Vestanátt í sólarhring - eða tæplega það?

Að morgni laugardags (2. febrúar) fer úrkomusvæði til austurs yfir landið. Aðallægðin er hins vegar vestan Grænlands, harla djúp í dag, föstudag, rétt rúmlega 940 hPa samkvæmt greiningum tölvusetra. Úrkomusvæðinu fylgir hvöss sunnanátt með slyddu og rigningu en á eftir því er suðvestan- og vestanátt sem lítið hefur sést af hérlendis í vetur til þessa. Veðurkortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 síðdegis á laugardag.

w-blogg020213

Veðurkortavanir lesendur sjá strax að hér er úrkomusvæðið komið langleiðina austur af landinu og einnig að þrýstilínur eru fáar og gisnar á eftir því. Vestanáttin er sum sé býsna lin. Illileg og dýpkandi lægð austur af Nýfundnalandi þrýstir á dálítinn hæðarhrygg á undan sér. Þegar hann nálgast þéttast þrýstilínur vestanáttarinnar og vind herðir. Við sjáum líka að það er -5 stiga jafnhitalína 850 hPa-flatarins sem er við vesturströnd Íslands á leið austur. Hún er í þumalputtafræðum talin segja til um skil á milli rigningar og snjókomu. Élin eru því alla vega ekki langt vestur undan - kannski komin þegar staða kortsins er uppi. En vestanáttin fær alla vega eina nótt í þetta sinn.  

Nóttin er varla liðin þegar áhrifa lægðarinnar við Nýfundnaland fer að gæta. Hún á að fara alla leiðina sem rauða örin sýnir á einum sólarhring - fram til kl.18 á sunnudag. Allar spár gera ráð fyrir því að hún fari rétt sunnan við land - og því skilar vestanátt hennar sér varla til Íslands - en norðanátt fylgir í kjölfarið.

Lægðin er býsna grimm - fárviðri er spáð af vestri sunnan við lægðarmiðjuna þegar hún fer framhjá Íslandi. Úrkomuhaus hennar fer hins vegar yfir landið og á þessu stigi málsins er harla óljóst hvort um snjókomu eða rigningu verður að ræða á láglendi, þá í austlægri átt. Til fjalla snjóar örugglega. Ferðalangar fylgist með spám um veðrið síðdegis á sunnudag og áfram.  

Lægðum af þessu tagi fylgir stundum úrkomubakki sem gengur til vestnorðvesturs eða norðvesturs frá lægðarmiðjunni - oftast dreginn sem samskil (æ) á kort. Sunnan svona bakka er vestanáttin oft furðustríð og hríðargjörn. Fyrsta vonin nú er að hann myndist ekki - en til vara - ef hann myndast, að hann haldi sig alfarið fyrir sunnan land.

Svarta örin á myndinni bendir á umfjöllunarefni gærdagsins (fjallastíflur). Þar má sjá afarþéttar þrýstilínur við Alpafjöll sem stífla að mestu rás kaldara lofts að norðan suður til Ítalíu. Þessi staða er svo algeng að maður tekur ekki nema stundum eftir henni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Staða vestanvindanna er sumsé orðin norðlægari og við þar með kominn í skotbraut lægðanna, þar með fara ein og ein að sleppa upp Grænlandssund með tilheyrandi og gamalkunnum útsynningsfjanda, eða hvað?

Umhleypingar, geitungar og önnur nýinnflutt skorkvikindi meiga fara að vara sig!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 2.2.2013 kl. 10:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 59
  • Sl. sólarhring: 158
  • Sl. viku: 1885
  • Frá upphafi: 2353087

Annað

  • Innlit í dag: 54
  • Innlit sl. viku: 1690
  • Gestir í dag: 54
  • IP-tölur í dag: 51

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband