Fárviðrið í byrjun febrúar 1956

Þann 1. febrúar 1956 gerði fárviðri af suðri á landinu. Verst varð það á Norðurlandi, en þess gætti um meginhluta landsins. Veðrið var víða talið hið versta um árabil. Páll Bergþórsson veðurfræðingur lýsti veðrinu, aðdraganda þess og helstu afleiðingum í grein sem birtist í 2. hefti tímaritsins Veðrið 1956: „Sunnanveðrið mikla“. Hér að neðan er aðaláhersla á blaðafregnir, ítarlegri, en aftur á móti sundurlausari heldur en hin góða samantekt Páls. 

Dagana á undan höfðu verið nokkuð umhleypingasamir. Kortið sýnir stöðuna kl.18 daginn áður, 31.janúar.

Slide1

Kortið sýnir bandaríska endurgreiningu sem nær veðrinu býsna vel. Jafnhæðarlínur 1000 hPa-flatarins eru heildregnar. Þeim er auðbreytt í hPa, 40 metra hæðarbil jafngildir 5 hPa og sýnir talan núll 1000 hPa þrýsting. Lægri þrýstingur er neikvæð tala.

Staðan er sígild, djúp lægð nálægt Suður-Grænlandi stýrir hvassri sunnanátt á landinu. Stormur var á 6 veðurstöðvum. Kalt loft frá Kanada streymir út yfir norðanvert Atlantshaf á móts við bylgju af hlýju lofti við Nýfundnaland. Þar er illviðrislægðin. Hún dýpkaði rösklega og hreyfðist í átt til Íslands.

Slide2

Rúmum sólarhring síðar var hún skammt fyrir vestan land. Rétt um 960 hPa í miðju. Gríðarlegur sunnanstrengur er yfir landinu, væntanlega hes heimskautarastarinnar. Við slíkar aðstæður myndast gjarnan miklar bylgjur yfir hálendi og fjöllum og vindstrengir og hviður verða sérlega skæðar. Vel má vera að í kringum lægðarmiðjuna sjálfa sé það sem kallað hefur verið stingröst. Slíkar rastir liggja neðar en háloftaröstin. Nánari greiningu þarf til að skera úr hvor röstin olli mestu tjóni. Mikil úrkoma fylgdi veðrinu víða um landið sunnan- og vestanvert, mældist t.d. yfir 30 mm í Reykjavík og yfir 40 mm í Stykkishólmi.

Eins og áður sagði varð tjón bæði víða og var stórfellt sumstaðar. Þess má geta í framhjáhlaupi að það er dæmigert að foktjón verði í Borgarnesi í undanfaralægð eins og þeirri sem hér kom við sögu, en síðan síður í aðalillviðrinu. Ritstjóri hungurdiska finnur hjá sér hvöt til að spyrja hvort svo hafi einnig verið í þessu tilviki - en það er þó ekki víst. Vísir segir frá fimmtudaginn 2.febrúar:

Afspyrnuveður var í gær í Borgarnesi og gekk á með byljum. Mun veðurhæðin hafa verið 12—13 vindstig í rokunum. Í einni vindhviðunni fauk þak af verslun Jónasar Kristjánssonar kaupmanns [Kiddabúð]. Tók járnið upp af þakinu og fauk það vestur bæinn, án þess að gera nokkurt tjón á öðrum húsum né valda meiðslum á fólki. Eldborgin átti að fara í gærkveld kl.7 frá Borgarnesi, en fór ekki fyrr en laust Fyrir kl.átta í morgun.

Mjög miklar rafmagnsbilanir urðu hér í bænum og nágrenni í ofsaveðrinu, sem gekk yfir síðdegis í gær. Bilanirnar urðu víða í bænum, sérstaklega kringum svæði, þar sem nýbyggingar eru, því þar er margt laust, sem getur fokið og skemmt rafmagnslínur. Þak fauk af húsi við Nesveg og skemmdi 5 línur, Fleiri heimtaugar skemmdust á Seltjarnarnesi. Í Laugardalnum fauk hænsnahús á rafmagnsstaur og braut hann. Ennfremur brotnuðu sjö staurar, sem vitað er um, á línunni að Lögbergi. Þá urðu og miklar skemmdir á rafmagnslínum í Kársnesinu, á Digraneshálsi og Smáíbúðahverfinu og í Kleppsholti. Einnig eyðilagðist tafla í spennistöð við Urðarbraut Kópavogi.

Tíminn segir frá sama dag, 2.febrúar. Fjallar fyrst um vatnstjón. Janúar hafði verið frostharður og mikill freði var á jörðu og skilyrði til vatnsflóða „góð“:

Feikilegt vatnsveður var hér í Reykjavík síðdegis í gær og fram eftir kvöldi samfara ofsaroki. Smávegis tjón varð af rokinu, fuku plötur af húsum, skálar og fleira. Meira tjón mun þó hafa orðið af vatnsflóði í kjöllurum. Frárennsliskerfi borgarinnar gat ekki flutt allt það vatn, sem fyrir safnaðist og flóði það upp um niðurföll kjallara. Mest kvað að þessu í lægstu hverfunum, svo sem í Túnunum, Miklubraut og á Flókagötu. Var vatn sums staðar orðið allhátt í kjöllurum, og munu víða hafa orðið skemmdir í íbúðum. Var mikið um hjálparbeiðnir til lögreglu og slökkviliðs, og vinnuflokkur vann lengi kvölds að því að liðsinna fólki. Ekki var þó vitað að um slys af völdum veðursins væri að ræða. Veðurstofan taldi í gærkveldi, að snúast mundi til suðvestlægrar áttar og kyrra heldur og kólna og ganga á með éljum í nótt og á morgun. Ofsaveður þetta og stórrigning gekk yfir mestallt landið.

Frá fréttaritara Tímans á Reyðarfirði. Fárviðri mikið var í Reyðarfirði í gær [1.] Strandferðaskipið Hekla átti að koma þangað um miðjan dag, en var ókomið í gærkvöldi. Mun skipið hafa orðið að liggja kyrrt við Austurland í óveðrinu í gær. — Hellirigning var samfara hvassviðrinu og minnkaði snjór til muna, en þó er enn talsverður snjór á Fagradal. Stór flutningabíll braust yfir Fagradal frá Reyðarfirði í fyrradag með vörur og tókst ferðin vel, enda fór ýta bílnum til hjálpar á fjallinu.

Blaðið átti í gærkveldi tal við Ágúst Þorvaldsson bónda á Brúnastöðum í Hraungerðishreppi og spurði hann, hvort Hvítá væri farin að vaxa af þessari stórrigningu, sem nú geisar. Ég hefi lítið séð til árinnar síðan dimmdi, sagði hann, og rigningin hófst ekki að marki fyrr en eftir hádegi, svo að varla var að búast við, að á ánni sæi í dag. Hins vegar er slík úrhellisrigning, að ekki er hægt að vænta þess, að við sleppum við flóð að þessu sinni, hversu mikið sem það verður. Klakastíflan og jakahrönnin eru enn óhreyfð. Eftir rigninguna á dögunum kom smáflóð, sem lyfti brynjunni og flæddi nokkuð upp á landið hér umhverfis, en sjatnaði brátt. Nú getur varla hjá því farið, að mikill vöxtur hlaupi í ána og hún flæði yfir, jafnvel að alvarleg stífla myndist. Ætti það að koma fram í nótt og á morgun. Hér er nú ofsaveður með stórrigningu.

Frá fréttaritara Tímans á Hofsósi. Mikið hvassviðri af suðaustri gerði á Hofsósi í fyrrakvöld [31.janúar] og olli það talsverðu tjóni. Þannig fauk að miklu leyti þak af stóru verslunarhúsi, sem kaupfélagið á í smíðum. Fauk það um miðnætti og gengu járnplötur og annað úr þakinu eins og skæðadrífa yfir kauptúnið en olli ekki öðru tjóni en því að járnplata fauk á glugga í íbúðarhúsi og braut hann.

Tiltölulega litlar bilanir hafa orðið á símalínum í óveðrum að undanförnu. Helsta bilunin, sem orðið hefir, er í Borgarfirði og er nú sambandslaust við stöðvar á svæði austan Hvítár í Borgarfirði, ofan Skarðsheiðar. Jón Skúlason verkfræðingur hjá Landsímanum sagði í gær, er blaðamaður frá Tímanum spurði hann um símabilanirnar, að nú væri svo komið, að jarðsími væri á mikilvægum símaleiðum svo sem alla leið austur á Selfoss, vestur í Borgarnes og norður í Hrútafjörð. Áður fyrr voru símabilanir af völdum óveðra tíðar á þessu svæði. Einkanlega urðu slík spjöll oft undir Esjunni, en þar hvessir oft illa, eins og kunnugt er. Helstu símabilanir, er orðið hafa að undanförnu, eru í Borgarfirði og vestur í Álftafirði. Þar bilaði sæsími, sem liggur yfir fjörðinn og er óhægt um vik að gera við hann. Ís er mikill þar vestra, en fjölþættan útbúnað þarf til viðgerða. Af bilun þessari stafa tilfinnanlegar símatruflanir í nokkrum sveitum, einkanlega á Skógaströnd. Í Borgarfirði varð símabilun vegna þess, að Síkið hjá Ferjukoti flæddi illa yfir bakka sína og farveg, eins og oft áður og braut niður símastaura. Jarðsími er þarna að vísu á kafla, en flóðið náði staurum, er tóku við af jarðsímanum á landi, þar sem nokkurn veginn öruggt var talið vegna flóða. Unnið er að viðgerðum í Borgarfirði, en aðstaða er erfið vegna stöðugra illviðra. Meðan þessi bilun er óviðgerð, er símasambandslaust við sveitirnar austan Hvítár, ofan Skarðsheiðar og einnig við Síðumúla, vestan Hvítár.

w-1956-02-01-iii

Aðalfregnirnar af illviðrinu komu svo daginn eftir þann 3.febrúar. Tíminn segir frá. Fyrirsögnin er: „Stórfelldasta tjón sem orðið hefir af óveðri hér á landi um árabil“:

Ofsaveður það, sem skall á hér á landi í fyrrakvöld og náði um mestallt land og stóð fram eftir nóttu, hefir valdið geysimiklu tjóni í flestum héruðum, og mun tjónið meira, þegar saman kemur, en orðið hefir í óveðri hér á landi hin síðustu ár. Telja margir, að þetta sé mesta veður, sem komið hefir í áratugi. Alls staðar höfðu fréttaritarar blaðsins sömu fregnir að flytja í gœr, tjón og aftur tjón. Mun heytjón til dæmis vera geysimikið, og ekki víst að það verði léttbært alls staðar. Hér fara á eftir frásagnir fréttaritara víða um land af tjóni því, sem orðið hefir, en að sjálfsögðu mun vanta mikið á, að þar sé allt talið.

Frá fréttaritara Tímans í Borgarnesi. Í fárviðrinu síðdegis í fyrradag varð sá skaði, að um fimmtíu kindur drápust í fjárhúsi að Brennistöðum í Flókadal, er vatnsflóð skall á fjárhúsið. Gegningamaður hafði gengið frá fjárhúsunum klukkan fjögur um daginn og var þá allt í besta lagi, en um kvöldið fór hann aftur til húsa til að gæta að kindunum, enda var þá komið fárviðri með mikilli úrkomu. Hagar svo til við fjárhúsin á Brennistöðum, að þau standa við gil eitt, sem fullt var af snjó. Fjárhúsin eru nýbyggð og ekki komin í þau grind, sem hækkar gólfflötinn frá því sem nú er. Þegar komið var að húsunum um kvöldið, sást, að flóð hafði fallið úr gilinu og runnið inn í fjárhúsið vatn og krap, Voru allar kindurnar að kalla á kafi í flóðinu og fimmtíu þeirra dauðar eða dauðvona, er að var komið, höfðu aðallega króknað úr kulda í vatninu. Hins vegar tókst að bjarga 20 kindum lifandi úr flóðinu. Bóndinn á Brennistöðum, Theódór Sigurgeirsson, liggur á sjúkrahúsi um þetta leyti og var því fjarri, þegar þennan mikla skaða bar að á heimilinu.

Borgarnesi í gær. Mikil spjöll urðu á vegum í fárviðrinu í fyrradag og fyrrinótt. Rann viða yfir vegina, svo að úr þeim tók möl og jafnvel vegkanta. Hvítá í Borgarfirði flæddi yfir bakka sína hjá Hvítárvöllum og fór yfir veginn þar á nokkrum kafla. Flóðið sjatnaði síðdegis í gær og komust bílar þá þar yfir, eftir að viðgerð hafði farið fram.

Mosfellssveit í gær. Í óveðrinu í fyrrinótt [aðfaranótt 2.] fuku þök af hlöðu og fjósi á Saurbæ á Kjalarnesi. Kýrnar sakaði ekki, en einhver heyskaði varð. Segist Ólafur Eyjólfsson, bóndi í Saurbæ ekki muna annað eins óveður og var um tíma um kvöldið. Ekki varð teljandi tjón í Mosfellssveitinni, þó fuku rúður úr gróðurhúsum og vegir spilltust. — AÞ.

Trékyllisvík í gær. Hér var hið mesta fárviðri, sem komið hefir síðan ég kom hingað fyrir 28 árum. Tjónið er mikið og margvíslegt, og sums staðar stórfellt. Hálft þakið fauk af barnaskólahúsinu, sem er nýlegt, tvílyft steinhús og er þar heimavist. Voru nokkur börn þar og tveir kennarar. Fólkið hélst þó við í húsinu á neðri hæð, enda var ófært út. Á Finnbogastöðum varð mikið tjón. Hluti af þaki íbúðarhússins fauk, og einnig fauk þak af fjárhúsi og hlöðu og votheysgryfju. Gluggar brotnuðu. Í Bæ fauk allstórt geymsluhús af grunni í heilu lagi og barst 50 metra leið. Var það timburhús vel fast. Tveir trillubátar skemmdust mjög. Tók annan á loft og skellti honum niður á hinn, svo að þeir brotnuðu báðir allmikið. Í Stóru-Vík brotnaði trilla í spón. Víðar urðu heyskaðar og minni skemmdir. — GPV.

Tungusveit í Skagafirði. Í óveðrinu í fyrrinótt urðu þær skemmdir á íbúðarhúsinu á Ytri-Mælifellsá, að fólk varð að flýja í útihús og hafast þar við um nóttina. Þak fauk af hlöðu í Villinganesi og í Brekkukoti fauk braggi, sem notaður var til heygeymslu, og týndist eitthvað af heyinu. Sums staðar brotnuðu rúður í íbúðarhúsum og hey fauk á nokkrum stöðum, en ekki teljandi. Húsið á Ytri-Mælifellsá er ekki íbúðarhæft eftir óveðrið, en allar rúður brotnuðu og fleiri skemmdir urðu á því. Í þrjá daga, 22.—24. janúar var frostið tuttugu stig hér í sveitinni en 27. janúar gerði þíðviðri. Aðfaranótt 29. janúar kom mikill jakaburður í Svartá og skemmdist göngubrúin hjá Gilhaga, svo hún er nú ekki fær yfirferðar. Taminn hestur frá Hóli fórst í jakaruðningnum. Allmikill snjór var kominn hér áður en brá til þíðviðrisins. — BE.

Hofsós í gær. Ýmsar skemmdir urðu á bæjum hér í kring. Á Fjöllum í Fellshreppi fauk þak af 600 hesta hlöðu. Á Marbæli í Hofshreppi fauk hluti af hlöðuþaki og á Sandfelli fauk hálft hlöðuþak. Járnplötur. rifnuðu af íbúðarhúsinu í Hólakoti og þar fauk útihey um koll, en ekki mun hafa fokið mikið af því. Á Þrastarstöðum í Hofshreppi fauk þak af hesthúsi og stóð aðeins áreftið eftir um morguninn. — ÓÞ.

Svartárdal í gær. Þetta er eitthvert það mesta rok, sem hér hefir komið. Á Bollastöðum fauk jeppi niður í gil við Blöndu og 23 gemlingar drukknuðu á Skeggstöðum í Svartárdal. Jeppinn, sem fauk á Bollastöðum, stóð í túninu. Bendir það nokkuð til veðurhæðarinnar, að svo þungt stykki skyldi fjúka nokkurn veg og niður í gil, sem liggur að Blöndu. Samfara veðurofsanum urðu flóð með þeim afleiðingum að tuttugu og þrjá gemlinga flæddi inni í fjárhúsi á Skeggstöðum og voru þeir drukknaðir, þegar að var komið. Í Þverárdal fauk um einn þriðji af þaki íbúðarhússins. Auk þessa fuku hey á stöku stað, þótt ekki hafi það verið mikið. Ekki fór að draga úr veðurhæðinni hér fyrr en klukkan að ganga tvö um nóttina. — GH.

Akureyri i gær. Í öllum sveitum hér í héraðinu berast fregnir um tjón af völdum óveðursins og sums staðar allstórfellt. Á Flögu í Hörgárdal fauk fjárhúsþak, að Syðrabakka og Ásgerðarstöðum fauk allmikið hey. Á Þelamörk fauk víða mikið hey og fleiri skemmdir urðu, Svo og í Kræklingahlíð. í Öngulsstaðahreppi fauk á flestum bæjum meira eða minna. Hluti af fjósþaki fór á Ytri-Hóli. Í Fnjóskadal urðu miklir skaðar. Í Böðvarsnesi fuku braggar með heyi, einnig fauk þak og.hey á Illugastöðum. Á Birningsstöðum fauk hlöðuþak.

Varmahlíð í gær. Á Vatnsskarði fauk fjárhús og lenti brak úr því á íbúðarhúsinu og braut rúður í því. Ennfremur slitnaði símalínan heim að húsinu af sömu ástæðu og raflínan frá rafstöð jarðarinnar. Þak fauk af fjárhúsi á Fjalli í Sæmundarhlíð. Skepnur þær, sem í húsunum voru, mun ekki hafa sakað. — FJ.

Húsavík í gær. Í aftakaveðrinu síðari hluta dags í gær og nótt urðu allmiklar skemmdir í Húsavík. Sjógangur var mikill í höfninni sukku fimm trillubátar, sem þar lágu. Einn trillubát rak upp í fjöru og sömuleiðis dekkbátinn Sæborgu. Bátar þessir munu þó ekki skemmdir. Þak fauk af hlöðu í Hjarðarholti við Húsavík og eins hluti af þaki íbúðarhúss í kaupstaðnum. Hey fuku víða, smáskúrar þeyttust brott og fleiri skemmdir urðu. Í nærsveitum hafa víða orðið nokkrar skemmdir, einkum á heyjum. — ÞF.

Fosshóli í gær. Allmikið tjón varð í fárviðrinu hér um sveitir. Í Mývatnssveit fuku þök, hey og fleira. Í Baldursheimi fuku þrjú hey. Á Litlu-Strönd fauk braggi. Þak fauk af hluta af íbúðarhúsinu á Borg. Einnig varð talsvert tjón í Haganesi. Á flestum bæjum varð eitthvert tjón, einkum á heyi. Í Bárðardal varð víða tjón, einkum á Heyi svo sem á Lundarbrekku, Halldórsstöðum og Svartárkoti. Þakplötur fuku af íbúðarhúsi á Fosshóli. Í Ljósavatnshreppi varð lítið tjón. Í Reykjadal varð víða tjón. Þak fauk að hluta af íbúðarhúsi í Stafni og einnig hlöðu. Einnig varð tjón á skólahúsinu á Laugum og ýmsum bæjum. Í Aðaldal varð minna tjón. Hlaða með heyi fauk á Daðastöðum. — SLV.

Sauðárkróki í gær. Hér hvessti um miðjan dag í fyrradag og fór veðurhæðin stöðugt vaxandi fram eftir kvöldinu. Veðurhæðin mun hafa verið mest í Blönduhlíð, en hey fauk á einum átta bæjum allt upp í fjörutíu hestar í stað. Í Djúpadal fauk braggi og fjörutíu hestar af heyi og gömul hlaða brotnaði. Á Syðri-Brekkum fauk fjárhús ofan af sextíu kindum, en þær sakaði ekki. Þrjátíu hestar af heyi fuku á Hrólfsstöðum. Tjónið varð aðallega í Akrahreppi. Segir Björn á Ökrum, að veðurhæðin hafi verið slík um mjaltatíma um kvöldið, að hann og annar maður til hafi átt fullt í fangi með að hafa sig til bæjar eftir mjaltir. Sagðist hann telja vafasamt að einn maður hefði komist, enda þurftu þeir að aðstoða hvor annan. — GÓ.

Svarfaðardal í gær. Hér var suðaustan rok í dag og urðu miklar skemmdir í sveitinni. Á Melum fauk þak af votheysgryfju. Fárviðrið braut 4 staura og tætti rafmagnslínur í sundur. Auk þess skemmdist fjósþak. Á Búrfelli urðu smávegis skemmdir á húsum. Á Atlastöðum fauk hey og fjós skemmdist. Á Sandá fauk hey og hluti af fjósþaki og hey fauk einnig á Göngustöðum, þar sem járn fauk einnig af íbúðarhúsi. Jeppi fauk og skemmdist húsið mikið. Á Heiðarsstaðarkoti fauk partur af fjósþaki. Rafmagnslína slitnaði og einn staur brotnaði. Á flestum öðrum bæjum urðu einhverjar smávægilegar skemmdir. Á Hreiðarsstöðum fauk þak af votheysgryfju. í kvöld voru 7—12 vindstig af suðaustri. Menn muna varla annan eins veðurofsa. — FZ.

Dalvík í gær. Ofsarok af suðri gerði hér síðdegis í gær. Rokið hélst fram á seinni hluta nætur. Skaðar urðu mjög víða. Á Hlíð í Skíðadal fauk hey. Á Másstöðum fuku járnplötur af íbúðarhúsi og asbestklæðning brotnaði á fjósi. Einnig fauk töluvert af heyi á Steindyrum og hlöðuþak fauk á Bakka, ennfremur þak af haughúsi á sama bæ. Víðar varð minniháttar heyfok og aðrar skemmdir. Á vélbátnum Freyju laskaðist borðstokkur, þar sem hún lá við hafnargarðinn. Snjó hefir mjög tekið upp og er nú orðið akfært jeppum og trukkum um sveitina og einnig til Akureyrar. — PJ.

Vík í Mýrdal í gær. Tjón varð ekki tilfinnanlegt hér í Mýrdal í ofviðrinu. Hins vegar hljóp mikill vöxtur í ár, og brúna á Skálm tók alveg af. Var þetta trébrú á járnbitum, sett í sumar og allgóð. Allmiklir garðar voru báðum megin við brúna og vegurinn hærri en hún, og beindi þetta vatninu mjög í farveginn og á brúna. Mun það hafa valdið miklu um að hún fór. Stenst það á endum, að þegar Múlakvíslarbrúin er orðin fær, fer brúin á Skálm, svo að erfitt er um ferðir austur yfir sand. Þó má aka yfir Skálm á stórum bílum, sé lítið í henni, en verra verður þegar frost eru langvinn, því að þá bólgnar allt upp. — ÓJ.

