaugar). Um leið og úrkoma byrjar skiptir gráblikan um nafn og svo lengi sem rignir eða snjóar heitir hún regnþykkni (ns = nimbostratus). Mjög algengt er að undir regnþykkninu séu skýjahrafnar á ferð (st fra = stratus fractus), tætt ský sem berast hratt um himininn í vaxandi vindi.
Hvað er bakvið skilin er misjafnt. Sé um hitaskil að ræða eins og á teikningunni eru þar oft þokuský (st = stratus) eða flákaský (sc). Hátt á lofti má stundum sjá blikuhnoðra (cc = cirrocumulus) af ýmsum gerðum.
En sérhver skil sem nálgast hlíta engum stöðlum - sérstaklega þar sem vindur mótast af fjöllum.
Bólgin hitaskil - í andstöðu við bæld. Í sumum hitaskilum eru nefnilega engin háský og jafnvel ekki miðský heldur. Sumir veðurfræðingar fussa við þessari skiptingu - en einhvern veginn hefur reynst erfitt að drepa hana með öllu. Á erlendum málum heita bólgnu skilin anafront, en hin bælda katafront (reynið að gúggla þau og sjá hvað birtist). Íslensku nöfnin eru bráðabirgðaleppar og detta út um leið og betri birtast. Við höfum samt auga með bældum skilum og sýni sig nægilega gott dæmi má eyða nokkrum örðum í þetta fyrirbrigði.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.7.): 6
- Sl. sólarhring: 203
- Sl. viku: 1802
- Frá upphafi: 2484682
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 1619
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010