13.10.2019 | 22:59
Október sem september (eða nóvember)
Árstíðasveifla hitans lætur ekki að sér hæða, frá hlýskeiði til ísaldar á hverju ári. Hún er þó minni hér á landi en víðast hvar á svipuðu breiddarstigi. Hitafallið er sérlega hratt á þessum tíma árs (í október), rétt eins og sólargangur styttist ört. Ekki er fjarri að sólargangurinn styttist um 3 klukkustundir í október og hiti felli á sama tíma um 3 stig.
Það er því mjög á móti líkum að október sé svo hlýr að meðalhiti (einstaks mánaðar) nái langtímameðaltali septembermánaðar. Það hefur þó rétt komið fyrir. Sömuleiðis er sjaldgæft að október sé svo kaldur að hann keppi við meðalnóvember.
Fyrir um það bil mánuði (14.september) leituðum við að septembermánuðum sem hita vegna geta talist fullgildir sumarmánuðir - í samkeppni við meðalhita mánaðanna júní til ágúst. Ekki fundust margir. Nú notum við sömu aðferðafræði til að leita sérlega uppi þá októbermánuði - sem keppa við meðalseptember í hita - og í leiðinni þá sem eru svo kaldir að þeir keppa við meðalnóvembermánuð.
Sem fyrr flækir það málið nokkuð að veður hefur hlýnað mikið á síðust áratugum. Mat á því hvað er hlýtt og hvað kalt hefur því breyst. Við leyfum okkur því að nota meðalhita síðustu þrjátíu september- og nóvembermánaða (á hverjum tíma) til greiningarinnar. Að þessu loknu lítum við á langtímabreytingar á haustkólnun.
Það sem við sjáum á myndinni er þetta: Lárétti ásinn vísar til síðustu 200 ára (tæpra), en sá lóðrétti er hitakvarði. Græna feita línan sýnir 30-árakeðjumeðalhita októbermánaðar, endar á meðalhitanum 1989 til 2018. Línan hefst við árabilið 1823 til 1852. Græni ferillinn hefur í heildina þokast upp á við, um +0,9°C á öld að jafnaði, en sveiflur innan tímabilsins eru þó ámóta aða meiri heldur en hlýnunin.
Rauða þykka línan sýnir það sama - en á við september. Þessi lína hefur þokast upp á við líka - sveiflur ferlanna tveggja fylgjast nokkuð að í tíma - en þó ekki alveg (eins og sýnt verður hér að neðan). Bleika línan (sú neðsta) á svo við nóvembermánuð. Þreparitið sýnir hins vegar landsmeðalhita einstakra októbermánaða - gríðarlega breytilegur.
Við merkjum sérstaklega þá októbermánuði þegar meðalhiti októbermánaðar er hærri en meðalhiti 30 næstu septembermánaða á undan, október í septembergervi. Það eru ekki nema 4 mánuðir sem merktir eru á þennan hátt - sá síðasti, október 2016 nær þó ekki alveg marki, því hann keppir líka við hina almennu hlýnun - hann er þrátt fyrir að vera hlýjastur allra ekki nútímaseptember. Það er október 1915 sem stendur sig best - kom óvænt sem ofurhlýr á köldu skeiði, einnig eru október 1920 og 1946 rétt ofan marka - fullgildur septemberhiti.
Myndin sýnir líka samanburð við nóvember - hvenær október var svo kaldur að hann gæti talist meðalnóvember. Ártölin á neðri hluta myndarinnar sýna hvenær þetta hefur gerst, síðast 1981 (og nærri því líka 1980). Október 1968 kemst með - vegna þess að þá höfðu hlýir októbermánuðir verið í tísku lengi.
Nú hafa sjálfsagt einhverjir tapað þræði, en við lítum á fleira.
Ekki létt línurit. Lárétti ásinn sýnir tíma, sá lóðrétti til vinstri hversu mikið október er kaldari en september (þess vegna neikvæðar tölur), en sá til hægri hversu hlýrri október er heldur en nóvember (þess vegna eru tölurnar jákvæðar - kvarðanum snúið við til hagræðis). Ferlarnir eru 30-árakeðjur. Byrja báðir árabilið 1823 til 1852 og síðan koll af kolli, allt þar til það síðasta lengst til hægri, 1989 til 2018. Svarti ferillinn vísar til kólnunar frá september til október. Hún sveiflast nokkuð til, er oftast 3 til 4 stig. Svo virðist sem hún hafi minnkað frá því sem áður var - en er þó litlu minni síðustu áratugina heldur en var á elsta skeiði myndarinnar. Október hefur á langtímavísu hlýnað nokkuð meira heldur en september.
Rauða línan sýnir mun á október og nóvemberhita. Hann hefur haldist nokkuð jafn, um 3 stig. Það er tilhneiging til þess að þegar lítið kólnar milli september og október kólni því meira milli október og nóvember. Á kuldaskeiðinu fyrir 30 til 40 árum kólnaði heldur meir á milli október og nóvember (rauði ferillinn fer niður fyrir þann gráa) heldur en september og október - það er þó undantekning frá því sem algengast er.
Næsta mynd sýnir mismun hita (alltaf á landsvísu) í september og nóvember. Súlurnar sýna einstök ár. Munurinn er minnstur þegar september er mjög kaldur, en nóvember hlýr - þannig var t.d. 1954. Hann er hins vegar mestur þegar september er hlýr og nóvember er kaldur - eins og t.d. 1996 og 1841. Munur á hita þessara mánaða hefur heldur minnkað, nóvember hlýnað meira heldur en september.
Leitni af þessu tagi getur auðvitað ekki haldið endalaust áfram - að því kæmi að meðalhiti (30 ár) væri sá sami í september og nóvember og að lokum færi nóvemberhitinn fram úr september. Þetta gerist ekki. En hvaða áhrif skyldi hlýnandi veðurfar hafa á árstíðasveifluna? Leitnin sem við sjáum á myndunum tveimur er býsna mikil.
Við gætum hér farið að leika okkur með tölur. Sú hlýnun sem hefur þegar átt sér stað í október er um 1,5 stig, um hálfur mánuður. Hversu mikið af þeirri tölu skrifast á reikning hnattrænnar hlýnunar vitum við ekki. Náttúrulegur breytileiki á mun september og októberhita virðist vera um 1 stig - 1 stig er um 10 dagar nú á dögum, en var ekki nema vika fyrir 150 árum. [Nú munu enn fleiri búnir að tapa þræði - og stutt í að ritstjórinn geri það].
Vísindi og fræði | Breytt 14.10.2019 kl. 02:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2019 | 01:57
Fyrsti þriðjungur októbermánaðar
Október byrjar hlýlega í ár - hefur þó ekki alveg roð í þá allrahlýjustu. Meðalhiti fyrstu tíu daga mánaðarins er 8,3 stig í Reykjavík, +3,2 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en +2,3 stigum ofan meðallags sömu daga síðastliðin tíu ár og í fjórðahlýjasta sæti á öldinni. Dagarnir tíu voru hlýjastir árið 2002, meðalhiti þá 9,7 stig en kaldastir voru þeir 2009, meðalhiti aðeins 2,6 stig. Á langa listanum er hitinn í 15.hlýjasta sæti. Á honum er 1959 efst, meðalhiti dagana tíu var þá 11,0 stig, kaldast var 1981, meðalhiti +0,1 stig. Munurinn eins og á sumri og vetri.
Á Akureyri er meðalhiti nú 6,9 stig, +3,5 stigum ofan meðallags áranna 1961-1990, en +1,8 ofan meðallags síðustu tíu ára.
Að tiltölu hefur verið einna hlýjast á Vestfjörðum, dagarnir 10 þar í þriðja hlýindasæti á öldinni, en kaldast að tiltölu er á Austfjörðum, hiti þar í 8.sæti á öldinni. Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum, mest á Hafnarmelum, Þingvöllum og Húsafelli, vikið á þessum stöðvum er +3,0 stig. Kaldast að tiltölu hefur verið í Oddsskarði, vikið þar +0,4 stig og einnig +0,4 stig við Streiti.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 45,6 mm og er það vel yfir meðallagi, en langt frá meti. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 33,3 mm, sömuleiðis vel yfir meðallagi.
Sólskinsstundir hafa mælst 18,9 í Reykjavík, 15 stundum neðan meðallags, en þó nokkuð fjarri lágmarksmeti.
10.10.2019 | 00:12
Sumri hallar
Því er nú reyndar farið að halla fyrir nokkru og ekki nema tvær vikur rúmar til fyrsta vetrardags. Haustið hefur þó varla látið sjá sig um meginhluta landsins nema þannig að dagarnir styttast óðfluga. Framrás þess á norðurhveli er þó með eðlilegum hætti, það kólnar jafnt og þétt á norðurslóðum, rétt eins og venjulega.
Við lítum sem snöggvast á norðurhvelskort.
Kortið gildir síðdegis á föstudag, 11.október. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar og má af legu þeirra ráða vindstefnu og styrk. Litir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því minni sem hún er því kaldara er loftið. Mörkin á milli gulbrúnu og grænu litanna eru við 5460 metra, gulu litirnir sýna sumarhita. Að undanförnu hefur landið verið ýmist í gula litnum eða þeim ljósasta (hlýjasta) græna. Hér sjáum við hins vegar að það er dekksti græni liturinn sem liggur yfir landinu og ekki er langt í bláu litina. Það er þó þannig að þeir eiga samt ekki að plaga okkur svo mjög á næstunni (séu spár réttar).
Alvörukuldapollur er við norðurskautið - nokkuð óráðið hvert hann fer eða hvort hann bara liggur áfram í bæli sínu. Það sem hefur verndað okkur er hæðarhryggur sem legið hefur fyrir norðan land. Hans gætir enn á þessu korti - merktur sem rauð strikalína norður um Grænland og svo austur til Síberíu. Nú á kuldapollur við Baffinsland að slíta hann í sundur á leið sinni til suðausturs. Það skiptir mjög miklu máli fyrir framtíðarhorfur hér hver braut þessa kuldapolls verður. Taki hann suðlæga stefnu mun hann um síðir beina til okkar hlýju lofti úr suðaustri - þó ekki eins hlýju og verið hefur ríkjandi hér að undanförnu. Gangi hann hins vegar greiðlega til austurs fyrir sunnan land mun skipta til norðlægra átta og kólna verulega.
Sem stendur telja reiknimiðstöðvar fyrri kostinn líklegri - kannski verður þó einhver millilausn úr.
Um helgina virðist sem mikil hlýindi gangi austur um meginland Evrópu, en snarpur kuldapollur er á sveimi um miðbik Bandaríkjanna.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.10.2019 | 21:28
Hlýtt í veðri
Fyrsta vika októbermánaðar hefur verið hlý um nær allt land, en mörgum finnst það kannski bara orðið sjálfsagt mál að svona hlýtt sé á þessum tíma árs. Það eru reyndar ríkjandi vindáttir sem mestu ráða um hitann en almenn hlýindi síðustu ára hafa eitthvað að segja. Hér á hungurdiskum hefur áður verið fjallað um meðalhita sem fylgir eintökum vindáttum. Nú lítum við á meðalhita vindátta í októbermánuði.
Við látum meðalvigurvinda á landinu segja okkur hver höfuðáttanna átta er ríkjandi á hverjum degi. Landsmeðalhiti (í byggð) er til fyrir hvern dag aftur til 1949 og sömuleiðis hin ríkjandi vindátt. Hér eru tvö tímabil undir, kalda skeiðið 1961 til 1990 og síðan þau 18 ár sem nú eru liðin af þessari öld.
Fyrstur er landsmeðalhitinn.
Súlurnar hverfast um meðalhita októbermánaðar 1949 til 2018 (70 ár). Suðlægu áttirnar allar senda okkur hita yfir meðallagi (kemur auðvitað ekki á óvart), austanáttin er til þess að gera hlutlaus, en aðrar áttir eru kaldari en meðallagið, hánorðanáttin köldust. Bláu súlurnar sýna meðalhita áttanna átta á kalda árabilinu, en þær brúnu meðalhita áttanna síðustu átján árin. Það vekur eftirtekt að flestar áttir hafa hlýnað, suðaustanáttin mest, en suðvestanáttin nærri því ekki neitt og vestanáttin hefur verið kaldari nú en hún var á köldu árunum.
Mynd sem gerð er fyrir Reykjavík sýnir nokkurn veginn það sama.
Í báðum tilvikum er það suðaustanáttin sem hefur hlýnað mest og vestanáttin virðist hafa kólnað og suðvestanáttinni er sama.
Við höfum að sjálfsögðu í huga að myndir sem þessar sanna nákvæmlega ekki neitt.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2019 | 21:11
Sumarsól á Austurlandi
Skortur á nauðsynjum leiðir stundum til óhæfuverka - eða alla vega til spuna úr rýru efni. Sólskinsstundafjöldi var mældur á Hallormsstað á Héraði frá 1953 til 1989, en því miður lögðust þær mælingar þá algjörlega af. Ekkert hefur frést af sólskinsstundum austanlands síðan þá. Það sem gerir þetta mál enn snúnara er að lítið er um skýjahuluathuganir af svæðinu líka á síðari árum. Að vísu er skýjahula athuguð (að nokkru) á Egilsstaðaflugvelli, en talsverð vinna er að athuga hvers eðlis þær athuganir eru. Það er t.d. svo að háský (sem geta byrgt fyrir sól) koma ekki alltaf fram í flugvallarathugunum, enda skipta þau ekki máli við flugtak og lendingu.
Hugsanlega muna einhverjir lesendur hungurdiska eftir pistlum sem hér birtust um furðugott samband mánaðarmeðaltala skýjahulu og sólskinsstundafjölda bæði í Reykjavík og á Akureyri. Nú skal gerð tilraun til að nota samband sólskinsmælinga á Hallormsstað og skýjahulu í Vopnafirði til að fylla í eyður sólskinsathugana bæði fyrir 1953 og eftir 1989. Lesendur ættu þó að hafa í huga að hér er um neyðaraðgerðir að ræða - og nákvæmnisvísindum kastað fyrir róða. En við látum slíkt ekkert hindra okkur þegar sulturinn sverfur að - fóður verðum við að fá til að lifa af, bragðið skiptir engu.
En lítum fyrst á mynd sem á að sýna að þetta er ekki algjörlega glórulaust.
Hér má sjá samband skýjahulu í Vopnafirði og sólskinsstundafjölda á Hallormsstað í júlí 1953 til 1989. Satt best að segja kemur þægilega á óvart hversu gott það er. Sjaldan munar meir en 50 stundum á milli ágiskaðra og réttra gilda og oftast er munurinn talsvert minni. Nú er svona samband reiknað fyrir alla mánuði ársins hvern fyrir sig (sólargangur er svo misjafn að þess er þörf).
Og þá getum við búið til línurit sem sýnir sólskinsstundafjölda á Hallormsstað í mánuðunum júní til ágúst árin 1925 til 2019.
Höfum í huga að tölur áranna 1953 til 1989 eru raunverulegar - aðrar eru ágiskaðar. Það er 1971 sem er mesta sólarsumarið, síðan koma 2012, 2004 og 1957 - síðan 1947. Sólarrýrast er sumarið 1993 (eiginlega langsólarrýrast), en síðan koma 1952, 1938, 1954, 1998 og svo 2019 og 2015. Þetta hljómar allt fremur sennilega - en nær öruggt þó að raunveruleg röð er væntanlega eitthvað önnur. Við sjáum að mikið var um sólskinssumur á áttunda áratugnum (raunverulega mælt) og svo virðist sem árin í kringum 1930 hafi verið sólrík líka. Þar verður þó að hafa í huga að hringl var í veðurlyklum framan af og hefur ritstjóri hungurdiska ekki kannað hvaða afleiðingar það kann að hafa á niðurstöðurnar.
Nú má spyrja hvernig þetta rímar við tilfinningu manna eystra? Nokkuð auðvelt væri að blanda hita í málið til að reikna sumarvísitölu, en úrkoman aðeins flóknari vegna hringlanda í mælingum á henni. Kannski ritstjórinn haldi áfram á glæpabrautinni (hann er orðinn svo bersyndugur hvort eð er)?
2.10.2019 | 20:26
Fleiri septemberfréttir
Við lítum nú á tvö kort. Hið fyrra sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í mánuðinum og vik hennar frá meðallagi, en hið síðara sjávarhitavik í norðurhöfum í mánuðinum.
Við munum auðvitað enn hversu skiptur mánuðurinn var, og einhvern veginn fór það svo að hiti varð rétt ofan meðallags á meginhluta landsins. Heildregnu línurnar á kortinu sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins. Hún var rétt yfir meðallagi á mjóu belti norðan úr höfum og suður yfir landið, en vikin eru þannig að háloftavindáttir lenda í meðallagi þegar litið er á mánuðinn i heild. Vikamynstrið segir okkur einnig að norðlægar áttir hafa verið nokkuð tíðari en að meðallagi fyrir austan land og suður um norðanverðan Norðursjó, en sunnanátt aftur á móti tíðari en að meðallagi við Grænland austanvert. Ekki eru þetta þó stór vik.
Hér má sjá sjávarhitavik mánaðarins í norðurhöfum. Gríðarlega afbrigðilegt ástand og hiti víðast langt yfir meðallagi. Þær fréttir bárust t.d. í gær að september hefði verið sá hlýjasti í sögunni við norðurströnd Alaska og þar bíða menn vetrar með óþreyju og óska þess að hann komi sem fyrst. Í fljótu bragði skilur maður slíkar óskir ekki vel - en nánari hugsun vekur þann skilning. Sé hafís lítill er mun brimasamara við ströndina heldur en venjulega og hún er miklu fjær jafnvægi (óvön tíðum brimum) heldur en er þó hér á landi. Landrof í hauststormum er því mjög ískyggilegt í þeim fáu strandbyggðum sem þarna eru. Híbýli og viðurværi allt í voða.
Kortið segir þó ekkert til um hversu langt niður þessi hlýindi ná, né heldur hvernig lagskiptingu sjávar er háttað, en selta kemur þar einnig við sögu. Við getum því hvorki getið okkur til um afleiðingar hlýindanna fyrir ísmyndun í haust né ísbúskapinn í vetur. Við getum staðfest að þetta er óvenjulegt - en verðum að spara okkur yfirlýsingar um framhaldið.
Að vanda þökkum við Bolla Pálmasyni fyrir kortagerðina.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.10.2019 | 23:45
Sólskinsárið mikla 2019?
Árið 2019 hefur verið óvenjusólríkt um landið suðvestanvert. Sólskinsstundafjöldi fyrstu níu mánuði ársins er sá næstmesti frá upphafi mælinga, 1427,9 stundir. Þær voru ívið fleiri sömu mánuði árið 1924, 1533,5 og svotil jafnmargar 1927, 1426,7.
Myndin sýnir samanburð. Árin 1912 til 1914 voru heldur sólarrýr, kannski hafa mæliaðstæður á Vífilsstöðum eitthvað haft með það að gera, en þó ljóst að sumarið 1913 var frægt rigningasumar og sömuleiðis var margfrægt sólarleysi vor og fram eftir sumri 1914. Á síðari tímum (sem margir muna enn) eru mestu sólarleysisárin auðvitað 1983 og 1984. Við sjáum að árið í fyrra 2018 - sem mörgum fannst sólarrýrt var bara nokkuð sólríkt miðað við það sem verst hefur verið.
Mikil umskipti urðu hins vegar milli ársins í ár og þess í fyrra. Árið í ár er mjög svipað og árin sólríku frá 2004 til 2012, níu sólarár í röð.
En árinu er ekki lokið. Þrír mánuðir eru eftir. Lítið samband er á milli sólskinsstundafjölda þeirra og fyrstu níu mánaða ársins. Þó stóðu sólskinsárin 2010 og 2006 sig mjög vel. Flestar hafa sólskinsstundir síðustu þriggja mánaða ársins verið 211,0. Það var 1960 - mikið austanáttahaust minnir ritstjórann (en ætti kannski að fletta því upp). Næst kom svo 2010 með 209,5 stundir. Slíkur árangur nú myndi ekki duga í metsólskinsár - forskot ársins 1924 er svo mikið að við þurfum nýtt haustmet líka til að ná því. Fæstar urðu sólskinsstundir síðustu þriggja mánaða ársins hlýindahaustið mikla 1945, aðeins 44,4. Ef slík yrði raunin nú endaði árið í 1472,3 stundum og í 14 sólskinssárasætinu, sem er nú bara harla gott. Meðallag síðustu 10 ára myndi hins vegar duga í þriðja sæti, á eftir 1924 og 2012.
Þegar þetta er skrifað er ekki búið að telja sólskinsstundir septembermánaðar á Akureyri, þær voru í ágústlok orðnar 905 - rétt yfir meðallagi síðustu tíu ára.
1.10.2019 | 00:03
Veðurstofusumrinu lokið
Nú er veðurstofusumrinu lokið, en það nær sem kunnugt er til mánaðanna júní til september. Nokkuð var gæðum þess misskipt eftir landshlutum. Hér syðra er það í hópi þeirra hlýjustu og sólríkustu en norðanlands og austan var hiti lægri en í meðalsumri síðustu tíu ára og þungbúið lengst af. Keppni í sumarhlýindum er orðin töluvert harðari heldur en var á árum áður. Í Reykjavík er sumarið það fimmtahlýjasta frá upphafi mælinga, aftur á móti er vitað um fleiri en 30 sumur hlýrri á Akureyri. Á landsvísu lendir hiti sumarsins í 25. til 26.sæti af 146 sem reiknuð hafa verið.
Myndin sýnir meðalhita sumars í byggðum landsins. Meðaltöl fyrir 1874 eru mjög óviss og rétt að sleppa þeim í keppni. Á landsvísu eru sumrin 1933 og 1939 enn þau hlýjustu þrátt fyrir að hlý sumur hafi verið fleiri á síðari árum en var þegar hlýjast var fyrir 80 árum og tíu ára meðalhiti sumars hærri nú en var þá.
Taflan hér að neðan sýnir hvernig sumarhitinn raðast eftir spásvæðum og meðal annarra sumra aldarinnar. Rétt er að hafa í huga að ýmis álitamál eru í reikningunum. Til dæmis reynist ómarktækur munur á 3. og 7. Faxaflóasætinu, það eru aðeins sumrin 2010 og 2003 sem eru ótvírætt hlýrri heldur en það nýliðna - rétt eins og er í Reykjavík. Taflan er einungis sett upp til gamans.
Sé miðað við þá reglu að þriðjungur sumra teljist hlý, og þriðjungur köld, var nýliðið sumar hlýtt við Faxaflóa og á Suðurlandi, en kalt á Ströndum og Norðurlandi vestra og á Austurlandi að Glettingi. Á öðrum spásvæðum telst það í meðallagi á öldinni. Sé miðað við lengri tíma, t.d. 140 ár er sumarið talið hlýtt á öllum spásvæðum.
Þetta var mikið sólskinsumar á Suðurlandi, líklega það þriðjasólríkasta sem við þekkjum í Reykjavík, svo litlu munar þó á sætum að við getum ekki staðfest það endanlega fyrr en farið hefur verið yfir mælingarnar frá degi til dags. Sólskinsstundir hafa verið mældar samfellt frá 1923 og þar að auki eigum við heillegar eldri mælingar aftur til 1912.
Lengi vel leit ekki vel út með hita í september, en glæsilegur endasprettur síðasta þriðjunginn kom honum upp í 4. hlýindasæti á öldinni við Faxaflóa og nánast upp í meðallag síðustu tíu ára um landið norðan- og austanvert. Um þessi óvenjulegu hlýindi hefur áður verið fjallað hér á hungurdiskum.
Hiti ársins það sem af er er hár, á landsvísu þó ekki meðal þeirra tíu hæstu, en í Reykjavík hafa fyrstu 9 mánuðir ársins aðeins þrisvar verið hlýrri en nú (2003, 2010 og 2014) og þrisvar jafnhlýir (1939, 1964 og 2004). Meðalhiti nú er 6,8 stig, var 7,1 í sömu mánuðum 2003. Við vitum auðvitað ekkert um hitann það sem lifir árs - ekki á vísan að róa í þeim efnum. Við munum t.d. hin gríðarlegu hlýindi síðustu þriggja mánaða ársins 2016 þegar hitinn í Reykjavík skaust úr 15.sæti fyrstu 9 mánaðanna upp í annað sæti í árslok - nú eða 1880. Í septemberlok var það ár í 11.hlýjasta sæti á Reykjavíkurlista sem nær til okkar tíma - en árið endaði í því 82. Annað eins hrap hefur aldrei sést (ótrúlegt - en satt).
30.9.2019 | 02:46
Af árinu 1880
Árið 1880 var mjög óvenjulegt. Fyrstu 8 mánuðir þess voru meðal þeirra hlýjustu á 19.öld og tveir þeirra, apríl og ágúst eru meðal allrahlýjustu sinna almanaksbræðra. Hlýindin hófust raunar fyrir áramót 1880 til 1881 og var meðalhiti 12-mánaða tímabilsins október 1879 til september 1880 rúm 5 stig í Stykkishólmi, rúmum 2 stigum ofan meðallags næstu tíu ára á undan. Það var aðeins tvisvar eða þrisvar sem 12-mánaða meðalhiti náði 5 stigum í Stykkishólmi á 19.öld, örugglega 1847 og ef til vill 1829 líka. Eftir 1880 þurfti að bíða hálfa öld eftir því að það gerðist aftur. Það var 1929. En síðan fór allt á versta veg. Frá og með október hríðkólnaði og það svo að dæmi eru ekki um annað eins. Það hefndist fyrir blíðuna eins og stundum var sagt.
Þó sumarið blessaðist vel og alls staðar slyppi til með heyskap var þó úrkomusamt sums staðar á Vesturlandi og Vestfjörðum. Talsverð frost gerði í febrúarlok og skammvinnt hret í maí þannig að veður var ekki fullkomið. Hiti var í meðallagi í febrúar, en annars voru allir aðrir mánuðir til og með ágúst hlýir. September var í meðallagi, en október var kaldur. Nóvember og desember urðu svo sérlega kaldir, desember kaldastur allra.
Kuldinn í nóvember og desember sló á ársmeðalhitann þannig að hann varð ekki nema 4,3 stig í Reykjavík og 3,8 stig í Stykkishólmi. Þótti allgott samt á þessum árum. Ekki var farið að mæla á Akureyri en giskað er á að ársmeðalhiti þar hafi verið 3,5 stig. Meðalhiti ágústmánaðar reiknast 14,0 stig austur á Valþjófsstað í Fljótsdal - nokkuð óviss tala en sýnir samt hin óvenjulegu hlýindi þessa sumars. Meðalhiti í júlí var 12,3 stig í Stykkishólmi. Það met stendur enn, meðalhiti var þar 12,0 stig í ágúst, met sem stóð til ársins 2003. Sama á við um ágúst í Reykjavík, þar var meðalhiti ágústmánaðar 1880 12,4 stig og varð ekki hærri fyrr en 2003.
Eins og árin á undan var athugunarnetið nokkuð gisið - en var þó að þéttast. Hæstur mældist hitinn á Valþjófsstað 21.júlí, 24,5 stig, en mest frost á Saurbæ í Eyjafirði 14.nóvember, -24,0 stig.
Hér má sjá daglegt hitafar. Efri línan (oftast) sýnir hæsta hita hvers dags (ekki hámarkshita) í Reykjavík, en sú neðri meðalhita hvers dags í Stykkishólmi. Vorhlýindin vekja athygli. Hæsti hiti dagsins var nærri 10 stigum í Reykjavík hvað eftir annað síðari hluta marsmánaðar. Kuldinn í desember var gríðarlegur. Átján dægurlágmarksmet sem sett voru 1880 standa enn í Reykjavík, þar af fjögur í nóvember og 11 í desember, öll sett eftir þann 12. Tvö dægurhámarksmet standa enn frá þessu ári, 19.mars og 18.júní (þó var hámarkshiti ekki mældur þessa daga). Kaldir dagar í Reykjavík eru 23, þar af 13 í desember, mjög hlýir dagar voru fjórir. Í Stykkishólmi voru hlýju dagarnir 9. Listi yfir þessa daga er í viðhenginu.
Loftþrýstingur var sérlega hár í október, meðaltalið það hæsta sem vitað er um í þeim almanaksmánuði. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Vestmannaeyjum 1.janúar, 940,0 hPa, en hæstur á Akureyri 19.október 1043,3 hPa.
Úrkoma var í upphafi árs aðeins mæld á þremur stöðvum, í Stykkishólmi, á Djúpavogi og í Grímsey. Á síðastnefnda staðnum voru mælingar óöruggar, mælirinn virðist hafa verið illa staðsettur og mældi snjó sérlega illa. Farið var að mæla úrkomu á Eyrarbakka í júní og í Vestmanneyjum í nóvember. Júlímánuður var þurr á stöðvunum og október óvenjuþurr á Djúpavogi. Janúar var hins vegar úrkomusamur.
Hér að neðan eru dregnar saman helstu fréttir af veðri, tíð og veðurtengdu tjóni á árinu 1880 og vitnað í samtímablaðafréttir og fleira. Stundum eru þær styttar lítillega og stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Sem fyrr má finna tölulegt yfirlit í viðhenginu.
Jónas Jónasson stud theol ritar í Fréttir frá Íslandi:
Tíðarfar á þessu ári var lengst af hið æskilegasta, svo að lengi hefir ei jafngott verið. Veturinn var svo blíður og inndæll, að varla festi snjó á jörð, en á Suðurlandi var hann nokkuð umhleypingasamur og óstöðugur. Á Norðurlandi var stöðugri tíð, og svo gott, að sauðir komu varla undir þak. Má til dæmis taka um veðurblíðuna, að nóvember, desember og janúar [1879-1880] var meðalhiti hér um bil -0,5°R í Norður-Þingeyjarsýslu, Jökuldal og Sléttu, og eru þau hlýindi næsta óvanaleg um þær slóðir. Tún voru orðin algræn og fögur löngu fyrir sumarmál, og vorið var eftir þessu hið blíðasta og fegursta. Sumarið var heitt og þurrt og hið æskilegasta til höfuðdags. Enn úr höfuðdegi tók að spillast veðurátt og gjörast óstöðugt og umhleypingasamt, og rigningar að koma á með köflum. Þó mátti haustið heita heldur gott, þar til spilltist algjörlega í október. Í miðjum október tók að snjóa á Norðurlandi, og rigndi stundum niður í og snjóaði svo ofan á aftur, svo að jarðir urðu litlar, og varð þá þegar að fara að taka flestan pening á gjöf. Óveður og stormar voru allajafna, og gjörðu víða skaða nokkurn, en þó var aðkvæðamest stórviðri það, er gjörði af útsuðri 10. dag desembermánaðar, einkum á Suður- og Vesturlandi. Það byrjaði kveldið fyrir og hélst alla nóttina, og hafði víða gjört tjón mikið, bæði á húsum og öðru. Bryggjur og skíðgarðar sópuðust á burt úr Hafnarfirði og Reykjavík, skip og báta tók víða í loft upp, og sló þeim niður aftur mölbrotnum; brotnuðu í veðri þessu eigi færri enn 7 sexæringar í Minni-Vogum, 6 ferjur á Akranesi og mörg skip á Álftanesi og víðar. Á Vatnsleysuströnd tók upp þiljubát, sem var í smíðum, og bar veðrið hann um 300 faðma yfir grjótgarða og skíðgarða, svo að hann kom hvergi við, en mölbraut hann síðan, er niður kom. Heyskaðar urðu nokkrir á Suðurlandi, einkum fyrir austan fjall, og sama var að segja af Vestfjörðum; þar höfðu víða hjallar fokið með munum og matvælum og varð ei eftir af það er sæist. Eigi gjörði veður þetta mikið tjón á skepnum, því að svo vel vildi til, að veðrið skall á að nóttu til, svo að fénaður var byrgður. Veður þetta varð allmikið á Norðurlandi en gjörði þar eigi skaða, svo að orð sé á gjöranda. Um jólin voru frost mikil á Norðurlandi, stundum um -24°R, en á Suðurlandi 1215 stig. Milli jóla og nýárs voru einlægir norðanstormar og hríðar, og rak þá inn hafþök af ís fyrir öllu Norðurlandi. Á gamlárskveld gjörði blota lítinn, en gekk upp í frost og hríð um nóttina, svo að hinar litlu snapir, er voru á einstöku stöðum til, huldust alveg óvinnandi gaddbrynju, sem engin skepna gat á unnið.
Skepnuhöld voru með besta móti þetta ár, sem ráða má af veðurblíðu þeirri, sem hvervetna var um land allt. Sauðir höfðu sumstaðar eigi komið í hús svo teljandi væri hinn fyrra vetur; um vorið gengu því allar skepnur alstaðar vel undan, og lambadauði var lítill sem enginn um vorið. Um sumarið mjólkaði kvífé heldur vel, en þó eigi svo vel sem ef til vill mætti við búast, þar sem vorið og sumarið var svo gott og blítt. En það var kennt hinum brennandi þurrkum, er gengu um allt land og þurrkuðu sumstaðar svo haga, að nær því varð vatnslaust með öllu. Um haustið skarst fé í góðu meðallagi en eigi miklu betur, og var það og kennt þurrviðrunum. Heimtur urðu góðar víðast um haustið.
Grasvöxtur varð svo mikill bæði á túnum og engjum þetta sumar, að um mörg ár hefir eigi slíkur verið. Tún urðu víða tvíslegin að mestu, og voru því töður manna með langmesta móti. Útengjar spruttu og ágætlega, nema síst mýrar þær, er þornuðu upp í hitunum og þurrkunum; en þar sem voru forarflóar var hið besta gras. Nýting á heyjum var hin besta til höfuðdags, og mátti svo segja, að hverju strái mætti raka þurru af ljánum í garð. Frá höfuðdegi gengu óþurrkar, og var mest af því heyi, er náðist inn eftir það, meira eða minna illa verkað, sumt hrakið og sumt illa þurrt. En þar eð það var svo seint sumars, og gras féll í fyrra lagi vegna þurrkanna og hins snemma gróðurs, gjörði það ekki mikið mein. Garðvextir, bæði kál, rófur og jarðepli spruttu hvervetna svo vel, að menn mundu varla dæmi til slíks.
Aflabrögð voru nokkuð misjöfn þetta ár sem vant er að vera kring um land allt. Vetrarvertíð fyrir Suðurlandi gekk heldur vel, en nokkuð var gæftalítið, svo að sjór varð ei sóttur að því skapi sem aflinn var til fyrir, þegar gaf; ... Silungsveiðar í ám voru víða heldur góðar en laxveiði sumstaðar nær engi.
(s81) Slysfarir eru fáar á þessu ári, og eru þessar hinar helstu: 9. dag októbermánaðar drukknuðu tveir menn á báti í fiskiróðri frá Skálavík í Ísafjarðarsýslu, og 27. dag sama mánaðar drukknuðu 3 menn með sama móti af Tjörnesi. 3. dag nóvembermánaðar fórst bátur á Eyjafirði með 3 mönnum á á leið frá Akureyri út að Glæsibæ; ... 22. dag sama mánaðar drukknuðu 7 menn á áttæringi á leið frá Reykjavík upp á Akranes; 9. dag desembermánaðar týndist skip með 7 mönnum af Vatnsleysuströnd, og 16. dag sama mánaðar fórst skip með 7 mönnum frá Hrólfsskála á Seltjarnarnesi. Þetta eru hinar helstu og merkilegustu slysfarir á árinu.
Janúar: Nokkuð úrkomusamt syðra með umhleypingum, en yfirleitt mjög hagstæð tíð.
Jónas Jónassen tekur saman veðurlag í Reykjavík í janúar og birtist það í Þjóðólfi 9.febrúar:
Allan mánuðinn má heita að veðurátta hafi verið mjög óstöðug og umhleypingasöm. Fyrsti dagur ársins byrjaði með norðanveðri og blindbyl mestallan daginn, en það stóð að eins í 2 daga, því svo breyttist veður ýmist til landsynnings ýmist til útsynnings með éljagangi þangað til 11., þá var veður bjart og kyrrt og úr því mesta stilling, en henni fylgdi mjög mikil þoka í samfleytta 5 daga. Síðan oftast útsynningur, oft með miklum éljagangi og brimi til sjávarins. Nokkur snjór hefur fallið, en að mestu leyti tekið burt aftur í landsunnan rigningum. Síðasta dag mánaðarins féll mikill snjór með útsynningi. [Þann] 3. skall á með þrumugangi og eldingum, og sló einni þrumunni niður annaðhvort hér í bænum eða rétt hjá honum.
Fróði segir þann 10.:
Með nýárinu gekk i norðaustanátt með talsverðri snjókomu, en hún varaði aðeins 2 daga, gekk þá aftur í sunnanátt, og hefir þessa viku ýmist verið lítið eða ekkert frost, og snjóinn nokkuð tekið.
Skuld segir stuttlega þann 14.: Hér eystra blíðasta tíð það af er vetrar.
Þann 29. segir Þjóðólfur fréttir af veðri - einkum fyrir norðan:
Að norðan og austan er allt nýmælalítið: veðrátta, heilsufar og fjárhöld allt í besta lagi. Í bréfum úr Eyjafirði frá 12. og 13. þ.m. stendur: Vetur hinn besti, kuldi -35°R, en aftur hiti (+ 4 8°R.), en stormar og rigningar allmiklar norður að Vaðlaheiði, en stilltara og þurrara veðurlag úr því. Fiski allgott við Eyjafjörð, en ágætt í austursýslum. Hér syðra gengur umhleypingatíð.
Norðanfari segir af illviðri í pistli þann 30.janúar:
Hinn 21. þ.m. gjörði hér við Eyjafjörð aftaka mikið veður af suðvestri, skemmdust hús á nokkrum stöðum; bátar 2 í Svarfaðardal og 1 í Glæsibæjarhrepp fuku svo ekkert sást eftir af, fleiri bátar brotnuðu. Þilskipið Pólstjarnan", er stendur ásamt fleiri skipum á Svalbarðseyri, fauk á hliðina og brotnaði við það annað mastrið i henni. Eigi höfum vér enn haft spurnir af að fleiri skaðar hafi orðið að veðri þessu.
Skuld birti þann 30. bréf úr Vopnafirði, dagsett 17.janúar:
Veðrátta hefir verið hér eins og allstaðar, sem til fréttist, hin indælasta; jörð má marauð heita bæði til sveita og heiða, því þótt dálítið snjóáfelli gerði um nýár, hefir mestan snjó tekið síðan. Skepnur manna eru hér um bil í haustholdum, lömbum samt gefin hálf gjöf síðan um jól.
Norðanfari segir þann 24.febrúar frá tíð á Suðurlandi, eftir bréfi sem dagsett var 2.febrúar:
Veðurátta verið mjög rosa- og umhleypingasöm, til þess að stillti til með þorratungli um tíma, en með þorranum gekk í útsynningshríðar, stundum með frosti. Um jólin var afarillt og á nýársdag varla fært húsa á millum fyrir stormi og vatnskrapahríð, en snjó til fjalla, og fennti fé í Mýrdal, undir Eyjafjöllum og efst í Mosfellssveit.
Febrúar: Kuldakast síðustu dagana, en annars hagstæð tíð.
Ísafold birti þann 6.mars yfirlit Jónasar Jónassen um veðurlag í Reykjavík í febrúar:
Þótt veður væri nokkuð stöðugra í þessum mánuði en í janúarmánuði, þá má þó svo segja, að það hafi verið óstöðugt, þar sem hann sama daginn oft hefir verið á tveim áttum, hvass að morgni, logn að kveldi, eða hið gagnstæða. 5 fyrstu daga mánaðarins var útsynningur, oft hvass með éljum og talsverðri snjókomu, að kveldi oftast genginn í landsuður. 6. hægur að morgni á austan með nokkurri rigningu, að kveldi genginn í norður, og var nokkuð hvass á norðan 7. (með byl til sveita); 8. landnorðan hægur með mikilli snjókomu og 9. aftur hvass á norðan með byl að morgni; 10. hægur en 11. aftur mjög hvass á austan landnorðan með slettingsbyl, heiðskír og hægur að kveldi með rosaljósum; 12. hvass á landi, að kveldi rok á útsunnan með hryðjum; 13 aftur hægur á útsunnan, en að kveldi hvass á austan og 14. mjög hvass á austan landnorðan með nokkurri rigningu; 15. hægur á sunnan, veður bjart, að kveldi landnorðankaldi; 16. logn að morgni, en austangola að kveldi; 17. hægur við norður 18.20. hvass á norðan; 21. landnorðangola að morgni, landsynningur að kveldi með rigningu og 22. hvass á landsunnan með mikilli rigningu, en gekk í útsynning að kveldi; 23. og 24. útsynningshroði, hvass mjög með köflum; 25. besta veður, kyrrt, bjart og sama veður 26. en hvessti þá um kveldið á austan; 27. genginn í norður með byl; 28. og 29. norðan, nokkuð hvass. Nóttina milli 11. og 12. heyrðust hér þrumur.
Þjóðólfur segir þann 27.:
Veðrátta gekk fremur stirð fyrri hluta þessa mánaðar með fannkomum og áfreðum, en betri síðan. Hið besta útlit með fiskiafla hér fyrir nesjunum og eins suður með, og hafa flestir aflað vel í hvert sinn og róið hefir verið í þessum mánuði. Mildur en þó umhleypingasamur vetur eins á Norðurlandi.
Norðanfari segir þann 13.:
Veðurátta má heita að sé hin sama, sem að undanförnu í vetur, nema dag og dag, sem umskiptir til hins lakara, 7. og 9. þ.m. gerði hér talsverða hríð af norðri með mikilli snjókomu, en birti aftur upp báða dagana þá fram á daginn kom; færðin kvað nú erfið sem stendur og illkleyf fyrir hross í giljum.
Skuld birti þann 6.mars bréf úr Mjóafirði, dagsett þann 14.febrúar:
Einstakur hefir þessi vetur verið að gæðum, snjóleysi og veðurblíðum, svo að enginn man eftir svo góðum vetri. Á þorranum hefir tíðin verið að sönnu óstillt og hretviðrasöm, þó snjólítil, og fáir búnir að taka lömb.
Þjóðólfur segir af febrúartíð þann 12.mars:
Veðráttan í febrúarmánuði hefir oftast verið umhleypingasöm og stirð; fyrstu vikuna lengstum útsynningar með landsynning á kvöldin. Næstu vikuna var oftast norðanátt með köföldum til sveita, en stundum á austan; 3. vikuna á ýmsum áttum, oftast þó sunnan, og líku viðraði 4. vikuna, nema síðustu dagana var norðanátt allhvöss.
Fróði birti þann 16.apríl tvö bréf dagsett í febrúar:
Rangárvallasýslu, 14.febrúar: Rosa-veðráttan, sem hófst með veðraskiptunum 20 vikur af sumri, hefir haldist til þessa, þó með þeim mismun, að fram til jóla rigndi meira enn snjóaði, en síðan hefir mikið snjóað en lítið rignt öðru enn ísingu, þar til nú síðustu dagana að hláka hefir verið. Frost hafa raunar verið lítil, en lítið hefir verið um útbeit síðan fyrir jól, að minnsta kosti í hinum hálendari sveitum, bæði hér og ekki síður í Árnessýslu, því í útsynningum, eins og nú hefir verið, er snjókoma því meiri sem hálendara er. Færð hefir verið ill víða, því jörð hefir verið þíð undir snjónum. Mun póstur hafa fengið að kenna á því, svo og vermenn er farið hafa á þessu tímabili, enda hafa sumir frestað ferðinni og beðið betra færis er annars væri farnir.
Barðastrandarsýslu, 12. febrúar: Héðan af Vesturlandi er lítið að frétta; það sem af er vetrinum hefir tíðin verið mjög óstöðug og umhleyp[ingasöm]. Viðarreki hefir verið mikill í vetur um Rauðasand, Barðaströnd og Eyjahrepp og er það nýlunda.
Þann 13.mars birti Skuld nokkur bréf með stuttum tíðarfarsfréttum:
Húsavík, Þingeyjarsýslu 17. febrúar: Sama öndvegistíð enn, sem verið hefir í allan vetur. Austur-Skaftafellssýslu, 24.febrúar: Sama öndvegistíð hér í allan vetur, frostalaust og snjólaust að kalla má, en hrakviðrasamt nokkuð síðan jól. Breiðdal, 1. mars: Tíðin svo góð í vetur, að enginn man annað eins, enda þurftu menn þess eftir heyleysis-sumarið, og verður þó víst flestum fullörðugt, ef hart fellur vorið.
Fróði birti þann 31.mars bréf dagsett í febrúar í Kjalarnesþingi:
Héðan er helst að frétta óhemju votviðri, sem heita má að staðið hafi sífellt síðan viku fyrir réttir; hafa hús og hey skemmst stórlega og töluvert fallið af skriðum t.d. í Kjós.
Mars: Nokkuð kalt fyrstu dagana, fram til þ.10, en síðan afbragðstíð og óvenju hlýtt.
Þjóðólfur lýsir marstíð í Reykjavík í pistli þann 14.apríl:
Fyrstu daga mánaðarins var hann ýmist á norðan eða landnorðan, kaldur, oft hvass og 6. var blindbylur mestallan daginn á austan landnorðan og hélst hann þar til sunnudaginn 7. að hann gekk í landsuður með rigningu og hefir síðan mátt heita að hann einlægt hafi verið á austan landsunnan, stundum hvass, stundum hægur með mikilli rigningu. 25.- 28. var hér oft logn og bjart veður, síðan aftur austan landssunnan með nokkurri úrkomu. Síðan 8. hefir hér eigi sést snjór. Síðan 10. hefir hér ekki frosið að undantekinni aðfaranótt hins 13. þá var 2° frost.
Þjóðólfur birti þann 22.apríl bréf af Skógaströnd, dagsett 4.mars:
Tíðarfar mjög umhleypingasamt, en með frostaminnsta móti; jarðbönn eða mjög hagskarpt viða um Snæfellsnessýslu og Breiðafjarðardali, og lítur út fyrir, að vetrarfarið verði í þyngsta lagi í stöku stað.
Skuld segir þann 6.mars:
Helstu fréttirnar eru það, að vér höfum nú loksins fengið vetur. 26. [febrúar] gekk hann í garð með norðan-grimmd, 8° frosti, og daginn eftir 13°R. Svo dró úr frostinu, áttin austraði sig, og tók að kyngja niður snjó, og er nú yfir allt hið mesta fannfergi og fjallvegir allir lítt færir eða ekki, nema ef vera skyldi á skíðum. Póstur átti að koma hingað í dag (4.), en það er allt útlit á að það dragist, því líklegt er að hann hafi hreppt illa færð og líklega teppst i veðrunum. Allt fram að þessu hefir veturinn verið einmuna-mildur, þó umhleypingasöm hafi verið tíðin stundum. Sumstaðar hér í Fjörðum mun eigi hafa verið farið að kenna lömbum át, er áfellið kom nú.
Skuld segir þann 13.:
Hér hefir hlánað aftur vel eftir áfellið eystra; mild sunnanátt síðustu daga.
Fróði birti 16.apríl bréf úr Mýrasýslu, dagsett 18.mars:
Sumarið næstliðna var eitt hið besta, heyja-afli í betra lagi að vöxtum og í besta lagi að gæðum; veðuráttan breyttist í september til votviðra sem héldust að mestu leyti til ársloka; í október og nóvember hinar mestu rigningar sem menn muna, skemmdist ákaflega hey, eldiviður og fleiri hlutir. Í desember vægari rigningar, en snjóaði með köflum. Það sem liðið er af þessu ári má heita góð tíð, í janúar snjóa-lítið, en hörð frost stöku sinnum; í febrúar meiri snjór, oftast frostlítið, en stöku sinnum hart frost, komu þá allar skepnur á gjöf að fráteknum stöku hrossum, er eigi enn þá hafa þau réttindi; gengu hey upp í mesta lagi og urðu mjög ódrjúg vegna skemmda. Fyrstu 5 daga af mars, hvass landnyrðingur og hart frost, en síðan blíðustu sumarveður, sunnan átt með hægustu leysingu.
Fróði birti þann 20.apríl bréf úr Húnavatnssýslu, dagsett 23.mars:
Tíðin hefir verið hér í vetur mjög rosa- og umhleypingasöm en frostalítil; útigangspeningur er því heldur magur orðinn, og hey hafa mikil gefist, enda hafa þau reynst mjög létt nema taðan, sem hefir reynst með besta móti. Síðan í miðgóu hefir verið hér hin indælasta tíð, hláka og sunnanátt, er því sumstaðar farið að vinna á túnum og sumir farnir að slétta, stöku menn búnir að sleppa fé sínu.
Þjóðólfur segir almennar tíðarfarsfréttir þann 22.:
Einstaklega mildur og frostalítill vetur yfir allt land, þó miklu mildari í norður og austurhlutanum, því hér syðra hefir lengst af gengið umhleypingatíð, með hrakviðrum og enda snjóum með köflum; fénaður, sem beitt hefir verið, hefir og illa haldist við víða. Það virðist vera sannreynt, að sunnlenskt sauðfé þolir óvíða útigang þótt jörð sé auð, ef hrakviðri ganga. Af bréfi norðan af Sléttu (frá sjálfum norðurbaugi hnattarins) sjáum vér, að meðalhiti þar fyrir mánuðina nóv., des. og jan. hefir verið -0,5°R og mun fátítt mjög. Úr Axarfirði er oss skrifað: Óvenjulega snjólítill vetur en þó umhleypingasöm veðurátt. Bráðafár stingur sér hér niður, og hefir það sjaldan komið fyrir fyrri hér í skóg- og kvistlandi. Úr Jökuldal skrifar merkur maður oss: Langt er síðan að vér Austfirðingar höfum séð jafngóðan vetur; til jóla gat varla heitið að kæmi snjóföl í heiðum, því síður í byggð, og má heita ársæld hin mesta hjá oss til lands og sjóar. Allt fyrir það bryddir enn á vesturfararhug, helst í Vopnafirðinum, sem þegar hefir fengið mikinn hnekki við burtflutninga. Mikið skipast til hér í öskusveitunum, þótt mikið vanti enn á heyskapinn; hann er ekki enn það hálfa við það sem var. Fé verður samt mjög feitt, sem á öskunni gengur.
Norðanfari segir þann 24.mars:
Tíðarfarið hefir verið hið blíðasta síðan öndverðlega í þ.m., stöðug sunnanátt og þíður, svo nú er alveg öríst hér um sveitir og norður undan það spurst hefir.
Fróði segir þann 31.mars:
Úr Skaftafellssýslu er að frétta sömu öndvegistíð, nema nokkuð rigningasamt. Í vesturhlutanum einkum Mýrdal og Skaftártungu snjómeira seint í febrúar en í austurhlutanum.
Apríl: Mjög hlý og hagstæð tíð.
Þann 21.maí birti Ísafold tíðarfarsyfirlit aprílmánaðar í Reykjavík (eftir Jónas Jónassen), sama yfirlit birtist í Þjóðólfi þann 29.maí):
Fyrst framan af mánuðinum var veður hvasst á austan (landnorðan) með snjókomu til fjalla (2. var fjarskalegt rok á austan í nokkra klukkutíma), svo nokkra daga á norðan(5. 6. 7.). Síðan oftast ýmist við suður eða landsuður með nokkurri rigningu og stundum hvass; 8.11. var vindur sunnanlands stundum hvass; 12. og 13. á vestanútnorðan með miklum brimhroða og snjókomu til fjalla og hér varð jörð alhvít aðfaranótt hins 13; 14.21. hægur á landsunnan eða austan og vanalega bjart veður; 21.23. vestanútnorðanhroði mikill. 24. genginn í norður en hægur; 25. logn og fagurt veður; 26.30. 1andsynningur oft hvass og stundum með talsverðum rigningarskúrum.
Skuld birti þann 30.apríl bréf ritað undir Eyjafjöllum 2.apríl:
Vetrarfarið hefir mátt heita hér harðindalítið og frostalítið, og það svo, að jörð er með öllu klakalaus; eigi að síður hefir veturinn verið gjaffeldur sökum hrakviðra og áfreða, snjókrassa og þrávarandi storma, sem bakað hafa mestu ógæftir með allri sjávarsíðu.
Skuld segir af góðri tíð þann 7.apríl:
Tíðarfarið hér eystra hefir í vor verið ómunablítt, orðið snjólaust að kalla um allt um páska [28.mars] og tekið að gróa og grænka í byggðum. Fram um páska voru hitar miklir af og til (stundum 8 til 9 gr. í forsælu og 22 til 26 gr. sólarsinnis) og molluþokur og mistur með stillingum ýmist eða hægri sunnanátt. Eftir páskana gerði rosarigningar með austanátt og hefir það haldist til þessa (4.apríl), en þó er nú tekið að blíkka veðrið og linna rigningin. 3. þ.m. fölvaði litla stund svo gránaði ofan fyrir miðjar hlíðar, en fór jafnskjótt að taka upp aftur. [Hér má til gamans taka fram að óperan fræga Cavaleria rusticana gerist á páskadag 1880].
Þann 10.apríl greinir Skuld frá hlýindum:
Eskifirði, 9.apríl. Lengra að fréttist ekkert. Veðrið hefir nú snúist til einstakrar blíðu. Í gær [8.apríl] gekk hann til vestanáttar síðari part dags með miklum hita í vindinum, þó sóllaust væri. Kl. hálf-níu í gærkvöld var snarpur vestanvindur með nærri 10 gr. hita. Í morgun kl. 7 1/2 var 11 gr. hiti í forsælunni og síðan, er hann hvessti meir og sneri sér til suðurs, steig hitinn til 13°R [16,3°C], og hefir þó eigi sól séð.
Þjóðólfur segir þann 14.apríl:
Hvað þíður og hlýindi snertir, má vetur þessi kallast annálsverður, eins og sýna veðráttuskýrslur vorar. Þó hafa sjógæftir verið stopular það sem af vertíðinni er liðið. 2. apríl hvolfdi báti héðan úr bænum í austan roki, rétt fyrir utan Akurey; týndust 2 menn en 2 varð bjargað.
Þann 9.júní birti Fróði bréf úr Vestmanneyjum, dagsett 25.apríl:
Tíðin hefir verið hér mjög stormasöm í allan vetur og sífeldar rigningar, en varla komið snjór né frost. Sjógæftir hafa verið stirðar og þar af leiðir aflaleysi.
Maí: Allsnarpt kast í kringum þ.25., en annars mjög hagstætt tíðarfar.
Maíyfirlit Jónasar Jónassen birtist í Þjóðólfi og Ísafold 8.júní:
Hina 4 fyrstu daga var útsunnanátt, stundum hvass með miklum brimhroða, svo 1 dag bjart veður og hægur á norðan; síðan ýmist sunnan- landsunnan hægur með nokkurri rigningu eða bjart veður og logn til hins 17., að hann hvessti á landsunnan með mikilli rigningu, eu gekk strax til útsuðurs með brimhroða og skúrum, oft hvass, stundum snjóaði svo, að jörð varð alhvít, stundum með haglhryðjum einkum 23.; 24.28. á norðan hvass og kaldur með byl til sveita og allan daginn hinn 26. ýrði snjór hér úr lofti; 28. var hér bjart veður hæg útræna, er síðari hluta dags gekk til útsuðurs, hægur; 29.31. hægur á landsunnan með nokkurri úrkomu.
Fróði birti þann 9.júní bréf úr Breiðdal, dagsett 11.maí:
Sama veðurblíðan og áður, sem haldist hefir veturinn út og eins síðan sumarið byrjaði, nema hvað snarpari kuldaköst hafa komið síðan það byrjaði. Þessi kuldaköst eru orðin þrjú; hið fyrsta kom um kongsbænadaginn [23.apríl], annað um krossmessuna og hið þriðja um uppstigningardaginn [6.maí], fraus þá töluvert, 46 stig á Reaumur. Ekkert er hægt að finna að þessari tíð annað enn það, að hún er of þurr fyrir gróður og grasvöxt, þar sem vatnsveitingar eru því miður eigi nógu almennar, eður eins víða og þær mættu vera. Kýr voru leystar út víða með byrjun þessa mánaðar, eigi af heyskorti heldur vegna veðurblíðunnar, og munu þau dæmi fá, að kýr hafi hér gengið jafnsnemma úti. Heyfyrningar eru líka með mesta móti eftir veturinn, enda þótt hey væri með minnsta móti í haust.
Þann 21.maí segir Þjóðólfur:
Reykjavík 2. dag hvítasunnu [17.maí]: Eftir einhvern hinn mildasta vetur hefir til þessa gengið yfir oss óvenjulega blítt og indælt vor og veðurblíðunni fylgt öll önnur árgæska: stök heilbrigði manna, bestu skepnuhöld og hvað nálega allt suðurlandið snertir, framúrskarandi fiskiár. Upp í landsteina, inn í innstu víkur og voga hefir hin mikla auðlegð gengið mönnum í greipar, og afli sá, sem kominn er á land hér við allan flóann innanverðan, er að sögu gamalla manna orðinn einhver hinn almennasti og mesti að upphæð, sem komið hefði á land á einni vertíð um langan tíma.
Norðanfari birti þann 13.júlí bréf úr Austur-Skaftafellssýslu, dagsett 30.maí:
Vetrarfarið svo gott, að elstu menn muna eigi slíkt. Kvef og krankleikar hafa allajafna gengið hér í vetur og vor, en fáir andast. Fjárhöld fremur góð nema sumstaðar fórst úr fári. Heybjörg var neyðarlítil í haust en samt komust allir vel af og gróður kom snemma á einmánuði enda er flest fé úr ullu gengið. Næstliðna viku var hér snjókoma og kalsaveðrátta með talsverðu frosti, en í gær var besta veður og væta. Aflabrögð hafa hér í sýslu svo að segja engin verið þessa liðnu vertíð og þykir það mestu furðu gegna í svo góðri tíð, sem stöðugt hefir gengið.
Júní: Sérlega hagstæð tíð.
Þann 16.júlí birti Ísafold yfirlit Jónasar Jónassen um tíðarfar í Reykjavík í júní - yfirlitið birtist einnig í Þjóðólfi 26.júlí:
Þennan mánuð má segja, að veður hafi yfir höfuð verið einstaklega hlýtt og gott; fyrstu viku mánaðarins var veður stillt (oftast logn) með talsverðri úrkomu; 8. var hvasst á norðan, en svo aftur hægur, ýmist á austan eða sunnan með rigningaskúrum, þangað til 18., að hann var hvass á austan, en bjart veður; síðan var veður bjart og stillt til hins 24., að hann gekk til landsuðurs í nokkra daga, svo aftur logn eða útræna og besta veður.
Fróði birti þann 12.ágúst bréf úr Ísafjarðarsýslu, dagsett þann 2.júní:
Svo ég fylgi gömlum sið, þá er fyrst að geta veðráttunnar. Hún hefir verið hér, eins og víst um allt þetta land í vetri var, einhver hin mildasta er menn muna. Hinar fáu frostíhleypur sem komu stóðu sjaldan lengur enn rúman sólarhring, og frost mun hafa verið mest 12°R [-15°C]. Einkanlega var síðari hluti marsmánaðar og svo að segja allur apríl sérlega mildur, enda var hitinn alloft 8 l/2°R [10,6°C] í skugganum. Þrátt fyrir þessi miklu hlýindi hafa hér gengið bæði í vetur og vor miklir umhleypingar og stormar, einkum hvað sjóinn snertir, og mjög sjaldan komið lognstund dægri lengur. Þetta er hér nýlunda um jafnlangan tíma, því venjulega er hér regnlítið, og staðviðri miklu langvinnari heldur enn á Suðurlandi og í syðri hluta fjórðungs vors. Gróður er því kominn hér hinn álitlegasti, sem ég man eftir á þessum útkjálka, jafn snemma á vori.
Norðanfari birti 5.júlí bréf úr Miðdölum í Dalasýslu, dagsett 5.júní:
Tíðarfarið er hið æskilegasta og það síðan í miðgóu, heyfyrningar með mesta móti, skepnuhöld víðast góð, gróður kominn jafnt og á Jónsmessu þegar vel vorar, góða tíðin hefir á mörgum stöðum verið notuð til jarðabóta, kálgarða- og húsabygginga, og það byrjað á einmánuði; víða á sumarmálum búið að vinna á túnum.
Norðanfari birti þann 25.júní bréf úr Seyðisfirði, dagsett 12.júní:
Veturinn var einmuna góður. svo að dæmi til slíks vetrar, mun eigi hafa verið síðan seinasta aldamótsveturinn [1800 til 1801 væntanlega]. Ég gaf lömbum inni 2 vikur og ám í l 1/2 viku, sumstaðar var lömbum eigi kennt át. Kýr voru viða leystar út fyrir sumar, og það jafnvel 2 vikum, og til vissi ég að kýr voru leystar út ú 2 eða 3 bæjum á góu; það má því hafa verið dæmalaust skeytingarleysi hafi nokkur orðið bjargþrota af heyi í slíkum vetri, og samt mun það eigi dæmalaust. Núna fyrir farandi, hefir verið norðaustan kuldahret. Afli kom hér snemma i vor, en fremur hefur hann verið lítill til þessa.
Júlí: Óvenju hagstætt tíðarfar, þurrkar víða.
Yfirlit Jónasar Jónassen um veðurlag í Reykjavík í júlí birtist í Ísafold þann 18.ágúst [og í Þjóðólfi þann 26.]:
Eins og í undanfarandi mánuði hefir veðuráttan þennan mánuð verið einstaklega blíð og stillt. Fyrstu 5 daga mánaðarins var veður bjart og logn, aðeins nokkur úrkoma hinn 4.; 6. og 7. var norðankuldi en úr því oftast logn til hins 14. að hann gekk til suðurs, en þó lygn með nokkrum sudda í 2 daga, svo aftur bjart veður og stillt með lítilli úrkomu við og við á landi, þangað til 25. að hann gekk til norðurs, oftast hægur og bjartasta veður (hvass 29. á norðan).
Norðanfari birti þann 17.ágúst bréf dagsett á Suðurnesjum 1.júlí:
Tíðarfar eitthvert hið besta og blíðasta er menn muna. Aflabrögð af sjó hafa verið þau bestu síðan í vor og mest af þorski, en síðan kaupafólk lagði af stað, eru menn hættir að stunda sjóinn, því að nú eru allir í óða önn að koma frá sér fiskinum í kaupstaðina og þá er komið að því að menn byrji sláttinn. Tún eru sprottin í góðu meðallagi, og sumstaðar ekki.
Í sama blaði [17.ágúst] eru tvö bréf úr Skagafirði og eitt úr Vestur-Ísafjarðarsýslu:
[Skagafirði 3.júlí] Nú um tíma hafa hér verið miklir þurrkar en frost um nætur.
[Skagafirði 30. júlí] Héðan er ekkert að frétta, nema eins og allstaðar að, góða og indæla tíð, heilsa og heilbrigði yfir höfuð hér i sveit. Grasvöxtur mun vera, að undanteknum flæðiengjum, í rýrara lagi; tún í meðallagi sprottin, þar sem þau eru raklend og jafnvel sumstaðar í betra lagi, en þar sem harðlend tún eru, er viða kominn í þau maðkur og brunnið mjög af hólum og harðvelli. Eftir því sem leit vel út fyrri part vorsins að yrði gott grasár, þá hafa þeir langvinnu þurrkar sem verið hafa, gjört það að verkum, að það varla mun mega heita í meðallagi.
[Vestur-ísafjarðarsýslu 31. júlí] Öndvegistíð hefur mátt heita síðan í endaðan maí, tún sprottin í betra lagi í öllum vesturparti sýslunnar og sumstaðar eins og þá best hefur verið, en í norðursýslunni miður. Nýting á töðu hin besta. Fiskiafla á vorinu, getur maður kallað í meðallagi hér vestra; þó við Ísafjarðardjúp hafi hann verið mjög misjafn, þá hafa þó margir þar náð allháum hlutum, þeir hæstu saltað úr 4050 tunna af salti.
Fróði birti þann 20.júlí bréf úr Reykjavík, dagsett þann 9.:
Hér ganga sífelld góðviðri, stillingar og hitar miklir, bæði næstliðinn mánuð [júní] og það af er þessum, hefir hitinn náð hæst á 16°R [20°C], en heldur hefir verið lítið um skarpa þerrira, nema fyrstu dagana af mánuði þessum.
Fróði birti þann 12.ágúst bréf úr Skaftafellssýslu, dagsett 11.júlí:
Sama öndvegistíðin hér í sýslu sem annarstaðar. Síðara hlut vorsins hefir að vísu verið fremur þurrkasamt, og kuldakast upp úr Trínitatis [23.maí] kippti mikið úr gróðri og spillti einkum vexti á kálrófum, sem þá var nýsáð. Þó eru hér tún og flest harðlendi í besta lagi vaxið, og mun allstaðar vera farið að slá; votengi hefir dregist aftur úr.
Fróði segir frá tíð á Akureyri og grennd þann 20.júlí:
Það sem af er þessu sumri hefir verið heitt. Kuldaköst komu að sönnu stöku sinnum í vor, það síðasta í öndverðum júní. Síðan hefir hver dagurinn verið öðrum heitari oft 15°R í skugga. Alltaf hafa verið þurrviðri og mjög sjaldan rignt, grasspretta hefir því eigi orðið eins góð og ætla mætti, tún eru að vísu víðast með betra móti og sömuleiðis vatnsveitingaengjar, aðrar engjar eru aftur víða varla í meðallagi ennþá. Almennt var byrjað að slá 12 vikur af sumri.
Þann 31.júlí birti Fróði bréf úr Borgarfirði, dagsett 15.júlí:
Héðan er að frétta hina sömu árgæsku til lands og sjávar sem hvaðanæva spyrst. Veturinn eymunagóður; að vísu allmiklar rigningar framan af, en síðara hluta vetrar og vorið allt hefir verið æskileg veðrátta; í júní og júlí daglegur hiti 1416°R., og einstöku sinnum 20°; skúrir alloft, svo grasið hefir þotið upp; tún jafnvel sprottin á krossmessu sem vanalega í fardögum, og var sumstaðar byrjað að slá þau um jónsmessu. Gróðfiski í öllum veiðistöðum. Akurnesingar, sem i hitt eð fyrra voru á dauðans nöfinni, hafa nú full hús matar og geyma meginið af sölufiski sínum til 25. ágúst að minnsta kosti.
Þjóðólfur lofar tíð þann 28.júlí:
Veðráttan hefir til þessa verið öndvegistíð til lands og sjávar, mjög líkt sem í fyrra sumar. Grasvöxtur yfir höfuð góður, nema á starengjum í minna meðallagi. Þorskafli, einkum á þilskipum, með mesta móti, nálega hvervetna fyrir sunnan og vestan land. Hjá Frökkum hér við land er því hið mesta veltiár. Bæði hér syðra og fyrir vestan kvarta menn um skemmdir á saltfiski sökum sólbruna.
Ísafold segir af grasvexti og tíð á Suðurlandi þann 30.júlí:
Grasvöxtur er sunnanlands yfir höfuð góður á túnum og vallendi, en bágur á útjörð. Í Flóanum sjást sumstaðar enn þá ljáför frá því í fyrra sumar. Síst eru tún í Skaftafellssýslu enda hafa þar til skamms tíma gengið breyskjuþerrar með hitum og sólskini. Vestar hefir í hálfan mánuð verið þerrilítið með mollum og deyfum. Heilsufar allstaðar syðra gott manna á meðal. Laxveiði er góð í Ölfusá, en heldur lítil í Þjórsá.
Ágúst: Óvenju hagstætt tíðarfar, þó var mjög óþurrkasamt vestast á landinu og syðra voru einnig óþurrkar síðustu vikuna.
Yfirlit Jónasar um veðráttufar í Reykjavík í ágúst birtist í Þjóðólfi þann 11.september:
Fyrstu viku mánaðarins var oftast logn og bjart veður en úr því hefir verið mesta óþurrkatíð, því síðan 7. þ.m. hefir ýmist verið landsunnanátt eða útsynningur með mikilli úrkomu, stundum mátt heita ofsaveður með aftaka rigningu t.d. 27.
Norðanfari birti þann 17.ágúst bréf dagsett á Melrakkasléttu þann 8.ágúst:
Héðan er allt hið besta að frétta. Það er nú komið heilt ár, sem tíðin hér hefir verið svo góð og æskileg, að elstu menn (fæddir um og fyrir aldamótin [1800]) muna ekki annað eins árferði. Hér i Norður-Þingeyjarsýslu allri mega túnin heita ágæt, en engjar eru að minnsta kosti enn lélegar; nú voru þó vætur fyrri hluta hundadaganna, og geta því slægjur enn batnað. Í fyrra fór úthagi ekki að spretta í neinu lagi, fyrr en í ágústmánuði.
Skuld á Eskifirði segir þann 14.ágúst:
Tíðin hefir verið einstök hér eystra í sumar, einlægir hitar og varla eða aldrei komið dropi úr lofti fyrri en um mánaðamótin, sem leið, að dálítið rigndi; nú eru aftur þurrkar.
Fróði birti þann 27.september bréf frá Patreksfirði, dagsett þann 28.ágúst:
Grasvöxtur á túnum hefir verið góður, svo og á harðvelli utan túns, en allt votlendi hefir illa sprottið. Vætutíð hefir verið hin mesta í allt vor og það sem af er sumrinu, nema einn hálfsmánaðar tíma um túnasláttinn; eiga því allir hér um sveitir mikið hey úti; flestallir hafa enn eigi alhirt tún, svo eigi lítur vel út með heyafla, ef eigi batnar tíðarfar innan skamms, og mun hey sumstaðar þegar vera farið að skemmast nokkuð. Síðan um skipti í septembermánuði öndverðum í fyrrahaust má heita að sífelld sunnanátt hafi gengið, en það er hin mesta vætuátt hér, því þá stendur af Breiðafirði, og fylgja því ávallt köföld á vetrum eða önnur úrkoma, en rigningar og þokur á sumrin. Stormar hafa og verið tíðir. Vorið var því eitthvert hið mesta ógæftavor, og einnig hin mestu vandræði að þurrka fisk þann, er fékkst, en salt fæst hér oft eigi nóg í verslununum, til að salta fiskinn; maðkar hann svo niður og skemmist hjá fólki, þegar óþerri-vor koma. En þrátt fyrir ógæftirnar munu þó hér hafa orðið meðalhlutir, því þegar gaf, voru allir firðir fullir af fiski inn i innstu botna, og enn fiskast inni á firði hér, þegar það er reynt.
Norðanfari birti þann 9.október tvö bréf að vestan, dagsett seint í ágúst:
Úr Rauðasandshrepp í Barðastrandarsýslu 23.ágúst: Veðuráttufarið er hér jafnan mjög líkt og á Suðurlandi. Fiskur var hér, sem þar, nægur, en ógæftir miklar. Grasvöxtur í sumar hefir verið góður eða jafnvel í besta lagi á túnum og harðvellis-engjum, en slæmur á öllu votlendi. Óþerrar hafa verið sífelldir í allt vor og sumar, að einum hálfum mánuði undanteknum um næstliðin mánaðamót (júlí og ágúst) og eiga menn því almennt úti af heyi, sem liggur undir skemmdum, ef líkri tíð heldur fram lengur; víða mun taða eigi alveg hirt enn.
Af Ingjaldssandi í Ísafjarðarsýslu 31.ágúst: Tíðin hefir verið mjög votviðrasöm, aldrei komið þurr dagur í öllum ágúst; ekkert af útheyi svo teljandi sé komið í garð.
September: Óstöðugt og úrfellasamt.
Ísafold birti þann 13.október septemberyfirlit Jónasar Jónassen um veður í Reykjavík:
Fyrstu 4 dagana var oftast logn með talsverðri úrkomu; 5. og 6. bjart veður, norðangola; síðan í 3 daga sunnanátt með mikilli rigningu, svo aftur oftast logn og bjart veður frá 10.14; 15. og 16. útsunnan, hægur með talsverðum rigningarskúrum ; 17.20. mjög hvass á norðan (oft hvínandi rok), en úr því oftast hæg austanátt með vætu. [16. féll snjór í miðja Esju, en tók skjótt aftur.]
Í Þjóðólfi þann 22.september er bréf úr Rangárvallasýslu (ódagsett):
Síðan í byrjun ágústmánaðar hefir gengið hér rigningatíð til stórskaða og skemmda á heyaflanum, en grasvöxtur var með besta móti yfir höfuð að tala einkum á túnum, valllendi og allri áveitujörð.
Fróði birti þann 16.október bréf úr Þórsnesþingi á norðanverðu Snæfellsnesi, dagsett 19.september:
Tíðarfarið var hér hið æskilegasta fram að endir hundadaga. Tún spruttu með besta móti og töður hirtust mæta vel. En þegar menn fóru að slá engi voru allar þurrlendar mýrar mjög snöggar, eyjar aftur á móti allflestar og vallendi vel sprottið, en nú komu óþerrar og ofviðri af sunnanátt. Af þessu leiðir að heyjaafli utan túns verður yfir höfuð að tala lítill og slæmur. Sumt af útheyjum er nýlega hirt illa þurrt og sumt hrekst úti enn, og er útlitið hið bágasta. Í gær og dag er norðan ofviðri með snjógangi.
Norðanfari birti þann 9.október bréf úr Reykjavík, dagsett 23.september:
Óþerrar og mollur gengu 3 vikna tíma, svo úthey hraktist og nú gjörði hér ofsaveður norðan, dagana 17.19. [september] Fjöll urðu alhvít af snjó. Nóttina þess 18. sleit hér upp skip á höfninni tilheyrandi P.C. Knutzonsverzlun, og rak upp að Bólverki (hafnargirðingunum) og brotnaði, svo það var selt í gær við uppboð, með einu mastri og bugspjóti fyrir 212 kr. Í gær og í dag heiðríkt og logn.
Þann 4.nóvember birti Þjóðólfur frétt um hrakninga í september:
[Fjórða október] hleypti hér inn fiskiskúta af Vestfjörðum, Ane Sophie, skipstjóri Bjarni Kristjánsson. Hafði hún hreppt háska mikinn og hrakninga af stormum og hrakist tvívegis suður fyrir land og langt út í haf. Þann 17. september voru þeir staddir í miðri Látraröst í ofsaroki, og ófærum sjó; tók þar út 3 háseta af skipinu. Skútan var mjög löskuð, er hún loksins náði höfn, enda hafði hún forn segl, og voru þau ónýt orðin.
Fróði birti þann 18.nóvember bréf úr Árnessýslu, dagsett ótilgreindan dag í september:
Kalla má að veðurblíðan hafi haldist stöðugt til þessa; þó einstöku sinnum hafi hvesst eða kólnað nokkuð. Þá hefir það aldrei varað lengi. en oftast verið lygnt og hlýtt. Þar á mót hefir síðari hluti sláttarins verið að mun vætusamari en framan af. Hefir engjahey manna því töluvert hrakist; þó er það nokkuð misjafnt. Í útsveitum sýslunnar hafa þurrkdagar verið fæstir því þær liggja við Hellisheiðar- og Þingvallasveitarfjallgarðinn, en alkunnugt er, að úrkomur dragast mest að fjöllum. Í uppsveitunum, einkum austan til, hafa þurrkdagar verið nokkru fleiri, enn einna flestir í framsveitunum, en þar er aftur votlendast. Nú eru víst allir búnir að ná heim heyjum sinum, því nokkra þurrkdaga gerði samfleytta fyrir og um fjallleitatímann.
Október: Spilltist tíð og gekk í vetur, oft bjartviðri syðra.
Þann 9.nóvember birtist októberyfirlit Jónasar í Ísafold:
Hina 5 fyrstu dagana var veður bjart og logn, norðangola til hafsins, 6. og 7. sunnangola með nokkurri rigningu; 8. logn, dimmur; 9. landsunnan með mikilli rigningu seinni part dags; 10.12. útsunnan, hvass, með hryðjum ; 13.16. hægur á útsunnan með rigningu við og við; 17.23. við norður, oftast logn og bjart veður; 24. sunnanátt með rigningu, en eftir hádegi hvass á útsunnan með miklum hryðjum; 25.28. bjart veður, við norður; 29.útsynningur, hægur með rigningu; 30. og 31. á norðan, bjartur, nokkuð hvass.
Þjóðólfur segir þann 12.október:
Með póstum er að frétta góða tíð, einkum að norðan. Þó gjörði víða snjókast mikið í byrjun rétta. Heyafli hinn besti um allt Norður- og Austurlandið, en miklu endasleppari varð heyskapur á Suðurlandi og enda sumstaðar á Vesturlandi, og hröktust hey allvíða, t.d. í efri hreppum Árnessýslu.
Fróði segir þann 16.október:
Eyjafirði 16.október: Heyskapur hefir í sumar gengið mætavel hér í firðinum. Þerrar voru stöðugir mestallan sláttinn og þornaði því heyið jafnóðum og slegið var. Heyfengur mun allstaðar vel í meðallagi og sumstaðar nokkuð meiri; einkum munu töðurnar hafa verið með mesta móti. Vegna kuldakastanna í vor og hinna miklu þurrka í sumar var grasspretta víða ekki góð; hálfdeigjur spruttu laklega en vatnsveitingarengi mjög vel og harðar grundir allvel. Fyrir því að heyskapartíðin var svo æskileg höfðu margir lokið við engi sitt í 19.20. viku sumars og hættu þá heyskap, en þeir sem engi höfðu voru við hey til þess í 22. og 23. viku sumars. Úr Staðarbyggðarmýrum hefir heyfengur í sumar orðið venju fremur mikill; síðan farið var að skera mýrar þessar fram og veita á þær vatni, hafa þær sprottið betur enn áður, en einkum er orðið léttara að afla, hey í þeim; í sumar var þar víða þurrkað hey er áður höfðu verið djúpar keldur. Kartöflurækt hefir í nokkur ár verið mikið stunduð á Akureyri og hefir heppnast vel (bregst þar helst í köldum votviðrasumrum). Í sumar hafa kartöflur sprottið þar með betra móti; nálægt 40 búendur hafa þar kartöflugarð. ... Veðrátta hefir verið mikið góð í allt haust, stillingar lengst af og úrkomur nokkrum sinnum, aldrei hart frost en oft nokkurt frost; í gær [15.október] kom hér [Akureyri] snjór í fyrsta sinni að nokkrum mun, dreif hann niður í logni og frostleysu.
Þann 30.október birti Fróði bréf úr Múlasýslu, dagsett þann 12.:
Veðrátta hefir í haust verið úrfellasamari en í sumar og eftir þann 20. [september] snjóaði töluvert i fjöll og enda festi í byggð. Um mánaðamótin kom norðanátt og talsvert frost nokkra daga svo jörð fraus, en svo er hún nú aftur orðin þíð og komin blíð tíð, þessa dagana.
Nóvember: Illviðratíð. Mikið frost um miðjan mánuð.
Ísafold birti þann 21.desember yfirlit Jónasar um veður í Reykjavík í nóvember, auk fréttar af skipskaða - yfirlit Jónasar birtist einnig í Þjóðólfi 11.desember:
Veðurátta hefir verið þennan mánuð fremur óstöðug, og um tíma (frá 13.18.) mjög köld; [tvo] fyrstu dagana var veður bjart, austankaldi; 3. hvass á sunnan með mikilli rigningu, en lygn að kveldi, og sama veður 4., en 5. var logn að morgni og dimmviðri, en síðari hluta dags hvass á landnorðan með krapaslettingi, og urðu öll fjöll héðan að sjá alhvít; 6. hægur á austan með nokkurri snjókomu, að kveldi rokinn á norðan; 7. hvass á norðan; 8. blindbylur og hvass á landnorðan að morgni, að kveldi genginn í landsuður með rigningu og síðan á vestan; 9. vestanútnorðan með brimhroða, en hægur allan daginn; 10. og 11. hæg austangola með rigningu; 12. aftur hvass á norðan með blindbyl; 13. hvass á norðan ; 14.20. hægur við austanátt, oftast bjart veður; 21. mjög hvass á landnorðan með rigningu, að kveldi genginn í útsuður hægur; 22.27.hæg austanátt, oft logn ; 28.29. nokkuð hvass á norðan (með byl til sveita); 30. logn og fagurt veður.
Skipskaðar. Mánudaginn þ. 22. nóvember fórst áttróið skip af Akranesi á ferð úr Reykjavík uppeftir með 7 manns. ... Dimmt var farið að verða, er þeir fóru af stað, og barst þeim á, eins og oftar vill til, á heimferðinni úr Reykjavík.
Fróði (á Akureyri) segir þann 18.nóvember:
Í næstliðinni viku féll hér mikill snjór í norðaustanhríð. Þessa viku hefir verið stilling það af er, en frost mikið; varð það 19°R [-23,7°C] á sunnudaginn [14.nóvember], og mun jafnmikið frost hér sjaldgæft, þá eigi er lengra liðið vetrar. Í Skagafirði er einnig fallinn mikill snjór.
Norðanfari birti þann 22.desember tvö bréf að austan, dagsett í nóvember:
Jökuldal 24. nóvember: Veðrátta hefir verið hér mjög stirð síðan seint í októbermánuði. Af og til norðaustan hríðar með áköfum frostbitrum, mesta frost 22°R [-27,5°C]. Það var 13.þ.m, má það heita óvanaleg helja svo snemma vetrar. Nú þessa síðustu daga er austanátt og bleytur, lítur út fyrir hagleysur ef þessu heldur fram.
Völlum 27. nóvember: Héðan er fátt að frétta nema harðindi mestu síðan um veturnætur; mikill snjór hér um allar ytri sveitir héraðsins, en betra til dala, einkum Fljótsdals. Afli er sagður til fjarða ef gæftir væru.
Desember: Mjög köld illviðratíð. Óvenjuhart frost.
Ísafold birti þann 11.janúar 1881 yfirlit Jónasar um veður í Reykjavík í desember:
Þar sem allur fyrrihluti þessa mánaðar var fremur frostalítill, hefir allur síðari hluti hans (frá 13.) verið einhver hinn kaldasti, er elstu menn muna, því ekki einungis hefir frostharkan verið geysi-mikil, heldur hefir hin kalda norðanátt haldist óvenjulega lengi. Snjór hefir fallið mjög lítill. Fyrstu 2 dagana var veður stillt og bjart en 3. hvasst á austan með blindbyl, en logn að kveldi með nokkurri rigningu; 4. og 5. hægur á landsunnan með rigningu ; 6. hægur útsynningur að morgni, en bráðhvass að kveldi og sama veður tvo næstu dagana, en þó vægari með hryðjum; 9. hvass á landnorðan með byl að morgni, gekk svo til eftir miðjan dag og fór að hvessa á útsunnan og varð úr því fjarskalegt ofsaveður, sem hélst við allt kvöldið og næstu nótt fram til morguns hinn 10., að hann lygndi, og var þann dag hægur útsynningur með slettingsbyl um kveldið; 11. og 12. aftur hvass á útsunnan, gekk svo 13. í norðanátt til djúpanna, en hér í bænum var þann dag og eins 14. og 15. hæg austangola; 16. landnyrðingur, hvessti er á leið daginn og var bráðviðri á norðan til djúpanna og frá 17.30. einlægt norðanbál með grimmdarhörku; einkum var veðurhæðin mikil 27. og 28. og lagði sjóinn, svo að menn hinn 30. gengu eigi aðeins út í Akurey, Engey og Viðey, heldur og upp á Kjalarnes. Ofangreinda daga (17.30.) var hér í bænum oft logn, þótt norðanrok væri inn að eyjum; 31. breyttist aftur veðurátta, er hann gekk til landsuðurs með talsverðri rigningu, en að kveldi dags var hann aftur genginn í útsuður með miklum brimhroða.
Norðanfari birti þann 13.janúar bréf úr Hrútafirði, dagsett 3.desember:
Næstliðið sumar mátti heita ágætt nema að því leyti, að grasbrestur var víða á útjörð, en tún spruttu almennt vel. Fyrir réttir spilltist tíðin, og þá gjörði hið óminnilega skot, því að þá fennti féð í hópum hér á vesturfjöllunum og var að finnast dautt og lifandi fram eftir öllu hausti, sem var hér gott, en síðan 2 vikur af vetri hafa gengið einlægir umhleypingar og hagleysur.
Þjóðólfur segir þann 11.frá miklu illviðri:
Að kvöldi þess 9. þ.m. kl.10. skall hér á útsynningsrok svo mikið, að ekki þykir hér hafa komið maki þess, nema ef skyldi vera ofviðrið, þegar póstskipið Sölöven fórst undir Jökli [27.nóvember 1857]; fylgdi því hellirigning krapakennd, og hélst það þannig víð til kl.2 um nóttina, þá hætti úrfellinu, eins og hendi væri veifað, og varð heiðbjart, loft á svipstundu og norðurljós; rokið hélst samt hið sama allt til kl.4, um morguninn, og fór þá smátt og smátt að hægja, og var komið allgott veður kl.6 um morguninn. Gjörði veður þetta mikinn skaða hér í nágrenninu en lengra að hefur enn ekki frést; bátar skip og hjallar fuku víða og brotnuðu í spón, bryggjur og bólverk þurrkuðust burt í Hafnarfirði, og víða fleygðust skíðgarðar um hér í bænum og það sem laust lá, fauk víðsvegar langar leiðir, svo sem borðviður og tunnur. Eitt hús hér hreyfðist á grunninum svo að sprungið hafði kalkið frá fótstykkjunum, og úr þeim sátu flísar fastar í kalkinu. Minnisvarði einn (P. Gudjohnsens), sem var stór og fagur, úr steini, fauk um og brotnaði, og hafði veðrið raskað mörgu á kirkjugarðinum. Skip eitt lá hér á höfninni, það sem þeir kaupmaður Jón Guðnason og Agent Lambertsen komu á frá Englandi í fyrra mánuði og rak það með akkerum og festum allt inn undir Laugarnes, bar þar að klettum og brotnaði svo mikið, að það sökk, þegar í sjóinn hækkaði, en skipverjar komust af. Var lítið eitt af vörum í því helst kol og salt. Skipið er eign hr.Lambertsens, og er sagt að það ekki muni hafa verið í ábyrgð, og er það tilfinnanlegur skaði fyrir eigandann, ef svo hefir verið.
Þann 21.desember birti Ísafold fréttir af skipsköðum og illviðri:
[Níunda] þessa mánaðar fórst skip með 6 mönnum frá Vatnsleysum á Vatnsleysuströnd. Það hafði lent (hleypt) úr róðri sunnar á Ströndinni, en lagði þaðan heimleiðis um kvöldið í hálfdimmu, og ætla menn það hafi farist skammt fram undan Vatnsleysuvörinni. Formaðurinn var Gísli Bjarnason, ungur maður og efnilegur, nýkvæntur. ... 16. þ.m. drukknuðu 5 menn af skipi frá Lambastöðum á Seltjarnarnesi. Það var á uppsiglingu úr fiskiróðri í norðanstórviðri, hafði alda tekið sig upp rétt við skipið og gengið yfir það, svo að fyllti og hvolfdi þegar. Menn allir, 7 að tölu, komust á kjöl, en skoluðust af honum aftur og drukknuðu allir, nema formaðurinn og annar til, sem Hjörtur bóndi Þorkelsson í Melshúsum bjargaði, þeir sem drukknuðu, voru allir frá Lambastöðum, nema einn.
Aðfaranótt hins 10. þ.m. gerði ofviðri svo mikið af vestri, að fullorðnir menn þykjast ekki muna slíkt. Varð af því skaði mikill á skipum við sjó og heyjum í sveit. Það vildi til, að smástreymt var, annars telja menn víst, að skipastóll hér með sjó hefði sópað burt, og jafnvel mörgum bæjum. Þá rak upp af Reykjavíkurhöfn upp í Laugarnes þilskip þeirra Lambertsens og Jóns kaupmanns Guðnasonar, og komust menn af. Einn bóndi á Álftanesi missti allan sinn skipastól, áttæring góðan, sexæring og bát. Margir fleiri misstu og skip, eða náðu þeim meir eða minna brotnum. Hjallar veltust um og brotnuðu og þak rauf af húsum. Nú ganga menn hér um kaupstaðina, að reyna til að fá timbur í skip í stað þeirra, er fórust, en kaupmenn eru timburlausir. Sagt er að bóndi nokkur hafi orðið nýlega úti í Flóa.
Norðanfari birti þann 13.janúar 1881 frétt af slysi í Laxárdal í Þingeyjarsýslu:
Á næstliðinn annan í jólum, fóru 2 vinnustúlkur frá Þverá í Laxárdal í Þingeyjarsýslu, er hétu Jóhanna og Elíza, yfir í Kasthvamm, hvar þær töfðu lítið og svo þaðan yfir í Halldórstaði og dvöldu þar til þess kl. var 45 um nóttina, og þá komin hríð en kjurt, lögðu samt af stað af því að ekki var nema til næsta bæjar að fara en bæjarleiðin er liðugur [fjórðungur] mílu [um 2 km] og ekkert að glöggva sig við, sakir myrkurs og hríðarinnar en þegar þær voru nú farnar skall hvassviðrið á; allt fyrir það treysti fólkið á Halldórsstöðum því, að þær mundu hafa sig heim, og á Þverá talið víst, að þær mundu vera á Kasthvammi eða Halldórsstöðum, en þá hríðina lægði 3 eða 4 dægrum síðar, voru stúlkurnar eigi komnar heim, var þá þegar safnað mönnum og leitað til þess þær fundust á nýársdag, norðanvert við svonefnda Skollahóla, sú yngri dáin en hin með lífsmarki, eftir að hafa legið úti 10.dægur, [5 sólarhringa] en dó litlu síðar ... Líka hefir og piltur orðið úti fyrir nokkru síðan frá Svínadal í Kelduhverfi, ... og sendur hafði verið upp að Mývatni, en eigi fundinn. Það hefir og frést hingað, að maður hafi í nefndri stórhríð átt að verði úti í Skagafirði en eigi frést hingað hver sá var. Allir firðir og víkur hér nyrðra fylltust þá með hafís ...
Þann 29.janúar birti Norðanfari bréf úr Þistilfirði, dagsett 30.desember:
Grófustu harðindi, jarðlaust yfir allt síðan í þriðju viku vetrar. Næstliðna 8 daga hafa verið vonskuhríðar með 1418° frosti. Nú í dag þegar birti, huldi hafís allan sjó að hafsbrún. Stúlka varð úti snemma á jólaföstunni, sem fór frá Sveinungsvík og ætlaði að Ormalóni, og er hún ófundin enn.
Í sama blaði er einnig bréf úr Axarfirði, dagsett 15.janúar - þar segir meðal annars:
Héðan er fátt tíðindavert utan hvað tíðarfarið er eitt hið grimmasta, sem elstu menn muna, sakir frosthörku og veðurvonsku á jólaföstu byrjun. Um jólin voru hér vonskuhríðar, og á þriðja dag jóla var hér hið versta veður, sem komið getur með 20 stiga frosti, og er sú frosthæð tíðust um þessar mundir. Jökulsá bólgnar og hleypur svo hér um sandana, sem nefndir eru, vegna frosta og stórhríða, að út lítur fyrir, að hún eyðileggi suma bæi hér í sveit, á Hróarstöðum, mátti flýja með gripi fyrir nýárið, vegna hlaups, sem fór í húsin og í næsta hlaupi fór í bæjarhúsin þar og á fleiri bæjum eru hús í voða. Hafís kom hér að landi um jól, en fór hér af firðinum aftur í sunnanhláku, sem kom hér eftir nýárið, ... Í hríðunum millum jóla og nýárs, tapaðist frá fjárborg við sjó á Presthólum í Núpasveit á milli 2030 fjár, sem sumt hafði hrakið í sjó en sumt á land, en búið að finna aftur nálægt 1620, allt dautt.
Þann 1.janúar 1881 birti Þjóðólfur frekari fregnir af illviðrum og slysum í desember - fyrst voru viðbótarfréttir af illviðrinu þann 10.:
Allgott veður var fyrra hluta dagsins sem rokið laust á um kvöldið, og hafði einn bátur með 7 mönnum róið frá Vatnsleysu; formaðurinn hét Gísli og var nýkvæntur, ungur maður og ötull, og talinn með bestu sjómönnum þar syðra. Hvessti á þá af austri þegar leið að miðjum degi, og það svo, að þeir hleyptu út í Landakotsvör á Vatnsleysuströnd og lentu þar með öllu heilu; en meðan þeir biðu þar, hægði veðrið svo, að þeir beittu lóðir sínar aftur, og sigldu fram á miðin. Síðan hefir ekki spurst til þeirra, en brot af skipinu rak síðar á Hvassahrauni og slitur af lóðum þeirra i Kúagerði. Skip og bátar brotnuðu víða í spón og sumt laskaðist; þannig er sagt að 7 sexmannaför hafi brotnað í Minnivogum, 6 ferjur á Akranesi, margar á Álftanesi og missti þar einn bóndi allan skipastól sinn, sem var 1 áttæringur, 1 sexæringur og 1 tveggja mannafar, og sá hann ekkert eftir af því. Lárus Pálsson læknir missti þilbát sem var í smíðum, og kastaði veðrið honum rúmlega 300 faðma burtu, yfir axlarháa steingarða, hverja hann ekki hreyfði, en brotnaði í spón þá hann kom niður. Heyskaðar hafa ekki orðið hér nærlendis af þessu veðri, svo á orði sé gjörandi, en fyrir austan fjall, hafði orðið meira af því. Eftir þetta veður hugðu allir, að fiskur mundi hafa horfið hér á miðunum, en það reyndist ekki svo, því nokkrum sinnum var róið hér eftir veðrið og var fiskur allstaðar fyrir, bæði djúpt og grunnt, en nú veit maður ekki hvernig fiskur hagar hér innfjarða, síðan norðanveðrin og frostin komu svo, en nýfrést hefir af Suðurnesjum, að hlaðfiski væri þar allstaðar ef gæfi. Fimmtudaginn 16. þ.m. var hér róið alskipa því logn var um morguninn, en um daginn rak á norðanstorm með frosti; náðu allir landi það spurst hefir, nema skip frá Lambastöðum á Seltjarnarnesi með 7 manns; fórst það á uppsiglingunni og drukknuðu 5 af hásetunum, en formanni og einum háseta var bjargað af kjöl, fyrir atorku og snarræði Hjartar bónda Þorkelssonar á Melshúsum. Rétt fyrir jólin fannst bóndi Jón Brandsson af Álftanesi örendur á heimleið sinni frá Hafnarfirði; hefir hann að líkindum orðið veikur, lagst fyrir og frosið í hel ... Af því veðrin hafa verið svo hörð allan þennan mánuð, hafa ferðir verið mjög fáar, og getur Þjóðólfur því miður ekki verið fróður lengra að, en þó hefir borist að austan, að maður hafi orðið úti á heimleið frá Eyrarbakkakaupstað, ... Þar eystra er einnig sagt að ýmsir séu farnir að lóga fénaði sökum harðindanna, og væri óskandi að sem flestir gættu sín í tíma, ... Úr Hnappadalssýslu hefir frést, að harðindin séu mjög mikil þar vestra, og hætt við skepnufelli ef ekki batni tíðin hið bráðasta.
Skuld hafði nú flutt frá Eskifirði til Kaupmannahafnar og birti þann 10.janúar fréttir af Austfjörðum:
Að heiman af Íslandi fréttist, að haustið og fyrri partur vetrar hefir verið óvenju hart. Af Eskifirði var oss skrifað 18. nóvember, að þá væri jafnfallinn snjór yfir allt og jarðleysi, en frostin höfðu oft náð 15°R [-18,8°C] og er það fágætt í fjörðum eystra. Með norsku gufuskipi, er kom til Stafangurs um jólin, fréttist hingað að hörkurnar og óveðrin héldust enn (19.desember).
Fróði segir frá hrakningum sjómanna frá Seyðisfirði þann 2.febrúar 1881:
[Fjórir] menn á Seyðisfirði höfðu orðið fyrir sorglegum hrakningi á sjó snemma á jólaföstunni í vetur: Mánudaginn 29.nóvember höfðu nokkrir bátar á Seyðisfirði róið til fiskjar í ískyggilegu veðri og frosti allmiklu; komu allir bátarnir aftur samdgurs nema einn með 4 mönnum; um kvöldið gerði illviðri er hélst næstu daga, en ekki spurðist til hins óaðkomna bátar og töldu allir víst að hann hefði farist, en á föstudaginn næstan eftir komu mennirnir á bátnum inn á fjörðinn; höfðu þeir á mánudaginn náð landi undir hamrafelli því er gengur út í sjó út af suðurbyggð Seyðisfjarðar milli Skálaness og Dalatanga, og verið þar tepptir til þess á föstudaginn því ógengt var til bæja fyrir hrúgum og harðfenni. Allan þennan tíma voru þeir matarlausir. Þrír af mönnum þessum höfðu skaðlega kalið og missa fætur, en einn var óskemmdur. Mennirnir sem kólu heita Jóhann Ringsted, Þorsteinn Þorsteinsson og Jón Sigurðsson, allir sunnlenskir; sá sem heill komst af heitir Jón Valdimarsson, austfirskur; hann hafði haft góð stígvél og gætt þess að vera alltaf stígvélafullur af sjó.
Fróði segir frá því þann 22.janúar að fjárskaði hafi orðið á Presthólum á Sléttu milli jóla og nýárs, 20-30 fjár hrakti í sjóinn.
Norðlingur segir frá þann 6.janúar 1881:
Á þriðja og fjórða í jólum var hér sú ákafleg stórhríð að menn muna varla aðra eins og fannkoma að því skapi; svo var harðviðrið mikið, að menn kól á andlit og hendur á milli húsa.
Norðlingur segir af sömu hríð þann 29.janúar 1881:
Á þriðja i jólum fór vinnukona í fjós á Þingeyrum í Húnavatnssýslu, hleypti hún kúm í vatn en missti þær útí stórhríðina útúr höndunum á sér, og komst sjálf með illan leik að heykumbli er hestar höfðu brotið upp og gat grafið sig inn í heyið svo hún hélt lífi. Kýrnar fundust þegar upp létti hríðinni með lífsmarki, en varð þó að drepa þær.
Ísafold birti þann 2.apríl 1881 fréttabréf úr Skaftafellssýslu, dagsett 24.febrúar það ár. Þar segir af veðri í desember:
Mest gegndi furðu hinn mikli stormur af útsuðri, sem geisaði aðfaranótt hins 10. desember [1880]. Þá mátti svo að orði kveða, að allt léki á þræði, og var veður óstætt úti, þótt margur væri að leitast við að forða heyjum sínum og húsum við tjóni; samt sem áður varð tjónið vonum minna. Hús rufu víða, einkum útihús, einnig fuku bæjardyr á Hörgslandi á Síðu; hey rufu meira eða minna, en óvíða til stórra skemmda, nema á Kirkjubæjarklaustri um 40 hestar, er lítið eða ekkert sást af.
Þann 18.maí 1881 birti Norðanfari pistil með yfirskriftinni Eftirmæli ársins 1880 í Múlasýslum:
1. janúar var fyrst um morguninn stillt veður, en er áleið daginn gekk í snjóveður 2. var kafaldsbylur, 3. var stillt veður, en 4. og 5. hin besta sunnan hláka, 6. gekk til vestanáttar með hægu frosti og úr því einlæg stilling, sem hélst öðru hvoru til hins 22., breyttist þá tíðin til umhleypinga, eður útsynningshroða, er stóð yfir til mánaðarlokanna, en 1. og 2. febrúar var stillt veður, og eftir það voru umhleypings svipir (?) til þess 15., þá breyttist veðrið til norðanáttar mánuðinn út með sífeldum umhleypingshroðum, spillti þá á jörð mest til dala og fjalla, þá kom og 15 stiga frost, og varaði þetta fyrstu dagana af marsmánuði eður til hins 7 s.m., þá gekk til sunnanáttar, blíðviðra og stillinga sem hélst til hins 28 s.m. sást þá víða til gróðurs í útbaga. Þann 29. gekk veðuráttan til austan- og suðausturáttar með óttalegum rigningum, sem héldust til 8. apríl, hljóp þá víða á tún, eftir það komu þurrkar og blíðviður nema það sem stöku sinnum hljóp í frost, en gróður var þá kominn um sumarmál og sóley sást sprottin í stöku túnum, og almennt voru þá kýr leystar út, en með maímánuði gekk tíðin til kulda og frosta, er stóð yfir nokkra daga. 19. maí og nokkra daga þar á eftir var eld- eða sandmóða með vestan stormi. 23. gjörði snjókast og kuldanæðinga og frost sem hélst nokkra daga, gekk þá aftur til blíðviðra, sem héldust til 4. júní, þá kom snjóhret og kuldanæðingar og frost, eftir það gekk tíðin til votviðra og hita er hélst til messna, en með júlímánuði hófst hita- og þerratíð og hélst allan þann mánuð út, svo að almennt var farið að slá í 11. viku sumars og tún í 12. vikunni. Töðufall varð með mesta móti, og eigi meiri töður fengist síðan grasárið mikla 1847. En með ágúst breyttist veðráttan til sudda og skúra, sem stóð yfir rúma viku, fór þá af nýju úthagi að spretta og háátúnum, því að alla jafna var hitatíðin, en mýrarengi mjög graslítið en valllendi betra, en sökum hinnar góðu heyskapartíðar heyjaðist allvel; með septembermánaðarbyrjun breyttist tíðin í óþerra einkum þann 5. og upp frá því var bæði rigningasamt og veðuráttan óstillt til þess í október, þá hófust frost og kuldar allt til hins 16. eða á Gallusmessu, að alveg hófust snjóar og harðindi svo að menn hlutu þaðan af að taka lömb á gjöf, en með allraheilagramessu gjörði vestanhláku, svo að upp kom nokkur jörð en 5. s.m. byrjuðu aftur snjóhríðar og illviður, svo að farið var að gefa sauðum um Marteinsmessu (11. nóv.), sem hélst til 4. des. Þann 5. og 6. var norðvestan hláka, sem stóð skamma stund, því þá brá aftur til snjóa og harðviðra. Hinn 13. desember var hinn mesti ofsabylur með 17 stiga frosti á R, og upp þaðan stöðugt norðanhríðar og harðviðri til nýárs með 1016° frosti. Á nýársdag var komin vestan hláka. Á annan í jólum sást ísinn hér út af Norðfirði, og hefi ég ekki heyrt þess getið að svo snemma á vetri hafi hér ís sést síðan veturinn 182122, sem kallaður var Maunguvetur, þá kom ís á þriðja í jólum, en þá var aðgætandi, að ísinn kom um sumarið 1821 og lá við til höfuðdags. Samt má telja þetta ár eitt hið besta, því að vel heyjaðist og afli í betra lagi, þar menn höfðu oftast síld, því Norðmenn lágu þá hér öðru hverju og unnu að síldarveiði. Ritað í Norðfirði 3. janúar 1881.
Lýkur hér að sinni yfirferð hungurdiska um árið 1880. Finna má ýmsar tölulegar upplýsingar í viðhenginu.
28.9.2019 | 18:40
Af árinu 1879
Árið 1879 var ívið hlýrra heldur en árið á undan og fékk almennt góða dóma - nema sumarið á Austurlandi. Meðalhiti í Reykjavík reiknast 4,1 stig, 3,4 stig í Stykkishólmi og giskað er á 3,1 stig á Akureyri (ekki var mælt þar). Hlýtt var í nóvember og desember, en kalt var í febrúar, mars, maí, júní, júlí og september. Vart varð við hafís, en hann hamlaði ekki siglingum svo heita mætti. Aftur á móti voru lagnaðarísar með mesta móti í upphafi árs.
Enn voru engar opinberar veðurstöðvar inni í landi. Hámarks- og lágmarkshitatölur eru því heldur hóflegar. Hæsti hiti ársins mældist í Hafnarfirði 7.júlí, 21,2 stig. Hann hefur vafalítið einhvern tíma árs farið hærra inni í sveitum. Lægsti lágmarkshiti mældist þann 11.mars í Grímsey - en engar opinberar mælingar voru í innsveitum eins og áður sagði.
Hér má sjá daglegt hitafar. Efri línan (oftast) sýnir hæsta hita hvers dags (ekki hámarkshita) í Reykjavík, en sú neðri meðalhita hvers dags í Stykkishólmi. Enginn dagur telst mjög hlýr í Reykjavík - og ekki heldur í Stykkishólmi, en köldu dagarnir voru ekki mjög margir, 7 í Reykjavík og 11 í Stykkishólmi. Fyrstu dagar ársins voru sérlega kaldir og lagði þá firði víða eins og lesa má um í fréttapistlunum hér að neðan. Listi yfir mjög kalda daga á þessum stöðum er í viðhenginu.
Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi þann 27.desember, 947,7 hPa. Hæsti þrýstingur ársins mældist einnig í Stykkishólmi, 1044,4 hPa þann 5.maí. Ekki virðist hafa verið mikið um þrýstiöfga á árinu 1878. Þrýstiflökt frá degi til dags var mikið í maí - bendir til órólegs veðurlags. Meðalþrýstingur var óvenjuhár í nóvember, en lágur í september.
Árið 1879 var mjög þurrt, þó ekki alveg jafnþurrt og árið áður í Stykkishólmi - en úrkoma var aðeins mæld á þremur stöðum á landinu þetta ár. Sumarmánuðirnir, júní til ágúst voru samtals þeir þurrustu sem vitað er um í Stykkishólmi og sumarið allt (september með) meðal þeirra allraþurrustu). Á Djúpavogi var sumarúrkoma hins vegar nærri meðallagi. Mánaðartölur má sjá í viðhenginu.
Hér að neðan eru dregnar saman helstu fréttir af veðri, tíð og veðurtengdu tjóni á árinu 1879 og vitnað í samtímablaðafréttir og fleira. Stundum eru þær styttar lítillega og stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Sem fyrr má finna tölulegt yfirlit í viðhenginu.
Jónas Jónasson stud theol ritar í Fréttir frá Íslandi:
Árferð þetta ár hefur verið nokkuð misjafnt í ýmsum hlutum landsins, enn þó eigi svo, að það geti eigi orðið tekið í einu lagi. Þess er getið í fréttunum frá 1878, að frostasamt hafi verið um jólaleytið og undir árslokin; hörkur þessar héldust fram yfir nýárið; snjór mikill á Suður- og Vesturlandi og vestursýslum Norðlendingafjórðungs, en í Þingeyjarsýslu og á Austurlandi voru jarðbönn mikil. Um nýárið sást til hafíss fyrir Norðurlandi. Litlu eftir það svíaði til, og hafíshroða rak í burt aftur; en bráðum gekk aftur harðviðri og hríðar, og hélt þeirri tíð fram undir lok marsmánaðar. Þá gjörði hláku góða um allt land, svo að öríst varð í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, og allgóðar jarðir komu upp í snjóasveitunum nyrðra og eystra. En sú hláka varð eigi heldur langgæð, því að 21. mars gekk aftur í norðanhríðar. Þó tók heldur að milda veðurátt úr því. Um sumarmálin og síðara hlutann af apríl var blíðutíð, en í byrjun maímánaðar gjörði hríðarkast á norðan, og snjóaði þá víða norðanlands. Vorið var afarkalt og þurrt og og oftast frost á nóttum. Sumarið var blítt, og svo þurrt, að varla kom deigur dropi úr lofti svo að nokkru næmi, nema á Austurlandi og í Skaftafellssýslum var fjarska óþurrkasamt; haustið var hvervetna hið blíðasta þar til hinn 20. október, að gjörði hríð á norðan í fjóra daga svo mikla, að í sumum sveitum var nær haglaust eftir. En rétt á eftir gjörði hláku góða, og mátti síðan heita, að sú hláka héldist fram undir jól; þá voru einlægar þíður og blíðviðri, hver dagurinn öðrum betri; stundum var þá samt nokkuð hvassviðrasamt. Um jólin voru hreinviðri með nokkrum frostum og veður hið fegursta.
Af eldgosum er lítið að segja; í ágústmánuði þóttust sumir menn sjá til elds í hafi fyrir Reykjanesi, og nokkru síðar er sagt að vikur nokkurt hafi rekið þar nærlendis. Annað vita menn ei neitt um þessa eldsuppkomu.
Grasvöxtur var víða í rýrara lagi, einkum á túnum og þurrlendi, því að það vantaði vætu þá, er til þurfti í hinum miklu þurrkum. Tún brunnu víða, einkum þar sem þau voru hólótt, eða eigi varð veitt vatni á þau. Sömuleiðis spilltust þau víða af grasmaðki, því að hann var víða svo mikill, að eftir hann lágu hvítar skellur þar sem hann hafði vaðið yfir, bæði á túnum og úthaga. Engjar, einkum blautar mýrar, spruttu víða í góðu meðallagi, og sumstaðar jafnvel betur. Heyskapur gekk víðast hvar heldur vel, af því að tíð var svo einkar hagstæð, og heyjaðist víðast í góðu meðallagi, og sumstaðar jafnvel betur. Nýting var hin besta. Á Austurlandi og í Skaftafellssýslum heyjaðist miður, þar sem tíðarfarið var óhagstæðara sakir óþurrkanna, og nýting varð þar víðast í lakara lagi, þar eð heyin hröktust, og komu svo á endanum sumstaðar illa þurr í garð. Samt sem áður má þó líta svo á, að heyskapur hafi gengið vel þetta sumar og heyaflinn víðast verið í góðu meðallagi. Garðvextir manna spruttu þetta sumar mjög vel, að því er vér frekast til vitum.
(s17) Sjávarafli hefir heppnast næsta misjafnt þetta ár, en almennt má þó svo á líta, sem í þá átt hafi verið heldur góð árferð. Þegar í byrjun vertíðar var allur Faxaflói fullur af fiski, og hugðu því útvegsbændur gott til hins besta aflaárs. En ógæftir ollu því, að aflinn gat ei orðið svo mikill sem skyldi. Fyrst aflaðist vel í Garði, Leiru, Njarðvíkum og hinum syðri veiðistöðum, en verr á Ströndinni og á Innnesjunum. Í mars gjörði norðanstorma mikla, og urðu þeir að miklu tjóni, því að fjöldi manna missti þá net sín að sumu eða öllu leyti.
(s21) Siglingar til landsins gengu fremur illa, og var þó ei hafísinn til þess að hamla mönnum að komast að landinu. Helstu tjón á verslunarskipum voru þessi: 30. dag marsmánaðar strandaði norskt kaupskip Ellida við Þormóðssker undan Mýrum; hlaðið vörum. Hafði það fyrst hrakist vestur fyrir Jökul, en getað síðan snúið aftur, en lenti í þokum, svo að skipverjar vissu eigi hvar þeir fóru, fyrr en skipið hjó niðri og sökk þegar. Skipverjar komust á bátum slippir í land. 1.dag maímánaðar strandaði norskt timburskip, Ossian, fyrir Látrabjargi; allir menn komust af. 3. s.m. sleit upp danskt verslunarskip, Else, á Eyrarbakka, hlaðið vörum; rak það upp í sand og brotnaði í spón. Eitthvað fórst og af frakkneskum fiskiskútum hér við land, eins og vant er að vera, og er eigi þörf að telja þær hér.
Slysfarir hafa orðið nokkrar þetta ár, og eru það einkum skiptaparnir, sem nokkuð kveður að. Í norðanstormunum týndust 2 skip af Akranesi, 27. dag febrúarmánaðar, og voru l0 menn á þeim alls. 30.dag aprílmánaðar týndist róðrarskip fyrir Landeyjasandi, og voru á því 10 menn. 23.dag ágústmánaðar fórst bátur með 4 mönnum á Álftanesi, rétt að segja við landsteinana. 26.dag septembermánaðar týndist bátur með 4 mönnum frá Hvaleyri við Hafnarfjörð. Í októbermánuði týndust tveir menn af báti í Steingrímsfirði og fórst bátur með 3 mönnum á Hrútafirði. 8. dag nóvembermánaðar var afspyrnurok fyrir Norðurlandi, og fórust þá tveir bátar á Skagaströnd, með 5 mönnum hvor, og sama dag týndust 2 bátar úr Steingrímsfirði og aðrir tveir af Skagafirði. Eigi hefir frést, hve margmennir þeir hafi verið. Slysfarir í ám og vötnum hefir ei frést greinilega um, og eigi heldur um það, hvort menn hafi orðið úti; en víst er að það urðu einhverjir, eins og vant er að vera.
Janúar: Tíð talin sæmileg syðra og vestra þrátt fyrir nokkuð frost og snjókomur. Hretasamt nyrðra og eystra.
Norðanfari segir af tíð þann 9.janúar (lítillega stytt hér). Athyglisverðar eru fréttir af lagnaðarísum á fjörðum:
Allan þennan næstliðna mánuð, að einstöku dögum undanskildum, hafa verið staðviður og lítil snjókoma en frostin mikil, þó mest nóttina hins 2. þ.m. 20°R [-25°C]. Eyjafjörður var þá sagður lagður út að Hjalteyri og yfir i Höfðann, svo fara mátti hér innantil með hesta og æki. Vesturállinn, millum lands og Hríseyjar, gengur á hafís og lagís en austurállinn og fjörðurinn inn að skör auður, nema þá heljurnar höfðu verið mestar, allur lagður en óvíða gengur. Húnaflói kvað fullur með hafís og eins Skagafjörður inn að Eyjum en lagís þaðan inn í botn, gengt í land úr Málmey og frá Grafarósi á Sauðárkrók. Hafþök eru sögð úti fyrir það eygt verður af fjöllum, allt austur fyrir norðan Grímsey og að Sléttu. Þéttur hafíshroði á Skjálfandiflóa, Grímseyjarsundi og hér út af Eyjafirði. 14 bjarndýr er sagt að hafi sést á Skaga, sum fram á ísnum og sum á landi og 2 eða 3 af þeim (heldur enn önnur) á Reykjaströnd, en litið mein af sér gjört nema eitthvað rifið í sig af hákarli og fiski, er var i hjalli eða hjöllum og á einum bæ mölvað hurð frá húsi eða kofa sem selur hafði þá nýskeð verið gjörður til á. Á Skaga er sagður afbragðsgóður skotmaður sem heitir Sigurður Víglundsson og sem sendi þegar, er bangsar höfðu tekið land, eftir kúluriffli að Ási í Hegranesi. Nú síðan, hér um bil viku fyrir jól, hefir ekki vegna íssins og hinna miklu frosta orðið róið til fiskjar, en seinast þá róið varð af Uppsaströnd og úr Ólafsfirði, var hlaðfiski af reginþorski, svo afhöfða varð í sjóinn, en þá kom hafísinn og tók fyrir aflann, sem menn
sögðu nýja ágöngu, er komið hefði með ísnum. ... Víðast hvar yfir alla Þingeyjarsýslu og hér á útsveitum, hafa jarðbannirnar, sökum snjóþyngsla og áfreða verið hinar sömu og áður; aftur er sagt að í nokkrum framsveitum og til dala hér í sýslu og Skagafirði, hafi það af er vetrinum, verið nóg jörð fyrir hross og sauðfé en stundum ekki beitandi fyrir hörkum, en 6. þ.m. fór að svía til og síðar oftar þítt, svo að sumstaðar, er komið upp dálitið af jörð, þar er hún ekki var áður.
Þann 15. bætir Norðanfari við:
Frá því er vér, í næsta blaði hér á undan, sögðum frá tíðarfarinu, hélst það enn til hins 15. þ.m., að þá kom norðan hríðarveður og snjókoma með litlu frosti. Í næstliðinni viku var róið með línur til fiskjar úr Svarfaðardal og Ólafsfirði, og fékkst metahleðsla af vænum fiski, svo afhöfða varð; bátar höfðu og róið af Árskógströnd í austurálinn og aflaði hver yfir 50 í hlut af fiski. Nú kvað hafísinn vera horfinn það eygt verður, bæði af Skagafirði og hér út af Eyjafirði en víst ekki langt undan landi sem marka má af því hvað sjórót er lítið þó hvasst sé úr hafi.
Skuld segir þann 13.janúar:
Hafísinn, hinn árlegi gestur vor nú í nokkur ár, heimsótti oss í fyrra lagi í ár; var hann um nýársleytið kominn austur að Barðsneshorni, að sagt var; mun hann verið hafa á austurferð, til að óska Austfirðingum gleðilegs nýárs. En aðfaranóttina þess 6. þ.m. mætti hann andviðrum, því síðan hefir gengið á með sunnan rosum og þíðu. Er það margra ætlun að hafísinn hafi lagst norður í höf þegar svona byrjaði, og munu flestir óska að honum gangi norðurferðin svo greiðlega, að hann mætti komast alla leið norður að heimskauti. Í hörkunum um hátíðirnar varð vatnslaust svo víða hér, að vatn þornaði upp á ýmsum stöðum, þar sem það hafði aldrei fyrri þorrið í manna minnum. Það má kalla að stöðug norðanátt, og einatt hörð, væri búin að standa í samfleytta fjóra mánuði, þegar sunnanáttin kom loksins. Með hafáttinni, sem hann gekk í 5. þ.m., gjörði geysilegt brim sumstaðar, einkum utarlega norðan fram með fjörðum. Aðfaranótt þess 7. þ. m. gekk brim svo hátt, að tók út bát í Kolfreyjustaðarhöfn (sem Marteinn, bóndi þar, átti) og tvo báta á Höfðahúsum, sem hreppstjóri Þorsteinn Guðmundsson þar átti. Í Arnagerði tók út gagnvaðstré, er lágu þar á stólpum niðri í tanganum. Þessir bæir eru allir í Fáskrúðsfirði.
Ísafold segir þann 13.janúar:
Heyrst hefir, að hafís sé kominn fyrir norðan land. Er sagt hann sé landfastur á Skaga, en einstakir jakar hafa sést á Húnaflóa. Eftir veðráttufarinu er mjög líklegt, að fregnin sé sönn. þó búast megi, eftir þessu, við harðindum fyrst um sinn, þá er sú bót í máli, að sjaldan verður mein að miðsvetrar ís". Veðrátta hefir síðan á miðri jólaföstu verið þurr og köld, snjólaus að heita má; frost hefir verið í meira lagi, að jafnaði frá 1014°R. Skerjafjörður er lagður; hefir hann þegar undir hálfan mánuð verið gengur, og milli jóla og nýárs var farið með hross yfir um hann.
Þjóðólfur segir frá þann 28. (við endurtökum þó ekki fregnir Norðanfara):
Rétt eftir nýárið breyttist veðráttan úr harðindum í rigningar, umhleypinga og þíður, og hefir síðan verið alauð jörð hvervetna nema í nyrstu héruðum landsins. Aflabrögð hafa enn lítil orðið, þó sumir þeirra, er farið hafa suður í Garðsjó, hafi orðið vel varir.
Skuld birti þann 3.febrúar bréf úr Vopnafirði og Mjóafirði (og svo Eskifirði):
Vopnafirði 11.janúar: Hey er orðið skemmt að mun, eftir því sem næst verðu komist. Á stöku stöðum er enn ekki búið að gefa að mun sauðum eða ám; óvíða ganga hestar úti, og valda því svellalög og bruna-stormar norðan, sem stöðugt hafa gengið síðan fyrir jólaföstu; harðneskju norðan-hríðar með lítilli fannkomu frá því á jóladaginn til 6. þ.m. 3 daga undanfarna logn-þýðandi, og kom allstaðar í aðalsveitinni meiri og minni jörð; frost og bjart í dag. 5. þ.m. 18 stiga frost, hið mesta sem komið hefir á vetrinum; þá var heiður himinn.
Mjóafirði, 25. janúar 1879, Héðan er fátt að frétta nema góða tíð sem stendur og nógar jarðir; ekkert sem heitir búið að gefa fullorðnu fé. Óvíða munu lömb í þessari sveit hafa verið tekin, fyrri en í veðrunum fyrir jólin (úrkast kunna menn að hafa gjört úr þeim áður); en í Dalakjálki voru þau tekin nær sem veturinn gekk í garð, og féll þar framan af mjög svo hart.
Eskifirði, 3. febrúar 1879. Tíðin hefir síðan til þíðanna gekk verið hæg og jöfn, svo alauðna er yfir allt. Nú í fáeina daga hefir verið frost og norðanátt í lofti, en þó hægviðri. Í dag er mjalldrífa í logni. Eftir sunnanáttina hefir verið hér talsvert almennt nokkuð reka-vart, en þó hvergi stórhöpp. Aflalaust er, þó reynt sé, því eigi er að telja eftirlegusmáseyði, sem ávallt liggur hér í firðinum. Það hefir verið rjúpnavetur í vetur í meira lagi.
Febrúar: Fremur köld tíð og stormasöm.
Skuld segir frá þann 14.febrúar:
[Þriðja] þ.m. gekk í snjóveður norðaustan og austanstætt; síðan hlóð niður snjó með bleytu ýmist, þó upprofum á milli, uns gekk í norðanveður með frosti þann 11. þ.m. Varð því jarðleysa og hagbann yfir allt. Í dag er komin sunnanrigning með þíðu.
Mars: Framan af köld tíð og hretasöm, en skárri síðari hlutann. Þó hret í lok mánaðarins.
Skuld segir þann 5. og 17. mars:
[5.] Veðrátta hefir verið hin umhleypingasamasta og þó oftari hverju frost og norðanátt upp á síðkastið, einn dag í fyrri viku jafnvel 1314° Reaumur.
[17.] Bjargarleysi fyrir skepnur virðist ætla að verða almennt manna á meðal, ef harðindunum linnir eigi því fyrr. Um daginn fréttum við að tveir bændur í Mjóafirði hefði verið búnir að reka af sér fé sitt. Maður úr Norðfirði (þar sem venjulega mun þó eigi sett á útigang) sagði í gær, að þaðan mundi verða farið að sækja korn hingað til skepnufóðurs.
Þjóðólfur segir frá þann 14.mars:
Veðráttan, síðan góan byrjaði [23.febrúar], hefir verið afar-stirð og umhleypingasöm, en fannkomur litlar og jörð víðast auð; frost mikil annað veifið, 612°R hér í Reykjavík. Mannskaði á Akranesi. (Skýrsla eftir herra Hallgrím Jónsson á Guðrúnarkoti). Hinn 27. febrúar týndust héðan 2 skip með 10 menn. Þennan dag var hægt veður að morgni, og reri hver fleyta á Akranesi til sviðs; þegar þar var komið, skall á hastarlegt norðanveður með stórsjó og frosti; allir urðu að hleypa suður á Seltjarnarnes, og er skylda að geta þess með stærsta þakklæti, hvað Seltirningar tóku þá vel og mannúðlega á móti Akurnesingum, sem munu hafa verið yfir 200, á 30 skipum. Á þessari suðursiglingu hafa hin skipin farist.
Ísafold segir fréttir að norðan í pistli þann 25.mars:
Úr sumum plássum að austan og norðan fréttist með norðanpósti mikil harðindi; var sumstaðar, t.d. í Kinn, búið að hafa allar skepnur á gjöf í rúmar 20 vikur. Einn björn var unninn á Haganesi í Fljótum. Var bessi skotinn meðan hann var að snæða hákarl í hjalli. Tveir aðrir sáust snúa heim á leið með hafísnum.
Norðanfari birti nokkur bréf þann 3.apríl:
Af Austfjörðum 15. mars: Fréttir eru litlar nema harðviðri og jarðbönn. svo langt sem fréttist. Eru margir heytæpir orðnir þó ótrúlegt sé, ekki eftir snjó meiri vetur; því jarðir voru víðast meiri og minni til miðþorra, en illa hafa þær auðvitað oft notast. Flestir munu þó gefa í miðjan einmánuð að ég held, og nokkrir framúr, en yfir höfuð er samt illt hljóð í mönnum, kenna flestir áfellinu í september er allir máttu hætta við heyskap.
Reyðarfirði 16. mars: Oftast norðanveður og grimmdarfrost 10. (mars) 11°, 11. 15°, 12. l1° , 13. 13°, svo .að er því líkast sem þegar hafís er, samt hefir hans enn ekki orðið vart. Þetta eru hin mestu frost er komið hafa hér undanfarin ár, því þegar hér við sjó eru 16°, þá má telja að í Vallanesi séu að venju 20°, Valþjófsstað og Hofteigi 22°, en á Möðrudalsheiði 26°.
Seyðisfirði 16. mars: Hér hafa verið hin mestu harðindi alla góuna og hvervetna jarðleysur og sumir orðnir tæpt staddir fyrir pening sinn. Vikuna sem leið voru alltaf norðanstormar og feikna frost 15-16°. Heilsufar manna nú um stundir gott.
Þann 2.júlí birti Ísafold fregnir af veiðarfæratjóni og illviðri á Faxaflóa í mars:
Vetrarvertíðin hér innan flóa byrjaði, eins og lög gjöra ráð fyrir, með því að þorskanet voru lögð í Leiru- og Garðsjó 14. mars; þó lögðu 8 skip útlend og eitt innlent þorskanet 13. mars; þau voru öll úr Leirunni. Undir eins í fyrstu umvitjun voru nálega öll net full af fiski, þó enn frekara eftir því sem út á dró. Þessi afli hélst allt til hins 22. s.m. Þá gerði ofsaveður á vestan útsunnan, með stórbrimi. Héldust svo rok og umhleypingar allt fram til mánaðamóta. Fóru menn þá að leita neta sinna, sumir árangurslaust að öllu leyti, en sumir fundu þau í stærri og smærri hnútum, fleiri og færri trossur saman, fullar af morknum fiski. Netatjónið var stórkostlegt, því sumir hafa aldrei fundið einn möskva af netum sínum.
Apríl: Batnandi tíð þegar nær dró sumarmálum.
Þjóðólfur segir þann 9. og 30.apríl:
[9.] Seinni hluta febrúar og til síðustu daga, gekk hörð og köld norðanátt, með 59°R frosti; varð þá lítið stunduð aflabrögð hér í veiðistöðunum, þótt nægur fiskur væri fyrir.
[30.] Því miður hafa aflabrögðin til þessa orðið mjög endasleppt og misjöfn, víðast hér við flóann; veldur því mest gæftaleysi og netajón. Á Akranesi munu komnir hæstir hlutir. Aftur er ávallt fullur sjór af fiski hið dýpra, og allir, sem lengst hafa sótt sjó hér af innnesjum, hafa best orðið varir. Bæði útlend og innlend þilskip hafa aflað vel, og hákarlaskipin ekki síður að tiltölu. Köld há-átt hefir oftast gengið síðan í f.m., með töluverðum næturfrostum, en allgóðu veðri.
Skuld birti bréf þann 26.apríl:
Raufarhöfn, 8. apríl: Tíðarfarið hefir í vetur verið hér svakviðrasamt. Hér í sveit urðu svo að segja engir fjárskaðar, eins og svo víða annarstaðar. Jörð var hér skörp fram til þrettánda, og hafís kom um jól inn um allan Axarfjörð og Þistilfjörð. Eitt bjarndýr kom með ísnum og varð eftir af honum, þegar hann rak burtu á þrettánda. Var það skotið litlu síðar hjá Rauðagnúp, en rökkur var og nálægt sjó; veltist bangsi í sjóinn, en vindur stóð af landi og hefir hann ekki sést síðan. Um þrettánda kom hér besti bati allstaðar, eins inn um firðina, og rak hafísinn burtu, og hefir ekki orðið vart við hann síðan. Hin góða tíð hélst út þorra, en góa var ærið svakviðrasöm. Síðan einmánuður kom [25.mars] hefir heldur gengið til batnaðar, og nú er hláka.
Jökuldal 15. apríl: Þó kalt sé hér uppi á jöklinum, þá eru þau umskipti orðin, að skepnur hafa gegnið sjálfala um tíma og ekkert sultarkvein heyrist lengur. Veturinn hér hefir verið annar sá versti nú upp í 15 ár, sem ég hefi verið hér, þó nokkuð betri en 1874, því að þá lagði að með jarðleysum um veturnætur og batnaði 1. sunnudag í sumri, en nú kom batinn talsvert fyrr. Aftur dundu harðindin nú miklu fyrri á, því að í 20. viku sumars var alsnjóa ofan í á á Efradal, frá því á sunnudag til miðvikudags; þá komu stormar og svo litla kornið, sem úr honum fauk í 21.vikunni. Skepnur drápust, eins og þú veist, hröktust og meiddust, hey urðu úti, mest á Skjöldólfsstöðum (um 100 hestar), en litið hjá mér. Meðan jörðin var hér á Útdalnum var versta sóttarpest í fénaði, svo að eigi var hægt að beita; heyin skemmdust í rigningunum, svo allt hefir orðið til þess, að flestir höfðu sanna þörf á batanum.
Maí: Góð tíð í byrjun mánaðar, en síðan gerði mikið hret norðanlands.
Þjóðólfur kveinar þann 28.maí:
Tíðfarfarið þennan mánuð hefir verið eitthvert hið bágasta, landsynningsátt með sífeldum stormum og stórrigningum, kulda og fannkomu til fjalla; gróður nálega enginn enn kominn, og fjárhöld hin ískyggilegustu víða í sveitum; eru skepnur bæði magrar og sjúkar og teknar að falla víða; þó lítur bágast út með sauðburðinn, sem nú er byrjaður. Þar sem góð hagbeit er, stendur fé sig best, en lakast á léttum jörðum og sumstaðar í gjafasveitum. Heyin hafa í fyrra bæði verið svo létt og óholl, að undrum sætir. Allgóður afli hefði til þessa fengist hér um innanverðan flóann og máski víðar, en ógæftir hafa meira og minna aftur orðið til hnekkis.
Skuld birti þann 9.júní bréf, eitt dagsett í apríl, en hin í maí (reyndar segir að síðasta bréfið sé dagsett 12.júní - en það getur ekki verið rétt - og er leiðrétt hér):
Miðfirði 11. maí: Tíðin fremur köld nú um tíma. 1 skip komið á Borðeyri. ... Veturinn mátti yfir höfuð heita hér um sveitir inn blíðasti og skepnuhöld hin bestu, heilbrigði almennt góð yfir veturinn og slysfarir litlar.
Rangárvallahrepp, 12. maí: Nú er veturinn liðinn, og þó hann væri nokkuð kaldur, má hann þó teljast með hinum blíðustu hér sunnanlands, því að góunni undanskildri má varla heita að hér hafi gránað á jörð; þó eru heyin að mestu gefin upp hjá flestum og fénaður í bágu ástandi víða, einkum við mýrlendi, og er það afleiðing hinna miklu frosta fyrri part vetrarins, og óþurrkanna í fyrrasumar, því bæði var fénaður mjög magur í haust, og svo hafa bæði heyin og vetrarbeitin reynst einstaklega kjarnlaus; nú er hér oftast frost á nóttum, og af og til snjóhraglandi og með öllu gróðurlaust. Skipskaði varð við Eyjasand 30.[apríl], var það hlaðið með skreið úr Vestmanneyjum; drukknuðu þar alls 10 menn, voru það 8 karlmenn og 2 stúlkur; meðal þessara 4 bændur, er létu eftir sig fjölda ómaga. Vöruskip, nýkomið á Eyrarbakka, slitnaði upp og rak í land í vestan-roki 4. þ.m., en meira hlut af vörunum var búið að skipa upp úr því.
Reykjavík 9. apríl: 30. [mars] strandaði norskt vöruskip þeirra Snæbjarnar Þorvaldssonar á Akranesi, nálægt Þormóðsskeri, milli Akraness og Mýra.
Skuld segir frá þann 28.maí og birtir einnig bréf úr Mjóafirði:
Nýja brúin á Slenju [í Mjóafirði] hefir nú lokið æfi sinni; brotnuð undan snjó. Þetta er sú önnur, sem fer svo, og virðist það ætla að verða dýrkeyptur lærdómur fyrir sýslubúa hér að læra, hvernig .eir eigi að gjöra brú, sem dugi meira en árlangt.
Mjóafirði, 24. maí: Síðan tíðarumskiptin urðu hafa verið hagstæð veður, hvað jörðina snertir, enda er hér kominn nokkur gróður í úthaga, og tún í góðu útliti og, sem mest er um að gjöra, óvíða kalin; gripahöld sæmilega góð yfir höfuð. Skip frá kaupmanni V.T. Thostrup liggur á Brekkulegu og tekur móti saltfiski (hertum), og afhendir bændum jafnframt salt, korn og kramvöru og hvað annað, sem menn tóku út á verslunarstaðnum áður skipið fór þaðan. Þetta teljum vér bændur oss mikið hagræði og ættum vér að vera þeim þakklátir, er fyrst léttir oss svona viðskiptin. Aðfaranóttina 20. þ.m. lá við að skipið ræki upp, en því varð þó afstýrt, með því veðrinu slotaði síðari hluta nætur. Í sama veðri fauk timburhúss-grind hjá Guðmundi bónda Guðmundssyni á Hesteyri, og hefir að líkindum skemmst mikið.
Norðanfari birti þann 4.júlí tíðarlýsingu úr Reykjavík dagsetta 1.júní og úr bréfi frá vestfirskum manni stöddum í Reykjavík í júní:
Tíðarfarið á Suðurlandi næstliðinn maímánuð, eða frá byrjum hans til þess 24., var ærið stirt, gekk þá úr hófi, svo elstu menn muna eigi eins, kalsi og rigningar í byggð en fannkyngi til fjalla frá hinum 16. til 24., er í sífellu gekk alla þá daga, og hafði sú veðurátta ill áhrif á fénað allan, svo margt fé drapst og unglömb er þá voru borin, ólyfjan er einnig sögð að öðru leyti í fé, svo það drepst, þótt það sé í sæmilegum holdum, er menn kenna óhollu og léttu heyi frá næsta sumri. Með hinum 25. brá til blíðviðris, heiðríkju og hita, er varð mestur inni 16° og 24°R móti sólu. Þessi veðurátt hefir haldist síðan til loka mánaðarins.
[Þ.] 1. f.m. [væntanlega maí] strandaði norskt skip að nafni Ossian, er flytja átti viðarfarm til Ísafjarðar, sunnan undir miðju Látrabjargi. Mennirnir komust af á skipsbroti, og nokkru eða 2 förmum á 10 skipum stærri og smærri varð bjargað af viðnum og var það selt við uppboð; ... Skip þetta kom frá Mandal, mennirnir fóru suður hingað á Díönu og fara víst héðan með Phönix. ... Tíð var þar yfir höfuð góð þó kom rigningakafli kringum uppstigningardaginn [22.maí], og var þá svo kalt í veðri, að töluvert snjóaði á fjöll t.a.m. á Selárdalsheiði var knésnjór sumstaðar í götum eftir hretviðrið hið freka 1. og 2. maí. Síðan um hvítasunnuleytið [2.júní] hefir hér syðra verið blíðasta og hlýjasta veður, en oft þoku og saggasamt loft, og er svo háttað veðráttufari hér í dag, gróðrarveður ágætt, enda hefur grasvöxtur aukist þann tæpa hálfa mánuð er ég hefi dvalið hér syðra.
Júní: Fremur kalt og þurrt lengst af, slæmt hret í miðjum mánuði.
Þjóðólfur segir þann 25.júní:
Laxflutningsskip Mr. Bowmans kom 21. þ.m. frá Húsavík og hafði verið 3 1/2 dag á ferðinni þaðan. Úti fyrir Húnaflóa lá þá hafíshroði og svo nálagt Horni, að tæpar 2 danskar mílur [um 15 km] voru milli lands og íss. Vestanvert við Horn urðu þeir varir við gufuskip, sem hélt norður og eftir öllum líkindum hefir verið Díana. Það var snemma dags hins 19. þ.m. Fram yfir miðjan þennan mánuð stóð eitt hið indælasta blíðviðri, sem menn muna, enda blessaðist vorvertíðin eftir því, og vorhlutir hér á inn-nesjum eru almennt orðnir með besta móti, því mikill hluti fiskjarins hefir verið roskinn. Þ.17. gjörði norðan storm harðan, er stóð nokkra daga. Gróður er talinn orðinn í meðallagi, en vegir hinir bestu. Laxveiði lítil enn sem komið er.
Norðanfari birti þann 4.júlí bréf úr Skagafirði dagsett 24.júní:
Veðurátta hefir verið mjög köld með þurrkum á daginn en frostum á nóttum, svo þar sem hálent er, er brunnið og sumstaðar kominn maðkur í jörð; 14. til 18. þ. m. gjörði mikillegan kuldabálk, sem voðalega hnekkti grasvexti víða hvar, líka gjörði það sama veður mikið tjón fuglaveiðinni við Drangey, er áður var með besta móti, en fiskafli hefir verið heldur lítill.
Ísafold segir 26.júní:
Phönix, aðalpóstskipið, lagði af stað héðan eigi fyrr en 18. þ.m., snemma morguns, sakir stórviðris á norðan. (Kvöldið áður snjóaði ofan í miðja Esju og Skarðsheiði).
Þann 29.maí 1880 (árið eftir) birti Þjóðólfur eftirfarandi pistil undir fyrirsögninni Náttúru-viðburður:
Presturinn á Stóruvöllum í Rangárvallasýslu skrifaði oss fyrir skemmstu eftirfylgjandi: Í fyrra sumar [1879] að morgni hins 25. júní lá sílabreiða á litlum bletti á Minnivallatúni (bæ hér í grennd við); hefir slíkt, svo menn muni, að eins einu sinni áður borið við, á svo nefndum Hellismoldum, Eiríkur Eyjólfsson bóndi á Minnivöllum, segir að síli þessi hafi verið spegilfögur og sem þeim hefði niðurrignt; þykkviðri stóð af hafi (bærinn er yfir 4 mílur frá sjó) en útlit var fyrir, að rignt hefði um nóttina. Tvö af sílunum hefi ég geymt hjá mér í spíritus, og þykja mér þau líkust svo nefndum trönusílum að lengd og lögun. Útskýringu yfir náttúru-viðburð þennan óskum vér að fá hjá náttúru-fróðum mönnum.
Júlí: Þurr og blíð tíð nema á Austur- og Suðausturlandi þar var mjög óþurrkasamt. Fremur kalt.
Norðanfari segir frá tíð þann 4.júlí:
Veðurátta hér nyrðra hefir að kalla í allt vor verið þurr og köld nema dag og dag og lengi fram eftir frost á nóttunni. Tvö stórhret dundu hér yfir, seinni hluta maímánaðar og aftur fyrir og um miðjan [júní] Seinna hretið varð svo stórfellt, að kindur fenntu til dauðs og króknuðu í afréttum, og út við sjó og millum bæja. Eggver höfðu og sumstaðar skemmst til muna. Hér innfjarðar hefir nú lengi verið aflalítið. en nokkur afli yst í djúpum ... Nýlega voru Grímseyingar hér á Akureyri og Oddeyri, sögðu þeir líkt tíðarfar og á landi, lítill fiskafli, aftur varp í björgum vel í meðallagi.
Ísafold birtir þann 26.júlí fréttir úr Eyjafirði, dagsettar þann 12.:
Þurrakuldar héldust við framan af öllu vori, svo að harðlendistún kólu víðast, og þar sem það ekki var, skrælnuðu þau upp þá fáu hlýju daga, sem komu, því aldrei kom deigur dropi úr loftinu, þar til í miðjum júní, að breytti til með veðurstöðuna; úr því hafa stöðugir austanstormar gengið með kulda og úrkomum. Um fráfærurnar alsnjóaði, svo umbrot var fyrir hesta í heiðum og i daladrögum, geldfé var þá nýbúið að rýja og reka til afréttar, og króknuðu gemlingar sumstaðar; að vísu mun fé hafa gengið allvel undan vetrinum, en gróðurinn kom svo seint, að skepnur horuðust niður allt vorið. Lambadauði hefir verið nokkur, þó ekki eins og við hefði mátt búast eftir tíðarfarinu, og er það efalaust því að þakka, að meðferð fjárins á vetrum er stórum að batna hér í firðinum. Um sumarmálin kom nokkur fiskigengd í fjörðinn, en hélst að eins 3 vikna tíma; úr því má heita að fiskilaust hafi verið, nema reytingsafli yst á firðinum, sem fáum hefir þótt svara kostnaði að sækja. Hákarlsaflinn var góður hjá allflestum skipunum fyrstu ferðina. Aðra ferðina öfluðu nokkur skipin vel, en fleiri þó heldur lítið. Nú hafa þau verið um mánuð í þriðju ferðinni, en hafa sjálfsagt ekki getað verið nema mjög lítið við afla allan þennan tíma vegna storma og hafgangs, því bændur hér út með firðinum segja, að síðan austanstormarnir byrjuðu, hafi brimið sífellt verið eins og mest á haustdag.
Skuld (Eskifirði) segir af tíð þann 17.júlí:
Meðal þeirra gripa, sem i óskilum eru, getum vér Austfirðingar farið að telja sumarið í ár; að minnsta kosti höfum vér ekki orðið varir við það annarstaðar en í almanakinu, ennþá. Nú upp í frekan mánuð má svo að orði kveða, að varla hafi sól séð fyrir rosum, rigningum, þokum og hverskyns illsku í veðurlaginu; enda fer gróðurinn eftir því. Næturfrost hafa komið af og til, og það er ekki lengra síðan, en aðfaranótt 6. þ.m., að skændi af lagís hér út allan fjörð. Fráfærur urðu allstaðar á eftir venjulegum tíma og hríðdrapst undan ám og jafnvel ær króknuðu; bætti ekki um, að fé var víða horkvalið undan vetrinum. Í fyrra mánuði [júní] fennti enda fé í Seyðisfirði. Vér þekkjum bónda hér, sem á nú eftir 20 kvíær af 80, og munu fleiri til, er það nálgast, þótt eigi keyri svo úr hófi. Tún eru farin að sölna sumstaðar hér í neðra, og kyrkingur í öllum gróðri; er ekki útlit til að tún verði að meiru en hálfu gagni; en úthagi er víða eigi fyrirsjáanlegt að verði sláandi. Ofan á þetta bætist, að víða er kominn megn grasmaðkur í jörð, sem eyðir öllu gagni, þar sem hann til nær. Afleiðing þessara rosa og ógæfta hefir orðið eins á sjónum; aflinn hefir hvikull verið, meðfram sakir beituleysis, enda hefir sjaldan á sjó gefið, og tíðin hin versta til að verka afla. Yfir höfuð er engin sumarmynd á neinu, hvorki á sjó né landi, og vér þykjumst góðu hættir ef það kell [kelur] ekki úr oss síðasta lífs og vonar mark í hundadögunum.
Norðanfari segir af tíð þann 24.júlí:
Veðurátta er hér enn hin sama og áður, sífeld norðanátt og þurrviðri; grasvöxtur því með minnsta móti eftir því sem verið hefir nú um nokkur undanfarin ár, grasmaðkurinn hefir og viða á harðlendi ollað miklum skemmdum.
Ágúst: Þurr og blíð tíð nema á Austur- og Suðausturlandi þar var mjög óþurrkasamt. Fremur hlýtt nyrðra.
Norðanfari segir að sunnan þann 6.ágúst:
Veðrátta er góð hér á Suðurlandi; þurrviðri mikil og jafnvel um of, svo að grasvöxtur er í minna lagi. Fiskiafli var hér mjög góður í vor, en er nú að minnka.
Skuld segir af tíð eystra þann 22.ágúst:
Tíðarfarið hefir í sumar verið hið bágbornasta, er menn muna. Túnasláttur byrjaði löngu eftir vanalega tíð, og víða fást eigi hálf hey af túnum. Hér i sveit, utan háls, er úthagi sumstaðar eigi ljábær.
Þjóðólfur segir frá slysförum í ágúst í pistli 6.október:
[Þ.] 23. ágúst fórst skip með 4 mönnum af Álftanesi, þar skammt undan landi, þannig að bráðviðri var á, skip nærri tómt, en fáar hendur á; þykir víst, að þeir hafi siglt sig um koll. ... Um þessa daga er og talinn af róðrarbátur með 4 mönnum frá Hvaleyri við Hafnarfjörð.
September: Lengst af hagstæð tíð, nema austanlands, Mjög kalt syðra.
Þjóðólfur birti þann 6.október bréf úr Tálknafirði, dagsett þann 5.september:
Grasspretta hefir verið með bágasta móti hér í fjörðunum; sumstaðar hefir taða brunnið svo af túnum, að þau eigi hafa orðið slegin, engjar eru og illa sprottnar, nema helst votengi.
Skuld birti 22.október bréf úr Rangárvallasýslu, dagsett þann 12.september:
Tíðarfar hefir verið hér heldur gott, þó það hafi verið þerrilitið framan af júlí, og grasvöxtur með betra móti hér, helst á mýrarjörðum, því svo hefir allt verið þurrt hér, að það hefir verið slegið nú, sem menn muna varla að notast hafi áður fyrir vatni. Valllendi aftur með verra móti.
Þjóðólfur lýsir sumartíðinni þann 18.september:
Veðráttan í sumar hefir verið óminnilega fögur, björt og þurr um allt land nema á Austfjörðum og vestur með Vatnajökli í Skaftafellssýslu. Þar eystra hefir aftur gengið hallæristíð af hrakviðrum og kulda, og grasbrestur svo mikill, að víða byrjaði eigi túnasláttur fyrr en í ágústmánuði. Verður þar því nauð mikil í haust, er almenningur hlýtur annaðhvort að farga fjölda af skepnum sínum eða koma þeim í fóður, en hvert? Að vísu varð veðráttan að mun skárri óðara en upp í Héraðið kom, en heyskapur verður þar hvervetna mjög rýr, en með veðráttufari batnar hann úr því eftir því sem vestar dregur, og víðast annarsstaðar um landið mun heyskapurinn mega teljast góður sökum hinnar ágætu nýtingar. Þó brunnu tún víða (mest og háskalegast kringum Ísafjarðardjúp) í sumar, svo á fjölda jörðum brást töðufall til stórskaða. yfir höfuð hefir grasvöxturinn orðið fjarskalega misjafn, en víðast miklu betri á votengjum en þurri jörð, og sumstaðar afbragðsgóður, t.a.m. í Rangárvalla- og Árnessýslum (mestur að sögn á Skúmstöðum í Landeyjum og Arnarbæli í Ölfusi).
Skuld segir þann 21.september (dagsetur þann 20):
Það er nú útséð um það, að hér komi sumar í ár, þar sem sett er að með haustveðráttu og snjókomu af og til, bæði í fjöll, og í gær ofan undir sjó.
Október: Hagstæð tíð að slepptri slæmri hríð um veturnætur, annars hlýtt.
Þjóðólfur segir þann 6.:
Veðrátta gengur nú óstöðug og hraksöm síðan leið á réttirnar.
Skuld segir mjög stuttlega frá tíð í tveimur pistlum í október:
[11.] Veðurfar þessa viku hið blíðasta sem sumar væri, stillingar og logn.
[22.] Veðráttan er óstöðug nokkuð, en þó jafnaðarlegast hægt og frostlaust.
Norðanfari birti tvö október bréf þann 6.nóvember:
Húnavatnssýslu 14. október 1879: Tíðin hefir í haust verið rosasöm og miklar bleytur, slyddur og snjókomur.
Presthólahrepp í Norður-Þingeyjarsýslu 20. október: Tíðaríarið var hér um pláss kalt með austan nepjum og því gróðurlítið í vor og fram í ágústmánuð, en þá gjörði hér indæla tíð, er hélst um mánuð; spratt þá útengi öllum vonum framar; en þá gjörði enn austnorðan kuldakast; enn um Michaelismessu [29.september] gjörði öndvegistíð, og varð því heyskapur að lokunum fremur góður eftir því sem hér er um að gjöra; nú er hér komin haustveðrátta fyrir viku og þó ekki slæm. Fiskiafli hefir verið ágætur hér í sveit í sumar og er enn nægur fiskur fyrir þá róið er.
Norðanfari birti þann 2.janúar 1880 bréf af Rauðasandi, dagsett 18.október:
Síðan ég ritaði yður seint í júlí er allt tíðindalítið. Tíðin var hin ágætasta allt fram í september. En síðan eftir 7. sept. hefir veðurátta verið rosafengin og óstillt, stundum mjög miklar rigningar. Síðara hlutann af sept. bleytuköföld, sem að vísu urðu að vatni í byggð en festi á fjöll, svo á þau sum var komið allt að því hnésnjór. Frost hefir oft verið á nóttum. Síðan kom fram i þennan mánuð og svo er aftur annað veifið þíða og rigning; hefir því snjóinn tekið aftur upp af fjöllunum að mestu. Heyskapur hefir víst víða orðið í minna lagi, þó sumstaðar í meðallagi. Einkum brugðust túnin, því að af þeim hafði viða brunnið í hitunum framan af sumrinu.
Nóvember: Hagstæð tíð. Mjög hlýtt sunnanlands.
Skuld birti þann 27. bréf úr Fljótsdal, dagsett 7.nóvember:
Fréttir hefi ég engar að skrifa yður nema góða heilsu manna og góða tíð sem stendur; heybirgðir manna með langminnsta móti og útlit á að vetrarbeitin verði lítil, því það mátti kalla að úthagi grænkaði ekki í sumar, fénaður manna með rýrasta móti og farið að brydda á bráðapestinni á stöku stöðum. Haustveðráttan hefir verið allgagnstæð sumarveðráttunni hér um slóðir. Hefir oftast verið landátt (vestan til sunnan) með hitum og stundum úrkomu, snjólaust og frostlaust mest af; hefir enda stundum verið 68° hiti (R.) á nóttunni. Nú nokkra daga síðast hægt frost með norðanátt og logni siðast.
Norðanfari birti þann 2.janúar 1880 nokkur bréf dagsett í.nóvember:
Miðdölum 11.nóvember: Héðan er stórtíðindalaust að frétta, heilsufar almennings allgott og engir nafnkenndir nýlega dánir, tíðin hefir verið mjög umhleypinga- og illviðrasöm síðan á réttum, en ómunalega góð um heyskapartímann, varð því heyskapur i betra lagi, þó viðar væri snöggslægt. Fjárheimtur eru með versta móti því vegna þurrviðranna, í sumar hefir fé runnið afgeipa [út og suður]. Það er leiðinlegt, að vita hvað margt óskilafé er selt í hverjum hreppi og eigendur þess skuli þannig tapa eign sinni, sem ekki þyrfti að vera ef auglýst væri í blöðunum hvað selt er, ...
Broddaneshrepp í Strandasýslu 26.nóvember: Sumarið var óvenjuþurrkasamt og hagstætt, en graslítið harðvelli og brann víða af túnum, svo töður urðu víða helmingi minni en venjulega, en úthagi í meðallagi og sumstaðar góður til fjalla, málnyta allstaðar mjög rýr, haustið fjarskalega rigningasamt og oft talsverð veður af suðri og vestri, enda hafa orðið hér 3 bátstapar. 1. [nóvember] drukknuðu 2 menn af bát í Steingrímsfirði, en 1 varð bjargað, hann var frá Hafnarhólmi á Selströnd. 6. [nóvember] drukknuðu 3 menn frá Kleifum á Selströnd, sem voru til fiskiróðra norður á Eyjum. allt ungir menn og ógiftir, formaðurinn hét Jóhannes, þeir fórust í vestanveðri og enn er sagt að ekkert hafi rekið af þeim bát. 8. sama mánaðar drukknuðu 4 menn frá Guðlaugsvík, 3 bændur, ... þeir voru í fiskiróðri og þann dag var hér afar mikið veður, og brast á allt einu.
Af Suðurnesjum 22. nóvember: Hér er allt tíðindalaust, besta árferði upp á landið. Umhleypingar hindra sjógæftir. Snemma í nóvembermánuði rak hval eða aftari part af honum í Þorlákshöfn, líka hvalstykki á Ásfjörum, fremri part fisksins hafði rekið á Skúmstaðafjöru, en tók út aftur.
Þann 8.janúar 1880 birti Norðanfari bréf af Seyðisfirði, dagsett 23.nóvember:
Tíðarfar hefir verið mjög stirt í sumar, snjóar, rigningar og frost á víxl; ógæftir, fiskileysi, beituleysi og svo frv. Með september skánaði þó tíðin dálítið, svo góðir dagar komu stundum og afli nokkur. Ekki aflaðist síld fyrr en síðustu dagana af september, þá kom mikið af henni og fiski líka, næstum tómur þorskur. Fyrstu vikuna af október var hlaðafli af tómum þorski, eins inn á firði, var alla þá viku blíðu veður og logn. Nú er komið frost og norðanstormur, snjógangur og brim og heldur farinn að réna afli í firðinum, en útfyrir gefur ekki að reyna. Norðmenn hafa fengið svo mikla síld að undanförnu, að þeir hafa gjört boð út um byggð, að hver sem vildi mætti hirða síld hjá sér án borgunar, því lásarnir voru svo fullir, að þeir urðu strax að rýma úr þeim svo hún dræpist ekki.
Þjóðólfur birti tíðar- og slysapistil þann 27.nóvember:
Haust þetta hefir verið all-hrakviðrasamt, einkum á Suðurlandi og allt norður í Skagafjörð, þurrara úr því og gott á Austurlandi. Haustafli hér syðra viða góður orðinn, og hér á inn-nesjum sumstaðar óvenjugóður þessa síðustu daga á grunni. Af heilbrigði manna og málleysingja er allt bærilegt að segja, skaðar hafa fáir orðið og engin strönd, sem vér enn höfum frétt, enda fá ofsarok komið. En því miður hafa hin gömlu slys og mannalát haldið fornri venju: Á Steingrímsfirði hvolfdi báti í f.m. týndust 2 en 1 komst af; bátur fórst og á Hrútafirði með 3 mönnum; var formaðurinn Ólafur frá Guðlaugsvík; allir voru þeir kvongaðir. 8. þ.m. þá er norðanpóstur fór úr Eyjafirði, gjörði skyndilega um hádegi eitt hið voðalegasta afspyrnu-rok. Þá týndust 2 skip af Skagaströnd og 5 menn af hverju, 2 skip úr Skagafirði, og enn 2 á Steingrímsfirði. Um manntjónið er oss ókunnugt.
Ísafold segir af tíð þann 28.nóvember:
Veðrátta hefir í þessum mánuði verið mild, en vætu- og stormasöm; sér í lagi gjörði hér ákaflega mikið stórviðri á landsunnan þann 20. Afli hefir verið góður, þegar gefið hefir, en mjög sjaldróið sökum umhleypinga. Sláturfé skarst fremur illa um sláturtímann, sér í lagi upp á mör. Bráðapest gjörir við sig vart hér og hvar, þó ekki eins og við hefði mátt búast, eftir því sem tíðarfarið er. Hvergi heyrist kláðinn nefndur á nafn. Heilsufar manna á meðal fremur gott; þó hefir brytt á lungnabólgu á stöku stöðum. Með norðanpósti fréttist, að tíð hefir verið hin besta, sér í lagi eftir því sem lengra dregur norður.
Desember: Nokkuð skakviðrasamt, en lítið var samt kvartað undan tíð. Hlýtt í veðri lengst af.
Skuld segir þann 12.desember:
Það var haft eftir pósti síðast, að Norðlendingar hefðu orðið varir þess við og við í haust að eldur væri uppi. Hið sama hafa sumir þóst merkja hér eystra. Tíðin bendir og til þess. Af og til sumarveðrátta, vestanátt og sunnan; nær ávalt milt.
Fróði birti þann 14.febrúar 1880 bréf úr Skaftafellssýslu, dagsett 29.desember 1879:
Tíðarfarið mjög kalt og frostasamt, með norðaustan næðingum allt fram í miðjan júnímánuð, svo gróðurlaust mátti heita, og varla áfangastætt; frá 1722. júní hafrigning með stormi, svo talsvert króknaði af fé, einkum í Austursýslunni. Sumarið allt kalt, en fremur þurrviðrasamt. Grasvöxtur í allra minnsta lagi upp í mörg ár; svo heybirgðir manna í Austursýslunni einkum austur í Lóni og Nesjum óvanalega litlar. Aftur á móti grasvöxtur ágætur í Meðallandi og Mýrdal, en í góðu meðalagi yfir höfuð í Vestursýslunni. Síðan með september öndvegistíð, varla sést snjór og frost lítil, svo varla muna menn eftir jafngóðri haustveðráttu; víðast hvar ekki enn þá farið að gefa lömbum. Rétt fyrir jólin kom talsverður bleytusnjór, en tók undir eins upp aftur á annan í jólum.
Þann 17.mars 1880 birti Fróði bréf úr Árnessýslu, dagsett 20.desember:
Þegar maður skrifar um árferði, þá á best við að byrja með vorinu, því þá eru áraskipti árferðisins, og það eru hin náttúrlegu áraskiptin. Vorið sem leið var fremur gott, en þó greri jörð seint, því hún var mjög dauð og klaki í mesta lagi eftir veturinn. Eftir vertíðarlok gerði stórrigninga-kafla á þriðju viku, en þá hófst þurrviðrið og blíðan sem síðan hélst stöðugt þangað til 20 vikur af sumri; muna fáir jafnlangt góðviðri breytingalaust. En þá brá allt í einu til úrkomu með mestu hrakviðrum, snjóaði í fjöll og rigndi í byggð, tókust fjallaleitir ógreitt, og urðu heimtur ekki góðar, en fjallafé áður víða runnið í þurrviðrunum. Haustið varð hið rosamesta, og það sem af er vetri hafa verið umhleypingar, frost lítil, en úrkomur miklar og meira rignt enn snjóað. Grasvöxtur varð í minna lagi vegna þurrkanna er á leið vorið, en nýting var hin besta, þornuðu hey almennt svo vel að ekki hitnaði í þeim, en fyrir það urðu þau venju fremur laus í sér, og er nú víða kvartað yfir að vatn hafi hlaupið í þau í hinum miklu haustrigningum; eru víða af því orðnar tilfinnanlegar skemmdir bæði í görðum og í hlöðum.
Þjóðólfur segir á gamlársdag:
Haustið og skammdegið til þessa má kallast að hafa verið milt og gott, þótt jólafastan hafi verið hrakviðrasöm og gæftalítil. Fiskiaflinn hér í inn-flóanum varð hinn besti og hefði jafnvel orðið óvenjulega mikill, hefðu gæftir orðið góðar. Jörð hefir hér syðra oftast verið auð og þíð, enda gengu lömb úti til jóla til dala og fjalla, þar sem beit er best; aftur eru mýrarjarðir orðnar lítt nýtar til beitar, því þegar snjór ekki fær að hvíla slíkar jarðir annað veifið fyrri hluta vetrar, verður hagbeitin einatt bæði óholl og ónýt.
Þann 8.janúar 1880 birti Norðanfari tíðarfarsyfirlit ársins 1879:
Hin sömu frost og harðindi er gengið höfðu fyrir nýár 1879, héldust um Norður- og Austurland fram að páskum; snjóþyngsli voru mikil, einkum um Þingeyjarsýslu, Múlasýslur og mikinn hluta Eyjafjarðarsýslu; víða i þessum sýslum var haglaust fyrir allar skepnur allt frá því hálfum mánuði fyrir vetur i fyrra haust og fram til páska; frost voru og æði hörð fyrst eftir nýárið, lagði þá Eyjafjörð út að Hrísey og Vesturál, en Skagafjörð út að Málmey; hafís var fyrir utan en litt varð hann landfastur, og var nær allur horfinn í byrjun aprílmánaðar. Fyrir vestan Öxnadalsheiði var snjór lítill og nær því engin um Suðurland; veðrátta var óstöðug þegar kom fram á þorra og góu, voru þá umhleypingar syðra og hrakviðri, en snjóar fyrir norðan og austan. Eftir páska [13.apríl] fór að taka upp snjó fyrir norðan, en vorið var kalt og þurrkasamt nær því um allt land, kom því gróður seint í jörðu, snjóaði aftur í júní nyrðra og eystra. Grasvöxtur var í minna lagi víðast en þurrkur og nýting á heyjum var í besta lagi um Norður- og Suðurland. Aftur voru óþurrkar og hrakviðri eystra, einkum á Austfjörðum, í sumar. Eftir slátt gjörði góða tíð á Austurlandi og nyrðra, gekk sunnanátt með hlýindum og litlum úrkomum allt fram að nýári, mátti kalla öndvegistíð norðan og austanlands á hausti þessu; snjór féll svo að segja enginn og tók þegar upp aftur. Á Suðurlandi breyttist veðrátta eftir slátt, gekk í sunnan rigningar og hrakviðri, oft mjög stórkostleg, svo undir skemmdum lágu þar hæði hey og eldivíður; hélst veðurátt sú syðra fram að jólum með snjókomu öðruhverju; nokkuð rigningasamt var þá um Vesturland og Húnavatnssýslu, einkum vestan til.
Þjóðólfur gefur árinu 1879 góða einkunn í pistli þann 10.janúar 1880:
Með hinu liðna ári, hvarf eitt af gæskuárum lands vors í haf horfinnar tíðar batnandi vetur, meðalvor, indælt sumar og hagstætt haust. Innanlands eigum vér, eins og áður er sagt, að sjá á bak einhverju hinu besta ári, góðviðrisári, aflaári, heynýtingarári. Þó varð grasvöxtur víða mjög lítill, enda sumarið mjög stirt í fáeinum sýslum, helst eystra, og heilsufar manna ekki háskalaust.
Lýkur hér að sinni yfirferð hungurdiska um árið 1879. Finna má ýmsar tölulegar upplýsingar í viðhenginu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.9.): 122
- Sl. sólarhring: 145
- Sl. viku: 1368
- Frá upphafi: 2499825
Annað
- Innlit í dag: 106
- Innlit sl. viku: 1242
- Gestir í dag: 101
- IP-tölur í dag: 100
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- September 2025
- Ágúst 2025
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010