Fannfergið mikla í árslok 1978

Veturinn 1978 til 1979 er ritstjóra hungurdiska mjög eftirminnilegur. Skömmu fyrir jól lauk hann embættisprófi í veðurfræði (eins og það hét þá) í Bergen í Noregi og hóf störf á Veðurstofu Íslands í lok janúar. Dvaldi reyndar á heimaslóð við próflestur í október og fram eftir nóvember - en síðan í Bergen til prófs. Nóvember þessi (1978) var minnisstæður fyrir óvenjulega ásókn smálægða sem ollu miklu fannfergi um landið suðvestan- og vestanvert. Hungurdiskar hafa áður fjallað um þá merkilegu daga. Undir lok mánaðarins gerði mikla hláku og reyndar óvenjulegt úrhelli sums staðar suðvestanlands. Mældist þá mesta sólarhringsúrkoma til þess tíma á Stórhöfða í Vestmannaeyjum [142,0 mm] - met sem raunar féll naumlega ári síðar - líka í einkennilegu veðri [145,9 mm]. Allan snjó tók upp á skömmum tíma og veður lagðist í eindregnar austanáttir - sem stóðu að heita allan desember. 

Svo segir um desemberveðurlag 1978 í Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands:

„Tíðarfarið var með eindæmum hagstætt, milt lengst af, hægviðrasamt og snjólétt. Hagar voru góðir og sauðfé gekk víða úti. ... Fyrstu 13 daga mánaðarins voru lægðir suðvestur eða suður í hafi, en hæð var lengst af yfir Norðurlöndum“.

Síðan varð vindur norðaustlægari út mánuðinn. Úrkoma var aðeins um þriðjungur af meðallagi í Reykjavík allan mánuðinn og alveg þurrt var alla daga frá þeim 19. og fram yfir hádegi þann 30. Einnig var þurrt víða fyrir norðan en úrkoma var ofan meðallags sums staðar á Austur- og Suðausturlandi. 

w-blogg-100221_1978-12-31-a

Meðalþrýstikort desembermánaðar 1978 ásamt þrýstivikum. Óvenjulega þrálát austanátt var ríkjandi í mánuðinum, suðaustlæg fyrri hlutann, en síðan norðaustlægari. Mánuðurinn er ofarlega á lista yfir þrálátustu austanáttir í desember. 

Þann 30. dró til tíðinda. Ekkert benti þó til þess í upphafi dags. Ritstjóri hungurdiska gekk til útfarar í Borgarneskirkju eftir hádegi þennan dag - hann leit upp til sveitar af Kirkjuholtinu og sá þar tiltölulega meinlaus lágský á sveimi - eitthvað féll úr þeim - en virtist ekki mikið. Hann hafði heyrt eftirfarandi veðurspá fyrir Faxaflóa lesna með hádegisfréttum:

„Norðaustan gola eða kaldi og bjart veður“.

Við lok útfarar var komið él. Þá var ekkert að gera en að bíða eftir veðurspánni sem lesin var í útvarp kl.16:15 og gæta þess að missa ekki af henni: „Austan- og norðaustan kaldi. Dálítil él í kvöld, en annars skýjað með köflum“. - En lítið var um éljaskil það sem eftir lifði dags og smám saman jókst ákafi snjókomunnar. Morguninn eftir snjóaði enn - og kominn var kafsnjór - nánast jafnmikill og verið hafði í „mikla snjónum“ í nóvember. Satt best að segja tók veðurspáin varla við sér. Næsta spá, kl.22:30 hljóðaði svo: „Snjókoma með köflum í nótt, en léttir heldur til á morgun, en þó él á stöku stað“. En rétt fyrir hádegi á gamlársdag stytti loksins upp við Faxaflóa. 

Hugur þess nýútskrifaða var beggja blands. Hvað var hér á seyði? Átti hann eftir að fá annað eins í hausinn - „óspáð“? [Auðvitað átti hann eftir að lenda í því - hvað annað]. Ekki voru sömu upplýsingar á borðum veðurfræðinga þá og er í dag. Tölvuspár voru afskaplega ófullkomnar - breska 24-stunda 500 hPa-háloftaspáin sú besta - en 48-stunda spár voru afskaplega óáreiðanlegar - það var þó ekki hægt að treysta því alveg að þær væru rangar. Nú verður ritstjóri hungurdiska að játa að hann hefur ekki séð þær tölvuspár sem þarna voru þó fáanlegar - en hann hefur séð veðurathuganirnar og háloftaathuganir frá Grænlandi þar með. 

w-blogg-100221_1978-12-31-b

Hér má sjá endurgreiningu japönsku veðurstofunnar á sjávarmálsþrýstingi, úrkomu og hita í 850 hPa um hádegi 30.desember 1978. Þar má sjá litla lægð fyrir norðaustan land - tæplega þó lokaða hringrás (eða rétt svo). Varla þarf að taka fram að engar athuganir var að hafa frá þessu svæði - og þó svo hefði verið hefði verið erfitt að sjá að „lægðin“ stefndi til suðvesturs - hvað þá að henni fylgdi einhver úrkoma. Einhver úrkomubönd hafa þó sjálfsagt verið sjáanleg á daufum gervihnattamyndum sem Veðurstofan fékk sendar - þó ekki með alveg reglubundnum hætti. 

w-blogg-100221_1978-12-31-c

Háloftakortið er skýrara - þar má sjá að hæðin sem ráðið hafði ríkjum undanfarna 10 daga var að gefa sig og hún hörfar til vesturs undan lægðardragi og meðfylgjandi kuldaframrás úr norðri (örin). Það mátti sjá þetta lægðardrag á kortum á Veðurstofunni þennan dag.

w-blogg-100221_1978-12-31-k

Þetta er ekki frumritið - heldur afrit (riss) sem ritstjóri hungurdiska gerði nokkru síðar þegar hann var að klóra sér í höfðinu yfir þessum atburði. Jafnhæðarlínur eru grástrikaðar, en jafnhitalínur dregnar með rauðu. Framsókn kalda loftsins sést vel - sömuleiðis að hæg suðlæg átt er í háloftum á Tobinhöfða - en ákveðin norðvestanátt yfir strönd Grænlands þar fyrir sunnan. Eitthvað er greinilega á seyði - en að fara að spá meiriháttar snjókomu út á þetta eina kort er glórulítið - rétt að bíða þess sem verður og reyna að halda í horfinu. 

w-blogg-100221_1978-12-31-d

Hér er kort sem sýnir veður á landinu kl.9 að morgni gamlársdags. Snjókomubelti liggur yfir því vestanverðu. Þetta belti hafði legið hreyfingarlítið á svipuðum slóðum frá því að snjókoman byrjaði upp úr hádegi daginn áður - varla mótar fyrir lægðinni. Þegar á daginn leið þokaðist snjókoman til austurs og um síðir snjóaði einnig mikið sums staðar á Suðausturlandi - en stytti upp vestanlands. Bjartviðri var vestan við - eða svo er að sjá. 

w-blogg-100221_1978-12-31-e

Japanska greiningin sér lægðina/lægðardragið enn greinilega á korti sem gildir á hádegi á gamlársdag. Það er nú skammt undan Suðvesturlandi og alláköf úrkoma þar um slóðir. Taka ætti eftir illviðrinu sem geisaði í Evrópu - bæði þennan dag og daginn áður. 

w-blogg-100221_1978-12-31-f

Ekki veit ritsjórinn hvort þessi gervihnattamynd barst Veðurstofunni - og hafi hún gert það var hún mun ógreinilegri. Þetta er hitamynd sem tekin er eftir hádegi á gamlársdag. Þar má sjá greinilega lægðarhringrás fyrir vestan land [sést betur sé myndin stækkuð] - skilasinnaðir gætu meira að segja sett þarna allar gerðir skila, hita- og kuldaskil, samskil og meira að segja afturbeygð samskil (sting). Það er hins vegar sérkennilegt við þessa „lægð“ að hún kemur varla fram á þrýstikortum - alla vega ekki svona vel sköpuð. Þá fer loks að verða ljóst hvers eðlis er. 

Eins og nokkrum sinnum hefur verið getið um á hungurdiskum áður (en eðlilegt er að enginn muni) er ekki „nauðsynlegt“ að vindur blási í hringinn í kringum lægðakerfi - og gerir það raunar aldrei alveg. „Lægð“ - þar sem enga suðvestanátt er að finna suðaustan lægðarmiðjunnar getur litið „eðlilega“ út á mynd - sú hin sama „lægð“ getur jafnvel hreyfst til suðvesturs - algjörlega andstætt við það sem „útlit“ hennar bendir til að hún geri. Það eina sem þarf að fara fram á er að norðaustanáttin suðaustan við lægðarmiðjuna sé minni, og helst miklu minni, heldur en norðaustanáttin norðvestan miðjunnar. „Öfugeðli“ sem þetta er því algengara sem kerfið er minna. Í gömlum hungurdiskapistli má finna mjög skýrt dæmi um lægð sem þessa - en að sumarlagi (svo lítt var eftir henni tekið). 

Í þessu tilviki má segja að háloftalægðardragið eigi ábyrgðina - það býr kerfið til - gaman væri að fylgjast með þróun þess í nútímaspálíkani - allt frá óljósu úrstreymi - og tilheyrandi uppstreymi þar til skýjakerfið hefur hringað sig eins og sjá má á myndinni að ofan. Dragið fór síðan til austurs og lægðin með. 

Á myndinni má einnig sjá tvær gular örvar. Önnur sýnir (fallega?) éljaslóða í ískaldri austanátt yfir hlýjum Norðursjó - en hin bendir á hafísbrúnina rétt hjá Jan Mayen. Þetta mikill hafís hefur ekki sést lengi á þessum árstíma svona austarlega. Lítið hefur verið um hafís hér við land síðan vorið 1979 - veturinn 1980 til 1981 leit illa út um tíma, en ísinn hörfaði þá frá landinu undan suðaustanáttum í febrúar - rétt þegar hann virtist vera alveg að koma. Hvað síðar verður vitum við auðvitað ekki. 

w-blogg-100221_1978-12-31-g

Þetta kort sýnir tveggja daga ákomu snævar á landinu. Langmest snjóaði á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum - heldur minna í Borgarfirði og fyrir austan fjall. Sömuleiðis snjóaði nokkuð sums staðar fyrir norðan og á Suðausturlandi, en lítið á Snæfellsnesi og á mestöllum Vestfjörðum. Snjódýpt var reyndar sums staðar meiri norðaustanlands (og á Hveravöllum) en tölurnar sýna - en sá snjór var áður fallinn. Autt hafði verið á öllu Suður- og Vesturlandi.

w-blogg-100221_1978-12-31-i

Blöð komu ekki út um áramótin - snjókoman byrjaði eftir að prentun var lokið fyrir þau. Þess vegna er ekkert mjög mikið af fréttum af snjókomunni. Stærsta fyrirsögnin var í Dagblaðinu síðdegis 2.janúar. Morgunblöðin birtu fréttir af færð og snjó daginn eftir - þegar þau komu fyrst út á nýju ári - en ekki með miklum fyrirsögnum. Morgunblaðið sagði þó á forsíðu frá afleitu ástandi í Evrópu og vestanhafs. Lesa má þessar fréttir með því að stækka myndirnar - eða fletta þeim upp á timarit.is - en þaðan eru þær fengnar (eins og venjulega). 

w-blogg-100221_1978-12-31-j

Snemma í janúar gerði skammvinnan útsynning - þá daga var ritstjórinn að leita að húsnæði í Reykjavík (og fann - fyrir makalausa tilviljun). Síðan gekk á ýmsu - en snerist loks til norðankulda út mánuðinn og varð janúar mjög kaldur. Á Veðurstofunni sjálfri gekk í mikið stormviðri sem flæmdist í blöðin - látum eiga sig að rifja það frekar upp. Febrúar var nokkuð kaldur framan af en síðan hlýrri - og þá gekk á með nokkrum skakviðrum. Mars varð síðan óvenjukaldur og ekki var hlýtt í apríl.

loftslagsbreytingar-thjodviljinn-sjonvarp_1979-04-03

 

Þriðjudaginn 3.apríl tók ritstjórinn þátt í sjónvarpsþætti um veðurfarsbreytingar - ásamt sér þroskaðri og merkari mönnum. [Fréttin er fengin úr Þjóðviljanum þann dag - enn með aðstoð timarit.is]. Lá við ofdrambi fáeina daga á eftir - en slíkt gleymdist fljótt í hinum hræðilega og illræmda maímánuði - sem var hreint afturhvarf til harðinda 19.aldar - ásamt septembertíðar sama ár. Virtist allt stefna til ísaldar - ef ekki þeirrar litlu - þá stórusystur sjálfrar. Þó voru þeir til sem héldu sönsum og sögðu mikil hlýindi í vændum - eiginlega sama hvað. 

Í viðhengi má sjá veðurspár fyrir Faxaflóa þessa daga og veður í Reykjavík 30. og 31.desember 1978 og 1.janúar 1979. Þar er einnig listi með tölunum á snjódýptarkortinu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þurrklengd í Reykjavík?

Af einhverjum ástæðum er verið að tala um að það í fjölmiðlum að alveg úrkomulaust hafi verið í Reykjavík frá og með 19.janúar til þessa dags (9.febrúar) - en það er bara ekki rétt. Að morgni þess 31.janúar mældist úrkoma 0,4 mm - tegund talin snjór í yfirliti Veðurstofunnar. Þó þurrkurinn sé að verða fremur óvenjulegur klippir þessi eini dagur kaflann í sundur og metlengd er því enn víðs fjarri - hvað sem svo síðar verður.

Þeir sem nenna geta rifjað upp gamlan pistil á vef Veðurstofunnar - hann fjallar um þurrklengd í Reykjavík - hugsanlegt er að hann þarfnist endurnýjunar - en flest sem í honum er stendur þó lítt eða óhaggað. - Þurrkkaflar í Reykjavík.


Strandveður

Ritstjóri hungurdiska flettir í gömlu dóti og rekst á sérprent úr riti sem þýska sjóveðurstofan í Hamborg (Seewetteramt) gaf út 1951 [Klima und Wetter der Fischergebiete Island - Veðurfar og veður á fiskimiðum við Ísland). Sérprentið ber yfirskriftina „Wetterlage bei Strandungen an der Südostküste Islands“ - eða Veðurlag við skipströnd við suðausturströnd Íslands. Þar fjallar Martin Rodewald (1904-1987 og var mjög þekktur veðurfræðingur á sinni tíð) um efnið. 

Greinin hefst á stuttri frásögn hans um eigin reynslu undan ströndinni í maí 1926 í hægri suðaustanátt og þoku - og þau óþægindi sem því fylgdu, vitandi af ströndinni skammt undan og það sem loksins sást var flak sem þar lá. Það var það fyrsta sem Martin Rodewald sá af Íslandi. Í greininni er síðan tafla yfir 12 þýsk „strönd“ á þessum slóðum, það fyrsta 1898 en það síðasta 1949. Hann vekur athygli á því að veður var í flestum tilvikum ekki sérlega vont, engin fárviðri alla vega. Strekkingsvindur, upp í 7 vindstig, en oftast minna. Vindátt oftast af austri, en skyggni slæmt.

Skanni_20210208

Kortið sýnir „meðalveðurlag“ í 10 af þessum 12 ströndum, tvö eru víst talin lítt veðurtengd. Athygli er vakin á því að þetta víkur nokkuð frá meðalþrýstingi í desember - þrýstivindur er mun suðlægari en venjulega. Háþrýstingur meiri en oftast er yfir Skandinavíu - og Íslandslægðin svonefnda í fremur vestlægri stöðu. Það þýðir væntanlega að skyggni er verra en algengt er. Sömuleiðis bendir hann á að vindátt á strandstað víkur mjög frá þrýstivindáttinni (fylgir ströndinni eða stefnir jafnvel út frá landi) - en er suðlæg þar fyrir ofan. Við þekkjum þetta veðurlag vel. 

Fjölmargir þýskir togararar stunduðu veiðar við Ísland og flotanum fylgdu gjarnan eftirlits- og aðstoðarskip. Veðurskeyti þeirra komu oft að góðum notum á Veðurstofunni þegar veður voru válynd og hafa vafalítið bjargað einhverjum mannslífum - ekki aðeins þýskum. Sum nöfnin urðu kunnugleg, t.d. Poseidon og Meerkatze - og fleiri. Við, gamlir veðurfréttanaglar, hugsum til þeirra af hlýhug (þó eitthvað hafi verið kvartað undan þeim á landhelgisbaráttuárunum). En þessi gamli veðurfréttaheimur er löngu horfinn. Þó spám hafi fleygt fram er samt margs sem sakna má. 


Af árinu 1838

Árið 1838 þótti almennt hagstætt, sérstaklega um landið sunnanvert, þar sem var óvenjuþurrt. Meðalhiti í Reykjavík var 4,2 stig, 0,1 stigi ofan meðallags næstu tíu ára á undan, og það hlýjasta frá 1831. Meðalhiti í Stykkishólmi reiknast 3,2 stig. Engar mælingar hafa fundist frá Norður- eða Austurlandi. Hafís var nokkuð á sveimi - og hefur nær örugglega haft áhrif á sumarhita þar sem hans gætti. Hafísmagnið var þó miklu minna en árið áður. Júlímánuður var sérlega hlýr suðvestanlands, meðalhiti í Reykjavík reiknast 13,0 stig - en talsverð óvissa samt í þeirri tölu. Janúar og maí voru einnig í hlýja flokknum, en mars, apríl, september, október og nóvember kaldir.  

ar_1838t 

Í Reykjavík voru 14 dagar mjög kaldir, kaldastur þeirra að tiltölu var 22.ágúst. Níu dagar voru mjög hlýir, hlýjast að tiltölu 29.júlí. Hiti fór fjóra daga í 20 stig eða meira í Reykjavík, mest 21,3 stig - alla dagana fjóra (aðeins mælt með 1°R nákvæmni). Slæmt kuldakast gerði snemma í júní, og fór hiti þá niður fyrir frostmark nokkrar nætur í Vík í Mýrdal. 

Árið var sérlega þurrt í Reykjavík, þurrara en árið þurra 1837, en ekki alveg jafn þurrt og metþurrkaárið 1839. Spyrja má um vatnabúskap í þessari löngu þurrkasyrpu. Ársúrkoma í Reykjavík mældist ekki nema 436 mm, nærri helmingur hennar (199 mm) féll í tveimur mánuðum, janúar og desember. Úrkoma mældist 10 mm eða minni í 5 mánuðum ársins, minnst í júní, 3 mm (sjá tölur í viðhengi).

Loftþrýstingur var mjög hár í nóvember og hár í 6 öðrum mánuðum, en lágur í þremur, að tiltölu lægstur í september. Órói frá degi til dags var með minnsta móti í febrúar, maí og nóvember. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík þann 27.október, 960,4 hPa, en hæstur á sama stað 27.janúar 1034,6 hPa. 

Hér að neðan eru helstu prentaðar heimildir um árið teknar saman, stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Fáeinar ágætar veðurdagbækur eru til sem lýsa veðri frá degi til dags, en mjög erfitt er að lesa þær. Annáll 19. aldar telur ýmis slys og óhöpp sem ekki er getið hér að neðan. Dagsetninga er sjaldan getið og samband við veður oft óljóst. Þó er rétt að nefna að maður frá Útibleiksstöðum í Miðfirði fór ofan um ís á firðinum. Þann 28. september segir annállinn að verið hafi „ofsaveður sem rauf víða bæði hús og hey og spillti förum manna. Þilbát tók út hjá Birni bónda á Sævarlandi í Laxárdal og braut í smátt“. Segir einnig frá því að í öndverðum nóvember hafi sjór gengið mjög á land syðra um næturtíma, braut skip og báta og gerði fleiri spellvirki. 

Fjölnir V 1839 (3-8 fréttabálkurinn) Eftirmæli ársins 1838, eins og það var á Íslandi:

Þó að árið 1838 gæfist nokkuð misjafnt á Íslandi, eftir því sem sveitum og héruðum hagar, og það yrði með köflum fullerfitt sumstaðar, má þó kalla, þegar á allt er litið, að það hafi verið fagurt og blíðviðrasamt og affaragott í flestu. Veðuráttan, sem um Suðurland víða hafði verið fádæma góð, hélst við, að kalla mátti, fram yfir miðja góu; því þó eftir nýárið um svo sem hálfsmánaðartíma væri nokkuð hryðju- og umhleypingasamt, gekk þó hinn tímann lengst af á hægviðrum með stillingu til loftsins, svo að hvorki voru stórkostleg hrök né frostaíhlaup; stóð vindur oft af austri eður suðri, og loftið létt og fagurt, þar sem þessum áttum eru miklu algengari slyddur og stórrigningar, einkum á þeim tíma ársins. Þessi veðurátta var algeng um Suðurland, en þó kom veturinn þar harla misjafnt yfir; því til og frá — einkum í þeim sveitunum, sem hærra liggja og heldur til fjalls — lagði jörðina undir að nokkru leyti, og tók fyrir eður skemmdi haga, þegar eftir nýárið, sem seint vildi taka af eða lagast aftur, af því veðuráttan var heldur aðgjörðalítil; þó komu á þorranum slíkar þíður, að víðast munu þá hagar hafa komið upp aftur fullkomlega, og sumstaðar tók enda að mestu leyti klaka úr jörðu; hrakaði útifénaði seint vegna góðviðranna, og var hann þar sem best lét fram yfir miðgóu í haustholdum, þó lifað hefði þangað til eingöngu af jörðunni. Frá því í seinustu viku góu til þess komið var af sumarmálum, svo sem í fimm vikur, var  fullkomið hagleysi og jarðbann að kalla allstaðar, nema máski á fáeinum bestu hagajörðum, og þó mátti kalla, að alltaf héldist sama góðviðrið — sáldraði snjónum mest niður í logni, og lá löngum við frostleysu, og tók upp mestan snjóinn með sólbráði og þíðvindum. Eftir sumarmálin, nær því hálfan mánuð af sumri, gjörði aftur mikið íhlaup af norðri í 3 daga; en þaðan af tók að batna algjörlega, og tók upp snjó og ísa, en klaki leið úr jörðu smátt og smátt. Fénaður gekk undan vel til fara, og voru víða ærnar heyfyrningar, féll og vel um sauðburðartímann. Heldur var seint um gróðurinn fram eftir vorinu, og varð það grasvextinum að nokkrum hnekki, að á hvítasunnunóttina [3.júní] og fram eftir deginum þeytti niður snjó með svo miklum kulda, að hann var sumstaðar ekki tekinn upp að kvöldi, og aftur á trínitatishátíð [10.júní] gjörði norðanveður með allmiklu frosti; en úr því var og veður ætíð blítt og hagstætt.

Nyrðra var veturinn erfiðari; því þó veðurreyndin væri lík að því, að vera heldur hæg og góð, þá tók þó sumstaðar fyrir jörðu þegar með veturnóttum, og kyngdi þá niður slíkum fjarska af snjó, einkum í Norðursýslu og á einstöku útkjálkum víðar, að varla sá til jarðar fyrr en á þorra, að víðast komu upp snöp nokkur tímakorn, en tók þó fyrir þau bráðum aftur, svo sumstaðar mun hafa dregist að því, að hafa yrði allan fénað á gjöf í nærfellt 30 vikur, þar til leið af fardögum. Þykir það allri furðu gegna, hvað vel menn komust af, að óviða varð fellir til rauna, og munu þess trautt dæmi í árbókum vorum eftir slíkan vetur. Má það eigna allgóðum heyafla undan sumrinu, en heldur fénaðarfátt undir; það er þessu næst, að heldur eru menn farnir að sjá að sér með ásetninguna og láta leiðast til að fella fénaðinn, einkum þegar veturinn leggst snemma á; en helst hefir þó stutt að þessu góð og viturleg meðferð á fénaðinum, og lag það og kunnátta, sem norðlenskir hafa fram yfir sunnlendinga á því, að koma fram fénaðinum skemmdalaust með litlum heyföngum. Hafís varð landfastur fyrir Ströndum vestra þegar í nóvembermánuði, en losnaði þó aftur; og á flökti var hann norðanlands öðru hverju vetrarins, en ekki lagðist hann um kyrrt þar, nema í Þingeyjarsýslu, og þó ekki fyrr en undir sumarmálin, og var hann nokkuð fram eftir vorinu; en ekki varð hann aflabrögðum manna til mikillar hindrunar, nema helst hákarlaútveginum.

Þegar vetrinum var af létt og vorið hjá liðið, tók við svo gott og blítt, fagurt og indælt sumar, að fáir muna annað eins; og kom það að kalla jafnt yfir allt landið; voru löngum hægviðri og hitar, stundum dumbungar og smá-áleiðingar, enn þó miklu oftar heiðskírt og bjart veður, einkum sunnanlands. Grasvöxturinn varð og víðast i meðallagi, og sumstaðar betur; einna lakast mun hafa sprottið á þjóttumýrum vegna langvarandi þurrka; ávöxtur fénaðar var með betra móti víðast hvar; allar sýslanir manna, ferðalög og aðdrættir, urðu því hægar og ánægjulegar og leystust vel af hendi. Eins var með sláttinn, að hann gekk með æskilegasta móti, nema hvað erfitt þótti að vinna á um miðju hans, þar sem ekki var annað að ganga lit á, en valllendi; en því betur veitti þeim, sem höfðu votlendar mýrar eða damma, því allt var að kalla veltiþurrt, svo að kostur var að flekkja þar sumstaðar, sem sjaldan eður aldrei hafði slegið verið að undanförnu fyrir vatni; enda var löngum kostur á að taka eftir ljánum það sem losað varð. Studdi allt þetta til þess, að erfiðið yrði sem drjúgast og fyrirhafnarminnst og aflinn sem mestur og bestur; ræður það af því er varla nokkurt handarvik er unnið fyrir gýg og veðuráttan hamlar aldrei að standa að verki, en grasið fölnar í seinasta lagi og allt sem tekið er af heyjum er ómætt þegar í garðinn kemur. [Hér kemur nokkuð langur almennur kafli um „góða heyskaparhætti“ sem við sleppum að sinni - en hann má lesa í Fjölni, 1839]

Það reyndist svo enn í sumar, að hollast er að taka snemma til sláttar og eiga sem minnst undir haustinu; undir göngurnar um miðju septembermánaðar brá til rosa, sem sumstaðar gjörði heyaflann nokkuð endasleppan; því þeim sem ekki heppnaðist að ná undan fyrstu dagana eftir það fór að bregða, varð bið á því næstu 5 eður 6 vikur, þar til seinast í októbermánuði, að liðið var af veturnóttum og tókst þó enn, og þótti svo betur enn ekki. Var þessi kaflinn, svo sem 6 vikna tími fyrir veturnæturnar, hretviðrasamur mjög og umhleypingasamur sunnanlands; gekk mest á stórrigningum af landsuðri og austri eður feiknarlegum útsynningshryðjum, svo varla fékkst þurr dagur, og það svo, að ekki varð hlaðið úr böggum né lagfærð hey, svo að vikum skipti, enn að síðustu hljóp í norður með gadd og nokkurn snjó; varð af því að taka kýr á gjöf og enda lömb með fyrsta móti, en öðrum fénaði hrakaði mjög; varð og fyrir þessa sök lítið um öll hauststörf manna. En eftir veturnæturnar kom aftur góðviðrakafli viðlíka langur seinni hluta októbermánaðar og nóvembermánuð allan var þó stundum nokkurt föl á jörðu, en oftast gott til haga, lygnt og gott veður til loftsins og hægt veður, hvorki frost til drátta — svo enda lá nærri stundum, að klaka drægi úr jörðu aftur — né heldur rigningar. Enn með desembermánuði brá aftur til hrakviðra og umhleypinga, og kvað því meira að því, sem lengra leið á mánuðinn; var mánuð þennan veður lengst af austri, suðri eða útsuðri með slyddum eða rigningum, og hafði snjórinn sjaldan viðnám degi lengur. Verður mönnum lengst í minni sjálfur jóladagurinn: varð þá messufall svo að sýslum skipti; stóð veður af austri eður landsuðri fram eftir deginum, en gekk til útsuðurs, þegar á leið; gengu þá þrumur og eldingar, svo að undrum gengdi og ofanfall að þvílíku skapi, þar til minnkaði undir kvöldið. Einni skruggunni sló niður í Árnessýslu í lambhús, og fórust af því nokkur lömb. Var þetta undanfari harðindanna, sem tókust algjörlega undir nýárið og héldust við fram eftir vetrinum þaðan af. — Nyrðra varð nýting á heyi hin besta að lokum heyanna; var haustið þurrt og gott og tíðin góð fram undir lok nóvembermánaðar. Seinna hafa ekki þaðan fréttir borist. Ár þetta var næsta rekasælt; því hinn fyrra veturinn urðu einhverjir mestu trjárekar víðast kringum landið bæði af rekaviði og aftur annarstaðar, helst syðra, af stórtrjám tilhöggnum.

Í október-mánuði haustið 1837 varð vart við hræringar nokkrar fyrir norðan land — og aftur á útmánuðunum syðra hér, en ekki varð meint að því; en í júnímánuði gjörði svo mikla hræring nyrðra, nóttina milli 11. og 12. júní-mánaðar nokkru fyrir fótaferð, að bæir högguðust, og einstöku hrundu að mestu; varð mest að því í Fljótum í Skagafirði, og á þeim kjálkunum landsins þar í nánd, sem skaga lengst norður. Þóttust menn verða þess varir, að hræringin kæmi að norðan, og þeir, sem úti voru staddir, létust séð hafa álíkt bylgju nokkurri, þá aðalhræringin gekk að, úr norðurátt — er þess og getið, að vikurkol hafi fundist þar við sjó, og hafa það sumir menn fyrir satt, að eldsumbrot nokkur hafi verið undir sjónum einhverstaðar gegnt norðri þaðan. Um sama leytið þóttust menn verða varir við öskufall á nokkrum bæjum á Rangárvöllum, og að vísu var á hvítasunnukvöld og stöku sinnum þar eftir loftið harla líkt því, þá vikur og ösku mistur hefur fyllt það og eldur er uppi, og enda veðurreyndin lengi síðan, þar sem varla kom dropi úr lofti, hvað líklega sem þar til virtist horfa, en hlýindi og hitar með mesta móti. Ætluðu menn að eldur mundi kominn upp í Öræfajökli, og drógu það til þess með fram, að Skeiðará, sem allt vorið hafði verið þurr, að kalla, ruddist um það bil fram aftur með miklu jökulflóði, og komst eftir það aftur í eðli sitt. En ekki eru, svo heyrst hafi, fleiri líkindi til þess, eldur hafi uppi verið sumar þetta. Er þetta helst eftirtektavert, ef reynast kynni, að eldsuppkoma hefði átt einhvern hlut í veðurblíðunni, sem í sumar var, og stundum mátti kalla að furðu gegndi.

Bréfamaður milli Skaptafellssýslu og Suður-Múlasýslu varð og úti á vesturleið sinni í haust. Bræður tveir urðu enn úti eða fyrir snjóflóði í Kelduhverfi á heimleið úr Húsavíkurkaupstað. ... Það var helst landi voru til óhæginda þetta ár, að sjávaraflinn var lítill og kaupverslunin erfið.

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Jarðbönn með köföldum og blotum hélst til 17. jan., að snöp með góðviðri gafst. 23.-24. hláka. Lagðist þá fjarskamikill svellgaldur á flatlendi. Veður var lengst stillt og frosthægt til miðgóu, en hnjótar entust ei til framsveita fram yfir miðþorra. Hélst jarðleysi þíðulaust, án talsveðra illviðra, til sumarmála. Í Skagafirði gengu nokkur hross af, sem gefin voru út til að falla, hefði harðar hríðar komið. Gjafatími varð hinn lengsti og hey hjá öllum að þrotum komin, fáir öðrum bjargandi.

Sunnanpósturinn (6.tölublað 1838, s.94) segir af tíð og fleiru - 1838:

Vetur hér á Suðurlandi hefur mátt heita góður, frostið aldrei gert betur en ná 11° sunnanlands og varað stutta stund í senn, jarðleysukaflar hafa komið við og við, helst upp til fjalla og frést hefur að fénaður sé hér og hvar farinn að hrökkva af. Á útkjálkum landsins hefur vetur orðið harður, helst í Norðursýslu hvar jarðbönn hafa verið allan veturinn og nú seint í fyrra mánuði fréttist til íssins við Norðurland. Allstaðar er kvartað um bjargræðisskort, og eins við sjávarsíðuna, hvar afli hefur lítill gefist.

Bessastöðum 3-4 1838 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s175) Vetur hefur verið frostalítill, en síðan að vorinu leið er heldur kalt og umhleypingasamt.

Brandsstaðaannáll [vor]:

Á sumardaginn fyrsta kom upp snöp og í annarri viku góður bati. 1.-2. maí hart hríðarkast, svo allar ár lagði og ís rak inn á Skagafjörð, síðan kalt og þurrt. Eftir krossmessu heiðarleysing og kom gróður í byggð, bjarglegur. 1. júní hret og harka og á hvítasunnu, 3. júní, minnileg suðaustan-fannkomuhríð allan daginn, eftir það frost á nætur og smáhret.

Frederiksgave 4-5 1838 (Bjarni Thorarensen): Hafís segja menn mér að nú sé að sigla inná Eyjafjörð! Í Þingeyjarsýslu og með undantekningu af Bárðardal, Fnjóskadal og Svalbarðsströnd og þar út með Eyjafirði, hefir verið að öllu jarðlaust síðan á veturnóttum, en til páska [15.apríl] hafa þeir þó allir haldið út, þá voru þeir í fári og nú býst ég við að heyra allt hið versta þaðan því síðan 30. apríl til datum [dagsins í dag] hefir sífellt að kalla má, verið norðanhríð. Heyleysi verst og mesta að frétta úr Skagafirði og Húnavatnssýslum ... (s297)

Frederiksgave 5-5 1838 (Bjarni Thorarensen): ... nema að hafís hefir nú látið sjá sig í Hríseyjarálnum og norðlendingar í mestu hættu sökum heyleysis nema því betur vori – enda hefir í mestum hluta Þingeyjarsýslu jarðlaust verið frá veturnóttum og þangað til framyfir sumarmál – og frá 30. apríl til 3. þ.m. hefir verið kafaldskast á norðan, nú í gær og í dag betra. (s162)

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Laugardagsnótt 9. júní stórrigning. Um morguninn brast á norðanhörkuhríð með mestu fannkomu, svo svellbunka lagði yfir mela og flatlendi. Á trinitatis [10.júní] augaði í á túnum, en fannkoman hélst um 5 dægur. Á mánudagskvöldið tók af hnjótum og þótti nú gott að geta gefið inni kúm og lambfé eða miðlað öðrum með sér. Í fyrsta sinn sá ég (s127) nú lokið heyi síðan um Jónsmessu 1802, enda varð nú flestum að sópa tóftir innan. Ekki varð samt fellir, þar heylaust var, utan lambadauði. Nóttina eftir hríðina [12. júní] varð landskjálfti svo mikill, að alla felmtraði, svo ei hafði slíkur komið síðan brunasumarið 1783. Þessi varð einasta norðanlands. Lá við að hús skemmdist. Af hillum hrundi sérhvað. Hrökk leirtau þá víða í sundur. Drangeyjarmenn komust í lífsháska af grjóthruni. Stukku þeir fram í sjó sem lengst er stætt var. Skip og byrgi skemmdust og 1 maður fórst. Mestur varð hann á norðurkjálkum og bæir hrundu í Héðinsfirði. Menn á sjó fundu líka mikið til hans. Aðrir 3 minni fylgdu eftir um nóttina og morguninn. Eftir hretið var veður stillt og þurrt, en greri seint. Um Jónsmessu kom besti bati og lauk þá þessum 3-4 ára harðindakafla. Suðurlestir fengu aura mikla og snjóbleytu. Skagfirskir lestamenn misstu (8) hross í Haukadal í trínitatishretinu. Í júlí hitar og blíða, svo gras spratt í betra lagi. Sláttur byrjaði 22. júlí. Í ágúst besta veðurátt og oft sterkir hitar, þó ei breiskjur til lengdar og aldrei rigningar til skemmda.

Sunnanpósturinn (8.tölublað 1838, s120) segir af jarðskjálftunum norðanlands:

(F)yrir norðan land varð töluverður jarðskjálfti nóttina milli 11. og 12.júní; nálægt 2 tímum eftir miðnætti. Kippirnir urðu þrír og leið svosem tími milli þeirra; sá fyrsti var lengstur og líka harðastur. Við fleiri hreyfingar varð vart, þó miklu minni, fram eftir júnímánuði (syðra varð aðeins hér og hvar vart við jarðskjálftann 12.júní). Bæir hrundu hér og hvar nyrðra í þessum jarðskjálfta, helst í Fljótum og Héðinsfirði. Björg hrundu í Drangey og Málmey í Skagafirði. Maður sem var að fuglaveiðum á flekum við Drangey skal hafa orðið það að banameini að bergið sem hann lá í hrapaði á hann. Í Grímsey þykjast menn og vita að þessi jarðskjálfti hafi komið. Seinasta fregn að norðan segir að töluverð vikurkol hafi borist þar að ströndinni, hvar af menn giska á að eldur hafi í hafinu fyrir norðan Ísland brotist út og þykjast nú margir geta vitni umborið að jarðskjálftinn hafi komið úr norðri, en áður var altalað að hann hefði komið úr landsuðri.

Sunnanpósturinn (10.tölublað 1838, s155) segir af árferði vor, sumar og í byrjun hausts:

Vorið varð bæði kalt og þurrt og seinn gróður allstaðar: aldrei festist samt ís við landið. Þurrviðri varaði fram eftir öllu sumri; samt varð grasvöxtur í meðallagi, en nýtingin ein sú besta sem menn muna. Þurrkurinn var svo langgæfur of mikill að flestir brunnar þornuðu við sjávarsíðuna og með hesta mátti fara yfir mestu mýrarforæði. Veðurblíðan var stöðug og henni samfara almenn heilbrigði; hitinn jafnaðarlega í skugganum 14° og stundum þar yfir. Grasvöxtur og veðráttufar var mikið líkt um allt land, sem ekki er alvenja, jafnvel á Vestfjörðum í Ísafjarðarsýslu var hitinn stundum 14° í skugganum. Heyskapur hefur því verið að kalla góðu, þó bágt væri að heyja þar sem harðslægt var, og hey hafi orðið úti hjá mörgum sem voru við heyskap því haustrigningar komu snemma í október og enduðu með frosti og nokkurri snjókomu, helst upp til fjalla. Mitt í mánuðinum hefur frostið orðið sunnanlands 8° og meir og nyrðra 10°. Snjó lagði á jörð töluverðan, helst sem frést hefur í Dalasýslu og má það mikið kalla um þetta leyti, en eftir vikutíma mildaðist veðrið og hefir haldist mánuðinn út. Afli hefur á þessu sumri verið í betra lagi um Suðurland.

Saurbæ 20-8 1838 [Einar Thorlacius] (s79) Að vísu var veturinn næstliðni fram til góu ekki verri en í meðallagi, en upp frá því og allt fram til Jónsmessu vægðarlaus að heita mátti, er því grasár vart í meðallagi.

Bessastöðum 1-9 1838 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s177) Sunnanlands hefur verið besta sumar, ...

Laufási 2-10 1838 [Gunnar Gunnarsson] (s82) Næstliðinn vetur varð mörgum þungbær, einkum hér í Norðursýslu, vegna snjófergju og jarðbanna fyrir útigangspening. Þó varð óvíða skepnumissir. Vorið var kalt og þyrrkingasamt, en síðan með júlímánuði hefur hér mátt heita árgæskutíð bæði til sjós og lands ... Hérumbil kl. 2 um nóttina milli þess 11. og 12. næstl. júní kom slíkur jarðskjálfti hér nyrðra, að eldri menn mundu ei slíkan. Hann var mikilfengastur og skaðamestur á Ólafs-, Siglu- og Héðinsfjörðum, samt Fljótum, hvar bæjarhús allvíða hristust sundur og hrundu niður. ... Fleiri smærri fylgdu á eftir í sama sinn, og síðan af og til nokkra daga eftir.

Frederiksgave 6-10 1838 (Bjarni Thorarensen): ... útfall heyskaparins var hið æskilegasta – svo nú er óhætt ef vetur verður ekki því langvinnari. (s138)

Frederiksgave 6-10 1838 (Bjarni Thorarensen): Þú ert búinn að frétta um jarðskjálfta. Þetta hús musiceraði poetiskt og hrikalega um nóttina og tjörukaggi við gafl þess, brá á leik og tók að dansa. ... Heyskapur hefir lukkast rétt vel ... (s243)

Frederiksgave 24-10 1838 (Bjarni Thorarensen):: Hér hefir allstaðar heyjast vel, og ég vona nú að fleirstir verði óbilugir með hey þó harður vetur komi ... (s164)

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

Í september norðanátt og frostnætur, síðan snjóalaust til 11. okt. Á sunnudagskvöld [væntanlega 14.október], upp á lognfönn, brast á mikill hríðarbylur, svo víða fennti nokkuð af fé, síðan harka og kóf til 22. okt., að hláku gjörði með góðviðrum á eftir til miðs nóvember, síðan allgott vetrarfar, en óstöðugt á jólaföstu, en beit allgóð. Jólin urðu hin verstu, er menn mundu til. Á jóladaginn, með degi, kom á landsunnan ofsaveður með krapaslettingi. Bræddi kvartelsþykkt svell á steina til hálsanna og gjörði jarðlaust. Var þó lengi rigning neðra, en klambraði allt að lokum. Um nóttina og daginn eftir gott til þess um miðjan dag brast á norðanbylur. Braust þó messufólk heims um kvöldið. Á þriðja vestanhríð, svo jarðlaust til nýárs. (s128) ... Jarðeplafengur varð enn lítill og enginn, þar sumir hættu að leggja alúð á hann. Seint varð sáð og nokkuð dó út um nóttina 3. ágúst við frost og hélu. 14. okt. varð sá atburður að Hnjúkum, að bóndinn, Sveinn Halldórsson, kom um kvöldið ríðandi frá Holti. Brast bylurinn á hann milli bæjanna, og varð hann þar úti, en Sölvi sonur hans kom gangandi frá Kúlukirkju og varð líka úti sömu nótt skammt frá bænum. (s129) Á góu hrakti skip úr Höfða.

Tvær dagbækur úr Eyjafirði eru aðgengilegar þessi árin - sú ítarlegri þeirra, sem Jón Jónsson á Möðrufelli hélt, er hins vegar illlæsileg óvönum. Þó má draga eftirfarandi út um árið 1838: 

Henn segir janúar mega kallast allgóðan, en kvartar þó undan nokkrum jarðbönnum. Febrúar segir hann kallst mikið góðan bæði að stillingu og jörð. Sömuleiðis telur hann mars allgóðan hér um pláss og apríl í meðallagi, en maí í löku meðallagi. Ekki gott að lesa umsögnina um júní, en að sjá sem hann telji júlí stilltan en heldur loftkaldan. Ágúst mikið stilltur. September mikið stilltur til þess 26. Október mátti heita allgóður og nóvember dágóður. Desember merkilega góður fram að sólstöðum. 

Hvorki Jón né hinn dagbókarritarinn, Ólafur Eyjólfsson á Uppsölum í Öngulstaðahreppi, kvarta mjög undan jarðskjálftanum mikla, Jón getur þess að nokkrir skjálftar hafi fundist, en Ólafur getur einskis.  

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1838. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls. Fáeinar tölur má finna í viðhengi. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þráviðristilbreyting (varla - en þó)

Breytingar í veðri frá degi til dags eru ekki stórvægilegar um þessar mundir. Þó er alltaf eitthvað á seyði ef vel er að gáð. Fyrst skulum við líta á veðurspá fyrir Grænland, en þar á eftir líta stuttlega á gamalt dæmi um veður.

Nokkuð snarpt lægðardrag sækir nú að austurströnd Grænlands vestur af Íslandi. Það er nokkuð áberandi í háloftunum, en gætir heldur minna við yfirborð. Það er athyglisvert hvernig spár taka á því. Gert er ráð fyrir gríðarmikilli úrkomu yfir háfjöllum næstu tvo daga.

w-blogg020221a

Kortið sýnir uppsafnaða úrkomu næstu daga (í mm). Spáð er að hún verði yfir 300 mm þar sem mest er. Lægðardragið verður nærri því kyrrstætt. Það er líka skrýtið að sjá hina miklu úrkomu sem spáð er yfir Mýrdalsjökli og Öræfajökli - en sáralítilli á láglendi. Hvort rétt er að trúa þessu veit ritstjórinn ekki. Það er talsvert vandamál að austantil í lægðardraginu er líka töluverð úrkoma - en aðeins á örmjóu belti. Blái flekkurinn vestur af landinu sýnir að þetta belti skakast til og frá og þessi spá gerir ráð fyrir því að úrkoman nái til ysta hluta Snæfellsness á aðfaranótt föstudags. Sumar spár hafa jafnvel sent það lengra inn á land. Gerist það mun snjóa talsvert - áhugamenn um snjó fylgjast því með næstu daga - hvort sem þeir eru hlynntir honum eða ekki. Þegar upp er staðið verður stunið - annað hvort af feginleik - eða vonbrigðum - á báða bóga. 

Þetta vakti gamlar minningar (eða þannig). Einhvern tíma fyrir löngu heyrði ritstjórinn af misjafnri snjókomu í Borgarfirði - ekkert eða nánast ekkert snjóaði vestan einhverrar línu um héraðið vestanvert - en mikið austan hennar. Líkur benda til þess að þetta hafi gerst þann 8.febrúar 1947. 

Janúarmánuður það ár var fádæma hlýr, efstur eða næstefstur í janúarhlýindakeppni síðustu 200 ára ásamt nafna sínum hundrað árum áður, 1847. En tíð breyttist mjög með febrúar. Þá tók við langur landnyrðingskafli - sá stóð reyndar þar til snemma í apríl - mikið þráviðri bæði hér á landi og á meginlandi Evrópu þar sem menn bjuggu við sult og seyru svo við þjóðfélagshruni lá - ofan í heimsstyrjöldina sem lagt hafði flest á hliðina - þar á meðal matvælaskapandi landbúnað. Hreinlega ömurlegt ástand. 

En þráviðrið var ekki alveg tilbreytingarlaust hér á landi. Þann 8. gróf einkennilegt lægðardrag um sig við landið suðvestan- og vestanvert.

w-blogg020221b

Hér má sjá veðurkort frá því kl.11 þennan dag. Eindregin sunnanátt er á Stórhöfða en annars austan- og norðaustanátt á landinu. Það snjóar mjög víða - en mjög mismikið. Vestur í Stykkishólmi snjóaði nærri því ekki neitt, um 15 cm snjór kom í Reykjavík og á Síðumúla í Hvítársíðu mældist úrkoman samtala rúmir 30 mm - sem allt var snjór - en nær ekkert snjóaði að sögn vestur á Mýrum. 

Ingibjörg Guðmundsdóttir athugunarmaður í Síðmúla lýsir tíðarfari í febrúar og mars:

Febrúar 1947
Nú er vetrarríki. Mikill snjór. Mjög litlir hagar. Öllum hrossum gefið. Það er frost og kuldi daglega, en glampandi sól og fagurt veður, oft nokkuð hvasst. Við, sem vindrafstöð höfum, köllum að sé góður hleðsluvindur og höfum þá yndislega björt rafljós,þá við vildum láta þau loga allan sólarhringinn.

Marz 1947
Í Marzmánuði var veðrátta yfirleitt góð, en snjór svo mikill, að varla er um jörðina fært. Alla mjólk verður að flytja á klökkum óravegu þaðan, sem lengst er, þangað sem bíllinn kemst. Vegarútur halda aðalbílleiðunum færum, og mörgum sinnum hafa þær verið settar á dalavegina, en brátt hefir skafið í förin hennar aftur og allt ófært á ný. Hagar eru mjög litlir. Öll hross eru á gjöf.

Nær snjólaust var í Stykkishólmi - eins og áður sagði, en á Hamraendum í Miðdölum varð snjódýpt 40 cm. Einnig var mikil úrkoma á Þingvöllum og Írafossi - en mun minni austur í Hreppum. Töluverð úrkoma ver í Vestmannaeyjum, en bæði snjór og krapi, snjódýpt þar mældust 10 cm þegar mest var. 

Það sem olli þessu var veðurlag ekki óskylt því sem við fjölluðum hér um fyrir nokkrum dögum (febrúarbylurinn 1940) - þetta þó ekki jafn illkynja - ekki varð eins hvasst. 

Veðurkort bandarísku endurgreiningarinnar er svona:

w-blogg020221c

Mikil lægð er suðvestur af Bretlandseyjum, en hæð yfir Grænlandi. Milli þeirra er austanátt - norðaustlæg vestan Íslands - en sjá má lægðardrag við Vesturland. Greiningin nær styrk þess ekki alveg, en samt sjáum við vel hvað er á seyði. 

Uppi í háloftunum er hálfgerð áttleysa - eða væg suðvestanátt.

w-blogg020221d

Öflug fyrirstöðuhæð er við Baffinsland - en grunnt lægðardrag á Grænlandssundi. Þetta er dæmigerð óvissustaða. 

Því er þetta rifjað upp hér að við sitjum nú í svipuðu - bæði gagnvart lægðardraginu sem nú er að verða til á Grænlandshafi (kannski sleppum við alveg við það) - en einnig vegna þess að staðan á lítið að breytast næstu vikuna - sé að marka spár. Varla þarf að taka fram að árið 1947 var enn erfiðara fyrir veðurspámenn að eiga við stöðu af þessu tagi heldur en nú. 

Snjókoman varð hvað mest upp úr miðjum laugardeginum 8. febrúar. Klukkan 22 kvöldið áður hljóðaði veðurspáin svo: „Suðvesturland og Faxaflói: Norðaustan stinningskaldi. Léttskýjað“. Klukkan 23 barst fregn um að farið væri að snjóa á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Spáin á miðnætti breyttist því lítillega og hljóðaði svo: „Suðvesturland: Norðaustan- og austan kaldi. Dálítil snjókoma austantil, léttskýjað vestantil. Faxaflói og Breiðafjörður. Norðaustan kaldi. Víðast léttskýjað“. Klukkan 3:30 var sama spá lesin. Klukkan 8 var ekki farið að snjóa í Reykjavík, gerði það skömmu síðar. Kl.8:55 var eftirfarandi spá lesin: „Suðvesturland til Vestfjarða. Norðaustan og austan kaldi. Sumstaðar dálítil snjókoma“. Síðan var talað um dálitla snjókomu það sem eftir lifði dags - þar til kl.22 - þá var skipt yfir í „snjókoma“ (enda hætt að snjóa að mestu). Við skulum hafa í huga að engar tölvuspár var að hafa, engar gervihnattaathuganir eða veðursjár og veðurskeytastöðvar fáar - og sárafáar að næturlagi. Veðurfræðingar þurftu nokkuð harðan skráp til að éta ofan í sig allar vitlausu veðurspárnar - sem voru mun fleiri en nú. Aftur á móti sluppu þeir við langtímaspár - gildistími var aðeins sólarhringur. 

En mjög óvæntur hlutur annar gerðist (mjög óvæntur). Blaðafregnin hér að neðan sýnir hann - laugardagurinn sem átt er við er þessi sami.

w-blogg020221e

Harla óvænt - og sýnir að þrátt fyrir allt hefur verið töluverður munur á bylnum 1940 og því veðri sem hér er fjallað um. 

Að lokum skulum við minnast kyndilmessu sem var í dag. Vísan alkunna um sól og snjó er auðvitað bull - þannig séð - enda er kyndilmessa hengd við jólin í tímatalinu (hreinsunarhátíð Maríu). Þess vegna var hún líka 2.febrúar í gamla stíl - og því á öðrum stað miðað við sólargang - það er frekar hann sem ræður veðri (ef merkidagar segja eitthvað á annað borð) - en ekki kirkjuárið. Kyndilmessa var nær miðjum vetri í gamla stíl - samkvæmt íslenska tímatalinu - þetta er í grunninn miðsvetrarhátíð - svipað og bóndagurinn. Kannski er átrúnaðurinn á daginn eldri en kristni? En öll Evrópa lítur til kyndilmessunnar - og ameríka líka (þeir kalla hana að vísu stundum „groundhog day“. 

Sækja má almennan fróðleik um kyndilmessu í rit Árna Björnssonar og verður ekki um bætt hér - m.a. með tilvitnun í latneskan „spátexta“. Ritstjórinn rakst á dögunum á annan slíkan - og má ljúka þessu með honum:

„Si Sol splendescat Maria purificante, major erit glacies post festum quam fuit ante“. Skíni sól á hreinsunarhátíð Maríu (kyndilmessu) verður meiri ís eftir hátíð en fyrir hana. Thomas Browne [Pseudodoxia, Sixth Book, Chap.IV, 1672]

Æ-já. 


Af janúar

Meðan við bíðum eftir lokatölum frá Veðurstofunni skulum við líta aðeins á háloftavikakort mánaðarins. Það er 500 hPa-flöturinn eins og venjulega.

w-blogg010221a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en vik sýnd í lit, neikvæð vik eru bláleit, en þau jákvæðu brún og svo bleik þar sem þau eru mest (ekki alltaf sem við sjáum þann lit á korti sem þessu). Kortið segir ekki síst af fjarveru kuldapollsins Stóra-Bola úr hefðbundnu bæli vestur við Baffinsland. Af vikamynstrinu má ráða að norðlægar áttir hafa verið mun algengari en að jafnaði í háloftum að þessu sinni - en hæðarlínurnar segja okkur að meðalvindur hefur verið úr vestnorðvestri í miðju veðrahvolfi - og Ísland því í skjóli Grænlands og nýtur niðurstreymis austan þess. Neðar ríkir síðan eindregin norðanátt sem borið hefur úrkomu að landinu norðaustanverðu. Annars er algengast í stöðu sem þessari að úrkoma sé ekki mjög mikil þar heldur. 

Við getum auðveldlega leitað að ættingjum þessa janúarmánaðar í fortíðinni - með hjálp endurgreininga - þær eru nægilega nákvæmar til að skila ættareinkennum allvel. Sá almanaksbróðir sem er greinilega skyldastur er janúar 1941. Lítum á vikakort hans.

w-blogg010221b

Ættarsvipurinn leynir sér ekki. Textahnotskurn ritstjóra hungurdiska (sem hann hefur í þessu tilviki nappað úr Veðráttunni) segir: „Óvenju stillt, úrkomulítið og bjart veður. Fé gekk mikið úti. Gæftir góðar. Færð mjög góð. Hiti ekki fjarri meðallagi“. - Við megum taka eftir því síðasta - hiti ekki fjarri meðallagi, mánuðurinn var þó á landsvísu -0,2 stigum kaldari en sá nýliðni. Greinilega önnur hugarviðmið (eins og fjallað var um á hungurdiskum í gær). 

Við lítum líka á þykktarvikakortið. 

w-blogg010221g

Jafnhæðarlínur eru heildregnar sem fyrr, jafnþykktarlínur eru strikaðar, en þykktarvik sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og var nærri meðallagi áranna 1981 til 2010 hér við land - lítillega neðan þess um landið austanvert. Mikil hlýindi voru ríkjandi vestan Grænlands - mesta vik sem við sjáum er 147 metrar - það þýðir að hiti hefur verið um 7 stig ofan meðallags. Kalt var hins vegar við Norðursjó - mesta neikvæða vikið er um -65 metrar - hiti um -3 stigum neðan meðallags. Á samskonar korti fyrir janúar 1941 eru jákvæðu vikin vestan Grænlands svipuð og nú eða litlu minni, en neikvæða vikið yfir Skandinavíu miklu meira heldur en nú - enda var veturinn 1940 til 1941 einn af þremur hryllingsvetrum í röð á þeim slóðum (sá í miðið). 

Hér á eftir er meiri útkjálkatexti - fyrir fáa og því þvælnari sem á líður.

Samband hita og þykktar er oftast nokkuð gott hér á landi - ekki síst á vetrum. Til gamans skulum við líta á tengsl meðalhita janúarmánaðar í byggðum landsins og þykktarinnar. 

w-blogg010221d

Athugunin nær til janúarmánaða 1949 til 2021. Því meiri sem þykktin er því hlýrra er á landinu. Bláa örin bendir á janúar 2021. Hann er á sínum stað, meðalhiti um -1,6 stig og þykktin um 5220 metrar (522 dekametrar). Við sjáum að janúar 1971 hefur verið talsvert kaldari en vænta mátti, meðalhiti þá var -4,4 stig, en þykktin hefði viljað hafa hann um -1,5. Sum okkar muna enn þennan mánuð - hann var afskaplega tíðindalaus - en á þó lægsta lágmarkshita sem mælst hefur í Reykjavík eftir 1918. Ætli eindregin hitahvörf hafi ekki verið yfir landinu? Staðan var öfug árið 1956, þá var þykktin mjög lítil - meðalhiti hefði átt að vara um -5,3 stig, en var -3,9 stig. Loft hefur trúlega blandast enn betur heldur en venjulega. Það má taka eftir því að hver dekametri í þykkt samsvarar tæpum 0,4°C, - ætti að vera 0,5°C ef fullt samband væri á milli. Köldu mánuðirnir 1979, 1959 og 1984 eru um það bil á réttum stað. 

En róum nú aðeins dýpra. Ritstjórinn hefur oft rætt um þáttun þrýsti- og háloftavinda í vestan- og sunnanþætti (eða austan- og norðanþætti). Hægt er að gera það á grunni beinna vindmælinga, en líka með því að líta á þrýstisviðið - eða hæðarsvið háloftaflata. Sé þetta gert má finna samband vindátta og hita - ekki síst ef við bætum hæð þrýstiflata við í púkkið. Hæðin segir okkur talsvert um það hvaðan loftið er upprunnið. Liggi þrýstiflötur hátt eru líkur á því að loftið undir honum sé af suðrænum uppruna (málið er þó talsvert flóknari fyrir neðstu fletina) - en liggi hann lágt sé uppruninn norrænn. Það getur því komið fyrir að loft sé af suðrænum uppruna þótt norðanátt ríki við jörð (og öfugt). 

w-blogg010221e

Myndin sýnir samband á milli þriggja háloftaþátta (vestanáttar, sunnanáttar og hæðar 500 hPa-flatarins í janúar) annars vegar og meðalhita í byggðum landsins. Því er þannig háttað að því sterkari sem vestanáttin er því kaldara er í veðri, því meiri sem sunnanáttin er því hlýrra er (sunnanþátturinn er reyndar meira en þrisvar sinnum áhrifameiri heldur en vestanþátturinn). Því hærra sem 500 hPa-flöturinn liggur því hlýrra er í veðri (að jafnaði). 

Við sjáum að fylgnistuðullinn er glettilega góður, nærri því 0,8 og myndu tölfræðingar sumir segja að við höfum þar með „skýrt“ hátt í 2/3-hluta breytileika hitans frá einum janúarmánuði til annars. Bláa örin á myndinni bendir á nýliðinn janúarmánuð (2021) - hann reynist lítillega hlýrri en vænta má af vindáttum og hæð 500 hPa-flatarins. Sjá má að ekki gengur heldur vel hér með janúar 1971 - hann var talsvert kaldari heldur en vindáttir segja til um. Við gætum (með kúnstum) lagað þetta samband lítilsháttar (en það yrði ætíð á kostnað einhvers annars) - sumir myndu t.d. hiklaust leggja bogna aðfallslínu í gegnum punktaþyrpinguna - en það vill ritstjóri hungurdiska ekki gera - nema að því fylgi sérstakur rökstuðningur (hann er svosem til). Janúar 1979 var líka kaldari heldur en vindáttir segja til um, en betur tekst hér til að giska á hita í janúar 1956 heldur en á hinni myndinni. 

Sé rýnt í myndina kemur í ljós að janúarmánuðir þessarar aldar hafa margir hverjir tilhneigingu til að liggja ofarlega í þyrpingunni. Það hefur verið hlýrra heldur en „efni standa til“. Þeir sem halda fram hlýnun jarðar umfram aðrar skýringar velja hana kannski - en það er rétt að hafa líka í huga að gögnin eru e.t.v. ekki alveg einsleit allan tímann. Við skulum ekki fara of djúpt í slíkar vangaveltur. Lítum samt á mynd sem sýnir hvernig munur á reiknuðu og mældu (svokallaðri reikni- eða aðfallsleif) hefur þróast í gegnum tíðina.

w-blogg010221f

Jú, leifin á þessari öld hefur yfirleitt verið jákvæð - það hefur verið hlýrra heldur en í samskonar vindafari fyrir aldamót - munar nærri 1 stigi að jafnaði. Við vitum reyndar að norðanáttir hafa verið mun hlýrri heldur en áður var - kannski hefur þetta eitthvað með það að gera. 

Við þökkum Bolla P. fyrir kortagerðina. 


Kaldur janúar (eða?)

Nú líður að lokum janúar - við bíðum eftir uppgjöri Veðurstofunnar en getum þó sagt að hann stefni í að verða sá kaldasti á öldinni á landsvísu og sá kaldasti frá 1995 að telja. Líklega verður hann þriðjikaldasti mánuður aldarinnar á eftir febrúar 2002 og desember 2011 - en þeir voru báðir talsvert kaldari. Í Reykjavík verður hann líklega sá næstkaldasti eða þriðjikaldasti, á eftir janúar 2007 (alla vega) og kannski 2005 líka (en ómarktækt munar). Sömuleiðis hefur verið þurrt, líklega er þetta næstþurrasti janúar í Reykjavík á öldinni - þurrara var 2003 - en sú niðurstaða er ekki endanleg. Það hefur verið óvenjusnjólétt í borginni - en uppgjör liggur ekki fyrir þegar þetta er ritað (síðasta dag mánaðarins). 

Við sitjum hins vegar uppi með ákveðinn viðmiðunarvafa - janúarmánuðir þessarar aldar hafa nefnilega verið óvenjuhlýir. Þeir sem ekki viðurkenna að hlýnað hafi í veðri hljóta að sitja uppi með að mánuðurinn hafi alls ekki verið kaldur - en þeir sem hallast að því að hlýnun sé raunveruleg eru kannski að sjá einn af venjulegum köldum janúarmánuðum næstu áratuga. En lítum á mynd. Það þarf aðeins að hugsa til að ná því sem hún er að miðla. Hér er byggðahitinn tekinn fyrir (hægt væri að afgreiða Reykjavík á sama hátt). 

w-blogg310121a

Það er algengt í veðurfarsfræðum (og langtímaspám) að telja þriðjunga (eða fimmtunga) til að ákveða hvort kalt sé eða hlýtt. Við búum til lista yfir meðalhita (daga, mánaða eða ára) yfir ákveðið tímabil, röðum frá því kaldasta til þess hlýjasta, skiptum síðan listanum í þrennt (þriðjunga) og segjum að þeir (mánuðir) sem í kaldasta (lægsta) þriðjungi séu kaldir, þeir sem lenda í þeim hlýjasta (efsta) séu hlýir - afgangurinn er í meðallagi hlýr. 

Hér miðum við við hálfa öld hverju sinni. Byrjum á árunum 1871 til 1920, hnikum okkur síðan áfram, áratug í senn og endum á 1971 til 2020. Á myndinni má sjá þriðjungamörk fyrir hálfraraldartímabilin. Á fyrsta tímabilinu, sem var kalt, þurfti meðalhiti janúar að vera fyrir neðan -2,7 stig á landsvísu til að mánuðurinn gæti talist kaldur, en ofan við -1,2 stig til þess að hann teldist hlýr. 

Á myndinni má sjá að mörk kaldra og hlýrra mánaða hækka mjög fram til 1911 til 1960, veður hlýnaði mjög á þeim tíma. Eftir það breytast hlýju mörkin ekki mikið - á því tímabili eru allir mánuðir þegar meðalhiti er ofan frostmarks hlýir. Mörk kalda flokksins breytast hins vegar töluvert. Á tímabilunum frá 1931 til 1980 og fram til 1950 til 2001 þarf hiti í janúar að fara niður í -2,7 stig til að sá mánuður fái að teljast kaldur. Þá breytir um. Síðustu 50 árin, 1971 til 2020 þarf meðalhiti í janúar ekki að fara nema niður í -1,3 stig til að teljast kaldur. 

Nýliðinn janúar er því kaldur [meðalhiti um -1,6 stig] - sé miðað við síðustu 50 ár, en í meðallagi sé miðað við öll önnur 50-ára tímabil myndarinnar (gráa beina línan). - En mánuðurinn hefði þó aldrei talist hlýr - heldur í meðallagi lengst af. 

Ef vel er að gáð má sjá fáeina viðmiðunarpunkta til viðbótar á myndinni - þeir sýna að sé miðað við síðustu 40 ár þarf mánuður aðeins að ná -1,0 stigi til að teljast kaldur, sé miðað við síðustu 30 ár er viðmiðið -0.8 stig, en sé miðað við þessa öld er það aðeins -0,6 stig. Hlýju mörkin eru líka á hraðri uppleið (ekki sýnd), sé miðað við 50 ár eru þau við 0,0, 40-ára viðmiðið er líka 0,0, síðustu 30 ár er það hins vegar +0,4 stig - og +0,6 síðustu 20 ár. 


Af árinu 1837

Tíðarfar var talið mun skárra árið 1837 heldur en næstu tvö ár á undan. En matið fer samt nokkuð eftir því við hvern er talað, talvert betra hljóð syðra heldur en norðanlands. Meðalhiti ársins í Reykjavík var 3,8 stig og er áætlaður 2,9 stig í Stykkishólmi, 0,3 stigum neðan meðallags næstu 10 ára á undan. Engar mælingar eru til frá Norðurlandi, en líklega hefur verið tiltölulega kaldara þar - sumrið var svalara heldur en á Suðurlandi ef trúa má almennum lýsingum og dagbókum. Nóvembermánuður var sérlega kaldur, enn kaldari en árið áður. Sömuleiðis var kalt í mars, apríl og maí, en fremur hlýtt í júní, júlí, september og desember. 

ar_1837t

Í Reykjavík voru mjög kaldir dagar 23, flestir í mars og apríl. Að tiltölu var kaldast 29.ágúst - og 11.mars. Einn dagur var óvenjuhlýr, 24.júní. Hiti komst í 20 stig 18 daga í Reykjavík. Höfum í huga að aflestrarnákvæmni er aðeins 1°R. Kaflinn frá 19.júlí til 1.ágúst var sérlega góður. Nokkuð hlýtt var líka á Akranesi þessa daga, en hlýinda virðist ekki hafa gætt austur í Vík í Mýrdal megi trúa mælingum Sveins Pálssonar. 

Árið var sérlega þurrt í Reykjavík - eins og fleiri ár á síðari hluta fjórða áratugarins og mældist úrkoman aðeins 532 mm. Hún var rétt yfir meðallagi í febrúar og júlí, en annars undir. Ekki mældust nema 10 mm í mars og 17 mm í apríl (aðrar tölur má sjá í viðhengi).

Loftþrýstingur var sérlega hár í mars, en fremur lágur í febrúar. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík 15.febrúar, 945,9 hPa, en hæstur 3.mars 1040,0 hPa. Þrýstiórói var með minnsta móti á árinu, sérstaklega í apríl, maí, júní,júlí og september, en einnig í janúar. Bendir það til þess að hvassviðri hafi ekki verið mjög tíð. 

Hér að neðan eru helstu prentaðar heimildir um árið teknar saman, stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Fáeinar ágætar veðurdagbækur eru til sem lýsa veðri frá degi til dags, en mjög erfitt er að lesa þær.

Fjölnir segir af tíð 1837 (4.árg. s.33): 

Árið 1837 var á Íslandi eitthvert farsælasta ár til lands og sjávar. Að vísu gjörði um þrettándann fádæma hörkur og harðviðri, sem tók yfir allt land, og kyngdi niður svo miklum snjó i einu fyrir sunnan, að varla varð komist yfir jörðina, er álnardjúpur [60 cm] snjór lá yfir víða á jafnsléttu; og þóttust menn varla muna, að svo miklu hefði snjóað í einu; voru og um það leyti hríðir miklar og frostharka, og fórust um Norðurland nokkrir menn og helst i Norðursýslu, og líka 1 skip með 5 mönnum þar úr fjörðunum. Enn bráðum linaði þessum harðindum aftur með hægri sunnanátt eður útsynningum, og mun þess bata hafa notið við um allt landið; og svo voru miklar þíður og marar fyrir sunnan á þorranum, að klaki var að mestu úr jörðu, og sumstaðar í Árnessýslu og Rangárvallasýslu farið að beita kúm út á grænurnar, sem losnuðu undan fönnunum; hélst það fram eftir góunni. Enn þegar út á leið betur, hljóp í aftur öðru hverju með hörkufrost og norðanátt; en aldrei kom þaðan af syðra snjór á jörð, að kalla mætti. Voru og harðviðrin sjaldan lengur enn tvo eður þrjá daga í senn, og gekk þá aftur með hægð til suðurs eður útsuðurs; voru helstu íhlaupin af norðri 9.—12. mars; svo í vikunni fyrir og eftir páska [26.mars], næstum hálfan mánuð í senn, sem alltaf var við norðurátt og feiknakuldi öðru hverju; og svo viku fyrir sumar, 14.—16. apríl; gekk svo á vorkuldum lengi fram eftir; enn þó var mest meinið að íhlaupinu síðasta, 24.—20. dags maí, og kom af því kyrkingur mikill í grasvöxtinn, og kál skemmdist víða. Veður var hið sama norðanlands, nema hvað meira varð þar af íhlaupunum, og vorkuldarnir voru meinlegri; er svo talið, að sumstaðar væru ekki fleiri enn 4 eður 5 nætur frostlausar fram að þrenningarhátíð [21.maí], þegar síðasta áfellið byrjaði; var þar og hafíshroði að flækjast um sjóinn. Hvergi getur samt, að fellir hafi orðið eður heyþrot, og víða voru nokkrar fyrningar, og olli það með fram norðanlands, að heyskapurinn gekk svo báglega sumrinu fyrir, að miklum fénaði var lógað um haustið. Úr því leið af fardögunum var veðuráttufarið viðast blítt og hagstætt, og oftar heldur vætukennt; lagaðist svo jörðin, að grasár mun allstaðar hafa orðið í meðallagi, og sumstaðar miklu betur. Féll og nýtingin á heyi að því skapi, og varð hún góð alstaðar, og slátturinn ekki endasleppur. Heyafli varð því mikill og góður, og með því að víða var svo fénaðarfátt undir, mun þorri manna hafa þóst fær að taka vetrinum, þó hann yrði nokkuð svæsinn; hefur þó að minnsta kosti sunnanlands ekki á það reynt. Að sönnu var veðurátta heldur hroðafengin frameftir haustinu og rigningasöm, svo lítið varð að verki — komu og frostin þegar rigningunum létti, og heldur með fyrra móti; en þó var sunnanlands, þegar á allt er litið, frá haustnóttum — en sér í lagi frá því með jólaföstu -— og fram á góu einhver staklegasta veðurblíða, oftast þíður og sunnanátt. Er það meðal annars til marks um það, að undir S0 menn úr Landeyjum sátu tepptir í Vestmannaeyjum frá 3. degi nóvember til 29. janúar; hefir það ekki borið til í manna minnum. En úr Eyjunum verður ekki komist til lands nema í norðanátt, utan í einstöku góðviðrum og sjódeyðum á sumardag. Má svo kalla, það sem liðið er vetrarins, að varla hafi komið snjór á jörð á láglendi, enn aldrei tekið fyrir haga. Búfénaður er því víða enn í haustholdum (í janúar 1838), þó ekki hafi honum verið gefið strá. Fyrir norðan varð heyskapur víðast með betra móti, eins og fyrir sunnan; en með veturnóttum gjörði þar hríðir miklar og eitthvert frekasta snjókyngi, einkum í nyrðri sýslunum.

Sunnanpósturinn 1838 segir frá árinu 1837

(s3) Það næstliðna ár 1837, reyndist Íslandi yfir höfuð að tala, betra en áhorfðist í fyrstunni og miklu betur en von var til eftir undirbúningnum frá sumrinu 1836. Árið 1837 byrjaði með harðindum, snjókomu og frosti. Framan af janúar var veðráttan hörð, jafnvel sunnanlands, hvar frostið varð að 16°; og þar er þó venjulega mildust veðrátta; það var því ekki láandi þótt margir væri hálf hræddur þegar árferðið var svo ískyggilegt, því tíðast er það að í marsmánuði verður veðrátta hörðust á voru landi, en það fór í þetta sinn ekki svo, heldur batnaði vetrarfar eftir því sem á hann leið, svo flestir bændur komust vel af með fénað sinn, ekki meiri heyafla en þeir höfðu undan sumrinu. En er leið að sumarmálum heimsótti hólma vorn sá gamli óvinur „Grænlandsísinn“ og lagðist inná hvern fjörð norðanlands og beygði sig austur fyrir Langanes, líklega og vestur fyrir Horn. Þessi ís komst með tímanum fyrir alla Austfirði og vestur með landinu, allt út að Skaftárósi, þar var hann seint í maímánuði, en vonum fyrr rak hann frá aftur. Við Norðurland þar á mót lá hann allvíða þangað til snemma í júlímánuði. Þessi ís hafði þá sömu verkun sem alkunnug er hér á landi, að vorið varð allt þurrt og kalt og það svo mjög að jafnvel sunnanlands sást næstum engin blómgun á jörðu, því síður í nánd við þennan óþekka gest, um sólstöður (21.júní), en strax með sólstöðum brá veðuráttunni til mýkinda og votviðris fyrst syðra og svo eftir því sem ísinn fjarlægðist, norðanlands. Mót margra von hafði þó þessi seina umbreyting veðráttunnar þá gleðilegu verkun, að grasvöxtur varð allgóður víðast hvar; almennt er þó haldið að vorkuldar, fyrst meðan gras er að springa út, sé háskalegasti gróðurs hnekkir. Meðalgrasvöxtur og sumstaðar í betra lagi veittist í sumar og nýting grassins varð allgóð; lökust samt í Skaftafells- og Strandasýslum; í Strandasýslu var og sumstaðar töluverður grasbrestur, og þar skal hafa verð óbjargvænlegt á næstliðnu hausti. Haustveðráttan hefir verið syðra í meðallagi, þó æði stormasöm og eftir veturnæturnar, fram undir jólaföstu, köld, en með jólaföstu kom góður bati sem viðhélst árið út. Það kuldakast sem hér kom eftir veturnæturnar var upp um sveitir miklu harðara en hér syðra hvar frostið aldrei varð yfir 9° og því fylgdi snjókoma sem orsakaði jarðbönn sumstaðar. Í fyrra vetur gafst aðeins afli í minna meðallagi nema í Skaftafellssýslu og undir Eyjafjöllum, því austar því meiri; hlutir urðu 5 og 6 hundruð. Var það nærgætnislega gert af forsjóninni að láta þennan afla gefast snemma vertíðar í Skaftafellssýslu því þar voru um það leyti margir orðnir bjargþrota sem ekki var tiltöku mál, þar eð harðindin árið áður höfðu hvað þyngst orðið fyrir austan Jökulsá á Sólheimasandi.

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Þó sunnan og vestanlands væri gott ár, náði það ei til norðurlands. Á nýársdag upp á hláku bræddi hér yfir jörð ógnarlegu glerhálu svelli með frostrigningu, svo engin skepna komst úr úr dyrum og hross stóðu í sveltu. Aftur 15. jan. gerði annan blota með sama frostrigningarviðskilnaði. Varð að járna hross til að koma þeim heim eða á loðna hnjóta og enginn gat ójárnaður náð vatni í bæ og fjós nokkra daga, þar til hríðar gerði. 7. jan. brast á mikill bylur. Urðu menn úti frá Brekkum og Miðhúsum í Blönduhlíð og 3 manneskjur í Fnjóskadal á kirkjuleið, Sauðamenn í jarðsælli sveitum náðu fáir heim. Allan janúar var hér jarðbann. 5. febr. gjörði mikla hláku, er mjög vann á svellið og hélst snöp eftir það og veðurátt allgóð. 8.-12. mars miklar hörkur og aftur um páskana vikutíma, þess á milli milt og stillt veður.

Nokkur bréf frá þessu ári hafa verið prentuð. Flest eru fengin úr Bréfasafni Bjarna Thorarensen amtmanns á Möðruvöllum (þar var húsið Frederiksgave) og úr ýmsum bréfabókum sem Finnur Sigmundsson tók saman. 

Saurbæ 5-2 1837 [Einar Thorlacius] (s76) Sumarið [1836] að vísu var kalt og afgróðaspart, en ekki notaslæmt, vetur veðráttustirður með köflum. Nú er þó æskilegt þíðvindi og næstum öríst.

Í bréfinu hér að neðan kemur fram að Bjarni amtmaður gerir reglulegar veðurathuganir og sendur þær til Danmerkur. Við vitum ekki hvar þær eru niðurkomnar nú. 

Frederiksgave 12-2 1837 (Bjarni Thorarensen): Jeg vover underdanigst at lade hosfölge meteorologiske Observationer af mig siden 6te Novembr. næstavigte paa et eftir Reaumurs scala men efter Decimalmaal indrettet Franskt Thermometer (Barometer ejer jeg ikke) hvoraf Deres Kongelige Höjhed naadigst vil erfare, at meget streng Frost sielden har indtruffet i denne Vinter – (s341)

Mjög lauslega þýtt: „Allranáðarsamlegast leyfi ég mér að láta veðurfræðiathuganir gerðar af mér síðan 6.nóvember síðastliðinn fylgja með. Þær eru gerðar með frönskum tugabrotaskiptum mæli eftir hitakvarða Reaumur (loftvog á ég ekki). Af þeim getur yðar konunglega náð reynt að hart frost hefur sjaldan orðið hér á þessum vetri“.

Frederiksgave 13-2 1837 (Bjarni Thorarensen): ... nógur hagi hefir veri síðan 25ta janúar, en vont, einkum í Skagaf. og Húnavatns sýslu þangað til á nýári, og hross voru orðin horuð í Skf. sýslu (s239)

Breiðabólstað 14-2 1837 (Tómas Sæmundsson): ... vetrarfar hefir verið með stirðasta móti allt fram að þorra ... Haustvertíð hefir fallið illa á Suðurnesjum og helst vegna gæftaleysis; nú er sagt farið að fiskast.

Bessastöðum 3-3 1837 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s172) Vetur hefur verið harður til jóla, síðan góður, svo líkindi eru til að ekki brjóti út virkilegt hallæri í þetta sinn.

Frederiksgave 16-4 1837: Hafís liggur fyrir öllu mínu umdæmi frá Vopnafirði vestur á Hrútafjörð ... Skepnufellir verður hér trauðlega því vetur hefir síðan 25ta janúar verið góður, en nú er íhlaup aftur. (s152)

Brandsstaðaannáll [vor]:

14. apríl mikil hríð upp á hláku og vatnsgang. Hafís var landfastur og lá langt fram á sumar. Hann var einstaklega flatur yfir að sjá, því mikið var af honum lagnaðarís. Vorið var kalt og þurrt. Gróður sást fyrst í miðjum maí 24. var mikil rigning og harka á eftir. Kól þá tún og engi til stórskaða. Varði frostið um viku. Fórust lömb allmörg, þar heyleysi var.

Sveinn Pálsson getur þess að 23.apríl hafi ís komið að Meðallandsfjörum og þann 25.maí getur hann þess að um nóttina hafi ísflekk rekið hjá Vík - til suðvesturs. 

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Í júní þurrt og og stillt veður lengst. Eftir sólstöður frostalaust og í júlí gott sumarveður. Spratt úthagi lengi og varð í meðallagi til framsveita. Sláttur byrjaði þar á miðsumri, en i júlílok í útsveitum. Heyskapartíð gafst góð, rekjur og þurrkar nægir og varð á þurrengi meðalheyafli, en flæðiengi kól um vorið. Öll jörð var nú orðin sinulaus. Haustheyskapur gafst vel. Í Langadal fékkst hey í meira lagi, en í minna lagi utar. Lögðu nú flestir mikla ástundun á að heyja og gekk kaupafólk vel út. ... Ísinn lá hér á fjörðum til hundadaga, en sveif frá Fljótum, svo til hákarla náði um tíma. Höfðaskip komust inn á Siglufjörð um Jónsmessu og biðu þar um mánuð og þótti þetta fáheyrt.

Nokkur bréf rituð um sumarið: 

Frederiksgave 28-7 1837 (Bjarni Thorarensen): Nú vona ég að Drottinn gefi norðlendingum þó dálítið andrúm eftir þessi 3 grasleysis sumur, því svo illa sem áhorfðist framyfir Jónsmessu, því Skagafjörður og Húnaflói eru vart hafíslausir enn, þá hefir sá bati komið að grasvöxtur allstaðar er miklu betri en í fyrra og verður víðast meðalár (s241)

Laufási 17-8 1837 [Gunnar Gunnarsson] (s78) Allt framundir Jónsmessu í sumar voru slíkir kuldar hér og svo kalin jörð, að oss mönnunum sýnsit varla og ekki mögulegt, að grasvöxtur gæti gefist svo mikill, að fengist gæti handa því hálfa af fénaði fólks, en svo furðulega hefur bæst úr þessu með hagstæðu veðráttufari síðan, að til þess lítur nú út til, að flestir haldi lífi í skepnum sínum ...

Frederiksgave 18-8 1837 (Bjarni Thorarensen): ... á sumum útkjálkum, nl. Ólafsfirði og Siglufirði hefir grasvöxtur verið mikið aumur.

Frederiksgave 19-8 1837 (Bjarni Thorarensen): Vorið var hér það harðasta til Jónsmessu, en úr því gekk hagstætt svo nú er meðalgrasár, nema í Ólafsfirði og Siglufirði – hvergi var ástand mjög bágt vestra nema í Vindhælis- og Skefilsstaðahreppum ... Þeir gátu nefnilega enga björg fengið á sjó fram í júlí mánuð vegna hafíssins. (s136)

Frederiksgave 18-9 1837 (Bjarni Thorarensen): Vel vare Udsigterne i næstavigte Foraar paa det mörkeste, thi man kan ikke sige at der kom nogen Sommer förend först i Julii, men Vejret forandrede sig fra den Tid saaledes til det bedre, at Grasvæxten paa flere Steder endog blev middelmaadig og Höibiergningen lykkedes paa det bedste lige til 28de f. M, men fra den Tid indtil den 15de dennes var Vejret afvexlende med Slud og Snee som ganske afbröd Indhöstingen og endog faldt meget dyb paa de nordligste Udkanter – fra den 15de d. M. er Luften efterhaaanden bleven mildere og i Dag har det været 15 Graders Varme (Fr. Decimalmaal) saa man har grundet Haab om at Folk vil faae bierget det afslaaede Höe. ... Inspectionsreise ... Nöd havde man endnu ingensteds lidt – kun vare to Communer, den ene i Hunevands og den anden i Skagefjords Syssel, i en farlig Stilling, thi begge disse Communer som ligge paa Sysslernes Udkanter, havde formedelst Drivisen som laa der tæt optil Kysten lige til Julii.

Í mjög lauslegri þýðingu: Það má segja að útlitið síðastliðið voru hafi verið hið dekksta, því svo má segja að ekki hafi neitt sumar komið fyrr en í júlí, en frá þeim tíma snerist veður til hins betra svo grasvöxtur og heybjörgun tókst hið besta alveg fram til 28.[ágúst] en frá þeim tíma til þess 15. þessa mánaðar [september] var veður breytilegt og skiptust á slydda og snjór sem rufu heyskap og snjór varð djúpur í útsveitum. Frá 15. hefur loftið orðið mildara og í dag hefur verið 15 gráðu hiti (franskt tugamál) þannig að ástæða er til að halda að fólk geti bjargað því heyi sem slegið hefur verið. Á eftirlitsferð (kom í ljós) að neyð höfðu menn hvergi liðið - aðeins í tveimur hreppum, annar í Húnavatnssýslu, en hinn í Skagafjarðarsýslu, þar sem staðan er hættuleg, því í báðum tilvikum hafði hafís legið þétt við strendur fram í júlí. 

Frederiksgave 20-10 1837 (Bjarni Thorarensen): Portugisi (þú sérð að sú þjóð er farin að manna sig upp!) strandaði einhverstaðar austantil í Norðursýslu [Þingeyjarsýslum], og höfðu 14 skipverjar komist af en nokkrir drukknað en þeim sem af komust var ráðstafað með skipi sem ófarið var í Múlasýslunum. Þar, og yfirhöfuð að tala vestur að Öxnadalsheiði hefir á núliðnu sumri heyjast allvel, lakar í Skagafjarðar- og Húnavatns sýslum hvar mýrlendi spratt ofur báglega – þó hygg ég að lömb verði þar líka sett nokkur á í vetur. ... Þó vel hafi heyjast í Múla sýslunum, er í sumum hreppum þar bágt ástand vegna undanfarins fellis ... (s156)

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

3. okt skipti um til votviðra, þó frosta- og snjóalaust til vetrar. 26. okt. byrjaði vikuhríð hér í veðursældarsveit, hvað þá ytra. 7. nóv. blotaði og varð snöp 10 daga og gott veður, síðan hörkur og köföld; 5, des. hláka; tók upp til sveita en lítið til dalanna; aftur 10 daga gott. Seinni part desember hríðar og jarðleysi og hross tekin inn eða rekin til hagagöngu norður og gengu þar í örtröð. Á Suður- og Vesturlandi var árgæska, vetur góður, gras og nýting í betra lagi, haust gott og veður að nýári ... .

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1837. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls. Fáeinar tölur má finna í viðhengi. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Af árinu 1836

Harðindi héldu áfram á árinu 1836, það varð enn kaldara en árið á undan en sunnlendingar sluppu betur með heyskapinn. Meðalhiti í Reykjavík var ekki nema 2,3 stig og er þetta eitt af köldustu árum sem vitað er um þar. Áætlaður meðalhiti í Stykkishólmi var 1,5 stig, sá lægsti síðan 1812 (en höfum mikla óvissu í huga) og jafnkalt eða kaldara varð ekki aftur fyrr en 1859. Mælingar voru líka gerðar á Akranesi þetta ár og staðfesta þær hinar lágu tölur. Sömuleiðis mældi Sveinn Pálsson hita í Vík í Mýrdal og þar var einnig mjög kalt, en meðaltöl hafa ekki enn verið reiknuð (marga daga vantar í mælingar). Febrúar, apríl og nóvember voru sérlega kaldir. Hiti telst í meðallagi í maí og júlí - en við vitum lítið um hitafar norðanlands þetta sumar. Svo virðist sem Bjarni Thorarenssen amtmaður á Möðruvöllum hafi mælt hita, en þær mælingar hafa ekki fundist enn (hvað sem síðar verður). 

arid_1836t 

Tuttugu og sex dagar voru mjög kaldir í Reykjavík (listi í viðhengi), flestir í apríl og ágúst. Að tiltölu var kaldast 8.apríl og 22.ágúst. Frostið fór mest í -17,5 stig þann 17.febrúar. Tveir dagar voru mjög hlýir í Reykjavík, 30.júní og 2.júlí og náði hiti sjö sinnum 20 stigum, hæst 22,5 þann 30.júní og 2.júlí. Dagbækur úr Eyjafirði nefna éljaleiðingar 2.júlí þegar hvað hlýjast var syðra. 

Árið í heild var fremur þurrt í Reykjavík. Úrkoman mældist 653 mm. Desember var úrkomumestur, en júní langþurrastur, þá mældist úrkoman aðeins 9 mm. 

Loftþrýstingur var mjög lágur í mars, júlí og ágúst, en fremur hár í september og desember. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík 964,2 hPa þann 28.nóvember, en hæstur á Þorláksmessu, 23.desember, 1048,9 hPa. Þrýstiórói var óvenjumikill í ágúst en óvenjulítill í mars og nóvember. 

Hér að neðan eru helstu prentaðar heimildir um árið teknar saman, stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Fáeinar ágætar veðurdagbækur eru til sem lýsa veðri frá degi til dags, en mjög erfitt er að lesa þær.

Við byrjum á ársyfirliti Fjölnis (3.árgangur, 4-6 og 14-17):

Eftirmæli ársins 1836 eins og það var á Íslandi: Þegar árið 1836 fer að fyrnast, og lítið fer á því að bera í hinni löngu röð umliðnu tímanna: mun því, að ætlun vorri, jafnlengst verða haft til einkennis — að það hafi mjög að oss kreppt, og, ef til vill, að úr vandræðum vorum hafi ráðist betur, enn efni stóðu til. Það var frá upphafi til enda hart og misfellasamt, og þó það kæmi ekki alls kostar jafnt yfir allt landið, veitti víðast fullörðugt, að fá því varist, svo óblíða þess yrði ekki að meini. Ár þetta fór í mörgu líkt að, og árið á undan: fyrst gekk á harðindum frá upphafi þess fram að sumarmálum; þá komu vorkuldar, og leiddi af þeim gróðurleysi og grasbrest; á heyskapnum varð nýtingin misjöfn, en haustið miklu harðara en hitt árið, einkum sunnanlands; sjávarafli var með minna móti. Síðasti hluti ársins 1835 hafði verið hægur allstaðar. Fyrir norðan varð að sönnu með fyrsta móti að taka kýr á gjöf, af því að íhlaup gjörði um göngurnar, ofarlega í september-mánuði, svo að ekki tók upp algjörlega þaðan í frá; en þó komst útifénaður af gjafarlítið og nokkurn veginn óhrakinn, fram að árslokunum. Sunnanlands var á meðan sífellt góðviðri, og allur útipeningur var í haustholdum við árslokin. Enn eftir nýárið 1836 tók að harðna, og þó mest eftir miðjan vetur. Hafísinn var að flækjast fyrir norðan landið allan veturinn, enn fór hvorki mjög inn á víkur og firði, né lá lengi um kyrrt. Frostin voru sjaldan grimm, og óvíða fjarska snjóþungt. Lék oftast á útsynningum eða landnyrðings-þræsingi, og þess á milli hreinum norðankuldum og kaföldum. Blotar eða hlákur komu sjaldan, svo ísar lágu víðast á vötnum þar til vika var af sumri, eður meir; enn alltaf var illt til haga. Gekk fénaður því undan sárilla til reika, eða féll með öllu, þar sem hann naut ekki gjafar öðru hverju þrjá seinustu vetrarmánuðina. Kannast norðlendingar við, að komið hafi að góðu haldi ráðstöfun amtmanns þeirra, sú er í firra var getið; því allir gátu þeir mætt meðalvetri, og hvergi varð af fellinum, þar sem henni var hlýtt. En þær sveitirnar, er tregðuðust við að þekkjast þá ráðstöfun, sem amtmaður hafði gjört — sem að sönnu voru ekki margar í norðurumdæminu — og þó einkum Suðurmúlasýsla, urðu fyrir miklum fjármissi vegna harðindanna. Svo mætti sunnlendingum víða um sveitir vera minnilegt þetta vor, að ekki dyldust þeir við, hver nauðsyn þeim er á viðlíka ráðstöfun og fyrir norðan. Trauðla munu menn hafa munað þvílík vandræði, sem þar var komið í um allan sunnlendingafjórðung að kalla mátti. Það er til dæmis um, hversu viturlega hafi stofnað verið, að í einni heyskapar-sveitinni í Rangárvallasýslu, sem þar að auki er sveita minnst — Útlandeyjunum — voru í góulok 24 kýr bjargþrota; enn um sumarmál munu það ekki ýkjur, að þriðji hver búandi hafi verið heylaus um alla sýslu; lá þá ekki annað við, en fara að skera kýrnar, eður leita á náðir annarra; þótti sá vel hafa veitt, sem komist gat yfir klyfjar af kúgjæfu heyi fyrir spesíu, og kýrverðið, sem eftir þrjár vikur eða mánuð átti í vændum að verða 12 eða 16 spesíur, var þá orðið þetta 3 og 4; líka var dæmi til, að gefin væri kú með kú, þó ekki væri eftir meir en mánuður af gjafartímanum; enn ekki var kallað áhorfsmál, að beita kúnum út á sinuna, jafn-ótt og jörðina leysti undan klakanum, hvenær sem gott var veður. Varla mun að heldur nein kú hafa fallið eða verið skorin um alla sýsluna, og mjög fátt af öðrum fénaði; er það til marks um, hvað vel menn hafa orðið við þörfinni. Skaftafellssýslu sér í lagi Mýrdalssveitinni, þar farga varð fjölda kúa á útmánuðum — reiddi miklu verr af, en Rangárvallasýslu og Árnessýslu; þó varð það til lífs í Skaftafellssýslunni, að þar voru slíkir heyjamenn á sumum stöðum, sem færir voru um að taka heilar sveitir á garð sinn, þegar á fór að herða. Þetta hið síðasta sumar (1836) var í mörgu áþekkt hinu fyrra sumrinu: grasvöxtur sumstaðar dálitlu betri og aftur annarstaðar jafn-lakari, vegna vorkuldanna, sem ennþá gengu. Nýtingin varð ekki heldur sem ákjósanlegust, og þó miklu betri enn grasvöxturinn; þeir, sem snemma fóru að slá á Suðurlandi, voru búnir að ná helmingi af töðum sínum, þegar gjörði rosa í 3 vikur (20 daga framan af ágústmánuði), svo varla náðist baggi í garð. Þá komu aftur, hálfsmánaðar tíma (þangað til 4. dag september) bestu þerrar, og þá aftur feikna rosi síðasta hluta sláttarins — svo hann varð heldur endasleppur; þó að það, er úti var, næðist um síðir, áður en fyrstu frostin komu um réttirnar. Það er ein af hinum miklu óvenjum, er gangast við um Suðurland, sér í lagi í heyskaparsveitunum góðu, að svo lengi er dregið að fara að slá; kemur það af fastheldni við gamla vanann og hlífð manna við sjálfa sig — svo að erfiðistíminn verði ekki of langur; og af því, að þeim, sem vanir eru góðum slægjum, þykir ekki mega leggja sig niður við jörðina, er ekki verður slegið á marga hesta á dag. [...]

Nyrðra féll heyskapurinn miklu báglegar, en fyrir sunnan, og var hann þar með örðugasta móti: því bæði fékk grasvöxturinn hvað eftir annað hnekki af íhlaupum, og þó varð nýtingin enn bágari. Meðan fyrri rosinn var fyrir sunnan (20 dagana framan af ágúst), voru þar að vísu heyþurrkar; enn tvö ofsaveður af suðri, sem gjörði meðan töður manna lágu á túnum, ollu þar víða miklum heyskaða, enda á því sem í garða var komið. Þó tók yfir kaflinn frá 20. degi ágúst til 3. dags september, meðan þurrkarnir voru aftur fyrir sunnan og norðankuldarnir. Þá gjörði tvö áfelli svo mikil (20. og 21. dag ágústmánaðar, og 3 fyrstu dagana af september), að tók fyrir heyskap, vegna bylja og fannfergju — allstaðar nokkra daga, en sumstaðar allt að því 3 vikur; varð þá snjórinn svo mikill, að sæti sumstaðar varla tók upp úr á jafnsléttunni; þá varð að taka kýr á gjöf, og sækja fé á afrétt, þar sem komist varð, svo það fennti ekki. Þegar leið fram í september, fór veðráttan heldur að skána, og voru þá leysingar, sem á vordag. Af öllu þessu varð heyskapur nyrðra með langaumasta móti, svo farga varð enn flestöllum lömbum. [...]

[17] Haustið var ekki heldur langt í þetta sinn. þegar um réttir hljóp í með frost, sem að sönnu linaði aftur undir veturnæturnar. Enn úr því leið af veturnóttum og allt fram til árslokanna, voru oftast nær fullkomin vetrarharðindi; var sjaldan auð jörð — eður hreint til haga, ýmist blotar og hlákur, hafviðri og útsynningar, eða fjúkburður og norðanfrost. Var því útipeningur mjög farinn að holdum, þar sem honum hafði ekki verið gefið, og, eins og vetrarfarið sjálft, harla ólíkur því, sem hina næstu vetur að undanförnu.

Sunnanpósturinn segir frá tíðarfari ársins fram til 20.ágúst: [1836 9. bls.129)

Af árferði Íslands síðan yfirstandandi ár byrjaði og til þess 20. ágúst, er það að segja, að svo miklu leyti sem frést hefur, að vetur lagðist fyrst að með þorra; sumstaðar fyrri. Jarðbönn urðu allvíðast meiri partinn úr því og fram yfir sumarmál. Veðráttan var stirð og stormasöm en ekki var frostið ákaflegt, aldrei yfir 16° (gráður) og mjög sjaldan svo mikið hér á Suðurlandi. Þó heyföng væru víða lítil, og ekki betri að gæðum heldur en að vöxtum, fór það svo, að fáir urðu fyrir fjármissi. Var það því að þakka að miklum peningi hafði verið lógað næstliðið haust, og nokkru þegar komið var langt fram á vetur; og líka því, að þeir sem voru byrgir frá fyrri árum hjálpuðu þeim sem komust á þrot, svo nú munu óvíða sjást heyfyrningar. Nokkrir komu og fram fénaði sínum með því að brúka korn og fisk og sitthvað annað til fóðurs. Austan úr Múlasýslu hefir og frést að fé og hestar hafi á einstaka stöðum verið fóðraðir á keti, svoleiðis, að hestum var gefið hrossaket og fé sauðaket til lífs. Í Vestur-Skaftafellssýslu og Suður-Múlasýslu skal einna mest hafa fallið af fé og hrossum og jafnvel nokkuð af kúm, auk þess fargað hafði verið. Í Múlasýslunum og eystri Skaftafellssýslu hafði og ekki komið sá þerrir sem annarstaðar varð að svo miklu gagni næstliðið haust í septembermánuði, en þar á mót var fyrri partur sumars eystra engan veginn vætusamur; flestir höfðu því náð töðum óskemmdum; en vetur lagðist þar að miklu fyrr en annarstaðar. Hvílíkur grasbrestur verið hafi í Múlasýslu í fyrrasumar má af því ráða, að bóndi nokkur í þeim svo kallaða Borgarfirði greip til þess þá lömb skyldu takast undan ám (2. júlí hér um bil) að hann skar þau öll, og þótti hafa vel úr ráðið, þegar það reyndist svo, að lömb sem rekin voru til fjalls, urðu lakari til frálags en fráfærulömb.

Vorveðrátta hefur verið stirð og köld allvíðast, þó syðra betri en í fyrrasumar; grasvöxtur helst á túnum í lakara meðallagi; í Árnes- og Rangárvallasýslu góður á útjörð. Fyrir norðan land var vorveðráttan enn bágari en syðra; þar skal og fjarskalegur grasbrestur, og því meiri sem austar dregur. Úr Eyjafirði er skrifað að um mitt sumar hafi í 14 daga hitinn um miðdegið aldrei orðið yfir 5° (gráður), og 25. júní hafi af engu túni í Siglufirði snjór verið algjörlega þiðnaður. Hér syðra gekk stöðugt þurrviðri allan júlí, en strax með ágústmánaðarbyrjun brá til vætu sem viðhaldist hefir til þessa þó rigningar hafi sjaldan verið ákaflegar. Á næstliðnum vetri aflaðist fyrir ofan fjall og austur með landi í betra lagi, urðu hlutir víða 4 og 5 hundruð bestir. Við Faxafjörð var afli í minna lagi, en einkum brást netaútvegurinn í Njarðvíkum og það svo að fáir fengu hundraðs hlut. Það var annars nýlunda að sá fiskur sem næst gekk landi í Hafnarfirði var allur feitari heldur enn sá sem aflaðist dýpra, sömuleiðis er það merkilegt, að nú í vor gekk fiskur innst í Hvalfjörð móts við Þyril, og fyrir hann var róið frá bæjum í Brynjudal, til töluverðs hagræðis. Sá fiskur hafði og verið mikið feitur. Hákarlaveiðar í Vestmannaeyjum á þiljuskipum hafa vel lukkast; nokkurnveginn í Þorlákshöfn og í Faxafirðinum [...]

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Eftir nýár hláka og enn þá auð jörð. 13. jan. skipti um með snjófalli og hörkum. Með þorra komu hross á gjöf. Þó brutu þau niður á hálsum og heiðum, þar var hrís undir á móti vestri fram yfir miðþorra. Alla góu jarðlaust að öllu, en veður stillt og frosthægt. Um jafndægur kom snöp í fjöllum mót sólu, svo hross og sauðir lifðu af eftir það, sem gefið var út, hjá þeim, er heyþrota urðu, en almennt stóð fé og hross við fram í maíbyrjun.

Bjarni Thorarensen og Ingibjörg Jónsdóttir segja lauslega af tíð í bréfum. Frederiksgave er amtmannshúsið á Möðruvöllum í Hörgárdal:

Frederiksgave 14-2 1836 (Bjarni Thorarensen): ... meðalvetur til nýárs en harður síðan, en komi bati fyrir sumarmál skal Norðurland mitt standa. (s230)

Bessastöðum 3-3 1836 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s163) Vetur var góður (til) jóla, en nú um hríð hefur verið harður kafli. En sumrið sem leið [1835] var makalaust erfitt og þar af kemur, að allur þriðji partur fénaðar er felldur ...

Brandsstaðaannáll [vor]:

Um páska, 4. apríl, kom upp jörð, en byrgðist brátt aftur. 12.-13. apríl rak hríðarkast mikið hafís að Norðurlandi, en norðaustanlands kom hann um miðjan vetur. Sumarmálavikuna var stöðug fannkomuhríð um 6 daga, svo ófært varð bæja á milli með hesta. Þreytti það hagleysa að bera það milli bæja, hvar sem fáanlegt var. Nokkrir skáru af heyjum á góu. Sást nú best ofneysla og hirðuleysi að safna heyjum á góðu árunum, en frumbýlingum var ómögulegt að komast vel af. Allur fjöldi manna hafði fellt fé sitt um krossmessu, en góður bati kom 1. maí. ... 24. maí kom gróður og um það bil fór ísinn.

Jón Jónsson á Möðrufelli segir tíð hafa verið sæmilega í maí. Í lok maí segir Sveinn Pálsson frá mistri - spyr hvort það stafi af eldsumbrotum eða hafís. Hiti fór niður í frostmark að morgni 21.ágúst í Vík í Mýrdal, en þann dag snjóaði hvað mest fyrir norðan. 

12. júlí 1836 Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum í Húnaþingi ritar 12.júlí: [Andvari 98/1973 bls. 192): 

Bágt var ástand vors fátæka föðurlands næstliðið ár. Þó er enn nú bágara sem von er, þar sömu harðindi framhaldast, veturinn frá nýári mikið snjóasamur og vorið hart til bænadags. Þá varð maí mestallur góður, en frá því hafa oftast gengið sífelldir norðankuldastormar með næturfrostum á milli, svo mikill hnekkir er kominn á grasvöxtinn hér norðanlands, og þær fáu skepnur, sem veturinn og vorið afslórðu, magrar og berar, gjöra nú sáralítið gagn, svo áhorfist til mikils neyðarástands, einkum ef menn verða nú að farga fleiru í haust af þeim eftirtórandi fáu skepnum, er menn annars ekki hefðu neyðst til að skera sér til bjargar. En ekki er guð lengi úr að bæta, ef honum þóknast. Verði hans vilji!

Brandsstaðaannáll [sumar]:

1. júní rigning og hret mikið, eftir það gott, en 10. júní skipti um til kulda, er héldust mánuðinn út. Þó oft væri hlýtt á daginn, var frost á hverri nótt. Með júlí rekin lömb á fjöll. Mikið dró nú úr lestarferðum suður fyrir kornnægtir. Þó voru vermenn margir enn syðra. Færð slæm og hagleysi gjörði lestarferð örðuga. Brutust einir 4 menn úr Blöndudal suður með 70 hesta. Kauptíð varð í miðjum júlí, en fremra byrjaði sláttur 24.-26. júlí, en fyrri til lágsveita. Varð grasleysi mesta, líkt næst afliðnu sumri, en þó betra á góðum túnum og sinuslægjum. Með ágúst brá til votviðra og hröktust töður sumstaðar. 10. ágúst varð skaðaveður af suðri. 20. kom landnyrðingsveður mikið og stórhret á eftir. Áttu þá margir 1-2 vikna hey úti, þó stöku menn hrifi það inn rétt áður. 27. ágúst kom annað fannkyngjuhretið og lá snjór á hálsum og fjallslægjum 3 vikur. Í lágsveitum var kúm gefið 4 daga. Flóði þá yfir jörð eins og í vorleysingum. Mátti telja viku frá heyskap fyrir fönn og votabandssull. 3. sept. kom sá einasti þerridagur, en síðan kuldaflæsa. 7. sept. skipti um til sunnanáttar. Kom þá fyrst jökulleysing, því allt sumarið var Blanda blá sem á vetrardag og varð fyrir göngur (19. sept) nýting góð. Heyskapur varð lítill og slæmur. Var grasleysi og hretatíðin orsök til þess. Stóðu víða tóftir tómar og lítið sást upp úr veggjum, því fáir áttu nú gömul hey að mun.

Veðurlags er getið í nokkrum bréfum Bjarna Thorarensen:

Ketilsstöðum á Völlum 6-7 1836 (Bjarni Thorarensen): Kuldi hinn versti oftast síðan 20ta júní og all til þess 3ja þ.m. Síðan hefir veðrið verið bærilegt. (s131)

Frederiksgave 28-7 1836 (Bjarni Thorarensen): Grasvöxtur er bágur þó ei fullt eins slæmur sem í fyrra. (s233)

Frederiksgave 31-8 1836 (Bjarni Thorarensen): Grasvöxtur hefir í Skagaf. og Húnav. s. ei verið betri en í fyrra – nýting nokkru betri – en þann 20ta þ.m. kom – vetrarveður, og ei er norðanáttin sem hér er með snjó og öllu illu burtu enn. (s236)

Frederiksgave 10-9 1836 (Bjarni Thorarensen): Grasvöxtur hér skárri nokkuð en í fyrra, en í Skagaf. og Húnavatnss. verri. Nýting aftur betri. Vetrarveður og ófærð af snjó í byggð í Skagafirði þann 19da og 20, 21ta ágúst og fyrstnefnda daginn reið eg vestur að Hólum yfir Hjaltadalsheiði í möldösku ... (s132)

Brandsstaðaannáll [haust]:

Eftir 20. sept. þiðnaði ei torf; héldust frostin stöðugt. 25. sept. var margt fé rekið á ís yfir Blöndu úr fyrri réttum og riðin vötn á ís í seinni göngum. Skaflajárnuðu þá margir. Haustið var kalt og þurrt. 8. nóv. lagði fönn á útsveitir og fjalllendi, síðan oft harðviðri með sterkum frostum, en jarðbert til lágsveita og framdala til nýárs. ... Hafís kom á einmánuði og lá lengi.

Bjarni á Möðruvöllum og Ingibjörg á Bessastöðum rita bréf í október:

Frederiksgave 2-10 1836 (Bjarni Thorarensen): ... er ástand manna nú verra en í fyrra um þetta leyti og það gjörðu dæmalausu snjóarnir í Skagaf. og Húnavatns sýslu og á öllum útkjálkum um ágúst mánaðarlokin ... Heyskapur gekk allvel syðra í sumar var, eftir því sem mér er sagt, svo þeir hafa þar nóg fyrir það fáa sem þeir eiga eftir ... Þeim bjargar sjórinn á útmánuðum þegar harðast er í búi – en hér er ekki þeirri hjálp að heilsa ... (s237)

Bessastöðum 15-10 1836 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s170) Hér sunnanlands hefur heyskapur lukkast nokkuð betur en í fyrra. Þó grasbrestur væri mikill, nýttist þó allvel. Þar á móti fyrir norðan var eitthvert það bágasta sumar bæði með gras og nýting, og á útkjálkum Norðanlands, svo sem í Fljótum og Ólafsfirði, dæmafá harðindi. Til dæmis í ágúst varð að gefa kúm inni í marga daga vegna snjógangs og frosta. Ekki varð tekið á slætti í 3 vikur ...

Sunnanpósturinn lýsir tíð frá 20.ágúst [1836 10, bls.145]:

Sumarið er nú liðið, og ekki annað eftir enn minnast þess, viðlíka og hvers liðins tíma. Það var sunnalands affara betra heldur en næst undangengið sumar; því þó grasvöxtur væri ei öllu betri í ár en í fyrra, svo varð nýtingin miklu skárri; þó er þess getið að víða hafi svo hitnað í heyjum að orðið hafi að leysa þau upp, og heitir það töluverður bagi. Vestra trúi ég hafi viðrað líkt og syðra, en grasbresturinn skal hafa verið þeim mun meiri, sem veðrátta er þar ætíð kaldari en sunnanlands. Hvergi hefur þetta sumar verið eins ósumarlegt og nyrðra. Því nálægt 20. ágúst, áður en hundadagar voru liðnir og aftur seinast í sama mánuði, gerði þar fjúkhríð, svo í byggð snjóaði, og það svo mjög, að allvíða varð að gefa kúm inni í marga daga. Í Laxárdal og Fljótum er sagt kýr hafi sumstaðar staðið inni í 3 vikur, var þá víða ei annað að gefa peningi heldur en hey, er úti lá undir snjóunum, og var það uppgrafið úr fönn til þessarar brúkunar. Á sumum stöðum varð haglaust fyrir fé: en snjóþyngslin voru svo mikil, að erfitt var að koma fé á haga. Eins og grasbresturinn var mikill norðanlands, svo var ei heldur nýtingin góð og þessi snjókoma gerði töluverða hindrun í heyskap allvíða, svo ráð er fyrir því að gera að nú fækki mjög fénaður norðanlands. Það gerði og sitt til að gera heyföng lítil nyrðra, að ofsaveður af suðri kom þar áður en tún voru alhirt, sem víða feykti burt heyi. Sú frétt hefur komið hingað suður af 2 kaupskip hafi í sumar að norðan komið til Kaupmannahafnar eftir höfrum og byggi, svo þessi vara væri þar til, ef fólk vildi eða gæti keypt hana til fóðurs handa bjargræðisskepnum, og er það sannarlega hrósverð framsýni og framtakssemi hverjum sem er að þakka. Veðurátta hefir verið allgóð síðan á sumarið leið; en í september var hún þó svo köld, að fyrir sólaruppkomu var frostið stundum 5° á Suðurlandi við sjó; og má þá ætla að það hafi verið æðimikið bæði upp til fjalla og eins á útkjálkum landsins. Einn dag í októbermánuði varð frostið 6°. Afli hefir á þessu sumri gefist lítill sunnanlands; nyrðra sumstaðar er mælt hafi vel fiskast. Slysfarir hafa þær orðið á þessu sumri, að kaupskip það sem fyrst kom hingað til Suðurlands á þessu sumri, rak sig á jaka á leið sinni héðan til vesturlandsins, svo það brotnaði. Skipsmenn björguðu sér á bátum til lands, en seinna rak skipið upp með því sem í því var. og var selt með farminum. Fiskiskúta týndist algjörlega í vor á Vesturlandi, og 2 íslensk fiskiskip. Í fyrra sumar skal Agent Scheving í Flatey hafa misst jaktskip á siglingu hingað til landsins frá Kaupmannahöfn; þá týndist og fiskiskúta í Vestmannaeyjum. Á siglingu hingað í vor brotnaði mastur í jaktskipi tilheyrandi kaupmanni G. Simonsen í Vestmannaeyjum og fór skipið af kjöl, samt komst þetta skip á kjöl aftur, og gat náð höfn í Vestmannaeyjum; mælt er að skipsmenn hafi tekið bugspjótið og brúkað fyrir mastur. [...] 

Sunnanpósturinn (4.tölublað 1838, s.61) segir af snjóflóði í desember 1836:

Árið 1836, nóttina milli 17. og 18. desember kom snjóskriða á bæinn Norðureyri í Súgandafirði í vestari parti Ísafjarðarsýslu, sem braut allan bæinn niður; urðu þar 10 manns undir, hvar af náðust lifandi daginn eftir 2 rosknir kvenmenn og tvö börn, en 6 voru dánir, bændurnir báðir, önnur húsfreyjan, vinnukona og tvö börn. Sama snjóskriða tók með sér um leið sexæring sem stóð við sjóinn með öllu tilheyrandi og eyðilagði gjörsamlega; hún hljóp yfir fjörðinn og á land hinumegin (því ís hefur legið á firðinum); út á firðinum fundust stög úr baðstofunni með áhangandi fötum. Tvær kýr voru í baðstofunni og náðist önnur þeirra tórandi. Mjög voru þær manneskjur sem náðust með lífi þjakaðar bæði útvortis og innvortis, líkami þeirra marinn og þrútinn. (Þetta eftir bréfi séra Eyjólfs Kolbeinssonar, dagsett 31.desember). 

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1836. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls. Fáeinar tölur má finna í viðhengi. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hríðarveðrið í febrúar 1940

Seint á þorranum veturinn 1940 gerði óvenjulegt hríðarveður. Náði það til margra landshluta en varð sérstaklega illvígt á Suðurlandi þar sem tveir menn urðu úti, annar í Biskupstungum, en hinn á Landi. Snjódýpt hefur aldrei mælst meiri á Hæli í Gnúpverjahreppi heldur en þessa daga. Hér verður þetta veður rifjað upp og rýnt lítillega í bakgrunn þess.

Tíð hafði verið góð veturinn 1939 til 1940. Janúarmánuður var alauður í Reykjavík, slíkt hefur aðeins gerst þrisvar á 101 ári [1929, 1940 og 2010]. Hagstæð veðrátta hélt áfram fram í miðjan febrúar en þá urðu umskipti. Tímaritið Veðráttan segir svo frá í almennri lýsingu daganna 16. til 28. febrúar:

„Hæð yfir Grænlandi, en lægðir fyrir sunnan land og austan. Austan og norðaustanátt með frostum og fannkomum. Dagana 20. til 23. var austan og norðaustan stormur um land allt, stórhríð um allt Norður- og Austurland og sunnan lands einnig 2 fyrstu dagana, en síðan gerði þar þíðviðri á lágendi.“

w-blogg-um_1940-02-20-i

Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), meðalþykkt (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir) í febrúar 1940 (tillaga era20c-greiningar evrópureiknimiðstöðvarinnar). Vikin í janúar voru ekki ósvipuð, mjög hlýtt vestan Grænlands en kalt austur í Skandinavíu. Þetta er reyndar svipað mynstur og við höfum búið við að undanförnu (janúar 2021). 

Norðan- og norðaustanátt er að jafnaði þurr á Suðurlandi, en stöku sinnum bregður mjög út af. Ritstjóri hungurdiska ætlar að þessu sinni að vægja lesendum við fræðilegu þusi um það sem veðurglöggir menn fyrri tíðar nefndu margir hverjir „hornriða“ - Sveinn Pálson náttúrufræðingur og læknir skilgreindi hann svo: „Það er, að skýin dregur upp frá vestri, og þó blæs á austan eða norðaustan“. Hornriði hefur á sér illt orð um landið sunnan- og vestanvert. Það að ský dragi upp frá vestri þýðir auðvitað að þar uppi blæs vestanátt - andstætt því sem er niðri við jörð. Úrkoma sem úr skýjunum fellur kemur því í raun úr suðvestri, úrkomuskýin hafa alls ekki séð hálendið - þau eru ekki komin að því. 

Þetta er ekki beinlínis óalgengt veðurlag - það hefur nokkrum sinnum komið við sögu í pistlum hungurdiska og nefnist á erlendum tungum „reverse shear“ - hrá þýðing er „öfugsniði“. Meira að segja er talað um „öfugsniðalægðir“, „reverse shear low“. Þær eru oftast líkar venjulegum lægðum að því leyti að í þeim eru gjarnan bæði hlý og köld skil - eða samskil - en hreyfing þeirra er með öðrum hætti heldur en venjulegra lægða. 

Í allmörgum tilvikum hafa lægðakerfi sem þessi valdið miklum hríðarbyljum af norðaustri eða austri á Suður- og Vesturlandi, t.d. bylnum mikla í fyrstu viku marsmánaðar 2013 og skírdagsbylnum 1996 sem sumir muna e.t.v. eftir. 

Það veður sem við rifjum upp hér fellur í þennan flokk. Ritstjórinn hefur tínt saman nokkrar blaðafréttir og komið fyrir í viðhenginu (pdf-skrá). Hér að neðan er mikið stytt útgáfa. Fréttunum ber ekki alltaf saman í smáatriðum. 

Mánudagur 19.febrúar 1940:

Alþýðublaðið: Snjórinn kominn  Eftir hinar miklu stillur og góðviðri undanfarandi vikur, fór að snjóa á laugardagskvöldið [17.febrúar] og er nú snjódýpt hér um 10 cm. Veðrið er þannig úti um landið: Norðvestanátt á Vestur- og Norðurlandi með 4—6 stiga frosti. Sums staðar hefir snjóað töluvert, en sums staðar ekkert. Á suður- og austurströndinni er sunnanátt, 3—5 stiga hiti og rigning. Lína þíðviðristakmarkanna er frá Eyrarbakka til Vopnafjarðar. Viða hefir snjóað töluvert, og er snjódýpt allvíða yfir 15 cm. Sunnanlands er snjódýptin 10—20 cm. Útlit er á, að norðanátt haldist vestan- og norðanlands. Loks er þá kominn snjórinn, sem skíðamenn hafa beðið eftir í allan vetur.

Þriðjudagur 20.febrúar:

Morgunblaðið: Geysimikinn snjó hefir.hlaðið niður hjer í bænum og nágrenni undanfarna daga og Veðurstofan spáir áframhaldandi snjókomu í dag og kaldara veðri. Umferð hefir teppst vegna snjóa á Hellisheiði, en fært var í gær suður með sjó og í Mosfellssveit og Kjalarness. 

Snjóþyngsli á Akureyri: Frjettaritari vor á Akureyri símar, að óvenjumiklum snjó hafi kyngt niður þar um helgina og í gær. Mikil ófærð er orðin á götum á Akureyri. Rafstraumur féll niður frá Laxárstöðinni nýju til Akureyrar á sunnudagskvöld vegna krapastíflu og var settur straumur á bæjarkerfið til ljósa frá gömlu rafstöðinni í Glerárgili. Frá Ísafirði barst einnig frjett um mikla snjókomu, en þar hefir verið blíðuveður síðan um nýár.

Miðvikudagur 21.febrúar:

Alþýðublaðið: Fárviðri með geysilegri snjókomu um vestanvert Suðurland. Snjókoman sumstaðar meiri en í marga undanfarna áratugi. Ekki fært milli húsa i Vestmannaeyjum, Sandgerði og á Eyrarbakka:  Fárviðri hefir gengið yfir Reykjanesskagann, Vestmannaeyjar og Árnessýslu undanfarna þrjá sólarhringa. Í Vestmannaeyjum var í nótt fárviðri eða um 12 vindstig og snjókoma afarmikil. Á Eyrarbakka og Stokkseyri og upp um Árnessýslu hefir verið aftakaveður og snjókoma svo mikil, að menn muna ekki annað eins á síðustu áratugum. Hefir snjókoman verið svo mikil, að skaflar eru mannháir á götum og nema víða við húsaþök. Ófært var milli húsa á Eyrarbakka í morgun. Sama veður hefir verið í Sandgerði. Þar nema skaflar einnig við húsaþök og í morgun var engum manni fært húsa í milli. Sá landssímastöðin í Sandgerði sér til dæmi alls ekki fært að senda eftir manni, sem átti heima skammt frá. Líkt veður var í Grindavík og Keflavík. Enn hefir ekki frést um að ofviðrið hafi valdið verulegu tjóni á húsum og mannvirkjum. Frost er hins vegar ekki mikið, 1—5 stig á Reykjanesskaganum og í Árnessýslu. Um Norðurland er skafhríð og 6—7 stiga frost.

Fimmtudagur 22.febrúar:

Morgunblaðið: Allir vegir ófærir úr bænum í gærmorgun: Allar bílferðir úr bænum stöðvuðust í gærmorgun vegna þess að snjórinn hafði fokið svo í skafla á vegum, að ófært var bilum. 

Þjóðviljinn: Ofviðri með feikna snjókomu hefur gengið um allt Suðvesturland undanfarna sólarhringa. Hefur hlaðið niður feikna miklum snjó og var svo komið í gær, að hvergi varð komist út úr bænum á bíl nema inn að Elliðaám, og ófært var milli verstöðvanna á Suðurnesjum. Mestur varð veðurofsinn í Vestmannaeyjum. Þar varð í fyrri nótt og gær fárviðri (um 12 vindstig). Síðdegis í gær, var veðrinu farið að slota, var þó hvasst um allt land 8—10 vindstig. Var þá komin þíða sumstaðar á Suðvesturlandi , rigning í Vestmannaeyjum, á Reykjanesi og uppi í Borgarfirði Slysavarnafélagið hefur látið út varpa tilkynningum til báta og skipa, og beðið þau um að líta eftir mb. Kristjáni frá Reykjavík, sem gerður er út frá Sandgerði, og ennfremur mb. Sæfara frá Stykkishólmi. „Kristján“ er 15 smálestir að stærð. Hann fór í róður aðfaranótt mánudags, en kom ekki að landi á venjulegum tíma. Slysavarnafélagið hófst þegar handa um leit að bátnum. „Sæbjörg" hóf leit á mánudagskvöld, og hefur leitað síðan. Skyggni var afarslæmt á miðunum á þriðjudaginn og í gær vegna dimmviðris. „Sæfari" fór einnig í róður á aðfaranótt mánudags. Var óttast um hann er veður spilltist og hófu bátar frá Stykkishólmi leit að honum á þriðjudag, og fann annar þeirra hann við Bjarneyjar. Báturinn hafði leitað þar skjóls. Forstjóri mjólkursamsölunnar skýrði Þjóðviljanum svo frá í gær að nokkur skortur hefði verið á mjólk undanfarna daga, en mjólkursending væri að koma frá Borgarnesi, og í nótt mundi nást í mjólk úr Kjós og Mosfellssveit. Þyrfti því varla að kvíða mjólkurleysi úr þessu. Unnið var að því í allan gærdag að moka Hafnarfjarðarveginn og aðra vegi út frá bænum, og var Hafnarfjarðarvegurinn orðinn slarkfær í gærkvöldi.

Föstudagur 23. febrúar:

Morgunblaðið: Samgöngur eru að komast i eðlilegt horf. 

Laugardagur 24.febrúar:

Tíminn: Tveir menn urðu úti á Suðurlandi í hríð þeirri, er geisaði víða um land í fyrri hluta vikunnar. Norðmaðurinn Olaf Sanden, sem að undanförnu hefir verið garðyrkjumaður að Syðri-Reykjum í Biskupstungum, varð úti á mánudag [19.] á leið milli Efstadals í Laugardal og Syðri-Reykja. Sú vegalengd er þó aðeins um 3 kílómetrar, en yfir Brúará að fara. Veður var vont og færð þung. Mannsins hefir mikið verið leitað, en sú leit hefir enn eigi borið árangur. Olav Sanden var tvítugur að aldri, mágur Stefáns Þorsteinssonar kennara við garðyrkjuskólann á Reykjum. Á Landi í Rangárvallasýslu varð fjármaður, Stefán Jónsson frá Galtalæk, úti. Fór hann að heiman til gegninga og ætlaði í beitarhús, er standa alllangt frá bænum. Er leiðin á beitarhúsin nær 3 kílómetrar. Lík Stefáns er fundið. Hann var maður á sextugsaldri. Veður var mjög vont, er þessi atburður gerðist, hríðarbylur og sandrok. Hefir svo verið á þessum slóðum lengst af þessa viku. Á sumum bæjum hafa gegningamenn ekki hætt sér til fjárhúsa, þá daga, er veður var harðast, en beitarhús standa víða í uppsveitum austan fjalls alllangt frá bæjum. Á einum stað lét ungur maður fyrirberast í fjárhúsi í tvo sólarhringa, þar eð hann treystist eigi að ná heim sökum veðurofsans. Sums staðar mun hafa skeflt yfir fé, en austan fjalls er víða tíðkanlegt, að beitarfé liggi við opið.

Svo illa vill til að við hernám Veðurstofunnar í maí sama ár glötuðust veðurkort fyrstu mánaða þess. Erlend útgefin veðurkort eru sömuleiðis nokkuð ófullkomin vegna stríðsins. Veðrið hefur verið endurgreint á síðustu árum, en nokkuð vantar upp á að greiningarnar nái snerpu þess. Af þeim má þó vel sjá eðlið. Kortið hér að neðan er fengið úr evrópsku endurgreiningunni (sem er reyndar oftast síðri á þessum árum heldur en sú bandaríska) og myndin sótt á vef wetterzentrale.de. 

w-blogg-um_1940-02-20-a 

Hér sýna hvítu heildregnu línurnar sjávarmálsþrýsting, en litir hæð 500 hPa-flatarins (ekki þykktina). Kortið gildir kl.6 að morgni 20.febrúar 1940. Þá og kvöldið áður var ákafi snjókomunnar sunnanlands hvað mestur. Vindur var af norðaustri eða austnorðaustri á landinu, en eins og sjá má af legu 500 hPa-flatarins var vindur þar uppi af suðvestri og vestri - alveg andstæður því sem var neðar. Hæð er við Austur-Grænland (eða yfir Grænlandi), en lægð suður í hafi. Ef við hefðum gervihnattamynd mætti vafalítið sjá sérstaka lægðamyndun skammt suðvestan við land - en endurgreiningin er svo gróf að hún nær henni ekki. Við skulum líka - til gamans taka eftir kuldapollinum Síberíu-Blesa við norðausturjaðar kortsins. Nánari greining á aðstæðum sýnir að dagana á undan hafði mjög kalt loft borist úr Íshafinu, suður með austurströnd Grænlands í átt til Íslands. Þykktin (sem mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs féll úr 5310 metrum þann 15. niður í 5070 metra þann 17. - eða um 240 metra, það kólnaði um 12 stig. Þetta gerðist átakalítið, hríðarkast gerði þó nyrðra. Þessi kuldaframsókn dró veðrahvörfin niður og bjó til ákafa vestanátt yfir Íslandi, en jafnframt leitaði hlýtt loft til norðurs fyrir sunnan land og vindur jókst hér á landi. 

Mikill munur var á hita milli suðaustanáttarinnar undan Suðurlandi og norðaustanáttarinnar. Um tíma lágu skilin um Rangárvelli - og virðist hlýja loftið hafa ýmist sótt á eða hörfað.Síðdegis daginn áður, þann 19. var hitafar eins og gróflega má sjá á myndinni hér að neðan.

w-blogg-um_1940-02-20-b

Eins og sjá má var 3 stiga hiti á Sámsstöðum, en fimm stiga frost uppi í Hreppum. Það snjóaði nánast um land allt síðdegis þann 19. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum voru suðaustan fjögur vindstig og mikil rigning. Morguninn eftir hafði kalda loftið sótt heldur á og lægðardragið suðvestan við land var orðið skarpara - þá hafði vindur á Stórhöfða snúist í austur og aukist í 10 vindstig, sömuleiðis snjóaði á Suðausturlandi - en ekki mjög mikið. Snjókoma hafði þá mjög aukist á Austfjörðum, en við Breiðafjörð og á Vestfjörðum var að stytta upp að mestu. 

Eftir því sem lægðin fyrir sunnan gróf betur um sig hvessti enn. Fór vindur í 12 vindstig á Stórhöfða að morgni þess 21. Úrkomubakkinn fór hins vegar að slitna meira í sundur og smám saman fór að hlýna sunnanlands og 22. var hiti kominn upp fyrir frostmark alls staðar á láglendi um landið sunnanvert. Vindur í háloftum hafði snúist í suðaustur - og öfugsniðinn hafði runnið sitt skeið. 

w_1940_02-sponn

Hér má sjá mun á hæsta og lægsta þrýstingi hvers athugunartíma á landinu dagana 14. til 25.febrúar 1940. Reyndar eru ekki allar þrýstiathuganir inni í reikningunum þannig að spönnin gæti raunverulega hafa verið lítillega meiri. Náið samband er á milli þrýstispannar og vindhraða. Við sjáum að ekki fylgdi mjög mikill vindur yfirtöku kalda loftsins þann 15. til 17. Spönnin varð þó um 10 hPa þegar mest var. Að kvöldi 18.lægði, en síðan fór hlýja loftið að sækja að úr suðri - en mætti umtalsverðri mótstöðu. Vindur fór vaxandi allan þann 19. hélt áfram að aukast allan daginn þann 20. og náði loks hámarki að morgni 21., þegar fárviðri var á Stórhöfða. Þann 22. var þykktin aftur komin upp í 5300 metra og kalda loftinu hefði verið bægt frá að mestu - en þó var vindbelgingur áfram. 

Ekki var auðvelt að mæla snjódýpt, lausasnjó dró í mikla skafla sem síðan börðust saman. Ekki ósvipað ástand og í bylnum 2013 þegar bíll ritstjóra hungurdiska var nánast á kafi á bílastæði hans, en bílar í fárra metra fjarlægð stóðu á auðu. Mesta snjódýptin mældist á Hæl í Hreppum þann 20., 90 cm, það mesta sem vitað er um þar. Daginn eftir, þann 21. var snjódýptin þar 50 cm, þó snjóað hefði í einn sólarhring til viðbótar - lausasnjór hafði lamist í skafla og fokið í lautir. Þess má geta að Gísli Sigurðsson sem lengi var ritstjóri Lesbókar Morgunblaðsins benti mér á þetta merkilega veður sem mikið var rætt á hans heimaslóð í Biskupstungum. 

Eins og fram kom í blaðafréttunum snjóaði mikið víða um land. Helst að innsveitir á vestanverðu Norðurlandi slyppu sem og flestar sveitir kringum Breiðafjörð og á sunnanverðum Vestfjörðum. Nær ekkert snjóaði t.d. á Lambavatni á Rauðasandi og sömuleiðis var nær alauð jörð í Stykkishólmi. Minna snjóaði í Borgarfirði heldur en fyrir austan fjall og í Reykjavík. Austanlands var aðalsnjókoman ívið síðar en á Suðvesturlandi. Mikið snjóaði á Héraði þann 21. til 23. og úrkoma á Seyðisfirði mældist hátt í 200 mm á 3 dögum (21. til 23.), ekki vitum við um snjódýpt þar. Í Vík í Mýrdal féll mikill hluti úrkomunnar sem rigning - þar sveiflaðist milli rigningar og snjókomu eftir því hvort hafði betur kalda eða hlýja loftið. Svipað var á Sámsstöðum - meirihluti úrkomunnar þar var þó snjór.  

Í veðrum af þessu tagi sleppur Suðurland stundum við hríð, en Borgarfjörður og Breiðafjörður eru undirlagðir - þó þar sé mikil úrkoma sjaldséð í norðaustanátt. Svipað má segja um vestanvert Norðurland. Á norðanverðum Vestfjörðum snjóar hins vegar líka í norðaustanátt - en sum hríðarveður þar eru þó öfugsniðaættar. 

Um vægari öfugsniðaveður má t,d, lesa í pistlum hungurdiska 4.desember 20173. nóvember 2018, 22.janúar 2018, 12. febrúar 2015 og fleiri pistlum. Sömuleiðis í pistlasyrpu í byrjun mars 2013 - þar sem fjallað er um bylinn mikla þá dagana. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg170925b
  • w-blogg170925a
  • w-blogg130925-ak-a
  • w-blogg130925a
  • w-blogg130925b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.9.): 345
  • Sl. sólarhring: 345
  • Sl. viku: 1827
  • Frá upphafi: 2499157

Annað

  • Innlit í dag: 325
  • Innlit sl. viku: 1671
  • Gestir í dag: 306
  • IP-tölur í dag: 300

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband