Færsluflokkur: Vísindi og fræði
28.1.2013 | 01:01
Austnorðaustan
Nú grynnist lægðin mikla fyrir sunnan land. Djúpum lægðum fylgja krappar beygjur á þrýstilínum og þegar slaknar á þrýstikraftinum tekur tíma að losna við snúninginn sem dettur þá gjarnan í sundur í smáa hvirfla, bæði inni við lægðarmiðjuna sem og utar í námunda við skýjabakkann sem flestir kalla samskil hennar.
Við lítum á mynd sem tekin er á sunnudagskvöldi (27. janúar) kl. rúmlega 21.
Útlínur Íslands eru teiknaðar á kortið. Suður (neðst) af landinu eru litlir sveipir í námunda við lægðarmiðjuna gömlu. Mikið þrumuveður gerði suður af landinu og jafnvel syðst á því líka síðdegis en sá bakki er að mestu úr sögunni.
Lægðarhnútur er fyrir austan land og stefnir til vestsuðvesturs (merkt með ör). Meðan hann fer hjá herðir á vindi og úrkomu yfir landinu norðan og austanverðu - og viðheldur hvassviðri á Vestfjörðum.
Á undan hnútnum er vindur af norðaustri - slær jafnvel í norður en ríkjandi vindátt er samt úr austnorðaustri - langt upp í veðrahvolfið.
Austnorðaustanátt í háloftum er oft erfið viðfangs í veðurspám, veðurkerfi sem berast úr þeirri átt eru gjarnan frekar veigalítil á þrýstikortum og á gervihnattamyndum er erfitt að greina þau. Þrátt fyrir þetta er úrkoma stundum mikli áveðurs auk þess sem vindur leggst í mikla strengi en allgott veður og hægur vindur er á milli.
27.1.2013 | 01:11
Sýndarvor í heiðhvolfinu
Hitabylgjan í heiðhvolfinu er ekki alveg búin - en þar er þó allt að róast og orðið furðu vorlegt að sjá. Fróðlegt verður að fylgjast með framhaldinu. Eftir heiðhvolfsumfjöllunina er smápistill um stöðu dagsins í lægðamálum. Kortið hér að neðan er spá bandarísku veðurstofunnar um hæð og hita í 30 hPa-fletinum og gildir kl. 12 á hádegi á sunnudag (27. janúar).
Daufar útlínur landa á norðurhveli sjást í bakgrunni, Ísland rétt neðan við miðja mynd í litlum hæðarhrygg milli tveggja lægða. Kaldast á kortinu er lítið svæði yfir Bandaríkjunum sunnanverðum þar sem frostið er um -70 stig, en hlýjast um -45 stig yfir Baffinslandi, 25 stiga munur.
Við skulum rifja upp kort sem birtist á hungurdiskum 2. janúar. Þar má sjá eitthvað sem nálgast eðlilegt ástand árstímans. Að vísu er hlýnunin byrjuð yfir Austur-Asíu þar sem hæsti hiti er um -30 stig.
Á fjólubláa svæðinu á þessu korti er frostið meira en -82 stig. Munur á hlýjasta og kaldasta stað er rúmlega 50 stig. Það sem venjulega ræður mestu um hita í heiðhvolfinu er geislunarjafnvægi. Það fer annars vegar eftir sólarhæð og (og lengd dagsins) en síðan ræður ósonmagn miklu. Það grípur geisla sólar. Sólarlaust er á norðurslóðum í skammdeginu og þá kólnar smám saman vegna varmataps út í geiminn. Svo kalt getur orðið að ósonið helst ekki við og eyðing þess verður hraðari en myndun.
Þá myndast mikill kuldapollur - sá sem við sjáum á myndinni frá 2. janúar með gríðarhvössum vindi allt umhverfis. Miðja hans er venjulega í mikilli lægð ekki fjarri norðurskauti svipað og á myndinni. Bylgjubrot í veðrahvolfinu getur borist upp í heiðhvolfið og sett þar allt úr skorðum. Þetta var að gerast í kringum áramótin. Eftir rúma viku komst á jafnvægi að nokkru eftir að lægðin mikla skiptist í tvennt. Nú eru þær lægðir að brotna niður og hæðar- og vindasvið verða flatari, jafnvel þannig að minni á ástandið sem venjulega ríkir í apríl.
Nú er spurningin hvernig fer með þetta. Er of áliðið vetrar til að hringrásin jafni sig? Eða nær hún sér upp aftur? Við gefum því auga á næstu vikum.
Lægðin mikla suður í hafi hegðaði sér að mestu eins og spáð var. Ekki er algjört samkomulag um það hversu djúp hún varð nákvæmlega - en alla vega rétt neðan við 930 hPa - kannski 926. Það tekur svæðið nokkra daga að jafna sig. Við erum réttu megin á svæðinu þannig að hér gerist trúlega ekki mikið - hægt minnkandi vindur og kólnandi veður.
En sprengilægðaflaninu er ekki alveg lokið á suðurjaðri svæðisins. Við lítum á mynd sem fengin er af vef kanadísku veðurstofunnar (Environment Canada).
Við sjáum Ísland gægjast undan textaborðanum efst á myndinni. Nýfundnaland er til vinstri. Hér tákna gulir og brúnir litir mjög köld og háreist ský. Í kringum lægðina miklu suður af landinu eru gríðarlegir skúraflókar - sennilega munu þar myndast nokkrar smálægðir.
Suður af Nýfundnalandi er ný lægð á hraðri leið til austnorðausturs í stefnu á Skotland. Örin bendir á fremur veigalítið hlýtt færiband lægðarinnar. Hausinn, skýjaskjöldurinn norður af lægðarmiðjunni er efnismeiri - en hér þrískiptur.
Klukkan 18 í dag (laugardag) var þrýstingur í lægðarmiðju talinn 994 hPa, á morgun (sunnudag) kl. 18 er honum spáð í 959 hPa. Þetta er 34 hPa dýpkun á sólarhring - að vísu mun minna en ofurlægðirnar þrjár sýndu í liðinni viku - en nær samt að kallast sprengja á ameríska vísu. Til að fá þann merkimiða þurfa lægðir að dýpka um 24 hPa á sólarhring eða meira.
En hiksti á að koma í lægðina þegar hún ekur fram á hringrás þeirrar stóru undir röngu horni. Það verður seint á sunnudagskvöldi.
Evrópureiknimiðstöðin gerir nú ráð fyrir því að búið verði að hreinsa upp hratið sunnan Íslands og vestan Bretlandseyja á fimmtudagskvöld og þá verði nýr stór kuldapollur yfir Kanada tilbúinn til Atlantshafsátaka.
26.1.2013 | 01:40
Nærri því - en ekki alveg
Lægðin mikla suður í hafi heldur sínu rosastriki. Spár segja enn (seint á föstudagskvöldi 25. janúar) að miðjuþrýstingur hennar fari niður fyrir 930 hPa. Sjálf lægðarmiðjan kemst aldrei nærri Íslandi en kerfið hreinsar til í kringum sig og gefur kalda loftinu við Norðaustur-Grænland tækifæri til að sýna sig eftir að vinsamlegar fyrirstöðuhæðir hafa haldið því í skefjum um skeið. Við lítum á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á hádegi á laugardag.
Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting, úrkomu og loks hita í 850 hPa. Erfitt er að sjá hvort það er talan 926 eða 928 sem færð er inn við lægðarmiðjuna - en kortið batnar mjög við stækkun. Þarna er lægðin varla byrjuð að hafa bein áhrif hér á landi, hins vegar eru tveir nokkuð snarpir vindstrengir við landið.
Annar þeirra (merktur með rauðri tölu, 1) er á milli Vestfjarða og Grænlands. Hann hefur enga beina tengingu við lægðina - en þarna er suðurjaðar kalda loftsins á ferð. Þarna eru 15 til 20 m/s og jafnvel meira á stóru svæði. Vestan við Ísland er vindur mun hægari en annar vindstrengur heldur mjóslegnari (merktur sem 2) er við Suðurland. Þar fór smálægð til vesturs á föstudagskvöld og aðfaranótt laugardags og olli snjókomu.
Þar fyrir sunnan er vindur aftur mun hægari þar til komið er í mikla austanátt á undan skilum lægðarinnar miklu (merkt sem 3). Þessi vindstrengur er búinn að slíta sig frá kreppuhringnum óða umhverfis lægðarmiðjuna. Það þýðir að lægðin hefur náð fullum styrk - gæti orðið eitthvað lítillega dýpri en hún fer síðan að grynnast.
Það sem gerist næst er að vindstrengur þrjú fer til norðurs í átt til landsins - við sleppum ekki alveg við lægðina. Væri kalda loftið ekki að þvælast fyrir myndi strengurinn fara norður fyrir land og afskaplega blíð austlæg átt fylgdi í kjölfarið hér um slóðir. En kalda loftið gefur sig lítið - þannig að vindstrengirnir þrír sameinast í einn breiðan (sem Ísland teygir eitthvað til).
Næsta kort gildir á hádegi á sunnudag - sólarhring síðar en kortið að ofan.
Hér hefur lægðin grynnst upp í 938 hPa. Kreppuhringurinn er enn býsna öflugur en töluvert bil er á milli hans og Íslands. Nú er spurning hvernig vindstrengurinn sem sjá má yfir Íslandi (þrýstilínurnar eru þéttar) kemur til með að leggja sig. Ekki skal um það fjallað hér.
Sömuleiðis er ekki ljóst hver hitinn verður - þykktin spáir frostleysu um mestallt land. En kalda loftið norðurundan er býsna öflugt og gæti blandast suður yfir mestallt landið í neðri lögum. Ef úrkoma er að ráði kælir hún líka niður að frostmarki. En það á auðvitað að fylgjast með spám Veðurstofunnar í þeim efnum.
Á kortinu má sjá illilega lægð austur af Nýfundnalandi. Hún verður ekki nærri því eins djúp og sú fyrri en miðar mjög ógnandi á Bretlandseyjar. Aðrar tvær eiga að fylgja á eftir síðar í vikunni.
Við lítum að lokum á 500 hPa hæðar- og þykktargreiningu reiknimiðstöðvarinnar á hádegi í dag (föstudag).
Heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins en litirnir þykktina. Kortið batnar mjög við stækkun. Við höfum að undanförnu fylgst með kuldapollinum Stóra-Bola í líki mikillar fjólublárrar klessu yfir Kanada. Nú er sá litur horfinn. Kaldasta loftið hefur sturtast út yfir Atlantshaf undanfarna viku og orðið að með afbrigðum góðu fóðri fyrir þrjár hraðvaxandi ofurlægðir. Kalda loftið sem eftir er er enn að streyma til austurs og fóðrar Bretlandsógnirnar þrjár. Rauða örin bendir á riðabylgju stóru lægðarinnar í dag.
Á kortinu er hringrásarmiðja kuldapollsins komin út yfir Atlantshaf austur af Labrador. Hún mun grynnast og þokast til austurs og verndar þar með okkur fyrir árásum úr suðvestri - nýjar lægðir ganga ekki þvert í gegnum kuldapolla heldur til hliðar við þá. Bretlandsógnirnar draga ellimóðan Stóra-Bola með sér - smáspöl hver þeirra uns hann hverfur í eina bylgjuna.
Nýr kuldapollur sem líka heitir Stóri Boli er á kortinu að plaga norðurströnd Alaska og slóðir Vilhjálms Stefánssonar á Banks-eyju. Hann mun síðar breiða úr sér og taka sæti þess fyrra - þó gerir evrópureiknimiðstöðin ekki ráð fyrir því að hann verði jafnöflugur það sem séð verður (7 til 10 dagar). En við bíðum í spennu - eins og venjulega.
Takið eftir því að kuldapollurinn yfir Síberíu (Síberíu-Blesi) hefur einnig misst fjólubláa litinn að mestu. Er veturinn eitthvað að tapa sér?
25.1.2013 | 01:21
Mesta sprengjan? - En í sæmilegri fjarlægð
Nú tekur þriðja ofurlægð vikunnar flugið undan austurströnd Bandaríkjanna og stefnir til norðausturs. Henni er spáð sjaldgæfri dýpt, evrópureiknimiðstöðin stakk í kvöld (fimmtudaginn 24. janúar) upp á 925 hPa í lægðarmiðju kl. 6 á laugardagsmorgun. Þá á lægðin að hafa dýpkað um 60 hPa á einum sólarhring og nærri 40 hPa á 12 klst.
Stundum líða mörg ár á milli svona djúpra lægða hér við norðanvert Atlantshaf. Þrýstingur hér á landi hefur aðeins sárasjaldan farið niður fyrir 930 hPa frá því að mælingar hófust. Nú er það auðvitað svo að ekki er víst að lægðin verði í raun alveg svona djúp - en líklega verður lægsta talan samt um eða undir 930 hPa.
Enn fáum við tækifæri til að sjá lægðina dýpka á stöðugleikakorti evrópureiknimiðstöðvarinnar - það ætti að fara að verða kunnuglegt föstum lesendum.
Við sjáum Nýfundnaland til lengst til vinstri á myndinni. Kortið gildir kl. 18 síðdegis á föstudag (25. janúar). Heildregnu línurnar sýna þrýstingur við sjávarmál. Lægðarmiðjan er hér um 963 hPa djúp. Á rauðu og brúnu svæðunum er stöðugleiki lítill, en á grænu svæðunum er hann mikill. Tölurnar eru mál fyrir stöðugleikann, háar tölur sýna að hann er hár, en lágar að hann sé lítill.
Pínulítill fjólublár blettur er inni við lægðarmiðjuna, þar er stöðugleikinn minnstur og veðrahvörfin lægst. Við sjáum hvernig lág veðrahvörf (brúnn litur) breiðast til suðausturs í breiðum boga. Nákvæmlega Þar sem hann mætir fleyg af röku lofti (sem í þessu tilviki er hlýi geiri lægðarkerfisins) á mesta dýpkunin sér stað. Veðrahvörfin stinga sér þar niður og undir í mjórri trekt, við það magnast snúningur í kerfinu gríðarlega og fárviðri geisar í kringum miðjuna.
Þetta er spákort bresku veðurstofunnar sem gildir á sama tíma og kortið að ofan. Hér er lægðin talin vera 959 hPa (í líkani þeirra). Hlýi geiri lægðarinnar (sá ytri) þekur nokkurn veginn sama svæði og raki fleygurinn þekur á litakortinu að ofan. Aðalatriði myndarinnar (framsókn veðrahvarfanna) sést hvergi og hefði þó mátt teikna hann sem háloftakuldaskil (svipað og sundurslitnu hitaskilin framan við lægðina á kortinu). Æ.
Á litakortinu að ofan bendir ör einnig á skarpa brún efst á kortinu. Þetta er útjaðar kerfisins og eru þar einnig grófgerðir atburðir. Útstreymisloft (loft rís upp í lægðum og streymir fram og til hliðar) ryðst þar undir veðrahvörfin og lyftir þeim snögglega. Mikil ókyrrð (sem flugvélar eiga að forðast) er oftast í kringum ruðning af þessu tagi. Hvort það verður í þetta sinn skal látið ósagt.
En lítum loks á tvö spákort. Hið fyrra sýnir lægðina eins og henni er spáð í dýpstu stöðu kl. 6 á laugardagsmorgun - óvenjuleg tala, 925 hPa.
Hitt spákortið sýnir líka mjög óvenjulega tölu. Hún birtist í spánni fyrir miðnætti á föstudagskvöld.
Litirnir sýna loftþrýstibreytingar á þremur klukkustundum. Á hvíta svæðinu sem örin bendir á hefur fallið sprengt litakvarðann - enda er ástandið mjög óvenjulegt. Þrýstingur hefur fallið um 31,3 hPa á þremur klukkustundum. Svo ákaft hefur þrýstingur aldrei fallið svo vitað sé hér á landi. Vitað er um eitt þrýstiris sem er meira. Þrýstingur steig um 33,0 hPa á Dalatanga 25. janúar 1949, gildandi íslandsmet í þrýstirisi.
Hér á landi er ris yfir 20 hPa / 3 klst algengara en ámóta fall.
Lægðin fer að hafa áhrif hér á landi síðdegis á laugardag með vaxandi austanátt en verður þá farin að grynnast. Spár gera síðan ráð fyrir því að hún þokist til austurs fyrir sunnan land og vindur snúist þá til norðausturs.
24.1.2013 | 01:32
Þorrahiti í Reykjavík 1949 til 2012 (og fréttir af stöðunni)
Gamla íslenska tímatalið hjarir enn, sumardagurinn fyrsti er enn á sínum stað þótt ýmsir vilji leggja hann af eða flytja til. Væri ekki bara fínt að halda upp á nýjársdag annan janúar?