Kirkjubæjarklaustri í gær. Hér var veðurofsi og rigning í gær og fram eftir kvöldi. Þak fauk af hlöðu í Sandaseli í Meðallandi og víða fuku þakplötur og annað smávegis. Mikill vöxtur kom í Skaftá, en hún var áður búin að ryðja ís af sér og varð því ekki tjón að. Flugvöllurinn er að verða fær, og kemur það sér vel, þar sem ófært er vestur á bóginn á landi eftir að brúin á Skálm er farin. — VV.

Fyrir tveim dögum laskaðist brúin á Klifanda í Mýrdal svo, að hún er ófær stórum bifreiðum, og aðeins hægt að fara yfir hana á jeppum og léttum bílum. Verður því að selflytja mjólkina að austan, þannig að hinir eiginlegu mjólkurbílar taka við henni vestan brúarinnar. Brú þessi er timburbrú á timburstólpum, og gróf undan einum stólpanum í ánni. Verið er að gera við brúna, en verkið er erfitt eins og nú hagar
til. — ÓJ.

Frá fréttaritara Tímans í Borgarnesi. Í gærdag var vegurinn hjá Hesti í Borgarfirði ófær vegna þess að stórir ísjakar, í mittishæð, stóðu á honum á löngum kafla. Höfðu þeir borist þangað með framburði Grímsár, sem flæddi þarna yfir bakka sína í fyrrinótt. Ástæðan var sú, að klakastífla kom í ána. Símabilanir eru miklar í Borgarfirði og því óljósar fregnir um skemmdir í héraðinu af völdum fárviðris. Vitað var um það í gær, að gler hafði brotnað í gróðurhúsum; í Reykholtsdal og fokið hluti af nýbyggðu fjárhúsi í Brekkukoti í sömu sveit.

Eftir hádegið í gær braust Hvítá í Árnessýslu úr farvegi sínum hjá Brúnastöðum og flóði yfir lönd næstu jarða. Blaðið átti tal við Ágúst á Brúnastöðum í gær. Sagði hann að búast mætti við, að áin færi yfir lönd margra jarða næstu dægur og teppti vegi í Flóanum. Í gærmorgun var áin orðin mjög mikil eftir rigninguna. Bar hún fram jakahröngl, og þar sem þrengsli urðu við svonefndan Kríutanga á móts við Brúnastaði, rak hún það saman í stíflu og flæddi síðan upp á Brúnastaðaflatir. Mun meirihluti vatnsmagnsins renna þar upp, og flæddi hún brátt yfir breitt svæði og hafði í gærkveldi lagt undir sig land nokkurra jarða. Nú sem stendur, sagði Ágúst, fellur mestur vatnsþunginn eftir aðalskurði Flóaáveitunnar og mun því dreifast víða. Er hætt við, að flóðið teppi bráðlega vegi, svo sem við Skeggjastaði og víðar. Taldi Ágúst litlar líkur til, að áin ryddi stíflunni frá og kæmist i farveg sinn næstu dægur.

Þykkvibærinn var allur umflotinn og einangruð byggð í gær. Flóð kom í Hólsá í fyrrinótt og flæddi hún yfir veginn á löngum kafla og víðáttumikil landsvæði. Var áin enn að hækka í gærkveldi, en ekki talin nein hætta á skemmdum vegna vatnsflóða í Þykkvabæjarþorpinu, en allar horfur á því, að einangrun vegna vaxandi vatnsflóða geti haldist um sinn. Í gær komust engir bílar ofan í Þykkvabæ og engir komust þaðan landveg til „meginlandsins“. Orsök flóðsins er að klakastífla kom í ána. Hiti er lítill og getur hún því staðið um sinn og valdið vaxandi flóðum. Varnargarður er við árbakkann, en áin færir sig og rennur nú fyrir enda varnargarðsins.

Hvolsvelli í gær. Í ofviðrinu urðu víða tjón nokkurt á húsum og heyjum, plötur fuku af þökum og fleira lauslegt. Í Ey í Vestur-Landeyjum fauk þak af hlöðu og gaflar hennar með hjá Runólfi Jónssyni bónda þar.

Gunnarsholti í gær. Hér fauk votheysturn úr timbri alveg, svo að ekki var tangur né tetur eftir. Var þetta fyrsti turninn sem hér var byggður. Heystálið i turninum var 4 metrar, og stendur það eftir en hallast, eins og veðrið hafi ætlað að taka heystabbann líka. Aðrar skemmdir urðu ekki hér svo teljandi sé, en um tíma voru menn hræddir um þak á nýrri hlöðu. Á bæjum hér í nágrenninu mun víða hafa orðið nokkurt tjón á húsum og heyi en ekki stórfellt.

Ný hlaða fauk Skeiðum í gær. Hér var sunnan fárviðri og varð tjón af á mörgum stöðum í sveitinni. Á Framnesi fauk ný hlaða og á Fjalli fauk fjárhúshlaða. Járnplötur fuku víðs vegar í sveitinni en heyskaðar urðu ekki svo að teljandi sé. Telja menn að þetta sé eitt hið versta veður, sem komið hefir um árabil. Um tíma var veðurhæðin svo mikil, að varla var hægt að ganga á milli húsa.

Selfossi í gær. Í ofviðrinu í gærkvöldi virðist tjónið hér í sýslu hafa orðið einna mesta og almennast í Hrunamannahreppi. Í Syðraseli fauk hálft hlöðuþak og brotnuðu viðir, Í Skipholti fuku þakplötur af fjósi og hlöðu. Í Syðra-Langholti fuku plötur af þaki íbúðarhúss og gömlum bæ og braggar skemmdust. Að Bjargi og Bryðjuholti fuku hey. Að Arnarstöðum í Hraungerðishreppi fauk járn af hálfri hlöðu og einnig skemmdist þak í Bár. Á Selfossi fuku grindur, flaggstengur brotnuðu og fleira smálegt hreyfðist. Það er mikil bót, að í dag er ágætt veður, og menn hafa næði til að vinna að viðgerðum. — ÁG.

Vopnafirði í gær. Aftakaveður af sunnan-suðaustan gerði hér nokkru fyrir lágnættið og stóð fram undir morgun. Mestur mun ofsinn hafa orðið undir fjöllum og í Hraunfellsdal. Tjón var allvíða á heyjum og húsum á Síreksstöðum í Hraunfellsdal. Tók framhlið þaksins af íbúðarhúsi Hjálmars Jósefssonar bónda þar og á Hraunfelli fauk hlaða með heyi, sem Georg Jósefsson átti, er líka býr á Síreksstöðum. Hjá Sæmundi Grímssyni á Egilsstöðum fauk þak af hlöðu og skall annar helmingur þess á fjárhúsi og braut það nokkuð. Ekki sakaði þó féð. Á Skjaldþingsstöðum tók upp 50 hesta hey og sást þar aðeins eftir lítil botnbeðja. Í kauptúninu urðu líka heyskaðar og víða fauk járn af húsum. Járn fauk af austurhlið á íbúðarhúsinu Grund og einnig nokkuð af heyi. Allt járn og nokkuð af þaki fauk á Sigurðarstöðum og eru það mestu tjónin hjá einstaklingum í kauptúninu. Á Hauksstöðum í Vesturdal tók hálf þök af hlöðu og geymslu. Talið er að þetta sé hvassasta veður, sem hér hefir komið lengi. Má vera, að meira tjón hafi orðið, þó að ekki séu enn fréttir af. — Kjartan.

Fáskrúðsfirði í gær. Mikið tjón var af völdum fárviðrisins á Fáskrúðsfirði. Mest varð tjónið á Búðakirkju, sem skemmdist mikið í veðrinu. Þak fauk af kirkjunni og einnig pappi. Auk þess urðu miklar skemmdir á kirkjunni að innan, bæði af vatni og stormi. Nokkuð af járninu hefir náðst, eftir að veður gekk niður í gær. Járn fauk af íbúðarhúsi í kaupstaðnum og margir smáskúrar og geymslur fuku, eða skemmdust.

Stöðvarfirði í gær. Í fárviðrinu í fyrrinótt urðu talsverð spjöll í Stöðvarfirði. Á Háteigi, sem er sveitabýli í firðinum fuku fjárhús og hlaða. Missti bóndinn þar talsvert af heyi og varð fyrir tilfinnanlegu tjóni. Það verður þó að teljast mikil heppni, að kindur, sem voru í fjárhúsinu sakaði ekki. Stóðu þær allar eftir lifandi í fjárhústóftunum, þegar húsin sjálf höfðu fokið ofan af þeim. Í Stöðvarfirði var veðrahamurinn mestur eftir hádegi í fyrradag og lengi nætur í fyrrinótt. Í Fáskrúðsfirði fauk smíðahús bóndans á Eyri, og missti hann þar mikið af tækjum og efni, sem ýmist fauk, eða eyðilagðist.

Tíminn heldur áfram tjónfréttum 4.febrúar:

Miklir heyskaðar og skemmdir á húsum urðu víðs vegar um Skagafjörð í óveðrinu s.l. föstudagsnótt [3.?]. Hálft þakið fauk af íbúðarhúsinu að Ljótsstöðum í Holtahreppi og einnig þak af fjósi og fjóshlöðu á sama stað. Þá fauk einnig hálft þakið af hinu nýja húsi kaupfélagsins á Haganesvík. A Hofi í Hjaltadal fauk hlaða með heyi. Í Neðra-Ási fauk hey um koll. 60 hestar af heyi fuku í Ásgeirsbrekku í Viðvíkursveit og á Hofsstöðum fuku tvö hey. Þá fauk fjárhús að Syðri-Brekku í Blönduhlíð en féð sakaði ekki og kom til skila í gær.

Talsverðir skaðar urðu á mörgum bæjum í Blönduhlíð. Á Frostastöðum fauk hluti af þaki þrjú hundruð kinda fjárhúsi og drápust 2 kindur. Á bæjunum Djúpadal, Hjaltastöðum og Hrólfsstöðum fauk talsvert af heyjum. Á Víðivöllum fauk einnig hluti af hlöðuþaki. Tjón í Hegranesi: Í Ási í Hegranesi fauk þak af hlöðu. Á Egg fuku tvö hey og eitt í Keldudal. Þá fauk helmingur þaksins af íbúðarhúsinu á Heiði í Gönguskörðum, og 50 hestar af heyi.

Í A-Húnavatnssýslu urðu meiri og minni skaðar í flestum hreppum sýslunnar. Þök fuku af húsum og hey fauk. Á Bollastöðum í Svartárdal fauk jeppabifreið ofan allháa brekku heiman frá bæn um og alla leið niður að Blöndu. Eyðilagðist bifreiðin. Á Skeggjastöðum flæddi vatn í fjárhús og drápust þar 20 kindur.

Í fárviðrinu, sem yfir gekk síðdegis á miðvikudag urðu margvíslegir skaðar í Reyðarfirði og nágrannabyggðum. Var veðrahamurinn óskaplegur undir kvöldið og fauk þá allt, sem fokið gat og grjót gekk eins og skæðadrífa yfir kaupstaðinn. Sjórok varð svo mikið, að heita mátti að dimmviðri væri af þeim sökum. Járnplötur og jafnvel heil þök fuku af mörgum byggingum, útihúsum og íbúðarhúsum og mátti heita mikil mildi, að ekki yrði skaði á fólki í öllum þeim ósköpum, sem á gengu þennan óveðursdag. Rúður brotnuðu í mjög mörgum húsum og víða margar rúður á aðalóveðurshlið húsanna. Þannig brotnuðu allar rúður á einni miðju kauptúninu og þakpappi, sem kominn var á húsið, fauk af eða er sundurhöggvinn eftir grjótflug. Mjög víða flugu smásteinar inn um rúður, eins og byssukúlur og jafnvel einnig litlar spýtur. Olli grjótflugið sums staðar skemmdum á húsgögnum en engum meiðsl um á fólki, svo vitað sé. Eru rúðurnar því ýmist mölbrotnar eða aðeins með götum eftir grjótið. Olíugeymar, sem notaðir eru við hús fyrir gasolíu, fuku víða, þó að stórir séu og þungir. Fuku margir þeirra á sjó út og flutu þar eða sukku í særótinu. Tveir árabátar tókust á loft i rokinu og brotnuðu smátt. Er hvassviðri þetta hið mesta er menn muna eftir í Reyðarfirði, enda sjaldgæft að illa hvessi af suðaustri. Símalínur slitnuðu víða í óveðrinu og komst ekki símasamband á milli Reyðarfjarðar og Reykjavíkur fyrr en í gær. MS.

Í Mjóafirði eystra urðu miklar skemmdir af völdum fárviðrisins á dögunum, og er um meiri eða minni skemmdir að ræða á öllum bæjum í innfirðinum, en utar, eða utan við Brekku, varð tjónið miklu minna. Þak tók af hlöðu í Friðheimi. Járnplötur fuku af húsum á Hesteyri. Trilla fauk og brotnaði nokkuð í Brekkuþorpi. Var þetta sama trillan, er lenti í vatnsflóðinu á dögunum og slapp þá undravel. Var því skammt milli stórræðanna hjá henni, og slapp hún nú ekki eins vel. Stórt sjóhús fauk í Sandhúsi. Á Brekku fauk helmingur hlöðuþaks og plötur af fjárhúsi, útisamkoma á hlaði og geymsluhús yfir vélar ræktunarfélagsins. Sjóskúr fauk á Þunghóli. Rafmagnsstaurar brotnuðu. Víðar urðu nokkrar skemmdir.

Flóðið úr Hvítá í Árnessýslu var mjög farið að sjatna í gærkveldi og hætta að renna upp úr farvegi árinnar. Hefir áin nú minnkað svo mjög, að hún kemst um göng sin undir íshrönnina hjá Brúnastöðum. Mikill vatnselgur er þó í Flóanum, og vegir tepptust sums staðar í gær. Vatnið hefir farið yfir lönd margra jarða. Flóbið fór yfir veginn hjá Skeggjastöðum og víðar, en þar var þó fært bifreiðum í gær. Vegurinn í Villingaholtshreppi varð ófær, og komust bílar ekki þangað eða þaðan framan af degi í gær. Við vonum, sagði Ágúst að lokum, að hlaup þetta sé búið í bili, og við höfum frið þangað til næsta hláka og stórrigning kemur. Ekki taldi hann viðlit að reyna að sprengja klakabrynjuna af ánni, þar sem hún stíflar sig.

Í gær var unnið að björgun vélbátsins Frosta, sem strandaði á Landeyjarsandi í fárviðrinu. Björgun skipshafnar er talið sjómennskuafrek undir forustu hins unga skipstjóra, Ingólfs Matthíassonar.

Mývatnssveit í gær. Til viðbótar þeim fréttum, sem birtust hér í blaðinu í gær af veðurtjóni í Mývatnssveit, símaði fréttaritarinn í gær eftirfarandi: Veðurofsinn var mikill en regn lítið. Miklar skemmdir urðu á húsum og tjón á heyjum. íbúðarhús skemmdust á Borg, Geirastöðum, Haganesi og Skútustöðum, tók járn af þökum og gluggar brotnuðu. Fjárhús skemmdust á Stöng, féll stafn út og hluti af þakinu. Í Haganesi losnaði fjárhúsþak, féll inn og drap eina kind. Þar fauk líka fjósþak. Á Litlu-Strönd fauk stór heyhlaða, og fór brak á gamla bæinn og braut hann inn. Munaði minnstu, að Steingrímur bóndi þar yrði fyrir miklu járni. Þök fuku víðar af gömlum heyhlöðum. Í Reykjahlíð fauk hluti af tveim geymslubröggum og þrír þvottahjallar brotnuðu. Einnig fór hluti af þaki Reykjahlíðarkirkju. Þök fóru af votheyshlöðum á Grænavatni og Gautlöndum. Í Garði fauk heyvagn og brotnaði. Þá er ógetið hins mikla heyfoks, sem varð í sveitinni og mun nema alls að minnsta kosti 400 hestum, mest um 50 hestum hjá einum bónda, Kolbeini á Stöng. Meirihluti allra heyja, sem stóðu á víðavangi í sveitinni, mun hafa fokið. Hvassast varð um nóttina og mun vindhraðinn þá hafa náð fullum 12 vindstigum. — PJ.

Frá fréttaritara Tímans á Grímsstöðum. Hér gerði ofsaveður á suðaustan á miðvikudaginn og fór vaxandi með kvöldinu. Þá mun vindhraðinn hafa verið frá 11—12 vindstig og mun vart svo mikið veður hafa komið hér. Fé náðist alls staðar á hús, áður en hvessti .Um nóttina fauk járn af húsi í Grímstungu og nokkrar járnplötur af fjárhúsi á Grímsstöðum- Einnig eyðilagðist vindrafstöð í Grímstungu. Á öðrum bæjum urðu ekki teljandi skaðar. Nokkrar bilan'ir urðu á símanum og brotnuðu tveir staurar á leiðinni héðan frá Grímsstöðum niður að Jökulsá. — KS.

Frá fréttaritara Tímans í Kelduhverfi. Óveðrið á aðfaranótt fimmtudags olli nokkrum skemmdum hér í Kelduhverfi. Í hvössustu hryðjunum mun veðurhæðin hafa náð ellefu vindstigum. Nokkur hluti hlöðuþaks fauk í Keldunesi og þak af áttatíu kinda fjárhúsi í Framnesi. Þak fór af fjósi í Garði og bílskúr fauk í heilu lagi á Þórseyri. Fimmtíu hestar af heyi fuku á Tóvegg og aðrir fimmtíu á Undirvegg. Á allmörgum bæjum fauk meira og minna af heyi. — IH.

Frá fréttaritara Tímans á Egilsstöðum. Hér á Héraði var hvassviðrið i fyrradag geysilegt með því mesta sem hér kemur. Þó hefir ekki frést um stórfelldar skemmdir og munum við að líkindum hafa sloppið öllu betur en margir aðrir. Víða fuku þó járnplötur af húsum, heyskemmdir urðu nokkrar og fleira smávegis. — Flugvöllurinn hefir verið blautur, og ekki var flogið í gær, en nú er hann að frjósa, og væntum við því flugvéla á ný. — ES.

Morgunblaðið segir frá 4. febrúar - í blaðinu má finna mun fleiri fréttir, flestar efnislega þær sömu og í Tímanum:

Húsavík, 3.febrúar. — Frá fréttaritara. Í fárviðrinu á miðvikudagskvöldið stórskemmdist hin nýja bryggja í Grímsey og jafnframt sökk trillubátur, sem róið hefur þaðan í vetur. Er hér um tilfinnanlegt tjón að ræða fyrir þetta nyrsta byggðarlag. Síðastliðið sumar var unnið að hafnargerð í Grímsey. Var sökkt steinkeri um 15 metrum framan við eldri hafnargarðinn. Og síðan steypt í bilið milli kersins og gamla hafnargarðsins eins og venjulegt er við slíkar hafnargerði og það fyllt upp. Fárviðrinu sem gekk hér yfir á miðvikudagskvöld fylgdi mikill sjógangur sem stóð beint upp á nýju bryggjuna. Fór þá svo að brimið braut niður steypta kaflann milli kersins og gömlu bryggjunnar, en steinkerið stendur hind vegar óhaggað. [Frekari skemmdir urðu síðan á hafnarmannvirkjum í Grímsey í illviðri í lok maí]. 

Grundarhóli, Fjöllum, 3.febrúar. — Í fyrradag gerði hér ofsarok á sunnan-suðaustan. Mátti heita óstætt þegar á vökunni. Reif þá upp skara og vatn af svellum svo að líkast var að hagl og hellirigning væri samtímis. Þó var úrkomulaust. Maður, sem þá var á ferð bæja á milli, hafaði sig með naumindum í húsaskjól með því að skríða og var hann þrekaður mjög og kaldur á höndum og fótum. Veður fór þó versnandi allt til miðnættis, en þá mun það hafa náð hámarki sínu.

Tíminn enn 5.febrúar:

Frá fréttaritara Tímans á Patreksfirði. Í fyrrakvöld munaði litlu að alvarlegt slys yrði, er snjóflóð féll á dráttarbíl og þrjá menn, er voru við vegaviðgerðir á leiðinni milli Patreksfjarðar og Örlygshafnar. En mennirnir sluppu allir lifandi og ómeiddir undan 2 metra djúpum snjó, er yfir þá féll.

Frá fréttaritara Tímans í Biskupstungum. Í fárviðrinu á miðvikudagsnóttina urðu nokkrar skemmdir hér í sveitinni, Þak fauk af stóru fjárhúsi í Skálholti, og af fjósi í Laugarási. Einnig fauk þak af stórri hlöðu í Kjarnholtum. Skemmdir urðu og nokkrar á gróðurhúsum, en þó minni en við hefði mátt búast, og sést á því, að menn eru nú farnir að vanda vel til gróðurhúsa og byggja þau traustlega. Þó brotnar ætíð nokkuð af gleri í slíkum veðrum.

Tvö önnur hvassviðri gerði næstu daga, en þó mun minni. Tjóns er þó getið. Sjá nánar í hinum almenna pistli hungurdiska um árið 1956. Þar er einnig nefnt tjón sem veðurathugunarmenn geta sérstaklega. 

Furðulegar, en leiðar fréttir birtust í Tímanum 19. febrúar:

Frá fréttaritara Tímans á Kirkjubæjarklaustri. Þegar Siggeir bóndi Geirsson á Sléttabóli á Brunasandi, sem er á milli Skaftár og Núpsvatna, gekk á fjörur daginn eftir fárviðrið, sem geisaði hér á landi um síðustu mánaðamót, til að huga að reka, brá honum heldur en ekki í brún, er hann sá hvítan sand af súlu. Bjóst hann ekki við slíkri sjón, því að súlan er ekki vön að sitja þar á fjörum i stórum hópum. Þarna voru saman komin hundruð súlna í hópum, og þegar hann kom nær, sá hann, að ekki var allt með felldu, því að súlurnar flugu ekki á braut, heldur gat hann gengið um á meðal þeirra, og gátu þær ekki hafið sig til flugs. Sumar súlurnar voru dauðar og nokkrar vængbrotnar eða limlestar á annan hátt, en flestar heilar að sjá, en dasaðar mjög og veðurbarðar. Augljóst þykir, að í fárviðri því, sem gekk hér yfir landið, hafi súlurnar orðið hart úti, hrakið undan veðrinu austur og orðið svo illa leiknar, sem fyrr er lýst. Ekki vita menn til, að minnsta kosti ekki á þessum slóðum, að þetta hafi áður kornið fyrir, og slíka súlnahópa ósjálfbjarga hafa menn ekki séð hér á söndunum.

 Lýkur hér samantekt hungurdiska um fárviðrið í febrúarbyrjun 1956. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 34
  • Sl. sólarhring: 180
  • Sl. viku: 1956
  • Frá upphafi: 2350825

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 1743
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband