Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Kuldapollinum loksins bægt frá

Þegar þetta er skrifað (á fimmtudagskvöldi 7.mars) er enn allhvasst víða um land - sérstaklega við suðurströndina. Sömuleiðis er enn talsverð úrkoma á Suður- og Vesturlandi. Veðrið gengur þó jafnt og þétt niður. Kuldapollinum stóra hefur loks verið bægt frá - alla vega í bili. En enn er þó ekki komið vor á norðurslóðum.

Við lítum fyrst á norðurhvelsspá fyrir laugardaginn 9. mars, en síðan eru fáein orð um illviðri miðvikudagsins.

w-blogg080313a

Hér er orðin mikil breyting. Enn ein fyrirstöðuhæðin situr á kortinu yfir Íslandi og langt er í stóru kuldapollana - gott ef þeir eru ekki líka aðeins farnir að rýrna. Kuldastroka er að fara suður um Skandinavíu og hluti hennar á að koma við sögu á Bretlandi og í Frakklandi eftir helgina - jafnvel á Spáni. Sömuleiðis á lægðin sem á kortinu er yfir suðvestanverðum Bandaríkjunum eftir að valda leiðindum á leið sinni til austurs - en það er ekki fullráðið.

Fyrirstaðan yfir Íslandi á að haldast hér í nokkra daga - en ekki er ótrúlegt að einhver kaldari norðanátt komi í kjölfar hennar þótt ekki verði um nærri því eins kalt loft að ræða og það sem heimsótti okkur í upphafi þessarar viku.

Um það hefur verið fjallað að hríðin sem setti allt höfuðborgarsvæðið og marga aðra landshluta á hliðina á miðvikudag hafi verið óvenjuleg á ýmsa lund. Á uppfærðum reykjavíkurhríðalista  á vef Veðurstofunnar má sjá að hríð hefur ekki verið jafnlangvinn þar síðan 28. október 2005.

Það veður var reyndar mun mildara en miðvikudagsveðrið - rigning breyttist í snjó og því skóf minna þá heldur en nú. Reyndar er þessi lýsing í atburðaannál: Miklar umferðartruflanir vegna snjókomu, m.a. á höfuðborgarsvæðinu og í Vestmannaeyjum. Á síðarnefnda staðnum fuku bárujárnsplötur af íbúðarhúsi. Strætisvagn fauk af vegi á Kjalarnesi og járnplötur losnuðu á húsum í Keflavík.

Og rúmum sólarhring síðar hélt hríðin áfram: Yfir þrjátíu bílar festust í mikilli hríð við Hvammstangavegamót á Norðurlandsvegi. Tengivagn fauk út af vegi við Skorholtsbrekku í Leirársveit og lenti ofan á fólksbifreið utan vegar, ökumaður hennar slapp fyrir tilviljun við skrámur. Þetta hljóta allmargir að muna.

En ámóta blinda - eða jafnvel enn meiri því meira snjóaði - varð 11. febrúar árið 2000. Þá var allt í köku í Reykjavík. Vindur var þá af suðvestri og trúlega hafa skaflarnir þá ekki verið á sömu stöðum og nú. Í atburðaannál stendur í skeytastíl: Allar samgöngur lömuðust á Suður- og Suðvesturlandi í óvenju snörpum hríðarbyl. Ringulreið ríkti um tíma. Aðeins hálfum mánuði síðar varð annar eftirminnilegur hríðaratburður (ekki þó í bænum): Björgunarsveitir fluttu um 1500 manns til byggða í hríðarbyl á Þrengslavegi. Aðallega var um fólk að ræða sem hafði farið að líta á Heklugos.

En nörd ættu að líta á listann. - Sem bónus fyrir lesendur hungurdiska má í viðhenginu finna lista um hríðarathuganir í Reykjavík 1935 til 1948 - hefur hann aldrei birst áður.

Miðvikudagsveðrið var talið óvenjulegt að því leyti hvað víða snjóaði á landinu. Það er alveg satt, en séu athugnanir taldar og hlutföll reiknuð kemur í ljós að snjókoman er í 35. útbreiðslusæti á lista sem aftur til 1949 (miðað við allan sólarhringinn). Ekki var þó hvasst í öllum tilvikunum ofar á listanum - og því ekki um raunverulega keppni að ræða.

En sé hins vegar litið á skyggnið - eða öllu heldur vont skyggni - kemur miðvikudagurinn betur (eða verr) út, því hann lendir í þriðja sæti, á eftir 29. janúar 1966 og 5. janúar 1949. En á miðvikudaginn var skyggni ekki aðeins slæmt vegna snjókomu. Sums staðar sunnanlands þar sem bylurinn var ekki tiltakanlega dimmur var dimmt af öskufoki og ef til vill hefur það haldið skyggninu niðri hér suðvestanlands eftir að draga fór úr úrkomunni.

Ritstjórinn þurfti að moka bifreið sína úr skafli í dag (fimmtudag). Þá kom greinilega í ljós að snjórinn var sérlega skítugur - en aðeins efstu 10 cm í skaflinum - neðar var hann skjannahvítur. Askan (eða moldin) hefur skilað sér alveg til Reykjavíkur síðdegis. Á þetta var einnig bent í athugasemdum við pistil gærdagsins - þökk fyrir það Helga og Ómar. Sömuleiðis var málið rætt undir hádegisverði í matstofu Veðurstofunnar (þar er líka talað).


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Óvenjulegt veðurkerfi

Hríðarbylurinn sem gekk yfir landið í dag (miðvikudaginn 6. mars) er óvenjulegur. Það er t.d. ekki algengt að hríðarveður standi svo lengi í Reykjavík, meir en 3 athugunartíma samfleytt (meir en 9 klukkustundir - en minna en 12).  Þótt austanbyljir séu ekki svo fátíðir í Reykjavík standa þeir yfirleitt ekki nema í 3 til 5 tíma. Allmikið frost hélst allan tímann sem bylurinn stóð og þegar þetta er skrifað um miðnætti byldaginn er ekki hægt að segja að veðrinu sé lokið - þótt úrkomulítið sé.

Ef við notum sömu skilgreiningu og notuð er í fróðleikspistli á vef Veðurstofunnar, (tíðni hríðarveðra) finnum við 425 hríðarathuganir í Reykjavík frá 1949 að telja. Af þeim falla 177 (42%) á áttir milli norðurs og austsuðausturs eins og bylurinn í dag. Býsna fjölbreyttar veðuraðstæður eru þá uppi en auðvitað engar nákvæmlega þær sömu og voru í dag.

En við skulum ekki velta okkur of mikið upp úr því en líta á þrýstikort sem sýnir líka mættishita í 850 hPa.

w-blogg070313a

Enga lægð er að sjá nærri landinu. Þrýstilínur eru gríðarþéttar bæði yfir landinu vestanverðu sem og á Grænlandshafi. Hlýja bylgjan (lægðardragið) gengur vestur og mun um síðir mynda lokaða lægð á suðvestanverðu Grænlandshafi. Áhöld eru um hvort hlýja loftið kemst norðar en kortið sýnir. Ef trúa má líkaninu er mættishiti í 850 hPa hæð milli 6 og 8 stig á smábletti yfir Rangárvallasýslu á kortinu. Hiti fór reyndar í dag yfir 6 stig í hvassviðrinu við Markarfljótsbrú.

Þegar staða sem þessi kemur upp er oftast suðvestanátt yfir nyrsta hluta hlýja svæðisins - og þannig var það nú. Það sem var óvenjulegt í dag er að uppi í 5 kílómetra hæð var hæðarbeygja á vindinum - þar var hæðarhryggur - en ekki lægðardrag eins og algengast er. Þessu veldur væntanlega kuldapollurinn mikli sem við lentum í jaðrinum á. Hann tekur fast á móti - mun fastar í neðri lögum en þeim efri.

Vonandi fer veðrinu að slota - en þó segja spár að vindur eigi að þrjóskast við og eru ekkert allt of bjartsýnar með hitann heldur. Úrkoman í þessu óvenjulega veðurkerfi er varla heldur alveg búin.


Hlýrra loft sækir að - en gengur hægt

Í dag biðu veðurnörd spennt eftir því hvort tækist að halda deginum hreinum - frost yrði um land allt allan sólarhringinn. Það gerðist aldrei allt árið 2012 og síðast 9. desember 2011. Furðulangt er á milli daga af þessu tagi - aðeins dagur og dagur á stangli. Vafasamt er að kenna veðurfarsbreytingum um þessa hætti - Ísland er þrátt fyrir allt umkringt hlýju hafi og auk þess ögrum skorið. [Og veðurstöðvar á útnesjum og eyjum margar].

En morgundagurinn verður varla alveg eins kaldur því hlýrra loft sækir að landinu sunnanverðu - það gengur þó ekki greiðlega. Við lítum á sjávarmálskort sem gildir um hádegi á morgun (miðvikudaginn 6. mars).

w-blogg060313

Jafnþrýstilínur eru heildregnar, jafnþykktarlínur eru strikaðar en litafletir sýna þrýstibreytingu síðustu þrjár klukkustundirnar fyrir gildistíma kortsins (það er milli kl. 9 og 12). Rauði liturinn táknar svæði þar sem þrýstingurinn hefur fallið meira en 1 hPa en blár að þar hafi þrýstingur stigið um 1 hPa eða meira. Fallið er ákafast (-4,6 hPa) á smábletti um 200 kílómetra suðvestur af Reykjanesi. Þar eru allskörp skil á milli fallandi og rísandi þrýstings. Ætli sé ekki óhætt að setja niður einhver skilamerki eftir markalínunni.

Örin stóra sýnir hreyfingu mesta þrýstifallsins á tveimur sólarhringum. Ekki er þetta mikil færsla á veðurkerfinu. Það hreyfðist nokkuð ákveðið í norður í dag, þriðjudag, en sveigir þvínæst snögglega til vesturs. Enda stendur mjög öflug hæð (1044 hPa) við Norðaustur-Grænland fast á móti.

Það sem við hér sjáum er lægðardrag - lokuð lægð sést ekki á þessu korti. En þetta er samt lægðarkerfi með lægðarhringrás. Hringrásin dylst í hreyfingu sinni. Austanátt svæðisins felur vestanáttina sunnan við „lægðarmiðjuna“.

Mikill úrkomuhnútur fylgir lægðardraginu um það bil þar sem beygjan á þrýstilínunum er hvað mest. Svo virðist sem landið muni sleppa við mestu úrkomuákefðina - en samt muni snjóa á landinu. Þegar flestir eru að lesa þetta (á miðvikudegi) hefur þegar komið í ljós hversu víða og hversu mikið snjóar. Hvort gert hefur hríðarveður eða hvort þetta er bara eitthvað kusk.

En þegar byrjar að snjóa í þurrafrosti gufar fyrsta úrkoman upp á leiðinni niður úr skýjunum og gufunin kælir loftið. Þess vegna getur þá kólnað áður en fer að snjóa og jafnvel fyrst eftir að snjókoma byrjar - þrátt fyrir að hlýrra loft streymi að. Það dregur hins vegar úr kólnun þegar snjókoman er komin á fullt skrið. Þá fær hlýja aðstreymið rými þar til að nægilega hlýnar fram til þess að snjókornin fara að bráðna. Þá kemur aftur hik á hlýnunina - meðan bráðnunarkólnunar gætir. Enn meira af hlýju lofti þarf til að komast út úr því.

Nú er auðvitað spurningin hvernig fer að þessu sinni. Brotnar þessi hlýja bylgja á kuldapollinum?


Kuldinn í hámarki

Kuldakastið nær hámarki á morgun, þriðjudag. Hér er átt við kulda í neðri hluta veðrahvolfs yfir landinu, en ekki frost eða vind á einstökum veðurstöðvum. Frostið á ábyggilega eftir að herða víða um land loksins þegar vindur gengur niður. - Ef hlýrra hvassviðri grípur ekki boltann áður. 

Satt best að segja líta næstu dagar ekkert vel út - en þó er hlýrra loft að ná vopnum sínum aftur suður af landinu eftir niðurlægingu dagsins í dag (mánudag). Við lítum fyrst á kort sem sýnir hæð 925 hPa flatarins, vind í honum og hita á hádegi á þriðjudag (5. mars).

w-blogg050313a

Heildregnu línurnar sýna hæð flatarins í dekametrum ( 1 dam = 10 metrar). Línan sem liggur næst Reykjavík sýnir 740 metra, nærri því  uppi á Esjunni. Litafletir sýna hitann og markar fjólublái liturinn það svæði þar sem hann er lægri en -16 stig. Eftir þetta á að draga úr fyrirferð kuldans.

Hefðbundnar vindörvar sýna vindhraða og stefnu (kortið batnar mjög við stækkun). Vindhraðinn í kringum landið er víðast í kringum 20 m/s - sýnist heldur minni við Norðausturland. Hálendið stingur sér upp í flötinn og þar er því lítið að marka vindhraðann sem sýndur er. Fyrir sunnan land má sjá smákrók á þrýsti- og jafnhitalínum, en annar og stærri krókur er að verða til í suðurjaðri kortsins (sést ekki hér).

Kort sem sýnir þykktina (heildregnar línur) og sömuleiðis hita í 850 hPa (litafletir) sýnir efnislega það sama - en við skulum samt líta á það - ágætt að leggja í minnið til maríneringar.

w-blogg050313b

Þetta kort gildir líka um hádegi á þriðjudag. Þykktin við norðvesturbrún Vestfjarða er aðeins 4900 metrar. Nokkuð ískyggilegt en hún er nokkru meiri yfir miðju landi og suðaustanlands er hún um 5080 metrar. Það þýðir frost er um allt land meira eða minna allan sólarhringinn - skýst e.t.v. rétt uppfyrir um hádaginn ef sól nær að skína sunnan jökla - já, það fer að muna um hækkandi sól. Það er þó aðallegs sjórinn sem sér um að hita loftið að neðan. Greining evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir að skyn- og dulvarmaflæði frá sjó til lofts er samtals yfir 1200 Wöttum á fermetra fyrir vestan land.

Taka má eftir því að myndin sýnir að í kuldapollinum miðjum er þykktin innan við 4840 metra. Það er allsendis hræðilega kalt. En köldu svæðin dragast lítillega saman fram á miðvikudag. Bæði munar um yl sjávarins og að auki nálgast hlýrra loft úr suðri.

Næst er annað 925 hPa kort. Það gildir um hádegi á miðvikudag - degi síðar en fyrsta kortið.

w-blogg050313c

Hér sjáum við að hlý tota hefur stungið sér til norðurs langleiðina til Íslands. Þegar hér er komið er hún um það bil í sinni nyrstu stöðu og farin að beygja af til vesturs. Það gerist með þeim ákafa að græna svæðið milli gula litarins og þeirra bláu er orðið að örmjórri rönd á Grænlandshafi.

Þessari aðsókn fylgja töluverð átök og sjást þau best á vindhraðanum en hann er á bilinu 25 til 30 m/s á allstóru svæði sunnan við land - og aftur hefur bætt talsvert í vind undan öllu Vesturlandi. Við skulum til enn meira gamans líta á mættishita í 850 hPa og sjávarmálsþrýsting á sama tíma. Mættishitinn sýnir hversu hlýtt loft í 850 hPa-fletinum yrði ef tækist að ná því óblönduðu niður að sjávarmáli.

w-blogg050313s

Kortið nær yfir nokkuð stærra svæði en 925 hPa-kortið að ofan. Hér sést hlýja tungan mjög vel og að mættishiti er yfir frostmarki á allstóru svæði yfir landinu sunnanverðu. Ekki er útilokað að einhverju slái niður. En aðalóvissan samfara þessari hlýju aðsókn fellst í úrkomunni á Suðurlandi. Reiknilíkan amerísku veðurstofunnar spáir hríð á höfuðborgarsvæðinu á miðvikudaginn með 15 cm snjósöfnun. Aðrar reiknimiðstöðvar eru talsvert hógværari í úrkomuspám. Það kemur í ljós.

Enga lokaða lægðarmiðju er að sjá á kortinu (heildregnar línur sýna sjávarmálsþrýsting). Nú er spurning hvernig skýjakerfið sem fylgir lægðardraginu kemur til með að líta út. Kannski fáum við að sjá lægð án þrýstimiðju?


Norðaustanáttin breiðist yfir allt landið

Norðaustanáttin kalda og hvassa breiðist yfir allt landið, er þegar búin að leggja Vestfirði undir sig (seint á sunnudagskvöldi) og að komast suður á Snæfellsnes. Eftir sólarhring eða svo verður allt landið undir. Neðst í pistlinum má sjá Íslandskort sem gildir á miðnætti að kvöldi sunnudags.

Þegar létti til um tíma í dag (sunnudag) tók kuldinn ákveðið forskot á sæluna í hægviðrinu og hiti hrapaði niður vegna útgeislunar á varma. Klukkan 23 var t.d. -12 stiga frost á Húsafelli - þrátt fyrir að hið formlega kuldakast væri ekki byrjað. Á allmörgum stöðvum mun kastið því byrja með því að hiti hækkar um slatta af stigum. Dálítið skrýtið ekki satt?

Það einkennir mjög hvöss kuldaköst að kaldast er þá á fjöllum þar sem uppstreymi nýtur sín - í hægviðri er aftur á móti kaldast þar sem logn er á sléttum á hálendinu eða jafnvel niður í byggð.

Í pistli gærdagsins var litið á sjávarmálsþrýstikort sem náði yfir allar norðurslóðir. Þar ríkir nú risastórt háþrýstisvæði. Við lítum á það aftur nema hvað kortið hér að neðan gildir rúmum sólarhring síðar en það sem sýnt var í gær, á hádegi á þriðjudag. Þá á fyrsti hluti kuldakastsins að vera í hámarki hér á landi.

w-blogg040313a

Útlínur Íslands sjást vonandi neðan við miðju kortsins. Bretland er inni í gulbrúna svæðinu niðri til hægri á myndinni. Það sem er skemmtilegast á þessari mynd er vindstrengurinn (einkennist af þéttum jafnþrýstilínum) sem nær allt frá Norður-Alaska (efst til vinstri) framhjá hæðinni og síðan suður frá Svalbarða meðfram Austur-Grænlandi, til Íslands og þaðan áfram suður að Nýfundnalandi. Þrýstikerfi á norðurslóðum gerast varla mikið umfangsmeiri. Fjólublái liturinn táknar hér -25 stiga frost eða meira í 850 hPa - við liggur að það nái til Íslands á þriðjudaginn.

Á nokkrum stöðum á leiðinni frá Svalbarða og suður fyrir Ísland má sjá smáhnúta eða lægðardrög þar sem vindur er í lægðarbeygju - vottar fyrir lægðahringrás. Þessir hnútar geta gerst skemmtilegir ef heimskautalægðir (æ) holdgerast í þeim. Ekki meir um það að sinni.

En ofan á þessari risastóru hæðarhringrás liggja kuldapollar - og í þeim er alltaf lægðahringrás. Norðurhvelskortið að neðan sýnir þetta. Hér eru jafnhæðarlínur heildregnar og þykktin er sýnd með litaflötum. Kortið batnar við stækkun. Athugið að það sýnir mun stærra svæði heldur en kortið að ofan.

w-blogg040313b

Ísland er rétt við neðsta hvíta L-ið í jaðri fjólubláa svæðisins (stækka má kortið mjög til bóta). Hér táknar sá litur þykkt neðan við 4920 metra. Hún snertir Ísland á myndinni, geri hún það í raun og veru á þriðjudaginn telst það óvenjulegt. En margir mislitir borðar liggja yfir Ísland, þar er  mikill þykktarbratti í háloftunum og sérlega eftirtektarvert að vindur er úr suðvestri. Ritstjórinn kallar það öfugsniða  þegar vindur blæs úr andstæðum áttum neðst í veðrahvolfi og í því miðju. Sé vindurinn úr suðvestri eða vestri uppi en austri eða norðaustri niðri heitir það hornriði- sem var alþekkt orð meðal veðurspámanna fyrri tíðar - að minnsta kosti frá 18. öld og fram eftir þeirri 20. Synd að það sé að týnast. Rétt er að geta þess að orðið var einnig notað um ákveðið sjólag sunnanlands (austanbrim).

Hér er að lokum Íslandskort sem gildir á miðnætti á sunnudagskvöld. Þar sést smálægð yfir Hvammsfirði á leið suðsuðaustur. Norðaustanstrengurinn er norðvestan við hana og breiðir sig yfir landið eftir því sem lægðin kemst lengra suður. Takið eftir hitatölum (ofan við og til vinstri við stöðvarmerkin).

w-blogg040313c

Myndin er fengin af vef Veðurstofunnar og eru lesendur hvattir til þess að nota tækifærið og fylgjast með hreyfingu lægðarinnar. Hvort hún lifir suðurferðina af eða breytist í lægðardrag verður hægt að sjá á að morgni mánudags. Hvert kort lifir á vefsíðunni  í rúman sólarhring.

 


Fréttir af kuldakastinu - risahæð ræður ríkjum

Það má nú heita fullvíst að kalt verður næstu daga og sömuleiðis hvasst. Þegar þetta er skrifað (á laugardagskvöldi) virðist kastið eiga að byrja á Vestfjörðum norðanverðum, breiðast til suðausturs og ná til landsins alls á um það bil 36 klukkustundum. Þetta er langur tími miðað við vindhraðann sem er spáð að verði almennt á bilinu 18 til 23 m/s. Það eru um það bil 60 til 80 km/klst og kemst sá vindur um landið þvert frá norðvestri til suðausturs á 6 til 8 klukkustundum. Þetta þýðir auðvitað að vindur blæs að mestu þvert á hreyfistefnuna, frá norðaustri til suðvesturs.

Það er verst hvað kólnar mikið. Evrópureiknimiðstöðin segir að þykktin eigi að fara niður fyrir 4940 metra á Vestfjörðum á þriðjudag. Í þumalfingursfræðum jafngildir þetta um -15 stiga frosti. Það er mikið í hvössum vindi. Líklega verður ekki svo kalt meðan vindurinn er þetta mikill, oftast fara reiknilíkön of neðarlega með þykktina í stöðu sem þessari. Varmaflutningur frá sjó til lofts er gjarnan vanmetinn - en reiknimiðstöðin segir hann þó verða 1000 til 1500 Wött á fermetra þar sem mest er milli Vestfjarða og Grænlands í upphafi kastsins. Við bíðum eftir rauntölum hita og þykktar.

Sjávarmálsþrýstikort af norðurslóðum er býsna merkilegt - lítum á það eins og reiknimiðstöðin spáir kl. 06 á mánudagsmorgun (4. mars).

w-blogg030313a

Jafnþrýstilínur eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri vinds er að vænta. Litafletir sýna hita í 850 hPa-fletinum. Á fjólubláu svæðunum er frostið meira en -25 stig. Við sjáum sannkallað línuhneppi yfir Íslandi norðvestanverðu - illviðrið okkar. Risastór hæð nær yfir stóra hluta kortsins, 1056 hPa í miðju. Dýpstu lægðirnar sem sjást eru langt frá okkur og sérlega grunnar - 994 hPa í lægðarmiðjum. Er vorsvipur kominn á kortið?

Ekki gott að sjá hvernig hægt er að losna við þessa hæð. Hún er þó ekki alveg jafn föst í sessi og halda mætti því ofan við hana eru stóru kuldapollarnir og vindakerfi sem gætu sullast með hana og aflagað.

En lítum betur á svæðið við Ísland. Fyrst ástandið í 925 hPa-fletinum sem er þegar kortið gildir í um 680 metra hæð yfir Reykjavík. Þetta er á sama tíma og kortið að ofan, klukkan 6 á mánudagsmorgni.

w-blogg030313b

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, hiti er sýndur með litaflötum og vindur með hefðbundnum vindörvum. Kvarðinn batnar að mun sé kortið stækkað. Hér er smálægð við Suðvesturland, á sunnudagsmorgni á hún að hafa verið fyrir norðan land og örin sýnir hreyfinguna síðan. Ekki er alveg hægt að treysta þessu smáatriði sem lægðin er. En norðaustanveðrið fylgir samt í kjölfar hennar - eða lægðardrags án lægðarmiðju sem færi sömu leið. Þarna táknar fjólublái liturinn -16 stiga frost. Vindur er enn hægur suðaustan við línu sem liggur frá Reykjanesi norðaustur á Langanes. Norðvestan línunnar er vindur 20 til 30 m/s´- takið eftir því.

Næsta kort sýnir 500 hPa-flötinn á sama tíma.

w-blogg030313c

Hér er sama táknmál nema hvað litakvarðinn er annar, fjólublátt byrjar við -42 stig. Lægðarmiðjan er hér norðar en neðar miðað við fyrra kort og hreyfist til suðurs fram á sama tíma á þriðjudag. Hér á að taka sérstaklega eftir því hvað vindur er mikill suðaustan við línuna frá Reykjanesi til Langaness, suðvestan 20 til 30 m/s. Norðvestan við línuna (þar sem vindur er mestur í 925 hPa) er vindur hægur og vindátt breytileg. Vindröstin uppi hefur misst tengsl við vindinn í neðri hluta veðrahvolfs. Veðrið okkar er lágrastarveður.

Hvað síðan gerist látum við eiga sig að sinni - ýmislegt skemmtilegt getur átt sér stað í kerfinu þegar það er komið suður fyrir land og þar með létt okkur lundina í norðanbálinu og leiðindunum sem því fylgir.

Við skulum þó líta á eitt kort til viðbótar (í uppeldisskyni auðvitað). Það er eins og þau fyrri nema að við förum alveg upp í 300 hPa.

w-blogg030313d

Jafnhæðarlínan sem liggur yfir Reykjavík sýnir 8580 metra. Við erum nærri veðrahvörfum. Þarna er kaldast norður af Færeyjum (-58 stiga frost) en hlýjast á Grænlandshafi fyrir vestan Ísland (um -46 stiga frost). Hlýjast er þar sem kuldaframrásin neðar er hvað mest. Þegar kalt loft kemur í stað hlýrra falla veðrahvörfin (kalda loftið er fyrirferðarminna) og loftið hlýnar í niðurstreyminu. Kuldinn við Færeyjar stafar af því að þar eru veðrahvörfin að lyftast (hlýtt loft í framsókn) og loftið kólnar við að rísa.

Bláa svæðið er á leið austur - í kjölfarið dragast heldur lægri veðrahvörf inn á svæðið í staðinn - vindur verður við það vestlægari. Þar sem hreyfingin er býsna samsíða vindinum eru áhrifin ekki mikil. Hlýi bletturinn og lág veðrahvörf hans hreyfist hins vegar í suður - þvert á vindinn. Við þetta snýst vindurinn austan við blettinn meira til suðurs. Vindátt við Ísland verður því enn suðlægari í veðrahvarfahæð. Ekki gott að segja hvað verður úr því og reyndar ómögulegt að segja nema með mikilli aðstoð ofurtölva reiknimiðstöðvanna. Evrópureiknimiðstöðin segir vaðandi sunnanátt verða yfir Íslandi á miðvikudag. Skyldi sú spá rætast? Tekur kalda loftið á móti?

Átökin halda áfram. Munið samt að leita að alvöruspám á vef Veðurstofunnar og annarra tilþessbærra aðila og munið að hungurdiskar spá ekki veðri - en fjalla þónokkuð um veðurspár.


Kuldinn kemur (vonandi stendur hann stutt við)

Þessi pistill er ennframhald á umfjöllun um barmafullt lægðardrag á leið austur. Enn er óvissa um niðursláttinn austan Grænlands. Við skulum ekki velta okkur mikið upp úr því sem ekki er hægt að ráða í - það verður bara að koma í ljós.

Allar spár eru sammála um að lægð myndast á Grænlandshafi eða Grænlandssundi á laugardag og að hún muni hafa hægt um sig fram á sunnudagsmorgun. Lægðin er ekki djúp - lægðardragið er barmafullt af köldu lofti - en hún hefur hátt í 1050 hPa hæð yfir Grænlandi vestanverðu sem bakhjarl. Hæðin er að skjóta rúmlega 1040 hPa anga suður með Norðaustur-Grænlandi. Það þarf í sjálfu sér ekki djúpar lægðir til að valda illviðri.

Lítum á kort sem gildir klukkan 9 á sunnudaginn (3. mars).

w-blogg020313a

Þetta kort er reiknað með hirlam-líkaninu á dönsku veðurstofunni. Heildregnar línur sýna sjávarmálsþrýsting, litafletir úrkomu og strikalínur hita í 850 hPa. Við sjáum lægð rétt fyrir norðan land. Evrópureiknimiðstöðin og ameríska veðurstofan greina einnig frá þessari lægð á sama tíma en smáatriðin eru önnur. Hluti lægðarinnar teygir sig austur, en evrópureiknimiðstöðin mjakar vesturhlutanum til suðvesturs þegar á daginn líður - um Húnaflóa og síðan Snæfellsnes eða Faxaflóa. Ekki skulum við treysta þeim smáatriðum.

Norðvestan og norðan við lægðarmiðjuna (hvar sem hún svo verður) er jökulkaldur norðaustanstormur með hríðarveðri. Ekki er hægt að rekja framhaldið frekar - við gerum það ef til vill síðar þegar nær dregur og meiri nákvæmni er að vænta.

Lægðir eins og þessi minna á svokallaðar heimskautalægðir (æ-æ-æ) - aðallega vegna þess að þær eru frekar litlar. Sömuleiðis er orkuflæði frá sjó í þessari norðaustanátt gríðarmikið - eins og þegar heimskautalægðir eru gangsettar. Hér er þó ekki (enn) um heimskautalægð að ræða - alla vega ekki hjá okkur sem óska snyrtilegrar umgengni við hugtakið. Það útilokar þó ekki að einhver slík birtist síðar í vikunni.  

En samhengisins vegna skulum við einnig líta á 500 hPa hæðar- og þykktarkort sem gildir á sama tíma og kortið að ofan. Næsta málsgrein er þung undir tönn og geta flestir sleppt henni sér að skaðlausu (en nördin ekki).

w-blogg020313b

Jafnhæðarlínur eru heildregnar og jafnþykktarlínur eru rauðstrikaðar, tölur eru í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Línurnar liggja gríðarþétt um Ísland - það er 5040 metra jafnþykktarlínan við Vestfirði sem örin bendir á. Þetta er alvöru vetrarþykkt, en 5280 metra línan liggur um landið Suðaustanvert. Munurinn er 240 metrar. Það samsvarar um það bil 12°C - en líka 30 hPa. Vegna þess hversu jafnhæðarlínurnar eru líka þéttar (og hallast í sömu átt) er ekki mikill vindur yfir landinu en hann vex að mun þegar háloftalægðarmiðjan þokast nær. Þá gisnar hæðarsviðið hraðar heldur en þykktarsviðið. Vindhraði næstu daga ræðst af samspili sviðanna tveggja (eins og langoftast).

Annars ættu hungurdiskar líka að fjalla um hlýindin í vetur. Þau eru komin á mjög óvenjulegt stig. Janúar og febrúar saman eru þeir hlýjustu sem þekktir eru um stóran hluta landsins. Febrúar var nærri alls staðar í öðru til fjórða hlýindasætinu. Alþjóðlegi veðurveturinn, desember til febrúar er við það að vera sá hlýjasti á Suður- og Vesturlandi. Frekar svalur desember norðaustanlands kippir honum lítillega niður á við í samkeppninni þar um slóðir.

Svo kemur þetta kuldakast. Hvað verður úr marshitanum vitum við ekki - en hann verður samt varla til þess að halda vetrinum okkar (desember til mars) í fyrsta sæti hlýindavetra. Það munar um tveggja til fimm daga kuldakast (kannski lengra - það vitum við ekki).


Barmafulla lægðardragið nálgast

Reiknimiðstöðvar eru enn ósammála innbyrðis auk þess að vera sífellt að stilla sig af eða hreinlega skipta um skoðun varðandi lægðardragið sem nálgast úr vestri. Því skal ekki leynt að veðurnördið í ritstjóranum hefur gaman af því að fylgjast með rásandi spám en jafnframt hafa allir aðrir aðilar í honum lítið gaman af norðanskotum - sérstaklega lítið gaman.

Pistillinn í dag er beint framhald á pistli gærdagsins. Fjallað er um lægðardrag sem kemur barmafullt af kulda upp að Vestur-Grænlandi, fer síðan yfir jökulinn og slær sér niður á Grænlandshaf - eða Grænlandssund - eða?

Í lægðardragi barmafullu af kulda gætir hringrásar þess ekki við jörð. Suðvestan- og sunnanáttin á undan því kemur ekki fram nema í háloftunum. Þegar lægðardragið fer yfir Grænland missir það niður um sig buxurnar og sýnir um skamma hríð sína réttu hlið. Suðvestanáttin holdgerist og lægðardrag verður líka til við jörð. En kalda loftið sem fyllti dragið bíður færis.

Lítum nú á kortin. Þetta eru sömu kort og í gær nema þau gilda sólarhring síðar. Fyrsta kortið gildir á föstudagskvöld 1. mars kl. 21 og sýnir sjávarmálsþrýstinginn (venjulegt veðurkort). Næsta kort sýnir ástandið á laugardagskvöld - sólarhring síðar og það síðasta sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum á sama tíma. Almennar skýringar á kortunum má finna í pistli gærdagsins.

w-blogg010313a

Lægðin sem á kortinu er fyrir norðaustan land er sú sem er nú (á fimmtudagskvöld) að dýpka fyrir vestan land. Hlýjasta loftið hefur yfirgefið landið en kalda loftið ekki búið að ná sér á strik. Hlýtt loft er aftur í framsókn á sunnanverðu Grænlandshafi og vekur næstu lægð. Kalda hæðin fyrir vestan Grænland hylur meir en barmafullt háloftalægðardrag. Þrýstingur í hæðarmiðju er talinn 1049 hPa.

w-blogg010313b

Ný lægð er orðin til á kortinu sem gildir á laugardagskvöld. Hún ætti undir öllum venjulegum kringumstæðum að fara allhratt til austnorðausturs og austurs í kjölfar fyrri lægðar og vera meinlaus fyrir landið. En hún fær lægðardragið jökulkalda í bakið og það leitast við að draga hana aftur á bak og næstu daga hér á eftir fer fram mikið tog (það er að segja ef nýjustu spár rætast), lægðin gæti verið ýmist fyrir norðaustan eða vestan land - og jafnvel sunnan við það. Ekki eru reiknistofur sammála um það. Það er þó algengast í þessari stöðu að lægðin hreyfist ekki mikið í stefnuna norðaustur/suðvestur heldur að hún negli sig frekar niður á einhverjum stað og mjakist þaðan í suðaustur. Við sjáum til hvernig fer með það.

Á kortinu eru tvær bláar örvar. Sú sem er yfir Suður-Grænlandi stendur fyrir framrás kalda loftsins úr vestri yfir Grænland, það er að segja í meir en 3 kílómetra hæð, en hin sýnir kuldastrauminn suður með ströndinni. Hvor straumurinn nær undirtökunum fer algjörlega eftir mættishita loftstraumanna þegar þeir mætast. Sá sem hefur lægri mættishitann fer undir hinn.

Textinn með síðasta kortinu er þungur undir tönn og varla fyrir nema áköfustu veðurnördin. Aðrir lesendur eru beðnir velvirðingar - en þeir þurfa ekki að lesa áfram.

w-blogg010313c

Hér sést háloftalægðardragið mjög vel. Miðja kuldapollsins er yfir Grænlandi og lægstu þykktartölurnar (um 4730 metrar) eru ekki alveg marktækar vegna hæðar jökulsins. En alltént er gríðarlegur þykktar- og hæðarbratti á milli Íslands og Grænlands. Hæðarbrattinn býr til vind sem blæs samsíða jafnhæðarlínunum, í þessu tilviki er hann á bilinu 40 til 45 m/s. Þykktarbrattinn samsvarar vindi upp á 60-65 m/s. Þótt það sé ekki raunverulegur vindur látum við samt svo og köllum þykktarvind. Vindur við jörð er vigurmismunur 500 hPa vinds og þykktarvindsins.

Svo vill til að þykktar- og hæðarbratti eru í þessu tilviki nokkurn veginn samsíða (yfir Grænlandssundi - en ekki sunnar í draginu). Við getum því afhjúpað vind við jörð með einföldum frádrætti. Við segjum suðvestanáttina pósitífa.: 40 m/s (vindur) - 60 m/s (þykktarvindur) = -20 m/s (við jörð). Mínusmerkið segir hann blása úr norðaustri. Vindur í Grænlandssundi er eftir þessu að dæma um 20 m/s og áttin norðaustlæg.

Nú gerist það að þegar lægðardragið breiðir úr sér til suðurs (mjóa örin) að það dregur úr hæðarbrattanum - án þess að þykktarbrattinn slakni jafnmikið (nýjar birgðir af köldu lofti koma stöðugt suður með austurströnd Grænlands. Hvað gerist þá? Fari hæðarbrattinn niður í 20 m/s en þykktarbrattinn haldist óbreyttur verður eftir -40 m/s vindur. Ekki gott það.

Evrópureiknimiðstöðin segir vindhámarkið í Grænlandssundi verða um 36 m/s síðdegis á sunnudag. Kalda loftið breiðir síðan úr sér og vindur jafnast nokkuð. Hversu sunnarlega norðaustanstormurinn nær er ekki enn vitað. Ameríska veðurstofan var nú í kvöld (fimmtudag) mjög svartsýn, setti vind í Reykjavík í 20 m/s í -6 stiga frosti og éljahreytingi á þriðjudag. Æ.

2.3. kl. 00:30 var ranglega merktum kortum skipt út, beðist er velvirðingar á mistökunum


Barmafulla lægðardragið

Í pistli gærdagsins var minnst á lægðardrag sem kemur við sögu hér á landi um helgina. Hver saga þess þá verður er ekki vitað - en við skulum samt velta okkur aðeins upp úr hugsanlegum möguleikum.

En fyrst þarf að afgreiða næstu lægð - en hún myndast á Grænlandshafi síðdegis á morgun eða annað kvöld (fimmtudag). Kortið gildir kl. 21 en þá er lægðin rétt að verða til (ef trúa má reikningum). Hér hefur dönsk útgáfa samevrópska reiknilíkansins hirlam orðið fyrir valinu.

w-blogg280213a

Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur), úrkomu (litafletir) og hita í 850 hPa-fletinum (strikalínur). Hæðin við Bretlandseyjar sem hefur beint til okkar hlýindunum undanfarna daga er enn á sínum stað og við sömu iðju. Í vesturjaðri hennar liggur mjög hlýr loftstraumur sunnan úr höfum og sveigir hann til Íslands þegar kortið gildir.

Við Norðaustur-Grænland liggur kalda loftið í leyni og einnig er kalt loft vestan Grænlands að þokast til austurs. Lægðin nýmyndaða er þarna að snarast út úr hitaskilum - en flestar lægðarbylgjur tengjast kuldaskilum. Þessi myndunarmáti er sérlega varasamur fyrir það að svona lægðir geta gert nánast hvað sem er - en oftast gera þær ekki neitt.  

Þegar sagt er að þær geti gert nánast hvað sem er er raunverulega átt við það. Þær geta dýpkað ógurlega, skotist fram á ofsahraða - eða hreyfst afturábak - til suðvesturs - þegar úrkomusvæði og skil virðast eiga að skila þeim í venjulega norðausturátt. Eða þá allt þar á milli.

En tölvuspárnar hafa náð mun betri tökum á þessum lægðum heldur en mögulegt var að ná á árum áður - því er hægt að taka þeim með ró.

Lægðin sem er að myndast á kortinu að ofan fer eðlilega leið - hratt til norðausturs, síðan austur og austsuðaustur. Hún dýpkar ekki að ráði fyrr en hún er komin framhjá Íslandi og veldur ekki vanda hér. Á sólarhring er dýpkunin 26 hPa - telst því sprengilægð að amerískum hætti. Ofsaveður verður vestan lægðarmiðjuna klukkan 21 á föstudagskvöld þegar kortið að neðan gildir - en langt frá Íslandi.

w-blogg280213b

Á þessu korti á sérstaklega að taka eftir hæðunum tveimur. Önnur þeirra er hæðin við Bretlandseyjar, 1035 hPa í hæðarmiðju. Þetta er hlý hæð og loft streymir í stórum dráttum í kringum hana sammiðja upp í gegnum allt veðrahvolfið.

Hin hæðin er við Norður-Labrador, 1048 hPa í miðju. Hún er köld sem kallað er. Bláa örin vestan Grænlands sýnir vindstefnu í efri hluta veðrahvolfs. Þar er suðvestanátt - í öfuga stefnu við norðaustanáttina sem hæðin við sjávarmál stýrir. Ofan hæðarinnar er háloftalægð - eða öllu heldur lægðardrag suður úr kuldapollinum Stóra-Bola. Þetta lægðardrag er meir en barmafullt af köldu lofti og flæðir yfir barmana. Háloftalægðardrag sem er nákvæmlega fullt af köldu lofti sýnir sig sem marflatt þrýstisvið við sjávarmál, sé það ekki fullt birtist þar lægð.

En hér er hæð undir lægðardraginu, það er fullt af köldu lofti - nokkuð einfaldað má segja að það flæði úr því til allra átta - þar er hæð.

Gríðarlegur hitamunur er á milli hæðanna tveggja. Hann kemur vel fram á kortinu að neðan en þar má sjá ástandið í 500 hPa á sama tíma og á kortinu að ofan (klukkan 21 á föstudagskvöld 1. mars).

w-blogg280213c

Hér sést gríðarlegur vindstrengur yfir Grænlandi og hneppi af jafnþykktarlínum (rauðar, strikaðar) á sama stað. Þykktin í miðju Stóra-Bola er um 4780 metrar - rétt ofan „ísaldarþykktar“. Yfir Íslandi suðaustanverðu má sjá 5400 metra jafnþykktarlínuna (aðeins 60 metra neðan við hefðbundna sumarþykkt hér á landi). Munurinn er 620 metrar - gróflega um 30°C. Lægðardragið suður af miðju kuldapollsins hreyfist til austurs og „verpir eggi“ - lægðardragið teygir sig til suðurs og þar myndast ný háloftalægð.  

Nú er því spáð að önnur lægð myndist á Grænlandshafi á laugardag - á svipaðan hátt og sú fyrri, með góðum vilja má setja hitaskil í úrkomusvæðið mjóa syðst á Grænlandshafi. Um þessa lægð er ekki enn samkomulag nema hvað að hún á að myndast á laugardag. Evrópureiknimiðstöðin er nú á því að hún dýpki nokkurn veginn þar sem hún myndast vestur af Íslandi. Ofsaveður verði á Grænlandssundi síðdegis á sunnudag og stormur nái inn á Vestfirði þá um kvöldið eða á mánudag. Síðan á lægðin að bakka til suðvesturs, föst í bandi háloftalægðarinnar. Þegar hún fjarlægist jafnar staðan sig og hugsanlega kemur hlýja loftið aftur.

Ameríska spáin nú í kvöld (miðvikudag) býr líka til lægð á sama stað en hún á að þokast til suðausturs. Það þýðir að vindstrengurinn nær yfir allt Ísland á mánudag en jafnast heldur, en meira af köldu lofti kemur að norðan og er þessi kvöldgerð amerísku spárinnar heldur ólíkleg - því hún gerir ráð fyrir norðanhvassviðri, éljagangi og 8 til 9 stiga frosti í Reykjavík á mánudagskvöld - heldur ólíklegt nema hvað?

 


Verður það víst að heita

Útsynningur verður það víst að heita veðurlagið á miðvikudegi (26. febrúar). Ætli hann komist ekki næst raunveruleikanum uppúr hádeginu t.d. þegar kortið hér að neðan gildir.

Það sýnir hæð, hita og vind í 925 hPa-fletinum klukkan 15 síðdegis á miðvikudag. Þá er hæð flatarins yfir Reykjavík rúmir 700 metrar.

w-blogg270213a

Svörtu heildregnu línurnar sýna hæð flatarins í dekametrum (1 dam = 1ö metrar). Litafletir sýna hita - kvarðinn sést mun betur sé kortið stækkað. Vindátt og vindhraði eru sýnd með hefðbundnum vindörvum. Örin við lægðarmiðjuna sýnir hreyfistefnu hennar. Bláa örin sýnir stað þar sem kalt loft sækir fram en það stendur ekki lengi - hlýrra loft sækir strax fram aftur í kjölfarið. Vindurinn í 700 metra hæð yfir Vesturlandi er nokkuð stríður, 20 til 25 m/s og dökkgræni liturinn sýnir að hiti er lægri en -2 stig. Það þýðir að frostlaust er við sjávarmál þar sem vindur stendur af hafi.

Næsta kort gildir á sama tíma. Hér má sjá sjávarmálsþrýstinginn, auk vinds og úrkomu.

w-blogg270213b

Litirnir greina frá úrkomumagni. Það er ekki mikið, 1 til 3 mm á 3 klukkustundum þar sem mest er. Sé kortið stækkar má sjá tákn inni í úrkomusvæðunum. Þríhyrningur táknar skúrir eða él en x táknar snjókomu. Þeir sem stækka kortið sjá að engir krossar (engin snjókoma) er yfir sjónum en hins vegar yfir landi. Ætli það gráni ekki í rót í éljunum og ekki er þá langt í hálkuna.

En á efra kortinu má sjá helfjólubláan lit voma við Norðaustur-Grænland. Á eftir lægðinni gerir mjög skammvinna norðanátt með éljum fyrir norðan og vægu frosti - en það stendur mjög stutt.

Þegar þetta er skrifað (um miðnætti á þriðjudagskvöldi) er meðalhitinn í febrúar í Reykjavík kominn upp í 3,8 stig og hefur aðeins tvisvar svo vitað sé orðið hærri, 1965 og 1932. Báðir þessir mánuðir hittu vel í hitann eins og segja má. Allsnarpt kuldakast gerði í fyrstu viku mars 1932 - en annars var sá mánuður líka hlýr - og mars 1965 varð kaldur - markar reyndar formlegt upphaf hafísáranna illræmdu.

Fyrir utan hlýindin ætlar febrúar líka að skila óvenju mikilli úrkomu - febrúarmet verða slegin á fáeinum stöðvum. Samfara hlýindunum 1932 og 1965 var loftþrýstingur sérlega hár - en svo er ekki nú. Hann verður aðeins lítillega yfir meðallagi.

En hvert verður svo framhaldið? Til að fjalla um það er nauðsynlegt að líta á norðurhvelskort sem gildir á fimmtudaginn, 28. febrúar.

w-blogg270213c

Það sýnir að vanda hæð 500 hPa flatarins og 500/1000 hPa þykktina. Hæðin með heildregnum línum, en þykktin með litaflötum. Mörkin á milli grænu og bláu litanna eru sett við 5280 metra, það er 40 til 50 metrum hærra en meðalþykkt á Íslandi í febrúar.

Við sjáum að gríðarleg hæð er vestur af Skotlandi og beinir til okkar hlýindum. Þetta er þó ólíkt stöðunni að undanförnu. Áttin er hér suðvestlæg - en hefur aðallega verið suð- og suðaustlæg. Jafnhæðarlínur eru mjög þéttar skammt fyrir norðan land - háloftavindur er þar sterkur. Auk þess er þykktarbratti mikill - stutt er í mjög kalt loft.

Nú eru spár ekki sammála um framhaldið. Ágreiningurinn stendur um lægðardrag sem merkt er með bókstafnum x á kortinu. Það er varla til í dag - þriðjudag - og rétt sést þarna á fimmtudagskortinu. Svo erfitt er að spá um frekari þróun þess að reikningar með miljarðatölvum í tveimur heimsálfum og tugir þúsunda veðurathugana duga ekki til að ná samkomulagi um ástandið eftir fimm daga.

Evrópureiknimiðstöðin gefur út nýjar spár tvisvar á sólarhring, en bandaríska veðurstofan fjórum sinnum. Aðrar - ívið afkastaminni miðstöðvar - gefa yfirleitt út spár tvisvar á sólarhring svo marga daga fram á við. Breyting verður á stöðu lægðardragsins á sunnudag í nærri því hvert einasta skipti sem ný spá er gefin út.

Framhald evrópureiknimiðstöðvarinnar er þegar þetta er skrifað þannig að lægðardragið komist inn á Grænlandshaf en hörfi síðan til suðvesturs (frekar óvænt). Ef þetta er rétt tekst að halda kuldanum í skefjum í marga daga í viðbót - en með fyrirhöfn. Bandaríska spáin lætur lægðardragið hins vegar stöðvast rétt fyrir vestan land - í mjög vondri stöðu - hríðarbyl og kulda. Sú kanadíska er núna heldur á bandi evrópureiknimiðstöðvarinnar og sú breska fer bil beggja (hvað annað).

Þótt við heyrum ekki mikinn vopnagný eiga mikil átök sér stað milli kalda og hlýja loftsins nærri Íslandi þessa dagana.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.7.): 111
  • Sl. sólarhring: 315
  • Sl. viku: 1759
  • Frá upphafi: 2485416

Annað

  • Innlit í dag: 104
  • Innlit sl. viku: 1560
  • Gestir í dag: 102
  • IP-tölur í dag: 102

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband