Lægðin hörfar

Nú (seint á mánudagskvöldi) er vindur að snúast til norðurs á landinu því lægðin hörfar til austurs. Hæðarhryggurinn sem fjallað var um í pistlinum í gær leitar á. Við lítum á tvær hitamyndir af svæðinu. Sú fyrri er frá því kl. 1 síðastliðna nótt og sýnir hvernig óstöðugt kalt loft hefur breiðst út yfir Atlantshaf allt frá Kanada í vestri og alla leið til Bretlandseyja.

w-blogg050213a

Útlínur landa eru markaðar með grænum línum. Ísland er ofan við miðja mynd. Þarna er lægðarmiðjan rétt suður eða suðaustur af landinu. Kringum hana hringast skýjabaugur sem er hér farinn að tætast nokkuð. Skemmtilegasta atriði myndarinnar er að hún sýnir vel hvernig lagður flákaskýja myndast í vestanáttinni við strönd Labrador, verður smám saman ljósari og gisnari eftir því sem austar dregur og myndar bólstra og síðan éljaklakka. Mikið uppstreymi er í skýjunum, en niðurstreymi í eyðunum á milli þeirra. Ef grannt er skoðað má sjá hvítan strók rísa upp við Pennínafjöll á Englandi. Þar minna aðstæður oft á Snæfellsnes - þegar gríðarleg vestanátt er á hákambi fjallanna og steypist niður í byggðir austanmegin.

Á mynd frá kl. 22 hefur staðan breyst nokkuð.

w-blogg050213b

Nýtt kerfi úr vestri hefur rutt sér leið inn á svæðið. Aðeins lítill hluti klakkasvæðisins er enn virkur (merktur með B). Élin á heiðum Skotlands og N-Englands hljóta að vera slæm. Lægðin er orðin mun tættari en þó má taka eftir skýjatrossunni sem merkt er C. D bendir á bilið milli kerfanna og A sýnir skarpan jaðar þess.

Næst koma tvö kort - ætluð nördunum - aðrir geta látið þau vera. Þau hafa sést áður á hungurdiskum, en við skulum ekki hafa áhyggjur af merkingunni í smáatriðum - en taka því betur eftir formunum.

w-blogg050213c

Kortin sýna stærra svæði en gervihnattamyndirnar. Bókstafirnir eru settir nokkurn veginn á sömu staði og á myndinni að ofan. Litirnir sýna mættishita í veðrahvörfum í Kelvinstigum (sjá kvarðann til hægri - hann batnar við stækkun). Bláir litir sýna lágan mættishita (lág veðrahvörf) á gulu og brúnu svæðunum eru veðrahvörfin há. Loft er að jafnaði óstöðugt á bláum svæðum, en stöðugt á gulum.

Flest hin merkari atriði myndarinnar sjást á þessu korti. Éljasvæðið (B) er blátt, skýjatrossan (C) við lægðina kemur fram sem grænn litur. Hærri heldur en bláu litirnir í lægðarmiðjunni sjálfri. Hlýja loftið úr nýja kerfinu við A-sem á efri mynd sýndi jaðar skýjakerfisins kemur fram hér sem skörp brún og er að ryðja lægri veðrahvörfum (D) upp.

Við lítum á þessa brún á síðustu myndinni. Hún sýnir vind í 300 hPa-hæð (um 8,5 til 9,5 km) sem venjulegar vindörvar. Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar. Litafletirnir sýna breytingu á vindi næstu þrjár klukkustundir í spásyrpunni.

w-blogg050213d

Hér sést kerfisbrúnin sérlega vel, hún er að ryðjast til austurs, mest er vindhraðaaukningin á fjólubláa svæðinu, meiri en 35 m/s. Loftið streymir ekki aðeins með vindi meðfram jafnhæðarlínunum heldur gengur kerfið allt jafnframt til austurs. Þarna er heimskautaröstin að skransa í krappri beygju og spænir upp veðrahvörfunum á vinstri hönd. Flug reynir að forðast svæði af þessu tagi eins og hægt er. Sé rýnt í smáatriði veðrahvarfakortsins að ofan má sjá lítill brúnan blett rétt innan við meginjaðar beygjunnar. Þar má sjá töluna 355 K - mun hærri heldur en litirnir umhverfis sýna. Hér gæti verið um bylgjubrot að ræða - en líkani og raunveruleika ber alls ekki endilega saman hvað smáatriði sem þetta varðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eitthvað virðist nú lægðin hörfa seint og illa. Enn er hiti vel yfir frostmarki og næstum vorstemmning í lofti!

Og það passar auðvitað við spána því þið veðurfræðingarnir spáðuð norðvestan éljagangi - og lýstu veðrinu í gær, mánudag, sem éljaveðri þó svo að það rigndi víðast hvar.

Hvernig væri nú einu sinn að játa að spáin hafi verið vitlaus - og segja okkur ástæðuna fyrir því?

Hér áður fyrr var oftast byrjað á að lýsa veðrinu og ræða spána frá deginum áður. Nú er látið sem enginn hafi verið gærdagurinn né dagurinn í dag, heldur aðeins morgundagurinn.

Sniðugt auðvitað til að losna við umræðu um ranga spá en frekar lítt upplýsindi fyrir almenning.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 5.2.2013 kl. 08:32

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Enn þarf að taka fram að hungurdiskar gefa ekki út veðurspár.

Trausti Jónsson, 6.2.2013 kl. 01:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 21
  • Sl. sólarhring: 113
  • Sl. viku: 1512
  • Frá upphafi: 2348757

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 1318
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband