29.1.2024 | 22:20
Mikill gangur
Við lítum á fáein veðurkort. Mikill gangur er í veðrakerfum á Norður-Atlantshafi þessa dagana. Við virðumst þó í stórum dráttum eiga að sleppa við verstu lægðirnar, en bæði má lítið út af bregða og að auki eru éljagangur og bleyta á víxl nokkuð erfitt veðurlag fyrir þá sem þurfa að vera á ferðinni - sem eru víst flestir.
Við notum tækifærið og lítum á fáein veðurkort. Enn skal tekið fram að ritstjóri hungurdiska gerir ekki spár og vísar hann sem fyrr á Veðurstofuna og aðra til þess bæra aðila.
Við sluppum vel í gær þegar lægð fór í óðavöxt fyrir norðaustan land og hefur í dag valdið verulegu illviðri í Norður-Noregi. Svo virðist sem ný lægð hlaupi í óðavöxt á miðvikudag og á hún líka að fara til Noregs - en á aðeins suðlægari braut en sú fyrri og hittir því landið á öðrum stað.
Kortið er úr fórum evrópureiknimiðstöðvarinnar og sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina um miðnætti annað kvöld (þriðjudag 30.janúar). Við sjáum kuldapollinn Stóra-Bola við Baffinsland og teygir hann klaufir sínar yfir á Grænlandshaf. Grænland heldur mesta kuldanum í skefjum. Mjög ákveðin suðvestanátt er í háloftunum yfir landinu og lægðarbylgja sunnan við land. Þar er norðmannahrellirinn á ferð.
Ef vel er að gáð má sjá að misgengi er á milli jafnhæðar- og jafnþykktarflata. Ritstjóri hungurdiska segir að loftið sé riðið (jafnhæðarlínugerðirnar tvær búa til netmöskva). Gul ör bendir á stað nærri þeim þar sem nýja lægðarmiðjan er. Þar er 500 hPa hæðin um 5160 metrar, en þykktin 5280 metrar (mörk græna og bláa litarins). Þrýstingur er lægstur þar sem þykktin er mest á jafnhæðarlínu. Við getum auðveldlega reiknað þrýstinginn með því að finna mun á 500 hPa hæðinni og þykktinni, hann er -120 metrar en það jafngildir -15 hPa, 1000 hPa-flöturinn er í -120 metra hæð, þrýstingur við sjávarmál því 1000-15 hPa = 985 hPa. Kannski er lægðin aðeins dýpri, við eigum erfitt með að sjá hvar nákvæmlega munurinn á milli hæðar og þykktar er mest neikvæður. [Væri útkoman jákvæð, væri sjávarmálsþrýstingur hærri en 1000 hPa sem því nemur].
Við sjáum vel á kortinu að mjög stutt bil er á milli bæði jafnhæðar- og jafnþykktarlína. Ef 5160 jafnhæðarlínan næði í 5460 metra jafnþykktarlínuna (gula svæðið, sem ekki er langt undan, væri sjávarmálsþrýstingurinn ekki 985 hPa heldur 963 hPa, 22 hPa lægri. Það er einmitt þannig sem lægðin dýpkar, 500 hPa flöturinn er fallandi og lægri og lægri jafnhæðarlínur fá undir sig meiri þykkt.
Næst förum við upp í 300 hPa-flötinn á sama tíma. Kortið sýnir hæð hans, vind og hita (litir). Lægðarinnar sér ekki beinlínis stað á þessu korti - við höfum þó merkt staðsetningu hennar til hagræðis. Við sjáum að meðan köld framrás fylgdi lægðinni á fyrra korti er hér öfugt farið - hlýr blettur eltir lægðina. Við erum hér ofan veðrahvarfa. Kalda loftið neðan veðrahvarfanna dreifir úr sér og þar með dragast veðrahvörfin niður og loftið ofan þeirra hlýnar. Þó við sjáum ekki lægðina getum við samt nokkurn veginn giskað á hvar hún er (ekki nákvæmlega þó), hlýi bletturinn kemur upp um hreyfingu hennar (og dýpkun). Veðrahvörfin (og 300 hPa-flöturinn) dragast niður - það veldur því að það bætir í vindhraða undir þeim og vindur verður líka ívið suðlægari - þá skerpir bæði á kalda loftinu á eftir lægðinni og því hlýja á undan henni - lægri jafnhæðarlínur færast ofan á meiri þykkt (hlýrra loft). Næsta kort sýnir stöðuna 18 klst síðar.
Lægðin er nú komin að strönd Noregs. Þar hefur 4920 metra jafnhæðarlínan (tekist hefur að draga veðrahvörfin ámóta niður) náð í 5340 metra þykkt (sem myndar lokaðan hring við lægðarmiðjuna). Lægðin er komin niður í 947 hPa þar undir. Hún er reyndar svo kröpp að við höfum ekki alveg hitt á réttan stað fyrir örina (mestan mun hæðar og þykktar), reiknimiðstöðin spáir 943 hPa í miðju. Hvort það verður rétt er önnur saga. Því er spáð að lægðin dýpki um meir en 40 hPa á 18 klst, sannkallaður óðavöxtur.
Við pökkum saman með korti sem sýnir sjávarmálsþrýsting og 3 klst þrýstibreytingu á sama tíma og kortið næst að ofan. Í miðju hvíta blettsins hefur þrýstingur stigið um 26 hPa á 3 klst. Þetta er með því allra mesta sem sést, viðurkennt Íslandsmet er 33 hPa á 3 klst, frá 1949. Þá var veðurstaða að mörgu leyti svipuð og er þessa dagana.
Við skulum taka eftir því að vestan Íslands er líka hámark í þrýstistigi, en þó ekki nema tæp 11 hPa á 3 klst. Það er þó nógu mikið til þess að líklega er stormur einhvers staðar í nánd - sennilega sunnan Reykjaness og austur fyrir Vestmanneyjar.
Fylgist með spám - ef þið eigið eitthvað undir veðri.
25.1.2024 | 20:43
Draugalægð gengur aftur?
Á sunnudaginn var (21.janúar) sendi skemmtideild evrópureiknimiðstöðvarinnar frá sér fádæma krassandi spá sem gilda átti á sunnudaginn kemur (28. janúar). Nánast metdjúp lægð átti að verða skammt undan Norðausturlandi (eftir að hafa farið yfir landið úr suðri og suðvestri). Þetta var heldur óvænt - lægðin hafði lítið sem ekkert gert vart við sig í fyrri spám - og hún gufaði síðan algjörlega upp í næstu spárunu á eftir. Ekkert með það - þetta gerist endrum og sinnum í líkönum - og enginn æsir sig yfir því. Bandaríska líkanið gaf ekkert svona til kynna.
Svo gerist það allt í einu nú síðdegis (fimmtudag 25. janúar) að þessi sama lægð dettur aftur inn í spár - en að þessu sinni hjá bandarísku veðurstofunni. Satt best að segja kemur þetta ritstjóra hungurdiska mjög á óvart, þetta er eins og draugssvipur birtist á þili.
Við skulum nú bera saman þessa umræddu skemmtispá evrópureiknimiðstöðvarinnar og bandarísku spána frá því nú á hádegi (12). Tökum fram að þetta er fyrir forvitni sakir - .
Býsna afgerandi - en kom og fór - birtist aðeins í þessari spárunu - og hefur ekki sést síðan (í fjóra daga). Lægðin er 928 hPa í miðju, líklega met á þessum stað (líkur á svona lágum þrýstingi eru heldur meiri sunnan við land heldur en fyrir norðan það).
Síðan er það spá bandarísku veðurstofunnar frá því á hádegi í dag (fimmtudag 25.janúar) - gildir á sama tíma og kortið að ofan.
Lægðin nú 931 hPa í miðju eftir að hafa farið yfir landið austanvert. Býsna líkt fyrra korti og - eins og áður sagði - hefur ekki komið fram í spám frá því á sunnudag. Lægðin gengið aftur - eins og hver annar draugur.
Að lokum lítum við á nýjustu spá evrópureiknimiðstöðvarinnar - sem gangsett er á sama tíma og bandaríska spáin og gildir á sama tíma (síðdegis á sunnudag).
Ákveðin líkindi eru þó með þessu korti og þeim hér að ofan. Það er lægð á svipuðum slóðum - og lægðardrag á Grænlandshafi. Munurinn hins vegar sá að lægðin er 962 hPa í miðju, meir en 30 hPa grynnri - og munar um minna. En reiknimiðstöðin er hins vegar búin að reisa upp lægð á sömu slóðum og afturgangan birtist á.
Það yrði enn með ólíkindum holdgerðist draugurinn í raun og veru. Það er satt best að segja ekki mjög trúlegt - en við þurfum þó ekki að bíða lengi eftir því hvað gerist - enginn jarðfræðilegur tímakvarði hér á ferð - aðeins nokkur dægur.
[Viðbót (á gildistíma spánna, sunnudag 28.janúar). Svo fór að við sluppum. Lægðin dýpkar nú milli Íslands og Noregs - en er enn spáð niður fyrir 940 hPa og á að valda ofsaveðri í Norður-Noregi á morgun - mánudag].
Vísindi og fræði | Breytt 28.1.2024 kl. 20:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.1.2024 | 00:28
Lægð dagsins
Nú (rétt fyrir miðnætti miðvikudag 24.janúar 2024) nálgast illskeytt lægðarkerfi landið. Við látum Veðurstofuna og aðra til þess bæra aðila alveg um viðvaranir - en lítum á nokkur veðurkort - flest sjaldséð. En allar gerðirnar hafa þó sést á hungurdiskum áður. Kortin gilda öll kl.6 á fimmtudagsmorgni - tíminn sá er þegar liðinn þegar flestir lesendur fletta pistlinum.
Rétt er að senda út fjólubláa viðvörun gagnvart textanum hér að neðan - hann er við það að vera óskiljanlegur (en ekki samt alveg). Og enga spá er hér að finna.
Fyrsta kortið er kunnuglegt, litirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum (rúmlega 1 km hæð). Mjög hlý tunga er yfir landinu. Hiti um frostmark í þessari hæð. Jafnþykktarlínur eru heildregnar, þykktin er líka allmikil (hún sýnir hita í neðri hluta veðrahvolfs), við sjáum 5360 metra jafnþykktarlínuna - loftið um 6 stigum hlýrra heldur en að meðaltali.
Hér á að taka sérstaklega eftir því hversu gisnar jafnþykktarlínurnar eru í hlýju tungunni. Rétt vestan við land (við kuldaskil lægðarinnar) eru jafnþykktarlínurnar hins vegar mjög þéttar - ekki langt í kalda loftið.
Næst lítum við á stöðuna í 500 hPa-fletinum í rúmlega 5 km hæð. Jafnhæðarlínur eru mjög þéttar og vindörvar sýna að vindur er meiri en 50 m/s þar sem mest er. Yfir landinu eru jafnhitalínur gisnar, en vestur af eru þær mjög þéttar - alveg í samræmi við þykktarkortið. Þegar vindur er svona hvass í miðju veðrahvolfi og jafnþykktarlínur eru þéttar eru líkur á því að hvassir háloftavindar nái mun neðar en vant er. Ritstjóri hungurdiska talar um að hes heimskautarastarinnar teygi sig í átt til jarðar. Þetta ástand er sérlega varasamt á hálendinu og norðan fjalla og fjallgarða.
Fyrir vestan land er vindurinn ámóta mikill í 500 hPa, en talsvert minni niður við sjávarmál. Þarna eru jafnþykktarlínur þéttar - þykktarbratti mikill. Þegar best tekst til getur hann nærri því vegið háloftavindinn upp - því dregur fljótt úr vindi þegar brattasvæðið (kuldaskilin) kemur inn á land.
Reglan er því í aðalatriðum svona:
a) Mikill háloftavindur og lítill þykktarbratti = mikill vindur nærri jörð;
b) Mikill þykktarbratti og mikill háloftavindur = lítill vindur við jörð. Í tilviki b verður þó að taka fram að þykktarbrattinn vegur háloftavindinn best upp þegar bratti þrýstisviðs og þykktar hafa sömu stefnu (kalda loftið sömu megin) og jafnþykktarlínur eru jafnþéttar jafnhæðarlínunum;
c) Mikill þykktarbratti og lítill háloftavindur = mikill vindur nærri jörð.
Kortið að ofan sýnir lóðstreymi, bláu svæðin uppstreymi, en þau brúnu niðurstreymi. Því dekkri sem litirnir eru því ákafari er upp- eða niðurstreymið. Við þykjumst sjá skilakerfi lægðarinnar í bláa litnum. Landið býr til miklar bylgjur upp- og niðurstreymis - yfir því skiptist á ákaft uppstreymi - og niðurstreymi. Hér sjáum við að lægðin á að vera um 958 hPa í miðju.
Við getum líka kortlagt svonefnt úrstreymi og andstöðu þess, ístreymi. Blái liturinn sýnir ístreymi á undan lægðinni og skilum hennar í 850 hPa-fletinum. Loft sópast inn að skilunum - lyftist þar (eins og við sáum á fyrra korti) - myndi annars bunkast upp.
Á síðasta kortinu erum við komin upp í 400 hPa (í um 7 km hæð). Þar er mikil úrstreymisklessa (rauð) rétt á undan lægðinni - og ástæða dýpkunar lægðarinnar - úrstreyminu verður að mæta með uppstreymi - og enn neðar ístreymi. Gróflega má segja að jafnvægið á milli úrstreymis uppi og ístreymis niðri ráði úrkomumyndun - og þrýstiháttum lægðarinnar - hvort hún dýpkar eða grynnist. Er uppstreymið nægilega afkastamikið til að hafa í við úrstreymið? Getur ístreymið haft við? Úrkomumyndun - (rakaþétting) getur síðan haft afgerandi áhrif á afköstin (hún auðveldar uppstreymið).
Svipuð lögmál gilda líklega á plötumótum Reykjanesskaga. Hvort kemur þar fyrst - úrstreymi eða ístreymi? - Koma fasabreytingar við sögu á milli úrstreymisins uppi og ístreymisins niðri? - En rétt er að hætta sér ekki lengra í þeim vangaveltum (þær eru bara settar hér sem moli handa þeim sem þrátt fyrir allt hafa komist í gegnum textann hér að ofan - algjörlega án ábyrgðar - eins og allt sem birtist á hungurdiskum.
20.1.2024 | 21:07
Hugsað til ársins 1956
Tíð var lengst af talin hagstæð, en nokkuð illviðrasamt var á stundum. Úrkoma í rúmu meðallagi. Hlýtt. Janúar var fremur kaldur og óhagstæður, samgöngur voru erfiðar og gæftir slæmar. Febrúar var hins vegar hlýr og talinn sérlega hagstæður, nema fyrstu dagarnir. Snjóa leysti af láglendi. Samgöngur voru greiðar og gæftir góðar. Mars var einnig hlýr og hagstæður, nema fyrsta vikan, víða fór að grænka. Gæftir voru stirðar. Tíð var talin hagstæð nema norðaustanlands. Maí var óvenjuillviðrasamur og fór gróðri hægt fram. Tíð í júní var óhagstæð framan af, en síðan hagstæð og fór gróðri þá vel fram. Júlí þótti fremur hagstæður og heyskapartíð sæmileg. Í ágúst voru þurrkleysur nyrðra, en hagstæð tíð á Suður- og Vesturlandi. September var hagstæður og þurrviðrasamur, heyfengur var í meðallagi, en uppskera garðávaxta rýr. Umhleypingar gengu í október og tíð var talin óhagstæð nema austanlands. Færð slæm á vegum. Nóvember þótti óvenjuhagstæður á Austurlandi, en tíð var óhagstæð vestanlands sökum storma og úrkomu. Mjög hlýtt. Í desember var talin fremur hagstæð tíð þó rysjótt væri. Samgöngur greiðar. Gæftir stirðar. Hlýtt.
Við rifjum nú upp fréttir ársins tengdar veðri. Ekki er sá listi tæmandi. Ákveðið var að taka tvö veður út fyrir sviga og er þeim lýst í sérstökum pistlum. [Fárviðrið í byrjun febrúar 1956 og Laufskemmdaveðrið í maí 1956]. Blaðatextar eru langflestir fengnir af vefnum timarit.is, oft styttir hér og stafsetning oftast færð til nútímahorfs (vonandi sætta höfundar sig við þá meðferð). Heimildir eru að auki úr Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands, og töluleg gögn úr gagnagrunni Veðurstofunnar. Sömuleiðis notum við okkur fáeinar tíðarfarslýsingar veðurathugunarmanna. Talnasúpu má finna í viðhenginu. Þetta ár leitum við einkum til dagblaðsins Tímans (og þökkum blaðamönnum hans sérstaklega). Alþingiskosningar voru um sumarið, eins og oft stífluðu þær veðurfréttaflutning að miklu leyti - margt þurftu flokksblöðin að segja um kosningarnar. Einnig urðu stóratburðir í alþjóðamálum - þeir fyrstu sem ritstjóri hungurdiska minnist (en ruglaði saman).
Eins og áður sagði var janúar nokkuð kaldur og ruddafenginn. Við leyfum veðurathugunarmönnum að segja frá (en veljum úr og styttum):
Síðumúli (Ingibjörg Guðmundsdóttir): Janúarmánuður var hávaðasamur og rosagjarn. Tíð yfirleitt mjög vond. Hafa oft skipst a rok með rigningu eða rok með snjókomu eða skafrenningi. Aðfaranótt þ.29. varð flóð og jakaburður svo mikill í Hvítá að símastaurar brotnuðu og línur slitnuðu og jarðsamband eyðilagðist á löngum kafla. Síðan hefir verið símasambandslaust við Borgarnes og Reykjavík og liggja nú hjá mér ósend 16 veðurskeyti frá þessum 4 dögum síðan síminn bilaði. Í gær átti að byrja að gera við, í dag er ófært, veður, rok og regn herja á með miklum veðurgný, svo viðgerð á síma er sennilega ómöguleg. Snjór hefir ekki verið mikill hér og mjólkurferðir aldrei teppst, en á heiðavegum eru samgöngur torsóttar.
Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Það hefir verið fremur snjólítið og oftast sæmileg jörð. En hér hefir lítið verið beitt vegna kuldi og næðingar. Nú síðustu daga mánaðarins hefir komið stórgert veðurlag og umhleypingar.
Sandur (Friðjón Guðmundsson): Tíðarfar var kalt með snjókomum og skafrenningi. Jarðbönn voru og snjóþyngsli og færð á vegum mjög erfið.
Reykjahlíð (Pétur Jónsson): Verður að teljast vondur mánuður hér þar sem snjókoma var mikil og veður oft vond. Þó komu allgóðar hlákur bæði í upphafi mánaðar og endir hans.
Hof í Vopnafirði (Jakob Einarsson): Versta ótíð, frosthörkur og veðurhamur allan mánuðinn til 28. Þá hláka og þíða til síðustu dagana. Víðast var jarðlaust og innistöður allan þennan tíma og mjög gjafafrekt.
Gunnhildargerði (Anna Ólafsdóttir): Mánuðurinn var mjög illviðrasamur, mikil snjóalög og algerð jarðbönn og yfirhöfuð illur á alla lund. [11. Hræðilegt veður alla nóttina, hefur rifið ægissand hér inn um alla sveit og er snjór allur með dökkum rákum]. [18.] Rok um nóttina, gluggar brotnuðu og ýmislegt færðist úr skorðum].
Mikil illviðri gerði um áramótin. Misminni ritstjórans þykist þó greina brennu í Borgarnesi á gamlárskvöld - en því er vart að treysta. Fyrstu daga ársins fóru þrjár krappar lægðir hjá. Sú fyrsta á nýársnótt, síðan fór mjög kröpp lægð hjá nærri Vestfjörðum og Norðurlandi þann 2. og aðfaranótt 3., og að lokum fór lægð hjá aðfaranótt 4. Mesta foktjónið varð samfara miðlægðinni, en sú síðasta olli einkum vatnavöxtum. Tíminn segir frá 3.janúar:
Upp úr hádegi á gamlársdag gerði ofsaveður og hlóð niður snjó, þannig að umferð í hænum varð afar erfið fyrir bíla, er leið á daginn. Ófært var um Suðurlandsbraut og Hafnarfjarðarveg um sexleytið, en lögreglan fór á staðina og tókst að greiða úr um ferðaflækjunum með hjálp öflugra bíla. Er á kvöldið leig gerði austan slagveður með mikilli rigningu, og skánaði umferð þá strax mikið. Margt fólk kom á þá staði, þar sem brennur voru, en það hafði yfirleitt stutta viðdvöl vegna þess hve veðrið var slæmt.
Vísir segir frá illviðrinu 3.janúar:
Í fyrrinótt [aðfaranótt 2. janúar] gerði gífurlega rigningu, er hélst áfram í gærdag. Olli þetta óvenjulegum krapaelg. Sums staðar allt upp í hné og síðar vatnsflóði eftir götunum og hafa menn vart séð annað eins flóð á götum bæjarins. Færð var mjög slæm en vegheflar og ýtur ruddu helstu umferðargötur bæjarins Var þess heldur ekki vanþörf, því áður en hlákuna gerði voru sums staðar komnir 2ja metra háir skaflar.
Tíminn segir 4.janúar - ratsjárstöðin á Straumnesfjalli kemur við sögu:
Frá fréttaritara Tímans á Ísafirði í gær. Í gærkveldi og nótt [aðfaranótt 3. janúar] var hér ofsarok af vestri. Engar teljandi skemmdir urðu hér í kaupstaðnum, nema jólaskrautið, sem hengt hafði verið upp, fauk allt út í veður og vind. Hinsvegar urðu nokkrar skemmdir á byggingum radarstöðvarnar í Aðalvík. Uppi á Straumnesi höfðu verið reist ein tíu hús, sem voru orðin fokheld, og tók helming þaks af einu þeirra. Einnig fauk þak af timburhúsi, sem rafstöð var í. Í kvöld er hér enn suðvestan rok. GS.
Frá fréttaritara Tímans í Dalvík í gær. Í gærkvöldi [2.] gerði hér ofsarok af suðvestan og hélst það fram eftir nóttu og varð nokkuð tjón af. Nokkuð af gömlu heyi fauk hjá bænum Sökku og einnig frá Gröf og þar fauk einnig þak af votheysgryfju. Þakplötur fuku af frystihúsinu hér í Dalvík og einnig fauk nokkuð hey, sem Jón Sigurðsson, verkamaður, átti. Þá sló saman háspennulínunni frá Akureyri og varð rafmagnslaust frá miðnætti til klukkan rúmlega tvö í dag. Bílvegurinn til Akureyrar var ruddur á gamlársdag svo að hann varð fær stærri bílum. PJ.
Í Húsavík var suðvestan rok í fyrradag [2.] og tók þá þak af heyhlöðu þar. Fauk þakið í heilu lagi uni 150 metra og lenti á útihúsum, en þau skemmdust þó lítið. Nokkuð af heyi mun hafa fokið úr hlöðunni. Einnig reif nokkrar járnplötur af íbúðarhúsi, en aðrar skemmdir urðu ekki. Snjóþungt er nú í Húsavík og samgöngur erfiðar við nærsveitir.
Tíminn segir enn af veðrinu 2. til 3. í pistli 5.janúar:
Í Eyjafirði, einkum innanverðum, fauk hey allvíða, eða á einum tíu bæjum. Yfirleitt var það lítið á hverjum stað og aðeins úr uppbornum heyjum. Í Sölvadal fauk hluti af bragga. Mjólkurbíllinn á Árskógsströndinni, sem er nýlegur, stóð við heimtröðina að bænum Engihlíð og fauk hann á hliðina. Skemmdist hann allmikið, einkum yfirbygging, sem brotnaði töluvert. Í Fnjóskadal urðu nokkrar skemmdir, mestar að Veisu, þar sem þak fauk með öllu af stóru fjárhúsi, og féll veggur um leið inn og varð fjórum kindum að bana. Þar fauk einnig hluti af þaki íbúðarhússins og þak af skemmu. Hefir bóndinn, Bergþór Björnsson, orðið fyrir miklu tjóni.
Heyfok í Bárðardal. Austar í Þingeyjarsýslu urðu einnig nokkrar skemmdir, einkum heyfok til ódrýginda á nokkrum stöðum. Að Lundarbrekku í Bárðardal fauk hundrað hesta uppborið hey um koll, en í gær var unnið að því að binda heyið upp aftur og mun nokkuð af því hafa náðst, þótt um allmikinn skaða sé að ræða. Í Norður-Þingeyjarsýslu urðu einnig nokkrar skemmdir. Á Sléttu fauk hey á Ormárlóni, og einnig fauk hey í Sveinungavík, og víðar á þessum slóðum varð smávegis heyfok. Á Raufarhöfn skemmdust sperrur á nýreistu húsi, þak fauk af geymsluskúr, og þak síldarverksmiðjunnar skemmdist lítils háttar.
Frá fréttaritara Tímans á Fosshóli. Í hlákunni síðustu daga hefir snjór mjög sjatnað í sýslunni, og er nú orðið sæmilega fært bílum um aðalvegi. Fært er bæði yfir Vaðlaheiði og Fljótsheiði, og einnig er fært að kalla upp í Mývatnssveit. Í sumar sveitir er þó aðeins jeppafært. Svo kynlega ber við, að Skjálfandafljót er nú mjög ísilagt. Í hríðarveðrunum fyrir jólin rak í fljótið og lagði það síðan bæði norðan og sunnan Goðafoss. Er það nú lagt út að Þingey og fram undir nýju brúna hjá Stóruvöllum, og svo að sjálfsögðu norðan fossa. Er óvenjulegt, að fljótið sé undir ís á þessum kafla svo snemma vetrar, þegar ekki hafa meiri frosthörkur gengið en undanfarið. Í hlákunni þessa daga hefir ísinn ekki tekið af. SLV
Tíminn segir enn 6.janúar:
Frá fréttaritara Tímans á Vopnafirði í gær [5.]. Hér hefir verið allmikill snjór síðan fyrir hátíðar, en síðustu daga blotnaði nokkuð og bræddi síðan yfir, svo að nú er storka á jörð og haglaust víðast hvar. Símasambandslaust hefir verið hingað nokkra daga, en komst aftur á í gærkvöldi. Slitnaði síminn á nokkrum stöðum, en einna mestar skemmdir urðu í Jökulsárhlíðinni, þar brotnuðu nokkrir staurar. KB.
Aðfaranótt þriðjudags [3.] fauk þak af nýju peningshúsi að Hólakoti í Auðnardal, Skagafirði. Var þá ofsa vestanrok. Hús þetta var byggt í haust fyrir 150 fjár og 810 stórgripi. Í húsinu voru kindur og drápust nokkrar þeirra, er stafn hússins hrundi, en hann var byggður úr holsteini. Síðan hefir orðið að lóga fleiri kindum, sem hlutu mikil meiðsli, og hefir bóndinn í Hólakoti, Hjálmar Sigmundsson, orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni, en hann hefir misst um 15 kindur. Hluti af þakinu fauk á símalínu og rauf hana.
Tíminn segir enn af sama veðri 7.janúar - nú af leysingaflóðum - upphaf mánaðarvandræða við Hvítá í Árnessýslu:
Að kvöldi s.l. þriðjudags [3.] var hláka allmikil sunnanlands og leysing töluverð, svo að vöxtur hljóp í ár. Um nóttina braut Hvítá af sér íshellu allmikla, hlóð jakastíflu suður undan Bræðratungu og hljóp upp á mýrarnar sunnan árinnar með miklum vatnsflaumi og jakaburði. Flæddi yfir svonefndar Selsmýrar hjá eyðibýlinu Ísabakka og yfir veginn heim að Hvítárholti og einangraðist bærinn. Mikill vöxtur hljóp einnig í Litlu-Laxá, og varð hún ófær. Þetta kvöld var jólatrésskemmtun í skólahúsinu að Flúðum, og komst fólk með börn sín ekki heim af henni. Var þetta fólk frá Högnastöðum og bæjunum þar fyrir framan. Einnig tepptist vegurinn niður að Seli og Hvítárholti. Daginn eftir hljóp úr ánum, og sjatnaði einnig flóðið á mýrunum niður við Hvítá, en þá var jakahrönnin svo mikil á veginum niður að Hvítárholti, að ófært var öðrum en gangandi mönnum. Nú hefir vegurinn verið ruddur með jarðýtu, svo að fært er orðið. Af hlaupi þessu varð ekki teljandi tjón, en Hvítárholt einangraðist. Nokkrar kindur lentu í flóðinu og stóðu í vatni um sinn, en björguðust. Klakastíflan situr þó að mestu enn í ánni, og er talin hætta á, að áin hlaupi aftur upp á mýrarnar, ef hláka kemur. Slíkt hlaup sem þetta er talið mjög sjaldgæft í minnum þeirra, sem nú lifa. Bóndi í Hvítárholti er Sigurður Sigurjónsson.
Tíminn segir 8.janúar af illri færð á Snæfellsnesi:
Frá fréttaritara Tímans á Hellissandi. Mikill snjór er nú í byggðum á Snæfellsnesi utanverðu að minnsta kosti og vegir allir torfærir, enda lítið um góðar brautir.
Vindur snerist nú til hvassra norðlægra átta og var sú staða ríkjandi rúman hálfan mánuð. Mjög kalt var í veðri, einkum síðari hluta kaflans. Kastið hófst með fjögurra daga linnulítilli norðan- og norðaustanhríð.
Óvenjuöflug háloftahæð var suður af Grænlandi, en snarpt lægðardrag fór til suðausturs fyrir vestan land. Þar myndaðist lægð sem dýpkaði mjög ört og olli miklu hríðarveðri og kulda á landinu. Kortið að ofan sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum síðdegis sunnudaginn 8.janúar.
Hæð 1000 hPa-flatarins á sama tíma. Hæðin við Hudsonflóa var sérlega öflug, fór að sögn mest rétt yfir 1060 hPa, óvenjulegt á þessu svæði. Lægðin á Grænlandshafi sýnist sakleysisleg, en háloftakortið að ofan afhjúpar illt eðli hennar - og kemur það fram á kortinu daginn eftir.
Staðan síðdegis daginn eftir, mánudaginn 9.janúar. Lægðin hefur dýpkað um 48 hPa á einum sólarhring og norðaustanillviðri skollið á um land allt. Það stóð linnulítið í fjóra daga, en varð síðan skárra. Tíminn segir frá 10.janúar:
Frá fréttaritara Tímans á Ísafirði í gær [9. janúar]. Í nótt og dag hefir verið hér norðaustan hvassviðri, snjókoma og stórsjór úti fyrir. Bátar urðu að snúa við í róðri í gærkveldi og fengu á sig áföll, en eru þó allir komnir i höfn í kvöld.
Á Vestfjörðum og Norðurlandi var hin versta stórhríð í gær [9.], hvasst af norðaustri, frost allmikið og hlóð niður snjó. Mun þetta vera versta stórhríð, sem komið hefir á þessum vetri. Veður þetta náði til Norðausturlands en var miklu betra þegar komið var suður á Hérað. Er hætt við að alir vegir á Norðurlandi teppist, en áætlunarferð að sunnan til Akureyrar átti að verða í dag.
Tíminn segir af ófærð og fleira í pistli 11.janúar:
Í gær urðu áætlunarbílar þeir, sem voru á leið vestur á Snæfellsnes, að láta staðar numið í Borgarnesi og gisti ferðafólkið þar í nótt. Bílarnir lögðu af stað frá Reykjavík snemma dags í gær og voru komnir til Borgarness um hádegi. Var ætlunin að halda ferðinni áfram, en þegar kom vestur fyrir Borgarnes kom í ljós, að ófærð mikil var orðin á vegum á Snæfellsnesi, enda var þar hörku hríð og hvassviðri mikið lengi dags í gær.
Frá fréttaritara Tímans á Hólsfjöllum í gær. Hér brast á versta stórhríð af norðaustri i gær [9.janúar] og stendur veðrið með sömu hörku enn í dag. Á einum bæ hér í sveitinni. Hólsseli, var féð úti, er hríðin brast á, og náðist það ekki inn. Aðfaranótt 3. janúar síðastliðinn brast hér á suðvestan hvassviðri og urðu þá nokkrir heyskaðar, einkum í Möðrudal, þar sem töluvert fauk úr uppbornu heyi hjá Jóni Jóhannessyni bónda þar. Tíðin hefir verið mjög stirð síðan fyrir hátíðar og er allmikill snjór og illt til jarðar. KS.
Vísir segir af flóðum í Hvíta í Árnessýslu 12.janúar:
Fyrir þremur eða fjórum dögum myndaðist krapastífla í Ölfusá, móts við Oddgeirshóla svo áð áin flæddi yfir bakka sína og rann þá niður á milli bæja á láglendinu. Féll vatnselgur austur fyrir Oddgeirshóla og fyrir austan svokallað Langholtshverfi, þannig að samgöngur stöðvuðust að mestu eða öllu við nokkra bæi á þessu svæði. En í morgun er Vísir átti tal við Selfoss, var áin komin niður" sem kallað er, þannig að hún féll öll í farvegi sínum á nýjan leik.
Tíminn rekur veðratjón í Fljótum 12.janúar:
Frá fréttaritara Tímans í Fljótum. Miklir skaðar hafa orðið i Fljótum að undanförnu sökum veðra. Hús og hey hafa fokið, en stanslaus ótíð hefir verið þar í byggð síðan á annan í jólum. Hámarki náðu þó illviðrin undir kvöld á mánudag þann annan janúar, en þá urðu skaðar mestir, bæði í Holtshreppi og Haganeshreppi. Allan mánudaginn [2.] geisaði stórviðri í Fljótum og var á suðvestan bleytuslydda, en stundum gengu regnhryðjur yfir. Fuku þá þök og hey og rúður brotnuðu á mörgum bæjum eiginlega um sama leyti þarna um kvöldið, en veðurhæðin mun þá hafa verið i hámarki. Má segja, að allt hafi verið á tjá og tundri í sveitinni, þegar hæst lét. Eftirtaldir bæir urðu fyrir tjóni: Mjóafell; þar fauk þak af fjárhúsi í heilu lagi og með öllum viðum; þar reif einnig hluta af hlöðuþaki. Lundur; þar fauk þak ofan af hundrað kinda fjárhúsi. Gautastaðir; þar fauk eitthvað af heyi og eldivið. Bjarnagil; þar fauk þak af súrheysgryfju og eitthvað fleira. Saurbær; þar fauk hluti af hlöðuþaki. Stóra-Holt; þar fauk hluti af fjósþaki. Helgustaðir; þar fauk hluti af þaki íbúðarhússins. Á bæjunum Minna-Holti og Nýrækt fuku rúður úr gluggum og fleira. Og á Sléttu fauk alveg eitt stórt hey og hluti af öðru heyi. Allir þess'r bæir eru í Holtshreppi. Færri bæir urðu fyrir tjóni í Haganeshreppi. Á Sjöundarstöðum fauk hey svo og á Stóru-Reykjum og Dæli. Kindurnar stóðu í tóftunum. Í þessu nýársveðri slitnuðu einnig raflínur og ýmislegt fleira fór úr lagi. Var köld aðkoma sums staðar, þar sem kindurnar norpuðu í þaklausum fjárhúsunum, eða þar sem heyforðinn var rokinn út í buskann. Þegar veðrið lægði fóru bændur að reyna að gera við spjöllin til bráðabirgða, en á meðan varð að gefa skepnunum í þaklausum húsunum. Tókst þeim brátt að koma þökum á að nýju, sem gagna til vorsins, og gert var við íbúðarhúsið í skyndi.
Nú má kannski ætla, að Fljótamenn hafi verið sloppnir úr greipum veðurguðsins, en það var ekki svo vel. Dagana 9. og 10. janúar geisaði norðaustan blindhríð og urðu þá mjög miklar truflanir á rafmagni. Hins vegar fauk ekkert í síðari lotunni, enda var veðurhæð ekki eins mikil. S.E.
Tíminn segir af hríðarveðri 13.janúar:
Frá fréttaritara blaðsins á Fosshóli í gær. Þegar stórhríðin brast á hér nyrðra um hádegi á mánudag [9.]var fé allvíða úti, einkum í Mývatnssveit og náðist ekki allt inn þann dag. Í gær og fyrradag var þess leitað og hefir það nú fundist flest, en þó vantar enn nokkrar kindur, allt að tíu, á sumum bæjum, mest á Grímsstöðum og Reykjahlíð.. Flest féð frá Hólsseli á Fjöllum, sem úti var i stórhríðinni, var fundið í gærkveldi, enn vantar þó nokkrar kindur. Er ekki talið ólíklegt, að eitthvað af fé því, sem vantar, hafi fennt.
Frá fréttaritara Tímans á Egilsstöðum í gær [12.]. Þetta er þriðji dagurinn, sem heita má að stórhríð sé hér á Héraði, og hefir hlaðið niður snjó og allir vegir ófærir orðnir. Allhvasst hefir verið og hefir dregið í skafla og getur því verið sæmileg beitarjörð, þegar upp birtir. 1 allan fyrravetur kom aldrei eins mikill snjór hér og nú er kominn, en sá vetur var líka mjög snjóléttur hér. Flugvöllurinn er ófær, og á honum 810 þumlunga snjólag, en hann verður ruddur jafnskjótt og birtir hríðina. E.S
Frá fréttaritara Tímans á Fosshóli í gær. Að undanförnu hafa verið allmiklir ruðningar í Skjálfandafljóti, og hefur það hlaupið upp á bakka á nokkrum stöðum með jakaruðningi og teppt vegi, einkum að austanverðu í Bárðardal. Fljótið hefir verið óvenjulega mikið ísilagt svo snemma vetrar að undanförnu og það ruddi sig ekki í hlákunum fyrir jólin. Síðustu daga hefir það svo rutt sig nokkuð, en um leið myndast klaka- og krapastíflur í það á nokkrum stöðum. Hrúteyjarkvísl sem myndar Hrútey vestan Goðafoss hljóp úr farvegi sínum rétt við brúna á kvíslinni á aðalveginum til Akureyrar. Myndaðist þar krapastífla og fór hlaupið yfir veginn austan brúarinnar á nokkrum kafla, og varð þar ófært um skeið, en þegar sjatnaði var mikil jakahrönn á veginum og varð að ýta henni burt svo að vegurinn yrði fær og er því nú lokið. Frammi í Bárðardal hafa nokkrar stíflur komið í fljótið og það hlaupið úr farvegi. Rétt sunnan við nýju brúna á móts við Stóruvelli myndaðist stífla, aðallega suður á móts við Litluvelli, og flæddi fljótið upp á austurbakka og rennur nú í gömlum farvegi að nokkru austan brúarinnar og teppir alveg veginn suður dalinn að austan, svo og yfir brúna. Menn, sem fóru yfir fljótið í gær, gátu ekki farið á brúnni en urðu að fara á ís nokkru norðar. Nokkru utar, á móts við Sigurðarstaði, hefir fljótið einnig flætt upp á austurbakkann og rann þar um sanda alveg upp að brekku. Tepptist vegurinn þar einnig alveg. Suður við Lundarbrekku hefir fljótið einnig flætt yfir, en þar er upphlaðinn vegur og mun þar fært.
Tíminn segir 15.janúar af strandi í Borgarfirði:
Vélskipið Hvassafell strandaði á morgunflóðinu í gær [14.] á sandeyri í Borgarfirði. Var skipið að fara frá bryggju í Borgarnesi. Á kvöldflóðinu í gær náðist skipið út aftur óskemmt og án hjálpar annarra skipa.
Tíminn birti 3. febrúar bréf úr Grímsey, dagsett 15.janúar. Þar er lýst fádæma snjóalögum:
Fréttabréf frá Grímsey, 15.janúar. Veðráttan hér í Grímsey hefir verið mjög slæm, það sem af er og segjast gamlir Grímseyingar ekki muna jafn slæman desembermánuð og nú síðastliðinn. Fannfergið er mikið og í sambandi við það má nefna, að verslunarhús KEA í Grímsey eru algjörlega komin í kaf í snjó og hafa verið gerð snjógöng og reft yfir til þess að halda leiðinni opinni. Allir aðdrættir upp úr Sandvíkinni eru afar slæmir og nær ógjörlegir sem stendur. Gæftir eru að sjálfsögðu engar, enda reynst erfitt að afla til matar síðan snemma í haust. Útbeit kinda er svo til engin og mun þetta vera með lengri innistöðum því að hér er að jafnaði mjög snjólétt GJ.
Tíminn segir enn hríðarfréttir 19.janúar:
Frá fréttaritara Tímans í Ólafsfirði. Hér hefir verið versta veður flesta daga síðan 10. janúar, en þá gerði norðaustan garð, og gerði slíkan stórsjó, að flóabáturinn Drangur komst ekki til Siglufjarðar. Komst hann ekki þangað fyrr en á fimmtudaginn í vikunni sem leið, og varð þá að fara hjá Ólafsfirði. Á laugardaginn [14.] létti nokkuð veðrið og dró heldur úr sjó, svo að Drangur komst til baka með viðkomu hér. Vélbátarnir Einar Þveræingur og Sævaldur höfðu verið á Akureyri áður en garðinn gerði að búa sig til suðurferðar, en komust ekki heim fyrr en á laugardaginn til þess að taka þar útbúnað sinn og vistir á Suðurlandsvertíð. Stígandi fór suður í vikunni sem leið og er nú kominn til Keflavíkur. Í gær héldu Einar Þveræingur og Sævaldur til Akureyrar vegna veðurs hér og munu þeir síðan halda suður þaðan von bráðar.
Mikið fannfergi er nú komið hér og ófært bílum um sveitina, en bærinn hefir til þessa haft næga mjólk, sem flutt er hingað á sleðum.
Og áfram heldur Tíminn 21.janúar:
Frá fréttaritara Tímans á Egilsstöðum í gær. Hér bætir snjó á hvern dag, og er snjór orðinn mjög mikill, og snjólag með versta móti svo að venjulegir snjóbílar komast ekki um. Er því alger umferðateppa á vegum hér, og hefir ekki komið snjóbíll frá Reyðarfirði marga daga. Hins vegar er flugvellinum haldið opnum og flogið hingað reglulega, en ýta verður að hreinsa flugbrautina fyrir hverja flugvélarkomu. Snjólagið er þannig, að mikið er um harða skafla af eldri snjó, en nýi snjórinn, sem fallið hefir síðustu daga, er laus. Þorbjörn Arnoddsson á Seyðisfirði er nýbúinn að fá nýjan, amerískan snjóbíl, sem er á lengri og breiðari beltum en gömlu snjóbílarnir og um leið styttri sjálfur, og reynist hann miklu betur í erfiðu snjólagi. Kom hann á bílnum yfir Fjarðarheiði í dag og gekk sæmilega, en taldi ófært með öllu á gömlu snjóbílunum. Þolir þessi bíll miklu meiri hliðarhalla án þess að beltin fari undan honum. Fé er alls staðar gefið inni á Héraði, en sums staðar einkum uppi á Jökuldal mun vera nokkur jörð, því að mjög er þar rifið, en ekki hægt að nýta beitina vegna veðra. ES.
Tíminn segir af vandræðum á Suðurlandi 22.janúar:
Frá fréttaritara Tímans á Hvolsvelli. Hér hefir um tíma verið óvenjulega frosthart veður og snjór talsverður á jörð, svo að heita má, að alger jarðbönn séu. Færi á vegum er þó sæmilegt og hafa mjólkurflutningar gengið eðlilega. Seinfært er þó niður á Bakkabæi. Seljalandsá hefir hlaupið úr farvegi sínum á kafla og veldur nokkrum farartálma. Í frosthörkunum síðustu dagana hefir Seljalandsá bólgnað upp og hlaupið úr farvegi sínum og flæðir nú á nokkuð löngum kafla yfir þjóðveginn og eftir honum bæði austan og vestan brúarinnar, og er austurleiðin nú ófær litlum bifreiðum, en mjólkurbílar og aðrir stórir bílar hafa enn komist þar leiðar sinnar. Ekki hafa önnur vötn farið úr farvegi svo að valdið hafi farartálmum. P.E.
Vísir kvartar um tíð 23.janúar:
Það sem af er janúarmánuði hefur hann verið óvenju kaldur og á Norðurlandi hafa ríkt harðviðri hin mestu. Um allt norðanvert landið frá Vestfjörðum og austur á firði hefur snjóað á hverjum degi um langt skeið og stundum verið stórhríðar. Enn í morgun gekk þar á með éljaveðri. Í morgun og nótt sem leið var frost með mesta móti. Var kaldast í Möðrudal í morgun af athugunarstöðvum Veðurstofunnar, 20 stig, og álíka mikið frost var á Nautabúi í Skagafirði í nótt. Á Húsavík er nú hríðarveður á hverjum degi, snjóþyngsli mikil og samgöngur erfiðar, þó hafa Húsvíkingar fengið næga mjólk til þessa. Á Húsavík sjálfri er fannfergið svo mikið að við sumar götur ná snjóskaflar upp á miðja glugga á annarri hæð húsa. Í morgun var kuldi þar og skafrenningur. Mjólk hefur verið flutt á bátum frá Dalvík og Árskógsströnd til Akureyrar vegna þess að vegir eru með öllu lokaðir. En svo eru snjóþyngslin mikil í nágrenni þessara staða að bændur eiga í miklum erfiðleikum með að koma mjólkinni á bátana. Skjálfandafljót hefur stíflast og flæðir yfir bakka sums staðar einkum fyrir norðan Sigurðarstaði og Lundarbrekku. Þar rann fljótið á þrem stöðum yfir veginn og er illmögulegt að komast þar á milli bæja. Annars staðar á landinu eru yfirleitt miklar frosthörkur og sams staðar harðindi. Á Breiðafirði er víða kominn mikill ís og meira að segja hér í Reykjavík er höfnina að leggja.
Tíminn segir 24.janúar frá hlaupi í Múlakvísl, lagnaðarísum, flóðum og fannkomu:
Frá fréttaritara Tímans í Vík í Mýrdal. S.l. föstudag [20.] kom allmikið jökulhlaup í Múlakvísl, og er það mjög óvenjulegt á þessum tíma, svo að elstu menn muna ekki dæmi þess. Flutti hlaupið mikla jakahrönn fram á sandinn. Hlaup þetta var þó allmiklu minna en það, sem kom í vor, en það kom á sömu stöðum undan jöklinum, í þrengslunum milli Léreftshöfuðs og Selfjalls þar sem gamla brúin var, en hana tók af í hlaupinu í vor, var dýpi hlaupsins 3,5 metrar, en farvegurinn þar um þrengslin er 57 metrar á breidd. Á föstudagskvöld hafði hlaupið fjarað nokkuð, en á laugardag óx það aftur að mun. Á sunnudaginn var mjög fjarað í ánni, en þó var á henni mikill jökullitur og talsvert vatnsmagn í henni í gær. Víst er, að þetta hlaup hefði nægt til að taka af gömlu brúna, ef hún hefði enn verið á sínum stað. Mikill jakaburður var í hlaupinu og er nú úfin hrönn um sandinn og ófær hverri skepnu og farartæki. Hlaupið fór allt undir nýju brúna, en hún er nú fær, búið að tengja brúarsporðana við veginn og var ekið í fyrsta sinn yfir hana um helgina. Ekkert hlaup kom í Skálm eins og í vor, en það vatn kom líka allt ofan af jöklinum. Af þessu óvenjulega jökulhlaupi virðist helst mega draga þá ályktun, að mikið bráðni nú við heitar stöðvar undir Mýrdalsjökli, þar sem svo skammt er milli hlaupa, en jökullinn sé hins vegar svo lít01 tálmi, að hlaup fái framrás jafnharðan og eitthvað safnast fyrir, og gæti það vakið vonir um, að minni hætta væri á stórhlaupum. ÓJ.
Frá fréttaritara Tímans í Grímsnesi í gær. Í gær tók að bera á því, að Álftavatn væri farið að hækka og í nótt sem leið hafði það hækkað svo mikið, að flæddi yfir veginn í Vaðvíkinni, þar niður undan, sem sumarbústaðirnir eru flestir. Í dag hækkaði vatnið svo að orðið var mjög erfitt stórum bílum og mátti alls ekki hækka, svo að ekki yrði ófært með öllu. Bílstjóri, sem ók upp að Ljósafossi í kvöld sagði, að krapastífla virtist í ánni á tveim stöðum, þar sem Álftavatn fellur í Sog og þar sem Sogið fellur í Hvítá, og þó öllu meiri neðar. Vatnið flæðir yfir veginn á 200 metra kafla og alldjúpt sums staðar, svo að alveg er ófært litlum bílum og má ekki dýpka, ef stórir bílar eiga að komast leiðar sinnar. Hins vegar virtist ekki hafa hækkað seinnipartinn í dag. Hér er 18 stiga frost en logn í dag. Á.E.
Frá fréttaritara Tímans í S-Þingeyjarsýslu í gær. Enn hleður fönn niður í héraðinu og er snjór orðinn geysimikill. Frost er 1516 stig, en á einstaka stað hefir það þó mælst allt að 20 stigum. Snjóbíll kom fram í Fosshól í gær af Húsavík og var 5 klst. Í dag átti hann að fara upp í Mývatnssveit að sækja menn, er ætla suður á vertíð með Heklu frá Húsavík á morgun. Var hann þó ekki lagður af stað síðdegis, og fóru Mývetningar gangandi niður yfir heiði á móti honum. Í Húsavík er geysilegur snjór enda snjóasamt þar í þessari átt.
Samkvæmt upplýsingum, sem Tíminn fékk í gær hjá hafnsögumönnum, er kominn talsverður ís í Reykjavíkurhöfn, en þó ekki svo, að siglingar flutningaskipa. eða stærri vélbáta sé veruleg hindrun að. Í gærdag var dráttarbáturinn Magni notaður til þess að brjóta ís í höfninni ásamt hafnarbátunum hinum. Þannig var til dæmis brotinn ís út af Slippnum í Vesturhöfninni, vegna þess að togarinn Geir var settur niður úr dráttarbraut. Í gærmorgun var höfnin lögð, en ísinn yfirleitt þunnur og brotnaði við ferðir skipa um daginn. Þar sem ísinn er þykkastur er hann fjórir til fimm þumlungar. Ef frost heldur áfram svipað og undanfarið má við því búast, að ís geti orðið fljótlega til verulegra óþæginda í höfninni. Utan hafna gætir hins vegar ekki ísalaga. Að vísu er mikið krap og ís út af Rauðarárvíkinni og þó að það berist út með vindum og straumum gætir þess ekki varðandi siglingar.
Frá fréttaritara Tímans í Hornafirði í gær. Fjórir bátar eru byrjaðir róðra og afla 1015 skippund í róðri og má það teljast meðalafli. Ísalög eru nú að myndast í firðinum og ferðir bátanna þar að verða erfiðar. Ein renna er þó enn opin, en hún þrengist sífellt. Er nú ráðgert að fara að sprengja ísinn með sprengiefni og gera leiðina greiðfærari. Bátar munu ekki róa í kvöld, því að allhvasst er, og í slíku frosti hleður mjög ís á bátana, þegar sjór er ókyrr. AA
Ekki hefir verið hægt að komast yfir Fagradal með neinu farartæki undanfarinn hálfan mánuð. Snjóbílar hafa ekki komist leiðar sinnar vegna óhagstæðra snjóalaga fyrir þá. Auk þess hafa illviðri og hörkuhríðar verið tíðar og tæpast leggjandi á fjallvegi vegna hríðarblindu. Hefir umferðarstöðvunin verið svo alger, að ekki hafa nein farartæki komist milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, enda enginn bátur til á Reyðarfirði til milliferða. Í fyrrinótt jók harðfenni á Fagradal og var því lagt upp á snjóbíl yfir dalinn til Egilsstaða í gær.
Tíminn segir 28.janúar síðbúnar fréttir af hríðinni fyrr í mánuðinum - og fleiru:
Í aftakaveðrum, sem gerði um 10. þ.m. missti bóndinn á Skefilsstöðum á Skaga 5060 fjár, sem ýmist fórst í snjóflóðum, fennti eða hraktist til dauðs á Skagaheiði. Lenti bóndinn, Viggó Sigurjónsson, í miklum mannraunum við að ná fénu inn í veðri þessu og þurfti til þess hjálp nokkurra manna. Það var 9. þ.m. sem stórhríð skall á þarna, og var fé Viggós, um 220 fjár þá úti. Fór Viggó þá þegar að reyna að ná fénu saman, tókst að finna það og ná saman, en veðurofsinn dreifði hópnum þegar aftur, og hrakti féð undan veðrinu inn á Skagaheiði, enda var hjarn og færi gott. Hraktist Viggó með fénu suður og vestur á Skagaheiði, en varð að skilja þar við það og mátti hafa sig allan við að ná heim þegar liðið var á kvöld. Daginn eftir fór hann að leita á þeim slóðum, er hann bjóst helst við fénu. Fannst engin kind þann dag, enda var féð komið langt inn á heiði. Þriðja daginn fékk hann nokkra menn af næstu bæjum og frá Þverá í Norðurárdal til leitar með. sér. Fundu þeir þá 130 kindur lifandi í gili á heiðinni. Einnig fundu þeir lifandi kindur í fönn en annað dautt og frosið niður, þar sem það hafði kastast til á hálku. Ómögulegt var að fara heim með féð úr gilinu vegna veðurofsa. Næsta dag lögðu þeir enn á stað með hey á hestasleðum handa fénu, sem var í svelti. Þegar að gilinu kom, fundu þeir um 30 kindur dauðar í snjóflóði, sem fallið hafði í gilinu.- Næsta dag var fé það, sem fundið var lifandi, rekið heim og leit haldið áfram og fannst nokkuð til viðbótar, er alls höfðu 5060 kindur fundist dauðar eða voru týndar.
Frá fréttaritara Tímans á Súgandafirði. Síðastliðinn miðvikudag voru nokkrir drengir að leika sér við að grafa snjóhús í stóra hengju, sem hafði hrannast utan á gripahús hér við Suðureyri í hríðunum að undanförnu. Við þetta féll hengjan ofan á tvo drengjanna og munaði litlu að alvarlegt slys hlytist af því.
Frá fréttaritara Tímans í Hvammssveit. Mikill og þykkur ís er nú á Hvammsfirði og Gilsfirði og hefir engum skipum verið fært til hafnanna Búðardals og Salthólmavíkur síðan um áramót. Búast menn ekki við að ísinn fari fyrr en með vorinu og getur siglingateppan valdið miklum óþægindum, einkum ef samgöngur verða samtímis erfiðar á landi. Flóabáturinn Baldur kemst nú ekki nema til Flateyjar og Króksfjarðarness, vegna ísalaga á Breiðafirði. Mörg ár eru síðan jafn mikill ís hefir komið á Breiðafjörð.
Eins og frá hefir verið sagt í fréttum blaðsins, urðu flóð nokkur úr Hvítá í Árnessýslu fyrrihluta janúar og mynduðust eftir þau allmiklar jakahrannir og stíflur í ánni. Einna mest var um þetta við Brúnastaði í Hraungerðishreppi. En áin braut sér fljótt braut undir stíflurnar og hefir runnið í farvegi sínum síðan, enda verið lítið í henni. En þegar svona hagar til, er ætíð hætta á flóðum, er snögg hláka kemur eða stórrigning. Nokkur uggur var því í bændum sem á lægstu svæðunum búa, er spáð var hláku í gær, um að flóð mundi verða. Tíðindamaður blaðsins átti í gærkveldi tal við Ágúst Þorvaldsson bónda á Brúnastöðum um þetta. Sagði hann, að hlákan hefði verið hæg og nær engin rigning, og hefði því lítið hækkað í ánni og engin merki þess sæjust, að áin stíflaðist við jakahrannirnar. Kvaðst hann vona, að leysingin yrði svo hæg, að áin næði eðlitegri framrás. Annars er ferlegt um að litast við ána á þessum slóðum, svæðið allt vestur fyrir Kiðaberg sem apalhraun að sjá. Geysimikill klaki er og á þeim svæðum, sem áin flæddi yfir dagana 5. og 6. janúar.
Vísir ræðir 28.janúar við Sigurjón Rist um hlaupið í Múlakvísl:
Sigurjón Rist vatnamælingamaður Raforkumálastjórnar er nýkominn úr leiðangri austur í Skaftafellssýslu, þar sem hann vann að því að kanna orsakir vatnavaxtanna í Múlakvísl um fyrri helgi. Sigurjón tjáði Vísi þegar hann kom til baka að allt rennsli úr Múlakvísl hafi staðnað, eða með öðrum orðum bókstaflega horfið í heilan mánuð. Veittu brúarsmiðirnir sem vinna að Múlakvíslarbrúnni þessu athygli. Það litla vatn sem þá féll i farvegi árinnar voru bergvatnskvíslir sem eiga upptök sín í heiðinni, en úr jökli kom ekkert vatn. Rennslið í Múlakvísl sjálfri mun hafa horfið í óveðurskaflanum fyrir jólin. Eru líkur til að frosið hafi fyrir jökullónin sem áin kemur úr og auk þess myndaðist mikil klakastífla með vatnsfyllu á eyrunum norðan við Hafursey, og var þessi stífla víða um þriggja metra þykk. Enn fremur mun áin hafa bólgnað upp í gljúfrunum og þar myndast stíflur ein eða fleiri. Þegar þetta ástand hafði varað í mánuð náði áin sér fram og sprengdi fyllurnar sem myndast höfðu á eyrunum. Kallast slík fyrirbæri þrepahlaup. Að því er Sigurjón Rist taldi, myndi framrennslið úr jökullónunum sjálfum hafa verið án umbrota, því engin verksummerki eða jakar voru þar efra, en aðalvatnsmagnið mun hafa kornið þegar jakastíflan á eyrunum sprakk. Sigurjón sagði, að yfirleitt hafi vatnsrennslið úr Múlakvísl verið óvenjumikið í allt haust, eða þar til það stöðvaðist hinn 20. des. s.l. Mun þetta orsakast vegna tilfærslu á vatnsrennsli, eftir jökulhlaupið frá í sumar þegar brýrnar tók af Múlakvísl og Skálm, því að eftir það hefur allt vatn úr Höfðabrekkujökli fallið í Múlakvísl en ekkert í Skálm svo sem áður var. Áþekkt fyrirbæri átti sér stað eftir Skeiðarárhlaupið, í hitteðfyrra. Eftir það hefur aðalvatnið frá jöklinum fallið í Skeiðará en mjög lítið í Sandgígjukvísl og Súlu. Sigurjón Rist sagði að uppistöðuvatnið sem rann fram í Múlakvíslarhlaupinu fyrir rúmri viku hafi numið 8 milljónum teningsmetra, sem er mánaðarrennsli Múlakvíslar, en það jafngildir 1/4 hluta meðal sólarhringsrennsli Þjórsár. Þrepahlaup sem þetta, hefur ekki komið fyrir áður í Múlakvísl a.m.k. ekki svo því hafi verið veitt athygli. Og frá því að gamla Múlakvíslarbrúin var byggð hefur það ekki komið, því hún myndi ekki hafa þolað slíkt hlaup sem þetta. Hins vegar sakaði þetta nýju brúna á engan hátt, enda dreifðist hlaupið þá orðið meira og var búið að missa mesta þungann.
Nú skipti rækilega um veðurlag.
Rauði ferillinn á myndinni sýnir lægsta þrýsting á landinu á hverjum athugunartíma (8 á sólarhring) frá áramótum fram í miðjan febrúar. Bláu súlurnar sýna þrýstispönn, mun á hæsta og lægsta þrýstingi á landinu. Því meiri sem þessi munur er því hvassara er (að jafnaði). Veðrið er farið að verða vont í heilum landshlutum eða jafnvel víða um land fari spönnin upp fyrir 15 hPa eða svo. Við sleppum dögunum 16. til 25.janúar, heldur minna var þá um að vera. Óróinn fyrstu daga janúar kemur vel fram. Hríðarveðrið mikla þ. 9. til 12. sömuleiðis, samfelldur norðan- og norðaustanstrengur í rúma fjóra sólarhringa. Nokkuð hvasst varð seint í janúar og þá varð þrýstingur lægstur. Um þverbak keyrði þó að kvöldi 1. og aðfaranótt 2. febrúar. Þá gerði gríðarlegt sunnanillviðri. Sömuleiðis varð nokkuð hvasst 5. og 8. febrúar, en tjón varð þá þó mun minna.
Tíminn segir frá hláku í pistli 29.janúar:
Allur ís er nú horfinn af Borgarfirði og ruddi Hvítá sig í fyrradag [27.]. Mikill ís var kominn þar um slóðir og Hvítá komin á ís upp við Ferjukot í Borgarfirði, en slíkt kemur ekki fyrir nema í miklum frostum. Um tíma truflaði ísinn siglingar til Borgarness. Flóabáturinn sem annast hinar föstu áætlunarferðir gat þó farið ferða sinna, en tafðist stundum nokkuð vegna ísreka á Borgarfirði.
Vísir heldur áfram að tala við Sigurjón Rist 31.janúar - í þetta sinn um vatnafar almennt:
Þrátt fyrir rigningarnar á Suðurlandi í sumar er leið og þurrkana á Norðausturlandi voru jökulár þar yfirleitt í meiri vexti en jökulár á Suðurlandi. Sigurjón Rist vatnamælingamaður raforkumálastjórnar skýrði Vísi frá þessu fyrir skemmstu. Hann sagði að ár hefðu að vísu verið miklar á Suðurlandi í sumar, en rennslið í þeim yfirleitt jafnt og aldrei komið í þær stórflóð. En það undarlega var þó að ár sem komu úr jöklum og féllu norður, eins og t.d. Jökulsá á Fjöllum, var að sínu leyti vatnsmeiri og hefur aldrei verið jafnvatnmikil frá því er mælingar hófust árið 1937. Tveir merkustu viðburðir s.l. vatnsárs voru Kötluhlaupið 25. júní, þegar brýrnar tök af Múlakvísl og Skálm og Skaftárhlaupið fyrstu dagana í september, en brennisteinsreykurinn af því síðarnefnda var svo mikill að hann lagði alla leið norður í land. Í Kötluhlaupinu hljóp fram 30 milljón teningsmetra vatnsflaumur, en í Skaftárhlaupinu rösklega 200 milljón teningsmetrar, svo miklu meira var það. Aftur á móti olli það minna tjóni en Kötluhlaupið og fyrst og fremst af því að það dreifðist yfir lengri tíma og átti upptök sín svo að segja í jökuljaðrinum um 50 km frá jökulröndinni. Kötluhlaupið átti aftur upptök sín svo að segja í jökuljaðrinum, kom því miklu snöggar og mætti heita að vatnsflaumurinn félli fram í einni svipan.
Tíminn segir 31.janúar frá krapaflóði í Mjóafirði:
Síðastliðna sunnudagsnótt [29.janúar] skall vatns- og krapaflóð á húsum í Brekkuþorpi í Mjóafirði eystra, svipti burt fjárhúsi og sjóhúsi og bar fram í sjó. 14 kindur, hestur og kýr fórust. Vörubifreið liggur brotin niðri í fjöru, og ýmsar aðrar eignir eyðilögðust. Fannkynngi og mikil frost hafa verið á þessum slóðum, sem víðast annars staðar síðustu vikur, en dagana fyrir síðustu helgi kom asahláka með hvassviðri og stórrigningu. Um klukkan hálfþrjú á sunnudagsnóttina vaknaði Þórarinn Sigurbjörnsson, sem býr í timburhúsi rétt innanvið Borgareyrarána, við það að vatnsflaumur skall á húsinu alveg upp á glugga. Flóðið sjatnaði þó brátt, og húsið stóð af sér árásina. Komst fólk út úr húsinu, en þegar út kom, sást að flóðið hafði svipt brott fjárhúsi, sem stóð um 10 metra frá íbúðarhúsinu nær ánni. Í húsi þessu voru um 40 kindur, meirihluti þeirra slapp lifandi, en 14 fórust. Húsið var með grjót- og torfveggjum. Sjóhúsið fór sömu leið.
Niðri á sjávarbakkanum stóð allstórt sjóhús úr timbri og járni. Flóðið tók þetta hús alveg og bar á sjó fram. Í sjóhúsinu var einn hestur og ein kýr, og drap flóðið báða gripina. Þar var einnig inni vörubifreið ásamt fleiri tækjum og eignum, og eftir flóðið lá vörubifreiðin brotin niðri í fjöru. Trillubátur, sem lenti í jaðri flóðsins, brotnaði ekki, heldur flaut fram. Borgareyrará er smáá, sem kemur úr dalverpi uppi í fjallinu og fellur í bröttu gili niður hlíðina. Hefir hún ekki í mannaminnum valdið tjóni að vetrarlagi. Í þetta sinn mun snjó- og klakastífla hafa myndast uppi í gilinu, þar sem þrengsli eru, og áin verið hálfstífluð síðasta frostakafla, en vatn safnast í gilinu. Í hlákunni hefir vatnið svo brotist fram í því stórflóði, sem fyrr getur flóð þetta hefir verið svo mikið, og fall þess svo þungt í þessu brattlendi, að fullvíst er talið, að það hefði svipt burt íbúðarhúsum í þorpinu, ef það hefði lent á þeim með fullum þunga, en sem betur fór, fór það að mestu framhjá, svo að mannslífum var þyrmt.
Sömuleiðis segir enn af tjóni við Hvítá í Árnessýslu:
Það er nú komið í ljós, sagði Ágúst á Brúnastöðum í gærkveldi, að flóðið, sem kom í Hvítá 5. og 6. janúar, hefir stórskeramt mannvirki Flóaáveitunnar, svo að tjónið nemur tugum þúsunda króna. Þegar eftirlitsmaður Flóaáveitunnar fór að athuga aðalflóðgátt veitunnar, sem er skammt frá Brúnastöðum, kom í ljós, að dúnkraftar eða tæki, sem notuð eru til þess að færa flóðgáttarfleka fyrir og frá, hafa brotnað og eyðilagst. Eru þetta dýr tæki og erfitt að gera við þetta. Mun jakaruðningur í flóðinu hafa brotið tækin. Ekki mun verða reynt að gera við þetta fyrr en í vor, og mun það verða erfitt, og að líkindum verða þá keypt dýrari og betri tæki en fyrir voru.
Veðráttan bætir þessu við um tjón í janúar. Þann 2. tók járn af nokkrum húsum á Raufarhöfn, þak af fjárhúsi fauk á bænum Vatnsenda þar í nágrenninu og skemmdir urðu á fleiri bæjum þar í sveit. Járnplötufok varð einnig á stöku stað í Borgarfirði eystra. Hluti af íbúðarhúsþaki fauk á Þorvaldsstöðum í Breiðdal. Þann 4. fauk hluti af hellulögðu þaki Þingeyrakirkju í Húnavatnssýslu.
Þann 1. febrúar og nóttina eftir gerði gríðarlegt illviðri af suðri á landinu - með verstu veðrum víða um landið norðanvert. Aðdraganda þess lýsir Páll Bergþórsson vel í tímaritinu Veðrinu 2. hefti 1956. Við tökum það veður út fyrir sviga hér (það ríður árstextanum á slig) og fjallar sérstakur pistill um það. Annars var febrúar bæði hlýr og hagstæður. Lítum á lýsingar veðurathugunarmanna:
Síðumúli: Veðrið fyrsta febrúar er mörgum minnisstætt. Það olli víða skemmdum og skaða. Hér í Hvítársíðu var ekki aftakaveður og varð ekkert tjón að. Þegar mánuðurinn er liðinn hefir maður aðeins góðar endurminningar um hann, fádæma veðurblíðu, auða og þíða jörð, sem grænkaði í hlaðvörpum og víða á túnum. Í endir mánaðarins kólnaði þó og snjóaði.
Lambavatn: Það hefir verið mjög hagstætt veður yfir mánuðinn. Nær alltaf frostlaust og jörð nær alauð. Nú, seinni hluta mánaðarins hefur mátt heita blíðviðri, oft þoka og svolítill úði. Allur snjór horfinn úr byggð og svell að hverfa af tjörnum.
Barkarstaðir (Benedikt Björnsson): Besti febrúarmánuður síðan 1929.
Hólar í Hjaltadal (Friðbjörn Traustason): Þann 1. kl.16 hvessti á suðaustan, jókst vindur svo að kl.21 tel ég hann 12 vindstig. Hélst sá styrkleiki til síðari hluta nætur. Úrkomumælir skekktist, úrkomumæling spilltist.
Sandur: Tíðarfar var hlýtt og hlákusamt. Snjóa leysti mjög svo jörð varð mikið til auð á láglendi. Stórfannir voru þó enn í lægðum í mánaðarlokin. Hagar voru góðir og samgöngur hindranalausar á vegum að undanskilinni fyrstu vikunni. [1.] Ofsaveður af suðsuðaustri frá kl. 18-24, 11-12 vindstig. Með almestu veðrum sem hér geta komið í þeirri átt. Skaðar ekki teljandi hér í sveit, en mjög miklar sumstaðar í nágrannasveitunum, einkum Mývatnssveit og Reykjahverfi. Hey fauk og þök af húsum og hlöðum á fjölmörgum bæjum.
Reykjahlíð: Að undanteknu hvassviðrinu mikla að kvöldi 1.febrúar hefur allur mánuðurinn verið einmuna góður sem miðsvetrarmánuður hér uppá hálendinu. En stormurinn var meiri og tjón almennara en í nokkru öðru veðri sem ég hefi haft fréttir af. Eru þær skemmdir síst minni en talið hefur verið í blöðum.
Þorvaldsstaðir (Haraldur Guðmundsson): Aðfaranótt 2. febrúar. Sunnan hvassviðri, en þó hafa áður komið eins miklir stormar og jafnvel meiri hér um slóðir. Víða urðu skaðar af völdum veðursins. Rúður fuku úr húsum, á einum bæ fauk hluti af fjárhúsþaki. Lítið eitt fauk af heyjum. Á Bakkafirði fuku bátar um koll og á þeim urðu skemmdir nokkrar.
Gunnhildargerði (Anna Ólafsdóttir) Aftakarok um nóttina [2.]. Í Hjaltastaðaþinghárhreppi [fuku] þök af 3 hlöðum.
Hallormsstaður (Páll Guttormsson): Þegar kom fram um miðjan dag þann 1. hvessti af suðri og rigning fór vaxandi. Hvassviðrið óx eftir því sem á daginn leið og upp úr miðnætti náði veðurhæðin hámarki. Um 20 km hér austar í Héraðinu á bænum Vaði var óstætt veður, veðurhæð á að giska 13 vindstig. [Austan Lagarfljóts, á Útnyrðingsstöðum auk partur af þakinu á íbúðarhúsinu].
Skriðuklaustur (Jónas Pétursson): Fyrsta dag mánaðarins sunnan ofsaveður um kvöldið og fram á nótt þess 2. Geysileg rigning fylgdi. Heytjón varð þá á Glúmstöðum og skemmdir á vegum miklar af vatnsflóðum. Eftir þetta að heita mátti samfelld veðurblíða allan mánuðinn.
Víðistaðir: (Bjarni Erlendsson): [1.] Járn og pappa tók af fjósþaki og sleit rafleiðslu. Gerði ofsarok af suðaustri og suðsuðaustri.
Illviðrið í upphafi mánaðarins gekk fljótt niður, en næstu daga á eftir gerði tvö önnur hvassviðri, mun minni þó. Tjón varð á Vestfjörðum í síðara veðrinu og segir Tíminn frá því í frétt þann 10:
Frá fréttaritara Tímans á Ísafirði í gær. Í gær [8.febrúar] gekk hér yfir aftakaveður, ofsaveður með stórrigningu, og varð af nokkurt tjón, einkum á vegum hér í nágrenninu. Þó fylgdi veðri þessu einn kostur, og hann var sá, að Nónvatn og Fossavatn, en það eru forðabúr rafveitunnar okkar, fylltust alveg, og ætti stöðin því að hafa nóg vatn það sem eftir er vetrar. Vatn flæddi í veðri þessu víða inn í kjallara húsa hér í Ísafjarðarkaupstað og olli nokkru tjóni. Seljalandsvegur er stórspilltur eftir þetta vatnaveður, víða grafið og runnið úr honum. Einkum er mikið tjón við brýrnar á Úlfsá og Kirkjubólsá. Nokkurt tjón á vegum mun einnig hafa orðið í Bolungarvík og í Súðavík. [Á fyrrnefnda staðnum fauk þak af húsi - segir Veðráttan].
Morgunblaðið segir þann 9. febrúar frá óvenjulegum hlýindum:
Sem kunnugt er hafa verið hlýindi um land allt nú nokkra undanfarna daga. Í gær náði þessi hlýi loftstraumur því að nálgast hitabylgju, a.m.k. á Norðurlandi, þar sem hitinn mun yfirleitt hafa verið 10 stig við sjávarsíðuna og til sveita. Mældist t.d. 12 stiga hiti á Siglufirði, í Skagafirði 11 stig og á Akureyri 8 stig. Á Galtarvita var 10 stiga hiti og austur í Vopnafirði 11 stig. Um sunnanvert landið var hitinn yfirleitt 9 stig, t.d. á Loftsölum og hér í Reykjavík var 9 stiga hiti og á Þingvöllum sama. Í gær var hvasst um suðvesturhluta landsins, t.d. nálgaðist fárviðri á Snæfellsnesi. Í Kjörvogi voru 11 vindstig. Hér í Reykjavík voru 8 vindstig síðdegis í gær og í Vestmannaeyjum 9. Búist er við frostlausu veðri a.m.k. í dag.
Tíminn segir 11.febrúar frá illfærum vegum (ekki vegna snjóa):
Frá fréttaritara Tímans á Hofsósi. Vegir eru margir illfærir í Skagafirði um þessar mundir. Ófært er frá Hofsós lengra út með Skagafirði, en í Sléttuhlíð, en hins vegar er sæmilega fært til Sauðárkróks. Illfært er víða um sveitirnar. Veðrið mikla á dögunum hefir gert mikinn usla og almennari en haldið var í fyrstu. Útihús eru illa komin á mörgum býlum og víða illa búið um hey eftir óveðrið. Verða menn að nota þau ráð. sem tiltækileg reynast til að forða heyjum frá frekari skemmdum.
Síðan koma fréttir af veðurblíðunni. Tíminn 12.febrúar:
Einmuna veðurblíða er nú hvern dag og nær um allt land. Í gær var víðast hvar stilla, jafnvel heiðríkt og sólskin en þó frostlaust, og hefir einnig verið svo síðustu nætur. Fréttaritari blaðsins á Egilsstöðum sagði, að þar væri blíðskaparveður, suðvestan gola. léttskýjað og sólskin. Frostlaust hefði verið síðustu sólarhringa. Snjór er mjög að hverfa af láglendi og bílfært um allt, einnig Fagradal. en snjóbíll gengur yfir Fjarðarheiði. Flugvöllurinn vel fær og tíðar flugsamgöngur. Fréttaritari Tímans á Akureyri sagði, að þar hefði verið um 6 stiga hiti, kyrrt veður og blítt sem á sumardag. Skólafólkið notar góða veðrið mjög og fer í útilegu. Öxnadalsheiði er orðin vel fær, en yfir Vaðlaheiði aðeins fært á jeppa, enda ekkert gert til að ryðja snjó af veginum. Fréttaritarar Tímans á Vestfjörðum höfðu svipaða sögu að segja .í gær af blíðviðrinu. Fréttaritari blaðsins á Selfossi sagði, að þar væri milt veður, hlýtt og jafnvel þoka. Nokkur vöxtur er í Ölfusá, en þó hefir ekki orðið vart flóða svo að teljandi sé. Hvítá mun þó ekki vera búin að ryðja af sér klakahamnum og því enn hætt á flóðum.
Meðan á hlýindunum stóð hér á landi ríktu miklar hörkur á meginlandinu. Við grípum lauslega niður í frétt Tímans 14.febrúar:
Osló, Belgrad, París, 13. febr. Frosthörkum og snjókomu linnir ekki um nær alla Evrópu nema Ísland. Um norðanverða álfuna hafa kuldarnir vaxið stórlega seinustu dægur. Var stórhríð skollin á víðast í Danmörku í kvöld, og ekki er útlit fyrir að neitt dragi úr frosthörkunum í bráð. Frost og hríð er um mikinn hluta Ítalíu, Frakklands og suður fyrir miðjan Pýrenneaskaga. 5060 manns hafa farist í snjóflóðum í Júgóslavíu. Tugir fjallaþorpa, einstök bændabýli og heilar sveitir eru víða einangraðar og skortir vistir.
Tíminn segir 15.febrúar af ísabrotum:
Frá fréttaritara Tímans á Ísafirði. S.l. laugardag [11.] var allhvasst hér og hlýindi mikil, og var lagísinn þá að leysa af Pollinum. Gerði nokkurt ísrek og rak það allfast að bæjarbryggjunni. Braut ísrekið fimm staura í undirstöðu bryggjunnar og laskaðist hún svo mikið við það, að hún er ónothæf til afgreiðslu skipa. Verða flutningaskip, sem hingað koma, að leggjast að nýja hafnargarðinum, en þar er erfiðara um afgreiðslu og lengra að aka vörunum að eða frá skipi. Togararnir hafa um alllangt skeið landað þarna. Fiskibátarnir geta þó athafnað sig við bæjarbryggjuna, því að þeir geta lagst þeim megin, sem bryggjan skemmdist ekki. Bátar róa flesta daga, en afli er fremur tregur.GS.
Tíminn segir af heyfoki 16.febrúar:
Grenivík, 15. febrúar. Að undanförnu hafa orðið verulegir heyskaðar á ýmsum bæjum í Höfðahverfi, Suður-Þingeyjarsýslu. Fyrst í mikla rokinu snemma í mánuðinum, og fauk þá hey á Látraströnd, einkum á Svínárnesi, svo og á Hjalla og Árbakka. Hinn 9. þ.m. kom enn ofsarok og þá fauk hey í Litlagerði.
Tíminn segir enn frá veðurblíðu 19., 22. og 23.febrúar:
[19.] Ólafsfirði, 18. febr. Hér hefir verið mesta veðurblíða undanfarið, sunnan gola og þíðviðri oftast. Snjóa hefir mjög leyst og komin góð jörð. Fyrir tveim dögum kólnaði aftur og gránaði í byggð, en nú eru komin hlýindi á ný. Þetta er einstök þorratíð.
[22.] Þingvallasveit, 21. febr. Veðurblíða er hér hvern dag. Á leysingunum á dögunum fór ísinn af öllum suðurhluta Þingvallavatns, en hann var kyrr á norðurhlutanum. Síðan hefir skæni komið á suðurhlutann. Lítil veiði er nú í vatninu.
[23.] Samkvæmt upplýsingum, sem blaðið fékk í gær hjá Ingólfi Davíðssyni, grasafræðingi, eru fyrstu blómin að springa út. Eru þar að sjálfsögðu fyrstir vetrargosar en einnig dvergliljur í skjóli við húsveggi.
Tíminn segir 24. og 25. febrúar frá hlýindum eystra:
[24.] Frá fréttaritara Tímans á Reyðarfirði. Snjóléttara er nú á Austurlandi en verið hefir um langt skeið á þessum tíma árs. Enda má heita að hlýindi hafi verið allan febrúar. Víðast er snjólaust í byggðum og óvíða mikill snjór til fjalla.
[25.] Frá fréttaritara Tímans í Trékyllisvík. Jörð er nú að mestu orðin auð hér, aðeins skaflar í stöku laut. Veðurblíðan hefir verið svo mikil, að grænar nálar eru farnar að sjást á túnum í skjóli. Er slíkt fátítt á þessum tíma. Flestar nætur hefir verið frostlaust hér undanfarið.
1956 2 1 Krapahlaup drap einnig 20 kindur á Skeggstöðum í Svartárdal og 4 kindur fórust á sama hátt á Efri-Mýrum á Skagaströnd. Skriða féll nærri hótelinu í Vík í Mýrdal. Hvalfjarðarvegur lokaðist af skriðuföllum.
Mars var afskaplega hagstæður - nokkuð kalt var þó fyrstu vikuna, en síðan virtist vorið komið:
Síðumúli: Fyrstu 6 daga mánaðarins var frost í lofti og snjór á jörð, næstu 4 dagana tók snjóinn upp. Eftir það var tíðin mild og oft unaðsleg, svo að líkara var vori en vetri. Jörðin er auð og þíð en mjög blaut, og tekin að grænka og gróa á túnum, eins og alloftast er í byrjun maí.
Hamraendar í Miðdölum (Guðmundur Baldvinsson): Þetta er einn sá besti marsmánuður er ég man, aðeins fyrstu fimm dagar hans voru með vetrarsvip - en eftir það samfellt vorveður, fjárbeit hefur verið með því besta sem hægt er að óska sér enda þörf fyrir uppbót fyrir liðið sumar. Þann 9. brast á suðsuðvestanfárviðri. [9. Fauk fjárhús og hlaða á Hörðubóli, drap 20 fjár og einn hest].
Sandur: Tíðarfar einmuna gott. Þíðviðri og hlákur allan mánuðinn að undanskilinni fyrstu vikunni. Jörð þvínær alauð í mánaðarlokin og ár búnar að ryðja sig, en vötn flest á ísi.
Hof í Vopnafirði ( ) Fyrstu 6 daga mánaðarins frost og næða, síðan samfelld veðurblíða allan mánuðinn til enda, svo mjög er sjaldgæft.
Tíminn segir 3.mars frá þrumuveðri:
Frá fréttaritara Tímans á Kirkjubæjarklaustri. S.l. miðvikudagsnótt [29.febrúar] gerði hér mikið þrumu- og eldingaveður og óvenjulegt að því leyti, að því fylgdi ekki steypiregn, heldur var um snjóél að ræða samfara því. Eldingar eyðilögðu eða skemmdu símann á nokkrum bæjum, einkum í Landbroti, þar sem sími er stórskemmdur á einum fimm bæjum. Einnig er skiptiborð símstöðvarinnar hér á Klaustri skemmt. Blossinn stóð víða út úr símtækjunum, og þegar mest gekk á hér um klukkan tvö um nóttina, var verið að senda veðurskeytin suður, og blossaði þá hvað eftir annað fram úr skiptiborðinu. Viðgerðarmaður er væntanlegur hingað austur von bráðar til að gera við skemmdirnar. Miklar símaskemmdir urðu einnig í Meðallandi. VV.
Tíminn segir af atviki við Hamarsfjörð 6.mars:
Frá fréttaritara Tímans á Djúpavogi. Nýlega kom fyrir einkennilegt atvik á Hamarsfirði og munaði minnstu að bóndinn á Hamri missti átta ær £ sjóinn. Fóru þær á ísjaka langt á sjó út, en björguðust fyrir hreina tilviljun. Vildi þetta til með þeim hætti, að ánum er beitt í fjöru að deginum. Á fjörunni síóðu ísjakar uppi á sandinum og hafa kindurnar farið upp á einn ísjakann á fjörunni og ekki gáð að sér, fyrr en jakinn var kominn á flot og rekinn frá landi út á Hamarsfjörð. Heima á bænum varð fólk ekki vart við þetta atvik, fyrr en fara átti að hýsa ærnar, en þá var komið undir myrkur. Sást þá til þeirra á ísjakanum, sem flaut út á fjörðinn. Bátur er enginn til á bænum, og var gripið til þess ráðs að hringja á næsta bæ, þar sem til er bátur og biðja um aðstoð við björgun. Var brugðið skjótt við, en vegna þess, hve mikill ís var þar landfastur, var ekki hægt að koma þar bát til sjávar. Varð því að hætta björgunaraðgerðum við svo búið og bjóst enginn við að ærnar átta myndu ná landi aftur heilar á húfi. En svo varð þó. Næsta morgun vildi svo vel til að sami ísjakinn lónaði aftur inn á fjörðinn og rak hann á land, ekki langt frá þeim stað, er kindurnar týndust og sat þar á þurru á fjörunni. Gengu kindurnar jafn auðveldlega á land og þær lögðu á skipsfjöl á fjörunni daginn áður.
Tíminn segir af sjóskaða 10.mars:
Í gær fórst vélbáturinn Vörður frá Reykjavík skammt frá Selvogi og með honum fimm menn, eftir því sem best verður vitað. Lagði báturinn af stað frá Þorlákshöfn til Reykjavíkur í gærmorgun, en vélin bilaði og rak bátinn á land og brotnaði í brimgarðinum, þar sem allir skipverjar fórust.
Dagana 8. til 10. fóru tvær allkrappar lægðir til norðurs skammt fyrir vestan land. Tíminn segir af illviðri vestra tengdum þeim í pistli 15.mars:
Frá fréttaritara Tímans á Ísafirði. Aðfaranótt s.l. föstudags [9.mars] gerði hér á Vestfjörðum aftaka veður, hvasst og snjókomu. Ekki urðu þó miklir skaðar svo vitað sé af veðrinu á öðru en hinni nýju háspennulínu yfir Rauðkolli. Í vetur höfðu bensli á staurum slitnað víða undan ísingu, og stóð viðgerð yfir. Í veðri þessu hlóðst svo mikil ísing á línuna á nokkrum kalla, að hún slitnaði niður af að minnsta kosti 29 staurum á 2 km kafla, eygðist og slitnaði, svo að hún var þar að miklu leyti ónýt. Mun nú verða að setja ný bensli á mestalla línuna og fá nýja strengi á slitna kaflann, og fást þeir ekki vestur fyrr en næsta laugardag. Er tjón þetta mikið, mun nema tugum þúsunda kr. og mun af því enn seinka, að hægt verði að hleypa rafmagni á línuna frá stöðinni í Engidal, en það átti að gerast um þessar mundir. Lína þessi, sem er hin fyrsta háspennulína Rafveitna ríkisins á Vestfjörðum, er tveggja strengja með þriðja fasann í jörð, og er það fyrsta lína þeirrar gerðar hér á landi. G.S.
Morgunblaðið segir af illviðrinu í frétt 10.mars:
Búðardal, 9. mars, Í gær og nótt geisaði hér fárviðri af suðri og suðvestri. Urðu víða nokkrar skemmdir á mannvirkjum. Þök fuku af peningshúsum og hlöðum, símalínur slitnuðu og á einum bæ hrundi fjárhúsveggur yfir um 30 fjár, og fórst það allt. Það var á Hörðabóli í Miðdalahreppi, er mestir skaðar áttu sér stað, en þar býr Guðmundur Kristjánsson myndskeri. Þar fuku þök af hlöðu og fjárhúsi, en hvort tveggja var nýtt, byggt 19531954. Einnig hrundi fjárhúsveggurinn, sem fyrr er sagt, yfir um 30 kindur og eitt folald og fórust allar skepnurnar. Brak úr peningshúsaþökunum fauk á símalínur og slitnuðu þær. Í dag er unnið að björgun skepna og verðmæta. Hefur fénu sem af komst, verið komið fyrir á næstu bæjum til bráðabirgða, en fjárhúsið er svo að segja ónýtt, a.m.k. ónothæft sem stendur. Vestur á Tjaldanesi í Saurbæ, fauk þak af nýrri hlöðu hjá Kristni Steingrímssyni bónda. Brakið fauk einnig á símalínu og sleit hana og hraut einn símastaur og olli ýmsu meira tjóni. Á Innra-Leiti á Skógarströnd fauk þak af fjárhúsum og hlöðu að nokkru. Á nokkrum fleiri stöðum mun lítilsháttar tjón hafa hlotist af fárviðri þessu, E.G.Þ.
Tíminn sefir af ísabrotum á Lagarfljóti í pistli 17.mars:
Frá fréttaritara Tímans á Egilsstöðum. Í suðvestan hvassviðri, sem hér kom á dögunum, ruddi Lagarfljót af sér öllum vetrarís og er nú orðið autt. Í ísreki þessu urðu allmiklar skemmdir á Lagarfljótsbrú, og þykir sýnt, að brúin hefði alveg farið, ef ekki hefði verið búið að gera ísbrjóta, þar sem hún skemmdist í fyrra og mest reynir á. Eins og kunnugt er, var unnið að gerð nýrrar brúar í haust og var búið að steypa stöpla og gera ísbrjóta á um þriðjung brúarinnar við norðurlandið, þar sem mest mæðir á. Nú brotnuðu gömlu ísbrjótarnir af fimm stöplum næst framan við þetta bil. Brúin sjálf skekktist þó ekki að ráði eða skemmdist, en kunnugir tefla, að hún mundi hafa farið, ef ekki hefði verið búið að gera ísbrjótana við norðurlandið. E.S.
Síðustu daga mars var mesta blíða. Tíminn segir frá í fáeinum pistlum:
[20.] Hvolsvelli, 19. mars. Hér er vorblíða, milt veður hvern dag og dálítil rigning í dag, en ekki hvasst. Hins vegar var hið versta vatnsveður með töluverðum stormi undir Eyjafjöllum í dag. P.J.
[24.] Egilsstöðum í gær. Menn eru hér almennt byrjaðir vorverk enda eru tún farin að gróa og orðið vorlegt um að litast. Lítilsháttar hefir snjóað í hæstu fjöll en alautt er í byggð. Frost er farið úr vegum eftir því sem best verður séð, en þó eru smábleytupollar á stöku stað. Vegurinn yfir Fagradal var ruddur nýlega með jarðýtu. Mikill snjór er ennþá á Fjarðarheiði. PJ.
[28.] Alveg einstæð hitabylgja á þessum árstíma gengur nú yfir landið, og virðist blíðviðri fremur færast í aukana þessa síðustu daga eftir allt góðviðrið, sem hér hefir verið undanfarið. Í gær komst hitinn upp í 18 stig á Dalatanga [17,4°C], og á nokkrum stöðum öðrum varð hann 1415 stig. Að því er Páll Bergþórsson, veðurfræðingur, tjáði blaðinu í gærkvöldi, er þetta mesti hiti, sem mælst hefir hér á lamdi í mars um áratugi. Af skýrslum virðist sem mesti hiti, sem áður i hefir mælst hér í mars, hafi verið 15,5 stig, en sá hiti mældist í mars að Hraunum í Fljótum vorið 1933. Í gær var vestanátt um allt land, og því heitara, sem austar dró á landið. Á Akureyri var 14 stiga hiti, í Fagradal 15 stig, á Egilsstöðum 14 stig en annars staðar minna. Búist er við sömu veðurblíðunni í dag hér á landi.
Apríl var ekki alveg jafn hagstæður og mars - en þótti samt allgóður:
Síðumúli: Fyrstu 6 dagar mánaðarins voru vætusamir, var vindátt mjög breytileg þá daga. Aðfaranótt þ.7. gerði næturfrost með talsverðri snjókomu. Var frost og kuldi viðvarandi í næstu 10 sólarhringa, en oft sólbráð (að deginum) svo snjórinn minnkaði hægt og hægt uns aftur brá til sunnanáttar og hann hvarf alveg. Tún eru farin að grænka og gróa, en útjörð er hvít og gróðurlaus hér neðra, en klakalítil eða klakalaus.
Hamraendar: Fyrstu daga mánaðarins var framhald góðviðranna í mars. Þá gerði norðaustanáhlaupsveður er olli töluverðum snjó og allt að viku innistöðu á sauðfé. Um 20. var þó orðið snjólaust í byggð að mestu, en fremur var þó kalt, þó frost væru lítil.
Hlaðhamar (Kristín Ólafsdóttir): [3.] Hafísjaki sést í mynni Hrútafjarðar, [4.] Jakinn kominn lengra inn í Hrútafjörð.
Barkarstaðir (Benedikt Björnsson): [7.-8. Norðaustan sortahríð. Fjárskaðar af völdum veðurs].
Sandur: Tíðarfarið var milt og hægviðrasamt. Lítilsháttar snjór var frá 5. til 18. Annars auð jörð á láglendi, nema fannir í dýpstu lautum.
Gunnhildargerði: Fyrri hluta mánaðar ver töluverð snjókoma og varð algerð jarðbönn, en er snjóinn tók var grænn litur á ræktuðu landi, en nú hefir kuldinn sett gráan lit á landið.
Nokkur bjartsýni greip Siglfirðinga snemma í apríl - eftir alla blíðuna. Tíminn 5.apríl:
Siglufirði í gær. Nú, þegar vorlegt er orðið í Siglufirði og hinn tiltölulega litli snjór vetrarins er óðum að hverfa leggja Siglfirðingar áherslu á að Siglufjarðarskarð verði opnað til umferðar, en sú leið er eina leiðin milli Siglufjarðarkaupstaðar og annarra héraða. Vegaverkstjórinn í Siglufirði, Friðgeir Árnason, hefir kannað snjóinn í skarðinu og komist að raun um að snjór er þar nú með allra minnsta móti að vorlagi. Segir hann að nú sé þar ekki meiri snjór, en oft er í júnímánuði, þegar byrjað er að moka snjóinn af veginum.
Tíminn segir frá leysingum í hlýindunum um mánaðamótin í pistli 7.apríl:
Fosshóli, 4. apríl. Dagana fyrir páskana [páskadagur var 1.apríl] voru miklar leysingar til heiða og hljóp vöxtur í Skjálfandafljót. Hljóp það austur fyrir nýju brúna gegnt Stóruvöllum og teppti þar veginn. Er hætt við, að fljótið hlaupi þar oft yfir veginn, nema hlaðinn verði varnargarður. Stafar þetta af því, hvernig brúarstæðið er valið.
Þann 7.apríl gerði nokkuð snarpt norðankast, vindur gekk þó niður eftir 2 til 3 daga, en heldur kalt var í um 10 daga. Kortið sýnir stöðuna síðdegis laugardaginn 7. Blindhríð og frost á Vestfjörðum, skefur suður í Borgarfjörð, en enn skaplegt veður austanlands. Tíminn segir frá 8.apríl:
Frá fréttaritara Tímans í Ólafsvík. Í gær [7.] brast á með hörðum norðangarði við Snæfellsnes og töluverðum sjógangi. Bátar voru allir á sjó og var afli fremur tregur, eins og verið hefir upp á síðkastið. Einn bátur stundar veiðar í net, en afli hans er síst betri en hinna, sem róa með línuna. Í kuldakastinu undanfarna daga hefir snjó lítillega fest á jörð, en ekki svo að nokkur umferðatöf sé að, enda hefir í nær allan vetur verið fært bílum yfir Fróðárheiði.
Tíminn segir enn af kastinu 10.apríl:
Frá fréttaritara Tímans á Hofsós. Á laugardaginn [7.] gerði norðan hvassviðri með stórhríð á Norðurlandi og hefir hlaðið niður miklum snjó síðustu tvo dagana, en hvassviðri valdið því, að snjórinn hefir komið í skafla og er því ekki eins áberandi á jafnsléttu. Þegar stórhríðina gerði síðdegis á laugardag var erlent flutningaskip við bryggjuna á Hofsós og var að losa þar sement. Brátt var veðurhæðin orðin slík, að brimrót var komið við bryggjuna og gekk sjór á land, svo að það ráð var tekið að leysa skipið og komst það slysalaust frá bryggju og lagðist fyrir festum skammt utan við bryggjuna. Beið skipið þar yfir helgina í hríðinni, en í gær var veður svo gengið niður, að hægt var að hefja uppskipun að nýju. Meðan hríðin var svörtust á laugardag og sunnudag sást ekki út í skipið og ekki sáust heldur ljós þess um nætur. Hins vegar héldu festar skipsins vel og varð ekkert að í veðrinu um borð í skipinu. Ekki er vitað um neitt tjón af völdum þessa fárviðris, en snjór hefir stórlega spillt færð, svo að nú er til dæmis orðið ófært bílum vegna snjóa milli Hofsós og Haganesvíkur.
Frá fréttaritara Tímans á Ísafirði. S.l. laugardag brast hér á óvenjulega dimmur og harður hríðarbylur, einn hinn mesti á vetrinum. Var dimmviðrið svo mikið, að sást varla faðmslengd frá sér. Allmikill snjór kom og tepptust allir vegir. Bátar frá Bolungarvík voru í róðri og lentu í allmiklum hrakningum og voru meginhluta dagsins að komast inn til Ísafjarðar. Tveir vörubílar nýir rákust á vegna dimmviðrisins og skemmdust allmikið. Maður lenti fyrir vörubíl í bylnum og meiddist töluvert. [Veðráttan segir að í þessu sama veðri hafi fé hrakist og símalínur slitnað í Skefilsstaðarhreppi á Skaga.
Tíminn segir af kuldakastinu í pistli 15.apríl:
Frá fréttaritara Tímans á Reyðarfirði. Talsverður snjór er nú kominn á Fagradal, svo að veruleg umferðartálmun er að, en þar var áður orðið akfært. flutningabílum. Nú er snjóbíll í förum með fólk og póst milli Egilsstaða og Reyðarfjarðar. Í kuldakastinu á dögunum féll talsverður snjór og brá mönnum illa við eftir um það bil tveggja mánaða hagstæða sumarveðráttu. Frost er nú á hverri nóttu og stundum hríðarél, en einnig mjög kalt á daginn
Talsverður snjór er á jörðu víðast á Vestfjörðum, enda er kalt mjög í veðri og mikið frost víða um nætur. Fjallvegir eru margir ófærir og þarf raunar ekki háa fjallvegi til, að erfitt sé þar yfirferðar fyrir bíla vegna snjóa. Það verndar nokkuð þann litla gróður, sem kominn var í hlýindum fyrir kuldakastið, að snjór er talsverður á jörð víðast í byggð.
Hjarðarfelli, 14. apríl. Hér er snjólaust að mestu orðið, en allmikið frost um nætur en sólskin á daginn. Tún voru farin að gróa talsvert fyrir kuldakastið, en nú sölnar allur gróður og hætta er á kali, þegar svona viðrar. Vortíð var hér fram yfir páska. Lóan er nú þögnuð, en hún var komin og lét í sér heyra fyrir hretið, og vart hafði orðið fleiri farfugla. Nú sjást helst þrestir á ferli. GG.
Tíminn birti 22.apríl stutta frétt úr Skagafirði:
Sauðárkróki í gær. Hér hefir verið sumarblíða síðustu daga, en nú er komin norðanátt og kaldara í veðri, Nokkur gróður er kominn.
Maí var óhagstæður. Tvö mikil illviðri gerði í mánuðinum. Hret um miðjan mánuð þegar sérlega djúp lægð fór norðaustur um landið. Loftþrýstingur mældist þá lægri en dæmi eru um á landinu í maímánuði [þ.13. kl.9, 967,3 hPa á Stórhöfða]. Síðara veðrið var mjög óvenjulegt vestanillviðri sem olli stórskemmdum á gróðri. Um það veður hafa hungurdiskar fjallað áður. Veðurathugunarmenn segja af maímánuði:
Síðumúli: Maímánuður var frekar kaldur og var jarðargróður mjög hægfara. Hér voru kýr ekki látnar út fyrr en í mánaðarlokin. Að kvöldi þ.26. gerði suðvestan veður svo vont að menn segja að um langt árabil hafi ekki slíkt veður komið um sauðburð, rok með rigningu og kafaldsslyddu svo að festi snjó á fjöllum og líka á láglendi, hélst veðrið þá nótt, næsta dag og framá næstu nótt. Áttu því margir vökunætur við að bjarga lömbum sem voru að fæðast. Og það einkennilega skeði að á bíla- og gluggarúður settist selta eins og oft sést á rúðum við sjó. Gætti þessa víða í héraðinu, jafnvel fram til fjalla.
Andakílsárvirkjun: Dagana 27. til 29. var hvöss vestlæg átt hér. Með henni barst mikið af seltu sem fór illa með gróður og kannski sér í lagi trjágróður. Gluggar í húsum urðu mattir af salti.
Hamraendar: Mánuðurinn var fremur kaldur og nokkuð úrfelli. Þann 26. gerði suðaustan storm og regn en strax ofan í það um nóttina 27. suðvestanstorm með slyddu og síðar hagli. Barst þá töluvert af salti með regninu eða haglinu og sveið gróður og blóm. Eitthvað mun hafa farist af unglömbum í þessu hrakviðri.
Reykhólar (Sigurður Elíasson): [27. Gróður stórskemmdist, einkum trjágróður, í vestanveðrinu 26.-29. af sjávarseltu. Þykk húð af salti á rúðum langt inni í landi].
Suðureyri (Þórður Þórðarson): Stórbrim gerði hér 27. af vestri, hið mesta er hér hefur komið um nokkurra ára skeð að ég tel. Gerði þó engan skaða á mannvirkjum. Lítið flóð.
Barkarstaðir: [28. Vegna roksins brann til ösku bær á Uppsölum í Vestur-Húnavatnssýslu.
Sandur: Tíðarfar var milt en fremur úrkomu og stormasamt. Tvö mikil verður komu. Þ.15. norðangarður með bleytuhríð og 27. og 28. mikið vestanveður með hláku í byrjun og vatnavöxtum.
Gunnhildargerði: [16. Í morgun mældist skafl fyrir fjósdyrum 72 cm. 28. Rok svo allt allt lauslegt fauk, þak af hlöðu og fjósi hér í nágrenninu].
Tvær djúpar lægðir fóru yfir landið um miðjan mánuð. Sú fyrri þ.13. og skilaði loftþrýstimetinu áðurnefnda. Kortið sýnir stöðuna kl.9 um morguninn. Hríðarveður var þann dag á Vestfjörðum - og í kjölfarið einnig eystra, en gætti þó minna um landið austanvert.
Önnur lægð kom síðan að landinu strax á eftir og olli hún miklu hríðarveðri norðanlands síðdegis 14. og þann 15. - en gekk síðan niður. Kortið sýnir stöðuna síðdegis þann 15. Með því dapurlegasta í maí.
Tíminn segir af illviðri og hríð í pistli 15.maí:
Síðdegis í gær [14.] var komin vetrarstórhríð víða á Norðurlandi, nokkurt frost í gærkveldi og ökklasnjór á láglendi, en heiðar víða ófærar. Var norðaustan hvassviðri í gær, sjór fór vaxandi og krapahríð breyttist í hreina snjókomu, svo að festi alls staðar niður í sjó. Sauðburður er víðast byrjaður og allt fé á húsum. Menn óttast um gróður þann, sem kominn var. Veður snerist til kaldrar norðanáttar s.l. laugardag [12.] og hefir undanfarna daga verið norðlæg átt og snjóað i fjöll en veðrið herti um hádegi í gær, fyrst með bleytuhríð en síðar með mikilli snjókomu. Fréttaritari blaðsins í Skagafirði sagði, að þar hefði verið bleytuhríð og dimmviðri, kólnað meira með kvöldi og varð alhvítt. Nokkur snjór mun vera kominn á heiðar, en þó fær leiðin yfir Vatnsskarð og Öxnadalsheiði. Sauðburður er að byrja, og urðu menn að taka allt fé í hús.
Fréttaritari blaðsins í Siglufirði símaði, að þar væri versta hríðarveður, snjór í bænum og skarðið algerlega ófært og hefir verið síðustu daga. Flóabáturinn Drangur komst ekki leiðar sinnar fyrir stormi og dimmviðri og lá mestan hluta dags í gær við Hrísey Í ólafsfirði var kominn allmikill snjór, og Lágheiði var orðin alveg ófær á nýjan leik. Mátti heita, að þar væri vetrarstórhríð síðdegis í gær og fór sjór mjög vaxandi. Bátar lágu þar innivið hafnargarðinn. Í gærkveldi var kominn ökklasnjór á götum Akureyrar og farið að frysta. Leiðir voru þó vel færar um héraðið, Síðdegis í gær lögðu nokkrir bílar af stað austur yfir Vaðlaheiði, en þegar upp á heiði kom, var þar iðulaus stórhríð og allmikill snjór kominn, og urðu bílarnir að snúa við til Akureyrar. Áætlunarbíllinn milli Húsavíkur og Akureyrar komst ekki á milli síðdegis í gær. Fréttaritari Tímans í Húsavík símaði í gærkveldi, að þar væri norðaustan stormur og snjókoma, nokkurt frost komið, en veður um leið heldur farið að birta. Þar var kominn nokkur snjór, og eins mun hafa verið frammi í héraðinu. Á Norðurlandi var kominn allmikill gróður, en nú er hætta á, að mjög kippi úr honum og getur jafnvel verið hætta á kali. Sauðburður er einnig víða hafinn og verður að hafa allt fé á húsi, en slíkt er mjög erfitt um sauðburðinn og ætíð nokkur hætta á vanhöldum, þegar svo er.
Í gær var norðan hvassviðri í Vestmannaeyjum og engir bátar á sjó.
Tíminn heldur áfram 17.maí:
Frá fréttaritara Tímans á Hólsfjöllum í gær. Allmikinn snjó setti hér niður í gær [15.] og nótt, enda var versta veður, fullkomin stórhríð. Í morgun var hér 5 stiga frost. Fé náðist ekki allt inn, en menn vona, að ekki hafi teljandi fennt. Í dag er verið að leita að því fé, sem vantaði. Það var um hádegi í gær, sem hríðin brast á. Fé var úti, því að góð tíð hafði verið undanfarið, gróður kominn og sauðburður ekki byrjaður að marki. Náðist meirihluti fjárins inn, en sums staðar vantaði þó allmargt. Stóð hríðin síðan látlaust í gær og nótt, en um hádegi i dag slotaði henni, og hefir þetta því verið sólarhrings stórhríð. Í dag eru menn að leita að fé því, sem vantaði. Allmiklir skaflar eru komnir, en þó vart svo að fé hafi getað fennt til skaða. Samkvæmt frásögn annarra fréttaritara í Þingeyjarsýslum er þar kominn allmikill snjór. Fé mun víðast hafa verið heima við og ekki fennt. Hríðin var mjög blaut framan af, einkum í lágsveitum, en í nótt frysti. Í Eyjafirði og vestar á Norðurlandi er einnig nokkur snjór í sköflum og heiðar víða ófærar, t.d. er Vaðlaheiði ófær enn. Síðdegis í dag [16.] er sæmilegt veður á Norðurlandi og tekið að hlýna, þótt búast megi við frosti í nótt.
Akureyri í gær. Í gær [15.] gerði hér verstu stórhríð svo að snjónum hlóð niður. Í dag er ill færð um héraðið og snjór á götum Akureyrar. Verða bílar að aka með keðjum, uns snjóinn leysir. Bílar reyndu í morgun að komast yfir Vaðlaheiði, en urðu að snúa frá vegna skafla á heiðinni. E.D.
Tíminn segir enn frá illviðrinu 18.maí:
Frá fréttaritara Tímans á Reyðarfirði. Vetrarlegt er nú aftur orðið um að litast á Reyðarfirði og Fagradal. Fjallvegir lokaðir vegna snjóa og farþegar fluttir með snjóbíl milli Egilsstaða og Reyðarfjarðar. Á þriðjudaginn [15.] gerði norðan hvassviðri með bleytuhríð, en vægu frosti. Síðdegis og aðfaranótt miðvikudagsins var áframhaldandi snjókoma og dimmviðri. Hlóð snjó niður svo ört, að þrír bílar sátu fastir á Fagradal og komust hvergi. Urðu menn að taka það ráð að yfirgefa bílana, þar sem þeir voru niður komnir og leita til byggða. Svipaða sögu var að segja af Oddskarði, veginum milli Eskifjarðar og Norðfjarðar. Þar urðu engir bílar fastir í veðrinu, en tveir bílar frá Reyðarfirði, sem staddir voru á Norðfirði komust ekki yfir skarðið og biðu á Norðfirði, þegar vegurinn lokaðist. Á miðvikudaginn var svo komið bjartviðri, en þá var blindhríð á Fagradal og komnir allmiklir skaflar þar á veginn. Snjóbíll var hafðar í förum yfir fjallið og flutti hann farþega að og frá flugvélinni, sem kom til Egilsstaða. Í fárviðrinu fuku ellefu símastaurar innan við Reyðarfjörð og fjórir þeirra brotnuðu. Símasambandslaust varð um skeið. Það varð til happs bændum í Reyðarfirði, að fæstir þeirra höfðu sleppt fé sínu fyrir óveðrið, en þeir, sem voru búnir að sleppa, áttu erfiðan dag við að ná því í hús á miðvikudaginn.
[Akureyri] Glampandi sólskin á Norðurlandi. Hór er nú stytt upp eftir óveðrið. Í dag er hér glampandi sólskin og indælis veður. Allur snjór er horfinn úr bænum og í byggð fyrir innan Akureyri, en utar í firðinum er enn lítilsháttar snjór.
Laugafelli, Dölum, 16. maí. Í dag er hér norðan stórveður með allmikilli fannkomu. Sauðburður er í þann veginn að hefjast. Tún eru naumast orðin græn enn og hefur allur gróður staðið í stað nú um langan tíma.
Tíminn 24. segir frá maí:
Finnbogastöðum, 22. maí. Í byrjun vikunnar sem leið, gerði allsnarpt hret hér og snjóaði allmikið. Þann snjó hefir þó leyst fljótt í hlýindum síðustu daga. Kominn er allgóður sauðgróður, þótt fé sé allvíða hýst enn.
Mývatnssveit, 15. maí. Veðrátta hefir verið fremur hviklynd nú um tíma, oft sama sólarhringinn krapahríð og snjókoma, svo jörð verður hvít og sólskin og sunnan vindur þó tíma úr sólarhringnum. Jörð er ekki óálitleg með að gróa, eru t.d. tún orðin býsna græn. Sauðburður stendur nú sem hæst og eru sumir farnir að sleppa lambám úr húsi. PJ.
Þá er komið að vestanveðrinu mikla, verst að blöðin voru full af kosninga- og samsærisfréttum þessa daga. Áður hefur verið fjallað um veðrið í pistli hungurdiska. Má þar finna fáeinar blaðafregnir sem ekki eru endurteknar hér. Veðrið byrjaði með miklum leysingum og hita.
Vísir segir ísfregnir 29.maí:
Ekki eru líkur fyrir að ísbreiða sú, sem í gær sást af Straumnesfjalli, komi upp að landinu, einkanlega ef vestanáttin gengur niður, en það er nú farið að draga úr henni Veður var mjög hvasst á vestan S laugardag, en hvassast á sunnudag og fram eftir nóttu aðfaranótt mánudags, og er nú fyrst að ganga niður svo verulega munar. Víða voru slyddu og sumstaðar hvöss haglél og gránaði í rót, og í öllum sveitum höfðu menn ærið að starfa við að huga að fé, því að sauðburður stendur sem hæst víðast.
Dagur segir af tjóni í pistli 30.maí:
Sex trillubátar sukku í vestanrokinu um helgina við Hrísey. Aftakaveður var á og gekk særok langt á land. Búið var í gær að ná öllum bátunum á land með hjálp kranabíls. Munu þeir ekki teljandi brotnir.
Úr Svarfaðardal 28.maí. Á trinitatissunnudag (27.maí) var kuldaveður eða rigning fyrst, en svo gjörðist eitt hið versta stórviðri, sem hér kemur á þessum árstíma. Hélst þessi veðurofsi fram á aðfaranótt mánudagsins og er enn hvasst, þegar þetta er skrifað. Einhverjar smáskemmdir urðu, en af þeim hafa ekki glöggar fréttir borist.
Tíminn segir enn af tjóni 1.júní:
Óveðrið sunnudaginn 27. maí olli víða skemmdum á gróðri í görðum. Víða varð lauf trjánna alveg svart áveðra og blóm eyðilögðust. Er ljótt að sjá veðurbitinn og sæbarinn gróðurinn í Reykjavík og víðar. Sumar blómaræktarstöðvar urðu fyrir miklu tjóni er blómin eyðilögðust í opnum gróðurreitum. Trén verða lengi að ná sér, einkum þau, sem nýlega voru gróðursett. Þetta hvassa vestan éljaveður er ábending um hve skjólið er mikilvægt íslenskum garðagróðri. Í garði Atvinnudeildar Háskólans var lauf af birki, reyni og álmi og reklar af birki rannsakað tveim dögum eftir veðrið. Reyndist sjávarsaltið á trjálaufinu 4,6% og á birkireklunum 3,5%. Svo mjög hefir særokið gengið inn yfir bæinn og flutt með sér salt utan af Faxaflóa. Fróðlegt verður að sjá hvaða trjátegundir verða fljótastar að ná sér aftur, t.d. hvernig sitkagrenið stenst slíkt veður.
Dagur segir óveðursfréttir úr Grímsey 6.júní:
Grímsey 4. júní. Séra Pétur Sigurgeirsson, sem nú er staddur í Grímsey, gaf blaðinu þær upplýsingar, að gróðri öllum á eynni hafi stórhrakað í vestanrokinu. Særok gekk á land og sjógangur skemmdi hafnarmannvirki og braut einn snurpinótabát í spón.
Tíðarfar var tíðindalítið í júní, gróðri fór ekki mikið fram, en vel fór þó með veður lengst af.
Síðumúli: Framan af svo kaldur og þurrviðrasamur að grasið spratt lítið. Næturhiti var þá um og undir frostmarki. Seinni hluta mánaðarins kom dálítil væta og hiti komst þá fleiri daga í 1820 stig. Sláttur er sumstaðar byrjaður. Tún eru mjög misjafnlega sprottin. Heyskapartíð mjög góð.
Sandur: Tíðarfar var þurrviðrasamt og kalt. Gróðri fór hægt fram.
Grindavík 2.júní 1956. Myndinni er nappað úr safni Veðurstofu Íslands. Höfundur er Flosi Hrafn Sigurðsson. Daginn áður gekk jarðskjálftahrina yfir. Tíminn segir frá 2.júní:
Snarpur jarðskjálftakippur fannst í Reykjavík kl. 10:46 í gær og jarðskjálftamælar sýndu síðan sex kippi og kom hinn síðasti kl. 13;33. Eysteinn Tryggvason, jarðskjálftafræðingur telur, að jarðskjálftar þessir hafi átt upptök sín undir Trölladyngju á Reykjanesi.
Tíminn segir af kuldatíð fyrir norðan í pistli 8.júní:
Akureyri í gær [7.]. Enn er hér kuldi og hálfgerð vetrartíð. Hríðarfjúk var í nótt og í morgun um allan Eyjafjörð. Enn hefir ekki fest snjó í byggð, en fjöll eru grá að neðan, en hvít upp við efstu tinda. Í morgun var grátt af snjó við bæina fyrir ofan Akureyri. Kuldinn er þegar farinn að spilla gróðri og eru lauf á trjám farin að dökkna. Lausafregnir herma, að hafís hafi sést norður af Grímsey, en ekki hefir fengist staðfesting á þeim fréttum.
Frá fréttaritara Tímans í Grímsey. Það hefir verið hríðarhraglandi hér í Grímsey að undanförnu og er það óvenjulegt, þegar komið er þetta fram á sumarið. Þrátt fyrir þáð að ætla mætti að þessir kuldar stafi af-nálægum hafís, hefir ekki sést til hans héðan úr eynni.
Tíminn segir 13.júní frá óvenjulegu sjávarflóði. Kröpp lægð kom sunnan úr hafi og fór norður með vesturströndinni. Stórstreymt var. E.t.v. væri ástæða til að líta betur á þetta veður:
Frá fréttaritara Tímans í Miklaholtshreppi í gær. Síðastliðinn laugardag [9.] gerði hér ofsarok með rigningu, sem að vísu kom sér vel eftir langvarandi þurrka, og nú er hlýrra síðustu dagana. Sjávarflæðar gengu óvenjulega hátt á laugardaginn og gekk sjór lengra en elstu menn muna dæmi til um. Flæddi fé á nokkrum bæjum hér við sjóinn og fórust t.d. 17 ær og 24 lömb í Hömluholtum í Eyjahreppi. Féð var þar á bökkum, sem sjór flæðir sjaldan eða aldrei yfir. Bóndinn í Hömluholti er Bjarni Einarsson. Á hann stóra fjölskyldu en er efnalítill og er þetta því til finnanlegt tjón fyrir hann. Eitthvað mun einnig hafa farist í Hausthúsum. Þar hefir fundist dauð ein ær og lamb að minnsta kosti. Á Stakkhamri fórust 8 lömb, en ám var bjargað. Alexander bóndi á Stakkhamri hleypti reiðhesti sínum á sund út á fitjarnar, þar sem féð var og tókst að bjarga ánum og nokkru af lömbunum, en nokkur fórust. Er það alveg einsdæmi hér um slóðir, enda var veðurhæð mikil og stóð á land. Vorið hefir verið kalt og þurrt hér um slóðir, spretta er mjög lítil og er útlit fyrir að sláttur hefjist með seinna móti. Í dag er hlýtt skúraveður og fer gróðri fram. G.G.
Tíminn segir 23.júní af gróðureldi:
Frá Fréttaritara Tímans í Húsavík í gær. Laust eftir hádegi í dag var hringt framan úr Reykjahverfi hingað til Húsavíkur og sagt, að eldur væri laus í lyng- og víðimóum á Hvammsheiði austur af bænum Árbót. Fólk þyrptist þegar að til þess að berjast við eldinn og stóð sú barátta enn í kvöld, en þá voru brunnir í flag margir hektarar lands. Mjög þurrt hefir verið að undanförnu hér um slóðir, og nú er þurr sunnan og suðvestan átt. Allur góður, ekki síst lyng- og víðigróður er því mjög þurr og eldfimur. Á þessum slóðum er mjög gróðurríkt land. Búist er við, að eldur inn hafi kviknað í gær eða fyrrinótt, og er mönnum ókunnugt um upptök. en ekki ólíklegt að þau stafi af eldspýtu, sem einhver hefir kastað frá sér. Fólk úr nærsveitum fór á vettvang, þegar eldsins varð vart í gær, og margir bílar fóru frá Húsavík með fólk, þar á meðal slökkvilið. Hafði fólkið með sér spaða og önnur vopn. Einnig var farið með jarðýtur þær, sem nærtækar voru, og í kvöld var búið að ryðja með þeim flag kringum mikinn hluta eldsvæðisins. Um Hvammsheiði liggur háspennulína frá Laxárvirkjun til Húsavíkur, og var hún í mikilli hættu. Var flag rutt umhverfis staurana og vonuðu menn að tækist að verja hana. Geysimikinn reyk lagði undan storminum austur yfir heiðina. Í kvöld er enn barist við eldinn og vonuðu menn að geta heft útbreiðslu hans í nótt. Hætt er við, að uppblástur myndist út frá hinu brunna svæði, ef ekkert verður að gert, og er illt. til þess að vita, að hin gróðurfagra Hvammsheiði verði slíkri eyðileggingu að bráð. Þ.F.
Tíminn segir af sláttarbyrjun 28.júní:
Nokkrir bændur í öllum landshlutum hafa nú borið ljá í jörð, en sláttur mun þó ekki hefjast almennt fyrr en um næstu helgi. Mun slátturinn að-þessu sinni byrja mjög jafnt um allt land. Tún eru yfirleitt heldur illa sprottin eða seinna en venjulega vegna mikilla kulda og þurrka sums staðar en síðustu daga hefir spretta verið mjög ör í hlýjunni og er búist við, að tún verði yfirleitt orðin sæmilega sprottin í næstu viku. Kal mun nú hvergi vera að marki í túnum hér á landi.
Tíminn ræðir ástand sjávar í pistli 30.júní:
[Úr frétt um átu og síld]. Út af Norðvesturlandi og á vestursvæðinu var hafís mun nær landi en verið hefir tvö undafarin ár. Frá Horni voru aðeins um 20 sjómílur að ísröndinni. Hafði þetta nokkur áhrif til lækkunar á sjávarhita í yfirborðslögum. Innstreymi Atlantshafssjávar til Norðurlandsmiðanna virðist hafa byrjað fyrr í ár en í fyrra af þeim sökum var sjávarhiti í djúplögum síst minni nú en undanfarin ár, einkum á austursvæðinu. Á úthafssvæðinu milli Íslands og Jan Mayen og austur af Íslandi var kalda tungan mun minni að víðáttu en verið hefir síðustu árin og sjávarhiti í djúplögum nokkru lægri.
Júlí var í hagstæðara lagi, einkum þó um landið sunnan- og vestanvert:
Síðumúli: Það sem var fyrst var slegið á túninu hér hraktist og þornaði illa, því tíðin var þá úrkomusöm og hlý, sú taða sýður nú niður í hlöðunni og búið að leysa geilar í hana þvers og langs. En það sem seinna var slegið, þornað eftir hendinni og var það síðasta af töðunni sett upp í dag grænt og vel þurrt, en því miður er ekki hægt að láta það inn fyrr en hitinn fer úr því, sem inn er komið. En tíðin var og er dásamlega góð. Túnið var vel sprottið. Þannig er ástandið víða hér í grennd.
Sandur: Tíðarfar var þurrviðrasamt en fremur kalt, einkum síðustu vikuna. Þurrkar voru fremur linir. Seinsprottið var vegna þurrviðra og kulda.
Tíminn segir fréttir af Ströndum 5.júlí:
Frá fréttaritara Tímans í Trékyllisvík 1.júlí. Gróður kom snemma en fór hægt fram vegna tíðra hretviðra. Fyrri hluta júnímánaðar var mjög kalt og suma daga frost nótt og dag. Tún kól þó ekki í þessu kuldakasti þótt gróðri hnignaði. Tún eru nú betur gróin en verið hefir mörg undanfarin ár. Undanfarin hálfan mánuð hefir verið stilla og óvenjumikið sólfar. Ekki hefir sést ský á lofti á þessum tveggja vikna tíma. Þessi langvinni þurrkur hefir staðið fyrir sprettu á túnum, en náttfall undanfarnar nætur hefir fleytt sprettu nokkuð fram. Geri vætu er búist við sæmilegri sprettu. Sláttur er hvergi hafinn enn. G.P.V.
Tíminn segir fréttir úr Dýrafirði 10.júlí:
Dýrafirði, 5.júlí Sláttur byrjaði almennt hér í firðinum síðustu daga júnímánaðar. Grasspretta er víða góð, þrátt fyrir kuldatíð um tíma í vor. Ágætur þurrkur hefir verið síðan sláttur byrjaði og víða búið að hirða mikið. Sæmilega lítur út í görðum, þótt nokkurn hnekki hafi beðið í fyrstu viku júní, en þá var allhart frost í nokkrar nætur. Sums staðar hefir trjágróður skemmst í görðum vegna frosta og særoks.
Eins og oft í júlí fjölluðu fréttir af veðri aðallega um heyskapartíð. Tíminn segir frá í nokkrum pistlum:
[13.] Akureyri í gær [12.júlí]: Í dag er sunnangola og mikill hiti hér í bær og héraði. Heyskapur hefir gengið mjög vel og var mikið þurrkað í dag hjá bændum,
[19.] Segja má, að heyskapur hafi byrjað almennt um allt land í byrjun síðustu viku. Allvíða var þó byrjað áður, en bændur fóru sér hægt vegna þurrkleysu. En í síðustu viku komu ágætir þurrkar og voru þeir bestir á Norður- og Austurlandi í vikulokin og hirtu þá margir mikil hey. Fyrstu daga þessarar viku hafa þurrkar og verið ágætir nema helst á Suðurlandsundirlendinu. Er nýting heyja til þessa afbragðs góð og heyskaparhorfur taldar góðar, þótt sums staðar sé spretta vart í meðallagi.
Hvanneyri, í gær [18.]. Þurrkar hafa verið tregir í Borgarfirði síðustu viku og í dag er lélegur þerrir. Lítið náðist af heyjum í vikunni sem leið, en í vikunni þar á undan var allmikið hirt hjá þeim, sem þá voru byrjaðir fyrir alvöru. Miklaholtshreppi í gær. Sláttur er byrjaður fyrir nokkru en lítið hefir náðst nema þá í votheyshlöður og súgþurrkun. GG. Bolungarvík í gær. Sláttur er skammt á veg kominn hér um slóðir. Flestir byrjuðu um eða fyrir síðustu helgi og lítið hefir enn náðst því að óþurrkar hafa gengið. Spretta er orðin í góðu meðallagi. ÞH. Blönduósi í gær. Sláttur er almennt byrjaður en lítið hefir hirst, því að þurrkar hafa verið af skornum skammti síðustu daga. Er allt af gott veður en sólarlítið. Grasspretta mun vera orðin sæmileg. SA. Sauðárkróki í gær: Sláttur er nú almennt byrjaður hér í Skagafirði. Fram að þessu, eða þar til nú um helgina, hafa verið litlir þurrkar. Aftur á móti brá til betri tíðar í kringum þann fimmtánda. Spretta er víðast hvar ágæt og útlit fyrir gott heyjasumar. Akureyri í gær: Heyskapur hefir gengið ágætlega í Eyjafirði enda hefir tíð verið hagstæð. Á Svalbarðsströnd er nú langt komið að hirða af túnum, enda byrjaði sláttur þar snemma. Mun heyskapur lengst kominn þar. Verkun heyja er ágæt, spretta var allsæmileg. Í hreppunum innan Akureyrar er líka búið að hirða talsvert af túnum, einkum í Hrafnagils- og Öngulsstaðahreppum. Út með Eyjafirði er heyskapur nokkuð skemmra á veg kominn, enda byrjar sláttur þar jafnan seinna. Lítið mun búið að hirða enn sem komið er þar, en útlit er gott. Er nú blíðskaparveður og þurrkur á degi hverjum. ED Svarfaðardal í gær: Heyskapur gengur heldur hægt hér í héraðinu. Grasspretta er frekar rýr, og stafar það fyrst og fremst af kuldunum í vor. Sumir bændur eru rétt byrjaðir að heyja, en aðrir eru komnir lítið eitt lengra. Er langt síðan grasspretta hefir verið svo misjöfn hér eins og núna. Mikið náðist inn af heyjum um síðustu helgi, en þá var afar gott veður, en í dag er hins vegar kaldara og þoka og súld. Mikið hefir verið byggt af hlöðum og útihúsum og hefir það dregið nokkuð frá heyskaparvinnunni. Rúið var hérna í síðustu viku og voru sæmilegar heimtur. FZ
Húsavík í gær: Hér hefir verið besta veður síðustu daga og ágætur heyþurrkur. Hófu bændur í héraðinu sláttinn fyrir alvöru í síðustu viku og hafa þegar hirt nokkuð. Einstaka bóndi mun vera búinn að alhirða tún en margir komnir vel áleiðis. Tún mega kallast í meðallagi sprottin. ÞF. Kópaskeri í gær. Sláttur byrjaði almennt hér um slóðir snemma í síðustu viku, og er þegar búið að hirða allmikið, því að þurrkur hefir verið ágætur síðustu daga. Spretta er heldur léleg en mun þó nálgast meðallag. Var lengi kalt og þurrt og dró það úr sprettu. ÞB. Vopnafirði í gær. Heyskapur hefir gengið ágætlega og er fyrri slætti á túnum allvíða lokið hér í sveitinni og búið að hirða. Hefir nýtingin verið ágæt. Síðustu vikuna hafa þurrkarnir verið svo góðir, að minnt hefir á sumarið í fyrra, þegar ekkert þurfti að hafa fyrir heyi annað en losa það og hirða. KB Hornafirði í gær: Óþurrkar hafa gengið hér að mestu síðan sláttur hófst. Þeir, sem fyrst byrjuðu, náðu þó svolitlu en flestir hafa engu náð enn. Tún eru nú orðin allvel sprottin. AA.
Vík í Mýrdal í gær. Grasspretta er góð hér í Mýrdalnum og veður hefir verið hagstætt til heyskapar að undanfornu, þerritíð sæmileg og einstaka maður hefir lokið við að hirða fyrri slátt af túnum. Síðustu daga hefir verið lítið um þerri og því fremur dauft yfir heyskapnum, en i gærkveldi birti yfir og útlit fyrir góðan þerri að nýju. Það hey, sem komið er inn hirtist vel og hraktist ekki neitt. Er það í fyrra lagi, sem menn hirða hey sín. Minni þurrkatíð hefir verið austan Mýrdalssands og er því heyskap þar komið styttra á veg. Ó.J.
Hvolsvelli í gær. Hér hefir verið einmunablíða síðustu daga. lofthiti mikill þótt sólar hafi ekki notið. Bændur eru almennt byrjaðir sláttinn, grasspretta að verða sæmileg en þurrkar daufir síðustu daga og því ekki búið að hirða mikið hér í sýslunni. PE.
Þingvallasveit í gær: Sláttur mun hafa byrjað almennt hér í Þingvallasveit nú um helgina. en annars var það dálítið misjafnt hvenær hann hófst. Það sem einkum réði því að ekki var byrjað fyrr, voru annirnar í sambandi við vorsmalamennskuna og rúninginn. Tún eru fullsprottin og því orðið tímabært að fella grösin, þótt ekki líti vel út með þurrkinn eins og stendur. Selfossi í gær: Rúmlega ein vika er nú liðin síðan sláttur hófst almennt hér á Suðurlandsundirlendinu. Verður að segja að heyskapurinn hafi gengið að óskum, þótt enginn þurrkur hafi verið seinnihluta síðustu viku. Þurrviðrið hélst ekki nema fram til miðvikudags og á þeim tíma tókst að ná nær öllu flötu heyi saman. Einstöku maður er búinn að hirða, en töluvert er komið í hús hjá öðrum. Spretta er yfirleitt góð og víða ágæt og heyskaparútlitið hið prýðilegasta. Vegna þurrkleysunnar var lítið slegið seinnipart vikunnar. ÁG
[26.] Egilsstöðum í gær [25.júlí]. Hér hefir verið sólskin og þurrkatíð að undanförnu, en nú er komin norðaustan rigning. Bændur eru búnir að ná inn eða í sæti meginhluta af töðu sinni og er hún með ágætri verkun. Spretta er orðin ágæt. Hér hefir verið mikið um ferðafólk og það hefir notið sólskinsins í ríkum mæli, en nú er margt að tygja sig brott, þar sem skipt hefir um veður.
Illt hret gekk yfir landið seinast í mánuðinum. Vísir segir frá 30.júlí:
Akureyri í morgun. Óvenjulegt vonskuveður og kuldahret gekk yfir norðurhluta landsins í gær og nótt og þykir þetta veður hráslagalegra og kaldara en venja er til um þetta leyti árs. Sumstaðar, eins og á Grímsstöðum á Fjöllum varð alhvítt í gærkveldi og í morgun, í Mývatnssveit gránaði í rót og ferðafólk sem gisti þar í tjöldum leitaði skjóls á bæjum og gistihúsin urðu yfirfull. Þar komst hitinn niður í 1 1/2 stig um helgina. Á öðrum stöðum svo sem Köldukinn, Ólafsfirði, Grenivik og Látraströnd var víða óhemju úrfelli í gær og í nótt með snjókomu niður í miðjar hlíðar. Á Akureyri var fjallahringurinn alhvítur, nema Vaðlaheiði sem gránaði í rót á brúnum uppi. Lágheiði inn af Ólafsfirði varð alhvít sem á vetrardegi. Í Grímsey og Flatey var versta veður, hvassviðri og kraparigning með 2ja stiga hita.
Tíminn segir af sama hreti 31.júlí:
Frá fréttaritara Tímans í Siglufirði. Á sunnudaginn [29.] lokaðist vegurinn yfir Siglufjarðarskarð vegna snjóa. Síðan hefir verið töluverð snjókoma á fjallinu og vegurinn algjörlega tepptur fyrir alla umferð á um það bil 4 km. kafla. Í gærkvöldi var ýta komin á staðinn og var byrjað að ryðja snjó af veginum, enda horfur á batnandi veðri. Það var um klukkan ellefu á sunnudagsmorgun, sem vegurinn tepptist með öllu og sátu þá nokkrir bílar fastir, en fjöldi bíla var tepptur í Siglufirði og komst ekki suður. Hefir margt aðkomufólk þannig verið veðurteppt í Siglufirði, einkum skemmtiferða fólk á ferðalagi og flutningabílar, sem komið hafa til bæjarins. Í gærkvöldi hafði í tvo daga verið úrhellisrigning í Siglufirði en snjóað niður í miðjar hlíðar.
Tíminn segir enn af heyskap í pistli 1.ágúst:
Þurrkarnir hér sunnan lands og vestan hófust á föstudag í síðustu viku. Þá voru óþurrkar búnir að vera hálfan mánuð og taða á túnum að skemmdum komin. Bændur höfðu farið sér hægt með sláttinn vegna óþurrkanna, en þegar veðrabrigðin sáust á fimmtudag og föstudag var tekið til óspilltra málanna og túnunum flett sundur. Sú taða, sem slegin var fyrir helgina, er nú öll orðin þurr með skínandi verkun og annað hvort komin í hlöðu eða í sæti. Þeir, sem höfðu súgþurrkun, höfðu hirt mikið áður, því að þrátt fyrir óþurrkana hafði oft verið þurrt veður og hægt að hirða í súginn. Þessir þurrkar voru þó svolítið misjafnir. Í uppsveitum Árness- og Rangárvallasýslu var sólárlítið fram yfir helgi og jafnvel skúrir, og hið sama mátti segja um uppsveitir Borgarfjarðar. En um helgina varð bjart sólskin um allan þennan landshluta og sterkur norðankaldi, og varð þá þurrkurinn eins góður og hann getur bestur orðið á þessum slóðum. Blaðið átti snöggvast tal við Pál Zóphóníasson, búnaðarmálastjóra í gærkveldi, og sagði hann, að þessi þurrkavika hefði bjargað miklu. Segja mætti, að nú væri heyskapur vel á vegi staddur í öllum landshlutum. Spretta væri orðin sæmileg alls staðar. Sums staðar hefði sprottið heldur seint, en vel síðustu vikurnar. Þeir, sem fyrst byrjuðu sláttinn, t.d. upp úr 20.júní, og hirtu þá fljótlega, eru farnir að slá síðari slátt. Nú eru langflestir búnir að hirða tún sín, og margir kvarta um, að hlöðurnar séu að verða fullar.
Ágúst var hagstæður á Suður- og Vesturlandi, en mun síðri norðaustanlands. Seint í mánuðinum komu nokkrar óvenjukaldar nætur. Frost hefur aldrei mælst meira á veðurstöð í byggð hér á landi í ágústmánuði.
Síðumúli: Ákjósanleg heyskapartíð og unaðsleg veðurblíða. Grasspretta góð og er því heyfengur yfirleitt ágætur. Heyskap almennt lokið.
Hamraendar: Þetta er einn besti ágúst sem ég man eftir, þó var fremur kalt í veðri oftast nær, en sólskinið og þurrviðrin voru svo sérstæð að hér á Dalasvæðinu mun það vera sjaldgæft. Þann 28. mánaðarins féll gersamlega kartöflugras.
Lambavatn: [26. Jörð freðin um morguninn. 27. Allt hélað og mikið freðið á jörð um morguninn. 28. Mikil héla og allt freðið um morguninn].
Barkarstaðir: Frostamesti ágúst síðastliðin 34 ár.
Sandur: Mánuðurinn var kaldur og óþurrkasamur, en þó úrfellalítill. Hirðing heyja gekk treglega, en þó vandræðalaust og skemmdust hey lítið vegna kuldanna.
Víðistaðir (Bjarni Erlendsson): [27. Mikið hrím að morgni, 5 mm þykkur ís].
Tíminn segir af borgarís 14.ágúst. Borgarís er ekki óalgengur á þessum árstíma:
Í gær sáust fjórir borgarísjakar frá Hornbjargsvita. Tveir voru landfastir en hinir nærri venjulegri siglingaleið skipa. Einnig bárust fréttir af hafís á siglingaleið, norður af Rauðunúpum. Mun það vera sami borgarísjakinn, sem undanfarið hefir verið á Skjálfanda.
Akureyri í gær: Hér kom í nótt og morgun mesta steypurigning sumarsins, en er kom fram á dag stytti upp og síðdegis var komið besta veður. Kollurinn á Kerlingu var grár af hélu í morgun.
Tíminn segir frá 24.ágúst:
Akureyri, fimmtudag: Í gr skánaði heldur veður hér um slóðir og kom þurrkglæta og er þó betri í dag. Hafa menn unnið kappsamlega að heyjum. Þetta er þó mikils til of lítið og skammvinnt til að leysa úr vandræðum bænda í útsveitum, sem eiga mikil hey úti.
Norðanátt og kuldatíð hafa herjað á Norðurland í heilan mánuð, og þótt úrkoma hafi ekki verið mikil, hefir samt ekki tekist að þurrka hey í útsveitum. Það er að kalla aldrei þurrkur í norðanátt, sagði Jóhannes Kristjánsson bóndi á Hellu á Árskógsströnd, er hann leit inn til blaðsins nú í vikunni. Liggja því mikil hey úti í útsveitum Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslu og horfir heldur illa með heyskap almennt í þeim sveitum. Ástandið er mun betra í innsveitum. Til dæmis munu bændur í fram-Eyjafirði hafa heyjað allvel og náð miklu inn óhröktu, en á Árskógarströnd og í Svarfaðardal, Höfðahverfi og Kinn hefir gengið lakar. Vegna kuldatíðarinnar horfir mjög illa með uppskeru úr görðum. Berjaspretta er lítil sem engin. Varla sést ber í ágætum berjalöndum á Árskógsströnd sagði Jóhannes.
Tíminn segir af kaldri nótt í pistli 28.ágúst. Fréttir bárust þó ekki strax af lægstu tölunni. Lágmarkið á Barkarstöðum í Miðfirði fór niður í -6,1 stig aðfaranótt þess 27. Er það enn mesta frost sem mælst hefur í byggð hér á landi í ágústmánuði. Frost mældist -0,4 stig í Reykjavík og er þetta í eina skiptið frá stofnun Veðurstofunnar (1920) sem frost hefur mælst þar í ágúst. Þ. 30. águst 1898 mældist -0,2 stig og -0,1 stig sama dag 1903. Á Akureyri fór frostið í -2,2 stig og hefur aldrei mælst meira í ágúst. Saman dag 1982 mældist lágmarkshiti -2,1 stig á Akureyri:
Aðfaranótt mánudagsins 27. ágúst mældist kaldasta ágústnótt hér á landi síðan Veðurstofan tók til starfa 1920. Mest frost mældist á Þingvöllum og Blönduósi, fjögur stig, ein víða var tveggja til þriggja stiga frost. Í Reykjavík mældist eins stigs frost. Þess má geta, að
þegar frost er mælt, standa mælarnir einn og hálfan meter frá jörðu - mun kaldara er við jörð eins og sjá má af því, að þannig mældist fimm stiga frost hér í Reykjavík. Kartöflugras féll í Þingvallasveit í gær. Næturfrostið hefir farið illa með gróðurinn hér um slóðir. Í kartöflugörðum eru grösin orðin dökk og máttvana af frostinu, en stönglarnir standa uppi.
Fosshóli í gær. Í nótt var hér um slóðir 12 stiga frost og var örlítið föl á jörðu um morguninn. Í nótt var lítilsháttar frost. Kartöflugrös hafa mjög lítið fallið í görðum hér í sveit. Hér hafa verið þó óþurrkar síðan á föstudag, en í dag er heiðskírt og útlit fyrir eitthvað frost í nótt. SL.
Blönduósi í gær. Hér féll kartöflugras í nótt enda var hér nokkurt frost. Mun uppskera kartaflna verða með rýrasta móti í ár. Sauðárkróki í gær. Í frostinu í nótt féll kartöflugras í görðum víðs vegar um héraðið. Kuldatíðin er nú orðin langvinn og þreytandi og heyskapur hefir gengið erfiðlega.
September fékk almennt góða dóma;
Síðumúli: Septembermánuður var mildur og í heild ágætur að veðurfari. Engin frostnótt. Engin snjókoma. Einstöku dagar voru unaðslega góðir.
Lambavatn: Það hefur verið sífelldar rigningar og þurrkleysur yfir mánuðinn, en hlýtt og gras haldist óvenju vel grænt.
Húsavík (Benedikt Jónsson (yngri)): [15. Rjúpnamergð er hér mjög mikil svo enginn man þvílíkt. Þær ganga hér í húsagörðum og á götum bæjarins og eru gæfar eins og hænsni. 28. Aldrei séð meira af rjúpu en snemma í morgun].
Gunnhildargerði: September var með ágætum hvað tíðarfar snerti, bætti fyrir kaldar stundir sumarsins. Varð nýting heyja ágæt. Háarspretta var víð léleg. Vöxtur garðávaxta mjög misjafn og berjaspretta engin, svo var var hægt að tína ber þó leitað væri sem að saumnál væri.
Skriðuklaustur (Jónas Pétursson): Þurrkar svo mikli að vatn var mjög að þrjóta í vatnsbólum, t.d. neysluvatnslaust hér á Skriðuklaustri mestan hluta mánaðarins.
Tíminn segir af hlýindum fyrir norðan 4.september:
Akureyri í gær. Undanfarna daga hefir verið hér sunnanátt og mjög hlýtt í veðri. Hitinn hefir farið upp í 20 stig. [Opinber tala á Akureyri er 19,4 stig, þann 1., en hiti fór yfir 20 stig á mörgum stöðvum austanlands]. Margar ár velta fram kolmórauðar sem að vordegi. Mjög sólríkt hefir verið og góður þurrkur. Heyskapur hefir gengið mjög vel og hafa bændur náð öllum heyjum sínum í hlöðu.
Tíminn segir af umskiptum 13.september:
Í fyrradag gerði mikla rigningu á Norðurlandi, en í fyrrinótt kólnaði mjög og varð snjókoma svo að gránaði víða eða hvítnaði í byggð, en fjöll og heiðar urðu alhvít. Var því víða vetrarlegt yfir að líta á Norðurlandi í gær og ís á pollum. Heldur hlýnaði þegar leið á daginn. Heiðar allar, fjöll og hálsar í Húnavatnssýslum voru alhvít og víða grátt í byggð. Brátt fór þó að njóta sólar í gærmorgun einkum vestan til og hvarf þá fölið brátt í lágsveitum. Föl var á Holtavörðuheiði og öll fjöll þar í nánd hvít. Í Borgarfirði hafði gránað í fjöllum.
Akureyri í gær: Þegar borgarar bæjarins komu á fætur í morgun var bærinn heldur kuldalegur ásýndum. Jörðin var alhvít, fyrsti snjórinn var fallinn [ekki varð alhvítt á athugunartíma við Lögreglustöðina]. Í dag hefir verið sólskin og besta veður svo að allur nýi snjórinn er nú horfinn. Líkur eru fyrir næturfrosti, vegna þess hve heiðskírt er. Nokkur haustsvipur er nú kominn á náttúruna og lauf nokkuð tekin að falla af trjám. Vaglaskógur er mjög fallegur á að líta í öllum ; regnbogans litum, lauf sumra | trjánna eru gul, en önnur standa i enn hvanngræn. E.D.
Frá fréttaritara Tímans á Sauðárkróki í gær: Þegar fólk vaknaði í morgun, var jörð alhvít hér í Skagafirði. Með morgninum birti upp og kom sólskin og hefir veður verið gott í dag. Snjóinn hefir tekið upp í byggð, en fjöll eru alhvít. Eitthvað af heyi mun vera úti enn hér í héraðinu. Þrátt fyrir snjóinn hefir ekki verið mjög kalt. Nú í kvöld er að syrta yfir að nýju.
Tíminn segir af sköflum 15.september [hef ekki enn fundið fyrri fréttina - þá sem vísað er til]:
Eysteinn Tryggvason, veðurfræðingur, hefir skýrt blaðinu frá því í sambandi við fregn hér í blaðinu fyrir nokkrum dögum, um gamla skafla, sem nú hafa horfið í sumar, að það sé ekki rétt, að skaflar hafi ekki horfið þar síðan 1949. Sumarið 1953, sem var mjög hlýtt, hafi allir skaflar, sem sjást héðan úr bænum, horfið alveg.
Tíminn segir fregnir af kornsprettu 19.september:
Kornið mun ná sæmilegum þroska á þessu ári og nýtast vel, ef við fáum svo sem vikugóðviðri enn, sagði Klemenz Kristjánsson á Sámsstöðum, er blaðið átti tal við hann í gær. Vegna kulda um mitt sumarið mun vaxtartíminn þó verða um 10 dögum lengri en í meðalári. Sólskin í ágúst og mild veður í september bættu upp kalda júní- og júlímánuði.
Tíminn segir þurrkafréttir að austan 20.september:
Egilsstöðum 19. sept. Svo lítið er hér í öllum vötnum að vatnsleysi er farið að segja illilega til sín sums staðar, bæði á Héraði og þó einkum suður í Breiðdal og niðri á fjörðum. E.S.
Enn sagt frá krapahríð á Akureyri. Tíminn 21.september:
Akureyri í gær. Um miðjan dag í gær brá hér til norðanáttar eftir blíðviðri síðustu daga og í nótt snjóaði niður í byggð. Í dag er hér versta veður, norðan hrakviðri með krapahríð.
Tíð var fremur óhagstæð í október:
Síðumúli: Októbermánuður var umhleypingasamur og leiðinlegur að veðurfari. Hann var úrkomusamur bæði af snjó og regni og hefir skepnum sem úti standa oft liðið illa. Sumaraukavikan var mjög slæm en síðan hefir verið blíðutíð og er jörð nú auð og þíð og túnin græn.
Arnarstapi (Kristbjörn Guðlaugsson): Þann 29. til 30. gerði óhemjumikla úrkomu svo að brú á Grafará í Breiðavíkurhrepp seig og brotnaði. Vegir spilltust mikið.
Barkarstaðir: [25. Fádæma vatnsflóð. Miðfjarðarárbrú bilar. Erfitt um samgöngur norður um land].
Þann 3. gerði slæma norðanhríð. Veðurharkan var einna mest síðdegis og um kvöldið þann 3. Kortið sýnir talsvert frost um landið norðanvert, með mikilli hríð, einnig er kalt syðra, langhlýjast á Fagurhólsmýri. Tíminn segir af þessu 4.október:
Í fyrrinótt [aðfaranótt 3.] brast á norðan stórhríð með mikilli veðurhæð og hlóð víða niður snjó a Norðurlandi, einkum austan til Voru vegir víða ófærir í gær. Vegna símabilunar norður og vestur um land eru fregnir af veðrinu af fremur skornum skammti, en vitað er þó, að nokkrir skaðar hafa orðið, bátar sokkið eða rekið upp og menn óttast, að fé hafi fennt allvíða.
Fréttaritari blaðsins í Húsavík sagði, að þar væri óskaplegt brim og veðurhæð hefði verið mikil. Allmikill snjór væri þar kominn. Þrír vörubílar með kjöt frá Kaupfélagi Þingeyinga lögðu af stað kl.12 í fyrrakvöld áleiðis til Akureyrar og átti kjötið að fara þar i skip til útflutnings. Bílarnir tepptust i gærmorgun í snjó í Ljósavatnsskarði, sátu þar fastir fram eftir degi, en síðdegis kom ýta á vettvang og átti að ryðja þeim braut yfir Vaðlaheiði. Voru bílarnir að brjótast áfram á heiðinni í gærkveldi. Háspennulínan til Húsavíkur slitnaði í gærmorgun, og var kaupstaðurinn rafmagnslaus um tíma í gær. Í sveitum á þessum slóðum voru bændur í allan gærdag að reyna að ná fé í hús, en það gekk illa, því að féð var dreift, veðrið illt og færð þung. Vantar alls staðar fé og óttast menn að það hafi fennt eða farist í hættum. Hafa litlar fregnir borist af afdrifum fjárins enn. Bóndinn á Krossum á Árskógsströnd sagði, að hann hefði víða orðið að draga fé úr fönn, lækjum, giljum og skurðum. Sást stundum aðeins á horn kinda upp úr snjónum. Vantar hann sem aðra enn margt fé.
Vélbátinn Pálma rak á land við Litla-Árskógssand. Fór hann upp í sand, en ekki er enn vitað um skemmdir á honum.
Frá fréttaritara Tímans á Akureyri. Ofsaveður með fannkomu og stórbrimi var í Hrísey í gær. Síðdegis fannst maður örendur þar í fjöru. Geysilegt brim var á bátalegunni við Hrísey. Rak einn trillubát upp, en ekki var vitað um meiri skemmdir á bátum þar í gærkveldi. ED.
Tíminn segir frá frekari sköðum í pistli 5.október:
Frá fréttaritara Tímans í Skagafirði og Svartárdal, A-Húnavatnssýslu. Foráttuveður og norðan stórhríð með feikna fannkomu geisaði í Skagafirði eins og víðar á Norðurlandi, frá því seint á þriðjudag og þar til seint í gær, að farið var að létta til, þótt veður væri enn þungbúið. Óttast er að eitthvað hafi fennt af fé, þótt enn sé erfitt að gera sér grein fyrir því, þar sem fjárskilum er ekki að fullu lokið og erfitt var um allar smalamennskur í óveðrinu. Fréttaritari blaðsins á Sauðárkróki símar, að vegir hafi teppst, vegna fannkomunnar og engir bílar hafi komið til Sauðárkróks í fyrradag. Fyrsta bifreiðin, sem fór fram héraðið eftir hríðina, var áætlunarbifreiðin sem fór í gær til Varmahlíðar og mun hafa gengið sæmilega. Jafnvel innanbæjar á Sauðárkrók var fannkyngið það mikið, að ekki var fært bifreiðum til sláturhússins eða bryggjunnar, þar sem Brúarfoss lá og lestaði kjöt. Varð að hætta við að skipa fram kjötinu á miðvikudagsnótt og ekki hægt að byrja að nýju fyrr en eftir Hádegi í gær. Veðurofsinn var slíkur, að skipið var í hættu við bryggjuna og héldu fjórir menn vörð við landfestarnar, Slátrun féll niður í fyrradag og einnig varð bærinn rafmagnslaus, vegna krapavaðals í ánni.
Fréttaritarar blaðsins á Sveinsstöðum í Tungusveit símar, að fé hafi alls staðar verið úti, þegar veðrið skall á. Fannkyngi er mikið í Fram-Skagafirði og margra metra skaflar komnir í lægðum. Ekki er vitað um tjón, en ég tel vafalaust að það hafi orðið eitthvað, sagði fréttaritari, og er talið víst að eitthvað af fé hafi fennt þótt það sé ekki komið í ljós enn. Þegar veðrið skall á fóru menn að reyna að ná inn fé sínu, en það gekk að vonum erfiðlega, þótt mikið hafi komist í hús.Fréttaritari Tímans á Bergsstöðum í Svarfárdal, A-Hún, símar að þar hafi hríðað fram eftir degi í gær, en var heldur að létta til með kvöldinu. Bændur smöluðu fé sínu í fyrradag og gekk það vonum framar. Ekki er enn vitað hvort mikið fé hefur fennt. Eftir óveðrið og stórhríðina er með öllu ófært bílum og öðrum ökutækjum að og frá Hofsósi, en í gær var byrjað að ryðja snjó af þjóðveginum inn til Skagafjarðar. Fé var almennt úti hjá bændum þar um slóðir og er ekki búið að heimta það allt í hús. Óttast menn að eitthvað kunni að hafa orðið úti í hríðinni, þó ekki sé enn útséð um heimtur. Frá fréttaritara Tímans í Ólafsfirði í gær. Hér brast á iðulaus stórhríð í fyrrinótt og stóð hún í gær og í dag var snjókoma af og til. Kominn er feikilegur snjór, bæði í kaupstaðnum og frammi í sveitinni. Óttast menn að fé hafi fennt, því að fé vantar á ýmsum bæjum. Mjólkurbíllinn komst ekki til bæjarins í gær. Hins vegar var ekki stórfellt brim, þar sem veðuráttin var hánorðan, og varð ekkert að bátnum hér á legunni. BS
[Illviðrið] í fyrradag náði ekki að marki austar en í Suður-Þingeyjarsýslu. Að vísu var allillt veður í Norður-Þingeyjarsýslu, en ekki mikil snjókoma, og munu ekki hafa orðið skaðar þar á fé eða munum. Kjötbílarnir, sem voru á leið frá Húsavík til Akureyrar, komust þangað með hjálp ýtu kl. 4 í fyrrinótt eftir 30 klukkustunda ferð frá Húsavík. Vaðlaheiði mun ófær að kalla. Vel fært er hins vegar fram um Bárðardal og upp í Mývatnssveit. Fréttaritari blaðsins á Dalvík símaði í gær til viðbátar fregnum þeim, sem birtust í blaðinu í gær. Fannkoma var mikil hér og færð erfið. Mjólkurbíll var níu klukkustundir frá Akureyri til Dalvíkur. Rafmagnslaust var annað slagið. Flest fé mun hafa náðst í hús í fyrrakvöld hér í sveitum, enn vantar þó allmargt á nokkrum bæjum, og jafnvel óttast að það hafi fennt. Erfiðleikar eru á að hýsa allt féð vegna þess að enn er margt sláturfé heima á bæjum. Í dag er bjartara en þó snjókoma öðru hverju. PJ
Engir skaðar svo vitað sé urðu í fárviðrinu á Austurlandi og náði snjókoma þangað ekki að ráði. Snjókoma varð þó talsverð á Fljótsdalshéraði, en ekki svo, að til umferðartruflunar kæmi. +I fyrradag fór bíll yfir Oddskarð milli Eskifjarðar og Norðfjarðar og gekk ferðin vel. Kjötflutningar og aðrir þungavöruflutningar eru miklir milli Reyðarfjarðar og Egilsstaða á Héraði og er vegurinn yfir Fagradal góður yfirferðar og enginn snjór þar, sem tefur umferð.
Alþýðublaðið segir fregnir af snjó og fjársköðum í pistli 5.október:
Blönduósi í gær. Í ofviðrinu í gær [3.] kyngdi niður miklum snjó hér um slóðir. Skaflar eru hér mannhæðarháir og samgöngur lögðust allar niður í gær. Af þessum sökum liggur vinna niðri í sláturhúsinu, en seinnipartinn í dag brjótast bílar um alla vegi, enda er veður betra.
Tíminn segir enn fréttir af hríðinni 6.október:
Frá fréttaritara Tímans í Siglufirði. Í þrjá daga stóð linnulaus stórhríð í Siglufirði og hlóð þar niður svo miklum snjó, að illfært var stórum bílum um göturnar og með öllu ófært út úr bænum. Siglufjarðarskarð er með öllu lokað og fjöldi bíla frá Siglufirði kemst ekki heim yfir fjallið. Í gær var komið sæmilegt veður í Siglufirði, en mjög mikill snjór er þar á jörð, víða hnédjúpur snjór niður við sjó og enn meiri snjór til fjalla. Siglfirðingar eiga talsvert af sauðfé, Líklega um 1000 talsins og var það að sjálfsögðu allt úti í högum, er hríðarveðrið skall á. Hefir mönnum tekist að ná því flestu í hús, en óvíst um afdrif þess alls. Ekki er þó talin mikil hætta á því að fé hafi fennt, því að veður var ekki mjög hvasst eða hart með hríðinni inn í Siglufirði og þess vegna er þar mikill jafnfallinn snjór er veðrinu slotaði.
Morgunblaðið segir af illviðrinu í frétt 8.október:
Fréttaritari Morgunblaðsins á Gjögri á Ströndum símar eftirfarandi: Vetrarlegt er nú um að litast á Ströndum. Jörð er alhvít niður að sjó og snjór talsverður. S.l. þriðjudagskvöld gerði norðanbyl með mikilli veðurhæð og fannkomu hér. Kyngdi snjó niður alla nóttina og næsta dag. Fé fennti í tugatali og var síðast í gær verið að moka það upp. Þann dag var 42 kindum bjargað úr snjó. Ekki varð fénu meint af þessu, nema einni kind, sem var svo sködduð að slátra varð henni strax. Fé þetta var flest á ströndinni út með Gjögri, en þar eru háir bakkar sem féð hafði leitað sér skjóls undir, en skafrenningur er þarna mikill. Hefur verið erfitt að bjarga fénu, því slátrun stendur nú yfir, og því lítið heima við nema konur og unglingar. Talið er samt að sárafátt fé vanti í dag, en unnið hefur verið að björguninni svo að segja dag og nótt. Í Norðurfirði, fauk þak af alveg nýrri hlöðu hjá Sveinbirni bónda Valgeirssyni, þessa óveðursnótt. Fauk þakið í heilu lagi um 100 metra leið, með sperrum og öllu saman. Lenti það að lokum í sjónum, nema nokkrar járnplötur sem rifnuðu af því á leiðinni, en þær voru beyglaðar og gjörónýtar. Heyinu í hlöðunni tókst að bjarga.
Sauðárkróki 4.október. Brúarfoss hefur legið hér við bryggju og hefur verið að lesta kjöt. Útskipun stöðvaðist í fyrrinótt, en hófst aftur síðari hluta dags í dag, og fer hann væntanlega í kvöld. Í óveðrinu lá skipið undir skemmdum, en gat ekki komist frá bryggju og var á tímabili óttast um að það myndi skemmast mikið. Var þá gripið til þess ráðs að keyra það upp með bryggjunni, þar til það sat fast í sandinum. Brúarfoss komst svo aftur á flot í dag.
Tíminn er með síðbúnar fregnir af hríðinni 12.október:
Svarfaðardal. Veður var gott um miðjan dalinn, en mikill snjóburður, en fram á fremstu bæjum var hörkuveður. Óttast er um að fé hafi fennt, en ekki er það þó vitað. Mikil ófærð er komin, en vetrarbílarnir ruddu slóðina með mjólkina.
Fosshóli í gær. Nokkrar kindur munu hafa drepist í stórhríðinni um daginn á ýmsum bæjum hér í sýslunni, auk þeirra fjárskaða, er urðu í Höfðahverfi. Nokkuð bar á því, að kindur hrekti í framræsluskurði og færust þar í krapi og vatni, t.d. í Köldukinn, þar sem nokkrar kindur drápust með þeim hætti. Einnig fórst eitthvað af fé í Reykjahverfi og lítils háttar í Aðaldal, en þetta mun þó ekki vera í stórum stíl. SLV. Snjórinn að mestu horfinn Fosshóli í gær. Snjórinn sem kom um daginn er nú að mestu horfinn, aðeins stöku skaflar eftir. Tíðin hefir verið einstaklega hlý og góð síðustu vikuna. Fært er nú orðið um allar heiðar allt austur á Seyðisfjörð, nema Reykjaheiði, sem enn mun ófær. SLV.
Tíminn segir 13.október enn af hríðinni - en byrjar á Akureyri:
Akureyri í gær: Hér er í dag undarlegt veður, logndrífa dimm, en ekki festir snjó á jörð í byggð, enda jörðin heit eftir blíðviðri undanfarinna daga. En í görðum hangir þungur snjór á greinum og blöðum.
Árskógsströnd: Enn eru að finnast lifandi kindur í fönn á Árskógsströnd. Gústaf bónda að Brimnesi vantaði 30 kindur eftir hríðina. Hefir hann með aðstoð nágranna leitað síðan og fundið 18 kindur, síðast eitt lamb í dag, mjög illa farið. 7 kindur voru dauðar, er þær fundust, eða drápust af hrakningunum, og þær er enn vantar, eru taldar dauðar.
Grýtubakkahreppi, 8. október: Bóndinn á Jaðri á Látraströnd gróf 7 ær úr fönn á sunnudaginn. Voru þær allar dauðar. Á Árbakka fundust einnig 5 ær dauðar í snjó. Víðast vantar eitthvað af fé ennþá og er óttast um að það sé enn undir snjó, bæði dautt og lifandi. Síðari fréttir herma, að enn hafi dautt fé fundist í fönn: 3 kindur frá Sunnuhvoli og 4 frá Áshóli.
Tíminn segir skaðafregnir úr Mýrdal og norðan úr Öxarfirði 21.október:
Frá fréttaritara Tímans í Vík í Mýrdal í gær [20.]. Hér gerði stórrigningu með ofsaroki í nótt og enn er mjög hvasst. Ekki hefir frést um mikla skaða, en á einum bæ í Álftaveri, Hraungerði, fauk þak af hlöðu og fjárhúsum. Voru þetta allgóð hús. Bóndi í Hraungerði er Eggert Oddsson, Nokkur vöxtur hljóp í vötn en ekki til skaða. Ó.J
Frá fréttaritara Tímans á Kópaskeri í gær. S.l. fimmtudagsnótt [18.] gerði hér mikið hríðarverður og setti niður mikinn snjó í héraðinu og á heiðum. Nú er aftur komin allhvöss sunnanátt með hláku og rigningu öðru hverju og er snjóinn að taka.
Seint í mánuðinum urðu miklar rigningar. Þær ollu skriðuföllum og flóðum í ám og vötnum. Tíminn 27.október (en sjá einnig lýsingar veðurathugunarmanna hér að ofan):
Um kl.5 í gær [26.] bárust Vegamálaskrifstofunni fregnir um það að skriða hefði fallið á veginn í Hvalfirði. Bílstjóri hafði komið heim að Fossá og símað fregnina þaðan. Þá þegar, voru nokkrir bílar tepptir beggja vegna skriðanna. Samkvæmt upplýsingum, sem blaðið fékk hjá Davíð Jónssyni, fulltrúa, var strax brugðið við og leiðangur sendur af stað uppeftir. Fóru tveir stórir dráttarbílar og stór jarðýta. Vegamálaskrifstofan hafði loftskeytasamband við leiðangurinn og um kl.21:30 var jarðýtan að ryðja skriður á veginum fyrir neðan Staupastein. Skriður höfðu fallið á veginn frá svæðinu fyrir neðan Staupastein og allt inn að Hvítanesi. Ekki kvaðst Davíð þá geta sagt um, hvenær vegurinn yrði aftur kominn í lag, þannig að umferð hæfist á ný, en unnið yrði að því án hvíldar að ryðja skriður og gera við skörð eftir vatnsrennsli. Fjöldi bíla var í gærkvöldi tepptur beggja vegna skriðusvæðanna. Meðal annars var talið að um 40 manns væri í tveim áætlunarbílum. Versta veður var þar uppfrá í gærkvöldi. Gekk á með hryðjum og var varla stætt er hvassast var. Blaðið átti í gærkvöld tal við Björgvin Guðbrandsson bónda á Fossá, og sagði hann að aðalskriðurnar hefðu verið þrjár. Þær hefðu fallið úr Hvammsfjalli. Ennfremur sagði Björgvin að allar ár væru í foraðsvexti, enda hefði úrkoma verið með fádæmum allan daginn.
Miklir vatnavextir hafa orðið í ám í Norðurárdal í Borgarfirði. Norðurá flæðir yfir bakka sína og segja kunnugir að slíkt flóð hafi ekki komið í hana síðan fyrir 1930. Í gærkvöldi var vegurinn norður og vestur í Dali tepptur og biðu margir bilar beggja megin flóðasvæðisins. Samkvæmt símtali er blaðið átti í gærkvöldi við Vigfús Guðmundsson gestgjafa í Hreðavatnsskála var vegurinn í Norðurárdal undir vatni á löngum kafla. Til dæmis um flóðið sagði Vigfús að fara mætti á bátum milli Dalsmynnis og Skarðshamra. Allmargir næturgestir voru í Hreðavatnsskála og þar á meðal Skagfirðingur, sem brotist hafði yfir vatnasvæðið, en varð að ganga af bíl sínum, er hann átti nokkuð eftir ófarið og ganga að Hreðavatnsskála. Skagfirðingurinn hafði farið frá Dalsmynni kl.3 og kom í skálann kl.10. Þá voru nokkrir Dalamenn, er ætluðu vestur, en urðu að snúa við. Margir bílar voru farnir ofan í Borganes til næturgistingar. Bóndinn á Klettstíu, Karl Jónsson, var að fá bát lánaðan langt að til þess að bjarga hrossum sínum, er teppt voru á hólma í flóðinu. Hann réri út fjörðinn og gekk björgun hrossanna að óskum. Ekki er enn vitað hverjar skemmdir hafa orðið á veginum en taldar alvarlegar.
Tíminn segir af októbertíð í Mývatnssveit í pistli 4.nóvember:
Reynihlíð, 29. okt. Umhleypingasöm veðrátta hefir verið þennan mánuð. Snjór hefir komið nokkrum sinnum en alltaf farið fljótt aftur. Mývatn hefir lagt, en ísinn brotið strax af því aftur, og hann hefir aldrei orðið gengur. Fénaður er fremur óspakur í högum vegna umhleypinganna. Rjúpnaveiði er fremur lítil, enda veðrátta ekki heppileg til að stunda hana. PJ.
Afar umhleypingasamt var í nóvember, einkum um landið vestanvert. Norðaustan- og Austanlands þótti tíð betri.
Andakílsárvirkjun: Föstudaginn 30. gerði suðvestanhvassviðri sem bar með sér mikið af seltu inn yfir landið. Af því leiddu truflanir á rafkerfi héraðsins. T.d. brunnu vör á spennistöðvum um 40 sveitabæja og nokkrar truflanir urðu á Akranesi og í Borgarnesi.
Sandur: Öndvegistíð allan mánuðinn. Jörð alauð og þíð, nema hvað fölgvar svolítið síðustu dagana. Fé gekk víða úti.
Hallormsstaður (Páll Guttormsson): Á bænum Hafursá 5 km hér frá fauk þak af hlöðu þann 24.
Skriðuklaustur: Þann 8. var sunnan stórrigning og kom þá svo mikið flóð í Kelduá að mjög sjaldgæft er. Einhver besti nóvember í manna minnum.
Tíminn segir 7.nóvember af skriðuhlaupum í Eyjafirði:
Akureyri í gær: Í miklu vatnsveðri í fyrradag [4.] og fyrrinótt urðu skriðuhlaup í Eyjafirði fram og Öxnadal og ollu skemmdum á þjóðvegi og ræktuðu landi. Það bar til tíðinda í Öxnadal, að vegaviðgerðarmenn, sem voru staddir hjá Gloppu í Öxnadal að gera við skemmdir þar vegna skriðufalls, urðu að flýja af hólmi vegna nýrrar skriðu, og sluppu með naumindum. Allmiklar skriður féllu á veginn hjá Gloppu og í grennd, og stöðvaðist umferð um hríð, en var skjótlega lagfært. Í Eyjafirði fram urðu allmikil skriðuföll í Saurbæjarhreppi. Skriða féll á túnið í Ártúni og olli verulegum skemmdum. Þar býr Finnur Kristjánsson. Þá féllu skriður á veginn hjá Jórunnarstöðum og trufluðu umferð, og á Tjörnum urðu skemmdir á húsum, einkum af vatnsveðri og roki. Í Hörgárdal, hjá Skugga, eru vatnavextir svo miklir, að flæðir yfir veginn og er ófært um dalinn á kafla.
Tíminn segir af góðri færð milli Norður- og Austurlands í pistli 8.nóvember:
Frá fréttaritara Tímans á Reyðarfirði. Í gærkvöldi lagði flutningabíll frá Reyðarfirði upp í óvenjulega langferð að vetrarlagi. Hélt hann af stað hlaðinn vörum norður til Akureyrar, yfir mesta fjallveg landsins, sem venjulega er alveg ófær um þetta leyti árs vegna snjóa.
Tíminn segir frá vatnavöxtum í Eyjafirði í pistli 9.nóvember:
Akureyri í gær. Undanfarna daga hafa verið mikil hlýindi hér við Eyjafjörð og allar ár í vexti og sjór mórauður langt út á fjörð. Hörgá var í foraðsvexti. Sauðfé, sem hafðist við í hólma skammt frá brúnni við Möðruvelli, var í hættu statt og var það tekið til bragðs, að sækja árabát á bíl út á Hjalteyri og ferja féð í land á honum. Mun það einsdæmi, að menn hafi þurft að nota bát til þess að komast út í hólma í Hörgá á þessum stað. Eigandi fjárins var Jón Jónsson bóndi í Dunhaga, og slapp það allt í land fyrir þessar aðgerðir.
Tíminn segir 16.nóvember frá góðri tíð nyrðra, en ótíð suðvestanlands:
Ólafsfirði í gær. Hér hefir verið einmuna tíð undanfarið og hlýindi frá því um veturnætur. Langt er síðan bændur slepptu sauðfé aftur og gengur það nú sjálfala. Langaheiði [svo[ hefir verið fær öllum bifreiðum síðan um miðjan október og sést þar hvergi snjóskafl. Jónas Jónsson rörlagningarmaður fór ásamt fjórum mönnum á grasafjall og tíndu þeir félagar 3 poka á tæpum þrem tímum. Það er einsdæmi að farið sé á grasafjall frá Ólafsfirði á þessum tíma.
Hafnarfirði í gær. Síðan um helgi hefir ótíð hamlað síldveiðum héðan frá Hafnarfirði.
Tíminn segir af skriðuföllum vestra 22.nóvember:
Ísafirði: Hér rigndi látlaust frá því í fyrrakvöld og fram á dag í gær og hefir þessi mikla rigning orsakað mikil skriðuföll. Úr Eyrarfjalli féllu sex stórar skriður auk margra minni. Unnið er að því með jarðýtu að ryðja veginn út í Hnífsdal, en ekki var því verki lokið í gærkveldi. Margar skriður hafa og fallið á Óshlíðarveginn, frá Hnífsdal út í Bolungarvík, en þar sem sá vegur er algjörlega ófær er ekki vitað hve margar skriðurnar eru, eða hve mikið vegurinn hefur skemmst. Í undanförnum rigningum hafa sífellt verið að falla aurskriður á þann veg og hefir jarðýta unnið þar að staðaldri. Þar til fyrir þrem dögum voru hér allir vegir færir, þá snjóaði. Snjórinn hefir nú allan tekið upp og er búist við því að bílfært verði aftur um nágrennið, nema hvað vegirnir hafa spillst af rigningunni. G.S.
Meðan rignt hefur látlaust að kalla hér á Suðvesturlandi hefur verið einmuna veðurblíða á Norðausturlandi, sannkölluð sumarblíða suma dagana, hægur sunnan andvari og sólskin annað slagið. Blóm hafa verið að springa út í görðum allt fram á þennan dag, og hefur það að vísu stundum hent áður á þessum tíma, og jafnvel seinna á árinu. En nýstárlegt er það þó, og líklega einsdæmi, að bóndi tók sig til og sló túnblett á föstudaginn var norður í Fnjóskadal, og náði allgóðum feng, segir í fréttum að norðan. Hann notaði dráttarvél við sláttinn. Þetta var Gunnar bóndi Jónatansson á Reykjum, og má að vísu geta þess, að jarðhiti er mikill í Reykjalandi, og má e.t.v. hugsa sér, að volgt hafi verið undir, þó að það sé ekki víst. Fregnir frá Hauganesi á Árskógströnd, þar sem enginn jarðhiti er, benda til þess, að það spretti í góðviðrinu, þótt ekki séu laugar í grennd. Á Gilsbakka á Hauganesi var ætlunin að slá nýræktarblett í gær. Var hann allvel sprottinn. Enn helst sama veðurblíðan nyrðra. f gærmorgun var t.d. 9 stiga hiti og enn heitara var í fyrradag.
Morgunblaðið segir einnig af hvassviðri og rigningum þann 22.:
Í fyrrinótt var hið versta veður hér í Reykjavík, sunnan slagviðri með stórrigningu. Mun langt vera síðan jafnstórfellt úrfelli hefur orðið hér í Reykjavík, en úrkoman mældist 26 millimetrar. Mest var úrkoman þó á Þingvöllum, tæplega 49 millimetrar. Undanfarið hefur sem kunnugt er verið óvenju umhleypingasamt veður, og sá dagur ekki liðið, að ein lægð a.m.k. hafi ekki farið yfir landið. Og ekki mun einn einasti dagur þessa nóvembermánaðar hafa verið þurr og úrkomulaus. Hér í Reykjavík eru göturnar í úthverfunum illa farnar eftir svo miklar rigningar. Í fyrrinótt slitnaði vélbáturinn Hilmir hér frá bryggju inni á höfninni og rak upp í Örfiriseyjargranda, en ekki mun hann hafa orðið fyrir verulegum skemmdum.
Séra Jóhann Hannesson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum sagði í símtali við Mbl. í gær, að vatnsborð Þingvallavatns hefði hækkað mikið undanfarið. í gær, eftir hina stórfelldu úrkomu þar í fyrrakvöld og nótt, voru allir hólmarnir fyrir framan túnið við Þingvallabæ á kafi; bátar, sem sumarbústaðaeigendur voru búnir að ganga frá, höfðu farið á flot, og inn við Vatnskot var mikið flóð í Þingvallavatni og vatnsborðið svo hátt að einnig þar flutu bátar upp. Svo mikill vöxtur hljóp í Öxará, að hún flæddi yfir vegarspottann heim að Þingvallabæ, og sagðist séra Jóhann aðeins einu sinni muna eftir slíku flóði í ánni áður. Á Þingvöllum hefur ekki komið þurr dagur í nóvember frekar en hér í Reykjavík. Sagði séra Jóhann, að hann hefði um daginn gert samanburð á hlýindunum í þessum mánuði og júlímánuði í fyrra, óþurrkasumrinu, og væri hitastigið hið sama nú og þá. Stórrigningin á Þingvöllum minnti mjög á skýfall, og einnig var mikill veðurofsi.
Fréttaritari Morgunblaðsins á Seyðisfirði sagði, að í hvassviðri þar í gær, hafi sviptivindur feykt um koll skúr, sem stóð við rafstöðina. Drengur var uppi á skúmum að lagfæra þar eitthvað, og fékk hann mjög slæma byltu og var í sjúkrahúsi í gærkvöld. Litlu munaði að annar maður, yrði undir skúrnum er hann fauk. Hann fékk að fara heim til sín strax eftir að læknir hafði gert að meiðslum er hann hlaut.
Tíminn segir 23.nóvember frá umhleypingum og skriðuföllum:
Hólmavík. Hér hafa verið stöðugir stormar að undanförnu og gæftir þar af leiðandi stirðar.
Reykhólum. Hér er nú kominn nokkur snjór en undanfarið hefir gengið á með hryðjum. Menn eru nú almennt búnir að taka fé í hús. Áður en tók að snjóa voru hér sífelldar rigningar og vegir voru víða ófærir. Skriðuföll urðu í Kollafirði og Gilsfirði og varð jarðýta að fara til móts við áætlunarbílinn þar nýlega er hann komst ekki leiðar sinnar vegna skriðufalla. Þ.Þ.
Mjög hvasst varð af vestri vestanlands þann 24. og allmikið tjón. Tíminn segir af því 25.nóvember:
Í hvassviðrinu í fyrrinótt slitnuðu fimm mótorbatar frá Grandabryggjunni í Vesturhöfninni í Reykjavík og rak fjóra þeirra á land við Kirkjusand. Einn lenti á hafnargarðinum og náðist þar lítið skemmdur. Þrír bátanna, sem fóru út úr höfninni og lentu við Kirkjusand munu vera lítið skemmdir, en einn brotnaði í grjóturð og sökk. Bátarnir lágu allir utan á línuveiðurunum Rifsnesi og Sigurði Pétri. Er hvassast var í fyrrinótt slitu þeir landfestar sínar einn af öðrum og rak þá þvert yfir höfnina. Einn þeirra, m.b. Snæfell, lenti á hafnargarðinum og náðist hann þar lítið skemmdur. Hinir fjórir virðast ekki hafa komið við garðinn og héldu sem leið liggur inn með landi. Þrír þeirra, Erna Freyja og Unnur komust alla leið á sandinn, en Valgeir lenti í klettum fyrir framan Netagerðina Höfðavík. Hann mun hafa brotnað mikið og sökk á morgunflóðinu í gær. Valgeir er ennþá með tilraunatæki þau, sem notuð voru við síldveiðar við Norðurland í sumar, samkvæmt uppfinningu Jóns Magnússonar. Ekki var blaðinu kunnugt um að reynt hefði verið að ná bátunum á flot í gær.
Í hvassviðri því, sem gekk yfir landið í fyrrinótt, urðu miklar skemmdir í Stykkishólmi. Vélbáturinn Gissur hvíti sökk við bryggjuna og m.b. Arnfinnur slitnaði frá, en var náð óskemmdum. Þak fauk af einu húsi og girðingar skemmdust. Veður var hvasst um kvöldið en hvessti meir er á leið og eftir miðnættið var aftakaveður. Nokkrir bátar lágu við bryggjuna og slitnuðu landfestar tveggja. Gissur hvíti lenti á klöppum, sem eru þar í fjörunni. Báturinn fylltist af sjó og sökk á skammri stundu. Mb. Arnfinnur var einnig við bryggjuna og var skipstjórinn sofandi um borð í bátnum. Hann mun ekki hafa orðið þess var, er bátinn sleit frá, og vissi eigi fyrr en báturinn var kominn út á sund. Svo vel vildi til, að póstbáturinn Baldur, var að fara af stað í vikulega póstferð í gærmorgun og tókst skipsmönnum á Baldri að koma taugum í Arnfinn og draga hann að bryggju. Margir sjómanna fóru um borð í báta sína er veðrið versnaði svo mjög um miðnættið. Voru vélar margra bátanna hafðar í gangi og andæfðu við bryggjuna. Mun það hafa varnað því að enn meiri skemmdir yrðu á bátaflotanum. [Veðráttan bætir því við að einnig hafi orðið tjón í Grundarfirði].
Vík í Mýrdal í gær: Mikill vöxtur hefir verið í öllum vötnum að undanförnu. Múlakvísl hefir verið mjög bólgin og leitað fast á nýja varnargarðinn, sem verið er að gera við nýju brúna. Hefir oft legið við, að kvíslin færi yfir hann eða bryti í hann skörð. Alltaf er unnið að hækkun garðsins, og er hann nú að verða jafnhár sandinum, en mun þurfa að hækka enn nokkuð, þar sem framburður árinnar er geysimikill og hleðst að garðinum. ÓJ.
Egilsstöðum í gær. Hér hafa verið miklar rigningar að undanförnu og vatnavextir í öllum ám. Hafa þeir tafið nokkuð störf síðustu daga við Lagarfljótsbrú og Grímsárvirkjun. Ekki hafa þó orðið teljandi beinir skaðar af. Vatn hljóp þó í jarðgöngin við Grímsárvirkjun, því að lokur létu undan vatnsþunga. Það olli þó ekki öðrum skaða en þeim, að eitthvað af verkfærum sem voru í göngunum fóru forgörðum. E.S.
Tíminn segir 29.nóvember af raski á hverasvæði í Reykholtsdal:
Fyrir nokkrum dögum skeði sá atburður í Reykholtsdal, að rask komst á hverasvæði hjá bænum Hægindakoti, sem er sunnan Reykjadalsár skammt frá Reykholti. Morgunn einn, þegar Pétur bóndi í Hægindi kom á fætur, tók hann eftir því, að vetrarkuldi var kominn í bæinn, sem hitaður er upp með hverahita og vatnið leitt úr hver skammt frá nýbyggðu íbúðarhúsi. Hefir hver þessi, sem var bæði heitur og vatnsmikill verið þarna svo lengi sem elstu menn muna og talinn öruggur. Eru fleiri hverir þarna í nágrenninu og mikill hiti í jörð. Þegar farið var að gæta að hvernum kom í ljós að kuldinn í húsinu stafaði af því að ekkert heitt vatn var í pípunum. Stóðu inntakspípurnar eftir í tómri hveraholunni. Um það bil viku áður en þetta atvik kom fyrir hafði verið grafinn stór skurður í 1516 metra fjarlægð frá hvernum. Var sú skurðagerð framkvæmd með vélskófla og stendur í sambandi við vegagerð. Kom í ljós, að hver var kominn upp í vegarskurðinum og var holan svo heit að ekki er hægt að halda hendi ofan í henni. Þegar hlaðið var utan um gamla hverinn kom hann upp að nýju með nokkrum krafti, svo nú er hægt að hita íbúðarhúsið aftur, en talsvert vantar á að aftur sé komið fyrra vatnsmagn í hverinn, sem þvarr. Við skurðagerðina hefir komið breyting á rennsli vatnsins við hverinn og landþurrkunin við hann hefir haft þessi áhrif. Ekki er þó talið fullséð hvaða breytingar kunna að verða á umræddu hverasvæði í sambandi við vegagerðina, en hinn nýi vegur á að koma milli skurðsins og hversins.
Mikið illviðri gerði um mánaðamótin. Að kvöldi 29. fórst mótorbáturinn Skúli fógeti vestur af Akranesi í í vonskuveðri, 1011 vindstiga roki og éljagangi. Mannbjörg varð. Tíminn segir frá veðrinu í pistli 1.desember:
Ísafirði í gærkvöldi [30.nóvember]. Hér er mesta foraðsveður, norðvestan hvassviðri með allmikilli snjókomu. Tveir bátar, Guðbjörg og Gunnar réru í gær eftir langa landlegu og fengu góðan afla, 9 lestir hvor. Í dag er enginn á sjó. Sólborg landaði hér 150 lestum af fiski í fyrradag og ísborg 80 lestum í dag. Veginum til Bolungarvíkur er haldið opnum vegna fiskflutninganna, en lokað er til Súðavíkur. GS.
Hafnarfirði í gær. S.l. hálfan mánuð hefir verið með eindæmum ógæftasamt og hefir reknetabátum aðeins einu sinni gefið á sjó þann tíma.
Tíminn segir frekari fréttir 2.desember:
Fárviðrið í fyrrinótt [aðfaranótt 1.] er eitt hið mesta um langt árabil. Talsverðar skemmdir hafa víða orðið af þess völdum en ekki var blaðinu kunnugt í gærkvöldi um neitt stórtjón af völdum veðursins. Einna verst mun veðrið hafa verið á Akranesi enda vindátt sérlega óhagstæð þar og hætta á hafróti Skemmdir urðu framan við dráttarbrautina við Lambhúsasund og er hún óstarfhæf eins og sakir standa. Nokkuð af efni og minniháttar tækjum frá hafnargerðinni tók út en það rak á land við Langasand og Sólmundarhöfða. Meðal annars, prammi, sem Þjóðverjarnir við hafnargerðina nota. Nokkrir bátar leituðu burt úr höfninni í fyrrakvöld, vegna veðurs og aðrir urðu fyrir nokkrum skemmdum. Fleiri minniháttar skemmdir urðu af völdum veðurs á Akranesi. Í Keflavík og Sandgerði urðu nokkur spjöll, einkum í Sandgerði þar sem lauslegt fauk og jafnvel þök af húsum.
Selfossi í gær. Hér var hið versta hvassviðri af suðvestri í gær og nótt. Ekki hefir þó frést um teljandi skaða. Særokið náði alla leið hingað til Selfoss, og eru gluggar mjög saltstokknir. Rafmagnstruflanir hafa orðið allvíða, einkum í Gaulverjabæ, þar sem selta hlóðst á einangrara svo að skammhlaup varð. Hingað til Selfoss kom óvæntur gestur. Var það haftyrðill, sem hrakið hafði undan veðri og misst flugið þegar á land kom eins og títt er um slíka fugla. Var hann illa hrakinn og drapst eftir skamma dvöl hér. ÁG
Frá fréttaritara Tímans í Hafnarfirði í gær. Aftakaveður af vestri var hér í gær og fram eftir nóttu og urðu töluverðir skaðar af þess völdum. Togarinn Venus slitnaði upp af legunni og rak á land í krika norðan hafnargarðsins. Mun hann nú vera gerónýtur. Þetta var um kl.8 í gærkveldi. Stóð hann á réttum kili í fjörunni fram eftir nóttu, en í morgun var hann kominn á hliðina og hallaðist frá landi. Fjaran er stórgrýtt þarna, og sjógangur var mikill. Í sjóganginum gekk svo yfir Herjólfsgötuna út með firðinum að norðan, að ófært var bílum um hana vegna grjóts og malar, sem borist hafði á hana. Þá fauk járn af nokkrum húsum í bænum. Rafmagnstruflanir hafa verið öðru hverju í nótt og dag, og stafa þær af því, að svo mikil selta af særokinu sest á einangrara rafmagnsvíranna, að skammhlaup verður til jarðar. Skaðar urðu ekki á bátum og skipum í höfninni, en áhafnir voru í mörgum bátunum til gæslu, viðhúnar að láta úr höfn ef þurfa þætti eða verja bátana, ef út af bæri. Togarinn Venus var einn hinna gömlu togara íslendinga, smíðaður 1930 og hefir ekki verið gerður út síðustu árin. Hann var á sínum tíma einn stærsti og aflasælasti togarinn í flotanum, og var lengi skipstjóri á honum hinn kunni aflamaður Vilhjálmur Árnason. GÞ
Vísir ræðir 3.desember við Jónas Jakobsson veðurfræðing um tíðina (og hlýindi):
Í heilan mánuð hefur svo til verið stöðugur stormur og er það álit manna, að ekki hafi verið jafn vindasamur nóvember í fjölda mörg ár og þessi sem nú er liðinn. Þessi nóvember slær líklega met bæði hvað úrkomu og storma snertir og er þá mikið sagt, því nóvember færir íslendingum hvorutveggja venjulega í ríkum mæli. Vísir átti tal við Jónas Jakobsson fyrir helgi. Sagðist hann ekki muna jafn stormasaman nóvember og þennan. Það virðist aðeins tvennt, sem talist getur suðvestanáttinni til góða og það er stórkostlegur sparnaður á eldsneyti til upphitunar húsa og að öllum líkindum minni kostnaður við samgöngur á landi, því að öðrum kosti hefði mátt búast við snjómokstri á vegum og þeim Vandræðum, sem af snjó stafa. Á hinn bóginn hafa nóvemberstormarnir valdið miklu tjóni. Er þess að minnast, að fimm báta rak á land við Kirkjusand í Reykjavík. Í Stykkishólmi rak tvo báta frá bryggju og sökk annar þeirra. Einnig skemmdust þar mannvirki á landi. Nú fyrir helgi sökk mótorbátur frá Reykjavík, en mennirnir björguðust. Fyrir norðan urðu víða miklar skemmdir af ofsaroki, sem gekk þar yfir í byrjun mánaðarins. Vestamannaeyingar hafa fengið að kenna á nóvemberstormunum. Það er ekki nóg með það, að flugsamgöngur við land hafa legið niðri um langan tíma og sjóleiðin oft ekki fær, heldur horfa þeir upp á það að Eiðið, sem í aldaraðir hefir veitt hinni dýrmætu höfn skjól fyrir vestlægri átt, er smám saman að láta undan ágangi hafsins, sem sífellt sogar til sín sandinn úr því, svo að nú gengur sjór, þar yfir í vestanveðrum. Það má jafnvel búast við því að Eyjarskeggjar vakni við það einn morgun, að Eiðið sé horfið og hin margra milljóna króna höfn ónýt fyrir þá sök, að hinni nauðsynlegu og aðkallandi viðgerð á Eiðinu var, ekki gaumur gefinn í tíma.
Talsverð illviðri gerði í desember, en hann hlaut samt almennt nokkuð góða dóma:
Lambavatn: Það hefir verið mjög vindasamt yfir mánuðinn, en kuldalítið og snjólétt. Seinni hluta mánaðarins hefir mátt heita alautt og hvergi svell á polli. Nú síðustu dagana hefir verið reglulegt blíðviðri, logn, heiðskírt og jörð nær alþíð. Er það óvenjulegt um þennan árstíma að sé hiti í heiðbjörtu veðri og logni.
Sandur: Ágætis tíðarfar allan mánuðinn, milt og veðurgott, en dálítið óstöðugt. Jörð snjólaus að heita má og lítið frosin. Vegir greiðfærir sem um sumar.
Gunnhildargerði: Veðrið var sem oftast mjög svo sæmilegt, en dimmt var og ódæma hálka svo vart vært milli húsa og bæja.
Tíminn segir enn af mánaðamótaillviðrinu í pistli 5.desember:
Vatnsleysu: Það er til marks um veðurofsann og sjávarganginn hér á dögunum, að allt var löðrandi í sjávarseltu upp um allar Biskupstungur, voru gluggar í húsum hvítir af seltu og svell blaut, þótt frjósandi væri. Hefir þetta verið eitt hið mesta veður um langa hríð.
Frá fréttaritara Tímans á Hellissandi. S.l. laugardagsnótt [aðfaranótt 1.] var hér hið mesta foraðsveður a£ vestri og urðu nokkrar skemmdir af völdum hvassviðris og sjógangs. Brim var geysimikið og gekk sjór hærra en dæmi eru til um langan tíma. Nokkrir trillubátar lágu í Krossavík, sem talinn er öruggur legustaður fyrir þá í flestum veðrum. Nú brotnuðu tveir þeirra nokkuð, annar þó miklu meira. Þá gekk sjór upp fyrir húsið Innra-Sólberg og fór vatn í kjallara og urðu miklar skemmdir á matvælum og miðstöð eyðilagðist. Þorði fólkið ekki annað en yfirgefa húsið. Ekki urðu þó teljandi skemmdir á húsinu sjálfu, sem er úr steini. Eigandinn, Þorvarður Ketilsson, flutti allmikið af grjóti að húsinu til þess að hlífa því fyrir sjóganginum. Einnig urðu nokkrar skemmdir á túni við húsið. Í veðrinu urðu nokkrir fjárskaðar. 20 kindur hrakti fram af svonefndu Keflavíkurbjargi, sem er milli Sands og Rifs. Þá gekk sjór á veg við enda flugvallarins hjá Gufuskálum og eyðilagði hann á um 100 metra kafla. Í Rifshöfn lágu tveir bátar og varð ekkert að þeim.
Á laugardaginn var komu gestir að Möðrudal og Grímsstöðum á Fjöllum, og höfðu komið austan af Héraði um daginn. Þóttu það mikil tíðindi á þessum bæjum því að þótt þar sé gestkvæmt á sumrum, er fáförult á þessum árstíma, og aldrei fyrr hafa menn komið akandi að austan á þessari árstíð. Þarna voru á ferð 2 vörubílar og 1 jeppi og fluttu varning og fólk austan frá Lagarfljótsbrú til Akureyrar. Brúarsmíði stendur þar yfir og er Þorvaldur Guðjónsson frá Akureyri verkstjóri. Voru menn hans á leið norður með ýmsan varning. Bílarnir héldu rakleitt áfram til Akureyrar, og tók ferðin að austan alls nær sólarhring. Ástæðan til þess að ferðin tafðist svo umfram það sem er á sumardegi var ekki snjór heldur nokkrar ár á leiðinni, sem eru óbrúaðar og eru uppbólgnar, en fönn var hvergi til trafala. Á heiðum og fjöllum var aðeins föl og þjóðvegurinn mjög greiðfær. Austanmenn dvöldu nokkra daga á Akureyri og héldu svo heim á leið á 3 bílum með ýmsan varning. Fóru þeir frá Akureyri í gær og ættu að ná heim til Fljótsdalshéraðs í dag.
Morgunblaðið segir 11.desember frá miklu roki um landið suðvestanvert:
Í fyrrinótt [aðfaranótt 10.] gerði afspyrnurok hér um suðvestanvert landið. Á Kjalarnesi varð veðurhæðin slík að talið er með fádæmum. Skemmdir urðu á mannvirkjum þar efra. Fauk þak af hlöðu í Lykkju en í hlöðunni voru 1200 hestar af heyi, en litlar skemmdir urðu á því. Uppborið hey, sem stóð úti á Sjávarhólum fauk einnig.
Það voru ekki fáir sem hringdu til Mbl. í gær og spurðust fyrir um það, hvað loftvogin hefði eiginlega fallið langt niður í gærmorgun er mjög kröpp lægð fór hér yfir. Einn þeirra sagðist eiga vandaða sjálfritandi loftvog og hefði blekpenninn farið niður fyrir pappírsræmuna. Á Veðurstofunni vantaði eitt millibar upp á að eins færi fyrir sjálfritandi loftvog þar. Hún komst lengst niður í 951,0. Þá var það annað, sem var athyglisvert við loftvogina í gærmorgun. Þegar hún tók að stíga á ný, þá tók hún slíkan sprett að mjög sjaldgæft er talið. Milli kl.11 og 12 árdegis steig hún um 5 millíbör. Síðan um mánaðamót hafa stormar og stórviðri verið hér svo tíð, að aðeins hefur tvisvar eða þrisvar verið logn hér í Rvík, aðeins nokkrar klukkustundir í senn. Svo hefur veðurhæðin farið ört vaxandi á ný og fáeinum klukkustundum síðar komið ofsaveður, með stórrigningu eða hvössum hríðarbyljum. Veðurstofan bjóst við áframhaldandi ofsaveðri í nótt er leið, en eitthvað myndi veðrið verða minna í dag, svalara og snjókoma öðru hverju.
Alþýðublaðið segir 12.desember skaðafréttir frá Ólafsfirði [fyrra veðrið er trúlega það um mánaðamótin]:
Fregn til Alþýðublaðsins. Ólafsfirði í gær. Illviðri hafa gengið hér undanfarið. Níu símastaurar brotnuðu fyrir utan Kálfá, og var algerlega símasambandslaust í tvo daga. Í sama veðri fauk stafn úr hlöðu í Kálfsárkoti. Stykki tók úr heyi á Þverá í fyrrinótt, en lítið mun hafa eyðilagst, því að net hélt heyinu. Lágheiði er fær, enda snjólaust að kalla. M.
Tíminn 21.desember
Í morgun var víða flughált á götunum hér í bænum. Fyrir utan hálkuna var veður hvasst og hjálpaðist þetta að við að gera vegfarendum erfitt um að komast leiðar sinnar slysalaust. Mun margur hafa fengið harða byltu, er hann var á leið til vinnu, enda hlutu sumir töluverð meiðsli.
Mikli selta barst á land í vestanveðrinu um mánaðamótin. Morgunblaðið segir frá 22.desember:
Í yfirliti sínu um veðrið í nóvembermánuði, sem Morgunblaðinu hefur borist, gerir Páll Bergþórsson sérstaklega skil hinu mikla særoki, sem gerði í lok nóvembermánaðar, og einnig hefur orðið í þessum mánuði með þeim afleiðingum að miklar truflanir urðu á rafmagnskerfinu. Setur Páll þar fram mjög athyglisverða kenningu á þessu fyrirbæri og segir hann m.a. svo um það: Svo virðist að fyrirbrigði þetta komi aðeins í vestanátt. Hygg ég, að það stafi af því, að það getur tæplega komið fyrir nema í vestanátt, sem stendur af Grænlandsjökli, að ofsaveðri af hafi fylgt nær engin úrkoma. Í öðrum áttum lemur rigning eða snjókoma niður særokið, áður en það berst langt inn fyrir ströndina. En í vestanstormum er loftið þurrt, ef það er að mestu komið yfir Grænland, og getur þá jafnvel farið svo, að vatn gufi upp úr sælöðrinu. Léttast þá droparnir og ber ast enn lengra inn yfir landið, en saltið í þeim er þó jafnmikið og áður.
Þann 20. gerði skammvinnt landssynningsveður. Ritstjóri hungurdiska heldur sig muna eftir þessu kvöldi (?).
Morgunblaðið segir frá tjóni í Saurbæ í Hvalfirði í frétt 23.desember:
Í aftakaveðri er geisaði um sunnanvert landið síðastliðinn fimmtudag, færðist Saurbæjarkirkja á Hvalfjarðarströnd af grunni sínum og einnig urðu aðrar skemmdir á kirkjunni. Brotnaði meðal annars reykháfur kirkjunnar, féll niður á gólf og olli skemmdum á bekkjum. Gripi kirkjunnar sakaði ekki. Sóknarpresturinn, séra Sigurjón Guðjónsson, prófastur, skýrði Morgunblaðinu svo frá í gær, að veðrið hefði verið svo mikið, að ekki hefði orðið við neitt ráðið. Það var um þrjúleytið um daginn, að stormsveipur mikill svipti kirkjunni af grunni. Við þau átök brotnaði reykháfurinn og féll inn í kirkjuna. Braut hann nokkra bekki, en einnig gekk ýmislegt úr skorðum. Gripi kirkjunnar sakaði ekki, sem áður hefur verið sagt og hefur þeim þegar verið komið í öruggt skjól. Kvað prófasturinn, að ógerlegt væri að halda guðsþjónustur í kirkjunni eins og sakir stæðu. Séra Sigurjón kvaðst þó ekki láta jólaguðsþjónustur falla niður af þessum sökum. Kvaðst hann mundu messa á heimili sínu, en þar eru rúmgóðar stofur, sem hann taldi að mundu rúma messufólk.
Saurbæjarkirkja er byggð úr timbri og bárujárnsklædd. Hún er elsta kirkja prófastsdæmisins. Hún var vígð þriðja sunnudag í jólaföstu árið 1878. Ekki taldi sóknarpresturinn, að gert yrði við kirkjuna eftir þetta áfall, enda er Hallgrímskirkja að rísa af grunni. Bygging hennar er nú langt komin, en hún hófst vorið 1954. Kvaðst hann vona, að vegna þessa áfalls yrði lagt allt kapp á að fullgera hana og yrði hafist handa um það strax í vor.
Lægðir voru suðvestan og vestan við land til mánaðamóta og var lengst af hlýtt í veðri. Suma daga var allhvasst. Tíminn segir af tjóni sem varð á aðfangadag í pistli 28.desember:
Svalbarðseyri í gær. Á aðfangadag gekk hér yfir hvassviðri og urðu af nokkrir skaðar. Þak tók t.d. alveg af stórri hlöðu í Geldingsá, en heytjón varð ekki mikið. Í dag komu sveitungar til og settu þakið aftur á hlöðuna á nokkrum klukkustundum. SJ
Frá fréttaritar Tímans í Siglufirði. Að þessu sinni hefir verið einstök veðurblíða í Siglufirði um jólin og raunar ekki líkt að um jól sé, þegar litið er þar á alauða jörð að kalla. Aðalgötur bæjarins eru svo til auðar, nema hvað dálítill klaki er á þeim en hins vegar er nokkur snjór í fjöllunum, svo Siglfirðingar missa ekki snjóinn alveg úr augsýn um þessi jól, fremur en venjulega. Samgöngur eru heldur erfiðar um þessar mundir, þar sem illa ge£ur til flugferða, vegna dimmviðra og umhleypinga og ferðir strandferðaskipa strjálar. Gekk því erfiðlega að koma jólavörunum til Siglfirðinga.
Frá fréttaritara Tímans á Seyðisfirði. Veðurfar hefir verið með einsdæmum umhleypingasamt á Austurlandi í haust, en yfirleitt hafa menn haft lítið af vetrarkuldum að segja. Að undanförnu hefir til dæmis varla komið sá dagur að ekki hafi rignt einhvern tíma dags. Um jólin var mikil rigning oftast svo stórkostleg að varla var fært út úr húsi. Það þótti tíðindum sæta, þegar látnir voru í jörð blómlaukar á annan dag jóla. Reyndist jörð vera með öllu frostlaus og horfin alveg sú skel, sem komið hafði í hausthretunum. Mun slíkt vera nærri einsdæmi á jólum, að jörð sé alveg klakalaus.
Tíminn segir af rólegu áramótaveðri 3.janúar 1957:
Akureyri í gær: Hér var rólegt gamlárskvöld, sem kallað er, þó að mikil væri mannaferð og góður gleðskapur víða. Veðrið setti hátíðablæ á áramótin. Logn var á og bjart veður, snjólaust með öllu og ferðafæri sem á sumardegi.
Lýkur hér samantekt hungurdiska um veður og veðurlag ársins 1956. Að vanda er þykk talnasúpa í viðhenginu.
Vísindi og fræði | Breytt 22.1.2024 kl. 01:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2024 | 21:49
Umskipti
Nú verða umskipti í veðurlagi á Norður-Atlantshafi - við vitum þó alls ekki enn hvort aðeins er um tímabundna hagræðingu að ræða - eða eitthvað varanlegra. Meðalkortin hér að neðan sýna þetta allvel. Kortið til vinstri er raunveruleiki síðustu tíu daga - en það til hægri er spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um næstu tíu daga - ekki endilega víst að hún rætist.
Til að koma kortunum fyrir á sömu mynd hafur þeim verið þjappað - útlínur landa og hafs því ekki alveg þær sömu og venjulega. En Ísland er samt á miðjum kortum. Á þátíðarkortinu (því til vinstri) má sjá gríðarleg hlýindi á Vestur-Grænlandi og þar vestan við. Þeir sem fylgjast með fréttum frá Grænlandi og Nunavut í Kanada hafa séð myndir af hálku og hláku, slíkt er óvenjulegt í Nunavut - en heldur algengara á Grænlandi. Litirnir sýna þykktarvikin, hámarkið við Baffinsland er mest um 225 metrar - það er um +11°C hitaviki í neðri hluta veðrahvolfs - ekki víst að vikin við jörð séu alveg jafnmikil. Kalt hefur hins vegar verið fyrir austan okkur og allra síðustu dagana hefur kuldanum slegið í átt til okkar og frostið farið niður í um -25 stig þar sem mest hefur verið. Hæðarhryggur hefur verið fyrir vestan okkur, áttin norðvestlæg í háloftunum og veður langoftast skaplegt.
Næstu tíu daga á að verða mikil breyting. Kuldapollurinn Stóri-Boli á loksins að lifna og nálgast sínar heimaslóðir norður af Kanada. Vikin sem honum fylgja eru mest á Vestur-Grænlandi - um -7°C - það er mikið í tíu daga. Hér verður hiti hins vegar nærri meðallagi eða lítillega undir því - sé að marka spána - en hlýtt fyrir austan okkur. Mikil viðbrigði á báðar hliðar - meiri en hér á landi.
Hvaða afleiðingar þetta hefur fyrir veðurlagið er heldur óljósara, en þessa tíu daga eiga fjölmargar mjög djúpar lægðir að fara austur og norðaustur um Atlantshaf. Sú fyrsta nálgast landið þegar þetta er skrifað (föstudagskvöldið 19.janúar), en verður farin að grynnast. Næstu tvær meginlægðir virðast stefna til Bretlandseyja eða á Suður-Noreg og munu valda þar miklu illviðri, bæði hvössum vindi og úrkomu næstu daga. Eins og spár eru núna munu næstu lægðir þar á eftir miða betur á okkur, en sem stendur er óvissa mikil um það hvort þær fari yfir landið, austan við eða vestan við. Fari þar austan við eru hríðarveður líkleg - fari þær yfir landið skiptast á rigning og hríð, en fari þar vestan við skiptist á rigning og útsynningséljagangur.
Alla vega virðist sem veðurfræðingar á vakt komi til með að hafa nóg að sýsla á næstunni (þeir hafa það að vísu oftast). Hér á hungurdiskum hvetjum við þá sem eiga eitthvað undir veðri til að fylgjast vel með því sem Veðurstofan og aðrir til þess bærir aðilar hafa um málið að segja - ritstjóri hungurdiska horfir hins vegar mest til fortíðar - eins og venjulega.
16.1.2024 | 22:56
Fárviðrið í byrjun febrúar 1956
Þann 1. febrúar 1956 gerði fárviðri af suðri á landinu. Verst varð það á Norðurlandi, en þess gætti um meginhluta landsins. Veðrið var víða talið hið versta um árabil. Páll Bergþórsson veðurfræðingur lýsti veðrinu, aðdraganda þess og helstu afleiðingum í grein sem birtist í 2. hefti tímaritsins Veðrið 1956: Sunnanveðrið mikla. Hér að neðan er aðaláhersla á blaðafregnir, ítarlegri, en aftur á móti sundurlausari heldur en hin góða samantekt Páls.
Dagana á undan höfðu verið nokkuð umhleypingasamir. Kortið sýnir stöðuna kl.18 daginn áður, 31.janúar.
Kortið sýnir bandaríska endurgreiningu sem nær veðrinu býsna vel. Jafnhæðarlínur 1000 hPa-flatarins eru heildregnar. Þeim er auðbreytt í hPa, 40 metra hæðarbil jafngildir 5 hPa og sýnir talan núll 1000 hPa þrýsting. Lægri þrýstingur er neikvæð tala.
Staðan er sígild, djúp lægð nálægt Suður-Grænlandi stýrir hvassri sunnanátt á landinu. Stormur var á 6 veðurstöðvum. Kalt loft frá Kanada streymir út yfir norðanvert Atlantshaf á móts við bylgju af hlýju lofti við Nýfundnaland. Þar er illviðrislægðin. Hún dýpkaði rösklega og hreyfðist í átt til Íslands.
Rúmum sólarhring síðar var hún skammt fyrir vestan land. Rétt um 960 hPa í miðju. Gríðarlegur sunnanstrengur er yfir landinu, væntanlega hes heimskautarastarinnar. Við slíkar aðstæður myndast gjarnan miklar bylgjur yfir hálendi og fjöllum og vindstrengir og hviður verða sérlega skæðar. Vel má vera að í kringum lægðarmiðjuna sjálfa sé það sem kallað hefur verið stingröst. Slíkar rastir liggja neðar en háloftaröstin. Nánari greiningu þarf til að skera úr hvor röstin olli mestu tjóni. Mikil úrkoma fylgdi veðrinu víða um landið sunnan- og vestanvert, mældist t.d. yfir 30 mm í Reykjavík og yfir 40 mm í Stykkishólmi.
Eins og áður sagði varð tjón bæði víða og var stórfellt sumstaðar. Þess má geta í framhjáhlaupi að það er dæmigert að foktjón verði í Borgarnesi í undanfaralægð eins og þeirri sem hér kom við sögu, en síðan síður í aðalillviðrinu. Ritstjóri hungurdiska finnur hjá sér hvöt til að spyrja hvort svo hafi einnig verið í þessu tilviki - en það er þó ekki víst. Vísir segir frá fimmtudaginn 2.febrúar:
Afspyrnuveður var í gær í Borgarnesi og gekk á með byljum. Mun veðurhæðin hafa verið 1213 vindstig í rokunum. Í einni vindhviðunni fauk þak af verslun Jónasar Kristjánssonar kaupmanns [Kiddabúð]. Tók járnið upp af þakinu og fauk það vestur bæinn, án þess að gera nokkurt tjón á öðrum húsum né valda meiðslum á fólki. Eldborgin átti að fara í gærkveld kl.7 frá Borgarnesi, en fór ekki fyrr en laust Fyrir kl.átta í morgun.
Mjög miklar rafmagnsbilanir urðu hér í bænum og nágrenni í ofsaveðrinu, sem gekk yfir síðdegis í gær. Bilanirnar urðu víða í bænum, sérstaklega kringum svæði, þar sem nýbyggingar eru, því þar er margt laust, sem getur fokið og skemmt rafmagnslínur. Þak fauk af húsi við Nesveg og skemmdi 5 línur, Fleiri heimtaugar skemmdust á Seltjarnarnesi. Í Laugardalnum fauk hænsnahús á rafmagnsstaur og braut hann. Ennfremur brotnuðu sjö staurar, sem vitað er um, á línunni að Lögbergi. Þá urðu og miklar skemmdir á rafmagnslínum í Kársnesinu, á Digraneshálsi og Smáíbúðahverfinu og í Kleppsholti. Einnig eyðilagðist tafla í spennistöð við Urðarbraut Kópavogi.
Tíminn segir frá sama dag, 2.febrúar. Fjallar fyrst um vatnstjón. Janúar hafði verið frostharður og mikill freði var á jörðu og skilyrði til vatnsflóða góð:
Feikilegt vatnsveður var hér í Reykjavík síðdegis í gær og fram eftir kvöldi samfara ofsaroki. Smávegis tjón varð af rokinu, fuku plötur af húsum, skálar og fleira. Meira tjón mun þó hafa orðið af vatnsflóði í kjöllurum. Frárennsliskerfi borgarinnar gat ekki flutt allt það vatn, sem fyrir safnaðist og flóði það upp um niðurföll kjallara. Mest kvað að þessu í lægstu hverfunum, svo sem í Túnunum, Miklubraut og á Flókagötu. Var vatn sums staðar orðið allhátt í kjöllurum, og munu víða hafa orðið skemmdir í íbúðum. Var mikið um hjálparbeiðnir til lögreglu og slökkviliðs, og vinnuflokkur vann lengi kvölds að því að liðsinna fólki. Ekki var þó vitað að um slys af völdum veðursins væri að ræða. Veðurstofan taldi í gærkveldi, að snúast mundi til suðvestlægrar áttar og kyrra heldur og kólna og ganga á með éljum í nótt og á morgun. Ofsaveður þetta og stórrigning gekk yfir mestallt landið.
Frá fréttaritara Tímans á Reyðarfirði. Fárviðri mikið var í Reyðarfirði í gær [1.] Strandferðaskipið Hekla átti að koma þangað um miðjan dag, en var ókomið í gærkvöldi. Mun skipið hafa orðið að liggja kyrrt við Austurland í óveðrinu í gær. Hellirigning var samfara hvassviðrinu og minnkaði snjór til muna, en þó er enn talsverður snjór á Fagradal. Stór flutningabíll braust yfir Fagradal frá Reyðarfirði í fyrradag með vörur og tókst ferðin vel, enda fór ýta bílnum til hjálpar á fjallinu.
Blaðið átti í gærkveldi tal við Ágúst Þorvaldsson bónda á Brúnastöðum í Hraungerðishreppi og spurði hann, hvort Hvítá væri farin að vaxa af þessari stórrigningu, sem nú geisar. Ég hefi lítið séð til árinnar síðan dimmdi, sagði hann, og rigningin hófst ekki að marki fyrr en eftir hádegi, svo að varla var að búast við, að á ánni sæi í dag. Hins vegar er slík úrhellisrigning, að ekki er hægt að vænta þess, að við sleppum við flóð að þessu sinni, hversu mikið sem það verður. Klakastíflan og jakahrönnin eru enn óhreyfð. Eftir rigninguna á dögunum kom smáflóð, sem lyfti brynjunni og flæddi nokkuð upp á landið hér umhverfis, en sjatnaði brátt. Nú getur varla hjá því farið, að mikill vöxtur hlaupi í ána og hún flæði yfir, jafnvel að alvarleg stífla myndist. Ætti það að koma fram í nótt og á morgun. Hér er nú ofsaveður með stórrigningu.
Frá fréttaritara Tímans á Hofsósi. Mikið hvassviðri af suðaustri gerði á Hofsósi í fyrrakvöld [31.janúar] og olli það talsverðu tjóni. Þannig fauk að miklu leyti þak af stóru verslunarhúsi, sem kaupfélagið á í smíðum. Fauk það um miðnætti og gengu járnplötur og annað úr þakinu eins og skæðadrífa yfir kauptúnið en olli ekki öðru tjóni en því að járnplata fauk á glugga í íbúðarhúsi og braut hann.
Tiltölulega litlar bilanir hafa orðið á símalínum í óveðrum að undanförnu. Helsta bilunin, sem orðið hefir, er í Borgarfirði og er nú sambandslaust við stöðvar á svæði austan Hvítár í Borgarfirði, ofan Skarðsheiðar. Jón Skúlason verkfræðingur hjá Landsímanum sagði í gær, er blaðamaður frá Tímanum spurði hann um símabilanirnar, að nú væri svo komið, að jarðsími væri á mikilvægum símaleiðum svo sem alla leið austur á Selfoss, vestur í Borgarnes og norður í Hrútafjörð. Áður fyrr voru símabilanir af völdum óveðra tíðar á þessu svæði. Einkanlega urðu slík spjöll oft undir Esjunni, en þar hvessir oft illa, eins og kunnugt er. Helstu símabilanir, er orðið hafa að undanförnu, eru í Borgarfirði og vestur í Álftafirði. Þar bilaði sæsími, sem liggur yfir fjörðinn og er óhægt um vik að gera við hann. Ís er mikill þar vestra, en fjölþættan útbúnað þarf til viðgerða. Af bilun þessari stafa tilfinnanlegar símatruflanir í nokkrum sveitum, einkanlega á Skógaströnd. Í Borgarfirði varð símabilun vegna þess, að Síkið hjá Ferjukoti flæddi illa yfir bakka sína og farveg, eins og oft áður og braut niður símastaura. Jarðsími er þarna að vísu á kafla, en flóðið náði staurum, er tóku við af jarðsímanum á landi, þar sem nokkurn veginn öruggt var talið vegna flóða. Unnið er að viðgerðum í Borgarfirði, en aðstaða er erfið vegna stöðugra illviðra. Meðan þessi bilun er óviðgerð, er símasambandslaust við sveitirnar austan Hvítár, ofan Skarðsheiðar og einnig við Síðumúla, vestan Hvítár.
Aðalfregnirnar af illviðrinu komu svo daginn eftir þann 3.febrúar. Tíminn segir frá. Fyrirsögnin er: Stórfelldasta tjón sem orðið hefir af óveðri hér á landi um árabil:
Ofsaveður það, sem skall á hér á landi í fyrrakvöld og náði um mestallt land og stóð fram eftir nóttu, hefir valdið geysimiklu tjóni í flestum héruðum, og mun tjónið meira, þegar saman kemur, en orðið hefir í óveðri hér á landi hin síðustu ár. Telja margir, að þetta sé mesta veður, sem komið hefir í áratugi. Alls staðar höfðu fréttaritarar blaðsins sömu fregnir að flytja í gr, tjón og aftur tjón. Mun heytjón til dæmis vera geysimikið, og ekki víst að það verði léttbært alls staðar. Hér fara á eftir frásagnir fréttaritara víða um land af tjóni því, sem orðið hefir, en að sjálfsögðu mun vanta mikið á, að þar sé allt talið.
Frá fréttaritara Tímans í Borgarnesi. Í fárviðrinu síðdegis í fyrradag varð sá skaði, að um fimmtíu kindur drápust í fjárhúsi að Brennistöðum í Flókadal, er vatnsflóð skall á fjárhúsið. Gegningamaður hafði gengið frá fjárhúsunum klukkan fjögur um daginn og var þá allt í besta lagi, en um kvöldið fór hann aftur til húsa til að gæta að kindunum, enda var þá komið fárviðri með mikilli úrkomu. Hagar svo til við fjárhúsin á Brennistöðum, að þau standa við gil eitt, sem fullt var af snjó. Fjárhúsin eru nýbyggð og ekki komin í þau grind, sem hækkar gólfflötinn frá því sem nú er. Þegar komið var að húsunum um kvöldið, sást, að flóð hafði fallið úr gilinu og runnið inn í fjárhúsið vatn og krap, Voru allar kindurnar að kalla á kafi í flóðinu og fimmtíu þeirra dauðar eða dauðvona, er að var komið, höfðu aðallega króknað úr kulda í vatninu. Hins vegar tókst að bjarga 20 kindum lifandi úr flóðinu. Bóndinn á Brennistöðum, Theódór Sigurgeirsson, liggur á sjúkrahúsi um þetta leyti og var því fjarri, þegar þennan mikla skaða bar að á heimilinu.
Borgarnesi í gær. Mikil spjöll urðu á vegum í fárviðrinu í fyrradag og fyrrinótt. Rann viða yfir vegina, svo að úr þeim tók möl og jafnvel vegkanta. Hvítá í Borgarfirði flæddi yfir bakka sína hjá Hvítárvöllum og fór yfir veginn þar á nokkrum kafla. Flóðið sjatnaði síðdegis í gær og komust bílar þá þar yfir, eftir að viðgerð hafði farið fram.
Mosfellssveit í gær. Í óveðrinu í fyrrinótt [aðfaranótt 2.] fuku þök af hlöðu og fjósi á Saurbæ á Kjalarnesi. Kýrnar sakaði ekki, en einhver heyskaði varð. Segist Ólafur Eyjólfsson, bóndi í Saurbæ ekki muna annað eins óveður og var um tíma um kvöldið. Ekki varð teljandi tjón í Mosfellssveitinni, þó fuku rúður úr gróðurhúsum og vegir spilltust. AÞ.
Trékyllisvík í gær. Hér var hið mesta fárviðri, sem komið hefir síðan ég kom hingað fyrir 28 árum. Tjónið er mikið og margvíslegt, og sums staðar stórfellt. Hálft þakið fauk af barnaskólahúsinu, sem er nýlegt, tvílyft steinhús og er þar heimavist. Voru nokkur börn þar og tveir kennarar. Fólkið hélst þó við í húsinu á neðri hæð, enda var ófært út. Á Finnbogastöðum varð mikið tjón. Hluti af þaki íbúðarhússins fauk, og einnig fauk þak af fjárhúsi og hlöðu og votheysgryfju. Gluggar brotnuðu. Í Bæ fauk allstórt geymsluhús af grunni í heilu lagi og barst 50 metra leið. Var það timburhús vel fast. Tveir trillubátar skemmdust mjög. Tók annan á loft og skellti honum niður á hinn, svo að þeir brotnuðu báðir allmikið. Í Stóru-Vík brotnaði trilla í spón. Víðar urðu heyskaðar og minni skemmdir. GPV.
Tungusveit í Skagafirði. Í óveðrinu í fyrrinótt urðu þær skemmdir á íbúðarhúsinu á Ytri-Mælifellsá, að fólk varð að flýja í útihús og hafast þar við um nóttina. Þak fauk af hlöðu í Villinganesi og í Brekkukoti fauk braggi, sem notaður var til heygeymslu, og týndist eitthvað af heyinu. Sums staðar brotnuðu rúður í íbúðarhúsum og hey fauk á nokkrum stöðum, en ekki teljandi. Húsið á Ytri-Mælifellsá er ekki íbúðarhæft eftir óveðrið, en allar rúður brotnuðu og fleiri skemmdir urðu á því. Í þrjá daga, 22.24. janúar var frostið tuttugu stig hér í sveitinni en 27. janúar gerði þíðviðri. Aðfaranótt 29. janúar kom mikill jakaburður í Svartá og skemmdist göngubrúin hjá Gilhaga, svo hún er nú ekki fær yfirferðar. Taminn hestur frá Hóli fórst í jakaruðningnum. Allmikill snjór var kominn hér áður en brá til þíðviðrisins. BE.
Hofsós í gær. Ýmsar skemmdir urðu á bæjum hér í kring. Á Fjöllum í Fellshreppi fauk þak af 600 hesta hlöðu. Á Marbæli í Hofshreppi fauk hluti af hlöðuþaki og á Sandfelli fauk hálft hlöðuþak. Járnplötur. rifnuðu af íbúðarhúsinu í Hólakoti og þar fauk útihey um koll, en ekki mun hafa fokið mikið af því. Á Þrastarstöðum í Hofshreppi fauk þak af hesthúsi og stóð aðeins áreftið eftir um morguninn. ÓÞ.
Svartárdal í gær. Þetta er eitthvert það mesta rok, sem hér hefir komið. Á Bollastöðum fauk jeppi niður í gil við Blöndu og 23 gemlingar drukknuðu á Skeggstöðum í Svartárdal. Jeppinn, sem fauk á Bollastöðum, stóð í túninu. Bendir það nokkuð til veðurhæðarinnar, að svo þungt stykki skyldi fjúka nokkurn veg og niður í gil, sem liggur að Blöndu. Samfara veðurofsanum urðu flóð með þeim afleiðingum að tuttugu og þrjá gemlinga flæddi inni í fjárhúsi á Skeggstöðum og voru þeir drukknaðir, þegar að var komið. Í Þverárdal fauk um einn þriðji af þaki íbúðarhússins. Auk þessa fuku hey á stöku stað, þótt ekki hafi það verið mikið. Ekki fór að draga úr veðurhæðinni hér fyrr en klukkan að ganga tvö um nóttina. GH.
Akureyri i gær. Í öllum sveitum hér í héraðinu berast fregnir um tjón af völdum óveðursins og sums staðar allstórfellt. Á Flögu í Hörgárdal fauk fjárhúsþak, að Syðrabakka og Ásgerðarstöðum fauk allmikið hey. Á Þelamörk fauk víða mikið hey og fleiri skemmdir urðu, Svo og í Kræklingahlíð. í Öngulsstaðahreppi fauk á flestum bæjum meira eða minna. Hluti af fjósþaki fór á Ytri-Hóli. Í Fnjóskadal urðu miklir skaðar. Í Böðvarsnesi fuku braggar með heyi, einnig fauk þak og.hey á Illugastöðum. Á Birningsstöðum fauk hlöðuþak.
Varmahlíð í gær. Á Vatnsskarði fauk fjárhús og lenti brak úr því á íbúðarhúsinu og braut rúður í því. Ennfremur slitnaði símalínan heim að húsinu af sömu ástæðu og raflínan frá rafstöð jarðarinnar. Þak fauk af fjárhúsi á Fjalli í Sæmundarhlíð. Skepnur þær, sem í húsunum voru, mun ekki hafa sakað. FJ.
Húsavík í gær. Í aftakaveðrinu síðari hluta dags í gær og nótt urðu allmiklar skemmdir í Húsavík. Sjógangur var mikill í höfninni sukku fimm trillubátar, sem þar lágu. Einn trillubát rak upp í fjöru og sömuleiðis dekkbátinn Sæborgu. Bátar þessir munu þó ekki skemmdir. Þak fauk af hlöðu í Hjarðarholti við Húsavík og eins hluti af þaki íbúðarhúss í kaupstaðnum. Hey fuku víða, smáskúrar þeyttust brott og fleiri skemmdir urðu. Í nærsveitum hafa víða orðið nokkrar skemmdir, einkum á heyjum. ÞF.
Fosshóli í gær. Allmikið tjón varð í fárviðrinu hér um sveitir. Í Mývatnssveit fuku þök, hey og fleira. Í Baldursheimi fuku þrjú hey. Á Litlu-Strönd fauk braggi. Þak fauk af hluta af íbúðarhúsinu á Borg. Einnig varð talsvert tjón í Haganesi. Á flestum bæjum varð eitthvert tjón, einkum á heyi. Í Bárðardal varð víða tjón, einkum á Heyi svo sem á Lundarbrekku, Halldórsstöðum og Svartárkoti. Þakplötur fuku af íbúðarhúsi á Fosshóli. Í Ljósavatnshreppi varð lítið tjón. Í Reykjadal varð víða tjón. Þak fauk að hluta af íbúðarhúsi í Stafni og einnig hlöðu. Einnig varð tjón á skólahúsinu á Laugum og ýmsum bæjum. Í Aðaldal varð minna tjón. Hlaða með heyi fauk á Daðastöðum. SLV.
Sauðárkróki í gær. Hér hvessti um miðjan dag í fyrradag og fór veðurhæðin stöðugt vaxandi fram eftir kvöldinu. Veðurhæðin mun hafa verið mest í Blönduhlíð, en hey fauk á einum átta bæjum allt upp í fjörutíu hestar í stað. Í Djúpadal fauk braggi og fjörutíu hestar af heyi og gömul hlaða brotnaði. Á Syðri-Brekkum fauk fjárhús ofan af sextíu kindum, en þær sakaði ekki. Þrjátíu hestar af heyi fuku á Hrólfsstöðum. Tjónið varð aðallega í Akrahreppi. Segir Björn á Ökrum, að veðurhæðin hafi verið slík um mjaltatíma um kvöldið, að hann og annar maður til hafi átt fullt í fangi með að hafa sig til bæjar eftir mjaltir. Sagðist hann telja vafasamt að einn maður hefði komist, enda þurftu þeir að aðstoða hvor annan. GÓ.
Svarfaðardal í gær. Hér var suðaustan rok í dag og urðu miklar skemmdir í sveitinni. Á Melum fauk þak af votheysgryfju. Fárviðrið braut 4 staura og tætti rafmagnslínur í sundur. Auk þess skemmdist fjósþak. Á Búrfelli urðu smávegis skemmdir á húsum. Á Atlastöðum fauk hey og fjós skemmdist. Á Sandá fauk hey og hluti af fjósþaki og hey fauk einnig á Göngustöðum, þar sem járn fauk einnig af íbúðarhúsi. Jeppi fauk og skemmdist húsið mikið. Á Heiðarsstaðarkoti fauk partur af fjósþaki. Rafmagnslína slitnaði og einn staur brotnaði. Á flestum öðrum bæjum urðu einhverjar smávægilegar skemmdir. Á Hreiðarsstöðum fauk þak af votheysgryfju. í kvöld voru 712 vindstig af suðaustri. Menn muna varla annan eins veðurofsa. FZ.
Dalvík í gær. Ofsarok af suðri gerði hér síðdegis í gær. Rokið hélst fram á seinni hluta nætur. Skaðar urðu mjög víða. Á Hlíð í Skíðadal fauk hey. Á Másstöðum fuku járnplötur af íbúðarhúsi og asbestklæðning brotnaði á fjósi. Einnig fauk töluvert af heyi á Steindyrum og hlöðuþak fauk á Bakka, ennfremur þak af haughúsi á sama bæ. Víðar varð minniháttar heyfok og aðrar skemmdir. Á vélbátnum Freyju laskaðist borðstokkur, þar sem hún lá við hafnargarðinn. Snjó hefir mjög tekið upp og er nú orðið akfært jeppum og trukkum um sveitina og einnig til Akureyrar. PJ.
Vík í Mýrdal í gær. Tjón varð ekki tilfinnanlegt hér í Mýrdal í ofviðrinu. Hins vegar hljóp mikill vöxtur í ár, og brúna á Skálm tók alveg af. Var þetta trébrú á járnbitum, sett í sumar og allgóð. Allmiklir garðar voru báðum megin við brúna og vegurinn hærri en hún, og beindi þetta vatninu mjög í farveginn og á brúna. Mun það hafa valdið miklu um að hún fór. Stenst það á endum, að þegar Múlakvíslarbrúin er orðin fær, fer brúin á Skálm, svo að erfitt er um ferðir austur yfir sand. Þó má aka yfir Skálm á stórum bílum, sé lítið í henni, en verra verður þegar frost eru langvinn, því að þá bólgnar allt upp. ÓJ.
Kirkjubæjarklaustri í gær. Hér var veðurofsi og rigning í gær og fram eftir kvöldi. Þak fauk af hlöðu í Sandaseli í Meðallandi og víða fuku þakplötur og annað smávegis. Mikill vöxtur kom í Skaftá, en hún var áður búin að ryðja ís af sér og varð því ekki tjón að. Flugvöllurinn er að verða fær, og kemur það sér vel, þar sem ófært er vestur á bóginn á landi eftir að brúin á Skálm er farin. VV.
Fyrir tveim dögum laskaðist brúin á Klifanda í Mýrdal svo, að hún er ófær stórum bifreiðum, og aðeins hægt að fara yfir hana á jeppum og léttum bílum. Verður því að selflytja mjólkina að austan, þannig að hinir eiginlegu mjólkurbílar taka við henni vestan brúarinnar. Brú þessi er timburbrú á timburstólpum, og gróf undan einum stólpanum í ánni. Verið er að gera við brúna, en verkið er erfitt eins og nú hagar
til. ÓJ.
Frá fréttaritara Tímans í Borgarnesi. Í gærdag var vegurinn hjá Hesti í Borgarfirði ófær vegna þess að stórir ísjakar, í mittishæð, stóðu á honum á löngum kafla. Höfðu þeir borist þangað með framburði Grímsár, sem flæddi þarna yfir bakka sína í fyrrinótt. Ástæðan var sú, að klakastífla kom í ána. Símabilanir eru miklar í Borgarfirði og því óljósar fregnir um skemmdir í héraðinu af völdum fárviðris. Vitað var um það í gær, að gler hafði brotnað í gróðurhúsum; í Reykholtsdal og fokið hluti af nýbyggðu fjárhúsi í Brekkukoti í sömu sveit.
Eftir hádegið í gær braust Hvítá í Árnessýslu úr farvegi sínum hjá Brúnastöðum og flóði yfir lönd næstu jarða. Blaðið átti tal við Ágúst á Brúnastöðum í gær. Sagði hann að búast mætti við, að áin færi yfir lönd margra jarða næstu dægur og teppti vegi í Flóanum. Í gærmorgun var áin orðin mjög mikil eftir rigninguna. Bar hún fram jakahröngl, og þar sem þrengsli urðu við svonefndan Kríutanga á móts við Brúnastaði, rak hún það saman í stíflu og flæddi síðan upp á Brúnastaðaflatir. Mun meirihluti vatnsmagnsins renna þar upp, og flæddi hún brátt yfir breitt svæði og hafði í gærkveldi lagt undir sig land nokkurra jarða. Nú sem stendur, sagði Ágúst, fellur mestur vatnsþunginn eftir aðalskurði Flóaáveitunnar og mun því dreifast víða. Er hætt við, að flóðið teppi bráðlega vegi, svo sem við Skeggjastaði og víðar. Taldi Ágúst litlar líkur til, að áin ryddi stíflunni frá og kæmist i farveg sinn næstu dægur.
Þykkvibærinn var allur umflotinn og einangruð byggð í gær. Flóð kom í Hólsá í fyrrinótt og flæddi hún yfir veginn á löngum kafla og víðáttumikil landsvæði. Var áin enn að hækka í gærkveldi, en ekki talin nein hætta á skemmdum vegna vatnsflóða í Þykkvabæjarþorpinu, en allar horfur á því, að einangrun vegna vaxandi vatnsflóða geti haldist um sinn. Í gær komust engir bílar ofan í Þykkvabæ og engir komust þaðan landveg til meginlandsins. Orsök flóðsins er að klakastífla kom í ána. Hiti er lítill og getur hún því staðið um sinn og valdið vaxandi flóðum. Varnargarður er við árbakkann, en áin færir sig og rennur nú fyrir enda varnargarðsins.
Hvolsvelli í gær. Í ofviðrinu urðu víða tjón nokkurt á húsum og heyjum, plötur fuku af þökum og fleira lauslegt. Í Ey í Vestur-Landeyjum fauk þak af hlöðu og gaflar hennar með hjá Runólfi Jónssyni bónda þar.
Gunnarsholti í gær. Hér fauk votheysturn úr timbri alveg, svo að ekki var tangur né tetur eftir. Var þetta fyrsti turninn sem hér var byggður. Heystálið i turninum var 4 metrar, og stendur það eftir en hallast, eins og veðrið hafi ætlað að taka heystabbann líka. Aðrar skemmdir urðu ekki hér svo teljandi sé, en um tíma voru menn hræddir um þak á nýrri hlöðu. Á bæjum hér í nágrenninu mun víða hafa orðið nokkurt tjón á húsum og heyi en ekki stórfellt.
Ný hlaða fauk Skeiðum í gær. Hér var sunnan fárviðri og varð tjón af á mörgum stöðum í sveitinni. Á Framnesi fauk ný hlaða og á Fjalli fauk fjárhúshlaða. Járnplötur fuku víðs vegar í sveitinni en heyskaðar urðu ekki svo að teljandi sé. Telja menn að þetta sé eitt hið versta veður, sem komið hefir um árabil. Um tíma var veðurhæðin svo mikil, að varla var hægt að ganga á milli húsa.
Selfossi í gær. Í ofviðrinu í gærkvöldi virðist tjónið hér í sýslu hafa orðið einna mesta og almennast í Hrunamannahreppi. Í Syðraseli fauk hálft hlöðuþak og brotnuðu viðir, Í Skipholti fuku þakplötur af fjósi og hlöðu. Í Syðra-Langholti fuku plötur af þaki íbúðarhúss og gömlum bæ og braggar skemmdust. Að Bjargi og Bryðjuholti fuku hey. Að Arnarstöðum í Hraungerðishreppi fauk járn af hálfri hlöðu og einnig skemmdist þak í Bár. Á Selfossi fuku grindur, flaggstengur brotnuðu og fleira smálegt hreyfðist. Það er mikil bót, að í dag er ágætt veður, og menn hafa næði til að vinna að viðgerðum. ÁG.
Vopnafirði í gær. Aftakaveður af sunnan-suðaustan gerði hér nokkru fyrir lágnættið og stóð fram undir morgun. Mestur mun ofsinn hafa orðið undir fjöllum og í Hraunfellsdal. Tjón var allvíða á heyjum og húsum á Síreksstöðum í Hraunfellsdal. Tók framhlið þaksins af íbúðarhúsi Hjálmars Jósefssonar bónda þar og á Hraunfelli fauk hlaða með heyi, sem Georg Jósefsson átti, er líka býr á Síreksstöðum. Hjá Sæmundi Grímssyni á Egilsstöðum fauk þak af hlöðu og skall annar helmingur þess á fjárhúsi og braut það nokkuð. Ekki sakaði þó féð. Á Skjaldþingsstöðum tók upp 50 hesta hey og sást þar aðeins eftir lítil botnbeðja. Í kauptúninu urðu líka heyskaðar og víða fauk járn af húsum. Járn fauk af austurhlið á íbúðarhúsinu Grund og einnig nokkuð af heyi. Allt járn og nokkuð af þaki fauk á Sigurðarstöðum og eru það mestu tjónin hjá einstaklingum í kauptúninu. Á Hauksstöðum í Vesturdal tók hálf þök af hlöðu og geymslu. Talið er að þetta sé hvassasta veður, sem hér hefir komið lengi. Má vera, að meira tjón hafi orðið, þó að ekki séu enn fréttir af. Kjartan.
Fáskrúðsfirði í gær. Mikið tjón var af völdum fárviðrisins á Fáskrúðsfirði. Mest varð tjónið á Búðakirkju, sem skemmdist mikið í veðrinu. Þak fauk af kirkjunni og einnig pappi. Auk þess urðu miklar skemmdir á kirkjunni að innan, bæði af vatni og stormi. Nokkuð af járninu hefir náðst, eftir að veður gekk niður í gær. Járn fauk af íbúðarhúsi í kaupstaðnum og margir smáskúrar og geymslur fuku, eða skemmdust.
Stöðvarfirði í gær. Í fárviðrinu í fyrrinótt urðu talsverð spjöll í Stöðvarfirði. Á Háteigi, sem er sveitabýli í firðinum fuku fjárhús og hlaða. Missti bóndinn þar talsvert af heyi og varð fyrir tilfinnanlegu tjóni. Það verður þó að teljast mikil heppni, að kindur, sem voru í fjárhúsinu sakaði ekki. Stóðu þær allar eftir lifandi í fjárhústóftunum, þegar húsin sjálf höfðu fokið ofan af þeim. Í Stöðvarfirði var veðrahamurinn mestur eftir hádegi í fyrradag og lengi nætur í fyrrinótt. Í Fáskrúðsfirði fauk smíðahús bóndans á Eyri, og missti hann þar mikið af tækjum og efni, sem ýmist fauk, eða eyðilagðist.
Tíminn heldur áfram tjónfréttum 4.febrúar:
Miklir heyskaðar og skemmdir á húsum urðu víðs vegar um Skagafjörð í óveðrinu s.l. föstudagsnótt [3.?]. Hálft þakið fauk af íbúðarhúsinu að Ljótsstöðum í Holtahreppi og einnig þak af fjósi og fjóshlöðu á sama stað. Þá fauk einnig hálft þakið af hinu nýja húsi kaupfélagsins á Haganesvík. A Hofi í Hjaltadal fauk hlaða með heyi. Í Neðra-Ási fauk hey um koll. 60 hestar af heyi fuku í Ásgeirsbrekku í Viðvíkursveit og á Hofsstöðum fuku tvö hey. Þá fauk fjárhús að Syðri-Brekku í Blönduhlíð en féð sakaði ekki og kom til skila í gær.
Talsverðir skaðar urðu á mörgum bæjum í Blönduhlíð. Á Frostastöðum fauk hluti af þaki þrjú hundruð kinda fjárhúsi og drápust 2 kindur. Á bæjunum Djúpadal, Hjaltastöðum og Hrólfsstöðum fauk talsvert af heyjum. Á Víðivöllum fauk einnig hluti af hlöðuþaki. Tjón í Hegranesi: Í Ási í Hegranesi fauk þak af hlöðu. Á Egg fuku tvö hey og eitt í Keldudal. Þá fauk helmingur þaksins af íbúðarhúsinu á Heiði í Gönguskörðum, og 50 hestar af heyi.
Í A-Húnavatnssýslu urðu meiri og minni skaðar í flestum hreppum sýslunnar. Þök fuku af húsum og hey fauk. Á Bollastöðum í Svartárdal fauk jeppabifreið ofan allháa brekku heiman frá bæn um og alla leið niður að Blöndu. Eyðilagðist bifreiðin. Á Skeggjastöðum flæddi vatn í fjárhús og drápust þar 20 kindur.
Í fárviðrinu, sem yfir gekk síðdegis á miðvikudag urðu margvíslegir skaðar í Reyðarfirði og nágrannabyggðum. Var veðrahamurinn óskaplegur undir kvöldið og fauk þá allt, sem fokið gat og grjót gekk eins og skæðadrífa yfir kaupstaðinn. Sjórok varð svo mikið, að heita mátti að dimmviðri væri af þeim sökum. Járnplötur og jafnvel heil þök fuku af mörgum byggingum, útihúsum og íbúðarhúsum og mátti heita mikil mildi, að ekki yrði skaði á fólki í öllum þeim ósköpum, sem á gengu þennan óveðursdag. Rúður brotnuðu í mjög mörgum húsum og víða margar rúður á aðalóveðurshlið húsanna. Þannig brotnuðu allar rúður á einni miðju kauptúninu og þakpappi, sem kominn var á húsið, fauk af eða er sundurhöggvinn eftir grjótflug. Mjög víða flugu smásteinar inn um rúður, eins og byssukúlur og jafnvel einnig litlar spýtur. Olli grjótflugið sums staðar skemmdum á húsgögnum en engum meiðsl um á fólki, svo vitað sé. Eru rúðurnar því ýmist mölbrotnar eða aðeins með götum eftir grjótið. Olíugeymar, sem notaðir eru við hús fyrir gasolíu, fuku víða, þó að stórir séu og þungir. Fuku margir þeirra á sjó út og flutu þar eða sukku í særótinu. Tveir árabátar tókust á loft i rokinu og brotnuðu smátt. Er hvassviðri þetta hið mesta er menn muna eftir í Reyðarfirði, enda sjaldgæft að illa hvessi af suðaustri. Símalínur slitnuðu víða í óveðrinu og komst ekki símasamband á milli Reyðarfjarðar og Reykjavíkur fyrr en í gær. MS.
Í Mjóafirði eystra urðu miklar skemmdir af völdum fárviðrisins á dögunum, og er um meiri eða minni skemmdir að ræða á öllum bæjum í innfirðinum, en utar, eða utan við Brekku, varð tjónið miklu minna. Þak tók af hlöðu í Friðheimi. Járnplötur fuku af húsum á Hesteyri. Trilla fauk og brotnaði nokkuð í Brekkuþorpi. Var þetta sama trillan, er lenti í vatnsflóðinu á dögunum og slapp þá undravel. Var því skammt milli stórræðanna hjá henni, og slapp hún nú ekki eins vel. Stórt sjóhús fauk í Sandhúsi. Á Brekku fauk helmingur hlöðuþaks og plötur af fjárhúsi, útisamkoma á hlaði og geymsluhús yfir vélar ræktunarfélagsins. Sjóskúr fauk á Þunghóli. Rafmagnsstaurar brotnuðu. Víðar urðu nokkrar skemmdir.
Flóðið úr Hvítá í Árnessýslu var mjög farið að sjatna í gærkveldi og hætta að renna upp úr farvegi árinnar. Hefir áin nú minnkað svo mjög, að hún kemst um göng sin undir íshrönnina hjá Brúnastöðum. Mikill vatnselgur er þó í Flóanum, og vegir tepptust sums staðar í gær. Vatnið hefir farið yfir lönd margra jarða. Flóbið fór yfir veginn hjá Skeggjastöðum og víðar, en þar var þó fært bifreiðum í gær. Vegurinn í Villingaholtshreppi varð ófær, og komust bílar ekki þangað eða þaðan framan af degi í gær. Við vonum, sagði Ágúst að lokum, að hlaup þetta sé búið í bili, og við höfum frið þangað til næsta hláka og stórrigning kemur. Ekki taldi hann viðlit að reyna að sprengja klakabrynjuna af ánni, þar sem hún stíflar sig.
Í gær var unnið að björgun vélbátsins Frosta, sem strandaði á Landeyjarsandi í fárviðrinu. Björgun skipshafnar er talið sjómennskuafrek undir forustu hins unga skipstjóra, Ingólfs Matthíassonar.
Mývatnssveit í gær. Til viðbótar þeim fréttum, sem birtust hér í blaðinu í gær af veðurtjóni í Mývatnssveit, símaði fréttaritarinn í gær eftirfarandi: Veðurofsinn var mikill en regn lítið. Miklar skemmdir urðu á húsum og tjón á heyjum. íbúðarhús skemmdust á Borg, Geirastöðum, Haganesi og Skútustöðum, tók járn af þökum og gluggar brotnuðu. Fjárhús skemmdust á Stöng, féll stafn út og hluti af þakinu. Í Haganesi losnaði fjárhúsþak, féll inn og drap eina kind. Þar fauk líka fjósþak. Á Litlu-Strönd fauk stór heyhlaða, og fór brak á gamla bæinn og braut hann inn. Munaði minnstu, að Steingrímur bóndi þar yrði fyrir miklu járni. Þök fuku víðar af gömlum heyhlöðum. Í Reykjahlíð fauk hluti af tveim geymslubröggum og þrír þvottahjallar brotnuðu. Einnig fór hluti af þaki Reykjahlíðarkirkju. Þök fóru af votheyshlöðum á Grænavatni og Gautlöndum. Í Garði fauk heyvagn og brotnaði. Þá er ógetið hins mikla heyfoks, sem varð í sveitinni og mun nema alls að minnsta kosti 400 hestum, mest um 50 hestum hjá einum bónda, Kolbeini á Stöng. Meirihluti allra heyja, sem stóðu á víðavangi í sveitinni, mun hafa fokið. Hvassast varð um nóttina og mun vindhraðinn þá hafa náð fullum 12 vindstigum. PJ.
Frá fréttaritara Tímans á Grímsstöðum. Hér gerði ofsaveður á suðaustan á miðvikudaginn og fór vaxandi með kvöldinu. Þá mun vindhraðinn hafa verið frá 1112 vindstig og mun vart svo mikið veður hafa komið hér. Fé náðist alls staðar á hús, áður en hvessti .Um nóttina fauk járn af húsi í Grímstungu og nokkrar járnplötur af fjárhúsi á Grímsstöðum- Einnig eyðilagðist vindrafstöð í Grímstungu. Á öðrum bæjum urðu ekki teljandi skaðar. Nokkrar bilan'ir urðu á símanum og brotnuðu tveir staurar á leiðinni héðan frá Grímsstöðum niður að Jökulsá. KS.
Frá fréttaritara Tímans í Kelduhverfi. Óveðrið á aðfaranótt fimmtudags olli nokkrum skemmdum hér í Kelduhverfi. Í hvössustu hryðjunum mun veðurhæðin hafa náð ellefu vindstigum. Nokkur hluti hlöðuþaks fauk í Keldunesi og þak af áttatíu kinda fjárhúsi í Framnesi. Þak fór af fjósi í Garði og bílskúr fauk í heilu lagi á Þórseyri. Fimmtíu hestar af heyi fuku á Tóvegg og aðrir fimmtíu á Undirvegg. Á allmörgum bæjum fauk meira og minna af heyi. IH.
Frá fréttaritara Tímans á Egilsstöðum. Hér á Héraði var hvassviðrið i fyrradag geysilegt með því mesta sem hér kemur. Þó hefir ekki frést um stórfelldar skemmdir og munum við að líkindum hafa sloppið öllu betur en margir aðrir. Víða fuku þó járnplötur af húsum, heyskemmdir urðu nokkrar og fleira smávegis. Flugvöllurinn hefir verið blautur, og ekki var flogið í gær, en nú er hann að frjósa, og væntum við því flugvéla á ný. ES.
Morgunblaðið segir frá 4. febrúar - í blaðinu má finna mun fleiri fréttir, flestar efnislega þær sömu og í Tímanum:
Húsavík, 3.febrúar. Frá fréttaritara. Í fárviðrinu á miðvikudagskvöldið stórskemmdist hin nýja bryggja í Grímsey og jafnframt sökk trillubátur, sem róið hefur þaðan í vetur. Er hér um tilfinnanlegt tjón að ræða fyrir þetta nyrsta byggðarlag. Síðastliðið sumar var unnið að hafnargerð í Grímsey. Var sökkt steinkeri um 15 metrum framan við eldri hafnargarðinn. Og síðan steypt í bilið milli kersins og gamla hafnargarðsins eins og venjulegt er við slíkar hafnargerði og það fyllt upp. Fárviðrinu sem gekk hér yfir á miðvikudagskvöld fylgdi mikill sjógangur sem stóð beint upp á nýju bryggjuna. Fór þá svo að brimið braut niður steypta kaflann milli kersins og gömlu bryggjunnar, en steinkerið stendur hind vegar óhaggað. [Frekari skemmdir urðu síðan á hafnarmannvirkjum í Grímsey í illviðri í lok maí].
Grundarhóli, Fjöllum, 3.febrúar. Í fyrradag gerði hér ofsarok á sunnan-suðaustan. Mátti heita óstætt þegar á vökunni. Reif þá upp skara og vatn af svellum svo að líkast var að hagl og hellirigning væri samtímis. Þó var úrkomulaust. Maður, sem þá var á ferð bæja á milli, hafaði sig með naumindum í húsaskjól með því að skríða og var hann þrekaður mjög og kaldur á höndum og fótum. Veður fór þó versnandi allt til miðnættis, en þá mun það hafa náð hámarki sínu.
Tíminn enn 5.febrúar:
Frá fréttaritara Tímans á Patreksfirði. Í fyrrakvöld munaði litlu að alvarlegt slys yrði, er snjóflóð féll á dráttarbíl og þrjá menn, er voru við vegaviðgerðir á leiðinni milli Patreksfjarðar og Örlygshafnar. En mennirnir sluppu allir lifandi og ómeiddir undan 2 metra djúpum snjó, er yfir þá féll.
Frá fréttaritara Tímans í Biskupstungum. Í fárviðrinu á miðvikudagsnóttina urðu nokkrar skemmdir hér í sveitinni, Þak fauk af stóru fjárhúsi í Skálholti, og af fjósi í Laugarási. Einnig fauk þak af stórri hlöðu í Kjarnholtum. Skemmdir urðu og nokkrar á gróðurhúsum, en þó minni en við hefði mátt búast, og sést á því, að menn eru nú farnir að vanda vel til gróðurhúsa og byggja þau traustlega. Þó brotnar ætíð nokkuð af gleri í slíkum veðrum.
Tvö önnur hvassviðri gerði næstu daga, en þó mun minni. Tjóns er þó getið. Sjá nánar í hinum almenna pistli hungurdiska um árið 1956. Þar er einnig nefnt tjón sem veðurathugunarmenn geta sérstaklega.
Furðulegar, en leiðar fréttir birtust í Tímanum 19. febrúar:
Frá fréttaritara Tímans á Kirkjubæjarklaustri. Þegar Siggeir bóndi Geirsson á Sléttabóli á Brunasandi, sem er á milli Skaftár og Núpsvatna, gekk á fjörur daginn eftir fárviðrið, sem geisaði hér á landi um síðustu mánaðamót, til að huga að reka, brá honum heldur en ekki í brún, er hann sá hvítan sand af súlu. Bjóst hann ekki við slíkri sjón, því að súlan er ekki vön að sitja þar á fjörum i stórum hópum. Þarna voru saman komin hundruð súlna í hópum, og þegar hann kom nær, sá hann, að ekki var allt með felldu, því að súlurnar flugu ekki á braut, heldur gat hann gengið um á meðal þeirra, og gátu þær ekki hafið sig til flugs. Sumar súlurnar voru dauðar og nokkrar vængbrotnar eða limlestar á annan hátt, en flestar heilar að sjá, en dasaðar mjög og veðurbarðar. Augljóst þykir, að í fárviðri því, sem gekk hér yfir landið, hafi súlurnar orðið hart úti, hrakið undan veðrinu austur og orðið svo illa leiknar, sem fyrr er lýst. Ekki vita menn til, að minnsta kosti ekki á þessum slóðum, að þetta hafi áður kornið fyrir, og slíka súlnahópa ósjálfbjarga hafa menn ekki séð hér á söndunum.
Lýkur hér samantekt hungurdiska um fárviðrið í febrúarbyrjun 1956.
15.1.2024 | 21:06
Kaldir dagar framundan?
Svo virðist sem nokkrir kaldir dagar séu framundan, sérstaklega þriðjudagur og miðvikudagur (16. og 17. janúar). Framhaldið þar á eftir er óvissara. Þetta eru viðbrigði eftir hlýindin að undanförnu.
Loftið kemur langt úr norðri. Gróflega má segja að kuldapollurinn Síberíu-Blesi sendi okkur stroku. Hún skiptist raunar fyrir norðan okkur - hluti fer hratt yfir og suður í átt til Bretlands (sjórinn sér um að milda hann). Annar hluti kemst ekki hingað - fer vestur um Grænland norðanvert og reynir að fóðra hinn meginkuldapollinn, Stóra-Bola en hann hefur varla náð sér á strik í vetur. Mikil óvissa er um hvort fóðrið dugi til að kveikja vel í honum. En alla vega eru spár nú þannig að áhrifa jaðars hans fari að gæta á föstudag.
En hreyfingar kuldapollanna og sendingar á milli þeirra eru alltaf ákveðið áhyggjuefni. Best er að þeir haldi sér sem mest og lengst á sínum básum - hvor fyrir sig. En við skulum ekki gera okkur of mikla rellu úr slíku í bili að minnsta kosti.
En kuldastrokan að norðan er alveg raunveruleg.
Ísland er falið á miðri mynd - Grænland lengst til vinstri. Á kortinu má sjá jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins, vindstefnu og styrk (vindörvar), en hiti í fletinum er sýndur með litum. Dekkri fjólublái liturinn sýnir meir en -45 stiga frost - talsvert kaldara en verið hefur að undanförnu. Það er ekki mjög oft sem hiti í 500 hPa er svona lágur - við verðum þó að taka eftir því að mikill munur er á hita yfir Suðvesturlandi annars vegar og Norðausturlandi hins vegar. Sé rýnt í jafnhæðarlínur má sjá lægðardrag yfir landinu - þar er éljagangur eða snjókoma með mestum ákafa - gæti aðeins slitið úr syðra, en aðallega á norðan- og austanverðu landinu - eins og venjulega í þessari átt.
Spár gera ráð fyrir því að þykktin (sem mælir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs fari niður fyrir 5000 metra stutta stund. Það er svona alvöru eins og sagt er nú til dags.
Á miðvikudag er gert ráð fyrir smálægðarmyndun á Grænlandshafi vestanverðu.
Seint um kvöldið verður lægðin búin að koma sér upp úrkomukerfi og stefnir ákveðið til austsuðausturs rétt vestan og suðvestan við land. Talsverð óvissa fylgir úrkomumagni, allt frá nánast engu upp í heiðarlegt (en vonandi ekki langt) hríðarveður. Við verðum að láta Veðurstofuna alveg um að fylgjast með þessu.
En það er hávetur þessa dagana - og varla við öðru að búast. Við höfum sloppið fremur vel það sem af er í vetur - kannski heppnin verði með okkur áfram. Nóg er af öðru meini í náttúrunni.
11.1.2024 | 16:58
Fyrstu tíu dagar janúarmánaðar
Meðalhiti fyrstu tíu daga janúarmánaðar er 3,5 stig í Reykjavík. Það er 2,7 stigum ofan meðallags sömu daga 1991 til 2020 og 2,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 5. hlýjasta sæti á öldinni. Dagarnir tíu voru hlýjastir árið 2019, meðalhiti þá 4,9 stig, en kaldastir voru þeir 2001, meðalhiti -4,7 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 14.hlýjasta sæti af 152. Hlýjast var 1972, meðalhiti 6,7 stig, en kaldast 1903, meðalhiti þá -7.7 stig.
Á Akureyri reiknast meðalhiti nú 2,3 stig. Mannaðar hitamælingar (og flestar athuganir) lögðust þar af um áramótin. Smáerfiðleikar eru með samanburð við fyrri tíma - alla vega í bili og hér á hungurdiskum verður það ástand viðvarandi nú um skeið.
Miðað við síðustu tíu ár hefur verið hlýjast á Vestfjörðum, þar raðast dagarnir tíu í þriðjahlýjasta sæti aldarinnar, en kaldast aftur á móti á Suðausturlandi þar sem þeir raðast í níundahlýjasta sætið. Á einstökum veðurstöðvum er jákvætt hitavik mest í Botni í Súgandafirði, +4,4 stig og +4,2 á Þverfjalli (þar í grennd). Neikvætt hitavik er mest á Fáskrúðsfirði, -0,3 stig og -0,1 á Eskifirði.
Úrkoma mældist 13,7 mm í Reykjavík, um helmingur meðalúrkomu (það hefur eitthvað rétt sig í dag, þann 11.). Á Akureyri hefur úrkoman mælst 23,1 mm, rétt rúm meðalúrkoma sömu daga 1991 til 2020.
Sólskinsstundir hafa aðeins mælst 0,1 í Reykjavík, -4,5 stundum neðan meðallags. Alloft hafa engar sólskinsstundir mælst þessa daga í Reykjavík. Sólarlaust hefur verið á Akureyri þessa daga (eins og oftast).
Talsverðum viðsnúningi er spáð um og upp úr helgi og líklegt að hiti verði fljótur niður í meðallag, en við fylgjumst með hversu hratt það gerist.
12.1. Leiðrétta þurfti innsláttarvillu - það hefur nú verið gert.
Vísindi og fræði | Breytt 12.1.2024 kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.1.2024 | 23:35
Smávegis af desember
Eins og flestir lesendur hafa þegar frétt (eða fundið) var desembermánuður 2023 kaldur um land allt - alla vega miðað við tísku síðustu áratuga. Á landsvísu var meðalhitinn -2,3 stig sem er reyndar snöggtum hlýrra heldur en í fyrra en samt vel undir meðallagi.
Á Norðurlandi var þetta næstkaldasti desembermánuður það sem af er öldinni, en á öðrum spásvæðum er hann sá þriðji- eða fjórðikaldasti.
Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í mánuðinum en litir vik frá meðallagi. Hæðin var ekki fjarri meðallaginu hér á landi, en talsvert undir því í Skandinavíu sunnanverðri, en yfir því vestanhafs. Af legu vikanna má sjá að norðanátt var talsvert áleitnari heldur en í meðalári - þótt meðalvindáttin væri að vísu lítillega sunnan við vestur. Venjulega er áttin suðvestlæg í miðju veðrahvolfi í desember. Við megum líka taka eftir því að jafnhæðarlínurnar eru ekki sérlega þéttar við landið - þær eru mun þéttari sunnan við land, enda aðallægðabraut mánaðarins á þeim slóðum.
Við þökkum BP að vanda fyrir kortagerðina.
6.1.2024 | 17:32
Af dægurmetauppskeru
Nokkuð langt er síðan við litum síðast á breytingar dægurhitameta á veðurstöðvum landsins - enda vægast sagt nördalegt viðfangsefni. Dægurhámarksmet er hæsti hiti (hámark) sem mælst hefur á viðkomandi stöð ákveðinn almanaksdag og dægurlágmarksmet lægsta lágmarkið. Nýgengi þeirra fer bæði eftir því hversu lengi stöð hefur mælt hita, en almenn tíðarfar hefur einnig nokkuð að segja. Líkur eru á að fleiri dægurhámarks falli í hlýju ári heldur en köldu og öfugt þá í köldu. Væri veðurlag stöðugt gætum við búist við því að um 7 dægurmet (hvors kyns) falli á hverju ári.
Þótt fréttir að utan geri oft mikið úr dægurmetum (sérstaklega þeim amerísku) segja einstök met samt harla lítið - þó þau geti falið í sér skemmtileg tíðindi. Hafi verið mælt mjög lengi á stöðinni verða þessi tíðindi eftirtektarverðari. Svipað má segja um mjög miklar metahrinur - daga þegar dægurmet falla um stóra hluta landsins.
Talning leiðir í ljós að alls féllu 3429 hámarksdægurmet á almennu sjálfvirku stöðvunum hér á landi á árinu 2023 - séu þær stöðvar sem athugað hafa í 5 ár eða meira aðeins taldar með. Lágmarksmetin urðu hins vegar 3858 - heldur fleiri en hámarksmetin. Hármarksmetafjöldinn er ekki fjarri meðallagi, en lágmarksmetin hins vegar heldur fleiri en að meðaltali undanfarinna ára.
Hlutfall hámarks- og lágmarksmeta er mjög breytilegt frá ári til árs og hlýtur að segja okkur eitthvað. Meir en 70 þúsund dægurmet hvorrar tegundar eru skráð alls á tímabilinu frá 1996 til 2023.
Lítum nú á línurit sem sýnir hlutfall hámarksdægurmeta af heildinni frá ári til árs.
Aðeins þarf að doka við til að skilja myndina - lárétti ásinn sýnir ár tímabilsins. Lóðrétti ásinn til hægri sýnir landsmeðalhita, það gerir rauðstrikaða línan einnig. Hlýjust eru árin 2003, 2014 og 2016, en 2015 var hins vegar ámóta kalt og árin fyrir aldamót.
Lóðrétti ásinn til vinstri sýnir hlut hámarksdægurmeta af summu útgildametanna (hámarks og lágmarks). Hlutur lágmarksmetanna fæst með því að draga frá einum. Við sjáum að allgott samband er á milli hámarksmetahlutarins og landsmeðalhitans. Í hlýjum árum er hlutur hámarkshitameta yfir 0,5 (50 prósent). Í köldum árum, eins og t.d. 2015 verða lágmarksmeti mun fleiri en hámarksmet, árið 2015 fór hámarksmetahluturinn niður í 0,31, en árið eftir, 2016, fór hann hins vegar upp í 0,72 - og lágmarkshitahluturinn því aðeins 0,28.
Eftir því sem árunum fjölgar verður erfiðara að slá metin 70 þúsund (þeim fjölgar svo þegar stöðvum fjölgar). Þrátt fyrir það er á þennan hátt hægt að fylgjast með veðurfarsbreytingum. Skyndileg breyting á veðurlagi á hvorn veg sem er - nú eða í átt til öfga á báða bóga kæmi fram við samanburð hegðunar metanna síðastliðin 28 ár. - En því nenna nú fáir nema útnörd - eins og ritstjóri hungurdiska - varla að slíkt eftirlit verði í forgangi hjá því opinbera (þrátt fyrir tal um veðurfarsbreytingar).
Við skulum næst líta á línurit sem sýnir samband hámarksmetahlutarins og landsmeðalhitans.
Lárétti ásinn markar hámarksmetahlutinn, en sá lóðrétti meðalhitann. Punktadreifin raðast vel og reglulega í kringum beina línu - því fleiri sem hámarkshitametin eru miðað við þau köldu, því hlýrra er árið. Fylgnistuðull er 0,92, nánast hægt að mæla landsmeðalhitann með því að reikna hlutfallið. En við skulum ekki venja okkur á að líta alveg hugsunarlaust á dreifirit sem þetta - athugum t.d. að hlutur hámarksmeta getur ekki orðið hærri en 1,0. Skyldi árið þegar landsmeðalhiti nær 6,14 stigum verða algjörlega lágmarksmetalaust? - eða árið þegar landsmeðalhitinn fellur niður í 2,7 stig - skyldu þá nákvæmlega engin hámarkshitamet verða sett?
Upplýsingar um dægurmet mannaðra stöðva ná lengra aftur - auðvelt að fara aftur til 1949. Þær sem ná enn lengra aftur verður að meðhöndla sérstaklega og ritstjórinn hefur aðeins gert það fyrir tvær stöðvar, Reykjavík og Akureyri. En af myndinni hér að ofan má sjá svipað og fyrr. Hámarksmetahlutur mönnuðu stöðvanna 1949 til 2023 fellur vel að beinni línu. Fylgnistuðull 0,91, og halli línunnar er svipaður en skurðpunktarnir við jaðarhlutföllin 0,0 og 1,0 eru aðrir. Kaldasta árið, 1979, á lægsta hámarksmetahlutinn, 12 prósent meta það ár voru hámarkshitamet, en 88 prósent lágmarksmet.
Hér hafa verið búnar til tímaraðir hámarksmetahlutarins og landsmeðalhita (í byggð) - og síðan reiknuð 10-ára keðjumeðaltöl. Eins og sjá má fylgjast ferlarnir afskaplega vel að, kuldaskeiðið 1965 til 2000 kemur sérlega vel fram - og hlýindi þessarar aldar sömuleiðis. Þetta á við um báða stika.
Í fyrri pistlum um þetta efni höfum við getið þeirra daga sem skila flestum metum (miðað við fjölda stöðva í rekstri) - en aðeins fyrir sjálfvirka kerfið. Í ljós kemur að bæði hitabylgjur og kuldaköst ná frekar til landsins alls að vetri heldur en sumri. Þetta kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Sá dagur sem nú á mest metfall er 17. nóvember 2018. Þá féllu hámarksdægurmet á 88 prósent stöðva landsins. Þessi dagur vakti hvað mesta athygli á sínum tíma fyrir gríðarmikla úrkomu, t.d. varð met í Reykjavík fyrir tveggja sólarhringa úrkomusummu. Sá er munur á hitabylgjum að sumarlagi að þær ná mun síður til landsins alls. Sá dagur sem nær hæstu hlutfalli er sá eftirminnilegi 30.júlí 2008, dægurmet féllu þá á 68 prósent veðurstöðva.
Á lágmarksmetahliðinni er það enn 30.apríl 2013 sem á hæstu methlutfallstöluna, 95 prósent. Um þann dag var ritað á hungurdiskum á sínum tíma. Óvenjukaldur dagur.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.1.): 38
- Sl. sólarhring: 709
- Sl. viku: 3787
- Frá upphafi: 2428618
Annað
- Innlit í dag: 30
- Innlit sl. viku: 3379
- Gestir í dag: 29
- IP-tölur í dag: 28
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010