En látum nöldur eiga sig að sinni og lítum á hitafar á þorra í Reykjavík frá 1949 til 2012.
Lóðrétti ásinn sýnir meðalhita á þorra, frá bóndadegi til þorraþræls, sá lárétti markar árin. Þorrinn byrjar alltaf á föstudegi og endar á laugardegi - misgengi er því á milli dagsetninga hins venjulega almanaksárs gregorstímatals og þess íslenska svo skeikað getur viku. Til lengri tíma litið fer misræmið þó ekki úr böndunum vegna þess að aukaviku er skotið inn í íslenska tímatalið á u.þ.b. sjö ára fresti og gregorsárið leggur fram hlaupársdaginn af sinni hálfu. Dagar að baki meðaltalsins á línuritinu fylgja þorranum eins og hann færist til frá ári til árs.
Á myndinni vekja athygli hinir gríðarlega hlýju þorramánuðir 1964, 1965 og 1967. Eini nýlegi þorrinn sem blandar sér í keppnina um þann hlýjasta er 2006. Meðaltal nýju aldarinnar er þó hátt miðað við undangengna kalda áratugi.
En það er erfitt að sleppa stöðu dagsins og lítum á hana í skyndi.
Þetta er hitamynd af vef Veðurstofunnar frá miðnætti á miðvikudagskvöldi 23. janúar. Hér er sprengilægð dagsins búin að hringa sig upp skammt sunnan Grænlands. En mikill skýjabakki gengur út úr henni til austurs og síðan suðurs og suðvesturs. Við sjáum merkimiða háloftavindrastar í gríðarskarpri hvítri brún skýjabakkans - þar hlýtt færiband nýrrar lægðar.
Nýmyndunin er meira að segja búin að koma sér upp svonefndum haus sem einkennir vaxandi lægðakerfi. En skyldi eitthvað verða úr þessu?
Svarið sést að nokkru leyti á myndinni að neðan sem er í flokki þeirra sem við höfum litið á undanfarna daga. Hún sýnir sumsé lóðréttan stöðugleika í veðrahvolfi (litafletir) og sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur) og gildir á miðnætti, þ.e. á sama tíma og gervihnattarmyndin.
Við sjáum raka fleyginn vel - er e.t.v. ekki alveg orðinn að eiginlegum fleyg heldur er hann frekar eins og tunga. En hér eru engin lág veðrahvörf í nánd - lítið verður því úr þessu, - þótt lægð myndist.
Við bíðum hins vegar spennt eftir næstu stórlægðinni, e.t.v. þeirri mestu í þessari syrpu. Evrópureiknimiðstöðin segir hana munu dýpka um 62 hPa á sólarhring þegar mest verður - það hlýtur að vera nærri meti á þessum slóðum. [Misminnið rámar þó í 70]. Við eigum víst að sleppa að mestu.
En fullsnemmt er að fjalla nánar um þessa nýju lægð - því hún er ekki orðin til. Einu sjáanlegu merkin nú felast í lítilli bylgju sem er á suðausturleið yfir Minnesotaríki.
Kortið sýnir ástandið í 500 hPa um miðnætti á miðvikudagskvöld. Litir sýna þykktina, því lægri sem hún er því kaldara er loftið. Fjólublái liturinn markar svæði þar sem þykktin er minni en 4920 metrar. Lægðardragið er merkt með ör og fylgir það jaðri kuldapollsins til móts við sinn hlýja fleyg sem á að birtast þegar dragið kemst til austurstrandar Bandaríkjanna á fimmtudagskvöld.
Athugasemd 26. janúar: Smávilla leyndist í þorralínuritinu, bætt hefur verið úr því.
Vísindi og fræði | Breytt 26.1.2013 kl. 01:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.1.2013 | 01:12
Enn ein sprengilægðin (og fleiri verða þær í syrpunni)
Sprengilægð er ekki gott orð og verður að biðjast afsökunar á notkun þess í fyrirsögn - en þetta er hrá (eða lítt soðin) þýðing á enska heitinu bomb, sem orðasafn bandaríska veðurfræðifélagsins skilgreinir um það bil svona:
Lágþrýstisvæði (utan hitabeltis) sem dýpkar um meir en 24 hPa á einum sólarhring (meir en 1 hPa/klst að jafnaði). Skilgreiningin kom fyrst fram opinberlega í grein sem þeir Frederic Sanders og John R. Gyakum birtu í tímaritinu Monthly Weather Review 1980 [180, s.1589 til 1606]. Greinin á að vera opin á netinu. Taka má eftir því að í illþýðanlegri fyrirsögn hennar er orðið bomb haft í gæsalöppum - enda subbulegt. Það sló samt í gegn í enskumælandi löndum og víðar.
En hvað um það. Um helgina fjölluðu hungurdiskar um kröftuga lægð sem aldeilis féll undir þessa skilgreiningu, Hún dýpkaði um 53 hPa á einum sólarhring, 40 hPa á 12 klukkustundum og 15 á þremur klukkustundum. Sömuleiðis var fjallað um nokkur einkenni lægðadýpkunar af þessu tagi. Nú er ný lægð á svipuðum slóðum - ekki alveg jafn öflug - og rétt að hamra á að minnsta kosti einu einkennisatriði.
Við lítum á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um stöðugleika veðrahvolfsins og gildir hún kl. 9 á miðvikudagsmorgni, 23. janúar.
Ef vel er að gáð sjást útlínur Íslands efst í hægra horni kortsins og Nýfundnaland er vinstra megin við miðju þess. Hér er fleygur lágra veðrahvarfa að ganga til austurs á móts við fleyg af röku og hlýju lofti. Þetta er hin kröftuga blanda. Fjólublái liturinn sýnir svæði þar sem mættishiti veðrahvarfanna er lægri heldur en mættishiti í 850 hPa yrði - ef allur raki þess þéttist (dulvarmi loftsins losnaði). Kort þetta hefur þann kost að hér sjást bæði þessi mikilvægu atriði sprengjuuppskriftarinnar í sjónhendingu.
Lægðarmiðjan er samkvæmt spánni um 963 hPa á þessum tímapunkti en á korti sem gildir klukkan 18 er hún komin niður í 952 hPa, hefur dýpkað um 11 hPa á 9 klukkustundum - En mesta 24 klukkustundadýpkunin er samkvæmt spánni 37 hPa, vel inni á sprengjusvæðinu.
Gríðarlegur vindur fylgir - litlu minni en var í helgarlægðinni. Í 850 hPa má sjá 55 m/s þar sem mest er.
Þetta kort gildir klukkan 21 á miðvikudagskvöld og sýnir það hæð 850 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Vindur er sýndur á hefðbundinn hátt með vindörvum og lituðu svæðin sýna lágskreið hitahvörf - þar á meðal skilasvæði. Lægðin grynnist nokkuð ört eftir þetta en spár benda til þess að úrkomusvæði hennar nái alveg til landsins um síðir - trúlega síðdegis á fimmtudag.
Fleiri sprengjur eru að taka mið, jafnvel fleiri en ein. Ástand sem þetta er í boði kuldapollsins mikla yfir Kanada (Stóra-Bola) en hann sendir hvert kuldaskotið á fætur öðru út yfir hlýtt Atlantshafið um þessar mundir.
22.1.2013 | 01:18
Af hræringum á norðurhveli (rétt enn og aftur)
Það ætlar að verða erfitt að slíta sig frá norðurhvelsstöðunni því svo stórgerð er staðan. Hungurdiskar eru því enn við það sama.
Lítum á venjubundið norðurhvelskort 500 hPa-flatarins. Jafnhæðarlínur eru svartar og merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar), því þéttari sem þær eru því meiri er háloftavindurinn. Þykktin er hér sýnd með litaflötum, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin á milli grænu og bláu tónanna er við 5280 metra - meðaltal janúarmánaðar hér á landi er um 5240 metrar.
Kortið gildir kl. 12 á miðvikudag, 23. janúar 2012 og er úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar.
Ísland er undir hvítu örinni rétt neðan við miðja mynd. Myndin skýrist mjög við stækkun (smellt). Fyrst eru það aðalatriðin. Heimskautaröstin er nú í suðlægri stöðu, gróflega þar sem svarti hringurinn er á myndinni. Þar er vestanátt ríkjandi. Á heimskautaslóðum er víða austanátt, hér gróflega merkt með hvítum hring - og ör.
Þegar mikið er um austanáttir í háloftum á norðurslóðum er sagt að AO-fyrirbrigðið sé í neikvæðri stöðu. AO er skammstöfun fyrir alþjóðaheitið Arctic Oscillation - vandræði eru að finna hentuga íslenska þýðingu. Hrá þýðing væri norðurslóðasveiflan - þótt það gangi alveg er ritstjórinn ekki ánægður. Mjög margir erlendir veður- og loftslagsfræðingar eru ekki heldur ánægðir með að kalla þetta sveiflu (oscillation) því það veldur endalausum misskilningi - alveg eins og sveifla á íslensku. Á ensku búa menn jafnframt við þau óþægindi að 90 ára hefð er fyrir notkun sveifluhugtaksins og því sérlega erfitt að losna við það. Ritstjóranum er um og ó að hleypa sveifluskrímslinu lausu á íslensku - vegna þess að einhvers staðar liggur betra íslenskt orð í felum - bíður þess aðeins að verða vakið.
En AO-fyrirbrigðið er - sem hugtak - innan við 20 ára gamalt. Í sinni hreinustu merkingu á það við ástand í heiðhvolfinu, talið jákvætt þegar vestanátt ríkir þar, en neikvætt í áttleysu eða austlægum áttum. Fljótlega var farið að nota það líka um ástand í efri hluta veðrahvolfs - þegar röstin er sunnarlega rétt eins og nú. Ekkert er út á þá notkun að setja.
En lítum nú á hluta myndarinnar hér að ofan (batnar ekki svo mjög við stækkun).
Ísland er hér til hliðar við miðja mynd. Þar er fyrirstöðuhæðin góða enn fyrir austan land, en lægðardrög sækja hægt og bítandi til norðausturs í átt til okkar úr suðvestri. Rauða örin suðvestur í hafi bendir á lægðabylgju sem gæti haft það af að koma úrkomusvæði hingað eftir nokkra daga. Við sjáum vel að í bylgjunni er talsvert misgengi þykktar- og hæðarflata, hlý tunga stingur sér inn til lægri þrýstiflata. Þegar þetta kort gildir er þrýstingur í lægðarmiðju við sjávarmál um 963 hPa og á að fara niður í um 950 hPa þegar lægðin verður við Suður-Grænland.
Þessi bylgja er eina misfellan á öllum suðurjaðri hringrásarinnar í kringum Stóra-Bola, allt vestur til Klettafjalla en þar bendir rauð ör á bylgju þar sem það öfuga á sér stað - kalt loft stingur sér undir til hærri þrýstiflatar. Allt misgengi af þessu tagi er líklegt til afleiðinga.
Lægðin krappa og djúpa sem var fjallað hér um um helgina varð til þegar lágur þrýstiflötur gekk til móts við háa þykkt. Við skulum enn hamra á því að lág veðrahvörf fylgja lágri stöðu þrýstiflata. Sé loftið rakt sem sækir á móti auðveldar það innstungu hlýja loftsins, einfaldlega vegna þess að í dulvarma þess er falin dulinn þykktarauki sem afhjúpast í dulvarmalosun í uppstreymi.
Kuldapollurinn Stóri-Boli verpti stóru eggi sem tók með sér hluta hans út yfir Atlantshaf. Á kortinu hér að ofan hefur hann ekki alveg jafnað sig - það sjáum við af því að lægðarmiðjan (hvítt L við strönd Labrador) er ekki í miðju kuldans (fjólubláa svæðið). Á næstu dögum heldur kuldinn áfram að streyma út yfir Atlantshaf svo ótt og títt að fjólubláa svæðið á að hverfa á rúmum sólarhring frá gildistíma þessa korts talið. Þá er hætt við því að önnur rosalægð myndist yfir Atlantshafinu næstu dagana á eftir. Of langt er þó í það til að hægt sé um að tala.
Norður undir pól er lítill fjólublár blettur - næsti Stóri-Boli. Hann færist í aukana næstu daga, hreyfist suður og tekur trúlega við af þeim fyrri. Einnig er rétt að benda á fyrirstöðuhæð ekki þar fjarri - hún er býsna öflug þótt blálituð sé. Flöturinn liggur þar í yfir 5460 metrum í miðju. Mikill kuldi undir öflugri háloftahæð táknar háan sjávarmálsþrýsting - í þessu tilviki er hann yfir 1060 hPa - ekki mjög algeng tala nema helst yfir Síberíu.
Af heiðhvolfinu er það að frétta að hlýnunaratburðinum mikla er ekki lokið, ójafnvægi er enn mikið. En það nægir að líta á það vikulega.
21.1.2013 | 00:23
Nokkra daga að jafna sig
Veðrakerfi yfir N-Atlantshafi taka nú fáeina daga í að jafna sig á lægðinni miklu sem hungurdiskar hafa fjallað um í síðustu tveimur pistlum. Lægðin grynnkar óðfluga, ruðningur er enn á köldu lofti í átt til vesturstrandar Evrópu en lítið virðist gerast í námunda við Ísland.
Kortið að neðan sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum um hádegi á morgun, mánudag (21. janúar).
Jafnhæðarlínur eru heildregnar og sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Þykktin er sýnd með rauðum strikalínum, því meiri sem hún er því hlýrri er neðri hluti veðrahvolfs.
Blá ör bendir á 516 dam jafnþykktarlínuna en hún hringar sig í kringum háloftalægðina - og svæði suður af henni. Það er fremur óvenjulegt að svona kalt loft nái suður á þessar slóðir úr vestri (frekar úr norðri). Það er komið yfir Norður-Atlantshafsstrauminn (Golfstrauminn) og hitar yfirborð sjávar nú loftið baki brotnu. Líkanið segir að ekki verði búið að útrýma svæðinu innan við 516 dam línuna fyrr en kl. 6 á þriðjudagsmorgun. Gríðarlegir skúra- og éljaklakkar fylgja kalda loftinu og má búast við illri færð á spænskum og jafnvel Portúgölskum heiðum og í fjallaskörðum næstu daga.
Ísland er hér áfram verndað af fyrirstöðuhæð fyrir austan land - hún er ekki sterk en dugar samt í nokkra daga til viðbótar. Grábleiku svæðin sýna iðuhámörk - iðan er hér mest í löngum borðum sem ekki hreyfast mikið. Við látum frekari umfjöllun um þá bíða betri tíma (eða sleppa þeim alveg).
Þó er skemmtilegt að minnast á það að næsti borði sem berst til Íslands á samkvæmt líkaninu að koma frá Danmörku, þar sem ör bendir á hann. Hann á að renna til norðvesturs meðfram hæðinni og koma upp að landinu á þriðjudag - kannski bætir í úrkomu suðaustanlands - kannski gerist nákvæmlega ekki neitt.
En góður skammtur af kulda er enn yfir Kanada og leitar til austurs. Næsta meginlægð á að verða eitthvað minni en sú síðasta - en síðan fylgja fleiri í kjölfarið.
20.1.2013 | 01:57
Úthafslægðin djúpa - stefnumótið
Í gær var fjallað hér um gríðarlega djúpa og krappa lægð sem þá var að myndast langt suðvestur í hafi (og nær ekki hingað). Nú hefur dýpkunin átt sér stað og ástæða til að líta á stöðuna - eða öllu heldur eitt smáatriði hennar - sem er reyndar aðalatriðið. Lægðin dýpkaði um 53 hPa á einum sólarhring og 40 hPa á 12 klukkustundum - það gerist ekki öllu svakalegra.
En fyrst er mjög falleg innrauð gervihnattamynd frá noaa (bandarísku veðurstofunni) sem tekin var um kl. hálfellefu í kvöld (laugardag 19. janúar 2013).
Lægðarmiðjan er á 55°N og 30°V og er orðin hægfara - fer þó fyrst í norður en síðan til norðvesturs, vesturs og suðvesturs. Miklir éljaklakkar eru í vestanofviðrinu sunnan við lægðina en veðrið er þó verst í slóðanum rétt suður og suðaustur af hringrásarmiðjunni, þar er örugglega fárviðri. Þessi slóði er oft kallaður broddur eða stingur lægðarinnar eða að talað er um lægðarsnúðinn.
Við sjáum að skýjabakkinn austan við miðjuna er tvískiptur - fremst fara mjög háreist (hvít) ský þar sem aðalúrkoman er en á eftir fylgir grátt svæði lægri skýja. Þar er jafnvel rof í skýjahuluna. Við svipaðar aðstæður yfir Suðvesturlandi ályktar maður jafnvel að nú hljóti kuldaskilin að hafa farið yfir - en svo er þó ekki - ofsafenginn landsynningurinn heldur áfram af fullum krafti.
Kuldaskilin (eða samskilin ef slíkt á við) fara síðar yfir. Þetta eru þó skrýtin kuldaskil að því leyti að niðurstreymisloft ofan úr efri hluta veðrahvolfs ryðst yfir og klippir efri hluta þeirra frá neðrihlutanum. Kuldaskilin eru því komin lengra uppi en niðri. Hvernig má það vera? Jú, niðurstreymisloftið að ofan er enn hlýrra heldur en loftið í hinum eiginlega hlýja geira lægðarinnar. Sé það aðeins lítillega hlýrra getur loftið orðið verulega óstöðugt og þrumuveður myndast.
En lægðin og dýpkun hennar orsakast af ákveðnu stefnumóti sem við skulum nú líta á - fyrir nördin. Aðrir eru sjálfsagt hættir að lesa fyrir löngu. Það þarf nokkra reynslu til að lesa úr kortum eins og hér eru sýnd - en við einbeitum okkur aðeins að einu atriði - látum önnur ekki trufla.
Litavalið minnir á 100 ára gamalt málverk - sem ritstjórinn hefur séð en kemur ekki alveg fyrir sig. Horfum nú rólega á kortið sem er úr safni evrópureiknimiðstöðvarinnar. Það er m.a. gert til að gera á stefnumót af því tagi sem við fjöllum um sýnilegt. Gráar línur eru þrýstingur við sjávarmál (venjulegt veðurkort). Mjóslegin ör bendir á lægðarmiðjuna eins og hún var um kl. 9 á laugardagsmorgni. Þrýstingur í lægðarmiðju er um 976 hPa.
Litirnir ráðast af tvennu, annars vegar mættishita veðrahvarfanna og rakainnihaldi (dulvarma) í 850 hPa - látum smáatriðin eiga sig. Á grænu svæðunum eru veðrahvörfin há en rauðu og brúnu svæðin tákna annað hvort að veðrahvörfin séu lág - eða þá að dulvarmi í 850 hPa sé mikill. Smáreynslu þarf til að greina þetta að. Svo vill til að það er auðvelt í tilviki því sem við erum að skoða.
Bókstafurinn K og örin sem frá honum liggur benda á svæði þar sem kalt loft er að ryðjast áfram. Ofan á því liggja mjög lág veðrahvörf - ruðningur lágra veðrahvarfa er hættulegur. Bókstafurinn R og ör hans benda hins vegar á svæði þar sem dulvarmi er mikill. Við gætum sagt að R-svæðið sé hlýr geiri lægðarinnar. Hér eru veðrahvörfin há.
Á næstu kortum er bent á nákvæmlega sömu atriði - við fylgjumst bara með þeim en skiptum okkur ekki af neinu öðru á kortunum - sama hversu athyglisvert það er.
Hér er klukkan orðin 12 á hádegi (aðeins þrír tímar hafa liðið). Við sjáum að örvarendarnir hafa nálgast og lægðin hefur dýpkað um 9 hPa. Kaldi fleygurinn er eins og brattur veggur.
Hér er klukkan orðin 15 og sprengingin á sér stað, raka loftið og veðrahvörfin lágu snertast, liturinn verður blár. Ofsafenginn snúningur verður til. Lægðin hefur dýpkað um 15 hPa á aðeins 3 klukkustundum.
Kl. 18 eru veðrahvörfin lágu að hringa lægðarmiðjuna sem nú er orðin 943 hPa. Í þessu tilviki skiptir framsókn lágra og þar með kaldra veðrahvarfa trúlega meira máli heldur en rakinn í hlýja loftinu en það var ekki sérlega hlýtt. Lægðin heldur fullum styrk í hálfan sólarhring en grynnist síðan.
Já, blái liturinn yfir Spáni. Það voru þrumuveður hans sem töfðu þar lestarferðir handboltalandsliðsins. En hegðan veðrahvarfanna er ekki ofsafengin á þeim slóðum eins og úti á Atlantshafinu í dag. Rakinn skiptir meira máli heldur en veðrahvörfin - þótt þau séu reyndar óvenju lág yfir Spáni á kortinu, örmjór fingur merktur 720 hPa var yfir Barselóna - vonandi meiddist enginn.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 02:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.1.2013 | 01:44
Allt í fjarska (sæmilega öruggri fjarlægð)
Nú ryðst gríðarkalt loft frá Labrador út yfir Atlantshaf í fáeinum gusum. Séu spár réttar munu þar myndast nokkrar mjög djúpar og krappar lægðir næstu vikuna. Sú fyrsta í syrpunni á að ná hámarksstyrk á laugardagskvöld (19. janúar). Lítum á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir seint um kvöldið.
Jafnþrýstilínur eru svartar, strikalínur sýna hita í 850 hPa og litafletir úrkomu. Þetta kort skýrist mjög við stækkun. Gríðarkröpp 941 hPa lægð er rétt neðan við miðju kortsins. Hún er í hámarksafli. Yfir Labradorströnd má sjá -35 stiga jafnhitalínuna í 850 hPa og -5 stiga línan nær hálfa leið yfir Atlantshaf. Henni er spáð allt til Írlandsstranda um hádegi á mánudag og keppir þar við kulda úr hinni áttinni. Það er ábyggilega ekki mjög algengt að svona kalt sé í hreinni vestanátt á Írlandi - nærri því að maður trúi þessu varlega.
Einnig má sjá illviðri yfir Miðjarðarhafi. En Ísland er undir mildri suðaustanátt í jaðri fyrirstöðuhæðar - gæðajaðri (fyrir okkur).
Lægðarmiðjan á í þessu tilviki að berast rólega til norðurs og síðan norðvesturs - langt frá okkur en býr samt til eins konar undiröldu í lofthjúpnum sem berst til allra átta - aðallega til austurs en líka norður til Íslands. Þá herðir og dofnar á suðaustan- eða austanáttinni á víxl. Fleiri ámóta eða litlu minni lægðir munu síðan fara svipaða leið næstu viku til tíu daga - en engin þó nákvæmlega þá sömu. Ráðlegt er að trúa spám varlega marga daga fram í tímann.
Nú tekur nördasvæðið við.
Við lítum á fáein kort til viðbótar. Þau sýna öll ákveðna þætti lægðarinnar og eru klippt úr stærri kortum - batna því ekki mjög við stækkun.
Hér fer mynd af lægðarmiðjunni, eins og hún er í 850 hPa fletinum. Við getum sagt að gulu fletirnir sýni skil lægðarinnar. Jafnhæðarlínur eru svartar, sú innsta um 840 metrar. Vindörvarnar sýna gríðarmikinn vind. Hann er 100 hnútar (50 m/s) eða meira á svæði suðvestan við lægðarmiðjuna og er svipaður í 925 hPa-fletinum líka en sá flötur er í aðeins 130 m hæð í miðju lægðarinnar. Eins gott að þetta er allt yfir reginhafi.
Næsta kort sýnir aðstæður í 700 hPa.
Jafnhæðarlínur eru svartar. Vindörvar sýna vindinn. Hann er ekki eins mikill þarna uppi í um 2500 metra hæð og hann er neðar. Litafletirnir sýna rakastig, á gráu svæðunum er það yfir 70%, en á þeim brúngulu er það minna en 15% og minna en 5% á þeim dekkstu þeirra. Svo þurrt verður loft ekki nema að það komi að ofan, hátt úr lofti, jafnvel nærri veðrahvörfum. Rauðu og bláu tölurnar sýna upp- og niðurstreymi - við sleppum þeim núna og eins rauðu strikalínunum. Þessi þurri niðurdráttur er oft kallaður þurra rifan í huglíkani sem kennt er við færibönd og hungurdiskar hafa fjallað um fyrir alllöngu. Hann er nærri því fastur liður í ört dýpkandi förulægðum og er tengdur (jæja - látum þær málalengingar bíða).
Svo eru það veðrahvörfin. Hin einu og sönnu eru mjög sjaldan sýnd á kortum en í staðinn er notast við fulltrúa þeirra - nærri því eins. Hann köllum við aflveðrahvörf(e. dynamic tropopause) í subbulegri hagkvæmni. Munur á þessum tveim bragðtegundum veðrahvarfa er yfirleitt ekki teljandi og hungurdiskar greina langoftast ekki á milli - en þar sem mikill niðurdráttur er á veðrahvörfunum greinast tegundirnar tvær að - en allt þetta er aukaatriði.
Við lítum á (afl-)veðrahvörf á tveimur kortum. Það fyrra sýnir þrýstihæð þeirra - og gildir kl. 18 á laugardagskvöldi 19. janúar.
Á bláu svæðunum eru þau í yfir 250 hPa hæð, meir en 10 kílómetrum, á þeim grænu er hæð veðrahvarfanna um 8 kílómetrar, innan við 5 á dökkbrúnu svæðunum, síðan springur kvarði kortsins (viljandi) og talan 954 er sú lægsta sem líkanið sér. En - þetta er við sjávarmál, þrýstingur það er að sögn líkansins innan við 950 hPa. Ritstjórinn hættir sér ekki út í frekari vangaveltur - en skemmtilegt er dæmið.
Hitt veðrahvarfakortið sýnir mættishitann í þeim - þann hita sem loft fengi væri það dregið er niður að sjávarmáli.
Tölurnar eru Kelvinstig (K = C° + 273), þær sýna að mættishiti í kalda loftinu (blátt) er innan við 290 K (17°C), neðri talan sýnir aðeins 6°C. Já, þetta er mjög kalt og kalda loftið er um það bil að hringa lægðarmiðjuna. Gulu fletirnir sýna mun hærri hita og þar með hærri veðrahvörf, 329 K = 56°C - alvanalegt á svæðinu. Inni í lægðarmiðjunni sést hins vegar talan 400 K = 127°C. Ástæða merkingarinnar er sú að líkanið finnur veðrahvörfin ekki (enda neðan sjávarmáls? samkvæmt því sjálfu). Þá er gripið til örþrifaráða og stokkið upp í 96 hPa og leitað þaðan niður á við - þá finnast stundum efri veðrahvörfin. Þetta virðist hafa verið gert hér - (skrýtið, en örþrifaráð er örþrifaráð).
Annars sjást þetta háar tölur alloft á korti þessarar gerðar - í bylgjubroti yfir fjöllum eða í námunda við háloftavindrastir í skrensi (þær skransa líka í kröppum beygjum - rétt eins og bílar). En þetta dæmi er sérlega stílhreint.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.5.): 75
- Sl. sólarhring: 337
- Sl. viku: 2084
- Frá upphafi: 2466773
Annað
- Innlit í dag: 72
- Innlit sl. viku: 1931
- Gestir í dag: 71
- IP-tölur í dag: 67
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010